<$BlogRSDUrl$>

31. janúar 2017

Er ekki viss um hvort ég var búin að segja ykkur hvað það er mikið um að vera og mörg skemmtileg verkefni í gangi ?      Á hverjum degi fæ ég skemmtilegt og gott fólk í heimsókn sem vill hitta bæjarstjórann og deila reynslu, leita ráða og liðsinnis, kvarta og/eða biðja um úrbætur eða bara að gleðja mig með nærveru sinni. Dagurinn í dag var engin undantekning frá því.  Hér á þessari síðu segi ég auðvitað ekki frá öllu því sem á dagana drífur enda á margt ekkert erindi fyrir alþjóð en sumt er þess eðlis að það má alveg deila því með öðrum.

Í dag fékk ég til dæmis heimsókn frá félagsskapnum "Leiðin út á þjóðveg".  Það voru þau Steinunn Þorfinnsdóttir og Páll Engilbjartsson sem hingað komu og sögðu mér frá starfinu undanfarið.  Það er greinilegt að félagsmenn eru öflugir og afskaplega duglegir og fjölmargt skemmtilegt er framundan. Ungliðastarf innan hópsins er að hefjast og þónokkuð margir sem vilja taka þátt í því.  Samkvæmt lýsingum verður það mjög skemmtilegt.  "Leiðin út á þjóðveg" er félagsskapur sem er ætlað að bæta geðheilbrigði íbúa í Hveragerði með fræðslu um geðsjúkdóma og opinni umræðu um geðræn vandamál.   Félagið heldur fundi einu sinni í viku sem eru öllum opnir.




Fundur eftir hádegi á Selfossi sem stjórn verkefnis um stöðu og framtíð islenskra sveitarfélaga stóð fyrir.  Þar voru m.a. kynntar athyglisverðar niðurstöður skoðanakönnunar sem verkefnisstjórnin hefur látið gera þar sem kannað var hvaða augum íbúar líta á sveitarfélagið sitt og stöðu sveitarfélaga almennt.   Á myndinni má sjá Sjöfn Vilhelmsdóttur kynna niðurstöðurnar.   Á fundinum skapaðist lífleg umræða um sveitarfélögin á Íslandi.  Tilgang þeirra, íbúaþáttöku, stærð og fleira.   Sífellt fleiri virðast átta sig á því að núverandi fyrirkomulag þar sem ekkert lágmark er sett um stærð sveitarfélaga getur ekki gengið mikið lengur.  Aðferðafræðin við breytingarnar er aftur á móti umdeilanlegri !





Í kvöld fengum við afskaplega góða heimsókn austan úr Öræfasveit þegar Anna María í Freysnesi kom í kvöldkaffi.  Hér var spjallað um heima og geima fram að miðnætti - afskaplega notalegt og gott kvöld.  Anna María og Jón maður hennar reka hótelið í Freysnesi af miklum myndarskap og er alltaf gaman að koma til þeirra.  Staðurinn líka algjörlega einstakur ! 

30. janúar 2017

Átti afskaplega góðan fund með Gunnari Jóhannssyni, eiganda Hótels Arkar og Jóhanni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Arkarinnar og Hótels Cabin. Fórum við yfir ýmsar hugmyndir sem þeir eru með varðandi framtíðina og skoðuðum breytingar sem verið að gera á stóra salnum.  Eins og sjá má er búið að rífa sviðið sem hefur verið einkennandi og þá opnast þessir gullfallegu gluggar mót suðri.  Salurinn á að verða tilbúinn fyrstu helgina í mars enda er það eins gott þar sem búið er að bóka árshátíð Hveragerðisbæjar í salnum þá :-)




Dagurinn hófst annars á fundi um endurskoðun aðalskipulags sem er ansi fyrirferðarmikið í dagskrá margra þessa dagana.  Þar stefnum við á að kynna endanlega tillögu á íbúafundi fljótlega.


Átti tvo fundi með ungum mönnum, sem báðir hafa áhuga aog tengjast garðyrkju hvor með sínum hætti.  Það er alltaf gaman að hitta áhugasamt ungt fólk sem hefur skoðanir og hugmyndir.

Meirihlutafundur í kvöld.  Það er að verða snúið hversu mörg mál eru alltaf á dagskrá og margt sem þarf að ræða !



29. janúar 2017



Helgin var annasöm að venju.  Stórskemmtileg leiksýning hjá leikfélaginu á föstudagskvöldið. Heimsókn með vinkonunum til Helgu í Kjarri og stórsteik hjá henni í hádeginu var yndislegt og matarboð með góðum vinum hjá okkur á laugardagskvöldið var líflegt að venju.

Á sunnudeginum komu síðan dætur okkar og tengdasynir með drengina sína í heimsókn og þá var fjör.

Tók þessar flottu myndir af guttunum og ákvað að leyfa ykkur að sjá hvað við Lárus erum rík !



28. janúar 2017

Heimsókn á leikskólann Óskaland í morgun.  Mikið líf og fjör enda var "flæðidagur" á leikskólanu.  Þá daga þá mega börnin fara út um allan skólann og heimsækja hvaða deild sem er og mismunandi leikstöðvar og verkefni eru í boði.  Þetta var afskaplega líflegt og skemmtilegt og eins og alltaf var ég heilluð af því hvað börnin voru þæg og kurteis og starfsfólkið einstaklega notalegt í viðmóti.
Átti einnig góðan fund með leikskólastjórum um ýmis mál.

Eftir hádegi var fundur í stjórn Samband íslenskra sveitarfélaga.  Fjöldi mála á dagskrá enda stóð fundurinn í fullar þrjár klukkustundir.

Beint austur til að passa tvo unga menn í Borgarheiðinni síðdegis.  Þeir eru sannkallaðir gullklumpar báðir tveir.

Naktir í náttúrunni var frumsýnt í kvöld fyrir troðfullum sal.  Skemmtileg sýning og óhætt að hvetja alla til að missa ekki af þessu :-)

26. janúar 2017

Ég er enn að reyna að vinna niður tölvupóstana sem söfnuðust upp á meðan ég var úti.  Stundum finnst manni varla taka því að fara í frí því það er svo mikil vinna að koma til baka :-)

En í dag átti ég langan fund með leikskólastjórum Undralands en nú undirbúum við opnun nýrrar leikskóladeildar sem starfrækt verður til 19. júní.  Ástæða þess er sú að nú er óvanalega stór hópur í elsta árgangi leikskólans og því komust færri börn inn í haust en oft áður.  Einnig eru á biðlistanum mörg forgangsbörn sem við verðum að bjóða pláss með öllum tiltækum ráðum.  Því er nú unnið að því að stofna nýja deild til bráðabirgða í húsnæði Apótekarans sem vonandi flytur bráðlega niður í Sunnumörk.  Í dag fórum við ítarlega yfir allt það sem nú þarf að gerast til að hægt sé að opna deildina.  Starfsmannamál virðast vera í lagi og nokkrir nýir starfsmenn munu bætast í hópinn á næstu vikum en ef allt gegnur að óskum vonumst við til að hægt verði að opna deildina um miðjan febrúar.  Leikskólastjórar munu fljótlega hafa samband við foreldra þeirra barna sem þá verður boðið pláss.  Það munu verða ánægjuleg símtöl þykist ég vita.  Aftur á móti er mikilvægt að hafa í huga að þessi lausn er til bráðabirgða og húsnæðið er ekki sérhannað til þessra nota.  En hér er um elstu börnin að ræða sem vonandi munu líta á þetta sem skemmtilega tilbreytingu eftir áralanga leikskólavist og ekki síst vonumst við til að nálægðin við félag eldri borgara muni einnig verða skemmtilegur vinkill í leikskólastarfinu.  En það er ýmislegt sem þarf að smella til að þetta geti allt gengið í samræmi við áætlun og vona ég að það gangi eftir.

Átti mjög góðan fund með Almari bakara í dag.  Rekstur bakarísins gengur vel og hefur hann hug á stækkun sem er háð því að ákveðið pússluspil bæjarins gangi eftir.  Það er enn eitt verkefnið sem bæjarstjórinn þarf að sinna af krafti núna.

Fékk símtal um afar skemmtilegt og jákvætt verkefni sem komið gæti bæjarfélaginu kyrfilega á kortið á næstu mánuðum.  Mikið lifandis ósköp væri nú gaman ef að það gæti gengið eftir.  Meira um það síðar. :-)

Eftir hádegi sótti ég fund sveitarstjórnarmanna þar sem fulltrúi samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga kynnti vinnu sem framundan er varðandi mat á störfum grunnskólans.   Mun sú vinna byggja á bókun 1 með nýgerðum kjarasamningi Grunnskólakennara og sveitarfélaganna.  Bæjarstjóri, formaður fræðslunefndar, þrír fulltrúar kennara og skólastjóri munu mynda starfshóp og vinna að mati á framkvæmd vinnumats og fleiru.  Ég hlakka til að hefja þá vinnu enda tel ég að skólastarf hér sé afar gott og það verður gaman að kortleggja hvað vel er gert og hvar við getum í sameiningu gert betur. 

Mamma á afmæli í dag svo ég kíkti þangað síðdegis og fljótlega fylltist húsið af fólki.  Laufey kom með strákana, Sigurbjörg með stelpurnar og Valdimar og Hafsteinn litu einnig inn.  Mikið fjör og mikið spjallað og að sjálfsögðu var ungviðið mest áberandi eins og vera ber.   En mamma er núna orðin 77 ára og rifjuðum við af því tilefni upp árin þegar Valdimar afi bjó hjá okkur en ætli hann hafi ekki búið með okkur í rúm 10 ár.  Akkúrat á þeim aldri sem mamma er núna. Hún rifjaði upp að þá hefði henni fundist hann pabbi sinn ansi mikið gamall, en núna finnst henni hún ekkert vera gömul.  Það er reyndar alveg hárrétt hjá henni enda er mamma ótrúlega hress, lífleg og dugleg kona á besta aldri ;-)

Í kvöld hittumst við síðan öll aftur hjá Guðrúnu þar sem við ætlum að gleðjast ásamt vinum hennar yfir viðurkenningu FKA.   Eins og ég hef stundum sagt þá getur það verið ígildi 50% stöðu að vera í stórri samheldinni fjölskyldu.  En mikið óskaplega er þetta dýrmætt og mikilvægt að gefa sér ávallt tíma þó ekki sé það alltaf mikið til að vera með og taka þátt ...

25. janúar 2017

Guðrún systir fékk í dag viðurkenningu FKA árið 2017.  Hún er mikil kjarnorkukona sem komið hefur með ferskan blæ inn í heim iðnrekenda og atvinnulífs á Íslandi. Ótrúlega dugleg og afkastamikil og sinnir sínum störfum afskaplega vel.  Hún flutti mjög góða þakkarræðu á verðlaunahátíðinni enda vorum við fjölskyldan afar stolt af henni.  Við enduðum síðan öll á Hótel Holt í skemmtilegum hátíðarkvöldverði með öðrum verðlaunahöfum dagsins.  Alltaf gaman þegar við erum saman og ekki skemmdi tilefni fyrir -  Innilega til hamingju elsku systir !



24. janúar 2017

Kom til vinnu síðastliðinn mánudag eftir afskaplega góða daga og hlýja í Flórída.  Þarf ekki að fjalla um það frekar hér enda minningablogg komið hér á ferðasíðuna til hliðar.

En undanfarnir dagar hafa að mestu farið í fundahöld ýmiskonar og fjölda annarra verkefna.  Eitt af þeim skemmtilegri var á mánudag þegar við fórum og tókum á móti flóttamönnum frá Sýrlandi á Leifsstöð. Það var eftirminnileg stund þegar í salinn gengu 10 örþreytt börn og foreldrar þeirra sem með stórum augum horfðu á þennan hóp sem beið eftir þeim og vonandi bauð betra líf fyrir þau öll.  Eftirvænting, spenna og gleði einkenndi hópinn og óendanlega mikið þakklæti.  Þrátt fyrir litla enskukunnáttu var greinilegt að þau kunnu vel að meta hug Íslendinga og margoft þökkuðu þau fyrir sig.

Það var síðan alveg einstakt að sjá sjálfboðaliða Rauða krossins bíða með fána fyrir utan íbúðina hér í Hveragerði hafandi eldað kvöldmat og gert íbúðina dásamlega fallega.

Aftur á móti mun ég aldrei gleyma svip yngstu stúlkunnar, 4 ára, þar sem hún sat á hjónarúminu með nýja fallega, stóra dúkku sem beið hennar hér og með stórum hikandi augum horfði hún þögul í kringum sig og faðmaði dúkkuna sína nýju.  Ég var svo stolt og ánægð fyrir hönd okkar allra hér í bæ að geta gefið þessum börnum og foreldrum þeirra von um nýtt og betra líf.  Þetta verður ekki einfalt og þetta mun án vafa á stundum verða erfitt en þegar upp verður staðið vona ég svo sannarlega að fjölskyldan muni finna sig hér hjá okkur.

12. janúar 2017

Við Lárus brugðum okkur í flandur og venju samkvæmt er haldin dagbók á netinu.   Mér finnst það orðinn algjörlega ómissandi þáttur í ferðalögum okkar ekki síst til þess að muna hvað við gerðum og hvert við fórum í hverri ferð.  Hausinn á manni rúmar nefnilega ekki nema ákveðið magn af minningum og þegar búið er að fara víða og skoða margt þá vill margt hreinlega gleymast og meira að segja alveg ótrúlega hratt.  Bý því alltaf til blogg og ef áhugasamir vilja fylgjast með þá geta þeir gert það hér:  Ferðalag í janúar 2016

5. janúar 2017

Nú er verið að færa Mjólkurbúið til upprunalegs horfs en verið er að skipta út gluggum efri hæðar þannig að þeir verði eins og teikningar gerðu ráð fyrir í upphafi.   Einnig hefur öll einangrun verið rifin innan úr húsinu og það einangrað og klætt að innan upp á nýtt.

Á háaloftinu fannst þetta gamla snifsi úr dagblaði frá 26. nóvember 1929 en þar er einmitt verið að fjalla um flóttamenn.  Þetta finnst mér afar táknrænt þar sem flóttamenn frá Sýrlandi munu einmitt koma til með að búa í húsinu en von er á þeim þann 23. janúar til landsins.

Ekki síður fannst mér gaman að þetta blað skyldi finnast því Kristinn Vigfússon afi minn byggði þetta hús og því hefur hann væntanlega lesið þetta blað á sínum tíma.



4. janúar 2017

Hóf daginn með fundi á leikskólanum Undralandi þar sem við Birkir Sveinsson, formaður fræðslunefndar, hittum foreldra elsta hópsins á leikskólanum.  Á fundinum gerðum við grein fyrir hugmyndum sem uppi eru um að bæta einni deild við leikskólann og flytja þangað elsta hópinn með það fyrir augum að létta á biðlistanum og ekki síður koma inn á leikskólann börnum í forgangshópum. Hugmyndin er að leigja húsnæðið sem nú hýsir apótekið og opna þar eina deild sem tilheyri leikskólanum.  Enn þarf að hnýta nokkra lausa enda áður en hægt er að leggja formlega tillögu um þetta mál fyrir bæjarstjórn en fundurinn í morgun var liður í því að meta hvort að þessi hugmynd gæti gengið upp.  Af viðbrögðum foreldra má ráða að þetta geti gengið og vorum við afar þakklát fyrir þann skilning á stöðunni sem hópurinn sýndi.

Átti einnig góðan fund með fulltrúum Lyfja og heilsu um einmitt leiguna á húsnæði apóteksins.  Þetta var reyndar hinn allra besti fundur þar sem eignastýringamaðurinn á fjögur börn og hafði ríkan skilning á stöðunni sem bæjarfélagið er í og gat sagt frá líflegu heimilishaldi sínu með afar skondnum hætti.  Alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk :-)

Eftir hádegi fylgdum við henni Maríu Haraldsdóttur síðasta spölinn í fallegri athöfn í troðfullri Hafnarfjarðarkirkju.  María er einkasystir tendapabba og hafa þau ávallt verið afar samrýmd.  Það er mikil gæfa að fá að yfirgefa þetta jarðlíf södd lífdaga í faðmi stórrar og samheldnar fjölskyldu eftir afar stutta sjúkdómslegu.  Fyrir þá sem eftir lifa er söknuðurinn sár þó að minningarnar séu margar og góðar um skörulega, líflega og skemmtilega konu.


3. janúar 2017

Oft eru fundir sem ég sit þess eðlis að ég get ekki sagt frá innihaldi þeirra eða hverjir sátu þá.  Ekki að  það sé verið að ræða einhver hernaðarleyndarmál í Sunnumörkinni oft í viku en ég þarf ekki að vera fyrst með fréttirnar og iðulega er verið að spá og spekúlera í hlutum sem óljóst er hvort að verði að veruleika.  Það er nefnilega ekki gott að vera í sífellu að tala upp fyrirtæki og/eða uppbyggingu sem ekki verður síðan að veruleika en jafn nauðsynlegt að taka vel á móti öllum og ígrunda allar hugmyndir því maður getur aldrei verið viss um hvað reynist góð hugmynd og hvað verður að veruleika.   Að þessu sögð er rétt að segja ykkur frá því að ég átti afar jákvæðan og góðan fund með hópi fólks sem á fyrirtæki hér fyrir austan fjall og íhugar að flytja það í Hveragerði.  Hafa fallið fyrir staðsetningunni og umhverfinu og þeim möguleikum sem hér eru.  Við viljum auðvitað fá fleiri fyrirtæki og því var þetta mjög góður fundur.

Í hádeginu áttum ég og fulltrúar Árborgar góðan fund með Sólveigu sem ráðin hefur verið verkefnisstjóri um móttöku flóttamanna.  Hún er mikill reynslubolti á þessu sviði.  Hefur unnið víða á hamfarasvæðum erlendis en hefur undanfarið unnið með hælisleitendum í Reykjavík.  Hingað til Hveragerðis mun koma 7 manna fjölskylda, hjón með 5 börn sem öll eru yngri en 16 ára.  Nú er unnið hörðum höndum að því að innrétta efri hæð mjólkurbúsins í miðbænum en þar mun fjölskyldan búa.  Fallegt hús á besta stað með mikla sál.  Vona að þeim eigi eftir að farnast vel hér hjá okkur.



2. janúar 2017

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir og kærar þakkir fyrir skemmtilegar samverustundir og gott samstarf á liðnum árum.

Ég set mér alltaf áramótaheit vel vitandi það að oftast tekst mér ekki að halda þau.  Í ár eru þau aldrei þessu vant ekki tengd líkamsrækt eða einhverju slíku enda er ég ágætlega ánægð með sjálfa mig og komin á þann aldur að ég er nú bara ótrúlega ánægð með hvert ár, hverja hrukku og hvert kíló enda búin að hafa hálfa öld til að safna þessu öllu saman :-)

Nei núna ætla ég að rembast við að njóta fleiri stunda með þeim sem með þykir vænst um og er búin að setja mér mælanleg markmið í þeim efnum.  Einnig ætla ég að lesa dagblöð/dagblað á hverjum degi og blogga á þessu bloggi að lágmarki 2x í viku á næsta ári.  Það er alveg hreint með ólíkindum hvað samfélagsmiðlar, facbook og snapchat, eru miklir tímaþjófar og því verða þeir að víkja fyrir áramótaheitunum eigi þau að virka á þessu ári !

En í dag var ég mætt snemma í vinnuna og naut þess að vera ein að bardúsa á skrifstofunni enda höfum við hér í heiðri þann góða sið að mæta ekki fyrr en kl. 9 að afloknum lengri fríum og það gerðu því flestir aðrir í morgun.

En í dag átti ég góða fundi með aðilum tengdum garðyrkju.  Báðir voru jákvæðir og sáu framtíð í greininni sem fyllti okkur bjartsýni.  Lyklar að garðyrkjustöðinni við Þelamörk duttu í hús í dag en bæjarfélagið leysti til sín stöðina nú nýverið.

Hitti einnig Helga formann Rauða krossins hér í Hveragerði en Hveragerðisbær mun útvega þeim geymsluhúsnæði til að safna saman húsgögnum og innanstokksmunum fyrir fjölskylduna frá Sýrlandi sem hingað kemur í lok mánaðarins.

Átti langan fund um skipulagsmál og uppbyggingu með Guðmundi Baldurssyni, skipulags- og byggingafulltrúa og einnig með Eyþóri en hann er formaður Skipulags- og mannvirkjanefndar.

Meirihlutafundur í kvöld þar sem liðir á dagskrá slaga á fjórða tuginn - nóg að gera, kæru vinir, nóg að gera :-)





This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet