1. desember 2015
Við Helga vorum megnið af deginum lokaðar inni við skrif á greinargerð fyrir fjárhagsárið 2016 og síðan einnig fyrir þriggja ára áætlun áranna 2017-2019. Næsta ár verður heilmikið framkvæmdaár. Við ætlum að hefja byggingu nýs leikskóla, breyta afgreiðslu og efri hæð sundlaugarinnar og setja malbik og lýsingu á hluta bílaplans við Hamarshöllin. Það sást best núna um helgina hversu aðkallandi slíkt er.
Við Helga kláruðum einnig kynningu fyrir bæjarstjórn í næstu viku á fjárhagsáætlununum og eins gerðum við gjaldskrárbreytingar tilbúnar sem þurfa samþykkt ráðuneytis og birtingu í Stjórnartíðindum.
Fundarboð bæjarráðs fór út rafrænt í dag til bæjarráðsmanna og er það í fyrsta sinn sem það er gert. Þetta er enn tilraunastarfsemi en væntanlega erum við hér með hætt að senda út fundarboð bæjarráðs á pappír. Gáfum út í dag að það sama myndi gilda um bæjarstjórn á nýju ári.
Góður zumba tími síðdegis og annar kl. 6 í fyrramálið svo það er eins gott að fara snemma að sofa.
Verð samt áður að deila með ykkur þessari flottu mynd af húsinu okkar í kvöld. Það var eins og í ævintýraveröld umhverfið hér í Hveragerði í kvöld. Enda ekki annað hægt en að fara út og njóta þess.
Það gerði líka hann Gosi sem kom út að halda mér selskap. Hann er alveg að verða almennilegur heimilisköttur sem manni líkar vel við. Hélt í marga mánuði að það myndi aldrei gerast eins og þið kannski munið. En það var ansi merkilegt hversu gaman honum þótti í lausamjöllinni. Kötturinn var eins og krakki stökkvandi á kaf í skaflana og skemmti sér greinilega konunglega :-)
Comments:
Skrifa ummæli