<$BlogRSDUrl$>

20. apríl 2016

 Ótrúlega ánægð að hafa hitt þennan snilling í dag.   Yann Arthus Bertrand var heiðursgestur fundarins, hélt frábæra ræðu og í kvöld var boðið uppá sérstaka sýningu fyrir ráðstefnugesti á mynd hans Human.  Hún er hreint frábær og skyldi alla eftir með óendanlega margar spurningar og vangaveltur.  Forseti Uruguay var hreint stórkostlegur í myndinni og ekki síður allir þeir sem þar tóku þátt.  Í nær því tvo og hálfan tíma sveifluðust viðstaddir milli gráturs og hláturs og alls tilfinningaskalans þar á milli.  Yann hefur til fjölda ára verið einn af mínum uppáhalds eða allt frá því að ég sá Earth from air sýninguna hans á Austurvelli forðum.  Hann var reyndar afskaplega hrifinn af Íslandi og Íslendingum og það fann ég greinilega í dag.   Annars er ég stödd á Kýpur núna á ráðstefnu og fundi Evrópusamtaka sveitarfélaga þar sem ég er fulltrúi Íslands ásamt Eíríki Birni bæjarstjóra Akureyrar og Gunnar bæjarstjóra Garðabæjar.  Í dag var m.a. rætt um flóttamannavandann og innrás Rússa í Úkraínu en evrópskir sveitarstjórnarmenn samþykktu að sniðganga fund sem þar á að vera í maí.  Á morgun mun ég sækja málstofur um grænar og frjósamar borgir.  Hvernig á að þróa borgir og svæði með tilliti til hækkandi meðalaldurs og sístækkandi hóps eldri borgara.  Einnig er hér áhugaverð málstofa um það hvernig mögulegt er að berjast gegn fátækt og mismunun og margt fleira. Ég held að við Íslendingar höfum ekki notið viðlíka vinsælda á þessum vettvangi frá hruni en nú vilja allir eiga við okkur orð til að fræðast og spjalla um "ástandið" á Íslandi.  Einhvern veginn hafði ég vonað að afglöp íslenskra ráðamanna hefðu ekki verið svona áberandi erlendis en það er nú öðru nær.  We are the talk of the town... 

19. apríl 2016

Á fundinum um endurskoðun aðalskipulagsins á mánudaginnfór fram afar góð kynning á efni sem sérfræðingar um umferðarskipulag hafa tekið saman.  Þessir sömu aðilar unnu stefnumörkun um umferðarmál fyrir bæjarfélagið samhliða núgildandi aðalskipulagi árið 2006 og hefur verið unnið markvisst að framgangi þeirrar stefnumörkunar þrátt fyrir að auðvitað hefðu allir viljað gera það hraðar og víðar.  Þar setti efnahagskreppan óneitanlega strik í reikninginn.  En það sem var athyglisverðast hjá þeim stöllum var að slysum og óhöppum hefur fækkað marktækt í bæjarfélaginu á þeim tíma sem liðinn er og má færa fyrir því sannfærandi rök að þær aðgerðir sem gripið var til svo sem að lækka hámarkshraða í 30 km víða í bænum hafi skipt máli.  Á sama tíma og slysum hefur fækkað umtalsvert hefur íbúum fjölgað um fleiri hundruð og gríðarlegur fjöldi ferðamanna hefur einnig bæst við.  Þetta sýnir að það skiptir máli að fá góða ráðgjöf og fara síðan meðvitað og markvisst eftir henni eins og hér hefur verið gert.  Ráðgjafar okkar óskuðu eftir leyfi til að fá að nýta þessar upplýsingar í fyrirlestri á ráðstefnu norræna kollega og það leyfi gáfum við fúslega, enda eigum við öll að vera stolt af þessum árangri. 

Endilega mætið á íbúafundinn næstkomandi þriðjudag en þar verður betur gerð grein fyrir þessum niðurstöðum og ennfremur gerðar tillögur að enn frekari aðgerðum sem bætt geta umferðaröryggi. 


Byrjaði daginn á því að ræða um hin ýmsu mál við Guðmund, skipulags- og byggingafulltrúa.  Það er heilmikið um að vera í hans deild þessa dagana og sem dæmi má nefna þá fjallaði bæjarstjórn í síðustu viku um leyfisveitingar fyrir 70 gistirýmum á 4 stöðum.  Þarna er um að ræða efri hæðina á pósthúsinu í miðbænum sem breytast mun í hostel.  Gamla Þinghúskaffi gengur nú í endurnýjun lífdaga en verið er að innrétta gistingu þar.  Einbýlishús sem verið hefur í byggingu við Heiðmörk síðan fljótlega upp úr aldamótum mun verða gistiheimili og hjónin Sísí og Smári sem reka Varmi guesthouse hafa lagt fram hugmyndir um gistiheimili á lóð sem þau fengu úthlutað á horni Varmahlíðar og Bláskóga. 

Sjálfbær ræktun,  mikilvægi nálægðar fólks við náttúruna og miklir möguleikar sem fólgnir eru í sívaxandi ferðamannastraumi voru efni viðtals fyrir hádegi.  Það verður fróðlegt að sjá hvað það gæti leitt af sér. 

Fékk heimsókn frá Reitum fyrir hádegi þar sem við fórum yfir möguleika tengda bæjarskrifstofunum.
Þar hafa fæðst nokkuð góðar hugmyndir sem er vel þess virði að þróa aðeins áfram. 

Fundur í kjörnefnd Héraðsnefndar Árnesinga hér eftir hádegi en í næstu viku er vorfundur fulltrúaráðs og þar er áskilið að kjósa skuli framkvæmdastjón og í önnur laus embætti. 

Góður en langur fundur um endurskoðun aðalskipulagsins sem nú er í gangi síðdegis.  Þar voru kynnt fyrstu drög að umferðarskýrslu og eins lögð lokahönd á kynningu skipulagsráðgjafa um sjálfa endurskoðunina.  Íbúafundur um endurskoðunina verður á þriðjudagskvöldið í næstu viku og eru íbúar hvattir til að mæta. 

Í gærkvöldi var síðan fundur í stjórn Listasafns Árnesinga þar sem gengið var frá ársreikningi safnsins.  Gaman að geta þess að gestir safnsins voru um 12.000 á síðasta ári sem telst nokkuð gott. 



15. apríl 2016

Nokkrar nýjar fréttir eru komnar á heimasíðu Hveragerðisbæjar sem var löngu tímabært enda alltof, alltof langt síðan eitthvað var sett þar inn síðast.  Við erum alls ekki nógu dugleg við að miðla upplýsingum til bæjarbúa á þennan hátt en við ætlum alltaf að gera betur.  Það hlýtur að takast einn daginn. 

Í morgun var fundur í Innanríkisráðuneytinu í starfshópi um uppbyggingu og eflingu sveitarstjórnarstigsins eða kannski heitir hann framtíðarskipan sveitarstjórnarmála.  Allavega var fundurinn góður en þar var m.a. farið ýtarlega yfir hlutverk Jöfnunarsjóðs og þá stöðu sem hann gegnir í rekstri og umhverfi sveitarfélaga.

Heimsótti Halldór hjá Reitum og áttum við afar gott spjall um verkefni sem við vinnum nú að í Hveragerði. Það mun skýrast í mai. 

Hafði samband við nokkrar ráðningarstofur og falaðist eftir tilboðum vegna ráðningar skólastjóra.  Við stefnum á að auglýsa stöðuna um næstu helgi. 

Eftir vinnu heimsótti ég Dvalarheimilið Ás en þar fóru fram afar skemmtilegir tónleikar með KK  í boði Hljómlistarfélags Hveragerðis.  KK spilaði einnig fyrr um daginn á leikskólunum og í kvöld á Hótel Örk á ókeypis tónleikum fyrir alla bæjarbúa.  Þetta var afar góð afmælisgjöf ti bæjarfélagsins sjötugs sem margir nutu.  Þannig eiga afmælisgjafir Hveragerðisbæjar þetta árið helst að vera ...



14. apríl 2016

Var beðin um að taka sæti í ráðgjafarhópi Framtíðarseturs Íslands nýlega og í dag hittist hópurinn í fyrsta sinn.  Framtíðarsetrið er samstarfsverkefni Háskólans á Bifröst, Nýsköpunarmiðstöðvar og KPMG en með stofnun setursins er ætlunin að koma á laggirnar metnaðarfullri starfsemi hér á landi á sviði rannsókna og þjónustu, í samstarfi við ólíka aðila samfélagsins, um margvíslega framtíðarrýni.       

Vinnustofan í morgun var einstaklega skemmtileg enda hópurinn góður og þátttakendur líflegir og reynslumiklir úr hinum ýmsu geirum samfélagsins.  Það er óneitanlega ögrandi viðfangsefni að reyna að sjá fyrir sér framtíðarnar sem við getum átt í vændum og það verður fróðlegt að fá að taka þátt í þessu verkefni. 

Átti fund ásamt Árna Eiríkssyni, Flóahreppi, fund með Landvernd þar sem við ræddum mögulegar breytingar á eignarhaldi Alviðru og Öndverðarness en við Árni vorum skipuð fulltrúar Héraðsnefndar í þá vinnu.  Við gengum frá tillögum sem leggja á fyrir eigendahópinn en brýnt er að finna þessum jörðum verðugt hlutverk í framtíðinni. 

Var einnig falið af Héraðsnefnd að koma Hrísholti 8 á Selfossi í sölu.  Nú er ljóst að AA hópurinn á Selfossi hefur ekki áhuga á að kaupa eignina eins og talið var í fyrstu og því fer hún nú í beint söluferli. Kom því máli áleiðis í dag. 

Síðdegis var bæjarstjórnarfundur þar sem ég í upphafi kynnti glænýja niðurstöðu Hæstaréttar í máli sem ábúendur á Friðarstöðum höfðu áfrýjað til Hæstaréttar eftir sigur bæjarins í héraðsdómi.  Í stuttu máli er niðurstaðan sú að öllum kröfum áfrýjanda var hafnað og þeim gert að greiða Hveragerðisbæ 850 þúsund í málskostnað.  Með þessum dómi er margra ára málarekstri lokið og  óneitanlega er þungu fargi af manni létt þess vegna. 

Við Lárus heimsóttum í kvöld Viktor Sveinsson og fjölskyldu en þau búa í Seyðtúni húsi Kristins Péturssonar, listamanns.  Húsið stendur við Bláskóga og er um margt afar sérstakt.  Viktor fór yfir sögu hússins og sýndi okkur ýmislegt sem varðveist hefur frá Kristni.  Afar fróðleg og skemmtileg kvöldstund. 



12. apríl 2016

Átti góðan fund í morgun með Andrési Úlfarssyni frá Iceland activities og Guðmundi Baldurssyni vegna rammaáætlunar sem nú er í kynningu.  Það er hreint með ólíkindum að enn og aftur skuli eiga að ráðast inn á óröskuð svæði hér á Hengilssvæðinu og setja þau í nýtingarflokk.  Það er reyndin með Þverárdal sem er afar fallegur óraskaður dalur hinu megin við Ölkelduhálsinn eða um 6 km frá Hveragerði.  Það er reyndar afar sérstakt að lesa rökstuðninginn fyrir þessari ákvörðun í rammaáætluninni en í öðru orðinu er fjallað um gildi Hengilssvæðisins sem útivistarsvæðis og í hinu er  gert ráð fyrir nýtingu með tilheyrandi lagnaleiðum á fallegustu stöðum svæðisins.  Þetta mál er rétt að byrja ! 

Kláraði fundarboð bæjarstjórnar í dag og meðal annars jafnréttisáætlun bæjarins sem fer til fyrri umræðu í bæjarstjórn á fimmtudaginn. Síðdegis var starfsmannafundur í grunnskólanum þar sem áfram var unnið með niðurstöður úttektar Gunnars Gíslasonar, ráðgjafa.  Vona að fundurinn hafi verið góður en ég þurfti að fara áður en hann kláraðist.  

Kveðjuhóf í japanska sendiráðinu síðdegis fyrir sendifulltrúann sem nú er á leið heim aftur.  Alltaf gaman að hitta nýtt fólk og ég komst til dæmis að því að japanska er næst vinsælasta tungumálið í Háskóla Íslands og að við Íslendingar eigum afar auðvelt með japanskan framburð.  Spurning um nýtt áhugamál?

Vinur minn Guðmundur Einarsson fékk far með mér austur og við buðum honum einnig í kvöldmat sem  var örugglega meiri skemmtun fyrir okkur en hann.  Ég ætla svo sannarlega að gera það sem ég get til að verða jafn hress og Guðmundur þegar ég verð 91 árs.   Lykillinn er jákvæðni og gleði sýnist mér.  Hann byrjar allar setningar og sögur á orðunum "ég var svo heppinn..."  alveg sama hversu erfið lífsreynslan hefur verið.  "Ég var nú svo heppinn þegar ég sagaði af mér fingur og annan hálfan að það skyldi ekki fara meira af hendinni..."   Ég var nú svo heppinn þegar ég fékk berkla 7 ára og þurfti að vera 4 ár á Vífilsstöðum ..."   Ég hélt líka að mér hefði misheyrst þegar hann sagði okkur að hann væri að læra á bassa hjá Bassa!  En jú það er hann að gera og tiltölulega nýbyrjaður af því að það var svolítið erfitt að byrja á læra á gítar þegar mann vantar fingur ! ! !   91 árs kæru vinir, 91 árs ! ! !

11. apríl 2016

Það er svo margt skemmtilegt að gerast þessa dagana hér í Hveragerði og nóg um að vera.  
Til dæmis voru teikningar að fjórum gistiheimilum lagðar fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd í síðustu viku.  Verið er að vinna við innréttingu veitingastaðar þar sem áður var Café Rose og fyrstu teikningarnar að húsum á Grímsstaðareitnum fara að líta dagsins ljós. Svo fátt eitt sé talið. 

Ekki síður er ánægjulegt að nú liggur fyrir ársreikningur Hveragerðisbæjar fyrir árið 2015.   Niðurstaðan er mun betri en ég þorði að vona.  Rekstrarafkoma ársins hjá samstæðu (A og B hluta) er jákvæð uppá kr. 19,9 mkr og A hlutinn skilar 8 mkr í jákvæða niðurstöðu.  Miðað við þær miklu launahækkanir sem hér voru á síðasta ári, breytingu á færslu lífeyrissjóðsskuldbindinga og ýmissa annarra þátta er þetta góð niðurstaða sem íbúar, starfsmenn, stjórnendur stofnana og bæjarstjórn getur verið stolt af. 

Í dag voru hér fundir um ferðamál og framkvæmdir í Hveragarðinum.  Þar er nú verið að vinna að viðbótum við garðinn sem vonandi koma til með að laða til sín enn fleiri gesti. En goshver og tilgátuhús eru þar á prjónunum.  Við vonumst til þess að goshverinn geti farið að láta á sér kræla fyrir miðjan maí. 

Funduðum einnig um framkvæmdir við Hamarshöll en þar á að malbika hluta af bílastæðinu í sumar. Þar ætlum við að malbika þetta stóra plan í áföngum enda er það fjárhagslega yfirstíganlegt með þeim hætti. 

Við Lárus tókum hjólin út í gærkvöldi og nú hjólaði ég í vinnuna og á meirihlutafundinn í kvöld. Tjaldurinn er líka kominn á Varmá og sást meira að segja hér við Mánamörkina í dag.  Vorið er á næsta leyti, það er svo augljóst.  Bíllinn líka kominn á sumardekkin svo það er eins gott :-)

8. apríl 2016

Bæjarráðsfundur í morgun þar sem mál voru mörg en flest til kynningar.

Hingað kom hópur Færeyinga í morgun til að kynna sér Hamarshöllina sem ávallt vekur mikla athygli og aðdáun þeirra sem hingað koma.  Einnig heimsóttu þeir Heilsustofnun sem ekki er síður skemmtilegt. 

Eftir hádegi var fundur í starfshópi um byggingu nýs leikskóla. Teikningar eru komnar vel á veg og núna voru leikskólastjórar og fleiri að rýna þær. Vonandi getum við boðið verkið út í maí. 

Á fjölmennum starfsmannafundi í Grunnskólanum kynnti Gunnar Gíslason niðurstöður í úttekt sem hann hefur gert á starfsháttum skólans.  Þetta var góður fundur og mér fannst svífa yfir vötnum vilji til að taka til hendinni og gera enn betur en áður. 

Fundur í stjórn sveitarstjórnarráðs í Valhöll í kvöld.  Engir mótmælendur urðu á vegi okkar enda sveitarstjórnarmenn ekki skotmörk mótmælenda.  Á fundinn komu þeir Einar Kristinn forseti Alþingis og Guðlaugur Þór alþingismaður og fóru þeir ýtarlega yfir atburði undanfarinna daga og þær væntingar sem bornar eru til næstu mánaða.  

5. apríl 2016

Dagurinn í dag og í gærdagurinn voru afar sérstakir svo ekki sé dýpra tekið í árinni.  Landið meira og minna óvinnufært og sífellt berast nýjar og sérkennilegri fréttir. Hlutirnir breytast svo hratt að á örskotsstundu getur allt hafa snúist á hvolf.  Ástandið er afar sérkennilegt og greinilegt að á slíkum stundum er Ólafur Ragnar í essinu sínu.  Ætli það eina sem er öruggt núna sé ekki það að hann muni bjóða sig fram aftur - og þá verður hann alveg örugglega kosinn!   Hann sýnir óneitanlega myndugleika og er afar landsföðurlegur þegar hann tekur um tauma eins og hann hefur nú gert.  Og merkilegt nokk - það róar mannskapinn !  Spurning reyndar hvernig fer á morgun.  Fyrir okkur Sunnlendinga er það athyglisvert að ef að Sigurður Ingi verður forsætisráðherra þá er það sennilega í fyrsta sinn í sögunni sem forsætisráðherra er búsettur í Árnessýslu !  Hvort það eitt og sér dugar til farsældar verði þetta niðurstaðan verður að koma í ljós !

Annars bar það helst til til tíðinda hér í Hveragerði í gær að Fanney, skólastjóri Grunnskólans,hefur sagt starfi sínu lausu.  Sú uppsögn er í mesta bróðerni og mun hún starfa fram til 31. júlí í sumar og þar með undirbúa nýtt skólaár áður en hún heldur til annarra starfa.  Bæjarstjórnar bíður aftur á móti það verkefni að ráða nýjan skólastjóra.  Það vantar aldrei verkefnin - það er víst ábyggilegt !



1. apríl 2016


Gaman að geta sagt frá því að íbúar Hveragerðisbæjar eru nú 2.466 og hafa aldrei verið fleiri.
Ég hef fulla trú á að á árinu 2016 munu íbúar fara yfir 2.500.  Það er gaman að því hversu margir sjá Hveragerði sem vænlegan búsetukost og því mikilvægt að við stöndum okkur vel í að veita íbúum góða þjónustu,  Það má einnig geta þess að þann 1. apríl 2015 voru íbúar 2.385 svo okkur hefur fjölgað um 81 einstakling á árinu.

Átti fína fundi um Garðyrkju- og blómasýninguna "Blóm í bæ".   Stefnt er að því að hún verði haldin síðustu helgina í júní en þá höfum við lagt inn pöntun fyrir sérlega gott veður !

Skipulagsmál eru í brennidepli núna, en starfshópur um endurskoðun aðalskipulagsins hittist í dag. Nú er í undirbúningi íbúafundur þar sem kynna á mismunandi valkosti nokkurra svæða og ræða aðalskipulagið í heild sinni.  Það er mikilvægt að íbúar mæti og komi sínum skoðunum á framfæri.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet