7. apríl 2015
Fundur við fund í dag ...
Sá fyrsti í Reykjavík kl. 11 en þar hittist hópur sem skipaður var til að ræða svæðasamvinnu og landshlutasamtök sveitarfélaga. Hlutverk og tilgangur hefur verið krufinn til mergjar og ekki síður velt fyrir sér þeirri spurningu hvort að til sé að verða þriðja stjórnsýslustigið fyrir tilstilli ákvarðana ríkisstjórnarinnar sem ítrekað flytur ekki verkefni til sveitarfélaganna heldur til landshlutasamtaka eða þjónustu svæða. Þessi hópur ætlar að gera grein fyrir starfinu á landsþingi sambandsins á föstudaginn í næstu viku.
Brunaði síðan beint á Selfoss þar sem stjórn þjónusturáðs um málefni fatlaðs fólks hittist og fór yfir rekstrartölur ársins 2014, óskir um aukna þjónustu og margt fleira. Það er dapurleg staðreynd að hér á Suðurlandi vantar á annað hundrað milljónir eigi framlög að standa undir kostnaði. Um þetta er síðan verið að ræða í hópi sem núna skoðar reynslu sveitarfélaganna af yfirfærslu málaflokksins.
Fundurinn á Selfossi varð lengri en ég bjóst við svo ég missti af sjúkraþjálfun vikunnar. Held ég gefist upp á þessu - það væri nú heldur ekki í fyrsta skipti sem það gerist sem ekki er nú til fyrirmyndar !
Bæjarstjórnarfundur hófst kl. 17. Þar kynnti endurskoðandi bæjarins,Ólafur Gestsson, ársreikning 2014. Ánægjulegt að rekstur er mun betri en ráð var fyrir gert og er hagnaður ársins 60 mkr. Handbært fé frá rekstri er rúmar 225 mkr og skuldir hafa lækkað en skuldahlutfallið margumrædda er nú komið niður í 114%. Held að það væri vanþakklæti að vera ekki sátt við þessa niðurstöðu...
---------------
Bjarni Rúnar eru 25 ára í dag. Ótrúlegt hvað tíminn líður :-) Hafdís bauð þeim allra allra nánustu í morguverð en frekari veisluhöld verða að bíða því körfuboltinn og námið tekur allan tíma dagsins núna.
En innilega til hamingju með daginn elsku Bjarni minn - besta afmælisgjöfin væri klárlega að vinna leikinn á morgun :-)
Comments:
Skrifa ummæli