<$BlogRSDUrl$>

29. september 2010

Þá er skömm Alþingis orðin algjör. Að draga Geir H. Haarde fyrir Landsdóm er með hreinum ólíkindum og seint hefði ég trúað að Alþingismenn legðust jafn lágt. En fátt kemur manni lengur á óvart í landsmálunum. Geir er einn heiðarlegasti og grandvarasti stjórnmálamaður sem við höfum átt og sennilega vann hann sér það eitt til saka að vera ekki nógu mikill refur. Refirnir í samfélaginu þeir þurfa nefnilega ekki að hafa áhyggjur af ábyrgð, verandi í skjóli fyrningar og óskiljanlegra annarra hagsmuna.

Fylgist eins og flestir með atkvæðagreiðslunni frá Alþingi í dag. Það truflaði þó ekki dagleg störf. Hitti meðal annars Dóru menningarfulltrúa Suðurlands en til stendur að setja Safnahelgi á Suðurlandi hér í Hveragerði þann 4. nóvember. Slíka samkomu þarf að skipuleggja þannig að sómi sé að og fórum við yfir dagskrána í grófum dráttum.

Vann í fjárhagstengdum málefnum en nú nálgast fjárhagsáætlunargerð óðfluga og því er nauðsynlegt að fara vel yfir ýmis atriði henni tengd. Það er bráðnauðsynlegt að draga saman seglin eins og hægt er og skrúfa niður rekstrarliði sé þess nokkur kostur. Við viljum þó gera allt sem hægt er til að halda góðri þjónustu við íbúana og ég vona að á því verði ekki misbrestur á næsta ári.

Fjöldi smærri mála rataði inná borð í dag og gott að nýta daginn til að ganga frá lausum endum. Fór til dæmis yfir mál tengd Sunnlenskri orku, annað tengt félagsþjónustunni og leikskólamál svo fátt eitt sé nefnt. Drjúgur tími fór einnig í að undirbúa landsþing Sambands sveitarfélaga sem hefst á Akureyri á morgun. Það stefnir í gott þing sýnist mér þar sem til umræðu verða fjármálareglur sveitarfélaganna og drög að nýjum sveitarstjórnarlögum svona meðal annars.
Þrír dagar á Akureyri framundan og blíðskaparveður fyrir norðan :-)

27. september 2010

Helgin leið eins og örskot eins og reyndar allir dagar virðast gera. Á laugardeginum mætti Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðsflokksins í opið hús. Hún var afar skelegg og rökföst. Held að fólki hafi þótt virkilega gaman að því að hitta hana. Hún hafði skoðanir í virkjunarmálum sem hópnum hugnaðist en Bitra er okkur enn afar hugleikin þó að umræða um þá virkjun hafi undanfarið fallið í skuggann af öðrum og stærri málum. Það er opið hús aftur næsta laugardagsmorgun en fyrir fjölmarga er þessi hittingur ómissandi upphaf á helginni. Verst að missa alltaf af göngunni á laugardagsmorgnum í staðinn...

Eftir hádegi á laugardag var 35 ára afmælishátíð Hjálparsveitar skáta í Hveragerði, HSSH. Glæsilegt hóf þar sem meðlimir sveitarinnar tóku afar vel á móti gestum sínum. Færðu fram dýrindis veitingar og tóku við árnaðaróskum og gjöfum. HSSH hefur haft mikla þýðingu fyrir Hveragerðisbæ enda félagar í sveitinni óþreytandi við að koma til aðstoðar þegar mikið liggur við. Það var vel til fundið að gera Svein á Varmá að heiðursfélaga í sveitinni við þetta tækifæri. Hann hefur verið virkur félagi frá upphafi og ómetanlegur bakhjarl þeirra sem yngri eru nú á seinni árum.

Kvöldmaturinn var í Eden en þar er í boði glæsilegt steikarhlaðborð um helgar fyrir lítinn pening. Við Inga Lóa brugðum okkur þangað með fjóra unga menn. Held að það hljóti að hafa verið tap á hlaðborðinu það kvöldið :-) Algjörlega óhætt að mæla með þessu og svo er umhverfið svo huggulegt þegar farið er að rökkva úti...

Datt til hugar að telja þá staði sem selja mat/kaffi með einum eða öðrum hætti hér í Hveragerði og held svei mér að þeir séu ellefu: Hótel Örk, Hoflandsetrið, Mæran, Kondí, Kjöt og kúnst, Tían, HNLFÍ, Eden, Listasafn Árnesinga, Almar bakari, Shell og N1. Þá tel ég ekki með Gistiheimilið Frumskóga og Frost og funa sem selja gestum sínum mat. Þetta er auðvitað með hreinum ólíkindum !!

Rok og rigning á sunnudag en samt farið í langan og röskan göngutúr í anda Péturs og Lísu... Um kvöldið afar vel lukkuð "koma á óvart" veisla í tilefni af stórafmæli Gunnu vinkonu. Krosssaumsklúbbskonur skemmtu sér vel það kvöld ...

Í dag mánudag fór drjúgur tími í að svara erindum og símtölum sem höfðu borist með tölvupósti. Hitti Guðrúnu Olgu Clausen og Sigurð Blöndal vegna samnings sem í bígerð er við nemendur 10. bekkjar um aðstoð við skólastarf. Á sama fund kom einnig Guðríður AAdnegaard til að ræða árlegan samning sem gerður er við 7. bekk um ruslahreinsun í bæjarfélaginu. Þetta eru afar góð verkefni sem mikilvægt er að halda í þrátt fyrir að illa ári. Krakkarnir hafa gott af því að taka ábyrgð og í kjölfarið verður skólabragurinn betri og umgengin um bæjarfélagið einnig.

Eftir hádegi tók ég á móti ráðherra orkumála í Indlandi Dr. Farooq Abdullah. Hann hefur ítrekað verið forsætisráðherra í Kashmír eins og faðir hans og síðar sonur hafa einnig verið. Ef marka má vin minn Google þá er ráðherrann einn af leiðandi stjórnmálamönnum Indlands sem starfað hefur í hringiðu stjórnmálanna þar í landi í 30 ár. Í Kashmír hefur ríkt óöld og því kannski ekki að undra þó að lífverðir hafi fylgt ráðherranum hingað austur. Heldur skrýtið samt fyrir utan Kjöt og kúnst. Við skoðuðum hveraeldhúsið hjá Óla og Önnu Maríu sem vekur ávallt verðskuldaða athygli, heimsóttum síðan Garðyrkjuskólann og Heilsustofnun NLFÍ þar sem baðhúsið var skoðað. Sendiherra Indlands hér á Íslandi var einnig með í för en hann kom hingað í síðustu viku til að skoða aðstæður. Ég fæ líka reglulega tölvupóst frá Baniprosonno og Putul sem eru indversk hjón sem komið hafa í tvígang hingað í tengslum við Listasafnið. Mér finnast tengsl mín við Indland orðin harla góð uppá síðkastið...

Í kvöld hittust meirihlutarnir hér í Hveragerði og í Ölfusi á góðum og skemmtilegum fundi þar sem farið var yfir ýmis mál er snerta þessi tvö sveitarfélög. Það er full ástæða til að eiga mikið og gott samstarf þvert á sveitarfélagmörk enda fjöldi mála sameiginlegur þessum tveimur sveitarfélögum.

23. september 2010

Miklar annir í dag. Síðdegis var fundur með Orkuveitunni sem þurfti þónokkurn undirbúning. Fundinn sátu auk mín Unnur, forseti bæjarstjórnar og frá Orkuveitunni Helgi Þór forstjóri, Elín lögræðingur OR og Páll Erland sem er einn af framkvæmdastjórunum. Tilefnið var ósk bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar um möguleg skil OR á Hitaveitu Hveragerðis. Á fundinum ræddum við mismunandi nálgun að verkefninu en ljóst er að OR vill gjarnan selja en það er jafn ljóst að verðhugmyndir þeirra sem kynntar hafa verið í héraðsblöðum eru ekki nálægt því sem meirihlutinn hafði í huga. Í dag ræddum við ekki þær hugmyndir nema lauslega en aftur á móti fórum við yfir greinar í samningnum um söluna sem setja mögulegt söluferli í ákveðinn farveg. Hvað framhaldið varðar er ljóst að nú þarf meirihlutinn að setjast yfir stöðuna og ákveða hvert framahaldið verður. Tilköllun matsmanna til að meta virði Hitaveitunnar er ákaflega líkleg lending.

Strax eftir fundinn með OR var brunað austur og beint á fund bæjarráðs. Í upphafi fundarins fór bæjarráð út til að skoða skiltin um eftirlitsmyndavélarnar og nágrannavörsluna. Nauðsynlegt að smella af myndum til að marka upphaf þessa góða verkefnis. Á fundi bæjarráðs voru fjölmörg mál tekin fyrir en það er langt síðan að jafn stór mál hafa verið samþykkt. Ákveðið var að ganga til samninga um gatnagerð í Heiðmörk frá Breiðumörk að Grænumörk. Sú framkvæmd er orðin afar aðkallandi en þar er fráveitan einna verst farin í öllum bænum, engin regnvatnslögn er í götunni, gangstéttin er ónýt og áfram mætti telja. Verkið mun skiptast á árin 2010 og 2011 þannig að kostnaður dreifist nokkuð vel. Tilboð lægstbjóðanda var uppá rúmar 74 milljónir króna en sú upphæð fellur ekki öll á bæjarsjóð, fráveita, vatnsveita, rafveita og gagnaveita greiða sinn skerf af verkinu.
Á fundinum var líka ákveðið að ganga til samninga um jarðvinnu vegna gervigrasvallar uppí Dal. Þar með er það verk hafið og vonumst við til að með tilkomu vallarins verði aðstaða til íþróttaiðkunar enn betri en nú er.
Mörg fleiri mál voru tekin til afgreiðslu á fundinum sem þrátt fyrir það var stuttur og snaggaralegur. Það skýrist held ég best með því að ég og Jóhanna Ýr fulltrúi minnihlutans fórum ansi vel yfir fundarboðið í gær og ræddum flest mál í þaula. Það er góður siður sem ég hef fyrir reglu fyrir fundi bæjarráðs og bæjarstjórnar. Þar með eru allir vel inní þeim málum sem taka á til afgreiðslu.

Í gær var langur fundur i stjórn Sambands Íslenskra sveitarfélaga þar sem kynnt voru drög að nýjum sveitarstjórnarlögum og einnig voru þar kynntar til sögunnar tillögur að nýjum fjármálareglum fyrir sveitarfélögin. Enn er þetta efni á kynningarstigi og því er ekki æskilegt að um efni þess sé fjallað opinberlega. Aftur á móti munu sveitarstjórnarmenn fjalla um bæði málin á landsþingi Sambandsins sem haldið verður á Akureyri í næstu viku.

Síðdegis í gær var kynningarfundur fyrir bæjarstjórn vegna skoðunar og forgangsröðunar á skemmudum í fráveitukerfi bæjarins í kjölfar jarðskjálftans. Það er ljóst að þónokkuð miklar skemmdir hafa orðið á fráveitunni en matsmenn gera ráð fyrir að rúmlega 20% kerfisins hafi skemmst. Gengið hefur verið frá bótum vegna þessa og nemur bótafjárhæðin rúmlega 130 mkr.

Gaman að sjá í fréttum Stöðvar 2 í kvöld umfjöllun um ljósmyndasýninguna hennar Önnu Maríu, herrar, menn og stjórar sem opna á á kvennafrídaginn í Húsi hugmyndanna í Reykjavík. Þar verður ein mynd af mér og það sem mér finnst nú vænna um er að þar verður líka ein mynd af mömmu. Hún er stjórnarformaður Kjörís og hefur verið það í 16 ár. Sem slík gegnir hún embætti sem fáar konur hafa hingað til innt af hendi og því mun hún sóma sér vel á sýningunni. Reyndar er gríðarlegt kvennaveldi í þessari fimm manna stjórn því í henni eigum við sæti systurnar þrjár og mamma auk Guðmundar föðurbróður okkar á Selfossi. Örugglega ekki margar stjórnir sem eru svona vel skipaðar :-)

17. september 2010

Afskaplega gott að eiga heilan dag við skrifborðið án funda. Það gerist ekki oft. En í dag gafst góður tími til að fara yfir ýmis mál og koma þeim í ákveðinn farveg. Ræddi m.a.við Ólaf Örn, bæjarstjóra í Ölfusinu um leikskólamál í dreifbýli Ölfuss. Hef þá trú að hægt sé að leysa þau mál farsællega. Mun fara betur yfir það um helgina. Heyrði í Róberti Ragnarssyni, bæjarstjóri í Grindavík, og ræddum við vítt og breitt um stöðu mála og það sem efst er á baugi í sveitarfélögunum. Það er gott að bera saman bækur og oftar en ekki fréttir maður eitthvað sem hægt er að nýta til að gera samfélagið enn betra. Pantaði fund undir lok næstu viku með Helga Þór, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Það þarf að ákveða ferli viðræðna og með hvaða hætti við nálgust að finna út hvers virði Hitaveita Hveragerðis er. Ræddi við nokkra aðra aðila um það mál en þetta er ekki eins einfalt og það kannski virðist svona við fyrstu sýn.

Síðdegis fóru bæjarfulltrúar í golf með stjórnarmönnum í Golfklúbbi Hveragerðis. Hafði í byrjun litlar væntingar til þessarar uppákomu enda hef ég aldrei spilað golf. En þetta kom mér skemmtilega á óvart. Við Jóhanna Ýr vorum í holli með Palla Sveins og Alla og voru þeir frábærir kennarar. Svo góðir og jákvæðir að okkur leið eins og hreinum undrabörnum þegar við komum í klúbbhúsið eftir afskaplega skemmtilegan leik. Hittum kúluna oftast nær undir lokin og stundum fór hún meira að segja í rétta átt. Nú er spurning hvort maður læðist í rökkrinu þegar enginn sér til á æfingasvæðið :-)
Veitingar að hætti Betu toppuðu síðan kvöldið. Takk kærlega fyrir skemmtilega samveru og frábærar móttökur.

Það er enginn vafi að Dalurinn hér fyrir ofan bæinn á eftir að verða ein allsherjar útivistarparadís þegar fram líða stundir. Í dag var fjöldi fólks í golfi, margir á fótboltavellinum, fólk á labbi inní Reykjadal, hestamenn á ferli sem og gangandi vegfarendur. Þetta er leyndarmálið okkar hér í Hveragerði sem verður bara betra og betra :-)

16. september 2010

Afar annasamir dagar að baki. Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga var haldið á Selfossi mánudag og þriðjudag. Þetta er alltaf heilmikill fundur en auk aðalfundar SASS eru haldnir á sama tíma að aðalfundir Skólaskrifstofu Suðurlands, Sorpstöðvar Suðurlands, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Atvinnuþróunarfélags Suðurlands. Margir góðir fyrirlesarar komu auk þess á fundinn þannig að þetta var bæði gagnlegt og skemmtilegt. Mikið er af nýju fólki í sveitarstjórnum og því er þessi vettvangur afar góður fyrir fólk til að kynnast og bera saman bækur sínar. Mér líst afskaplega vel á þennan hóp og veit að samstarf hans á eftir að verða gott. Ég sé að héraðsblöðin hafa gert þessum fundi góð skil þó þar örli nú á rangfærslum eins og þeim að nýkjörinn formaður Sorpstöðvar, Gunnar Egilsson á Selfossi sé eigandi Íslenska gámafélagsins. Það rétta er að félag í eigu bróður hans á hlut í félaginu og skapaði það umræðu meðal margra á fundinum, ekki eingöngu þeirra tveggja sem eignuð er sú afstaða í Sunnlenska fréttablaðinu. Sjálf verð ég stjórnarmaður í Sorpstöð ásamt Gunnari Egilssyni, Ara Thorarensen, Gunnari Þorgeirssyni og Guðmundi Inga Gunnlaugssyni. Hvergerðingar eiga auk þess formann Skólaskrifstofu Suðurlands, Ninnu Sif. Stjórnarmann í Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands, Unni Þormóðs og stjórnarmann í Menningarráði Suðurlands, Eyþór H. Ólafsson. Skoðunarmaður allra félaga innan SASS er Guðmundur Þór. Lárus Kristinn er varamaður í samgöngunefnd og Elínborg Ólafs er varamaður í Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.

Á miðvikudagsmorguninn var vaknað fyrir allar aldir til að ná flugi kl. 7 með öðrum fulltrúum í Ferðamálaráði til Akureyrar kl. 7. Á Akureyri var haldin Ferðakaupstefnan VestNorden og á sama tíma fundaði Ferðamálaráð fyrir norðan.
Nú er verið að marka stefnu í ferðamálum fyrir Ísland og einnig voru kynntar fyrir okkur athyglisverðar nýjar hugmyndir um gæðakerfi í ferðaþjónustu. Ferðamálaráð tók síðan þátt í kaupstefnunni og var það afar athyglisvert. Það var gaman að sjá hversu fjölbreytt flóra íslenskrar ferðaþjónustu er og hversu margt skemmtilegt er í boði. Ég ákvað að heimsækja sérstaklega alla Sunnlensku sýnendurnar og skemmti ég mér konunglega við það. Davíð, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, hafði séð til þess að útlit sunnlensku básanna var allt í stíl, mjög flott og stílhreint og sýndi vel þá samstöðu sem nauðsynlegt er að ná í þessum geira. Framboð á gistingu, mat og afþreyingu er mjög fjölbreytt og í mínum huga er alveg ljóst að við eigum að geta náð enn lengra í þróun þessarar atvinnugreinar með það fyrir augum að stórauka gestakomur hingað á Suðurland og ekki síst til að lengja þann tíma sem gestir dvelja á svæðinu. Móttökur og landakynningar voru í Hofi nýja menningarhúsi Akureyringa. Virkilega skemmtilegt hús sem án vafa á eftir að verða mikil lyftistöng fyrir menningarlíf Akureyringa.

Maður er mannsins gaman og það sannast sem aldrei fyrr á svona uppákomum. Það var sérstaklega skemmtilegt að hitta þarna á sýningunni fólk sem ég hef ekki séð í langan tíma. Hitti meðal annars tvo fyrrverandi vinnufélaga frá Hótel Sögu og rakst síðan líka á íslenskan skólabróður minn frá lýðháskólanum í Noregi sem ég hef hvorki heyrt eða séð síðan. Það var hreint stórkostlegt, virkilega gaman að rekast þarna á hann. Flaug heim rétt um hádegi í dag og náði í vinnuna síðdegis til að grynnka aðeins á tölvupóstinum og erindum sem safnast höfðu upp þessa dagana. Reyndar er ég svo óendanlega þakklát Blackberry símanum mínum sem sér til þess að ég fæ alla tölvupósta jafnóðum hvar sem ég er stödd og því getur maður svarað miklu af erindum jafnóðum. Þetta er ótrúlegur munur.

Í kvöld tók ég ásamt Stellu á Upplýsingamiðstöðinni á móti framkvæmdastjórn ESPA sem eru evrópsk samtök heilsubæja og heilsulinda. Hópurinn kom á hverasvæðið í rökkrinu og sá því ekki eins og mikið og þau hefðu gert í dagsbirtunni, en manndrápshverinn gaus fyrir þau mér til mikillar ánægju, hverabrauðið og eggin brögðuðust vel og Irena Sylva skemmti með fiðluleik. Þetta var afslöppuð og góð heimsókn fólks sem virkilega hafði áhuga á því sem hér er verið að gera og þekkti heilsulindir út og inn. Hópurinn er hér á vegum Heilsustofnunar NLFÍ og með í för voru forsvarsmenn stofnunarinnar. Ég hafði Albert Inga með, mér til halds og trausts enda hafði ég heldur ekki séð hann í fjóra daga. Hann var ansi góður, spjallaði við gestina á ensku um heima og geima og nú á hann heimboð hjá fyrrverandi borgarstjóra Baden Baden, það er nú ekki slæmt þegar maður er fjórtán ára :-)

13. september 2010

Laugardagur í Tungnaréttum. Mikill fjöldi fólks samankominn og þónokkrar kindur. Hittum fjölmarga sem við þekktum og skemmtum okkur konunglega. Gýgjarhólskotsfólk fór reyndar frekar snemma og við í humátt á eftir. Náðum safninu við Einholt og fylgdum við Albert því þaðan á tveimur jafnfljótum. Þetta þykir okkur afskaplega skemmtilegt.
Stoppuðum fram eftir degi i Kotinu og könnuðum við Svava meðal annars skógræktina með tilliti til sveppa :-)

Á leiðinni niður eftir heimsóttum við Sigurveigu og Gísla í bústaðinn á Drumboddsstöðum og döguðum uppi fram eftir kvöldi. Það var svo ósköp notalegt !
Takk kærlega Tungnamenn fyrir góðan dag!

Sunnudagur ansi blautur hér í Hveragerði. Ég, Albert og Bjarni fórum samt í langan göngutúr í rigningunni í morgun. Ekki slæmt :-)

Fengum fullt af góðum gestum í dag og meðal annarra afa og ömmu frá Sauðárkrók sem ákváðu skyndilega að skella sér suður. Alltaf gaman að fá þau í heimsókn.
Á morgun, mánudag, hefst tveggja daga SASS þing á Selfossi. Ágætt að hafa það svona nálægt þá getur maður skotist heim á milli "atriða".

10. september 2010

Afar langur dagur...
Kjörnefnd SASS hittist kl. 8 og kláraði tillögu sína fyrir ársþing SASS. Ekki var hægt að hnýta alla hnúta en það verður væntanlega klárað á þinginu sjálfu.
Fékk kynningu á vefsíðunni keldan.is sem er afar flott heimasíða þar sem hluti er í opnu umhverfi en hafsjór af fjárhagsupplýsingum á lokuðu vefsvæði. Á eftir að skoða þetta betur. Ræddi vaxtamál í kjölfarið við einn af bönkum bæjarfélagsins. Bókaði reikninga þar sem Helga er í fríi en annars er ég að mestu laus við það. Allir forstöðumenn bóka reikninga sinnar deildar sjálfir þannig að ég var eingöngu með reikninga bæjarskrifstofu í dag. Þetta gerir maður á netinu og einnig er hægt að skoða stöður allra deilda á netinu. Það er afar gott að fara einstaka sinnum yfir helstu liði hinna ýmsu deilda. Þannig heldur maður puttanum á púlsinum.

Skrapp til Guðrúnar systur í hádeginu til að kveðja Hafstein sem nú heldur á vit ævintýra í MA. Þangað fór ég sjálf á sínum tíma og hef aldrei séð eftir því. Bjó á heimavistinni í fjögur ár og eignaðist þar vini fyrir lífstíð. MA er líka góður skóli hann er bara aðeins of langt í burtu fyrir minn smekk í dag :-)
Ég er svo heppin að fara á Vestnorden kaupstefnuna með Ferðamálaráði í næstu viku. Hún er haldin á Akureyri þannig að þá get ég tekið út herbergisfélagann hans Hafsteins og aðstæður hjá "litla" frænda.

Nóg að gera eftir hádegi og framyfir kvöldmat. Átti mörg símtöl við hina ýmsu aðila. Skrifaði greinargerð um ársreikning 2009 og sendi bréf til Orkuveitunnar þar sem ég bað stjórnendur um fund í kjölfar samþykktar bæjarstjórnar í gær um að Hvergerðingar eignist Hitaveituna sína aftur. Hef sjaldan fengið jafn jákvæð viðbrögð við nokkru máli eins og því. Undentekningalaust er fólk ánægt með þessa ákvörðun. Ja, allir nema minnihlutinn sem hélt uppi miklum vörnum fyrir Orkuveituna á fundi bæjarstjórnar í gær. Það var hálf kyndugt að hlusta á það þar sem það er nú tæplega hlutverk bæjarfulltrúa í Hveragerði að réttlæta 35% hækkun orkuverðs. Sátu síðan hjá við afgreiðslu tillögunnar. Skrýtið þar sem einungis var nú verið að samþykkja viðræður. Það hefði verið eðlilegra að taka svona einarðlega afstöðu þegar viðræðum væri lokið og vitað væri hvaða verðmiði væri settur á veituna.

8. september 2010

Undanfarna daga hafa fundir hertekið líf mitt. Frá morgni til kvölds. Í dag byrjaði dagurinn á fundi hjá Orkuveitu Reykjavíkur kl. 8. Það ætti að banna fundi í Reykjavík kl. 8, ef ætlast er til þess að utanbæjarfólk mæti. Í fyrsta lagi þá þarf maður að rífa sig upp fyrir allar aldir og svo er maður varla vaknaður fyrr en helmingur fundarins er liðinn. Fundargestir í morgun frá Grundarfirði kvörtuðu sérstaklega undan þessu enda þurftu þau að leggja af stað kl. 5.
Á fundinum gerði nýr forstjóri grein fyrir stöðu og horfum í rekstri Orkuveitunnar og það verður að segjast eins og er að ekki er það bjart...
Hækkanirnar sem boðaðar hafa verið eru afar umdeildar svo ekki sé meira sagt og það er svo sem ekki skrýtið þó íbúar í öðrum sveitarfélögum setji niður hælana þegar hækkunin reynist jafn mikil og raun ber vitni. Hér í Hveragerði hefur meirihlutinn lagt fram tillögu um að hafnar verði nú þegar viðræður við OR um skil á Hitaveitu HVeragerðis til Hvergerðinga. Held að það sé rétt að vinda nú ofan af þeim mistökum sem gerð voru við þá sölu ef þess er nokkur kostur. Ég tæpti á tillögunni á fundinum í morgun og þessi umræða fór í fjölmiðla. Fékk í kjölfarið gríðarlega góð viðbrögð frá íbúum hér í Hveragerði og allir sem ræddu við mig lýstu yfir ánægju með tillöguna.

Hitti leikskólastjóra Undralands og fórum við vel yfir fjölda barna, aldur þeirra og samsetningu deilda ásamt starfsmannafjölda á hverjum stað. Sama gerðum við Ninna Sif,formaður fræðslunefndar, með leikskólastjóra Óskalands og aðstoðarleikskólastjóra eftir hádegi. Þessi vinna er liður í því að ná betri þjónustu við íbúa um leið og hagræðingu er vonandi náð.

Starfshópur um skiltamál Lionsmanna hittist í dag á snaggaralegum fundi ákváðum við að vinna eins hratt og við getum að framgangi þessa máls þannig að sómi sé að fyrir alla aðila og kostnaður verði hóflegur.

Gógó í Eden er 70 ára í dag og náði ég í mýflugumynd í afmælið hennar. Var reyndar ekki lengi og fékk samviskubit yfir því að stoppa svona stutt en við Lalli komum bara aftur eitthvert kvöldið. En það er reyndar ótrúlegt að þessi kraftmikla kona skuli vera orðin sjötug. Hún er sönn fyrirmynd með fítonskrafti sínum og dugnaði. Til hamingju með daginn, kæra vinkona !

Fór í sundleikfimi en ég er að reyna að setja líkamsræktina í öndvegi þannig að ég mæti í gönguna og sundið! Það er nefnilega svo einfalt að láta eitthvað annað alltaf ganga fyrir og þá smám saman dettur maður útúr þessu öllu. Ætla ekki að falla í þá gryfju enn og aftur :-)

Henti í eina marenstertu fyrir saumaklúbbinn annað kvöld áður en ég skellti mér í vinnuna í kvöld. Þetta hljómaði afskaplega ofurkonulega :-)

Heyrði í honum Tim mínum í kvöld. Hann er kominn til New York í skóla svo núna er einfaldara að halda sambandi. Gaman að því.

7. september 2010

Fundur í Héraðsráði Árnessýslu hér á bæjarskrifstofunni í býtið í morgun. Strax á eftir langur og strangur fundur kjörnefndar SASS hér á skrifstofunni en nú er unnið að uppstillingu í nefndir og stjórnir SASS en ársþing samtakanna verður á Selfossi næstkomandi mánudag og þriðjudag. Eftir hádegi var fundur um sameiningarkosti hér á Suðurlandi en Kristján Möller var sérstakur talsmaður fækkunar sveitarfélaga. Þessi hópur var skipaður fyrir kosningar en hefur ekki hist fyrr en nú. Spurning hvort nýr ráðherra er jafn áhugasamur um málið. Nokkrir kostir voru ræddir sem mögulegir til dæmis, Árnessýsla eitt sveitarfélag, Rangárþing og Skaftárhreppur annað. Suðurland allt eitt sveitarfélag og jafnvel Ölfus og Hveragerði í eina sæng. Allt er þetta enn á umræðustigi og spurning hvort það færist nokkuð þaðan í bráð !

Hlaupahópur Hamars fagnaði 1. árs afmæli þann 7. sept. Þá tók Bjössi á Bláfelli þessar flottu myndir. Gönguhópurinn var reyndar í fyrsta sinn fjölmennari þannig að því markmiði var fljótt náð :-)

5. september 2010

Hér eru svo myndir af hinum leiðinlega nýbúa í garðinum okkar!
Hvernig ætli sé hægt að losna við þetta?

4. september 2010

Við Svava eyddum deginum í dag á sveppatínslu námskeiði á Garðyrkjuskólanum, þar sem skógfræðingurinn Bjarni Diðrik Sigurðsson miðlaði af þekkingu sinni. Fórum meðal annars til Snæfoksstaða þar sem gengið var um skóginn og sveppir skoðaðir og tíndir. Afskaplega fróðlegt og skemmtilegt. Kom heim með dágóðan slatta af sveppum, furusveppi, kúalubba, gorkúlu og slímgump. Nú eru þetta allt komið í frysti ásamt dýrðlegu sveppasoði. Eldaði síðan kjúkling með villisveppasósu í kvöld þar sem íslensku sveppirnir voru afar bragðgóðir. Held að ég verði að fara aftur á morgun og tína meira á meðan að ég man hverjir eru ætir.

Undanfarið hef ég verið að finna undarlega sveppi í garðinum hjá mér og því tókum við þá með á námskeiðið til að láta greina þá. Bjarna fannst þeir eitthvað dularfullir svo hann tók þá með til að skoða þá betur. Hópurinn fékk þessi skilaboð frá honum áðan:

Ég get nú staðfest að belgsveppurinn sem fannst í garði bæjarstjórans í Hveragerði er hinn eitraði brjóskbelgur (Scleroderma bovista) sem er síðasta tegundin í námskeiðsheftinu sem þið fenguð. Hann er eini eitraði belgsveppurinn (fýsisveppurinn)! Hann var áður aðeins þekktur frá Reykjavíkursvæðinu og þetta er því í fyrsta skipti sem hann finnst utan Reykjavíkur.

Eintökin sem ég hafði áður séð í Svíþjóð voru aðeins ljósari að innan (gráyrjótt), en núna þegar ég hef haft tíma til að fletta upp í bókunum þá sé ég að hann verður svona svart-yrjóttur að innan þegar hann eldist aðeins.

Bæjarstjórinn fann því óvæntan nýbúa í Hveragerði ;o)


Það er frábært hversu mikið íbúum fjölgar í Hveragerði en nýbúar af þessari tegund mega mín vegna gjarnan vera einhvers staðar annars staðar en í okkar garði :-)


Á meðan að við Svava leituðum sveppa fór karlpeningurnn í Brúarhlaupið á Selfossi. Þeir voru afar stoltir af dugnaðnum en yngri hópurinn byrjaði víst aðeins of hratt, Lárus vissi af reynslu að það er betra að taka því rólega í byrjun :-)

En þeir komu í mark eftir 5 kílómetrana, Albert og Bjarni á 29 mínútum en Lárus á 31...
Þeir voru ekki einu Hvergerðingarnir sem hlupu í dag, hér má til dæmis sjá þær Siggurnar og Elínu að loknu hlaupi!

3. september 2010

Aska í rigningunni í dag eftir langt hlé. Engin ástæða þó til að kvarta yfir því aðrir en við fá víst örugglega meira en við af slíku. En 17 stiga hiti var lika óvæntur og gleðilegur bónus :-)

Byrjaði daginn á því að fara yfir tölur úr ársreikningi bæjarins eftir að hafa lesið um þau sveitarfélög sem nú fá bréf frá Eftirlitsnefnd. Hér í Hveragerði eru skuldir samstæðu A og B hluta 40% yfir tekjum en sé eingöngu horft til A-hluta eru þær 47%. Þetta er auðvitað hátt hlutfall en ekki hærra en svo að hægt sé að tryggja góðan rekstur með ákveðnu aðhaldi á öllum sviðum. Það ætlum við að gera.

Fundur um ýmis sameiginleg mál sveitarfélaganna niður í Þorlákshöfn undir hádegi og eftir hádegi hitti ég leikskólafulltrúa Skólaskrifstofu Suðurlands til að fara yfir ýmis mál vegna leikskólanna. Vantaði ýmsar upplýsingar sem getur verið gagnlegt að hafa við hendina. Gat ekki yfirgefið svæðið án þess að spjalla um skólamál við Kristínu Hreinsdóttur framkvæmdastjóra Skólaskrifstofunnar. Við höfum þekkst lengi en ég var til fjölda ára í stjórn Skólaskrifstofunnar og formaður hennar um tíma. Þetta er virkilega góð stofnun sem sinnir mikilvægum verkefnum. Við ræddum ýmsa fleti á skólastarfi og sérstaklega hvernig í sífellu koma fram reglugerðir og lög sem valda kostnaðarauka hjá sveitarfélögunum án þess að fé komi frá ríki til að standa straum af þeim kostnaði. Hætt er við að ný reglugerð um sérfræðiþjónustu við börn í leik- og grunnskóla valdi meiri kostnaði en hægt er að sjá fyrir nú. Aftur á móti eru ákvæði reglugerðarinnar um aukna og betri eftirfylgni mála án vafa til bóta fyrir börnin.

2. september 2010

Vaknaði vel fyrir kl. 6, dauðhrædd um að sofa yfir mig enda var bæjarráðsfundur kl. 8. Í upphafi fundar hitti bæjarráð Halldór Halldórsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem kynnti starfsemi Sambandsins, helstu stefnumál og áherslur til framtíðar. Halldór er afskaplega góður formaður og öflugur málsvari sveitarfélaganna. Hann hyggur á endurkjör á landsþinginu í lok september. Hef ég fulla trú á því að það takist enda sé ég ekki hver ætti að skáka honum í þeirri baráttu.

Bæjarráðsfundurinn sjálfur var ekki langur þó nokkur mál væru á dagskrá. Endilega kíkið á fundargerðina á heimasíðu bæjarins.

Að loknum fundi gekk ég frá málum í samræmi við afgreiðslur bæjarráðs.

Eftir hádegi hitti ég Pétur Hjaltason, útibússtjóra Sparisjóðs Suðurlands á Selfossi, og fórum við yfir ýmis atrið er lúta að samskiptum sparisjóðsins og Hveragerðisbæjar. Snertifletirnir eru nokkrir og akkúrat í augnablikinu er sá mest spennandi reksturinn í Eden. Þar hefur nýjum aðilum tekist að byggja upp afskaplega góða stemningu á stuttum tíma. Nú eru rúturnar allar farnar að koma við að nýju og það er gaman að sjá rútuflotann sem stundum er á bílaplaninu. Lárus taldi 15 rútur þar einn daginn, svo það var eins og við færðumst nær blómatíma Edens þegar Bragi var enn á lífi.

Ræddi lengi við Eyþór Arnalds í dag en Árborg er eitt af þeim sveitarfélögum sem fengið hafa bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Mikið lifandis býsn er ég ánægð að Hveragerðisbær er ekki í þeim hópi. Ætti að sanna endanlega fyrir þeim sem stöðugt hafa haldið öðru fram að hér eru fjármál bæjarins í ágætu jafnvægi. Það breytir þó ekki því að við þurfum að halda vel á spöðunum og vera vakandi fyrir öllum tækifærum til hagræðingar. Það er það sem öll sveitarfélpg þurfa að gera núna.

Það er stöðug fjölgun hér í Hveragerði núna og í dag voru íbúar orðnir 2.346 talsins. Það er fjölgun um 40 manns frá áramótum go það þykir nú bara harla gott!

Átakið í útrýmingu villikatta er að virka. Aldrei hafa fleiri látið skrá kettina sína og nú og er það vel. Kettir eiga að vera skráðir, með ól og örmerktir, séu þeir það ekki er litið á þá sem villiketti! Slíkt vilja ábyrgir kattaeigendur ekki eiga á hættu...

Einhverjum snillingi fannst við hæfi að skrúfa niður götuskiltið "Börn að leik" sem sett var upp við Hólaróló um daginn. Þetta hefur verið heilmikið fyrirtæki enda skiltið hátt uppí ljósastaur. EN það er horfið sem er einstaklega gremjulegt þar sem svona skilti eru dýr og bæjaryfirvöld vilja með öllum tiltækum ráðum stuðla að umferðaröryggi. Ef einhver veit hvar skiltið er niðurkomið þá látið okkur endilega vita á bæjarskrifstofunni.

Síðdegis var farið með gönguhópnum í 7 km gönguferð, afskaplega hressandi og ekki spillti félagsskapurinn fyrir.

Rétt náði að því loknu á fjáröflunartónleika Hafsteins Þórs Auðunssonar í kvöld. Hann hyggur á dýrt leiklistarnám í London og til að fjármagna það dæmi hélt hann þessa skemmtilegu tónleika. Fjöldi listamanna kom fram til stuðningns Haffa auk þess sem hann söng sjálfur. Hann er svo skemmtilega einlægur og hreinskilinn að það er hreinasta unun. Allavega skemmti ég mér ferlega vel í kvöld. Takk fyrir það Haffi...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet