<$BlogRSDUrl$>

17. desember 2015

Bláhver fór í prentun í dag. Nokkuð þykkur og ágætlega efnismikill.  Vegna þess hvað hann er seinn á ferðinni í ár verðum við að hlaupa með hann i hús.  Stundum er ég svo óendanlega þakklát fyrir landfræðilega smæð Hveragerðisbæjar :-)

Bæjarráðsfundur í morgun þar sem meðal annars var úthlutað lóð í iðnaðarhverfinu.  Það hefur ekki verið gert síðan fyrir hrun svo það er ánægjulegt að bætt skuli vera við atvinnuhúsnæði í bænum. 
Guðmundur, skipulags- og byggingafulltrúi, sagði mér í morgun að þónokkrir væru að drífa sig að greiða gatnagerðargjöld á lóðum fyrir áramót.  Það er allt á fullu í uppbyggingu og þeir sem hafa áhuga á því geta kíkt inná fasteignasölusíðu mbl.is og séð að það eru sárafáar húseignir til sölu í Hveragerði og flestar seljast án auglýsingar þar sem beðið er eftir húsum hér núna. 

Fór til Reykjavíkur með Ara Thorarensen, bæjarfulltrúa í Árborg og formanni stjórnar Brunavarna, eftir bæjarráðsfundinn en þar áttum við ásamt Ingibjörgu Harðardóttur, sveitarstjóra í GOGG stefnumót við valda umsækjendur um stöðu slökkviliðsstjóra Árnesþings.  Afskaplega frambærilegir menn allir saman og gaman að hitta þann góða hóp sem sækist eftir að stýra slökkviliðinu okkar.   Við munum stíga næsta skref í þessum viðræðum á mánudaginn kemur. 

Gat rétt kíkt í vinnuna síðdegis, svarað tölvupóstum og sinnt símtölum áður en jólahlaðborð Kjörís hófst á kaffistofunni kl. 17.  Þetta var mjög skemmtileg stund og gaman að hitta vinnufélagana fyrrverandi.  Það er svo góður hópur sem vinnur hjá Kjörís og heldur mikilli tryggð við fyrirtækið.  34% starfsmanna hefur til dæmis unnið lengur en 15 ár hjá Kjörís og tæplega helmingur eða 47% hefur unnið þar lengur en í 10 ár.   Enn skemmtilegra er að segja frá því að starfsmannahópurinn samanstendur af 30% konum en 70% eru karlmenn.  Einhverjir hefðu kannski haldið að það væri öfugt en Kjörís er einn fjölmennasti karlavinnustaður bæjarins. 



Þessum upplýsingum nappaði ég úr árlegu fréttabréfi Kjöris sem hann Anton á heiðurinn af.  Virkilega glæsilega gert, Toni :-)

Kvöldið fór síðan í tiltekt á Heiðmörkinni sem verður framhaldið á morgun.  Erum að velta fyrir okkur að hefja búskap á ný þó að það sé nú óendanlega þægilegt að vera komin aftur algjörlega áhyggjulaus í foreldrahús. 


Síða úr fréttabréfi Kjörís 2015 ...




16. desember 2015

Heilsufarsmæling í vinnunni í morgun. Ansi ánægð með niðurstöðurnar sem voru fínar á langflestum sviðum.  Ákveðið var að bjóða öllum starfsmönnum Hveragerðisbæjar upp á heilsufarsmælingu hjúkrunarfræðings.  Þetta mælist sýnist mér afar vel fyrir og er liður í ábyrgri starfsmannastefnu bæjarins.

Ráðstefna um endurmat á yfirfærslu málefna fatlaðs fólks á Hilton Nordica eftir hádegi. Fjöldi erinda fluttur um þau mál sem efst eru á baugi.  En fyrst og fremst var fjallað um nýgerðan samning ríkis og sveitarfélaga sem ætti að tryggja sveitarfélögunum 1,5 milljarð til viðbótar inn í málaflokkinn.  Ekki mun af veita því tapið á árið 2015 bara hér á Suðurlandi stefnir í 120 mkr. 

Ég flutti þarna stutt erindi um málefni heimilismanna á Ási er tilheyra geðsviði Landspítala og einnig um málefni gamla Kópavogshælisins eða deild 18 og 20 á Landsspitala eins og hún heitir í dag. Þessir einstaklingar voru alilr skyldir eftir við yfirfærsluna en ekki er fjallað sérstaklega um þeirra mál né fjármunir settir til breytinga sem víða eru nauðsynlegar. 

Til fróðleiks má geta þess að þegar flest var voru um 65 heimilismenn hér á Ási frá geðsviði Landspitala, en nú eru hér 35 einstaklingar.  Það er kannski ekki svo undarlegt að þessir einstaklingar hafi í gegnum árin verið áberandi í bæjarfélaginu verandi stórt hlutfall af bæjarbúum. En allt hafa þetta verið góðir einstaklingar sem hafa samlagast ágætlega hér.  Ég tel líka að við sem hér búum höfum orðið víðsýnnig og umburðarlyndari fyrir vikið. Það er eiginleiki Hvergerðinga sem ég tel vera afar góðan. 








15. desember 2015

Lísa og Pétur komu á fund í dag en hún er með tjaldsvæði bæjarins á leigu. Ræddum við um þann hvimleiða sið margra að gista utan tjaldsvæðanna í bænum. Núna má tjalda bæði við Reykjamörk og eins á Árhólmasvæðinu en samt voru margir sem gistu vítt og breitt um bæinn og þá sérstaklega "bílafólkið".  Margir komu sér fyrir í bílum sínum á plönum við stofnanir, á planinu við Dalakaffi og meira að segja á plönum í miðbænum.  Hvað frumlegast þótt mér þó að heyra af hjónum sem völdu að stilla bílnum sínum innst í botnlanga í Kambahrauninu í nokkra daga og gistu þar af leiðandi við hliðina á þeim sem þarna búa. Það gekk auðvitað ekki og tjaldsvæðavörðurinn kallaður til einu sinni sem oftar en Lísa hefur heimild til að rukka alla sem hún finnur utan tjaldsvæða ef þeir sinna ekki tilmælum um að gista á tjaldsvæðinu. 

Eftir hádegi átti ég fund með íslenskum og erlendum aðilum sem nú eru að gera tilraunir með þörungaræktun í tilraunahúsinu að Reykjum.  Stórmerkileg tilraun sem virðist ganga svo vel að nú er uppbygging stórtækrar verksmiðju í vinnslu.  Hér eru aðstæður kannski ekki með besta móti fyrir jafn stór áform og þarna eru uppi en ég mun líta þannig á að uppbygging við Hellisheiðarvirkjun ef af verður muni nýtast okkur Hvergerðingum hvað best allra.  Þangað er sárstutt og klárlega verða öll störf sem þar skapast fýsileg fyrir okkur hér í Hveragerði.

Skrifaði erindi sem ég mun halda á fundi á morgun þar sem fjalla á um endurmatið á málefnum fatlaðs fólks.  Ég mun fjalla um þá óvissu sem ríkir um framtíð geðrýmanna á Ási nú þegar sú umræða virðist ríkjandi að þau eigi að falla undir málefni fatlaðs fólks en ekki vera skilgreind sem geðhjúkrunarrými.  Einnig mun ég fjalla um deildir 18 og 20 á Landsspítalanum í Kópavogi (gamla Kópavogshælið) en þar búa nú 10 einstaklingar sem virðast vera fallnir milli skips og bryggju í kerfunum því enginn telur sig eiga að greiða fyrir uppbyggingu búsetu úrræðis sem bjóða á þessum einstaklingum. 

Læt fljóta með mynd af lýsingunni á gufustróknum i Hveragarðinum.  Þetta kemur ótrúlega vel út.  Í dag komu hingað fulltrúar Kynnisferða að skoða möguleika á vetrarferðum hingað.  Vonandi kemur eitthvað gott út úr því en lýsingin í Hveragarðinum er partur á því verkefni. Davíð er að gera góða hluti hér í Hveró ! 


Hér er svo ein af flottu jólatrjánum okkar í miðbænum.  Þau í áhaldahúsinu eiga heiður skilinn fyrir skreytingar bæjarins í ár.  Virkilega flottar og metnaðarfullar.  Allt saman snillingar ! ! ! 


Verst að ég nennti ekki heim að ná í almennilega myndavél því þá hefði þetta orðið miklu glæsilegra hjá mér.  Það er víst ábyggilega ekki hægt að mæla með myndavélinni í IPhone 5 ! ! !  !


 

14. desember 2015

Helgin fór að mestu í að skrifa og ganga frá Bláhver, blaði Sjálfstæðismanna.  Það er alveg merkilegt að þó ég viti auðvitað með árs fyrirvara að það þarf að skrifa viðtal og annál og fleira lendi ég alltaf í þessu á síðustu stundu.  Það er auðvitað sama syndrómið og með jólakortin.  Það er nú ekki eins og maður viti ekki að það þurfi að gera þetta og þess vegna væri mögulegt að klára þetta í október !

Reyndar var ég ansi snögg með jólakortin í ár.  Fékk líka ótrúlega góða aðstoð.  Við Albert frændi sátum saman vel fram yfir miðnætti um helgina og bjuggum til jólakortaverksmiðju.  Ég skrifaði texta og hann setti í umslög og lokaði.  Þetta var nú frekar notalegt :-)  

Það hefur ótvíræða kosti að búa hjá mömmu og spurning hvort að við förum nokkuð heim aftur !
Hér var til dæmis baðstofulíf um helgina, en þá komu einmitt Albert móðurbróðir minn, Ingibjörg og Óskar.  Öll gistu hjá mömmu og svo vorum við Lárus hér líka. Það er allavega ekki dauflegt á Þelamörkinni, mikið spilað, spjallað og hlegið.  Spurning hvort að það sé ekki algjör óþarfi að allir hírist í sínum eigin húsum.  Það væri mikill sparnaður í fjölskyldukommúnu  :-)

Jólahlaðborð vinnufélaganna á Hótel Örk á föstudagskvöld. Ellefu ára afmæli Hauks í gær með íslensku jólahlaðborði og indversk veisla í kvöld hjá Bani og Putul sem hingað eru komin frá Indlandi.  
Ofátið tekur engan enda - því miður ! ! ! 


Þarna sjáið þið líka málverkið "Dancing peacocks and solar eruption"...  Það gerir að ég held enginn líflegri og litríkari myndir en hann Bani, vinur Hveragerðis ! 
  

Úr því ég er að sýna ykkur svona merkilega hluti þá er hér mynd af honum Óskari frænda sem fann svona líka flott jólajakkaföt á netinu - töffari !


Í vinnunni í dag áttum við góðan fund með aðilum sem kynntu fyrir okkur skráningarkerfi fyrir heimaþjónustu.  Mjög athyglisvert og næsta öruggt að við munum stíga þetta skref. 

Hingað koma síðan ýmsir sem vilja ræða við bæjarstjórann en þau viðtöl eiga oftast ekkert erindi hér á veraldarvefinn.  Það eru mjög fjölbreytt mál, allt frá vanda einstaklinga, til starfsmannamála og verkefni sem einstaka stofnanir standa frammi fyrir.  Mér þykir afar vænt um að fólk komi til að ræða við mig.  Þess vegna eru engir sérstakir viðtalstímar, ef ég er við og ekki upptekin í öðru legg ég áherslu á að ræða við þá sem til mín leita.  Það þykir mér afar gott...  

Ég hef aðeins orðið vör við að íbúa haldi að ég hafi verið í París á vegum Hveragerðisbæjar.  Vil nota þetta tækfæri til að leiðrétta þann misskilning.  Ég var þar á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga á fundi í nefnd sveitarstjórna og svæða í Evrópu en þar hef ég átt sæti í nokkurn tíma.  Samhliða þessum fundi voru haldnar þrjá aðrar ráðstefnur fyrir sveitarstjórnarfólk, meðal annars sú sem ég sagði frá hér áður og önnur um það hvernig konur geta mætt áskorunum loftslagsmála.

Síðdegis notaði ég gjafakort sem ég átti í Riverside Spa á Selfossi.  Mikið rosalega var það notalegt.  Nudd og dekur og algjör afslöppun í Spa´inu.  Það er heilshugar hægt að mæla með Riverside.  Ekki síst þegar maður er einn á staðnum - það er meiriháttar :-)




5. desember 2015

Ráðstefna bæjarstjóra í París í dag.  1.000 bæjarstjórar mættu í ráðhúsið í París, Hotel de Ville, og ræddu loftslagsmál og hvaða leiðir okkur ber að grípa til eigi ekki að fara illa fyrir okkur öllum á næstu áratugum.

Það var athyglisvert að heyra að 70% af öllum gróðurhúsalofttegundnum myndast  í borgunum sem sífellt verða stærri og stærri.  Kína var áberandi á ráðstefnunni og kynntar voru þær aðgerðir sem þar er verið að grípa til sem eru umfangsmiklar.  Það er áberandi að allir hér eru að auka vægi rafmagnsbíla og eins hjólreiða og annara umhverfisvænni ferðamáta.  Sett í samhengi við Hveragerði þá er auðvitað næstum því hjákátlegt að við skulum keyra okkur í vinnuna.  Það ætti allavega að vera hægt á sumrin að nýta aðra ferðamáta og minnka þannig mengun.  Við berum nefnilega öll ábyrgð.

Annars má ég til að sýna ykkur myndir af Robert Redford og Leonardo di Caprio sem ég tók i dag. Þeir héldu báðir ræður og voru ansi góðir :-) 



Síðan fannst sessunautum mínum þeim Birni Blöndal og Degi B. Eggertssyni ekki leiðinlegt að þetta skyldi vera bakgrunnur fundarins í þónokkuð langan tíma:






3. desember 2015

Komin til Parísar þar sem fundað er í nefnd þar sem ég á sæti,  CEMR (Commitee of European municipalities and regions).  Anne Hidalgo borgarstjóri Parísarborgar boðar samhliða til ráðstefnu borgar- og bæjarstjóra (local leaders) um loftslagsmál og munum við Eiríkur Björn, bæjarstjóri á Akureyri og Halla Steinólfsdóttir, Dalabyggð, taka þátt í þeirri ráðstefnu.  Um helgina munu síðan konur hittast og ræða loftslagsmál og aðgerðir til úrbóta. Fjöldi annarra viðburða er hér tengdur þessum málum sem við ætlum að taka þátt í.  Verður spennandi að sjá hvernig til tekst. En einhvern veginn liggur í loftinu vilji til að gera miklu betur en nú er gert og meðvitund um nauðsyn þess að það verði að veruleika.  Við Íslendingar getum ekki skilað auðu í þeirri umræðu. 

Hér er slóðin inná ráðstefnu Local leaders:   http://climatesummitlocalleaders.paris/livestream/

Þarna munu ýmsir mektarmenn og konur miðla af reynslu sinni til okkar hinna.  En ég verð að játa að ég er svo hégómleg að það vakti sérstaka athygli að sjá nöfn Arnold Schwarzenegger og Robert Redford á dagskránni.  Það yrði nú upplifun að detta um þá hérna.

Ég var í fyrstu örlítið smeik við að fara til Parísar eftir ódæðisverkin sem hér voru framin en auðvitað eru líkurnar á að slíkt endurtaki sig næstum því engar og til þess að eitthvað komi fyrir mann hér þarf stjarnfræðilega óheppni.  Við finnum samt vel fyrir óttanum sem búið hefur um sig í samfélaginu.  Hef til dæmis hvergi áður verið strand í landgangi flugvélar.  Öryggiseftirlitið var svo strangt á Charles de Gaulle að það tók hálftíma að komast í gegnum landganginn.  Hótelið okkar er í þriðja hverfi eða í Le Marais sem er afar skemmtilegt og fjölþjóðlegt.  Við gengum áðan framhjá barnaskóla gyðinga sem er hér rétt hjá og þar voru fjóriri hermenn með hríðskotabyssur sem gættu barnanna þegar þau fóru út.  Það var svolítið óhuggulegt !
---------------------

2. desember 2015

Dagurinn hófst að sjálfsögðu á zumba kl. 6 og núna vaknaði ég á undan klukkunni. Varð að deila því með ykkur því allir sem þekkja mig vita að svoleiðis er fullkomlega andstætt mínum karakter.  En þetta segir kannski mest til um það hvað mér finnst zumba skemmtilegt!  Mér hefur alla ævi þótt einstaklega gaman að dansa og þarna fæ ég heilmikla útrás fyrir það og hörkuæfingu að auki.

Hefði auðvitað átt að vera byrjuð löngu fyrr en gat það aldrei út af hnénu.  Hann Jasek læknir á Selfossi er bjarvættur minn þar.  Ég slasaðist þegar ég var 18 ára og skemmdi á mér hnéð og var aldrei góð eftir það. Alltaf að snúa mig úr lið að ég hélt og í öll þessi ár hef ég haldið að þetta væri bara svona og ég yrði bara að lifa með verki og iðka íþróttir við  hæfi öryrkja.  Var svo  sem  ekkert að velta mér uppúr þessu, gat gert ýmislegt en ekki allt og var bara ánægð með að geta þó eitthvað.  

Í fyrra keyrði um þverbak, hnéð hrökk í baklás og ég gat varla gengið í marga mánuði.  Þá lenti ég fyrir tiljviljun hjá honum Jasek!  Hann sendi mig í segulómun sem enginn hafði gert áður þrátt fyrir að ég hafði oft heimsótt lækna.  Þá kom loksins í ljós að ég var með brjósk laust í liðnum og það var það sem allan tímann var að ergja mig.  Fór í aðgerð fyrir ári og núna er þetta allt annað líf.  Verð aldrei alveg eins og ný - en það er enginn að biðja um það :-)  

Hugsið ykkur ef að ég hefði nú látið laga þetta fyrr, þá hefði ég kannski orðið að íþróttaálfi - það hefði nú reyndar algjörlega útúr karakter :-)

Mjög skemmtilegar upplýsingar um kosningaþátttöku í síðustu sveitarstjórnarkosningum. 

1. desember 2015

Við Helga vorum megnið af deginum lokaðar inni við skrif á greinargerð fyrir fjárhagsárið 2016 og síðan einnig fyrir þriggja ára áætlun áranna 2017-2019.  Næsta ár verður heilmikið framkvæmdaár.  Við ætlum að hefja byggingu nýs leikskóla, breyta afgreiðslu og efri hæð sundlaugarinnar og setja malbik og lýsingu á hluta bílaplans við Hamarshöllin.  Það sást best núna um helgina hversu aðkallandi slíkt er. 
Við Helga kláruðum einnig kynningu fyrir bæjarstjórn í næstu viku á fjárhagsáætlununum og eins gerðum við gjaldskrárbreytingar tilbúnar sem þurfa samþykkt ráðuneytis og birtingu í Stjórnartíðindum. 

Fundarboð bæjarráðs fór út rafrænt í dag til bæjarráðsmanna og er það í fyrsta sinn sem það er gert.  Þetta er enn tilraunastarfsemi en væntanlega erum við hér með hætt að senda út fundarboð bæjarráðs á pappír.  Gáfum út í dag að það sama myndi gilda um bæjarstjórn á nýju ári.

Góður zumba tími síðdegis og annar kl. 6 í fyrramálið svo það er eins gott að fara snemma að sofa. 

Verð samt áður að deila með ykkur þessari flottu mynd af húsinu okkar í kvöld.  Það var eins og í ævintýraveröld umhverfið hér í Hveragerði í kvöld.  Enda ekki annað hægt en að fara út og njóta þess. 
 

Það gerði líka hann Gosi sem kom út að halda mér selskap.   Hann er alveg að verða almennilegur heimilisköttur sem manni líkar vel við.  Hélt í marga mánuði að það myndi aldrei gerast eins og þið kannski munið. En það var ansi merkilegt hversu gaman honum þótti í lausamjöllinni. Kötturinn var eins og krakki stökkvandi á kaf í skaflana og skemmti sér greinilega konunglega :-)



Við Helga, skrifstofustjóri, höfum fyrir vana að skrifa greinargerð með fjárhagsáætlun hvers árs í sameiningu.  Mér finnst þetta ansi skemmtilegt, við förum þá enn eina ferðina yfir reksturinn.  Reiknum og ræðum hvað stendur til að gera á næsta ári og hvernig þetta á nú allt að hanga saman. Greinargerðin stefnir í að verða um 40 blaðsíður svo þetta er þónokkur vinna. Við erum rúmlega hálfnaðar eftir daginn í dag og ætlum gjarnan að klára þetta á morgun.  

Nú undirbúum við tvo fundi í einu, bæði bæjarráð núna á fimmtudaginn og einnig bæjarstjórnarfund sem haldinn verður á fimmtudaginn í næstu viku.  Ég yfirgef svæðið á fimmtudaginn og kem ekki aftur fyrr en á miðvikudaginní næstu viku.  Fundarboð bæjarstjórnar þarf aftur á móti að fara út á þriðjudaginn svo það þarf að vera klárt áður en ég fer.  

Fundur í stjórn Sambands Íslenskra sveitarfélaga síðdegis þar sem rætt var um endurskoðun á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks.  Lending náðist í stjórn sem verður kynnt fljótlega. 

Meirihutafundur í kvöld var góður og fjölmörg mál tekin á dagskrá.  Hópurinn er afskaplega góður svo þetta er alltaf gaman. 

Síðasti þáttur af Brúnni var ótrúlega góður,  þessi séria er held ég sú besta hingað til.  Greinilega verður framhald á...

Verð að sýna ykkur nýjustu jólaskreytinguna hjá Sunnumörk.  Bæjarskrifstofuturninn er orðinn svona líka jólalegur ;-)




This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet