<$BlogRSDUrl$>

30. janúar 2009

Föstudagur ...

Það hefur vakið athygli mína hversu lítil eftirspurn er eftir störfum sem auglýst eru. Núna er til dæmis verið að auglýsa afleysingu fram á haust í Upplýsingamiðstöðinni og aðrar smærri stöður. Fáar sem engar fyrirspurnir hafa borist. Mér þykir það merkilegt þegar vitað er að atvinnuleysi er yfir 7% í Hveragerði. Spurning hvort svona illa sé staðið að auglýsingunum? Annars skil ég ekki hvað veldur...

Á föstudaginn fundaði ég um skólamál, skrapp í afmæliskaffi út í Kjörís og á fyrsta fund nýrrar Almannavarnarnefndar Árnessýslu, á fundinum var Ragnheiður Hergeirs kosin formaður, sú sem þetta ritar varaformaður og Jón G. Valgeirsson, Grafningi og Grímsnesi ritari. Framkvæmdastjóri er Kristján Einarsson frá Brunavörnum Árnessýslu. Fundurinn gekk vel en farið var yfir næstu skref í vinnunni sem framundan er. Ljóst er að það þarf að vinna hratt og vel að skipulagi þessara mála því almannavarnaástand getur skapast hvenær sem er! Því er nauðsynlegt að vera vel undirbúinn.

Fulltrúar úr stjórn Hjálparvseitar Skáta komu í heimsókn að ræða ýmis mál sem snúa að félaginu. Síðan gekk ég endanlega frá bæklingi um tillögur í samkeppni um hönnun miðbæjarins og kláraði að undirbúa afhendinguna sem fram fer á sunnudaginn.

29. janúar 2009

Fór í dag á sjónvarpsstöðina ÍNN þar sem viðtal við mig og Ólaf Áka um Bitruvirkjun var tekið upp í þætti Óla á Hrauni. Það var gaman að sjá innviði þessarar sjónvarpsstöðvar sem er svo gjörólík hinum tveimur. Yfirbyggingin ekki mikil og þáttastjórnendur í sjálfboðavinnu.
Þátturinn var síðan sýndur í kvöld. Ég vona að ég hafi komið sjónarmiðum Hvergerðinga vel á framfæri en við getum seint sætt okkur við virkjun á þessum stað undir þeim formerkjum sem hún er kynnt.

Heimsótti Listasafnið í dag en þar hafa allar tillögur í samkeppni um miðbæjarskipulag verið hengdar upp. Kemur mjög vel út. Í dag var verið að ganga frá skartgripasýningunni sem opnuð verður á sama tíma. Hún er afskaplega falleg og gripirnir glöddu svo sannarlega augað.

Fundur í stjórn Hollvinasamtaka HNLFÍ síðdegis. Ákváðum aðalfund og fyrirkomulag hans og ræddum síðan ýmsa möguleika á frekara starfi samtakanna. Í farvatninu er að útbúa lítinn æfinga golfvöll við stofnunina sem bæði gæti orðið dvalargestum sem og íbúum í ÍAV húsunum til ánægju.
--------------------------
Miðað við umfjöllun fjölmiðla undanfarið gæti maður haldið að fólksflótti til útlanda væri gríðarlegur. Hér í Hveragerði er staðreyndin aftur á móti sú að í dag eru íbúa 2315 og hefur fækkað um 1 síðan 1. desember 2008. Það er mun minni fækkun heldur en fólk almennt heldur. Þetta er vonandi vísbending um að fólksfjölgun í Hveragerði muni halda áfram þó það verði kannski ekki með sama hraða og undanfarin ár.
---------------------------
Fór út að ganga með Guðrúnu systur í blíðunni í kvöld en bærinn hefur verið ótrúlega fallegur í dag eftir snjókomu gærdagsins. Hitti ótrúlega mikið af fólki á röltinu og greinilegt að mikil vakning er varðandi útivist og hreyfingu í bæjarfélaginu. Allavega tveir gönguklúbbar kvenna eru í gangi og einn hópur af körlum sem hleypur tvisvar í viku. Síðan er mikið um að fólk gangi sér til heilsubótar hér í kring svo það er ávið heimsókn í félagsmiðstöð að fara út að ganga :-)

28. janúar 2009

Af skipulagi og Bitru...

Gekk í dag frá öllu efni sem á að fara í bæklinginn vegna samkeppninnar um miðbæjarskipulagið og kom því í prentsmiðju. Það þarf að hafa hraðar hendur því afhending verðlauna fer fram á sunnudag og bæklingurinn þarf að vera tilbúinn þá. Þetta eru 17 tillögur svo bæklingurinn verður að öllum líkindum 20 síður.

Verðlaunaafhendingin fer fram kl. 14 næsta sunnudag í Listasafni Árnesinga. Þar hefur öllum tillögunum verið haganlega fyrir komið og verða þær þar til sýnis á opnunartíma safnsins fram til 19. apríl. Verðlaunaafhendingin er öllum opin svo það er um að gera að fjölmenna !

Skrifaði nokkur bréf og fór yfir íþróttamál og styrkumsóknir með Jóhönnu. Átti góð símtöl við landbúnaðarráðuneytið vegna landamála sem fengu farsælan endi í dag. Renndi yfir inngang og kafla um sveitarfélögin í mastersritgerð Herdísar Sigurjónsdóttur vegna skipulags almannavarna á neyðartímum. Stórgóð ritgerð sem gaman verður að lesa í endanlegu formi. Yfirleitt koma einhverjir í heimsókn á hverjum degi eða þá að fólk vill ræða sín mál í síma. Mér finnst þetta notalegt fyrirkomulag.

Eyddi síðan kvöldinu í að lesa mér til um virkjanir og þá sérstaklega Bitru og Gráuhnúka því á morgun er ég ásamt Ólafi Áki í viðtalsþætti á sjónvarpsstöðinni ÍNN þar sem umfjöllunarefnið er Bitra. Það verður skemmtilegt...

Í gær var ég á fundi í stjórn Rannsókna og fræðaseturs Háskóla Íslands hér í Hveragerði. Þar var glæsileg mynd á forsíðu ársskýrslu 2008 af kransarfa sem tekið hefur sér bólfestu í Opnunum hér fyrir neðan Hveragerði. Þetta er "fiskabúrsplanta" frá suðrænni slóðum sem að öllum líkindum hefur verið "sleppt" í Opnurnar. Hún finnst eingöngu í þessari einu tjörn á Íslandi sem er volg (um 28°C)og því lifir hún þar góðu lífi. Plantan skilgreinist sem ágeng í náttúrunni en væntanlega getur hún ekki dreift sér svo neinu nemi því hún þarf ansi góðar aðstæður til að þrauka í íslenskri náttúru. Svona getur nú náttúran hér í kring komið manni á óvart ...
--------------------------------

Vil gjarnan vekja athygli ykkar á eftirfarandi....

Ungur Hvergerðingur Kristjana Björk Traustadóttir (dóttir Ragnhildar Barðadóttur íbúa í Heiðarbrún) var ein af þeim sem missti allt innbú sitt þegar húsið að Klapparstíg 17, varð eldi að bráð aðfararnótt föstudagsins 16. janúar síðastliðins. Eins og fram kom í fréttum þá brann allt sem í húsinu var og þar með taldar allar eigur Kristjönu, hún er því eignalaus í dag.

Kristjana hefur verið virkilega dugleg alla tíð og unnið með skóla frá 13 ára aldri. Þessar eigur sem brunnu inni hefur hún að mestu leyti keypt sér sjálf fyrir sína peninga. Hún hafði komið sér upp ágætri búslóð en stendur nú uppi án þess að eiga hluti sem við öll teljum svo sjálfsagt að eiga en gerum okkur ekki grein fyrir að við höfum aðgang að svo sem að teygja sig í handklæði af því að það er bara þarna, hárburstann eða glas til að fá sér vatn úr að ógleymdu rúmi til að sofa í.

Nú er biðlað til ykkar sem eruð aflögufær um að styrkja Kristjönu til kaupa og endurnýjunar á þeim hlutum sem brunnu inni. Það væri virkilega vel þegið og fallega gert ef þið hafið tök á.

Styrktarreikningurinn er: 1169-05-483 og kenntala: 200788-2069

P.s. Sumir liggja með gamla hluti sem þeir þurfa ekki lengur að nota. Ef þú/þið eruð með eitthvað sem gæti komið sér vel í uppbyggingu nýrrar búslóðar það væri það vel þegið.

27. janúar 2009

Vinstri stjórn að myndast

Í fréttum sjónvarpsins í kvöld var rætt um það hverjir væru hugsanlegir kandidatar í ráðherrastólana. Allt útlit er fyrir að Jóhanna Sigurðardóttir verði forsætisráðherra. Það var gaman að umfjölluninni um feril hennar í sjónvarpinu og ekki síst að sjá enn einu sinni þegar hún sagði hina frægu setningu: "minn tími mun koma"! Nú er hennar tími kominn í orðsins fyllstu merkingu. Þetta sýnir manni hvað þrautseigjan hefur mikið að segja jafnt í pólitík sem á öðrum sviðum lífsins. Jóhanna hefur setið á Alþingi í þrjátíu ár eða lengur en nokkur annar þingmaður. Reynsla hennar ætti því að reynast vel í hinu nýja embætti. Hún verður reyndar að temja sér örlítið önnur vinnubrögð en áður núna þegar hún tekur við stjórnartaumum. Góðmennskan ein og sér fleytir manni ekki langt í þessum stól!
En burtséð frá flokkspólitík þá er nú stigið stór skref í jafnréttismálum bæði kvenna og samkynhneigðra og það er afar jákvætt. Einnig útá við en ég á von á því að skipun Jóhönnu í embætti eigi eftir að vekja athygli útfyrir landsteinana þó hún verði kannski ekki jafn afgerandi og ef að kvennastjórn hefði verið skipuð.
Varð bara að koma því að ;-)
---------------------------------
En fréttir af falli ríkisstjórnarinnar berast víða og Tim benti okkur á umfjöllun um málið á forsíðu aðal fréttavefjarins í Hong Kong. Ætli margir Íslendingar hafi komist á þessa forsíðu?
冰島總統同意政府總辭 = Forsætisráðherra Íslands skilar umboði ríkisstjórnar. Fyrstu tvö táknin þýða Ísland. Svona er nú gaman að hafa skiptinema...

26. janúar 2009

Ríkisstjórnin fallin...

Það er nú reyndar að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um atburði dagsins en undan því verður ekki komist enda um fátt annað rætt í dag. Vinnustaðir hálflamaðir vegna spennunnar og allir símar rauðglóandi. Atburðir dagsins koma afur á móti ekki á óvart. Það var orðið augljóst að Samfylkingin hafði ekki lengur áhuga á að starfa í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og því fór sem fór. Tregða Sjálfstæðismanna til að gera nauðsynlegar breytingar og koma þannig til móts við fólkið í landinu og samstarfsflokkinn á stóran hlut í því ástandi sem hér ríkir nú. Hugmyndir um þjóðstjórn eru allra góðra gjalda verðar en hefðu þurft að koma fram miklu fyrr í þessu ferli til að vera trúverðugar. Vinstri stjórn er í kortunum og því jafn gott fyrir okkur Sjálfstæðismenn að við búum okkur undir starf í minnihluta.

En það er sama hverjir verða í ríkisstjórn þeirra bíður gríðarstórt og afar mikilvægt verkefni við að halda þjóðarskútunni á floti. Það eru margir boltar á lofti sem mikilvægt er að missa ekki í þessari stöðu. Ég vona svo innilega að vel takist til með framhaldið, fólkið og fyrirtækin þurfa á því að halda...
------------------------------
Guðrún systir heyrði í einhverjum snillingi á útvarpi Sögu sem kom með tillögu að nýrri ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem eingöngu væri skipuð konum sem ekki sitja á þingi.
Halla Tómasdóttir í Auði Capital væri forsætisráðherra, Kristín Pétursdóttir, fjármálaráðherra, Björk Guðmundsdóttir, umhverfisráðherra, og síðan taldi hann upp fullt af öðrum flottum konum sem taka myndu þá sæti fram að næstu kosningum. Með kraftmikilli konustjórn myndum við fá þá bestu auglýsingu á alþjóðavísu sem möguleg væri. Spáið í þá jákvæðu umfjöllun sem svona stjórnarmunstur fengi! !
Þetta þætti afar fréttnæmt og til marks um það að Íslendingar væru að taka raunverulega til í sínum málum. Eftir því sem ég hugsa þetta meira verð ég heillaðri af hugmyndinni um "kvennastjórn".

23. janúar 2009

Var á fundi í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þegar við fengum fréttirnar af veikindum Geirs H. Haarde. Öllum var eðlilega mjög brugðið enda veikindin alvarleg. Hugurinn er hjá Geir, Ingu Jónu og fjölskyldu þeirra nú þegar baráttan við erfiðan sjúkdóm byrjar. Ákvörðun hans um að bjóða sig ekki fram til formanns er skiljanleg og einnig sú ákvörðun að fresta landsfundi. Við Sjálfstæðismenn þurfum meira en sex daga til að melta þá atburði sem gerst hafa í dag og undanfarna daga og í ljósi þeirra þarf að endurhugsa allan fundinn og auðvitað finna formannsefni! Tel því að þetta sé hárrétt ákvörðun. Við lifum nú sérkennileg tíma vægast sagt og stórfréttir berast þjóðinni á hverjum degi. Fyrir dyrum er mikil vinna, uppstilling á framboðslistum með einum eða öðrum hætti og síðan kosningar til Alþingis. Á sama tíma þarf að stýra þjóðarskútunni styrkri hendi og koma í veg fyrir upplausn í samfélaginu. Þetta er erfitt verkefni og það að báðir leiðtogar stjórnarflokkanna glíma nú við erfið veikindi gerir það ennþá erfiðara.
-----------------------
Síðdegis fór fram afhending styrkja Hljómlistarfélags Hveragerðis. Það eru sex fítonskraftar sem fara fyrir starfi félagsins og afhentu þeir í dag Hljómsveitunum Hitakúti og Húrigúri, Grunnskólanum og Hveragerðiskirkju veglega peninga styrki. Peningarnir eru afrakstur Sölvakvöldsins milli jóla og nýárs sem ávallt er vel sótt. Mér fannst þetta alveg stórkostleg stund og sagði í ræðu að ég væri vanari því að félög eins og Hljómlistarfélagið fengi styrki frekar en veitti þá! En svona er nú mannlífið yndislegt hér í Hveragerði. Einnig var tilkynnt að félagið ætlaði að endurvekja Lions skemmtunina sem var afar skemmtileg uppákoma í bæjarlífinu. Þar mættu fulltrúar hinna ýmsu vinnustaða og fluttu söngatriði hver með sínu nefi. Það hefur verið eftirsjá að þeirri skemmtun og því gott ef tekst að endurvekja hana.
------------------------
Svona af því að það er föstudagur þá set ég hérna svolítið skondið myndband sem tekið er þegar bæjarstarfsmenn settu upp jólatréð hér í Hveragerði. Okkur Alberti finnst þetta fyndið en afraksturinn varð allavega glæsilegur eins og sjá má. Hef ekki hugmynd um það hver tók myndbandið en sjónarhornið bendir til Hverabakka!

Ég ætla síðan að eigna okkur Hvergerðingum þetta stórskemmtilega lag því Hallgrímur Óskarsson höfundur lagsins býr svo til í Hveragerði eða rétt handan við Varmá. Sigurður Einar Guðjónsson sem býr "réttu" megin við ánna syngur hér bakraddir með bræðrum sínum. Söngvarinn sem er reyndar Selfyssingur hann Ingó er síðan sonur hans Tóta Ingólfs sem við Hvergerðingar getum alveg eignað okkur líka þar sem hann er aðstoðarskólameistari í FSu sem við eigum hluta í :-)

Góða helgi kæru vinir ....

22. janúar 2009

Bæjarráð klukkan 8 í morgun. Samþykktar voru reglur um viðmiðunarmörk tekna eldri borgara og öryrkja vegna fasteignaskatts og holræsagjalds. Tekjumörkin má núna finna á heimasíðu Hveragerðisbæjar en einnig munum ég og María, félagsmálastjóri, heimsækja félag eldri borgara í byrjun febrúar til að fara yfir viðmiðin og ýmis önnur mál væntanlega. Álagningarseðlar eru núna að berast í hús en fasteignaskattur er óbreyttur frá því í fyrra. Eina gjaldið sem hækkar er sorphirðu og sorpurðunargjald sem hækkar lítillega vegna verðlagshækkana á málaflokknum. Bæjarstjórn ákvað aftur á móti að veita 10% staðgreiðsluafslátt til þeirra sem staðgreiða gjöldin og ætti það að virka hvetjandi á þá íbúa sem hug hafa á að greiða nú þegar. Með þessari breytingu er kominn raunverulegur hvati til að staðgreiða gjöldin.
----------------
Heimsótti leikskólann Óskaland og fór yfir ýmis mál með leikskólastjórum. Meðal annars varðandi heimasíðu og biðlista svo fátt eitt sé nefnt. Við höfum það að markmiði að veita öllum börnum 18 mánaða og eldri leikskólavist og hefur það tekist nokkurn veginn. Alltaf getur þó komið upp að bíða þurfi í stuttan tíma eftir plássi en þá eru hér starfandi góðar dagmæður sem hugsa vel um börnin á meðan.
----------------
Eftir hádegi var fundur vegna endurskoðunar á lögum um Viðlagatrygginu en Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjóri í Flóahreppi situr í nefndinni sem það gerir. Við sem höfum unnið með afleiðingar skjálftans frá því í maí höfðum ýmislegt fram að færa og teljum reyndar að nefndin myndi hafa gagn af því að hitta þá sem málið hefur hvað mest brunnið á að undanförnu.
--------------
Það er mikiðumrót í stjórnmálum landsins þessa dagana og allir hafa skoðanir á því sem í gangi er. Stjórn Sjálfstæðisfélagsins hér í Hveragerði og bæjarfulltrúar hittust í kvöld til að fara yfir stöðuna. Munum hittast aftur fljótlega til að stilla saman strengi.
-------------------
Hafsteinn hennar Guðrúnar systur var í sundi í dag og lenti á tali við Reykvíking sem spjallaði mikið. Hann sagðist koma reglulega hingað til Hveragerðis til að ná jarðtengingu frá stressinu í Reykjavík. Þá kemur þessi ágæti maður hingað, slappar af í lauginni, fær sér ís, lítur við í bakaríinu og röltir eftir göngustígunum. Eftir læti gærdagsins í Reykjavík þá skil ég það vel að höfuðborgarbúar þarfnist rólegheitanna sem landsbyggðin býður uppá ....

21. janúar 2009

Af mótmælum og stjórnarsamstarfi...

Setti fréttir á heimasíðu Hveragerðisbæjar áður en nokkrir aðilar komu í viðtöl fyrir hádegi. Málefnin jafn misjöfn og gestirnir voru margir.
-------------------------
Fundur í Stjórnarráðinu kl. 14:30 og átti ég ekki von á öðru en að það gengi eins og ávallt. Þarna höfum við fundað nokkrum sinnum með ráðuneytismönnum, bæjarstjórar Ölfuss, Árborgar og Hveragerðis vegna jarðskjálftans. En í dag var ástandið ólíkt því sem við eigum að venjast. Lækjargatan lokuð og þegar ég komst loks að Stjórnarráðinu þá var þar múgur og margmenni og mikill æsingur í mönnum. Það var auðvitað ekki nokkur leið að komast þarna inn og eftir smátíma var hringt í okkur og látið vita að fundinum væri aflýst. Við stóðum þarna álengdar Ragnheiður, Ásta, Guðni og ég og fylgdumst með, ansi agndofa yfir því sem við sáum. Það er aldeilis ekki það sama að sjá mótmælin í sjónvarpinu eins og að fylgjast með þeim á staðnum og æsingurinn miklu meiri en maður gerir sér grein fyrir.
Þetta ástand var hægt að sjá fyrir og auðvitað átti að bregðast fyrr við. Þannig hefði kannski verið hægt að tryggja nauðsynlegan stöðugleika í samfélaginu. Ég er hrædd um að það tækifæri sé runnið okkur úr greipum!

Ég fylgdist nefnilega eins og væntanlega öll þjóðin með fréttum kvöldsins og umræðum á fundi Samfylkingarinnar í Reykjavík sem ég fékk beint í æð! Umræður á fundinum hlutu að litast af því að salurinn var fullur af mótmælendum. Hefði sjálfsagt verið skynsamlegra fyrir Samfylkinguna í þessari stöðu að halda lokaðan fund félaga en þannig hefðu þau getað rætt málin betur í sinn hóp. En allir sem til máls tóku vildu kosningar í vor, í þeim hópi var fjöldi þingmanna. Ástandið er reyndar þannig að það er greinilegt að Ingibjörg Sólrún er límið sem heldur þessu öllu saman og nú er hún því miður fjarri. Því mun væntanlega fjara hratt undan ríkisstjórnarsamstarfinu næstu daga. Kosningar í vor væntanlega í uppsiglingu og þar mun þjóðin velja sér þá fulltrúa sem hún treystir best.
Það er lýðræðið í hnotskurn.
------------
23:15
Nýjustu fréttir af fundinum er að þar var einróma samþykkt ályktun til þingmanna Samfylkingarinnar um tafarlaus stjórnarslit. Ég vona að atburðir næstu vikna verði okkur Íslendingum til gæfu. Þjóðarbúið þolir ekki fleiri áföll, það gera heldur ekki heimilin eða fyrirtækin í landinu ....

Í dagsins önn...

Blaðamaður Sveitarstjórnarmála brá sér austur fyrir fjall í morgun til að taka viðtal um málefni Hveragerðisbæjar. Væntanlega hafa fleiri sveitarstjórnarmenn á svæðinu verið heimsóttir svo næsta tölublað verður með sunnlensku ívafi.

Eigandi Kambalands leit við og fórum við yfir stöðu framkvæmda á svæðinu og möguleikana til framtíðar litið. Gatnagerð við fyrsta áfanga er í fullum gangi og einhverjar lóðir ættu að verða tilbúnar í vor. Í Kambalandinu eru einar flottustu byggingalóðir bæjarins og útsýnið stórkostlegt yfir Ölfusið. Því er ekki að furða að eigendur landsins séu bjartsýnir um framhaldið þrátt fyrir að efnahagsástandið sé nú ekki til að auka manni gleði þessa dagana.

Gekk frá fundarboði bæjarráðs, svaraði bréfum og tölvupóstum og ýmsum öðrum erindum sem bárust í dag.
-----------------------------------
Myndir frá mótmælunum á Austurvelli vöktu mér ugg í fréttum kvöldsins.

Boðuð tillaga Samfylkingarmanna um breytingu á kosningalögum þannig að kosið skuli til Alþingis krefjist helmingur kosningabærra íbúa þess segir mér að stjórnarsamstarfið sé ekki eins traust og það ætti að vera. Spái því þó að það lafi allavega vel framyfir landsfund okkar Sjálfstæðismanna.

Tillagan felur einnig í sér sama fyrirkomulag gagnvart sveitarstjórnum. Þar myndi hún hafa meiri áhrif heldur en á Alþingi því í dag eru engir möguleikar á því að kjósa á miðju kjörtímabili til sveitarstjórna. Slíkt er einfaldlega ekki valkostur alveg sama hversu illa sveitarstjórnir standa sig. Á Alþingi geta þingmenn þó ákveðið að rjúfa þing og boða til kosninga ef þeim þóknast svo. Slíkt er ekki hægt í sveitarstjórnum. Verði tillaga Samfylkingarmannanna samþykkt gæti farið svo að sveitarstjórnarkosningar færu fram á mismunandi tíma, enginn hefðbundinn kjördagur væri í sveitarfélögunum þar sem íbúar gætu krafist kosninga hvenær sem er. Lýðræðisleg tillaga engu síður og lýðræðið ber okkur ávallt að hafa í hávegum og ekki síst á tímum eins og þeim sem við lifum nú.
------------------------
Notalegum samverustundum fjölskyldunnar yfir uppvaskinu lauk í kvöld þegar ný uppþvottavél kom í hús. Yngsti sonurinn var með hundshaus yfir þessum innkaupum og taldi sig hafa misst mikið nú þegar við erum ekki lengur saman í eldhúsinu að vaska upp. Reyndar kom svo uppúr dúrnum að honum þótti þessi fjárfesting alveg fáránleg sérstaklega vegna þess að græjan kostaði meira en Play station 3 sem hann hefði klárlega frekar vilja inná heimilið. Svona er nú forgangsröðun fólks misjöfn ;-)

19. janúar 2009

Af fundum, pólitík, íþróttum og afmæli ...

Byrjaði daginn á góðu samtali við slökkviliðsstjóra Hveragerðis þar sem við fórum vítt og breitt yfir málefni liðsins, útköll síðasta árs og fleira sem snýr að störfum slökkviliðsins. Við Hvergerðingar erum svo lánsöm að eiga afar góðan hóp brunavarða sem af áhuga og elju sinna störfum í slökkviliðinu þannig að eftir því er tekið.

Lokafundur dómnefndar í samkeppninni um nýjan miðbæ var í morgun og reyndar vel fram yfir hádegi. En við komumst að niðurstöðu um það hverjir hljóta verðlaun í keppninni og vitum núna hverjir eru höfundar einstakra tillagna. Ég tel keppnina hafa heppnast vel og efast ekki um að bæjarbúar eiga eftir að hafa mjög gaman af því að grandskoða þær tillögur sem bárust.

Skrapp síðan til fundar við Guðríði staðarhaldara á Landbúnaðarháskólanum að Reykjum og fórum við yfir hugmynd um verkefni sem skólinn og Hveragerðisbær munu sameinast um. Hagsmunir Landbúnaðarháskólans og Hveragerðisbæjar skarast á mörgum stöðum og samstarf okkar er þess vegna bæði náið og gott. Einu vandkvæðin eru bundin þeirri staðreynd að skólinn tilheyrir ekki sveitarfélaginu Hveragerði stjórnsýslulega séð og það getur á stundum valdið bæði misskilningi og ekki síður óþarfa flækjum. Auðvitað á að bæta úr þeim agnúa fljótt og vel....

Fór í sundleikfimi síðdegis og vakti það athygli mína hversu margir voru í og við Laugaskarð í dag. Öll bílastæði full og lagt bæði upp og niður brekkuna. Fjölmargir í ræktinni, hlaupahópurinn sem greinilega er afar virkur var mættur á svæðið, óvenjumargar mættar í sundleikfimi, hópur af ungmennum á sundæfingu og bæði ungir og gamlir í lauginni að njóta góðviðrisins. Svona á þetta auðvitað að vera í Heilsubænum Hveragerði :-)

Meirihlutafundur í kvöld til undirbúnings bæjarráði en einnig tókum við púlsinn á ýmsum öðrum málum er snerta bæjarfélagið. Lukum síðan kvöldinu á góðri rispu um landsmálin, af nógu er að taka á þeim vígstöðvum. Reyndar verð ég að segja að Framsóknarmenn eiga aulahroll vikunnar þegar þeim tókst að krýna til formennsku mann sem ekki hafði verið kosinn. Hvernig svona lagað getur gerst er óskiljanlegt!
Ég sárlega vorkenndi Höskuldi sem þarna þurfti að stíga úr pontu þangað kominn til að halda sigurræðu. Sigmundur Davíð kom sá og sigraði og það verður gaman að sjá hvernig honum mun ganga í stórsjó íslenskrar pólitíkur...
-----------------------

Annars er þetta merkilegur dagur því heimasíðan mín www.aldis.is er 5 ára í dag.
Fyrsta færslan var ekki merkileg enda fannst mér þetta fyrirbæri, blogg, harla undarlegt. En nú er aldis.is orðin stórvinkona mín sem mér þykir meira að segja svolítið vænt um. Hef því fullan hug á að halda uppá frekari afmæli síðunnar í framtíðinni.
Vona að lesendur fylgist því með áfram ;-)

18. janúar 2009

Afar líflegt og skemmtilegt var í 75 ára afmæli Jóns Helga Hálfdánarsonar í dag. Hann hélt einnig uppá þriggja ára edrú afmæli svo það var margföld ástæða til að samfagna honum og Jónu konu hans. Þó nokkur fjöldi brottfluttra Hvergerðinga mætti í veisluna en það var sérstaklega gaman að hitta þann hóp. Jón Helgi er afar litríkur karakter eins og heyra mátti í ræðum þeirra sem tóku til máls. Þannig fólk lífgar uppá tilveru okkar allra. Til hamingju Jón Helgi og Jóna!
----------------------
Síðasta vika var afar fljót að líða og einhvern veginn gafst ekki tóm eða nenna til að setja færslur á bloggið. Nóg samt um að vera eins og endranær! Fundur í dómnefndinni um miðbæjarskipulagið sem væntanlega lýkur störfum á morgun, mánudag. Stuttur en góður bæjarstjórnarfundur. Fundur um úrgangsmál sveitarfélaga og annar í stjórn Sorpstöðvar Suðurlands. Fundur með fulltrúum Árborgar og Strætós um upphaf almenningssamgangna sem er framar vonum. Fundur með fulltrúum OR um skemmtilegt verkefni sem verið er að reyna að koma á koppinn og ekki síður skemmtilegur blaðamannafundur með Geir Haarde um afgreiðslu tjónabóta vegna jarðskjálftans.
Og þetta eru bara helstu fundirnir...
Hef stundum sagt að fjölbreytni þeirra málaflokka sem detta inná borð sveitarstjórnarmanna sé með ólíkindum og nauðsynlegt sé að geta sett sig fljótt og vel inní mál sem maður jafnvel hefur ekki heyrt um áður. En það er líka þetta sem gerir starfið svo skemmtilegt.

13. janúar 2009

Fór í gærkvöldi á fund með Árna Sigfússyni og Kristjáni Þór Júlíussyni en þeir stýra Evrópunefndinni sem nú er á yfirreið um landið. Fóru þeir hratt yfir kosti og galla Evrópusambandsaðildar og gáfu síðan kost á umræðum og fyrirspurnum. Flestir þeir sem til máls tóku voru á móti aðild og færðu fyrir því hin ýmsu rök. Hinn aldni fyrrv. alþingismaður Pálmi Jónsson frá Akri var mættur á fundinn og mælti þar af skynsemi þess sem reynsluna hefur. Ekki var hann heillaður af því sem biði okkar innan ESB frekar en aðrir fundarmenn. Höfðu frummælendur á orði að fundurinn á Selfossi væri með þeim líflegri í fundaherferðinni enda var ég harla stolt af Árnesingum þetta kvöldið.
------------------
Dagurinn var erilsamur þó engin stórmál væru á ferðinni. Oft fer mikill tími í að svara erindum sem berast með tölvupósti og ræða við aðila sem annað hvort hringja eða líta við. Í dag ræddi ég við aðila innan Landbúnaðarráðuneytis vegna landamála, Jöfnunarsjóð vegna framlaga hans vegna nemenda með sérþarfir hér við Grunnskólann, oft var þörf en nú er nauðsyn að vera vel vakandi yfir þeim framlögum sem í sveitarsjóð eiga að koma. Heyrði líka í blaðamanni Fréttablaðsins sem hafði mikinn áhuga á jákvæðum og góðum fréttum, af nógu er að taka hér í bæ svo ég vona að sá fréttaflutningur verði góður.

Síðdegis og fram á kvöld fór ég yfir tillögur í miðbæjarsamkeppninni. Nú er hópurinn farinn að þrengjast. Nefndin hittist í fyrramálið og vonandi náum við að velja sigurvegarana þá eða allavega þrengja hringinn all verulega.
-------------------
Ég er búin að finna góða leið til að auka samskipti fjölskyldumeðlima! Þannig er að uppþvottavélin er búin að vera biluð síðan fyrir jól svo nú sameinast ungir sem aldnir við eldhúsvaskinn á kvöldin. Þar ræðum við landsins gagn og nauðsynjar og allt það sem gerðist þann daginn. Félagslega alveg frábært og slær jafnvel út "leiðindakvöldin" sem við reyndum að hafa hér um árið....

11. janúar 2009

Opið hús með Árna Math.

Laugardagurinn undirlagður fundahöldum en gestur opna hússins var Árni Mathiesen, fjármálaráðherra. Flutti hann góða ræðu þar sem hann fór ýtarlega yfir þau mál sem efst hafa verið í umræðunni undanfarið. Að því loknu svaraði hann fyrirspurnum frá fundargestum sem fylltu salinn þennan morgun. Mér fannst gott hljóð í gestum fundarins og spurningar þeirra gagnorðar. Fólk var kurteist og málefnalegt sem er nauðsynlegt jafnvel á tímum sem þessum.

Strax að loknu opnu húsi hófst fundur stjórnar kjördæmisráðs með Árna en þar var farið yfir stöðuna fyrir landsfund og fleira tengt störfum í kjördæminu.

Var ekki komin heim fyrr en undir 4 enda tafðist ég við spjall eftir fundinn.

Opnu húsin okkar Sjálfstæðismanna hafa fyrir löngu sannað gildi sitt en fjölmargir koma þar við á hverjum laugardagsmorgni. Stoppa stutt en koma oft er eitthvað sem margir eru orðnir vanir. Rúnstykkin og vínarbrauðin trekkja síðan alltaf.

Upphaflega vorum við að herma eftir Sauðárkróksbúum með þessi opnu hús en síðan eru þeir löngu hættir en við höldum alltaf áfram. Þetta er einn af föstu punktunum í tilverunni og ég held að bæjarbúum þyki gott að geta alltaf gengið að einhverjum bæjarfulltrúa vísum á þessum tíma. Stundum jafnvel öllum eins og núna síðast :-)
-------------------------
Jólaskrautinu var loksins pakkað niður núna um helgina. Þetta er heilmikil vinna fyrst að koma öllu upp og síðan að pakka öllu niður aftur. Hefur reyndar lagast mikið síðan við eignuðumst bílskúr með tilheyrandi geymsluplássi. Áður fór þetta fram með þeim hætti að fyrst var náð í skrautkassana í geymslu útí ísgerð.
Skreytt og farið með tómu kassana í geymsluna aftur. Eftir jól var náð í tómu kassana í geymsluna, pakkað niður og fjórða ferðin farin með kassana til baka ! ! !
Hótaði því líka undir lokin að hætta að halda jól, EN þá var líka settur gangur í bílskúrsbygginguna ;-)

9. janúar 2009

ESB, EES og sorp...

Byrjaði daginn eins og alltaf á því að lesa og svara tölvupósti. Var mætt á fund í Alþjóðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga kl. 9:30 þar sem farið var yfir starfið á árinu 2009 en óneitanlega ber það keim af þeirri miklu umræðu sem nú fer fram um hugsanlega aðild að ESB. Strax að loknum fundinum hófst fundur í Samráðsnefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og utanríkisráðuneytisins um EES samninginn. Þessi hópur hefur hist tvisvar á ári til að fara yfir þau mál sem unnið er að í samræmi við EES samninginn og kannað hvort og hvaða áhrif þau geta haft á starfsemi sveitarfélaga.

Var komin austur á Selfoss kl. 13 á fund í stjórn Sorpstöðvar Suðurlands. Þar sat ég sem varamaður Ólafs Áka sem væntanlega er nú á leið uppá einhvern tind í Andesfjöllunum að ég held. Fundurinn í stjórninni var mjög góður, fengum kynningu á þeim möguleikum sem eru varðandi starfsemi í Kirkjuferjuhjáleigu eftir að urðun þar verður hætt og ennfremur kynningu um Svæðisáætlun um meðferð sorps á suðvesturhorninu. Ég var óskaplega ánægð að sjá að þær athugasemdir sem við Hvergerðingar og fleiri gerðum við upphaflegu áætlanirnir hafa verið teknar til greina.
-------------------------------
Morgunblaðið segist vera með óháða umfjöllun um kosti og galla ESB aðildar í blöðunum þessa dagana. Verð þó að segja að mér finnst vera mikil slagsíða á umfjölluninni í þágu ESB. Þykir til dæmis merkilegt að í nokkurra síðna umfjöllun um áhrif ESB í Finnlandi skuli einungis hafa fundist einn viðmælandi sem gagnrýndi aðildina og afleiðingar hennar!

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Eyjum skrifar aftur á móti afar góða grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fer yfir áhrif ESB aðildar á náttúruauðlindir okkar. Greinilegt að hann hefur kynnt sér málið og fer hann í grein sinni yfir reynslu Norðmanna af aðildarviðræðunum. Þar komu engar ívilnanir eða undanþágur til greina. Sérmeðferðin fólst í aðlögunartíma og engu öðru. Þetta skulum við hafa hugfast í umræðunni.
------------------------------
Loksins viðraði til malbiksframkvæmda og var Þórsmörkin, ein elsta gata bæjarins, lögð malbiki í dag. Þar með fækkaði þeim götum sem enn eru ekki malbikaðar hér í Hveragerði! Svona hefst þetta allt saman....

8. janúar 2009

Bæjarráðsfundurinn í morgun var stuttur og góður enda ekki mörg mál á borði bæjarráðs svona snemma árs. Þó var þar bréf frá sveitarstjórninni í Ölfusi þar sem samningnum um sameiginlegt slökkvilið þessara sveitarfélaga er sagt upp. Bæjarráð samþykkti það erindi með stuttri bókun en hana má lesa hér.

Á fundinum ákvað bæjarráð einnig að taka þátt í átaki Menntamálaráðuneytisins um betri líðan og heilsu framhaldsskólanema og gefa öllum þeim sem framvísa gildu skólaskírteini í framhaldsskóla frítt í sund vikuna 19. - 26. janúar. Með því móti geta allir nemar á þessu skólastigi hvar sem þeir annars búa komið hingað og prufað sundlaugina í Laugaskarði. Helst eiga þeir að synda 200 metrana og svo teljum við saman hversu margir metrar verða syntir í lauginni þessa viku ;-)
-------------------------
Ræddi lengi við Guðbrand Gíslason, forsvarsmann "Auga Óðins" í dag. Augað er einskonar gestastofa/safn þar sem hinn forni átrúnaður Íslendinga, Ásatrúin, verður kynntur. Guðbrandur vinnur að því að opna "Augað" í Eden og skilst mér að þeir samningar séu á lokastigi. Það verður mjög spennandi að fylgjast með verkefninu og ekki síður mikilvægt að starfsemi hefjist í Eden hið fyrsta. Reyndar þurfum við að venja okkur við annað heiti á staðnum því tæplega er hægt að kynna ásatrúna í Eden. Staðurinn mun því heita "Auga Óðins".
------------------------
Vann í því í dag að tryggja lánafyrirgreiðslu fyrir Hveragerðisbæ til að útvega fé til þeirra framkvæmda sem við áætlum að fara í á árinu og ekki síður til að loka þeirri fjárvöntun sem er fyrirsjáanleg samkvæmt áætluninni. Þrátt fyrir allt þá er sú fjárvöntun miklu minni en margra annarra sveitarfélaga enda er handbært fé frá rekstri jákvætt um 90 milljónir. Gert er ráð fyrir að taka 250 milljónir í ný langtímalán og ef það tekst verður hægt að fara í þær fjárfestingar sem við gerðum ráð fyrir á fjárhagsáætlun. Best er ef fjármagn fæst frá Lánasjóði sveitarfélaganna þar sem þar eru að mínu mati langhagstæðustu kjörin sem okkur bjóðast í dag. Vöntun á fjármagni í landinu er aftur á móti alvarleg ógnun við allan rekstur í dag og afar margir um þær fáu krónur sem í boði eru.
------------------------
Hittumst síðdegis við systurnar og mamma. Það er ósköp notalegt að hafa stórfjölskylduna alla á sömu þúfunni og gott að vita til þess að þangað getur maður ávallt leitað. Nú fáum við hér á Heiðmörkinni til dæmis að passa Hauk litla hennar Guðrúnar á morgun en það þykir okkur afar skemmtilegt. Litla Hafrún hennar Sigurbjargar heiðraði okkur með nærveru sinni í vikunni og það var líka yndislegt. Albert heimsækir síðan ömmu og frænkurnar eftir skóla svo þetta er frábært samkrull...

7. janúar 2009

Fundur í dómnefndinni um miðbæjarskipulagið í morgun. Fundirnir eru afar skemmtilegir og gaman að velta fyrir sér tillögunum og ekki síður að sjá hversu fjölbreyttar þær eru.

Þrjú viðtöl við aðila sem höfðu mismunandi erindi fram að færa. Mér þykir afar vænt um það hversu margir koma til að ræða hin ýmsu málefni og oftar en ekki tekst að leysa þau mál sem berast.

Kláraði mál og ræddi við ýmsa í síma og aldrei þessu vant voru ráðuneytin oft á línunni í dag. Heilbrigðisráðherra kynnti sparnaðaráform sín í heilbrigðiskerfinu og eins og við var að búast mun þeirra gæta hér á Suðurlandi. Ég geri ekki athugasemdir við allt sem sett var fram en sérstaklega er ástæða til að hafa áhyggjur af framtíð fæðingardeildarinnar á Selfossi. Ef ekki eru lengur bakvaktir á skurðstofu er raunhæf hætta á því að fæðingum fækki mjög mikið og jafnvel svo mjög að rekstri deildarinnar verði sjálf hætt. Slíkum niðurskurði verðum við Sunnlendingar að berjast gegn enda hefur fæðingardeildin á Selfossi veitt afskaplega góða þjónustu og verið framarlega á sínu sviði. Mun örugglega skrifa meira um þetta mál síðar.

Týndi sonurinn í Þýskalandi er með nýja færslu á blogginu og sendi hann móður sinni líka tóninn á Facebook. Hann var aldeilis ekki sammála færslunni hér í gær og það er greinilegt að rökræður eru iðkaðar af miklum móð í Latina August Francke :-)

6. janúar 2009

Mér er misboðið...

Hef fyrir löngu komist að því að ég er með of ríka réttlætiskennd og tjái mig í ofanálag stundum alltof harkalega. Ég hef aftur á móti að ég held tamið mér ákveðna hófsemi í skrifum á blogginu enda á stundum varla prenthæfar þær skoðanir sem ég á það til að hafa! ! !

En nú get ég ekki orða bundist! Hvers vegna í veröldinni fordæma leiðtogar mínir í Sjálfstæðisflokknum ekki innrás Ísraelsmanna á Gaza?
Hvers vegna er verið að hengja við yfirlýsingu þeirra undirlægjulegri athugasemd um það að Hamas eigi nú líka sök á ástandinu? Það veit öll íslenska þjóðin og væntanlega flestir aðrir líka að Hamas eru hryðjuverkasamtök sem hafa framið ólýsanleg illvirki. En það er ekkert sem réttlætir þær miskunnarlausu árásir sem nú eiga sér stað á óbreytta borgara Gaza svæðisins. Börn láta lífið og heilu fjölskyldurnar eru myrtar. Ráðist er á skóla fullan af fólki sem leitaði sér þar skjóls. Skóla sem rekinn er af Sameinuðu þjóðunum og merktur kyrfilega sem slíkur eins og kemur fram í viðtali á BBC. Erlendir fréttamenn hafa ekki lengur aðgang að svæðinu, engar fréttir berast þaðan að heitið getur. Þess vegna var viðtalið við norska lækninn í ríkissjónvarpinu í kvöld svo átakanlegt en lýsti um leið því ástandi sem nú ríkir á svæðinu. Ástandi sem er heimsbyggðinni til skammar.

Palestínumenn eru fólk eins og við. Sem fer í vinnu, stundar skóla, elskar börnin sín og vill búa sér öruggt heimili. Við hljótum öll að finna til samkenndar með þessari þjóð sem fátt hefur sér til saka unnið annað en að eiga ekki lengur stað sem þau geta kallað sinn eigin. Friður hefur oft verið nærri á þessu svæði en ávallt er þeim málum klúðrað. Svo ég vitni aftur í Gandhi sem sagði: "An eye for an eye makes the bird go blind", þessi orð lýsa ástandinu vel.

Það er líka rétt að gleyma ekki stærðunum sem verið er að tala um hér. Gaza svæðið er 378 km2 en til samanburðar má geta þess að Sveitarfélagið Ölfus er um 1000 km2. Á þessu svæði hýrist nú 1,5 milljón óbreyttra borgara innilokaðir og undir stöðugum árásum frá einum best búna her heims. Mannfallið er þegar gífurlegt um 700 eru látnir og á þriðja þúsund limlestir og slasaðir. Undir 10 Ísraelsmenn hafa látið lífið eftir að árásin byrjaði!

Það var útaf málum sem þessum sem ég gekk í Amnesty International fyrir nokkrum árum. Við getum ekki setið hjá og látið sem ekkert sé. Við eigum sem borgarar þessa heims alltaf að fordæma árásir á börn og óbreytta borgara.

Það eiga leiðtogar Sjálfstæðisflokksins líka að gera.

Hér má sjá frétt BBC um árásina á skóla Sameinuðu þjóðanna.

Hér er slóð inná síðu Amnesty International þar sem skorað er á Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að grípa þegar til aðgerða sem tryggt geta öryggi óbreyttra borgara.


-------------------------------
Við Helga kláruðum greinargerðina með fjárhagsáætlun í dag og verður hún sett á heimasíðu bæjarins á morgun. Þar er að finna útskýringar á hinum ýmsu útgjaldaliðum en við leggjum mikið á okkur til að halda í plagginu hinum ýmsu söguskýringum á tilurð hinna ýmsu verkefna svo það verður gaman að sjá hversu löng greinargerðin verður eftir nokkur ár ;-)

Þrettándagleðin "Kátt er undir Hamrinum" var haldin íkvöld og mætti miklu fleira fólk en ég átti vön á. Þetta var hin skemmtilegasta stund, álfasöngur, jólasveinar og Grýla og Leppalúði. Eldur, kyndlar og flugeldasýning. Gaman að þessu.

Sat yfir tillögum í miðbæjarsamkeppninni að lokinni þrettándagleðinni. Reglur um keppnina eru mjög strangar og ekki má fara með nein gögn útúr húsinu sem dómnefndin starfar í. Því hýrðist ég ein yfir tillögunum í húsi útí bæ í kvöld.

5. janúar 2009

Aftur til vinnu ...

Ein hafði á orði í vinnunni að það þyrfti aðlögunartíma til að geta byrjað að vinna eftir svona gott frí. Það eru orð að sönnu en samt var nú gott að komast aftur að borðinu og koma tilverunni í venjubundna rútínu.

Byrjaði daginn með því að fara yfir tölvupóst og raða honum í réttar skúffur. Er komið með ansi gott kerfi á tölvupóstinum sem á að gera það að verkum að enginn þeirra týnist í meðförum og allir fá svar eins fljótt og hægt er.

Átti síðan tvo fundi með leikskólastjórum bæði Undralands og Óskalands þar sem við fórum yfir starfið sem er framundan á leikskólunum. Við erum heppin með starfsfólk og á leikskólunum er unnið afar gott starf sem er skemmtilegt að fylgjast með. Þó verðum við að gæta þar ítrasta aðhalds í rekstri en eins og hægt er án þess að það komi niður á þjónustunni við börnin. Hef fulla trú á að það muni takast. Nú er verið að taka inn litlu krílin sem eru 18 mánaða og held ég að velflest börn á þeim aldri komist nú inn á leikskóla.

Hitti Ingu Jónsdóttur forstöðumann Listasafns Árnesinga og fórum við yfir þær sýningar sem framundan eru í safninu. Mjög metnaðarfull starfsemi sem nýtur sífellt meiri vinsælda. Það er gaman að segja frá því að tvær sýningar safnsins voru í umfjöllun Önnu Jóa um bestu sýningar ársins 2008 sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins um áramótin. Það var annarsvegar sýningin sem tileinkuð var Magnúsi Kjartanssyni og hins vegar Picasso í íslenskri myndlist. Yfirlitssýningin á verkum Magnúsar var einnig tilnefnd af öllum gagnrýnendum sem eins besta sýning síðasta árs. Þetta er feikilega góður vitnisburður um það gæðastarf sem unnið er í safninu. Við Inga fórum í dag yfir þá möguleika sem gefast á uppsetningu og sýningu á tillögum í samkeppninni um skipulag miðbæjarins sem við viljum gjarnan setja upp í Listasafninu. Það á vafalaust eftir að smella saman.

Undirbjó bæjarráðsfund og vann síðan í greinargerð með fjárhagsáætlun sem verður gefin út í hefðbundnu handhægu broti núna í janúar. Það er þónokkur vinna að fara yfir alla liði aftur og setja inn texta um rekstrarliði bæjarins og þær breytingar sem þar eru helstar.

Meirihlutafundur í kvöld venju samkvæmt þar sem farið var yfir fundargögn bæjarráðs.
--------------------------------
Stundum er maður ótrúlega langt á eftir í fréttum og lestri! Í gærkvöldi hlustaði ég fyrst á frægt viðtal Evu Maríu við Pál Skúlason, fyrrv. háskólarektor. Sumir menn eru einfaldlega snjallari en aðrir við að færa hugsanir sínar í orð. Snillingar eru þeir sem hafa þennan eiginleika en líka skarpan hug og ríkulegan skammt af heilbrigðri skynsemi. Slíkt einkennir orð Páls. Hlustið á viðtalið hér.

4. janúar 2009

 
Posted by Picasa
Þéttur snjórinn lá yfir öllu rétt fyrir jól en hefur síðan ekki látið sjá sig...

 
Posted by Picasa
Flugeldasýning Hjálparsveitarinnar við brennuna á Gamlárskvöld var mikið sjónarspil...

Nú fjölmenna allir á þrettándagleðina "kátt er undir Hamrinum" á þriðjudagskvöld. Mæting við kirkjuna kl. 20 og gengið saman inní skógrækt þar sem við eigum saman skemmtilega stund.

 
Posted by Picasa
Chrissie Thelma var fyrsti farþeginn frá Hveragerði sem notaði Strætó síðastliðinn föstudag. Munið að ókeypis er í allar ferðir til 12. janúar. Nú er um að gera að fara prufurúnt í bæinn ;-)

3. janúar 2009

Af ofbeldi og visku...

Allir hljóta að hafa áhyggjur af ólátum eins og þeim sem brutust út við upptökur á Kryddsíldinni á Gamlársdag og sem reyndar hafa ítrekað blossað upp undanfarna mánuði. Í kjölfarið sátum við Lárus fyrst yfir annálum ársins 2008 og síðan fréttum af Kryddsíldar atgangnum og reyndum að útskýra fyrir Tim að svona hefði Ísland aldrei verið. Við værum líka að sjá svona ólæti í fyrsta skipti. Við reyndum eins og við gátum að sannfæra hann, og kannski ekki síður okkur sjálf, um að hegðun sem þessi væri okkur Íslendingum ekki eðlislæg. Óánægjan væri skiljanleg og mótmæli og ræður á götum úti, en handalögmál, piparúði og skemmdarverk væru andstæð þjóðarsálinni. Kannski er það af því að við erum svo fá. Við myndum örugglega hvert og eitt okkar þekkja nokkra af mótmælendunum ef þeir hefðu ekki hulið andlit sín og það er greinilegt að óróaseggirnir vilja ekki þekkjast. Hörðustu mótmælendur fyrri ára lifa við þann orðstí ævina á enda hér á landi. Í íslenskri þjóðarsál er orðstírinn mikilvægur!

Orðstírinn er aftur á móti ekki öllum þjóðum jafn mikilvægur og greinilegt er að Ísraelsmönnum er ekki annt um sinn. Mannvonskan og grimmdin sem rekur þá áfram gagnvart Palestínumönnum er fyrir flesta óskiljanleg. Stríð er í mínum huga aldrei réttlætanlegt enda eru það þeir saklausu sem mest missa af þeirra völdum.

Mahatama Gandhi forðaðist ofbeldi af öllu tagi. Hann iðkaði aftur á móti borgaralega óhlýðni sem vopn í sinni baráttu. Hann sagði þessi fleygu orð sem margir þeir sem kalla eftir réttlæti ættu að geta huggað sig við:

"When I despair, I remember that all through history the way of truth and love has always won. There have been tyrants and murderers and for a time they seem invincible, but in the end, they always fall — think of it, always."
----------------------------------
Úr því að ég er nú farin að vitna í spekinga þá gaf pabbi mér einu sinni bók sem af notkun er orðin velkt en sem betur fer og væntanlega af fenginni reynslu höfðu útgefendur hana í plasti. Þetta er "Bókin um veginn" eftir Lao Tse, í hana hef ég oft leitað þegar mikið liggur við.
Þar segir meðal annars:

1. Af mergð litanna fá menn glýju í augun, fjölbreyttir hljómar sljóvga eyrum, gómtamir réttir spilla bragðnæmi manna, veðhlaup og veiðar trylla þá, og þegar kostgripir eru í boði, verða menn á báðum áttum.

2. Þess vegna vakir hinn vitri yfir hugskoti sínu, en ekki skilningarvitunum. Hann hverfur frá þeim og leitar heim til sálar sinnar.


Lin Yutang þýddi bókina úr kínversku yfir á ensku árið 1948, Í formála hans að þeirri útgáfu segir:Sá sem flettir bókinni um Taó í fyrsta sinn á bágt með að verjast hláti, en við annan lestur hlær hann að sjálfum sér fyrir að hafa hlegið hið fyrra sinn; þegar hann les bókina í þriðja sinn kemst hann að þeirri niðurstöðu að fræði af þessu tagi muni vera meira en lítið þarfleg núna.

Halldór Laxness bætir við í formála sínum árið 1971 að þetta yfirlætislausa "núna" gæti átt við hvaða tíma sem vera skal! Ætli við árið 2009 getum síðan ekki bætt um betur og sagt að þetta "núna" geti allt eins verið núna!

Að því að best er vitað var Lao Tse fæddur árið 604 fyrir Krist.
------------------------------
Reykjavíkurferð fjölskyldunnar í dag. Litum á nokkrar útsölur sem var ekki karlpeningnum til neinnar gleði. Kolaportið er aftur á móti endalaus uppspretta skemmtilegrar afþreyingar. Kaffivagninn á Grandagarði er líka klassískur viðkomustaður sem aldrei svíkur! Enduðum síðan í bíó þar sem við sáum hina frábæru mynd "Australia". Mæli eindregið með henni. Þriggja tíma en við hefðum auðveldlega og með mikilli ánægju setið aðra þrjá í andakt. Nicole Kidman á heimavelli og Ástralía frá sínum bestu hliðum, stórbrotin náttúra og saga.
--------------------------------
Kláraði bókina Glerkastalinn eftir Jeannette Walls í gær og fyrst ég er nú farin að mæla með afþreyingu þá er best að mæla með þeirri bók líka. Fantagóð lýsing á fjölskyldulífi sem maður vill ekki vita að sé til. Í gegnum lýsingarnar skín síðan sjálfsöryggi og skilningur stúlku sem barðist fyrir sínu og náði metorðum þrátt fyrir sárustu fátækt og fullkomið hirðuleysi foreldranna. Þeim tókst aftur á móti að gefa börnum sínum sjálfsöryggi og trú á eigin getu sem þrátt fyrir algjöran skort á öllu sem við teljum nauðsynjar reyndist þeim gott veganesti.Hér er skemmtilegt viðtal við Jeannette!

2. janúar 2009

Vaknaði fyrir allar aldir í morgun til að ná fyrstu ferð strætós héðan frá Hveragerði í morgun en við Ragnheiður í Árborg höfðum ákveðið að fara saman á þennan rúnt. Var ég þar af leiðandi mætt í Shell vel fyrir 7 og beið í ofvæni eftir bílnum. Það kom okkur skemmtilega á óvart að við vorum ekki einar eins og við höfðum átt von á en þrír farþegar tóku sér far með þessari fyrstu ferð. Auk þeirra voru Jón Hjartarsson og Þorvaldur Guðmundsson bæjarfulltrúar í Árborg með í för. Bíllinn var kominn 5 mínútum fyrir áætlaðan tíma í bæinn svo nægur tími hefði gefist til að ná til dæmis strætó vestur í bæ ef það hefði verið ætlunin. Þetta er ósköp þægilegur ferðamáti og það væsti ekki um okkur í vagninum. Ég efast ekki um að margir eiga eftir að nýta sér þessa þjónustu enda mikið framfaraskref.

Ókeypis verður í vagnana til 12. janúar svo það er um að gera að nota nú tækifærið og bregða sér til höfuðborgarinnar og prufukeyra strætó.

Þegar ég kom austur dvaldist mér lengi í Shell og fann þá að það er rétti staðurinn til að hitta fólk enda fjölmargir sem leggja þangað leið sína á morgnana. Gaman að því!
--------------------
Er í fríi fram yfir helgi svo restin af deginum fór í tiltekt og stúss hérna heima. Við Svava brugðum okkur síðan í göngutúr um bæinn, skoðuðum hús, garða, göngustíga og jólaljós og höfðum gaman af. Það er mikið skreytt hér í bæ og íbúar leggja mikið á sig til að skreytingarnar verði sem fallegastar, það lífgar óneitanlega uppá skammdegið.
--------------------
Mikið er nú rætt um Evrópusambandið og hugsanlega aðild okkar Íslendinga að því. Ég hef hingað til verið á þeirri skoðun að það væri ekki gæfuspor ef við stigum yfir þann þröskuld enda hef ég ekki trú á því að hlustað verði lengi á rödd okkar í þeim góða klúbbi. Yfirráð yfir auðlindum til lands og sjávar eru okkur afar mikilvæg og þróun landbúnaðar í afskekktum héruðum Evrópusambandsins ætti að vera okkur víti til varnaðar. Mér er líka annt um sjálfstæði okkar og finnst sem hetjur fyrri tíma hafi barist til einskis ef við ætlum að fleygja okkur í fangið á Evrópusambandinu við fyrsta mótlæti. Ég hef í tvígang komið til Brussel og það sem eftir situr að loknum þeim heimsóknum er þvílíkt ofboðslegt bákn Evrópusambandið er. Held að við sem þjóð getum seint gert okkur gildandi þannig að nokkru nemi þar í borg.

1. janúar 2009

Gleðilegt nýár kæru vinir !

Jólahátíðin að baki með allri sinni gleði og veisluhöldum. Nýársheitið afar hefðbundið og verður vafalaust ekki efnt frekar en fyrri árin ;-)

Áramótin fóru vel fram, myndarleg brenna og glæsileg flugeldasýning enda veðurblíðan mikil í gærkvöldi. Menn nokkuð ánægðir með skaupið á mínu heimili. Kreppan hafði ekki svo neinu næmi sett mark sitt á flugeldainnkaup fjölskyldnanna sem hittust á Heiðmörkinni til að skjóta upp á miðnætti, ungviðinu til mikillar gleði. Freyðivín og huggulegheit fram eftir nóttu og endað á fjölskyldukeppni í Íslands spilinu sem var möndlugjöfin í ár. Ansi skemmtilegt spil sem allir geta skemmt sér við.

Það skyggði þó á gleðina að einhverjum fannst við hæfi að ræna flugeldum frá Hjálparsveitinni, það er varla hægt að leggjast mikið lægra finnst mér...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet