<$BlogRSDUrl$>

30. apríl 2015

Velti því stundum fyrir mér hversu mikið myndi fjölga í bæjarfélaginu ef nægt leiguhúsnæði væri til staðar. Undanfarið hafa auglýsingar eftir húsnæði verið afskaplega áberandi og fólk er greinilega í mikilli örvæntingu að biðla til allra sem einverja þekkja um aðstoð. Því er ljóst að mikill fjöldi fólks sér Hveragerði sem góðan stað til búsetu.

Nú vil ég biðla til byggingaaðila og hvetja þá til dáða --- því enn eru lausar til úthlutunar lóðir undir skemmtileg parhús við Dalsbrún. Hús sem myndu smellpassa fyrir svo marga.

Síðan er auðvitað afar brýnt að Alþingi grípi til aðgerða og styðji við byggingu leiguhúsnæðis eins og gert er ráð fyrir í nýju frumvarpi Eyglóar Harðar. Því það er fullkomlega óásættanlegt að ungu fólki og reyndar fólki almennt sé haldið í húsnæðislegum helgreipum eins og nú er. Slíkt útspil gæti líka orðið lóð á vogarskál kjarasamninganna ef rétt væri á málum haldið.

29. apríl 2015

Davíð Samúelsson hefur verið ráðinn sem verktaki til bæjarins til að vinna að markaðs- og atvinnumálum. Verkefnið er til 18 mánaða og verður vonandi árangursríkt. Davíð þekkja margir sem fyrsta forstöðumann Upplýsingamiðstöðvarinnar hér í Hveragerði og sem framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðurlands. Hann er drífandi og hugmyndaríkur og er síðan gæddur þeim góða kosti að geta séð möguleika og nú er hann í vinnu við að finna þá hér í Hveragerði.

Átti fund með leikskólastjórum í morgun þar sem við fórum yfir biðlistann og vænta stöðu í haust. Í stuttu máli er hægt að segja að öll börn á biðlistanum munu fá tilboð um leikskólavistun í haust og eitthvað svigrúm verður til staðar svo fremi sem stökkbreytingar verði ekki á biðlistanum. Er það ánægjulegt.

Í dag var unnið að því að merkja Hamarshöllina svo nú mun maður vonandi ekki framar heyra niðrandi og furðuleg heiti á því ágæta mannvirki. Kannski allt í lagi að minna á það (svona í ljósi frétta af fljúgandi íþróttahúsi fyrir austan) að Hamarshöllin hefur staðið af sér öll stórviðri undanfarinna ára enda er gríðarlegt magn af steypu neðanjarðar sem heldur mannvirkinu á sínum stað. Það er traustvekjandi að vita af því.

Síðdegis fylgdum við sómamanninum, Axel Wolfram, síðasta spölinn. Axel var einn af þeim dugmiklu íbúum bæjarins sem með vinnusemi, hugmyndaauðgi og vinalega fasi setti mark sitt á bæjarfélagið. Verkstæðið hans hefur staðið við Austurmörkina í áratugi og við höfum verið stolt af því að jafn góður blikksmiður skuli hafa verið starfandi hér í bæ. Hann kveður alltof, alltof snemma. Fjölskyldunni sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

--------

Vinur minn hann Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, er afar hagmæltur og góður penni.
Hann birti eftirfarandi vísu á facebook í tilefni af fréttum um að heimiliskettir væru étandi lóur í húsagörðum landsmanna þessa dagana:

Ég sárlega vona að senn komi spóinn
með sólskin í dali og hlýindaskeið;
því lóan hún kom til að kveða burt snjóinn,
en kötturinn át hana og vorið um leið.

Mér finnst þetta ansi gott hjá honum :-)

28. apríl 2015

Það er mikið fjör og mikið um að vera þessa dagana.  Krafturinn í samfélaginu er áþreifanlegur og svo margt gott í bígerð.  

Eftir opnið hús Sjálfstæðismanna um síðustu helgi litum við Eyþór inn til Krisjáns Björns og Jóa Viðars. sem nú eru að leggja lokahönd á íbúðir sínar í 5 íbúða raðhúsi  neðst í Dalsbrúninni.  Þetta eru afskaplega skemmtilegar íbúðir hannaðar þannig að þær ættu að henta vel bæði sem fyrstu íbúðir en ekki síður fyrir þá sem eldri eru.  Byrjað er að flytja inn í íbúðir í annarri raðhúsalengju sem þarna er en hana byggja þeir Helgi og Sveinn Gíslasynir eða Bygg bræður.   Búið er að úthluta öllum raðhúsunum í Dalsbrún þannig að þarna munu á næstunni bætast við einar 26 íbúðir.  Það munar um minna.  

Í dag var ég á fundum í Reykjavík og hitti marga.  Allt afskaplega góðir fundir sem vonandi munu bera góðan árangur.  Hér finnst okkur lítið varið í að búa til væntingar um verkefni fyrr en þau eru komin vel á veg og því er rétt að bíða með allar tilkynningar þar til raunveruleikinn blasir við. 


27. apríl 2015

Hef átt betri daga - það er einhver pest að ergja mig þessa dagana.  Mætti nú samt í vinnuna en var ekki merkilegur gleðigjafi á vinnustaðnum í dag!

Kláraði þó m.a.  vinnu tengda veikindum og fjarvistum sem stjórnendur hafa rætt á sínum fundum undanfarið.  Hópur sem skipaður var hefur skilað af sér tillögum og þær verða nú skoðaðar af bæjarráði á næsta fundi ásamt samanburði á kostnaði og þjónustu sem ég setti upp í dag. 

Í lok dags kíkti ég við í Listasafninu þar sem lokið er nú sýningunni Ákalli og jafnframt sýningu Listvinafélags Hveragerðis þar sem gerð var grein fyrir útisýningu sem unnið er að því að koma upp í Listigarðinum á Fossflöt.  Myndin hér fyrir neðan sýnir hugmyndir félagsins. 


23. apríl 2015

Gleðilegt sumar kæru vinir og takk fyrir veturinn. Nú vonum við að sumarið verði yndislegt á landinu fagra :-)

Í dag var venju samkvæmt opið hús á Garðyrkjuskólanum að Reykjum. Þar var ótrúlega vel mætt af úrvalsfólki. Hér náði ég að fá mynd af mér með þessum eðal hópi. Forsetinn hafði á orði að sennilega hefði aldrei, í sögu lýðveldisins, bæði forseti og forsætisráðherra afhent viðurkenningar á sömu samkomunni. Þarna var mennta og menningarmálaráðherrann einnig mættur svo þetta var ótrúlega vel samsettur hópur.Forsetinn afhenti umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar sem í ár féllu í skaut Skógræktarfélagi Hveragerði sem í hartnær 70 ár hefur unnið að gróðursetningu og trjárækt í bæjarlandinu. Ávallt er félagið skipað góðu fólki en þeir sem komu að stofnun þess í upphafi voru til dæmis Kristmann Guðmdundsson, Gunnar Benediktsson og fleiri góðir frumbýlingar hér í Hveragerði.Afmæli hjá Hafrúnu og Vigdísi síðdegis í dag. Litlu frænkurnar eru nú orðnar 5 og 7 ára. Það veit ég vel þó ég hafi klúðrað kortinu til Vigdísar með eftirminnilegum hætti :-)

22. apríl 2015

Við Helga, skrifstofustjóri, fórum yfir rekstur bæjarfélagsins fyrstu 3 mánuðina í dag.  Vel flestir málaflokkar eru á pari og skýringar á þeim sem eru það ekki.   Við kláruðum ekki allt svo framhald verður á þessari vinnu á föstudaginn.  

Hitti Sigurð Halldórsson, framkvæmdastjóra Fengs, á góðum fundi í dag.  Fengur er spónaverksmiðja og endurvinnslufyrirtæki hér í Hveragerði.  Nú hafa þeir fest kaup á verksmiðju PM sem við hér fyrir austan þekkjum betur sem Plastmótun en hún var rekin á Læk í Ölfusi í upphafi og síðar í Gufunesi.  Til stendur að setja framleiðsluna upp hér sem skapa mun bæði meiri umsvif og fleiri störf hjá Feng.  Það er ánægjuleg þróun. 

Heimsótti bókasafnið og átti skemmtilegt spjall við Hlíf, Önnu Kristínu og Andrés sem eru hér á myndinni.  Þar er nú afar falleg sýning mynda úr barnabókum sem gefnar voru út á síðasta ári.  Hvet alla til að missa ekki af henni. 

Síðasta myndin er að strákunum mínum - tekin síðla kvölds þegar Bjarni Rúnar skrapp hingað örstutt í miðju lokahófi körfunnar sem haldið er í kvöld.  Þess vegna er hann svona fínn en Albert Ingi ekki :-)

Við Albert vorum svo ljónheppin að vera boðin í grill til Laufyejar og Ella.  Það er alltaf notalegt.  Á leiðinni heim komum við við í nýju ísbúðinni Gottís.  Góður ís og flott búð, vonandi að hún gangi sem allra best.  Það er afar jákvætt að nú skuli hafa opnað ísbúð í bæjarfélaginu.  Flestum fannst það vanta. 


21. apríl 2015

Átti viðtal í dag við áhugasaman athafnamann sem sér hér ýmis tækifæri. Það er gaman að fá svona heimsóknir og alltaf skemmtilegt að fara yfir sviðið og heyra um hugmyndir annarra.

Hitti kennsluráðgjafa Skólaþjónustu Árnesþings og fórum við yfir málefni frístundaskólans. Það er vilji bæjarstjórnar að hlúa sem best að öllu því sem snýr að börnum bæjarins en frístundaskólinn er mikilvægur hlekkur þar.
Í sumar á að taka lóðina við frístundaskólann í gegn og eru settar 5 mkr í það verkefni. Það verður mikill munur.

Við Eyþór, forseti bæjarstjórnar, áttum góðan fund með forsvarsmönnum Heilsustofnunar NLFÍ síðdegis. Þar var farið yfir ýmis mál er lúta að stofnuninni og framtíð hennar. Það er ómetanlegt að eiga í góðum samskiptum við þá sem eru í rekstri í bæjarfélaginu.

Fórum síðan beint á fund framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar sem haldinn var hér í Hveragerði, þar er nóg að gera enda málefnin mörg og stofnanirnar stórar.

20. apríl 2015

Mokaði mig í gegnum heilan helling af tölvupóstum í morgun og svaraði erindum og gekk frá málum eftir bæjarráðsfundi áður en fundur hófst í stjórn þjónusturáðs um málefni fatlaðs fólks á Selfossi. Þar erum við Ásta Stefánsdóttir og Ásgeir Magnússon í Vík að undirbúa vorfund í málaflokknum þar sem við munum fara yfir rekstur síðastliðins árs og kynna nýja samninga um þjónustuna.

Strax að loknum þeim fundi færðum við Ásta okkur um set og fórum á fund í stjórn Sorpstöðvar þar sem við enduðum á að skoða aðstæður á Kirkjuferjuhjáleigu en þar lokaði urðunarstaður okkar Sunnlendinga fyrir nokkru. Það var að mínu afar slæm ákvörðun fyrir Sunnlendinga sem nú eru án urðunarstaðar en allar tilraunir til að finna nýjan hafa engan árangur borið. Kirkjuferjuhjáleiga var góður urðunarstaður sem hefði getað nýst okkur vel næstu áratugina sérstaklega ef árangur í flokkun hefði orðið góður. Íbúar hafa því miður tapað miklum fjármunum á þessari ráðstöfun og munu halda áfram að þurfa að greiða mun hærri kostnað en ella hefði orðið enda er sorp nú keyrt af öllu Suðurlandi til urðunar hjá Sorpu í Álfsnesi með tilheyrandi kostnaði...

Á fyrstu myndinni erum við Ásta ansi blautar orðnar eftir gönguferð um svæðið. Á þeirri næstu er ég að skoða engan venjulegan drullupoll :-) Að lokum er svo ein mynd að veðurbarinni stjórn Sorpstöðvar, Ara Thorarensen, Ástu Stefánsdóttur og Jóni G. Valgeirssyni ásamt Bjarna Guðmundssyni, framkvæmdastjóra SASS. Ísólfur Gylfi gat því miður ekki komið með í gönguna !18. apríl 2015

Fundur kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins var haldinn í Þorlákshöfn í dag.

Það var góður fundur og alltaf gaman að hitta félagana. Formaður flokksins hélt afar góða ræðu og það sama gerðu þingmenn sem einnig svöruðu fyrirspurnum fundarmanna. Þorlákshafnarbúar buðu uppá gæðalega rækjubrauðtertu sem mér líkaði ágætlega eins og sjá má á myndinni sem hún Svanhildur Hólm tók.

Fyrir fundinn leit Bjarni við hér í Hveragerði og fundaði með okkur Unni um málefni hjúkrunarheimilisins Áss en þar er brýnt að fjármagn fáist til að byggja viðbyggingu svo leggja megi af þau tvíbýli sem eru á heimilinu. Við náðum einnig að sýna Bjarna Hamarshöllina en hann hafði ekki komið þangað áður. Skemmst frá því að segja að hann var afar hrifinn.


15. apríl 2015

Árlegur samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga var haldinn fyrir hádegi í dag. Á fundinn mættu þau Ólöf Nordal, sem var fundarboðandi, Bjarni Benediktsson og Eygló Harðardóttir ásamt aðstoðarmönnum og ráðuneytismönnum. Frá Sambandinu mættu einn fulltrúi frá hverjum flokki í stjórn Sambandsins auk formanns, framkvæmdastjóra og starfsmönnum Sambandsins. Þessi fundur var afar góður og hreinskiptinn og umræður líflegar. Ég ræddi þarna m.a. um samstarf og sameiningar sveitarfélaga, fjármálalega stöðu þjónustusvæða varðandi flutning á málefnum fatlaðs fólks, ræddi einnig um boðaðar breytingar á lögum um almenningssamgöngur og um skort á hjúkrunarrýmum. Á svo von á að við getum rætt þetta áfram við ráðherra en Bjarni Benediktsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir verða þátttakendur á kjördæmisþingi Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi sem halda á á laugardaginn í Þorlákshöfn.

Í dag lauk einvígi Hamars og FSu um sæti í úrvalsdeildinni. Gríðarleg stemning var fyrir leikinn og íþróttahúsið troðfylltist löngu fyrir leik. Því miður náðu strákarnir ekki að landa sigri þannig að FSu mun spila í efstu deild á næsta tímabili. En mikið rosalega er ég ánægð með strákana sem hafa séð okkur fyrir stórkostlegri skemmtun kvöld eftir kvöld að undanförnu. Slíkt er ómetanlegt og ber að þakka um leið og FSu er óskað til hamingju með sigurinn og úrvalsdeildarsætið.

14. apríl 2015

Hitti stjórnendur bæjarins á fundi í morgun. Fórum við m.a. yfir niðurstöðu árskreikninga, tillögur um veikindaforföll, mögulega stofnun starfsmannafélags og margt fleira. Allir þessir fundir enda á að stjórnendur segja frá því sem efst er á baugi hjá þeirra stofnun. Það er gaman að því. Nú er m.a. verið að raða í sumarstörfin en hingað hafa borist margar góðar umsóknir um sumarstörf.

Við Helga áttum góðan fund um símaþjónustu bæjarins. Það er nú þvílíkur frumskógur að erfitt er að grynna í þeim málum. Enda tók fundurinn hátt í tvo tíma. Vonandi að það skili einhverri niðurstöðu :-)

Skrifaði undir verksamning við Ólaf Þ. Óskarsson, um byggingu viðbyggingar við grunnskólann sem hýsa mun nýtt mötuneyti. Þessi bygging er létt og einföld en mun gjörbreyta aðstöðu til matseldar í skólans. Löngu þörf framkvæmd.

Fundaði einnig með fulltrúum Kvenfélags Hveragerðis, þeim Guðrúnu Friðþjófsdóttur og Hólmfríði Skapftadóttur. Ræddum við áframhaldandi leigu bæjarins á húsnæði félagsins við Fljótsmörk, lóðaframkvæmdir og ýmislegt fleira sem þar er á döfinni. Kvenfélagið byggði þetta hús fyrir örugglega 50 árum og hefur það ávallt verið í notkun í þágu barna bæjarins.13. apríl 2015

Töpuðum leiknum í gærkvöldi - en þvílíkt fjör og læti. Það verður eitthvað sem mun ganga á í "frystikistunni" í Hveragerði á miðvikudaginn næsta. Skil reyndar ekki alveg þetta tal um frystikistuna í Hveragerði enda er hvorki kalt né illa raðað í íþróttahúsinu hér :-)

En í dag hefur lífið aðallega snúist um starfsmannamál, tjaldsvæðið, stjórnendafund í fyrramálið og meirihlutafund í kvöld. Kvittaði undir verksamning um framkvæmdir við sundlaugarhúsið og átti góðan fund með verktökunum. Vann minnisblöð fyrir bæjarráðsfund vikunnar og glöggvaði mig á tillögum frá starfshópi sem unnið hefur að stefnumörkun varðandi veikindi og forföll starfsmanna.

Átti langt og skemmtilegt samtal við Svein Sæland, garðyrkjubónda að Espiflöt í Biskupstungum aðallega um garðyrkjuna, sögu og framtíð. Hann er einn af þeim fjölmörgu sem ég hef unnið með að sveitarstjórnarmálum sem ég sé eftir af þeim vettvangi.

Fór í laugina bæði laugardag og sunnudag í þvílíktri blíðu, svona á milli élja. Fór síðan enn og aftur í dag og núna í sundleikfimina. Þar æfði ég nú aðallega málbeinið, en það þarf líka :-)

Meirihlutafundur í kvöld og bæjarráðsfundur undirbúinn og pælt í möguleikum framtíðarinnar. Það er alltaf gaman að því :-)

10. apríl 2015

Héraðsnefnd Árnesinga fundaði á Flúðum á fimmtudag og föstudag í síðustu viku. Það skýrir vöntun á færslu þá daga.

Þar var m.a. tekin góð og skemmtileg umræða um sameiningu sveitarfélaga að loknu fínu erindi Þorvarðar Hjaltasonar um sama mál. Það virðist vera sem ákveðin stefnubreyting sé í farvatninu allavega hefur umræða aukist mjög að undanförnu um að ákveða eigi lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga með lögum. Það sjá auðvitað allir fáránleikann sem fólginn er í því að sveitarfélag telji milli 100 og 200 íbúa, jafnvel færri, og treysti síðan alfarið á nágranna sína með alla þjónustu. Meira að segja ég sem hef verið ákafur talsmaður frjálsra sameininga tel að það þurfi að gera eitthvað til að sveitarfélög geti að lágmarki séð um grunnþjónustu við eigin íbúa. En Þorvarður kom reyndar fram með annan punkt ágætan sem laut að því að ef að þetta tækist ekki þá yrði allavega að "snyrta" sveitarfélagamörkin. Það á svo sannarlega við hér í kringum okkur í Hveragerði þar sem Varmá skiptir milli Ölfuss og Hveragerðis. Listigarðurinn okkar í miðbænum tilheyrir til dæmis bæði okkur og Ölfusi og golfvöllurinn er í sömu tveimur sveitarfélögum. Þetta þyrfti að laga enda eru íbúa á þessu svæði hér fyrir ofan notendur að allri þjónustu hér í Hveragerði og vilja sjálfsagt flestir tilheyra Hveragerði.

Það skemmtilega við fundi Héraðsnefndar eru heimsóknir sem farið er í á viðkomandi svæði. Núna heimsóttum við Límtré en þangað hef ég aldrei komið. Mjög fróðlegt og gaman að fá tækifæri til að sjá þetta glæsilega fyrirtæki. Hef sjaldan séð jafn snyrtilega og skemmtilega starfsmannaaðstöðu. Þarna er hlúð að smáatriðunum. Ég hef áður hrósað Gömlu lauginni á Flúðum og geri það hér enn og aftur. Verst að ég skuli aldrei hafa tækifæri til að prufa að svamla í lauginni. Geri það næsta sumar ! ! ! Í lokin var síðan farið í nýjar Hrunaréttir. Það eru nú ekki margir sem geta leyft sér að raða stuðlabergi í réttarveggina. En þeir geta það, og gera, Hrunamenn. Mjög flott og til fyrirmyndar.

En svo þið haldið ekki að Héraðsnefnd sé eintómur leikur þá voru fundahöld löng og ströng fram eftir degi á föstudegi og megnið af fimmtudeginu. En Héraðsnefnd rekur m.a. Listasafnið, Tónlistarskólann, Byggðasafnið, Brunavarnir, Almannavarnir og Héraðsskjalasafnið. Það var því nóg um að ræða þessa daga á Flúðum.

7. apríl 2015

Meira hvað vorið ætlar að láta bíða eftir sér þetta árið...
Það voru mikil vonbrigði að sjá allt hvítt úti í morgun. Þetta er alveg orðið ágætt - reyndar löngu orðið ágætt !

Annars vann ég í málum varðandi starfsmannahald en á stjórnendafundi var nokkrum stjórnendum falið að koma með tillögur varðandi veikindafjarvistir sem þeir hafa nú skilað inn. Óneitanlega hefur þessi vetur reynst mörgum stofnunum hér erfiður hvað það varðar. Flensan svosem líka með alversta móti en það er mikilvægt að koma þessum málum í skýran farveg og eins að reyna að grípa til heilsueflandi aðgerða. Þessar tillögur munu væntanlega fara fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

Annars voru páskarnir hinir ljúfustu. Fyrst á Sauðárkróki í góðu yfirlæti og síðan hér í Hveragerði þar sem stjórfjölskyldan hittist tvisvar í miklum gleðiveislum. Alltaf gaman :-)


Fundur við fund í dag ...

Sá fyrsti í Reykjavík kl. 11 en þar hittist hópur sem skipaður var til að ræða svæðasamvinnu og landshlutasamtök sveitarfélaga.  Hlutverk og tilgangur hefur verið krufinn til mergjar og ekki síður velt fyrir sér þeirri spurningu hvort að til sé að verða þriðja stjórnsýslustigið fyrir tilstilli ákvarðana ríkisstjórnarinnar sem ítrekað flytur ekki verkefni til sveitarfélaganna heldur til landshlutasamtaka eða þjónustu svæða.  Þessi hópur ætlar að gera grein fyrir starfinu á landsþingi sambandsins á föstudaginn í næstu viku.
Brunaði síðan beint á Selfoss þar sem stjórn þjónusturáðs um málefni fatlaðs fólks hittist og fór yfir rekstrartölur ársins 2014, óskir um aukna þjónustu og margt fleira.  Það er dapurleg staðreynd að hér á Suðurlandi vantar á annað hundrað milljónir eigi framlög að standa undir kostnaði.  Um þetta er síðan verið að ræða í hópi sem núna skoðar reynslu sveitarfélaganna af yfirfærslu málaflokksins. 

Fundurinn á Selfossi varð lengri en ég bjóst við svo ég missti af sjúkraþjálfun vikunnar.  Held ég gefist upp á þessu - það væri nú heldur ekki í fyrsta skipti sem það gerist sem ekki er nú til fyrirmyndar !

Bæjarstjórnarfundur hófst kl. 17.  Þar kynnti endurskoðandi bæjarins,Ólafur Gestsson, ársreikning 2014.  Ánægjulegt að rekstur er mun betri en ráð var fyrir gert og er hagnaður ársins 60 mkr.  Handbært fé frá rekstri er rúmar 225 mkr og skuldir hafa lækkað en skuldahlutfallið margumrædda er nú komið niður í 114%.  Held að það væri vanþakklæti að vera ekki sátt við þessa niðurstöðu...
---------------
Bjarni Rúnar eru 25 ára í dag.  Ótrúlegt hvað tíminn líður :-)  Hafdís bauð þeim allra allra nánustu í morguverð en frekari veisluhöld verða að bíða því körfuboltinn og námið tekur allan tíma dagsins núna. 
En innilega til hamingju með daginn elsku Bjarni minn - besta afmælisgjöfin væri klárlega að vinna leikinn á morgun :-)

3. apríl 2015

Ljúft líf hér á Sauðárkrók en ég lendi hvergi nokkurs staðar í betri afslöppun en hér á Aðalgötu 22.  Fór -í sund í morgun en laugin hérna er skemmtileg og pottarnir góðir.  Verð að játa að það er samt infra rauði klefinn sem dregur mig meira en nokkuð annað í laugina hér.  Hann er meiriháttar.  Svona klefi er nýkominn í Fitness bilið heima í Hveró svo nú ætla ég að prófa hann líka.  

Bíltúr í Varmahlíð í dag og skemmtileg heimsókn að Löngumýri til Gunnars og síðan er kvöldkaffi hjá Ástu sveitarstjóra í kvöld.

Tengdapabbi er búinn að kenna mér nýjar megrunarkúr sem hann segir að svínvirki.  Borða morgunmat og borða síðan hádegismat.  Drekka síðan gos og borða súkkulaði í kaffinu og borða síðan ekkert meira það sem eftir lifir dags, nema kannski aðeins meira súkkulaði og pínulitið meira gosvatn.  Held að þessi sé málið   :-)


2. apríl 2015

Vetrarlegt á leiðinni norður ...

Af apríl gabbi ....  

Ætli árið 1987 hljóti ekki að toppa allt þegar kemur að fattleysi mínu og minnar fjölskyldu þann 1. apríl.
Þá bjuggum við Lárus á Dunhaganum í Reykjavík. Vöknuðum í blíðskaparveðri einn góðan vordag og hlustuðum á fréttirnar. Þar var fjallað í löngu máli um að hvalavaða hefði synt á land á Seltjarnarnesi. Þetta fannst okkur mjög merkilegt og ákváðum að missa nú ekki af þessum fágæta viðburði. Laufey Sif var klædd í snarhasti og skutlað í aftursætið á rauða tveggja dyra BMW´num sem við vorum svo lánsöm að eiga í þá daga. Keyrðum síðan hringinn á Seltjarnarnesi og ég hef ekki tölu á því hversu oft ég stökk út til að skima eftir hvalavöðunni. En hún hafði greinilega synt til hafs aftur því við fundum hana hvergi. En úr því að við vorum nú búin að hita bílinn svona vel og á annað borð komin á rúntinn þá var ákveðið að bruna sem leið lá suður með sjó og heimsækja vinafólk okkar í Sandgerði. En það færðist yfir okkur óhugguleg tilfinning á leiðinni þegar við uppgötvuðum að hvarvetna var flaggað í hálfa stöng. Hver ætli hafi dáið? Það hlaut að vera einhver þjóðþekktur og mikilsmetinn einstaklingur? Forsetinn eða kannski biskupinn ? Við ræddum þetta fram og til baka en komumst ekki að neinni niðurstöðu. Því var það óðamála par sem datt inn um dyrnar í Sandgerði. Tilkynnandi hástöfum að bévítans hvalavaðan hefði synt í burtu áður en við náðum að sjá hana og spyrjandi ítrekað um það hver væri eiginlega dáinn ! ! ! !
Gestgjafarnir eru sennilega enn að hlægja, þar sem þessi dagur var 1. apríl sem þetta árið bar uppá föstudaginn langa ....

1. apríl 2015

Bæjarráðsfundur í morgun. Þar voru meðal annars samþykkt tilboð í viðgerð á útveggjum sundlaugarhússin en það verk fengu ÁÁ verktakar, Reykjanesbæ og tilboð í viðbyggingu við Grunnskólann sem hýsa mun mötuneyti en það verk fékk fyrirtækið Frumskógar sem er í eigu Ólafs Þ. Óskarssonar í Hveragerði. Hann er sá sem klæddi gamla kaupfélagshúsið í hittifyrra og fórst það vel úr hendi. Á fundinum var einnig farið yfir mál tengd tjaldsvæðinu en ljóst er að fyrri leigutaki er ekki ánægður með ákvörðun bæjarstjórnar í þessu máli.

Hef aðeins verið að velta fyrir mér aprílgöbbum dagsins! Ég er annáluð fyrir að vera alveg ótrúlega fattlaus svo það er nú kannski ekki nema von að ég eigi erfitt á degi eins og í dag. Er til dæmis viðbyggingin við Alþingishúsið aprílgabb eða ekki ? ? ? Fyrst æsti ég mig upp í rjáfur yfir þessari hugmynd en svo fór ég að velta fyrir mér að þetta hlyti að vera gabb... Bíð eftir morgundeginum. Held reyndar að ég hafi fattað að Landspítala umræðan hjá Sigmundi Davíð hafi verið gabb ! ! ! En hvað ef þetta reynist síðan sannleikur ! ! !

Þetta er pínulítið erfitt þegar maður trúir ráðamönnum hreinlega til alls :-)

-------------


This page is powered by Blogger. Isn't yours?

 • Um Aldísi ...
 • Ræður og greinar ...
 • Aftur á forsíðu...
 • Tenglar
 • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
 • Síða Sjálfstæðisflokksins
 • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
 • Sjálfstæðiskonur
 • Sjálfstæðismenn í Suður.
 • Gagnagátt Sambandsins
 • Besti ísinn!
 • Morgunblaðið á netinu
 • Vísir.is
 • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
 • Fleiri Sunnlenskar fréttir
 • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
 • Hveragerði
 • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
 • Grunnskólinn í­ Hveragerði
 • Íþróttafélagið Hamar
 • Veðurspá fyrir Hveragerði
 • Fjölbrautaskóli Suðurlands
 • Gagnasöfn Hvar.is
 • Besti bloggarinn ! ! !
 • Vefbanki Valla...
 • SASS
 • Myndir Bjössa á Bláfelli
 • Nátturan.is
 • Orðaþýðingar - frábær síða
 • Færð og veður á SV-landi
 • Leitarvélin
 • Sí­maskráin
 • Ýmsar myndir
 • Myndasíða
 • Úr reisubókinni
 • Flórída janúar 2017
 • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
 • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
 • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
 • Búkarest í Rúmení­u 2006
 • Ítalía 2007
 • Svartfjallaland 2008
 • Danmörk 2010
 • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
 • Hefur þú skoðun?
 • Hafðu samband!
  Eldri færslur
 • 1.1.2004 - 1.2.2004
 • 1.2.2004 - 1.3.2004
 • 1.3.2004 - 1.4.2004
 • 1.5.2004 - 1.6.2004
 • 1.6.2004 - 1.7.2004
 • 1.7.2004 - 1.8.2004
 • 1.8.2004 - 1.9.2004
 • 1.9.2004 - 1.10.2004
 • 1.10.2004 - 1.11.2004
 • 1.11.2004 - 1.12.2004
 • 1.12.2004 - 1.1.2005
 • 1.1.2005 - 1.2.2005
 • 1.3.2005 - 1.4.2005
 • 1.4.2005 - 1.5.2005
 • 1.5.2005 - 1.6.2005
 • 1.6.2005 - 1.7.2005
 • 1.7.2005 - 1.8.2005
 • 1.8.2005 - 1.9.2005
 • 1.9.2005 - 1.10.2005
 • 1.10.2005 - 1.11.2005
 • 1.11.2005 - 1.12.2005
 • 1.12.2005 - 1.1.2006
 • 1.1.2006 - 1.2.2006
 • 1.2.2006 - 1.3.2006
 • 1.3.2006 - 1.4.2006
 • 1.4.2006 - 1.5.2006
 • 1.5.2006 - 1.6.2006
 • 1.6.2006 - 1.7.2006
 • 1.7.2006 - 1.8.2006
 • 1.8.2006 - 1.9.2006
 • 1.9.2006 - 1.10.2006
 • 1.10.2006 - 1.11.2006
 • 1.11.2006 - 1.12.2006
 • 1.12.2006 - 1.1.2007
 • 1.1.2007 - 1.2.2007
 • 1.2.2007 - 1.3.2007
 • 1.3.2007 - 1.4.2007
 • 1.4.2007 - 1.5.2007
 • 1.5.2007 - 1.6.2007
 • 1.6.2007 - 1.7.2007
 • 1.7.2007 - 1.8.2007
 • 1.8.2007 - 1.9.2007
 • 1.9.2007 - 1.10.2007
 • 1.10.2007 - 1.11.2007
 • 1.11.2007 - 1.12.2007
 • 1.12.2007 - 1.1.2008
 • 1.1.2008 - 1.2.2008
 • 1.2.2008 - 1.3.2008
 • 1.3.2008 - 1.4.2008
 • 1.4.2008 - 1.5.2008
 • 1.5.2008 - 1.6.2008
 • 1.6.2008 - 1.7.2008
 • 1.7.2008 - 1.8.2008
 • 1.8.2008 - 1.9.2008
 • 1.9.2008 - 1.10.2008
 • 1.10.2008 - 1.11.2008
 • 1.11.2008 - 1.12.2008
 • 1.12.2008 - 1.1.2009
 • 1.1.2009 - 1.2.2009
 • 1.2.2009 - 1.3.2009
 • 1.3.2009 - 1.4.2009
 • 1.4.2009 - 1.5.2009
 • 1.5.2009 - 1.6.2009
 • 1.6.2009 - 1.7.2009
 • 1.7.2009 - 1.8.2009
 • 1.8.2009 - 1.9.2009
 • 1.9.2009 - 1.10.2009
 • 1.10.2009 - 1.11.2009
 • 1.11.2009 - 1.12.2009
 • 1.12.2009 - 1.1.2010
 • 1.1.2010 - 1.2.2010
 • 1.2.2010 - 1.3.2010
 • 1.3.2010 - 1.4.2010
 • 1.4.2010 - 1.5.2010
 • 1.5.2010 - 1.6.2010
 • 1.6.2010 - 1.7.2010
 • 1.7.2010 - 1.8.2010
 • 1.8.2010 - 1.9.2010
 • 1.9.2010 - 1.10.2010
 • 1.10.2010 - 1.11.2010
 • 1.11.2010 - 1.12.2010
 • 1.12.2010 - 1.1.2011
 • 1.1.2011 - 1.2.2011
 • 1.2.2011 - 1.3.2011
 • 1.3.2011 - 1.4.2011
 • 1.4.2011 - 1.5.2011
 • 1.5.2011 - 1.6.2011
 • 1.6.2011 - 1.7.2011
 • 1.7.2011 - 1.8.2011
 • 1.8.2011 - 1.9.2011
 • 1.9.2011 - 1.10.2011
 • 1.10.2011 - 1.11.2011
 • 1.11.2011 - 1.12.2011
 • 1.12.2011 - 1.1.2012
 • 1.1.2012 - 1.2.2012
 • 1.2.2012 - 1.3.2012
 • 1.3.2012 - 1.4.2012
 • 1.4.2012 - 1.5.2012
 • 1.5.2012 - 1.6.2012
 • 1.6.2012 - 1.7.2012
 • 1.7.2012 - 1.8.2012
 • 1.8.2012 - 1.9.2012
 • 1.9.2012 - 1.10.2012
 • 1.10.2012 - 1.11.2012
 • 1.11.2012 - 1.12.2012
 • 1.12.2012 - 1.1.2013
 • 1.1.2013 - 1.2.2013
 • 1.2.2013 - 1.3.2013
 • 1.3.2013 - 1.4.2013
 • 1.4.2013 - 1.5.2013
 • 1.5.2013 - 1.6.2013
 • 1.6.2013 - 1.7.2013
 • 1.7.2013 - 1.8.2013
 • 1.8.2013 - 1.9.2013
 • 1.9.2013 - 1.10.2013
 • 1.10.2013 - 1.11.2013
 • 1.11.2013 - 1.12.2013
 • 1.12.2013 - 1.1.2014
 • 1.1.2014 - 1.2.2014
 • 1.2.2014 - 1.3.2014
 • 1.3.2014 - 1.4.2014
 • 1.4.2014 - 1.5.2014
 • 1.5.2014 - 1.6.2014
 • 1.8.2014 - 1.9.2014
 • 1.9.2014 - 1.10.2014
 • 1.10.2014 - 1.11.2014
 • 1.11.2014 - 1.12.2014
 • 1.12.2014 - 1.1.2015
 • 1.1.2015 - 1.2.2015
 • 1.2.2015 - 1.3.2015
 • 1.3.2015 - 1.4.2015
 • 1.4.2015 - 1.5.2015
 • 1.6.2015 - 1.7.2015
 • 1.7.2015 - 1.8.2015
 • 1.8.2015 - 1.9.2015
 • 1.9.2015 - 1.10.2015
 • 1.10.2015 - 1.11.2015
 • 1.11.2015 - 1.12.2015
 • 1.12.2015 - 1.1.2016
 • 1.1.2016 - 1.2.2016
 • 1.2.2016 - 1.3.2016
 • 1.3.2016 - 1.4.2016
 • 1.4.2016 - 1.5.2016
 • 1.5.2016 - 1.6.2016
 • 1.6.2016 - 1.7.2016
 • 1.7.2016 - 1.8.2016
 • 1.8.2016 - 1.9.2016
 • 1.9.2016 - 1.10.2016
 • 1.10.2016 - 1.11.2016
 • 1.11.2016 - 1.12.2016
 • 1.12.2016 - 1.1.2017
 • 1.1.2017 - 1.2.2017
 • 1.2.2017 - 1.3.2017
 • 1.3.2017 - 1.4.2017
 • 1.5.2017 - 1.6.2017
 • 1.6.2017 - 1.7.2017
 • 1.8.2017 - 1.9.2017
 • 1.9.2017 - 1.10.2017
 • 1.10.2017 - 1.11.2017
 • 1.11.2017 - 1.12.2017
 • 1.12.2017 - 1.1.2018
 • 1.1.2018 - 1.2.2018
 • 1.2.2018 - 1.3.2018
 • 1.3.2018 - 1.4.2018
 • 1.4.2018 - 1.5.2018
 • 1.5.2018 - 1.6.2018
 • 1.8.2018 - 1.9.2018
 • 1.11.2018 - 1.12.2018
 • 1.4.2021 - 1.5.2021
 • 1.5.2021 - 1.6.2021
 • 1.6.2021 - 1.7.2021
 • 1.7.2021 - 1.8.2021
 • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet