<$BlogRSDUrl$>

30. mars 2006

Sýningin Matur 2006 var opnuð í Fífunni í dag. Hef ekki áður farið á þessa sýningu en komst að því að heimsókn þangað er vel þess virði. Tók reyndar miklu lengri tíma en gert var ráð fyrir því þarna hittum við fjölda vina og kunningja sem gaman var að spjalla við. Innlendir birgjar voru flestir mættir á staðinn en það er nauðsynlegt að sjá þetta fólk annað slagið til að geta tengt rödd við andlit. Áberandi var hve mikið er kynnt af innfluttum tilbúnum réttum og tiltölulega lítið kynnt af innlendri framleiðslu. Nokkrir básar voru sérstaklega athyglisverðir, til dæmis var þetta vel gert hjá Norðlendingum þar sem mörg ólík fyrirtæki sameinuðust um bás, þar var t.d. hægt að smakka saltfisk pizzu og Brynju ísinn margfrægi var afgreiddur beint úr bíl. Hafliði bakari var með flotta sýningu á súkkulaði og Ömmubakstur sýndi margar framleiðsluvörur sem allar voru spennandi þó sérstaklega tilbúnir örbylgjuréttir sem eru sérstaklega samsettir til að uppfylla kröfur um hollustu og aðhald. 300 gr grænmetisréttir, engin aukaefni, ekkert MSG og annað í þeim dúr.
Sýningin í Fífunni er opin um helgina og það er vel þess virði að líta þangað og sjá hvað er að gerast í framleiðslu og innflutningi.

29. mars 2006

Í dag komu finnskir blaðamenn í heimsókn í Kjörís og tóku langt viðtal við Valdimar, skoðuðu fyrirtækið og mynduðu allt í bak og fyrir. Finnarnir voru gerðir út af örkinni til að kanna hvernig samfélagið hér á Íslandi væri innréttað og hvort að allir væru jafn "kaupglaðir" og útrásar fólkið. Einhver benti þeim á að tilvalið væri að fjalla um fyrirtæki sem ynni bara á heimamarkaði, framleiddi eitthvað, seldi vöruna sína á Íslandi, flytti ekkert út, keypti engin hlutabréf í öðrum fyrirtækjum, væri í ávallt í eigu sömu fjölskyldunnar og hefði lítinn áhuga á því að raska eignarhaldinu. Þeir voru sem sagt að leita að "Gísla á Uppsölum" fyrirtækjanna og viti menn, eitt svona skrýtið fyrirtæki fannst í Hveragerði. Okkur fannst þetta nokkuð fyndið. Vera komin á sömu hillu og Helgi í Góu og aðrir sérvitringar í fyrirtækjarekstri! ! Svo þurfum við seinna að fá Þjóðhildi Halvorsen til að þýða viðtalið svo við sjáum hvað haft er eftir þessum furðulega framkvæmdastjóra.
--------------------
Seinnipartinn sótti ég málþing haldið af nemendum Garðyrkjuskólans á Reykjum um framtíð garðyrkjumenntunar á Íslandi. Ekki fór á milli mála að þeir sem starfa innan græna geirans hafa miklar áhyggjur af framtíð greinarinnar og ekki síst skólastarfi á Reykjum. Margir þeirra sem töluðu komu inná mikilvægi starfsmenntanáms í garðyrkju og að þrátt fyrir mikla aukningu í háskólanáminu þá væri áfram mikil þörf fyrir fagmenntaða starfsmenn sem fara í kuldagallann á morgnana og klippa og prikkla. Frummælendur lýstu flestir eftir skýrri stefnu landbúnaðarráðuneytisins um það hvað eigi að verða um garðyrkjumenntun og hvar hún eigi að byggjast upp. Ég tek heilshugar undir það sjónarmið að þessi óvissa sem ríkir um framtíð Reykja er óþolandi. Á meðan drabbast húsnæði skólans niður og nemendur sem og starfsfólk vita ekki í hvorn fótinn þau eiga að stíga. Sinnuleysið um málefni einnar helstu og elstu menntastofnunar Suðurlands er líka með ólíkindum. Það er eins og skólinn sé einskismannsbarn sem enginn vill hlúa að eins og einn nemandinn sagði á fundinum. Ég var eini sveitarstjórnarmaðurinn héðan úr Hveragerði og Ölfusi sem sat málþingið og því verð ég að segja að sinnuleysi heimamanna er æpandi og vægast sagt sérkennilegt að enginn af ráðandi bæjarfulltrúum skyldi gefa sér tíma til að sækja málþingið. Við Sjálfstæðismenn í Hveragerði töldum það aftur á móti skyldu okkar að fylgjast með þeirri umræðu sem þarna átti sér stað.
-------------------
Strax að loknu málþinginu hittumst við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisfélagsins og lögðum línur varðandi Eyktarmálið sem nú er komið í ákveðinn farveg.
-------------------
Mikil vinna á sér nú stað meðal Sjálfstæðismanna en verið er að vinna málefnavinnu í einum sjö hópum. Í kvöld fundaði ég í þeim hópi sem ég stýri og var það bæði skemmtileg og gagnleg umræða sem þar fór fram.

28. mars 2006

Mikill erill í vinnunni í dag og greinilegt að páskarnir nálgast óðfluga. Þá eykst íssalan eins og ávallt gerist fyrir stórhátíðir. Undanfarin ár höfum við séð stöðuga aukningu í sölu á sérskreyttum veislutertum. Núna er staðan orðin þannig að við verðum að vísa fólki frá í stórum stíl því ekki er hægt að sinna pöntunum sem berast of seint. Beta og Auðbjörg eru þvílíkir snillingar í skreytingunum að orðspor þeirra fer víða og þess vegna aukast vinsældir ístertanna stöðugt. Tertan á myndinni er lítil, eða 20 manna, en þær eru ansi vinsælar í afmælisveislurnar.
Annar hástökkvari undanfarinna mánaða er DDV ísinn svokallaði sem við flytjum inn frá Danmörku. Hann er sérframleiddur fyrir dönsku vigtarráðgjafana og hefur nú þegar náð góðri fótfestu hér á landi. Ég hafði strax í upphafi tröllatrú á þessari vöru en það kom meira að segja mér á óvart hversu vel ísinn selst en greinilega er markaðurinn stór fyrir vörur DDV samtakanna.
------------------------
Ef eitthvað er að marka sögusagnir þá verður H-listi Samfylkingar og Framsóknar birtur um næstu helgi. Skjálfti virðist aftur á móti vera í herbúðum þessa ágæta bandalags vegna fyrirhugaðs framboðs Vinstri grænna hér í bæ. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum stóðu Vinstri grænir með Samfylkingunni að framboði S listans. VG liðar voru hálf gabbaðir á listann sem aldrei var kallaður annað en framboð Samfylkingarinnar. Mesta lagi að munað væri eftir óháðum á hátíðarstundum. Svo finnst þeim skrýtið að VG vilji ekki hoppa í bólið til þeirra aftur! ! Mig undrar það ekki að VG mönnum hugnist ekki félagsskapurinn í hinu sameiginlega framboði. Það vekur aftur á móti furðu mína þegar farið er yfir sviðið að sjá í Samfylkingunni hina ýmsu einstaklinga sem skoðanalega séð ættu miklu meiri samleið með Vinstri Grænum. Án vafa eru það persónulegar vinsældir Margrétar Frímannsdóttur sem gera það að verkum að þetta ágæta fólk ílendist í Samfylkingunni, í bili.

27. mars 2006

Hnaut um litla frétt í dag. "Starfsmenn Varnarliðsins geta sótt uppsagnarbréf sín".
Já einmitt það sem við vorum að bíða eftir!
Að sækja uppsagnarbréfin! ! ! Nú verður hlaupið eða hvað? Hver sækir uppsagnarbréfið sitt? Ef einhverjum er sagt upp þá er viðkomandi kallaður til viðtals á vinnustað og afhent uppsagnarbréfið. Kannski hlakkaði alla svo til að fá uppsagnarbréfið að það er hlaupið af stað til að sækja bréfið.
Er ekki alveg að skilja þetta.

26. mars 2006



Eftir opna húsið á laugardaginn fór stór hluti framboðslistans í kynnisferð til Suðurnesja.Byrjað var í ráðhúsi Reykjanesbæjar þar sem við hittum Árna Sigfússon, bæjarstjóra og Böðvar Jónsson, formann bæjarráðs. Árni kynnti fyrir okkur þá vinnu sem fram hefur farið í hinum ýmsu málaflokkum en lagði þó sérstaka áherslu á skólamál, íþróttamál og málefni aldraðra. Sjálfstæðismenn hafa hreinan meirihluta í Reykjanesbæ, staða þeirra nú fyrir kosningar er firnasterk enda sér hver maður að vel er haldið utan um hlutina í bæjarfélaginu og metnaðarfull vinna í gangi á öllum sviðum.
Að lokinni heimsókn í ráðhúsið heimsóttum við kosningaskrifstofu Sjálfstæðismanna þar sem Georg Brynjarsson ræður ríkjum. Við glöddumst með þeim yfir húsnæðinu sem er á jarðhæð með góðri aðkomu enda var verslun þarna áður. Forseti bæjarstjórnar Björk Guðjónsdóttir hitti okkur á skrifstofunni og náðum við að skiptast á hugmyndum um starfið sem framundan er.

Reynir Sveinsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Sandgerði tók síðan á móti hópnum í því ágæta sveitarfélagi og sýndi okkur nýbyggt stjórnsýsluhús bæjarins. Það er hið glæsilegasta og rúmar fyrir utan bæjarskrifstofurnar, bókasafn, heilsugæsluna, eldhús fyrir allar stofnanir bæjarins, Búamanna íbúðir, banka og fjölnota sal. Enn er verið að vinna í húsinu en húsnæðið sem tilheyrir bæjarfélaginu er tilbúið og var tekið í notkun fyrir 2 vikum. Á húsinu er glerturn mikill með svölum efst þar sem útsýni yfir bæinn er gott og ekki spillti veðrið á laugardaginn útsýninu svo mikið er víst.

Karl Jóhann tók fullt af myndum í ferðinni og þær má sjá hér.

Við frambjóðendurnir rétt náðum heim til að sjá lokamínútur í leik Kvennaliðs H/S í körfubolta við Ármann/Þrótt. Stelpurnar okkar unnu leikinn með glæsibrag og þar með var ljóst að þær höfðu unnið 2.deild kvenna og munu því spila í 1. deild að ári. Frábær árangur hjá stelpunum. Þau eru ekki mörg sveitarfélögin sem geta státað af því að eiga lið í efstu deild bæði karla og kvenna í körfu ! ! !

21. mars 2006



Nú liggur fyrir hverjir verða í framboði fyrir Sjálfstæðisfélag Hveragerðis til sveitarstjórnarkosninga í vor. Listinn var einróma samþykktur á fjölmennum fundi í félaginu í kvöld.
Listann skipa:

1. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarfulltrúi
2. Eyþór Ólafsson, verkfræðingur
3. Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarfræðingur
4. Guðmundur Þór Guðjónsson, fjármálastjóri
5. Birkir Sveinsson, íþróttakennari
6. Ragnhildur Hjartardóttir, hjúkrunarfræðingur
7. Hjörtur Sveinsson, nemi
8. Karl Jóhann Guðmundsson, þyrluflugmaður
9. Elínborg Ólafsdóttir, förðunarfræðingur
10.Helga Sigurðardóttir, garðyrkjufræðingur
11.Sigurður Einarsson, framkvæmdastjóri
12.Elísabet Einarsdóttir, verkamaður
13.Kristín Dagbjartsdóttir, lyfjatæknir
14.Aage Michelsen, fyrrv. verktaki

Á myndina vantar Hjört, Sigurð og Aage.

Að mínu mati hefur uppstillingarnefnd unnið mjög gott starf og listinn er skipaður hæfu og góðu fólki sem hvert um sig styrkir framboðið.
Hjalti Helgason og Pálína Sigurjónsdóttir, núverandi bæjarfulltrúar, gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn og voru þeim þökkuð góð störf á fundinum. Þau ætla sér aftur á móti ekki að hverfa af vettvangi heldur skipa þau sér fremst í sveit öflugs baklands sem styður við starf listans.

Nú hefst mikil en gefandi vinna við að tryggja Sjálfstæðismönnum góða kosningu í vor.

20. mars 2006

Sumarblíðan sem ráðið hefur ríkjum undanfarið vék í dag fyrir norðan garra og snjófjúki. Manni bregður heldur við því veðurfarið undanfarið hefur frekar minnt á maí en miðjan vetur.
-----------------------------
Ég hef komist að því að engir lesenda minna tilheyra Framsóknarflokknum.
Ef þeir gerðu það hefðu þeir fyrir löngu komið skilaboðum mínum áleiðis til sinna manna og látið lagfæra gestabókina á heimasíðu félagsins hér í Hveragerði. Betra að sleppa því að hafa heimasíðu heldur en að halda henni ekki betur við en hér er raunin.
----------------------------
Fjórða vika hvers mánaðar er alltaf heldur tíðindaminni en aðrar vikur mánaðarins. Það helgast af reglulegum fundatímum í bæjarstjórn og bæjarráði sem eru í 2. og 1. og 3.viku hvers mánaðar. Þeim fundum fylgja undirbúningsfundir og tilheyrandi vinna en 4 vikan sleppur við slíkt. Tilfallandi fundi er því ágætt að hafa í 4. vikunni.
5. fimmtudagar í mánuði eru ígildi sumarfrís allavega hjá minnihlutamönnum sem ekki er íþyngt með upplýsingagjöf milli funda ! !
-----------------------------
Eins og sjá má á tíðindalitlum skrifum mínum hér að ofan er gúrkutíð í dag.
Er að vísu að undirbúa félagsfund Sjálfstæðismanna annað kvöld þar sem listi félagsins til sveitarstjórnarkosninga verður borinn upp til samþykktar.
Fundurinn hefst klukkan 20 og hvet ég hér með félagsmenn til að fjölmenna.

19. mars 2006

Á ársfundi Landbúnaðarháskóla Íslands sem haldinn var á Selfossi á föstudaginn var ég fundarstjóri ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni. Skemmtilegt verkefni enda fyrirlestrarnir bæði fjölbreyttir og áhugaverðir.
Á fundinum var opnuð ný jarðabók á netinu sem er sú fyrsta sem tekin er saman í ein 300 ár eða síðan Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín kom út. Á síðunni er hægt að fá fjölbreyttar upplýsingar um gróður, landamerki og fleira. Landamerkjaskráin er komin á netið og auðvelt að gleyma sér í því grúski. Veljið ákveðið svæði á kortinu og þannig er hægt að fikra sig niður í sífellt nákvæmara yfirlit.

Starfsmenn umhverfisskipulagsbrautarinnar á Hvanneyri fluttu frábær erindi sem þær kölluðu "Góð hönnun - bætt lífsgæði". Ég var mjög hrifin af því sjónarhorni sem þær settu fram en það var greinilegt að þarna voru háskólamenn á ferð sem á allan hátt eru óháðir þeim sem hafa fjárhagslegra hagsmuna að gæta í skipulagsmálum. Ég get oft hálf vorkennt flinkum skipulagsfræðingum sem fá það hlutverk að reyna að finna ásættanlegar lausnir á sjónarmiðum þeirra sem eiga löndin, sveitarfélaga og síðast en ekki síst íbúanna. Í þeim slag verða oft allt önnur sjónarmið en þau faglegu ofan á, því miður.
----------------------------------
Skruppum til Þorlákshafnar á föstudagskvöldið og kíktum á leik FSU og Þórsara í körfu.
Þar urðu strákarnir í Fjölbraut að játa sig sigraða en mikið svakalega var gaman að sjá hvað þeir börðust vel allan tímann. Þetta eru virkilega efnilegir strákar sem létu það ekki á sig fá þó flestir ef ekki allir liðsmenn Þórsara væru eldri og reyndari en þeir.
----------------------------------
Óvanalega fjölmennt var í opnu húsi á laugardagsmorguninn. Stöðugt fjölgar í hópnum sem mætir reglulega en nú þegar kosningar eru á næsta leiti má búast við því að sífellt fleiri líti við og fái fréttir af gangi mála. Við slúttuðum opnu húsi stundvíslega klukkan 12 og drifum okkur nokkur uppí íþróttahús þar sem stelpurnar í 8. flokki voru að keppa í körfu. Þær enduðu í öðru sæti á Íslandsmótinu og er það frábær árangur.
Til hamingju stelpur ! ! !
-----------------------------------
Jóhanna og Hugi kíktu með strákana seinni part laugardagsins og þar sem við vorum líka að passa Hauk litla og Dagnýju var fjölmennt í húsinu og barnaskari mikill.
Gaman að því, sérstaklega eftir að litli frændi minn sættist við frændfólkið.
Máttur matarins er mikill – verð að segja það ! !
------------------------------------
Sáum íslensku myndina Blóðbönd í dag. Var ágæt en ég ætla ekki að vera sammála þeim sem segja þetta bestu íslensku bíómyndina. Er oft að velta því fyrir mér hvort grái filterinn sé gróinn við íslenskar upptökuvélar og eins hvort að aldrei nokkurn tíma skíni sól á tökustað. Af hverju þurfa íslenskar myndir alltaf að vera svona þunglyndislegar? Þjóðin er ekki svona þunglynd, er það?
-----------------------------------
Stórfréttir af málefnum Varnarliðsins settu svip sinn á fréttir helgarinnar. Það er auðvitað ekkert annað en áfall að herinn skuli ætla að hverfa á brott héðan með sinn rekstur og ekki síst hljótum við að horfa með eftirsjá á eftir björgunarþyrlunum sem hafa reynst okkur ómetanlegar þegar mikið hefur legið við. En við þessari stöðu verður að bregðast og fáum er betur treystandi til þess en Sjálfstæðismönnum á Suðurnesjum sem þegar hafa sett fram tillögur er vísa veginn til framtíðar.

16. mars 2006

"Óháður" í pólitík

Boðað er til félagsfundar í Sjálfstæðisfélaginu hér í bæ næstkomandi þriðjudag. Þar verður tillaga uppstillingarnefndar að framboðslista borin upp til samþykktar og í kjölfarið hefst eiginleg kosningabarátta okkar.

Nokkur umræða hefur orðið undanfarið um "óháða" á listum flokkanna.
Við Sjálfstæðismenn hér í bæ höfum ávallt farið þá leið að sé boðið fram undir listabókstafnum D þá eru á listanum eingöngu flokksbundnir Sjálfstæðismenn.
Bæði Samfylkingin og Framsókn hafa hinsvegar verið með "óháða" á sínum listum. Vænlegt til vinsælda telja þeir og án vafa er auðveldara að fá fólk á listann ef því er sagt að það sé þar á eigin forsendum en ekki einhvers flokks.
En hvernig er þetta í raun?

Þegar boðinn er fram t.d. B listi Framsóknarmanna og óháðra gleymist samstundis hver er óháður og hver ekki og allir eru merktir listabókstafnum B, hvar sem þeir koma. Ég er ansi hrædd um að allir séu löngu búnir að gleyma því að t.d. Yngvi Karl var einu sinni óháður. Nú eða Dagur B. Eggertsson í Reykjavík, meiri ósköpin hvað hann var óháður þegar á reyndi ! ! !
Það er auðvitað ekki hægt að vera óháður í pólitík. Frambjóðandi er í öllum tilfellum allavega háður kjósendum og stuðningsmönnum og því framboði sem bíður fram listann. Sé það framboð merkt bókstaf flokkanna þá eru allir á listanum stimplaðir þeim flokki, eðlilega.

Öðru máli gegnir um framboð sem koma fram sem óflokksbundin að öllu leyti, þau eru sannanlega óháð og þeir frambjóðendur verða ekki svo glatt límdir á aðra flokka.

Það er svolítið sorglegt að sjá fólk fara á lista gömlu flokkanna og halda að það geti setið þar sem "óháð", þannig gerast bara ekki kaupin á Eyrinni, því miður.
-----------------------
Myndirnar frá Vík loksins komnar á netið.

15. mars 2006

Af framsóknarmönnum ...

Eina heimasíðu kíki ég reglulega á, en það er síðan hans Sigurjóns á Varmá. Hann nemur nú lög við Háskóla Íslands og það er greinilegt að hann hefur tekið rómverska lögspekinginn Cato gamla sér til fyrirmyndar. Ekki slæmt, enda var sá maður staðfastur með afbrigðum. Hann endaði ávallt allar samræður, hvar sem hann kom, á setningunni: "Delenda est Carthago". Þessi orð hans hafa lifað og hér á hinu ástkæra ylhýra segjum við "auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði" þegar mikið liggur við. Sigurjón hefur reyndar ekki áhyggjur af Karþagó en það er Framsóknarflokkurinn sem er þyrnir í augum hans eins og sjá má í lok hverrar færslu.

Það er reyndar ekki skrýtið þó að Framsóknarflokkurinn verði fyrir aðkasti. Lánleysi þeirra er algjört og nú síðast kórónar fyrrv. þingflokksformaðurinn aðförina með því að leggja til að Framsókn sameinist Samfylkingunni. Hér í Hveragerði er sá gjörningur reyndar að verða staðreynd með sameiginlegu framboði og innmúruðum vinskap leiðtoga þessara flokka. Það er reyndar jafn ljóst að sameiginlegt framboð flokkanna mælist mjög misjafnlega fyrir hjá þeirra eigin flokksmönnum enda ekki langt um liðið síðan að Framsókn klauf sig út úr H-listanum hér í bæ og taldi sig nógu burðuga til að geta staðið á eigin fótum.
Sú er greinilega ekki raunin lengur.

Framsóknarmenn gáfu út blað í síðustu viku sem reyndar er ágætlega uppsett og áferðarfallegt. Vildi óska að sömu ágætu vinnubrögðin hefðu verið lögð í greinarnar sem flestar eru uppfullar af hatrömmum, neikvæðum kosningaáróðri og staðreyndavillum. Fráfarandi ráðherra lætur sig meira að segja hafa það að setjast á vagninn og stekkur fram á sjónarsviðið sár og svekktur. Mig undrar að það fólk sem undanfarið hefur stjórnað með miklu stolti skuli ætla að keyra baráttuna á þessari neikvæðu síbylju um það hvað við Sjálfstæðismenn erum ömurleg og alls ekki á vetur setjandi.

Ég ætla ekki að elta ólar við málflutninginn enda dæmast skrifendur af honum.
Einu verð ég þó að koma til skila því ítrekað er talað um verkfælni okkar Sjálfstæðismanna og talað um að núverandi kjörtímabil sé mesti framkvæmdatími
í sögu bæjarins. Það er hróplegur misskilningur:

Verð að minna lesendur á eftirfarandi atburði áranna 1994-2002, en þá stjórnuðu Sjálfstæðismenn og Bæjarmálafélagið:

-viðbygging við grunnskólann
-viðbygging við leikskólann
-gerð nýs tjaldsvæðis og vandaðs húss á svæðinu
-Hverasvæðið opnað almenningi með aðgangshúsi og göngustígum
-nýtt gámasvæði með fullkominni flokkunaraðstöðu opnað
-Fullkomnasta fráveitustöð á landinu byggð
-nýtt dreifikerfi hitaveitu lagt í stóra hluta bæjarins
-gatnagerð í Heiðarbrún
-gatnagerð í Frumskógum og Bláskógum
-gatnagerð í Lyngheiði, Arnarheiði I og II og Borgarheiði
-gatnagerð í Bjarkarheiði og Réttarheiði
-gatnagerð í Hverahlíð
-gatnagerð í Reykjamörk og trjágöng og göngustígur lagður.
-gangstéttar lagðar og umhverfi fegrað við Laufskóga og upp Gossabrekku.
-búinn til miðbær í Hveragerði með torgi og göngustígum.
-upphitaðir göngustígar lagðir um bæjarfélagið.
-heilsdagsvistun á leikskóla tekin upp.
-heilsdagsskóli tekinn upp.
-fótboltavöllur undir Hamrinum tekinn í notkun.
-ný göngubrú sett á Varmá.
-líkamsræktaraðstaða innréttuð í Laugaskarði
-sundlaugarkerið í Laugaskarði endurbyggt
-lóð grunnskólans teiknuð og hönnuð
-ákvörðun um byggingu leikskóla tekin og staður valinn
-Hveragerðisbær eignast land frá Varmá austur að Gljúfurárholti
í makaskiptum við ríkið.

og áfram mætti LENGI telja...

Ef þetta kallast verkfælni þá hef ég misskilið orðið ! ! !
------------------------------
Síðasta útspil Framsóknarmanna getur síðan seint orðið þeim til framdráttar en um síðustu helgi boðaði Guðni Ágústsson óheftan innflutning á garðplöntum frá og með 1. janúar 2007. Án allrar aðlögunar er þessu skellt framan í heila stétt sem þegar á í vök að verjast. Í greinargóðu viðtali við Sunnlenska gerir Ingibjörg Sigmundsdóttir grein fyrir þessu máli sem mun, ef fram fer sem horfir setja þessa grein garðyrkjunnar í afar erfiða ef ekki vonlausa stöðu.
---------------------------------------

Sat hér í mestu makindum að skemmta mér við þessi skrif. Tek þá skyndilega eftir kattarófétinu sem læðupokast í kringum mig mjög torkennilegur. Er hann þá ekki með sprell lifandi músarunga í kjaftinum. Mikið svakalega þoldi ég ekki köttinn á því augnabliki, verð að játa það! !
Reyndi ekki einu sinni að vera með einhvern uppgerðar hetjuskap og lét karlmennina á heimilinu um það að koma músartítlunni út og kettinum í skammarkrókinn þar sem hann verður fram til morguns. Hver bað eiginlega um þennan kött ?

14. mars 2006

Flensan herjar á heimilið en Albert hefur verið veikur síðan á föstudag og sér ekki fyrir endann á þeim veikindum. Erum því heima til skiptis. Vonandi að flensu bólusetningin dugi á þá fjölskyldumeðlimi sem hana þáðu. Fátt er meira þreytandi en veikindi.

Bæjarferð eftir hádegi. Hinar eilífu tannréttingar sjá til þess að höfuðborgin er heimsótt með reglulegu millibili en í dag passaði fundur á auglýsingastofunni ágætlega inní prógrammið. Nú er verið að leggja síðustu hönd á sumarnýjungarnar enda ekki seinna vænna. Það lýtur helst út fyrir að vorið sé þegar komið. Sól og hið fallegasta vorveður uppá hvern dag.

Kvöldið fór í að fínpússa grein í afmælisrit Landssambands Sjálfstæðiskvenna.
------------------------

12. mars 2006

Árshátíð Kjörís fólksins sem haldin var á Hótel Dyrhólaey rétt vestan við Reynisfjall var afskaplega skemmtileg. Flestir nýttu sér gott tilboð um aukanótt og fóru austur á föstudegi. Á laugardeginum var farið uppí Dyrhólaey og gengið í fjörunni þar fyrir neðan sem er einstakt náttúruundur. Hellarnir sem þar eru í berginu eru með því fallegra sem maður sér en þannig er nú líka umhverfið allt á leiðinni austur á Höfn. Þetta er mitt uppáhaldslandsvæði enda fjölbreytileikinn gríðarlegur. Okkur landkröbbunum fannst heilmikið brim þó að okkur skildist að þetta væri nú lítið sem ekki neitt. Í stað þess að ganga á Reynisfjall var ekið uppeftir en þangað hef ég ekki komið áður. Keyrðum út að lóran stöðinni sem þarna var. Sérstakt að sjá húsið sem nú grotnar niður í auðninni. Varð hugsað til þeirra sem dvelja þurftu við svipuð störf á Straumnesfjalli, ætli þeim hinum sömu hefði ekki fundist þeir komnir til himna hefðu þeir verið settir á Reynisfjall. Í Vík var hvorki sundlaugin né Bryde búð opin en Víkurskáli stóð fyrir sínu.
Eins og venjan er var mikið fjör á árshátíðinni um kvöldið. Fjöldi skemmtiatriða er orðinn slíkur að færri komast að en vilja og er gaman að þeim vanda. Hljómsveit heimamanna sá síðan um dansiballið og var gaman að sjá Svein Pálsson, sveitarstjóra, í áður óþekktu hlutverki.

Myndir komnar á myndasíðu.

9. mars 2006

Á bæjarstjórnarfundi í dag spunnust miklar umræður um skipulagsmál enda bæjarstjórn að leggja blessun sína yfir nýja aðalskipulagið. Við komum með tillögu um að samþykktinni yrði frestað og skipulags- og bygginganefnd falið að aðlaga skipulagið að breyttum forsendum í kjölfarið á Eyktar samningnum. Við, rétt eins og flestir aðrir lítum svo á að aðalskipulag eigi að endurspegla þau áform um uppbyggingu sem áformuð eru í bæjarfélaginu. Því hlýtur það að skjóta skökku við að gera ekki ráð fyrir uppbyggingu Eyktarlandsins í skipulaginu. Við hljótum að álykta að það teljist eðlileg vinnubrögð í jafn stóru máli og hér um ræðir að aðalskipulagið taki til þeirra fyrirætlana sem samþykktar hafa verið í bæjarstjórn. Við bentum ennfremur á að Eyktar menn sjálfir gera athugasemd við aðalskipulagið þar sem þeir áætla aðra landnotkun en sýnd er í fyrirliggjandi skipulagi.

Meirihlutinn lagði fram álit frá Skipulagsstofnun þar sem þeir gefa grænt ljós á þessa afgreiðslu enda verði aðalskipulaginu breytt gangi áform um uppbyggingu á Eyktarlandinu eftir.
Það er óneitanlega sérstakt að efasemdir ríki í hugum meirihlutamanna um það hvort áform Eyktarmanna og þar með markmið samninganna muni ganga eftir ! ! !
------------------------------------
Magnús Þór Sigmundsson var gestur bæjarstjórnar á fundinum og flutti okkur lag sem hann hefur samið til Hveragerðisbæjar. Það var greinilegt á kynningu Magnúsar að hér er mikill listamaður á ferð. Lagið hefur hann samið í tilefni af 60 ára afmæli bæjarins sem haldið verður hátíðlegt á sumardaginn fyrsta.
Aldrei áður hefur verið tónlistaratriði á dagskrá bæjarstjórnarfundar og mér er til efs að þetta hafi skeð áður í bæjarstjórn á landinu. Gaman að því.
-------------------------------------
Eitt baráttumál okkar Sjálfstæðismanna er í höfn.
Bæjarstjórn samþykkti á fundinum í gær að ráða garðyrkjumenntaðann forstöðumann áhaldahúss. Við höfum ítrekað lagt fram tillögu um ráðningu garðyrkjumenntaðs starfsmanns og nú hefur það verið samþykkt. Viðkomandi aðili þarf að vera mikill dugnaðarforkur því næg verkefni eru framundan við umhirðu og fegrun bæjarins.

8. mars 2006

Heyrði í Lúðvíki Bergvins. og Sigurði Kára í morgunsjónvarpinu í morgun. Þeir voru óvanalega skemmtilegir og aldrei þessu vant reytti Lúðvík af sér brandarana og var eiginlega óborganlegur. Hvort hann vissi af því veit ég ekki en Sigurður Kári gat varla stunið upp hljóði fyrir ískrandi hlátri þegar Lúlli fór á flug um Framsóknarflokkinn og þá stefnu sem þar er rekin. Þetta spjall félaganna varð uppspretta ítrekaðra umræðna útí ísgerð í morgun þar sem mikið er rætt um pólitík og sýnist sitt hverjum. Fólk var aldeilis ekki sammála hvort að Framsóknarflokkurinn væri einungis orðin vinnumiðlun eins og Lúlli hélt fram eða hvort hann væri nauðsynlegur miðjuflokkur í flóru íslenskra stjórnmála.

Við erum svo heppin í Kjörís að vinnufélagarnir koma víða að þannig að við fylgjumst jafnt með bæjarmálunum í Árborg sem og í Reykjavík ef því er að skipta. Það eykur fjölbreytnina í umræðunum til mikilla muna.

Hingað koma flokksmenn (lesist: frambjóðendur) allra flokka með reglulegu millibili þó að vinsældir okkar aukist áberandi fyrir kosningar svona eins og gefur að skilja.
Við tökum vel á móti öllum þó að enginn flokkur fái þó eins höfðinglegar móttökur og Framsóknarflokkurinn þegar liðsmenn hans mæta á staðinn. Ef þeir hafa vit á því að boða komu sína þá fá þeir yfirleitt framreiddar dýrindis vöfflur sem Framsóknarkonan hún Bíbí sér um að baka. Forsprakkar annarra flokka og þar á meðal míns eigins mega þakka sínum sæla ef þeir fá svart kaffi. Svona getur nú gæðunum verið misskipt ! !

7. mars 2006

Árshátíð framundan

Engir fundir í dag þannig að tækifæri gafst til að fylla á birgðir heimilisins og heimsækja mömmu eftir vinnu. Í kvöld hittumst við síðan nokkrar úr vinnunni til að undirbúa skemmtiatriði fyrir árshátíðina sem verður í Vík um næstu helgi. Hefð er orðin fyrir því að fara á hótel með árshátíðina og hefur það mælst afar vel fyrir. Nú fara flestir á föstudeginum og gera úr þessu langa helgi. Árshátíð Kjörís verður skemmtilegri með hverju árinu sem líður enda mikill metnaður lagður í skemmtiatriðin og heilmikil samkeppni milli deilda á því sviði. Við ætlum auðvitað að slá í gegn í Vík, konurnar, allavega skemmtum við okkur vel í kvöld ! ! !
-------------------
Verð að gauka því að ykkur að Þjóðhildur Halvorsen er farin að blogga aftur, núna er hún til dæmis með stórskemmtilegan pistil á síðunni sinni um ást einstaklinga á símanum sínum.

6. mars 2006

Vetur á Heiðinni og fundahöld

Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisfélagsins í Hveragerði skruppum til Reykjavíkur eftir hádegi í dag til fundar við lögmenn vegna Eyktar samningsins. Niðurstaða þeirra viðræðna mun koma í ljós innan skamms en það er jafn ljóst að við munum ekki láta málið niður falla þó að meirihluti bæjarstjórnar hafi flýtt sér að skrifa undir samninginn um leið og þau fengu umboð til þess.

Útréttaði aðeins í höfuðborginni fyrst ég var komin yfir Heiðina á annað borð, það verður að nýta ferðirnar ! !

Skjótt skipast veður í lofti og á leiðinni heim var hið ömurlegasta veður, suðaustan rok og slydda sem breyttist í hríð á há heiðinni. Minnti mig á hve leiðinleg þessi leið getur verið þegar illa viðrar.

Rétt náði á skólanefndarfund Grunnskólans í Hveragerði en þar var Ólafur H.Jóhannsson lektor við Kennaraháskóla Íslands með áhugavert innlegg um mótun skólastefnu í sveitarfélögum. Lagði hann mikla áherslu á að um raunverulega stefnu væri að ræða sem hinir ýmsu hópar ættu þátt í að móta og hefðu þannig betri tengingu við en ella. Hann lagði áherslu á að vandað væri til allrar vinnu enda er tilgangslaust að útbúa stefnu verði hún ekki raunverulegt vinnuplagg þeirra aðila sem í málaflokknum starfa. Miklar umræður spunnust um vinnuna sem framundan er og hvernig best yrði að þessu staðið. Nefndin samþykkti að lokum að leggja til við bæjarstjórn að ráðinn yrði ráðgjafi til verksins og skipaður yrði stýrihópur sem héldi utan um starfið og hefði tengsl við alla þá sem hagsmuni eiga í þessari vinnu.

5. mars 2006

Blogg fríi er lokið og nú verður skrifað á hverjum degi. Það er áberandi hve heimsóknum fækkar þegar ekki er skrifað daglega á vefinn og mun verða bætt úr því. Kíkið því reglulega við á síðunni ! ! !
----------------------------------
Það kom mér mjög á óvart að Árni Magnússon skyldi ákveða að hætta sem ráðherra og hverfa af vettvangi stjórnmálanna. Ég, eins og flestir aðrir, hafði þá trú að braut hans væri bein og breið beint í stól formanns Framsóknarflokksins. Við Árni vorum saman í bæjarstjórn í fimm ár eða frá 1998 til 2003 þegar hann tók sæti á Alþingi og gerðist ráðherra. Sjaldnast vorum við þó sammála þessi ár enda ég í meirihluta fyrstu fjögur árin og hann í andstöðu en síðan snérist taflið við þetta eina ár sem Árni sat hér í meirihluta. Pólitíkin hér í Hveragerði getur verið ansi hörð og svo var einnig á þessu tímabili og ófá skiptin þar sem tekist var kröftuglega á. Reyndar man ég helst eftir bókunum ráðherrans varðandi fjárhagsáætlanir og ársreikninga þar sem okkur Sjálfstæðismönnum voru ekki vandaðar kveðjurnar. Ég lærði á þeim ákveðið orðfæri sem komið hefur sér vel nú síðustu ár þegar staðan hefur snúist við og raunveruleg þörf er á kröftugum lýsingarorðum.
En það er sjónarsviptir af Árna af Alþingi, bæði er duglegur og klókur stjórnmálamaður og síðan býr hann yfir flottustu rödd sem á Alþingi hefur hljómað lengi enda sagði ég það eftir síðustu kosningar hér í Hveragerði að hann Árni gæti staðið í ræðustól á Örkinni og talað út og suður um daginn, veginn og veðrið og allir sem á hann hlýddu myndu dásama það hvað ræðan hans hefði verið flott og hann málefnalegur af því hann “hljómaði” svo vel ! ! !
------------------------
Ef einhverjir Hvergerðskir framsóknarmenn lesa þetta eru þeir beðnir um að kíkja á heimasíðu félagsins í Hveragerði og laga gestabókina hjá sér. Get ekki ímyndað mér að þeir vilji hafa þessa gesti til sýnis sem þar hafa kvittað.
Eins og möguleikar netsins er margvíslegir og skemmtilegir þá er misnotkun þess jafn ömurleg og ruslpóstur og hvað þá ruslgestir algjörlega óþolandi.
------------------------
Héðan í frá eru sunnudagskvöldin heilög á mínu heimili. Sýningar hófust á nýjustu þáttunum í Krónikunni í kvöld og þar sem við erum ákafir aðdáendur alls þess sem danskt er þá fylgjumst við auðvitað með þessum þáttum sem vel að merkja eru alveg frábærir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet