19. apríl 2016
Á fundinum um endurskoðun aðalskipulagsins á mánudaginnfór fram afar góð kynning á efni sem sérfræðingar um umferðarskipulag hafa tekið saman. Þessir sömu aðilar unnu stefnumörkun um umferðarmál fyrir bæjarfélagið samhliða núgildandi aðalskipulagi árið 2006 og hefur verið unnið markvisst að framgangi þeirrar stefnumörkunar þrátt fyrir að auðvitað hefðu allir viljað gera það hraðar og víðar. Þar setti efnahagskreppan óneitanlega strik í reikninginn. En það sem var athyglisverðast hjá þeim stöllum var að slysum og óhöppum hefur fækkað marktækt í bæjarfélaginu á þeim tíma sem liðinn er og má færa fyrir því sannfærandi rök að þær aðgerðir sem gripið var til svo sem að lækka hámarkshraða í 30 km víða í bænum hafi skipt máli. Á sama tíma og slysum hefur fækkað umtalsvert hefur íbúum fjölgað um fleiri hundruð og gríðarlegur fjöldi ferðamanna hefur einnig bæst við. Þetta sýnir að það skiptir máli að fá góða ráðgjöf og fara síðan meðvitað og markvisst eftir henni eins og hér hefur verið gert. Ráðgjafar okkar óskuðu eftir leyfi til að fá að nýta þessar upplýsingar í fyrirlestri á ráðstefnu norræna kollega og það leyfi gáfum við fúslega, enda eigum við öll að vera stolt af þessum árangri.
Endilega mætið á íbúafundinn næstkomandi þriðjudag en þar verður betur gerð grein fyrir þessum niðurstöðum og ennfremur gerðar tillögur að enn frekari aðgerðum sem bætt geta umferðaröryggi.
Comments:
Skrifa ummæli