<$BlogRSDUrl$>

29. júní 2005

Ný fyrirtæki opna, önnur stækka ...

Alltaf gaman þegar vel gengur hjá fyrirtækjum en í dag mættu fjölmargir til að fagna opnun skrifstofuhótels hér í Hveragerði sem rekið er í samvinnu Sunnan3 og Byrs. Um leið flutti Byr, sem er alhliða bókhalds-, skrifstofuþjónusta og fasteignasala, í nýuppgert húsnæði þar sem öll aðstaða er eins og best verður á kosið. Það eru þær Bryndís Sigurðardóttir og Soffía Theódórsdóttir sem eiga og reka Byr og hafa gert af miklum myndarskap frá stofnun. Nú þegar hafa ýmsir aðilar sýnt skrifstofuhótelinu áhuga og einn leigjandi er mættur á svæðið. Ég hef mikla trú á rekstri skrifstofuhótelanna sem rekin verða hér í Hveragerði, á Selfossi og í Þorlákshöfn. Á svæðinu býr mikill fjöldi fólks sem vinnur á höfuðborgarsvæðinu en mun án vafa vilja nýta sér þá aðstöðu sem skrifstofuhótelin bjóða uppá og sleppa um leið við aksturinn yfir Heiðina ! !
--------------------
Í dag opnaði ný fiskbúð, Humarbúðin, í Verslunarmiðstöðinni við Sunnumörk. Örtröð var á þessum fyrsta degi og greinilegt að bæjarbúar kunnu vel að meta þessa nýbreytni í verslunarflórunni. Gaman að það skuli vera Þorlákshafnarbúarnir í Portland sem reka verslunina og því eðlilegt að humar í hinni fjölbreytilegustu mynd sé stolt nýju fiskbúðarinnar.

Það er ástæða til að gleðjast yfir þessum nýju vinnustöðum sem eru frábær viðbót við atvinnu og verslun í Hveragerði.

28. júní 2005

Góðar fréttir gleðja ! !

Sum mál eru þess eðlis að þau snerta réttlætiskennd allra sem um þau heyra.
Þannig er með mál Mukhtar Mai í Pakistan sem brotið var á með grimmilegum og ómanneskjulegum hætti af þeim sem valdið hafa í hennar byggðarlagi. Ég hef eins og flestir aðrir fylgst með í fjarska og fylltist gleði og bjartsýni fyrir hönd kynsystra í fjarlægu landi þegar ég heyrði í fréttum í dag að þrautsegja þessarar ótrúlegu baráttukonu hefði borið árangur og hún unnið hlutasigur í hæstarétti lands síns í dag.
Það er ekki oft sem heimsbyggðin verður vitni að jafn staðföstum vilja einstaklings og því brýtur mál sem þetta blað. Nú mun verða fylgst með því hvort hæstiréttur í Pakistan muni nota tækifærið og sýna að vilji til að verja stöðu kvenna í landinu sé í raun til staðar.
Því miður verða of margir að þola og búa við óréttlæti. Við sem búum í einu frjálsasta ríki heims getum ekki leyft okkur að sitja hjá heldur eigum að styðja öll þau málefni sem lúta að betri heimi og réttlátara umhverfi fyrir alla. Um leið verðum við og eigum að virða og vernda þann fjölbreytileika sem felst í hinum mismunandi menningarheimum.

Lesið um Mukhtar Mai og þar með sannfærist maður um að hver einstaklingur getur og á að skipta máli.
-------------------------------

Það var ánægjulegt að sjá hversu góð útkoma Sjálfstæðisflokksins hér í Suðurkjördæmi var í síðustu skoðanakönnun Gallup. Mikil fylgisaukning virðist vera í uppsiglingu og ljóst að fundaherferð vorsins hefur bæði vakið athygli og mælst vel fyrir. Nú er mikilvægt að halda dampi og ná þannig góðri útkomu í sveitarstjórnarkosningum í vor.
--------------------

27. júní 2005

Það er erfitt að komast hjá því að fylgjast með upphlaupinu í þjóðfélaginu vegna fréttaflutnings síðustu daga af einkamálum "fræga" fólksins. Furðulegt að nokkrum heilvita manni skuli detta til hugar að skrifa fréttir af þessu tagi. Reyndar efast margir um dómgreind og vitsmuni þeirra sem þarna halda á penna en það jákvæða við þetta er að nú fékk þjóðin loksins nóg af óvönduðum og ómálefnalegum fréttum enda um fátt annað meira rætt. Að sjálfsögðu á að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort umfjöllum af þessu tagi sé yfirleitt lögleg, en síðan er auðvelt að sýna hug sinn í verki með því að kaupa ekki blöðin sem hér um ræðir.

Reyndar er maður að drukkna í dagblöðum þessa dagana. Nú kemur Fréttablaðið með öll sín fylgiblöð inn um lúguna daglega og bætist við hnausþykka hrúguna sem var fyrir í formi Morgunblaðsins og þess sem því fylgir. Það er hálfsdagsvinna að lesa þessi ósköp öll enda fer bunkinn(lesist: Fréttablaðið) iðulega ólesinn í endurvinnsluna.
Það er litið á það sem hluta af þegnskylduvinnunni á þessu heimili að renna yfir Moggann, þó ekki sé nema til að fylgjst með dánartilkynningunum.
---------------------------------
Það er gróska í sýningahaldi hér í Hveragerði en í dag var opnuð í Eden myndlistarsýning færeyska listamannsins Hilmars Höjgaards. Hilmar er frá Toftum sem er vinabær Hveragerðis í Færeyjum. Við opnunina spilaði Hörður Friðþjófsson á gítar og fórst honum það vel úr hendi eins og við var að búast. Kíkið á myndirnar hér.
Okkur taldist til að nú væru 7 listamenn að sýna hér í Hveragerði, Jonathan Meetz á vegum listahátíðar í Listasafni Árnesinga, Hilmar Höjgaard í Eden, Bennó G. Ægisson í Kjöt og Kúnst, Alda Ármanna Sveinsdóttir í Blómaborg, Guðmunda Hulda Jóhannesdóttir í Kaffi Kidda Rót og í bókasafninu sýna þau Alda Ármanna, Gísli J. Ástþórsson og Víðir Ingólfur Þrastarson. Örugglega ekki mörg bæjarfélög af okkar stærðargráðu sem geta slegið þessu við!!
------------------
Það er alltaf gaman að geta bent á skemmtilegar heimasíður, ungir sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ eiga heiður skilið fyrir frábæra síðu, lítið á hana hér.
------------------
Nýjar myndir eru komnar inná myndasíðuna, úr Grímsnesinu og nokkrar úr sólstöðugleðinni.
------------------

26. júní 2005

Á fimmtudaginn var ég viðstödd undirritun fjögurra ára þríhliða samnings milli Fjölbrautaskóla Suðurlands, Sveitarfélagsins Árborgar og fyrirtækisins Sideline Sports um Körfuknattleiksakademíu FSu. Gert er ráð fyrir að 16 afrekspiltar í körfubolta stundi nám á hinum ýmsu námsbrautum skólans en fái jafnframt þjálfun við hæfi í körfuknattleik. Vonast er til að með þessu séu skapaðar allra bestu aðstæður fyrir hæfileikaríka og metnaðarfulla körfuknattleiksmenn til að ná hámarksárangri í íþróttinni án þess að það bitni á náminu. Ári síðar eða haustið 2006 er stefnt að sams konar tilboði til afreksstúlkna í körfu. Að lokinni undirritun sýndu þeir Einar Njálsson, bæjarstjóri Árborgar, og Brynjar Karl frá Sideline þvílíka snilldartakta í körfu að þeir rötuðu í sjónvarpsfréttir.
--------------------------------
Árvisst ástand er að skapast í Kjörís þegar tæplega hefst undan að framleiða. Nú var unnið allan laugardaginn og veitti ekki af. Við Valdimar mættum með strákana til að leysa af í mat og kaffi og var það ekki leiðinlegt. Förum alls ekki nógu oft í salinn og því erum við ekki eins handfljót og þeir sem vanari eru. Þóttumst orðin þolanleg undir lokin en aðrir höfðu af tilburðunum hina mestu skemmtun!
---------------------------
Slepptum Borgarnesmóti í knattspyrnu þetta árið. Höfum annars farið 7 eða 8 sumur í röð. Um helgina varð að slá utan af bílskúrsökklinum og hafði það forgang. Veðurspáin var nú heldur ekki hvetjandi, rok og rigning. Þannig að fjölskyldan var alsæl heima við. Horfði á "Lord of the rings I" með Bjarna, en hann er ákafur aðdáandi Tolkiens. Hafði ekki hingað til gefið mér tíma til að horfa á þessi ósköp (nær því 4 tímar í "special edition"). En nú verð ég að horfa á hinar tvær fljótlega, ekki hægt að hætta í miðju kafi. Bjarna hefndist fyrir, því Grundarsystur lánuðu mér fyrir löngu "Keeping up appearances" sem eru frábærir breskir þættir. Notuðum við tímann um helgina til að rifja upp kynnin við Hyacinth Bucket og hennar fólk. Hef sjaldan séð eins fyndna karaktera í sjónvarpi, Onslow og Violet eru auðvitað þjóðsagnapersónur á mínu heimili, eins og margir vita.
Þeir eru bara snillingar, Bretarnir ! !

Þið ráðið hvort þið trúið því en það eru til heimasíður helgaðar þessum frábæru þáttum! !
Meira að segja stórþjóðin þarna hinu megin við sundið elskar Hyacinth :-)
---------------------------
Í dag sunnudag rofaði til veðurfarslega hér fyrir sunnan og gripum við tækifærið og eyddum deginum í Grímsnesinu. Gengum á Hestfjall en þaðan er frábært útsýni yfir Suðurlandsundirlendið. Fórum að ráðum Ara Trausta og hans góðu göngubókar og gengum frá Vatnsnesi. Varð þetta því góð 3 tíma ganga.
Komum við á Sólheimum á leiðinni heim, skoðuðum þar sýningar sem settar hafa verið upp í tilefni af 75 ára afmæli staðarins. Heimsókn til Sólheima er alltaf skemmtileg, margt að skoða og staðurinn bæði snyrtilegur og fallegur.
--------------------
Mér skilst að einmuna veðurblíða hafi glatt Austfirðinga um helgina, skógardagar voru haldnir í Hallormsstaðaskógi og er frábært að vita til þess að "Sunnlendingar á þessum slóðum" skuli fá að upplifa skóginn og Austurland allt skarta sínu fegursta.

23. júní 2005

Í fréttum er þetta helst ...

Eins og ávallt var slegist um Sunnlenska fréttablaðið þegar það datt inn um lúguna í kvöld. Hér leitar hver að sínu áhugamáli í blaðinu og oftar en ekki ber leitin árangur. Körfunni og Íþróttafélaginu Hamri eru gerð góð skil og fréttamennirnir eru ólatir við að lesa fundargerðir bæjarstjórnar enda oft ýmislegt fréttnæmt sem þar kemur fram. Í dag er heilmikil umfjöllun um ársreikninga sveitarfélaga á Suðurlandi enda hefur komið í ljós að þau velflest eru rekin með tapi. Okkur Hvergerðingum er gert hátt undir höfði í umfjölluninni en sérstök grein er í blaðinu um ársreikning okkar og þær athugasemdir sem minnihlutinn gerði við rekstur bæjarins.

Það er alltaf jákvætt þegar fjölmiðlar sinna því hlutverki sínu að miðla upplýsingum til lesenda sinna og hefur mér þótt Sunnlenska fréttablaðið sinna því með prýði.
Síðan eru pistlarnir hans Bjarni Harðarsonar oftast nær bráðskemmtilegir og ekki spillir það fyrir. Sunnlenska er einungis borið til áskrifenda sem án vafa mættu vera fleiri en Glugginn, sem er hitt stóra fréttablaðið á svæðinu, er borinn í öll hús. Það er oft gaman að sjá hve áherslur þessara blaða eru mismunandi, bæði góð hvort á sinn hátt.

Útgáfustarfsemi er í blóma því þriðja blaðið Dagskráin kemur einnig út vikulega. Þar situr fréttahaukurinn Magnús Hlynur einn við stjórnvölinn eins og hann hefur gert undanfarin ár.
Reyndar gremjulegt að engin sjónvarpsdagskrá skuli vera í Dagskránni ! !

Það sem okkur aftur á móti bráðvantar hér á Suðurlandi er virkilega lifandi fréttavefur. Sá sem reyndar kemst næst því er sjálfsagt vefur Sunnlenska en hann á samt nokkuð í það að standa jafnfætis þeim sem bestir eru á þessu sviðð eins og til dæmis bb.is og skagafjordur.com.
Góður lifandi fréttavefur af Suðurlandi öllu gæti orðið mjög vinsæll og nýst fleirum en bara okkur íbúunum, minni á allt sumarbústaðafólkið og ferðamennina sem hingað koma og myndu ólmir vilja meiri og betri upplýsingar.

22. júní 2005

Framkvæmdagleði í bænum ...

Þessa dagana er mikið fjör í bygginga- og skipulagsnefnd Hveragerðisbæjar.
Verið er að leggja lokahönd á síðustu drög að nýja aðalskipulaginu en mikil og skemmtileg vinna hefur farið fram í kringum það. Í dag var kynnt skýrsla varðandi umferðarskipulag bæjarins þar sem margar góðar, já og líka umdeilanlegar hugmyndir, eru settar fram. Ákvaðum við í kjölfarið að fá upplýsingar um slysatíðni í bæjarfélaginu síðastliðin 10 ár og einnig lögðum við til að bæjarfélagið yrði áskrifandi að gagnabanka Umferðarstofu en þannig er betur hægt að átta sig á hvar skóinn kreppir í umferðaröryggismálum.

Á hverjum fundi í nefndinni eru lagðar fram fjölmargar byggingateikningar að nýjum húsum enda eftirspurn mikil eftir húsnæði hér í bæ. Fundur var í nefndinni í dag en þar voru samþykktar teikningar af 4 einbýlishúsum í nýju Valsheiðinni og af þriggja íbúða raðhúsi í Hraunbænum. Margir tugir íbúða í rað-, fjölbýlis- og einbýlishúsum eru nú í byggingu og lætur nærri að um 600 manns muni bætast við íbúatölu bæjarins þegar flutt hefur verið í allar íbúðirnar. Hér gætir áhrifa höfuðborgarinnar af fullum þunga og vandamál okkar er helst það hvernig beri að stýra þessari uppbyggingu allri.
Á fundinum í dag var einnig lögð fram teikning að hinu nýja sambýli við Birkimörk. Þar munu verða 5 íbúðir fyrir fjölfatlað, hreyfihamlað fólk ásamt sameiginlegu rými. Húsið er 425 fermetrar að stærð og er það ásamt öllu umhverfi mjög vel hannað.
Húsið fer reyndar örlítið út fyrir byggingareit og því samþykkti nefndin ekki teikningarnar heldur vísaði þeim í grenndarkynningu eins og lögum samkvæmt ber að gera.
-----------------------
Það eru ekki bara byggð ný hús hér í Hveragerði, miklar endurbætur eiga sér einnig stað á eldra húsnæði. Aðdáendur bílskúrbyggingarinnar á Heiðmörkinni geta nú hætt að gera grín að okkur fyrir hve hægfara fæðing skúrsins hefur verið, en í dag mættu hér steypubílar og gengi af iðnaðarmönnum sem steyptu loksins sökklana undir tilvonandi bílskúr.
------------------------
Veðráttan hér er annaðhvort í ökkla eða eyra. Eftir hitabylgju helgarinnar var ekki annað að gera en að finna húfurnar og vettlingana í morgun enda sýndu mælar rétt um 5° hita. Þeir allra árrisulustu sögðu að hefði snjóað í Hengilinn og spá þeir nú áframhaldandi leiðindum. Reyndar ánægjulegt fyrir þá sem eru í öðrum landshlutum og fá þá kannski notið blíðunnar á meðan ! !
----------------------
Nokkrar nýjar myndir frá hátíðahöldunum 17. júní komnar á myndasíðu.

21. júní 2005

Af nágrönnum...

Kíki stundum á bráðskemmtilega pistla sr. Baldurs Kristjánssonar í Þorlákshöfn.
Hann hefur skoðanir á flestu og er óhræddur við að láta þær í ljós. Sá að hann var að skrifa um upplifun sína hér í Hveragerði á 17. júní og ákvað að deila þessu með ykkur. Hef þá trú að hann hafi verið með skynsamlegar pælingar í kirkjunni en reyndar er það rétt hjá honum að fáir mættu, ég tók góða veðrið framyfir guðsorðið þennan dag en einhverjir dugnaðarforkar úr stórfjölskyldunni skunduðu í messu beint úr morgunmatnum í grunnskólanum.

"Ég þarf að flytja einhvers konar Þjóðhátíðarprédikun 17. júní í Hveragerðiskirkju. Þetta þarf helst að vera einhver skynsamleg pæling því að þó að fáir mæti þarna upp í Hveragerði og láti sér slétt sama um það hvað presturinn segi þá má maður til þó ekki sé nema vegna eigin sjálfsvirðingar að reyna að segja eitthvað af viti.
Ég var látinn flytja þjóðhátíðarræðu "í túninu heima" á Höfn nokkrum sinnum, yfirleitt í kulda og trekki. Svo saung karlakórinn Jökull og krakkar fóru í leiki og keyptu blöðrur og ís.
Ég setti mig í ákaflega hefðbundnar stellingar, las brot úr ljóðum þjóðskálda og lagði út af. Þetta var eins og að tipla á góðum steinum yfir á. Ritningarstaðirnir í Biblíu þjóðrækninnar sátu vel, öruggir, margreyndir, orðin falleg, hljómmikil og vel rímuð..."


Vel þess virði að fylgjast með sr. Baldri...

20. júní 2005

Síðbúin afmælisveisla ...

Það er búið að vera heilmikið fjör um helgina en á laugardagskvöldið héldum við Lárus afskaplega síðbúna afmælisveislu í tilefni af fertugsafmæli mínu sem var í desember síðastliðnum. Það er ekki hægt að neita því að gaman er að prófa hvernig er að eiga afmæli að sumri þegar maður hefur hingað til boðið gestum jólaglögg, eplaskífur og piparkökur á afmælisdaginn í svartasta skammdeginu. Var löngu búin að ákveða að hafa sumarsólstöðufagnað en eins og alþjóð veit ber 21. desember uppá vetrarsólstöður ! !
Það var gaman að geta boðið gestum til veislu í nýuppgerðum sal gamla hótelsins í Hveragerði og mál manna að vel hefði tekist til með endurbætur á þessu fallega húsi.
Systkini mín sáu um það að engum leiddist í veislunni og höfðu lagt heilmikla vinnu í hin ýmsu atriði, verst ef mannorð manns er farið veg allrar veraldar eftir þá útreið :-)
Hver lendir líka í svínslegum spurningaleik "Viltu verða fertug (nokkuð)" í afmælinu sínu?
Verð einnig að dást að vinkonum mínum úr MA sem sungu frumsamið lag við feykigóðar undirtektir, þessi hópur gæti gert út á söng í veislum, þær eru svo góðar í faginu. Verðum líka óstöðvandi hér eftir, því tvær helgar í röð hafa MA systur troðið upp. Geri aðrir betur :-)
Þetta var ógleymanlegt kvöld í góðra vina hópi og vona ég að gestir okkar hafi skemmt sér jafn vel og við.
Mun setja myndir úr afmælinu og reyndar einnig frá 17. júní hátíðahöldunum inná myndasíðuna fljótlega.

17. júní 2005

Gleðilega þjóðhátíð ! !

Veðrið lék aðalhlutverkið á 17. júní þetta árið. Maður trúði varla sínum eigin augum þegar litið var út í morgun og ekki sást skýhnoðri á himni og hitinn nálgaðist tugina tvo með leifturhraða. Þeir alsvartsýnustu litu út og höfðu á orði að það hlyti að þykkna upp og fara að rigna uppúr hádegi. Þeir höfðu aldeilis ekki rétt fyrir sér. Brakandi blíða í allan dag ! !
Hátíðahöld dagsins báru keim af góðviðrinu enda allir léttklæddir í sínu besta sumarskapi. Dagurinn hófst með morgunleikfimi og morgunmat við Grunnskólann sem er nýjung hér í bæ. Síðan tók messa við og skrúðganga hófst samkvæmt venju klukkan hálf tvö. Við sem búum í neðra þorpinu verðum að fara að taka okkur taki því ósköp var hópurinn okkar visinn í samanburði við fólksflauminn sem mætti okkur úr efra þorpinu. Gengið var uppað sundlaug en þar fer hátíðadagskráin ávallt fram. Umgjörðin er einstaklega falleg og góð aðstaða til að fylgjast með atriðum dagsins þegar setið er í brekkunni umhverfis laugina. Halldór Gylfason, leikari, fór á kostum sem kynnir dagsins, sérstaklega féll viðstöddum vel lag eitt sem hann flutti og var um Selfoss og Selfyssinga ! ! !
Dagskráin við sundlaugina var að flestu leyti hefðbundin, Þorsteinn Hjartarson flutti ávarp forseta bæjarstjórnar, Vignir Sigurðsson, ræðu nýstúdents og Margrét Guðumundsdóttir var glæsileg sem fjallkonan.
Bæjarstjórnin fékk það hlutverk að keppa í pönnukökubakstri/áti og gekk það vonum framar, dregið var í lið þannig að keppt var þvert á flokkslínur. Karlarnir hesthúsuðu flestar pönnukökurnar og var ekki annað hægt en að dást að þeim fyrir þrautsegjuna. Löng hefð er fyrir laugargríni og í ár fólst það keppni í reiptogi milli kvenna á vinnustöðum bæjarins, Ás sigraði eftir mikla og harða keppni við HNLFÍ.
Að formlegri dagskrá lokinni tók við líf og fjör út um allan bæ, leiktæki, hestaferðir, kaffisala íþróttafélagsins, kayak sigling á ánni, svifbrú og fleira og fleira. Nóg til þess að halda fólki uppteknu allan daginn. Í kvöld voru síðan fjölsóttir útitónleikar með "heima" hljómsveitinni Á móti sól, þangað komu líka persónur úr Ávaxtakörfunni sem gerðu heilmikla lukku hjá unga fólkinu.
Um fátt annað var meira rætt manna á millum heldur en fádæma heppni okkar veðurfarslega séð. Við Hvergerðingar erum mun vanari rigningu og roki á 17. heldur en suðrænni sumarblíðu enda sjálfsagt hátt í 20 ár síðan hér var svipað veður á þjóðhátíðardaginn.

14. júní 2005

Stiklað á stóru ...

Nefnd um sameiningu í Flóa og Ölfusi fundaði í annað sinn í gær.
Á fundinum var gengið frá ráðningu Sigurðar Tómasar Björgvinssonar, ráðgjafa, sem verða mun verkefnisstjóri okkar í því ferli sem hafið er. Það er mikill fengur í því að fá jafn hæfan mann í þetta verk því hann hefur bæði þekkingu á svæðinu og reynslu af sameiningum sem án efa á eftir að koma sér vel. Á fundinum voru skipaðir þrír, fjögurra manna, vinnuhópar sem hver um sig mun fjalla um ákveðna afmarkaða málaflokka. Þeir eru fjölskyldu- og velferðarmál, atvinnu-, skipulags- og umhverfismál og Fjármál og stjórnsýsla. Fulltrúar okkar Hvergerðinga í hópunum eru Sigríður Kristjánsdóttir, Pálína Sigurjónsdóttir og Herdís Þórðardóttir.

Enn liggur ekki fyrir hvert verður framlag Jöfnunarsjóðs vegna þessarar vinnu. Við höfum þegar sótt um framlag til sjóðsins en svar hefur ekki borist við því erindi ! ! Það er ljóst að ekkert sveitarfélag hefur gert ráð fyrir útgjöldum til þessa verkefnis í fjárhagsáætlun ársins og ennfremur er nokkuð ljóst að ekki þykir eðlilegt að sveitarfélög þurfi að bera fjárhagslegar byrðar vegna kosninganna. Kosninga sem ekki eru að okkar frumkvæði.
----------------------
Á skólanefndarfundi í gærkvöldi var gengið frá ráðningu nokkurra nýrra kennara. Nú hefur tekist að ráða tónmenntakennara og er það vel. Nýr smíðakennari tekur til starfa og gaman að sjá reynslubolta eins og Ara Eggerts koma til kennslu á ný.
Mikil umræða varð í nefndinni um niðurstöður samræmdra prófa en því miður komu Hvergerðingar ekki nógu vel út þetta árið. Grípa á til aðgerða innan skólans í haust sem miða að því að bæta þennan árangur en einnig er horft til aukins samstarfs heimila og skóla en nauðsynlegt er að bæta þar um betur.
Bæjarstjórn hefur falið skólanefnd að vinna skólastefnu fyrir Hveragerðisbæ og var það ekki seinna vænna. Skólamálin voru sett á oddinn í kosningabaráttunni síðustu og nú eru síðustu forvöð að krafla í bakkann á því sviði svona rétt fyrir kosningar, en batnandi mönnum er best að lifa og það verður gaman að taka þátt í þeirri vinnu þegar hún hefst í haust.
----------------------
Bæjarstjórn og skipulags- og bygginganefnd funduðu sameiginlega í dag. Lagði hópurinn blessun sína yfir drög að nýju aðalskipulagi sem lögð verða fyrir borgarafund þann 12. júlí næstkomandi. Þetta aðalskipulag hefur verið unnið í mikilli sátt allra flokka og flestir ágætlega sáttir, það eru örfá atriði sem að mínu mati hefði mátt vinna með öðrum hætti en þau snúa sérstaklega að uppbyggingu útivistar og íþróttasvæða í bænum. Nú er aftur á móti spurning hvað bæjarbúar segja á fundinum í júlí.
------------------------
HSK mótið í sundi fór fram í Laugaskarði í dag. Þrjú lið mættu til leiks, Selfoss, Hamar og Laugdælir. Selfoss vann stigakeppnina en lið Hamars lenti í öðru sæti. Við erum aftur á móti ákveðin í því að á næsta ári munum við leita hefnda og ná þessum titli hingað til Hveragerðisbæjar :-)
Krakkarnir hér hafa flest hver einungis æft í ár en þau sýna öll miklar framfarir og áhuginn er mikill sem skiptir öllu máli.

12. júní 2005

Frænkuboð og brúðkaup



Vel var mætt í frænkuboðið í Hveragerði í dag. Afkomendur Valdimars og Guðrúnar frá Hreiðri í Holtum halda vel hópinn og hér er kvenleggurinn saman kominn, fyrir utan yngstu kynslóðina. Reyndar eru þrír laumufarþegar í hópnum, en Guðrún Margrét, Fjóla og Hrefna eiga allar von á barni í lok sumars ! !
---------------------------------
Fórum seinnipartinn í brúðkaup Brynju og Óla Þórs, brúðhjónin falleg og athöfnin yndisleg eins og vera ber. Börnin þeirra tvö, Haraldur og Indíana, hjálpuðu til þannig að þetta var sannkallað fjölskyldubrúðkaup. MA systur voru með söng atriði og Ásta með myndasýningu og skemmtum við okkur konunglega við þessa iðju.
Hamingjuóskir til fjölskyldunnar á Bakkastöðum.
-----------------------
Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður þingflokks Sjálfstæðismanna, heldur úti mjög skemmtilegum og lifandi vef þar sem hann fjallar um það sem efst er á baugi hverju sinni.
Í dag hefur hann skrifað pistil um háskólanám á landsbyggðinni og hvet ég alla til að renna yfir greinina hans. Frænkugengið og MA hópurinn er allur utan af landi og býr þar reyndar enn að stórum hluta. Það er enginn vafi á því að með tilkomu Háskólans á Akureyri var brotið blað í skólasögu þjóðarinnar. Við höfum stundum rætt það fyrrum nemendur MA, að ef Háskólinn á Akureyri hefði verið starfandi þegar við kláruðum Menntaskólann þá hefði okkar námsferill örugglega orðið með öðrum hætti heldur en raun varð á. Háskóli á Akureyri hefði verið valkostur sem hefði heillað enda allir búnir að verja 4 árum við nám á Akureyri þá þegar og orðnir heimavanir í bænum.
Hér á Suðurlandi hefur fjarnám á háskólastigi löngu sannað gildi sitt og nú í vor útskrifast fyrsti hópurinn sem stundað hefur nám í viðskiptafræði á vegum Fræðslunets Suðurlands. Ég var svo heppin að vera með þeim fyrstu þrjár annirnar og því veit ég nokkuð vel hversu mikið þarf á sig að leggja til að klára svona nám, með vinnu og öðru því sem fólk þarf að sinna í hinu daglega lífi. Afskaplega duglegt fólk sem vel hefur verið stutt við af Jóni Hjartarssyni sem rekið hefur Fræðslunetið af miklum myndarbrag frá upphafi.

11. júní 2005

Líf og fjör í Hveragerði

Besti dagur sumarsins var án vafa í dag.
Ekki skýhnoðri á himni og um 20 stiga hiti, alvöru sumarveður með tilheyrandi fjöri út um allan bæ. Ekki spillti það fyrir að mikið líf var í bænum. Fjöldi fólks lagði greinilega leið sína hingað til að versla sumarblóm enda örtröð við þá sölustaði alla. Sumarhátíð var haldin í verslunarmiðstöðinni við Sunnumörk. Þar voru það hoppukastalar og önnur leiktæki sem drógu til sín ungviðið á meðan þeir sem eldri eru sleiktu sólina fyrir utan kaffihúsið hjá Rótaranum. Kvennahlaupið fór fram í blíðunni og ef eitthvað var fannst manni of heitt til að vera að þessu spani. Karlrembuhlaupið hefur farið fram hér í Hveragerði í nokkur ár en þá hlaupa karlarnir rangsælis hringinn okkar kvennanna. Hefur þetta hlaup verið vinsælt en eitthvað voru þeir tregari til í ár og ekki margir karlarnir sem nú hlupu hringinn.
Upphleypt kort af Suðurlandi var afhjúpað í Verslunarmiðstöðinni í dag, það er Orkuveita Reykjavíkur sem hefur látið gera kortið sem er mjög fræðandi og mun það verða til sýnis gestum og gangandi. Er kortið með ljósabúnaði sem sýnir umbeðna staði á kortinu þegar ýtt er á hnapp. Það er ekki hægt að neita því að umhverfið lítur öðru vísi út þegar það er komið í þrívídd heldur en á hefðbundu landakorti á pappír.
----------------------
Við systur skruppum á Selfoss seinnipartinn að versla inn fyrir frænkuboð í móðurættinni sem við höldum á morgun. Búumst við jafn góðu veðri þannig að það er eins gott að finna til sumarfötin !
----------------------
Fórum í útskriftarveislu í kvöld, mikið um dýrðir og afskaplega góðar veitingar eins og við var að búast. Húseigendur hafa nýverið byggt sér glæsilegt hús á bökkum Varmár og var gaman að sjá hversu vel hefur tekist til við þær framkvæmdir. Verst að þetta hús og íbúar þess skuli tilheyra Ölfusinu, og reyndar óskiljanlegt þegar litið er til þess að það er staðsett í hjarta Hveragerðisbæjar!!
----------------------
Er með lítinn grænmetisgarð í einu horni í garðinum. Segi alltaf að þar rækti ég sýnishorn af hinu og þessu. Setti loksins niður kartöflur þar í morgun, svona ekki nema mánuði á eftir flestum öðrum! Ef ég er heppin, og ekki frystir snemma, verða nýjar kartöflur á borðum hér seint í haust, MJÖG seint :-)

10. júní 2005

Síðbúin umfjöllun um bæjarstjórnarfund

Var búin að skrifa mikla langloku um bæjarstjórnarfund sem haldinn var á fimmtudagskvöld þegar tölvan gerði mér þann ljóta grikk að loka á sambandið og allt strokaðist út. Var í kjölfarið bent á að betra væri að skrifa fyrst í word og setja það svo inní blogg forritið!! Þannig að nú er verið að prufa aðrar aðferðir við bloggið.

Bæjarstjórnarfundurinn þróaðist eins og fyrir hafði verið spáð, eftir 7 mínútna fund og fyrstu bókun okkar um ársreikninginn var gert fundarhlé, að því loknu bókaði meirihlutinn og við tókum fundarhlé og sömdum okkar bókun :-) Eftir klukkutíma fund höfðum við verið saman í fundarsalnum í 14 mínútur.
Fundargerðin í heild sinni er hér.
Eins og fram kemur í bókunum okkar erum við afar ósátt við fjármálastjórnun núverandi meirihluta enda sést það best í ársreikningnum hvernig fjármálum bæjarins er fyrir komið.
Lesið endilega bókanir okkar við ársreikninginn en þar setjum við fram þá gagnrýni sem við völdum að setja á oddinn.
Svarbókun þeirra er um margt sérstök og málflutningurinn harla ótrúverðugur. Réttmætri gagnrýni okkar vegna söluverðs hitaveitunnar tekur meirihlutinn, eins og ávallt, mjög illa. Tala þau í staðinn um bakreikninga til bæjarbúa vegna sölu rafveitunnar á sínum tíma. Hef ekki tekið eftir þeim bakreikningi. Nema að þau haldi að rafveitan í okkar eigu hefði aldrei hækkað raforkuverð til bæjarbúa? Það er bara ekki hægt í stuttu máli að elta ólar við þennan málflutning. Geri það mjög sennilega síðar.
------------------------
Meirihlutinn hlustaði því miður ekki á rök okkar varðandi staðsetningu vaktmannahússins við Sundlaugina, því verður húsið endurbyggt á sama stað. Mikil ólga hefur verið í bæjarfélaginu vegna þessa máls og óþarfi að gera lítið úr málflutningi þeirra sem vilja flytja húsið ,eins og forsvarsmenn meirihlutans gerðu á fundinum. Það er nú einu sinni þannig að lítil mál geta oft valdið miklum usla og það er því miður að gerast hér.
------------------------

8. júní 2005

Umræður og fundarsköp

Á morgun er síðasti fundur bæjarstjórnar fyrir sumarfrí. Þá fer fram síðari umræða um ársreikning Hveragerðisbæjar fyrir árið 2004. Að kalla þetta umræðu er aftur á móti mikið rangnefni, það er undantekning ef fram rökræða um ágreiningsefni milli aðila á bæjarstjórnarfundum. Fjallað er um mál með bókunum á báða bóga en umræðan fer fram milli samherja í fundarhléum. Í upphafi kjörtímabils var rætt um að útvarpa fundum bæjarstjórnar. Eins og þeir eru í dag væri það hið ömurlegasta útvarpsefni! Ég efa það ekki að bæjarfulltrúar myndu aftur á móti haga málflutningi sínum öðruvísi ef þeir héldu að bæjarbúar væru að hlusta. Á síðasta kjörtímabili var sá siður tekinn upp að fundarmenn kæmu í púlt hefðu þeir eitthvað til málanna að leggja. Þetta setti fundina í vissar skorður og gaf þeim annað yfirbragð. Þetta er ekki lengur gert og tel ég það afturför. Einnig er það ósiður að bæjarfulltrúar skuli ekki ávarpa forseta þegar þeir taka til máls. Mörgum finnast svona reglur kannski smásmugulegar en þegar fólk er orðið vant fundum sem lúta ákveðnum fundarsköpum og leikreglum þykir flestum óþægilegra ef þær eru ekki viðhafðar !!

7. júní 2005

Heimsóknir, fundur og brúðkaupsundirbúningur !

Heimsóknir erlendis frá eru nú daglegur viðburður í vinnunni. Þessi árstími virðist heilla erlenda gesti því árlega er á vorin stöðugur straumur erlendra sölumanna og birgja sem virðast njóta þess mjög að koma í heimsókn til Íslands. Gaman að því og oftar en ekki koma þeir með nýjar og ferskar hugmyndir sem nýtast okkur vel í vöruþróun.
---------------------
Á skipulags- og bygginganefndafundi í dag var veitt byggingaleyfi fyrir 3 einbýlishúsum í Valsheiðinni nýju. Þar er allt að fara á fullt enda var slegist um lóðirnar. Hér er byggt meira en nokkru sinni áður og sérstaka athygli vekur að nú er byggt stærra en við höfum áður séð. Eitt af húsunum sem samþykkt var í gær er um 260 fermetrar sem er með því stærra gerist hér í bæ. Aukið lánaframboð hefur líka þau áhrif að nú eru byggðir bílskúrar við fjölmörg hús sem staðið hafa bílskúrslaus í tugi ára jafnvel ! !
Niðurrif á gróðrarstöðvunum Álfafelli og Hlíðarhaga var samþykkt með þeim eindregnu tilmælum að vel yrði gengið frá lóðinni eftir niðurrifið. Töluverður misbrestur hefur verið á að það hafi verið gert þegar gróðrarstöðvar hafa verið rifnar og hefur frágangur á lóðunum í mörgum tilfellum verið mjög slæmur og jafnvel stórhættulegur.
---------------------
Skrapp til Reykjavíkur í kvöld að hitta vinkonurnar úr Menntaskólanum. Ein úr hópnum, Brynja, ætlar nú loksins að giftast honum Óla sínum og það kallar á ákveðinn undirbúning okkar hinna. Skemmtum okkur konunglega og það verður án vafa gaman í brúðkaupinu næstkomandi sunnudag ! !

6. júní 2005

Krakkar á öllum aldri í vinnu !

Starfsemi skólagarðanna hófst í morgun. Það var nú ekki sérlega fýsilegt fyrir litla fólkið að fara að pjakka í beðunum í grenjandi rigningunni enda voru þau send snemma heim rennblaut og hrakin. Skólagarðarnir eru staðsettir rétt við hlið sundlaugarinnar á mjög skemmtilegum og skjólgóðum stað umluktum trjám. Um 40 krakkar eru skráðir í skólagarðana, þeim er skipt í tvo hópa sem hvor um sig mætir í 2 tíma á dag.
----------------
Unglingavinnan, eða vinnuskólinn sem er heldur virðulegra heiti, er líka að hefja störf þessa dagana. Þar hafa heldur færri ungmenni en vanalega skráð sig til vinnu. Er það bagalegt því þetta er hópurinn sem á að sjá til þess að bærinn sé snyrtilegur og okkur til sóma í sumar. Ég hef áður skrifað um vinnufyrirkomulag vinnuskólans en þar hefur vinnutími krakkanna verið styttur frá því sem áður var þó að styttingin hafi ekki orðið eins mikil og til stóð fyrir tilstilli minnihlutans.
---------------------
Atvinnurekendur tala um það að greinilega sé mikið framboð á sumarvinnu fyrir ungmenni því ekki er eins mikið sótt í stöður og oft áður og vandi að fá þessi sem eldri eru í vinnu. Ég sé það reyndar á þeim sem í kringum mig eru að framboðið á alls kyns ævintýrum er líka orðið meira en oft áður. Sumir eru í sjálfboðavinnu á Indlandi, aðrir í sumarskóla í Frakklandi, sumarvinna á fjöllum fyrir austan heillar, nú eða þá hótelstörf í öðrum bæjarfélögum og enn aðrir ílendast við tjaldsvæðasvörslu á Héraði :-)
!! --------------------------
Nýr hlunkur, Munka hlunkur, var framleiddur í dag, himnasending fyrir þá sem eru hrifnir af lakkrís !
Sumarfólkið okkar er nú mætt vel flest til vinnu. Við erum svo heppin að yfirleitt vilja þau koma aftur sumar eftir sumar sem er ótrúlega gott því þá erum við að fá vant fólk til sumarstarfa sem eru forréttindi hvers vinnustaðar.
------------------- !!

5. júní 2005

Sjómannadagur, gönguferð og Litla Sandvík !

Við landkrabbarnir hefðum ekki tekið eftir sjómannadeginum ef blöðin hefðu ekki gert þessum hátíðisdegi jafn góð skil og raun var á. Sonurinn tók samt þátt í hátíðahöldum á Akranesi enda á sundmóti þar alla helgina og greinilegt að dóttirin lét ekki sitt eftir liggja fyrir austan frekar en fyrri daginn :-)

Hér er búið að rigna heil ósköp um helgina þrátt fyrir að veðrið hafi verið yndislegt á milli. Rigningin gerði það að verkum að ekki varð jafnmikið úr garðvinnu eins og til stóð, sumum sem ég þekki til mikillar gleði!
Fórum í langan göngutúr í morgun og skoðuðum meðal annars fyrirhugað byggingasvæði í Hlíðarhaga og Álfafelli og svæðið í kringum Ullarþvottastöðina. Á öllum stöðunum eru uppi væntingar um mikla íbúðabyggð og því mikilvægt að vandað sé til skipulags svo það samræmist einnig þeim útivistar og umhverfissjónarmiðum sem fólk gerir til svæðisins. Gönguleiðirnar hér í kringum Hveragerði eru með þeim skemmtilegri sem finnast enda er sífellt að verða algengara að fólk komi hingað gagngert til að njóta útivistar. Á undanförnum árum hefur mikið verk verið unnið við uppbyggingu gönguleiða og njótum við þeirrar sérstöðu að stór hluti gönguleiða innan bæjarfélagsins eru uppitaðar og því öllum færar jafnt vetur sem sumar ! !

Heimsótti ættingjana í Litlu Sandvík í gær. Varð þess heiðurs aðnjótandi að vera boðið á háaloftið hjá frænda mínum Páli Lýðssyni. Þar er að finna gullnámu í formi bóka, blaða, fundargerða og ýmislegs fleira sem hann hefur safnað að sér í gegnum tíðina. Úr þessum heimildum vinnur hann síðan fræðibækur sínar en hann hefur til dæmis nýlega klárað sögu Rjómabúsins á Baugsstöðum og er að hefja öflun gagna fyrir Sögu Búnaðarsambands Suðurlands.

3. júní 2005

Fundir og tónleikar !

Vinnudagurinn var í styttra lagi í dag vegna fundahalda í Reykjavík ! !
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn um miðjan október og því er eins gott fyrir nefndir sem vinna eiga drög að málefnaályktunum að halda vel á spöðunum.
Það var reyndar furðulega gott veður í Reykjavík miðað við það að hér fyrir austan rigni meira og minna í allan dag. Veitti reyndar ekki af eftir gríðarlega þurrka undanfarið. Í gær var kveikt í sinu hér rétt aftan við húsin og logaði glatt á tímabili. Vösku fólki sem dreif að úr nærliggjandi húsum tókst þó að berja þetta niður áður en slökkviliðið bar að garði en þeir höfðu verið í mikilli sinuelda baráttu í Þrengslunum á sama tíma.

Fór með yngstu kynslóðina á tónleika í kvöld.
Sænsk/íslenska gleðisveitin Hjálmar spilaði á þessum síðustu tónleikum í tónleikaröðinni Kvöld í Hveró. Heimamaðurinn Helgi Valur hitaði upp fyrir Hjálma og var það ekki síst þess vegna sem við skelltum okkur. Efast ekki um að hann á eftir að gera það gott í þessum bransa. Diskurinn hans kom út í byrjun vikunnar og hefur fengið mjög góða dóma. Fylgdarmenn mínir á tónleikunum voru kannski helst til ungir fyrir Hjálma, allavega entust þeir ekki til loka og ákváðum við að yfirgefa tónleikana um miðbik þeirra. Skemmtileg og grípandi tónlist samt sem áður, en kannski ekki fyrir þá sem enn eru ekki orðnir tíu ! !

2. júní 2005

Bæjarráðsfundur

Í morgun var bæjarráðsfundur þar sem mörg mál voru tekin fyrir, flest í sátt og samlyndi meiri- og minnihluta eins og gengur. Tvö mál voru aftur á móti annars eðlis og taldi ég mér ekki fært að samþykkja þær afgreiðslur sem meirihlutinn lagði fram.
Þar var annars vegar um að ræða tilboð í gerð umhirðuhandbókar fyrir bæjarfélagið en þar sat ég hjá við afgreiðslu því kostnaður við vinnslu umhirðuhandbókar kom ekki fram í útsendum fundargögnum. Samkvæmt tilboðinu er ljóst að gert er ráð fyrir 115-145 tímum til vinnslu verksins og því er greinilegt að um umtalsverðan kostnað er að ræða. Á fundinum kom fram að verð pr. tíma er 8000 kr. Gerð þessarar áætlunar, sem mun segja verkstjórum hvenær á að slá og planta meðal annars, mun kosta ríflega 1 milljón. Það hefði nú verið hægt að taka til hendinni fyrir þá upphæð hefði hún runnið óskert til málaflokksins ! !

Ennfremur greiddi ég atkvæði gegn tillögu meirihlutans um endurbyggingu vaktmannahússins í Laugaskarði og endurbætur á búningsklefum við sundlaugina með svohljóðandi bókun: mér þykir mjög miður að þetta mál skuli bera að með þeim hætti sem nú er raunin.
Það er ámælisvert að ekki skuli hafa verið leitað tilboða í verkin, þ.e. endurbyggingu vaktmannaskúrsins og endurbætur á búningsklefum þar sem ljóst er að framkvæmdirnar munu kosta umtalsverðar fjárhæðir. Það er ennfremur ámælisvert að framkvæmdir skuli vera hafnar án þess að bæjarráði eða bæjarstjórn sé kunnugt um að það stæði til.

Ég hef ásamt mörgum fleirum haft þá framtíðarsýn að umfangsmiklar endurbætur yrðu gerðar á efra svæði sundlaugarinnar í Laugaskarði. Þessar framkvæmdir myndu miða að því að bæta aðstöðu gæslumanna við laugina og að þeir gætu haft augun bæði á pottum og sundlaug í stað þess að snúa baki í pottana eins og nú er raunin. Með því að færa vaktmannahúsið má ná þessu markmiði auk þess að þá verður til skemmtilegt svæði þar sem hægt væri að koma fyrir annarri setlaug sem hefði þá útsýni yfir sundlaugina. Með því að endurbyggja vaktmannahúsið á núverandi stað er hætt við að hugmyndir eins og að ofan greinir verði saltaðar um ókomin ár.

-------------------------
Allir sem fylgjast með bæjarmálefnum hér í bæ hljóta að undrast hvers vegna meirihlutinn velur ítrekað að fela verktökum verk, stór sem smá, án undangengins útboðs/verðkönnunar. Það er ekkert sem réttlætir vinnubrögð af þessu tagi, flýtirinn má ekki verða til þess að slæleg vinnubrögð við ákvarðanatöku séu látin viðgangast ! !

1. júní 2005

Afmæli og uppsagnir ! !

Það er frábært að vera 9 ára.
Afmælisveisla unga mannsins var vel heppnuð og lífleg eins og vera ber þegar rétt tæplega 20 krakkar mæta á svæðið. Fékk góða hugmynd að láni frá Guðrúnu systur og sendi alla gestina í þremur hópum um bæinn í ratleik. Það er mikill munur þegar hægt er að hafa barnaafmælin utandyra en í dag var glaðasólskin og um 15 stiga hiti, þannig að enginn fékk að vera inni ! ! !
---------------------------

Það var ömurlegt að heyra fréttirnar í dag af uppsögnum á Bíldudal og fyrirhuguðum uppsögnum hjá Skinnaiðnaði. Vekur upp áleitnar spurningar um samfélagslega ábyrgð atvinnurekenda og þau viðmið sem viðtekin eru í atvinnurekstri í dag. Það er svo óskaplega auðvelt að reikna allt í krónum og aurum en gleyma því að meginvirði hvers fyrirtækis liggur í mannauðnum, í starfsmönnunum! Atvinnurekendur mega ekki og geta ekki litið á sig sem eyland, þeir hafa ábyrgð og það mikla gagnvart því fólki sem byggt hefur upp fyrirtækin í samvinnu við eigendur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet