<$BlogRSDUrl$>

30. apríl 2012

Dagurinn hófst uppúr kl. 8 á fundi í Grunnskólanum með deildarstjórum og skólastjóra. Fórum yfir þau verkefni sem hæst ber þessa stundina og má þar nefna þróunarverkefni um foreldrasamstarf, nýja lestrarstefnu, málefna barna með sérþarfir og breytt fyrirkomulag á skólastarfi næsta vetur. Mjög góður fundur þar sem farið var vítt og breitt yfir sviðið. Ákváðum að hittast aftur næsta mánudag á sama tíma því okkur gafst engan veginn nægur tími til að ræða allt sem þarf að fara yfir.

Átti langt samtal við Per Thore umboðsmann Duol í Noregi en hann selur okkur Hamarshöllina. Að öllu óbreyttu kemur höllin hingað til lands í lok júní og verður sett upp í byrjun júlí mánaðar. Það verður spennandi tími sem vafalaust margir eiga eftir að bíða í óþreyju eftir. Gervigrasið fer aftur á móti að fara niður á næstu vikum svo þá fara nú framkvæmdir að taka á sig mynd.

Tilboð voru opnuð í göngustíginn innað Hamarshöll og niður í Hverahvamm í morgun. Einungis bárust tvö tilboð og voru þau bæði yfir kostnaðaráætlun. Það kom mér á óvart hversu lítill áhugi reyndist á útboðinu miðað við atvinnuástand.

Héraðsráð Árnesinga fundaði hér eftir hádegi en þar eiga sæti ég, Ari Thorarensen í Árborg og Gunnar Þorgeirsson, Grafningi og Grímsnesi. Settum niður dagskrá fyrir fund Héraðsnefndar sem verður í Þorlákshöfn þann 11. maí. Fórum einnig yfir nýjar samþykktir sem þar verða lagðar fram áður en ég sýndi þeim félögum framkvæmdir við Hamarshöllina.

Átti síðan fund ásamt Jóhönnu með Halldóru Rut Bjarnadóttur þar sem við fórum yfir götuleikhúshugmyndir sem hún hefur fyrir sumarið. Fundum fína lendingu í því máli svo nú geta ungmenni bæjarins hlakkað til listavinnu í vinnuskólanum.

Síðdegis fór ég yfir tölvupósta og svaraði erindum. Það berst hingað ógrynni af pósti sem ég reyni að hafa í ákveðnu kerfi svo ekki gleymist að svara neinum. Það gengur ágætlega en getur óneitanlega tekið tíma. Í kvöld var síðan meirihlutafundur venju samkvæmt á mánudagskvöldum.

Ákvað að leyfa ykkur að sjá hvað hann Guðlaugur Lárusson tekur sig vel út eftir veturinn, það er nú ekki að sjá að þessi öðlingur fagni 10 ára afmæli sínu hvað úr hverju. Hann er reyndar eitthvað útúr hlutföllum á þessari mynd en það er svona þegar verið er að kjá í vélina af helberri forvitni!

Nóg að gera um helgina. Opið hús Sjálfstæðismanna á laugardagsmorgninum. Stórskemmtilegt afmæli síðdegis á laugardag hjá Vigdísi og Hafrúnu sem nú eru orðnar 2 og 4 ára, líflegar ungar dömur. Afmælisgjöfin frá okkur hér á Heiðmörkinni sló algjörlega í gegn, eða hitt þó heldur! Geltandi hundur sem Vigdísi fannst frábær en foreldrarnir hugsa okkur þegjandi þörfina :-)
Á laugardagskvöldinu sat ég kvöldverð á ársfundi Sambands sunnlenskra kvenna sem haldinn var hér í Hveragerði. Góður félagsskapur og gaman að hitta konurnar sem ég þekki margar hverjar af öðrum vettvangi.

Sunnudagsmorgunn í garðvinnu. Er í eilífðar verkefni við að uppræta risavalmúa sem ég illu heilli kom fyrir í beði fyrir mörgum árum. Hann er ansi lífseigur og kemur alltaf aftur og aftur og veður út um allt. Ég mun ekki gefa eftir í þeim slag þrátt fyrir að blómin séu falleg :-) Ég varð ansi undrandi þegar ég sá að hortensíurnar mínar frá því í fyrra hafa allar lifað af veturinn án þess að vera innpakkaðar. Verður spennandi að sjá hvernig þeim vegnar í vor og sumar.



27. apríl 2012

Uppúr kl. 9 var ég mætt á hverasvæðið ásamt fríðu föruneyti en Hveragerðisbær er fyrsta bæjarfélagið til að taka upp notkun á rafgreindum saltvatnsvökva við sótthreinsun og þrif í bæjarfélaginu. Fengum við sérstaka viðurkenningu frá fyrirtækinu Toucan sem framleiðir tækjabúnaðinn. Hér má sjá upplýsingar um fyrirtækið. Fellur þessi aðferð afar vel að stefnu bæjarfélagsins sem umhverfisvæns samfélags. Nú þarf að kynna þetta enn betur fyrir bæjarbúum.

Gat því miður ekki stoppað lengi í Hveragarðinum þar sem ég þurfti að vera mætt í Utanríkisráðuneytið á fund í samráðshópi um Evrópusambands aðildarumsóknina klukkan 11. Þar fór Stefán Haukur aðalsamningarmaður okkar ásamt Kolbeini Árnasyni yfir sjávarútvegsmálin, stöðu og horfur í samningaviðræðunum. Afskaplega athyglisvert og fróðlegt fyrir landkrabba eins og mig! Gat því miður ekki klárað fundinn sem standa átti til kl. 15 því stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hittist á fundi eftir hádegi. Þar varð mikið umræða um innleiðingu NPA notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar fyrir fatlað fólk. Þar er greinilegt að væntingar eru miklar en fjárveiting ríkisins of lítil. Það er erfitt að mæta kröfunum þegar aurinn er ekki fyrir hendi!

Strax eftir stjórnarfundinn var fundur í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins í Valhöll sem stóð til kl. 18. Afslöppun í kvöld eftir mikinn fundadag :-)

26. apríl 2012

Bæjarráðsfundur síðdegis í dag, fá mál á dagskrá svo fundurinn varð í styttra lagi. Í staðinn gafst tækifæri til að ræða um ýmislegt annað eins og til dæmis málefni SASS (Sambands sunnlenskra sveitarfélaga) en þar virðast nú vera stórfellar breytingar framundan. Árborg hefur lýst yfir að þau hyggist draga sig útúr Skólaskrifstofu Suðurlands sem er óneitanlega hryggjarstykkið í SASS. Starfsemi Sorpstöðvar Suðurlands er einnig á vissum tímamótum þar sem ekki reynist gerlegt að finna urðunarstað hér á Suðurlandi. Þar stefnir allt í sameiningu Sorpstöðvarinnar og Sorpu. Þung spor sérstaklega þegar urðunarkostnaður í Álfsnesi er nú 17,58 kr pr. kíló, svona til samanburðar greiddu íbúar hér austan fjalls rétt um 4 kr pr. kíló fyrir að urða sorpið á meðan að Kirkjuferja var enn opin. Það eru margar milljónirnar sem núna fara yfir Heiðina vegna þessa !

Í kvöld fórum við Lárus með strákunum á Rómeó og Júlíu í Borgarleikhúsinu. Mjög skemmtileg sýning sem heillaði greinilega allan aldur. Ótrúlegir loftfimleikar og sérstaklega þegar maður rifjar upp að leikararnir eru búnir að sýna þetta í hátt í áratug. Greinilega í góðu formi :-)

25. apríl 2012

Hittumst fjórar, ég, Ásta Camilla, Guðrún Rósa og Elínborg til að ræða framvindu undirbúnings að Blómum í bæ. Þar er allt komið á fulla ferð. Búið er að hanna bómabeðin með það fyrir augum að þau minni okkur á þema ársins sem er "sirkus". Það stefnir í að verða nokkuð skrautlegt og skemmtilegt. Elínborgu gengur framar vonum að selja bása og kynningarsvæði svo það er í ljómandi góðum farvegi. Dagskrárliðir eru smám saman að fæðast og hugmyndavinna í fullum gangi. Í morgun hittum við Ásta líka fulltrúa Norræna félagsins sem ætla að halda Jónsmessuhátíð sína sama laugardag og Blóm í bæ verður haldin þannig að miðsumarstöng verður reist í Listigarðinum og boðið uppá eldbakað brauð og piparkökum með hvítmygluosti í anda norrænna hefða. Samkoma félagsins tókst afar vel í fyrra svo nú verður leikurinn endurtekinn.

Síðdegis var aðalfundur Kjörís þar sem við systur og mamma eigum sæti í stjórn ásamt Guðmundi föðurbróður okkar. Hann hefur mestar áhyggjur af því að við séum að brjóta jafnréttislög í stjórninni með öllum þessum kvenmönnum og veltir því oft upp hver okkar eigi nú að víkja svo kynjahlutföllin verði jafnari! Við neitum öllum umleitunum um slíkt. Það er svolítið gaman að geta þess að þrátt fyrir kvennaslagsíðu í stjórn Kjörís er áberandi karlaslagsíða í starfsmannahópnum þar sem mikill meirihluti starfsmanna Kjörís er karlmenn, öfugt við það sem margur hefði haldið.

En annars byrjaði ég morguninn eldsnemma á viðtali við Loga og Kollu í Ísland í bítið. Umfjöllunin varð eingöngu um jarðskjálftana við Hellisheiði en ég var að vonast til að það yrði rætt um fleira eins og til dæmis byggingu loftborna íþróttahússins eða þá fjölbreyttu dagskrá sem er framundan hér í Hveragerði á næstu mánuðum. En tíminn varð knappari en til stóð eins og oft gerist í útvarpinu.

Umhverfissinninn Lára Hanna Einarsdóttir hefur sett saman skemmtilegt myndband af umfjöllun fjölmiðla um manngerðu jarðskjálftana við Hellisheiðarvirkjun. Hér geta áhugasamir nálgast myndbandið.

24. apríl 2012

Hitti í dag tvo góða Hvergerðinga sem báðir höfðu ýmislegt til málanna að leggja. Guðni Guðjóns kíkti við í stutt spjall um nokkur atriði sem betur mega fara í bænum. Fínar ábendingar þar á ferð en það er alltaf gaman að hitta Guðna. Hulda Hjaltadóttir kom síðan til fundar við okkur Jóhönnu til að ræða ferðamál og afþreyingu ferðamanna hér í Hveragerði. Hún er í námi í ferðamálafræði og er nú að vinna verkefni um bæinn. Í því spjalli fæddust margar góðar hugmyndir sem verður gaman að velta betur fyrir sér. Hún sannaði einnig hið fornkveðna að betur sjá augu en auga og því nýtti ég tímann síðdegis í dag til að hnykkja aðeins betur á ýmsum atriðum á heimasíðunni. Dældi til dæmis inn hinum ýmsu viðburðum sem ég vissi að væru á döfinni. Hvet alla sem lesa þetta til að senda bæjarskrifstofunni tilkynningar um viðburði til að hægt sé að setja þær á síðuna. Það er ekkert verra en þegar þessi reitur er auður, það gefur alls ekki rétta mynd af félagslífi bæjarbúa :-)

Eftir vinnu tók við heimanámsaðstoð hjá unga manninum. Þar er nóg að gera enda hyllir nú undir lok grunnskólagöngu hans og okkar foreldranna þar með!

Margir halda að það sé bæði flókið og erfitt að flokka ruslið sem frá okkur kemur. En það er nú öðru nær :-) Þennan snilldarlega flokkunardall sá ég á brautarstöðinni í Brussel en þar komast engir upp með að flokka ekki ruslið... Haldið þið ekki að svona græja myndi sóma sér vel í grunnskólanum eða í íþróttahúsinu?


23. apríl 2012

Heyrði í Laufeyju áðan en þau eru núna stödd í Hondúras. Á morgun liggur leiðin á Inca slóðir í Guatemala, Tikal, og áfram er síðan haldið í átt að Belize. Nú styttist í heimferð þann 9. maí. Verður gott að fá þau heim.
Hér lagðist kvefpest eins og mara enn eina ferðina á mig og yngsta soninn. Þetta er nú að verða ansi hvimleitt. Ég fór nú samt í þriggja daga kynnisferð til Brussel að skoða Evrópusambandið. Held að það hafi grásloppið þrátt fyrir að það sé örugglega hægt að hafa skemmtilegri ferðafélaga en eina svona kvefaða og hóstandi kvensnift!
Ferðin var áhugaverð og gagnleg þó ekki hafi hún breytt þeirri skoðun sem ég hafði áður á Evrópusambandinu.

Bókin Hungurleikarnir fylgdi með út og kom skemmtilega á óvart. Virkilega góð, nú get ég varla beðið eftir framhaldinu ;-)

Í gær sunnudag fór ég að sjá Línu langsokk hér hjá Leikfélaginu, þeir sem það eiga eftir ættu að drífa sig hið snarasta en síðustu sýningar eru um næstu helgi. Hvet alla sérstaklega til að mæta á sýninguna á föstudaginn þar sem það er sérstök styrktarsýning fyrir litla stúlku hér í bæ sem var að greinast með krabbamein. Hvet alla til að leggja henni og fjölskyldu hennar lið í þeirri miklu baráttu sem framundan er.

Annars er mikið um að vera og ekki hægt að gera því öllu skil í stuttri færslu. Skyndileg heimsókn kínverska forsætisráðherrans hingað til Hveragerðis á laugardaginn tókst mjög vel þó fyrirvari til undirbúnings væri einungist rétt tæpur hálftími. Vel að verki staðið þar. Umhverfisverðlaun bæjarins hlaut Grunnskólinn á sumardaginn fyrsta fyrir metnaðarfullt starf að umhverfismálum. Íþróttafélagið Hamar hélt síðan uppá 20 ára afmæli sitt þann sama dag með glæsilegum hætti. Og bæjarstjórinn fjarri góðu gamni í öllum tilfellum verandi erlendis.

Missti reyndar ekki af skjálftahrinunni á laugardagskvöldið en hér fannst einn skjálftinn nokkuð greinilega þó ekki hefði hann nú verið stór!

13. apríl 2012

Átti góðan fund með Gunnvöru leikskólastjóra Óskalands þar sem við fórum yfir biðlistann og hvernig útlit næsta árs er á leikskólum bæjarins. Á biðlistanum nú eru 2-3 börn sem urðu 18 mánaða það sem af er apríl en annars er ekkert barn á biðlistanum sem náð hefur leikskólaaldri. Þykir það harla gott. Í haust munu fleiri börn hætta en tekin verða inn nema að tilflutningur til bæjarins verði töluverður í sumar. Við þessari stöðu verður að bregðast og munu leikskólastjórarnir fara ýtarlega yfir skipulag leikskólanna á næstunni.

Þegar ég kom heim síðdegis í dag tók á móti mér fárveikur ungur maður sem hafði verið einn heima megnið af deginum án þess að láta móður sína vita af veikindunum. Það var því ekki til umræðu að fara að yfirgefa soninn aleinann til að mæta í afmælið hans Magnúsar Karels eins og ég hafði annars hugsað mér! Sendi Magnúsi hér með mínar allra bestu afmæliskveðjur, þykist vita að ég hafi misst af þrusu veislu á Eyrarbakka ;-)

12. apríl 2012

Dagurinn byrjaði á fundi héraðsráðs Árnesinga að Borg í Grímsnesi. Þar fórum við yfir drög að nýjum samþykktum fyrir tilvonandi byggðasamlag sem stofna verður í stað héraðsnefndarinnar þar sem ekki er lengur lagastoð fyrir þeirri stjórnsýslueiningu. Fínn fundur þar sem að vanda voru mörg önnur góð mál krufin til mergjar.

Við tók síðan undirbúningur fyrir bæjarstjórnarfund þar sem lagður var fram til fyrri umræðu ársreikningur bæjarins árið 2011. Hann gæti að ósekju verið betri en það sem skekkir hann hvað mest eru breytingar á lífeyrisskuldbindingum, afskrifaðir vextir hjá innheimtumanni ríkissjóðs og aukin verðbólga. Vegna þessara liða er halli á rekstrarreikningi þó að veltufé og handbært fé sé í mun betra horfi en áður hefur verið. Rekstur stofnana bæjarins er yfirleitt í góðu samræmi við fjárhagsáætlun og þar sem það er ekki þá eru fyrir því gildar ástæður. Skuldastaða bæjarins er undir hinu fræga skuldaþaki sem sett var inní ný sveitarstjórnarlög og er það mjög gott. Nú þurfum við helst að auka tekjurnar með öllum tiltækum ráðum því auðvitað viljum við hafa reksturinn í eins góðu lagi og nokkur er kostur. En eins og endurskoðandinn orðaði það þá er reksturinn í lagi og allar lykiltölur mun betri en undanfarin ár. Frávik frá fjárhagsáætlun liggja að mestu leyti í reiknuðum stærðum sem ekki hafa áhrif á sjóðstreymi. Meira um reikninginn síðar.

Í dag kom einnig hingað til fundar aðili sem hefur miklar og stórar hugmyndir um uppbyggingu í ferðaþjónustu. Hvort þær verða að veruleika hér í Hveragerði er aftur á móti annar handleggur.

Var að setja inn nokkrar myndir sem teknar voru um páskana fyrir austan. Skrollið niður síðuna ;-)

11. apríl 2012

Í dag fékk ég góða heimsókn í vinnuna þegar nemendur í 2. bekk H heimsóttu bæjarskrifstofuna. Þau funduðu með mér við bæjarstjórnarborðið og voru virkilega áhugasöm. Spurðu mig um allt milli himins og jarðar er viðkom Hveragerðisbæ og komu með margar góðar hugmyndir. Ég vona að þeim sé sama þó ég birti hér smá brot úr bréfinu sem þau sendu mér síðdegis um upplifun þeirra af heimsókninni:

Við spurðum Aldísi að mörgum spurningum, t.d hvort það kæmi bráðum rennibraut við sundlaugina og á skólalóðina. Við spurðum líka hvort það væri hægt að fá fleiri gangbrautir í Hveragerði, hjólabrettavöll og hjólabrettanámskeið.
Aldís sýndi okkur myndir úr bæjarlífinu í gamla daga og svo sagði hún okkur margt skemmtilegt um Hveragerði.
Henni finnst mjög gaman í vinnunni sinni því enginn dagur er eins. Stundum fer hún í heimsóknir, t.d í skólana, stundum fær hún heimsóknir en oft þarf hún að vera á fundum, svara tölvupósti eða tala í símann. Þegar við vorum búin að spjalla lengi við Aldísi hvatti hún okkur að hafa samband við sig ef við værum með fleiri spurningar eða hugmyndir um Hveragerði. Við enduðum heimsóknina á að fá að sjá skrifstofu bæjarstjórans og það þótti okkur gaman. Það var mjög fróðlegt og skemmtilegt að fara í heimsókn á bæjarskrifstofurnar.


Heimsóknir sem þessar eru einmitt eitt af því sem gerir þetta starf jafn skemmtilegt og raun er á !


Góður fundur á Selfossi í dag um klasasamstarf í ferðaþjónustu á Suðurlandi. Góð mæting og gott hljóð í viðstöddum varðandi framhald verkefnisins. Þetta gæti orðið vísir að einhverju sem skipt gæti sköpum varðandi uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu á svæðinu. Saman erum við svo miklu sterkari !


Í morgungöngunni í morgun flugu upp 4 snjóhvítar rjúpur beint fyrir framan mig á stígnum og tjaldurinn er löngu mættur á svæðið. Brum er á öllum trjám og nú er bjart langt fram á kvöld. Vorið er að koma það er nokkuð ljóst.

10. apríl 2012

Flottu bróðurdætur hans Lárusar, Jenný, Lára og Íris.

Júlía og Billi með fermingardrenginn og dæturnar á milli sín.

Friðrik með son sinn Kristján Júníus í fermingunni á Höfn.

Þessi flottu hreindýr voru meðal þeirra fjölmörgu sem við sáum á leiðinni.

Magnús og Steinunn með litlu Bryndísi frá Djúpavogi.


Með Lindu og Ásdísi.

9. apríl 2012

Fyllist undrun og þakklæti í hvert sinn sem ég uppgötva að þrátt fyrir að sjaldan sé sett eitthvað nýtt á þessa síðu þá á hún samt dygga lesendur. Núna ákvað ég að bæta um betur...

Gert var víðreist um páskana og haldið í langferð austur á Höfn og Djúpavog, fermingar á báðum stöðum í fjölskyldu Lárusar. Guðjón Steinsson á Djúpavogi og Kristján Júníus Friðriksson á Höfn. Myndarlegir ungir menn sem fögnuðu stórum áfanga í hópi vina og ættingja. Við bjuggum í miklum vellystingum í húsi Torfa mágs míns og Döddu sem eyddu páskunum í Danaveldi. Það er alltaf gaman að koma á Höfn en þetta landsvæði er með því allra fallegasta. Hafnarbúar eru líka alltaf að gera eitthvað nýtt og nú var að flotti göngustígurinn með sjávarsíðunni sem vakti athygli. Sundlaugin stóð líka eins og alltaf fullkomlega fyrir sínu. Það var ekki síður skemmtilegt að keyra á Djúpavog en á leiðinni sáum við fjöldan allan af hreindýrum. Fyrir Sunnlendingana var það skemmtileg sjón.

Á páskadag fór stórfjölskyldan í Hveragerði á Hótel Geysi í glæsilegt hádegisverðarhlaðborð sem þar var. Það sem vakti ekki hvað síst athygli var hinn mikli fjöldi erlendra ferðamanna sem þarna var. Það er greinilegt að ferðamönnum hefur fjölgað og að ferðamannatíminn alla vega hér á Suðvesturhorninu er að lengjast. Renndum á heimleiðinni við á Laugarvatni þar sem Fontana böðin voru skoðuð, næst verða sundfötin tekin með !

Það eru svo miklir möguleikar víða og gaman að sjá hvernig sífellt bætast fyrirtæki í hóp þeirra sem fyrir eru á sviði ferðamennsku. Með því að hingað komi ferðamenn sem nýta sér þessi fjölbreyttu þjónustutilboð skapast grundvöllur fyrir aukinni arðsemi og heilsársferðamennsku sem aftur er grundvöllurinn fyrir fagmennsku og uppbyggingu til framtíðar í ferðamennsku hér á landi.


2. apríl 2012

Ansi viðburðarrík helgi að baki. Frábært brúðkaup Mandy og James í gær. Athöfnin í Strandakirkju ótrúlega falleg og veislan í gærkvöldi alveg frábær. Mikið fjör, mikið dansað, hlegið og spjallað. Hinir erlendu gestir skemmtu sér hið besta og voru brúðhjónin himinlifandi með góðan dag þegar við hittum þau í dag, sunnudag. Í veislunni var slegið upp bandi sem var ekki af verri endanum og sjaldan eða aldrei hafa betri tónlistarmenn stigið á stokk hér í Hveragerði. Butch Vig trommuleikari Garbage og félagar úr írsku sveitinni Undertones ásamt fleirum framúrskarandi tónlistarmönnum sem ég kann ekki að nefna settu saman hljómsveit sem hélt dúndrandi tónleika á gamla hótelinu fyrir veislugesti. Butch er ekki síður þekktur sem pródúsent Nirvana, Foo fighters og Smashin Pumpkins svo fátt eitt sé nefnt. Litla dóttir hans var yndisleg blómastúlka í Strandakirkju og fórst það vel úr hendi.

Chris Packham var veislustjóri og sýndi bæði skemmtilega og kunnuglega takta sem og frábæra stuttmynd um brúðgumann sem þeir félagarnir höfðu búið til. Hann stakk síðan af til Afríku snemma í dag til að gera þar enn einn dýralífsþáttinn fyrir BBC.

Brúðurin var stórglæsileg með eina þá flottustu herðaslá sem ég hef á ævinni séð, sláin var fengin að láni frá Jenny Packham sem er systir veislustjórans. Held ég láti þetta duga af namedropping þó af nógu sé að taka í þetta skiptið ;-)

Lárusi var margþakkað fyrir alla aðstoðina við undirbúninginn og brúðkaupsgjöfin frá okkur vakti lukku. Nú þurfa brúðhjónin að koma aftur og fylgjast með gjöfinni sinni :-)
Einn af hápunktum kvöldins var reyndar þegar Lárus var kallaður á svið með stórstjörnunum og spilaði þar lokalagið taktfast á kúabjöllu, stóð sig stórkostlega! Nú gengur hann um og getur ekki gert neitt hér heima því hann óttast að skaða sig áður en hann mætir á Glastonbury tónlistarhátíðina með bandinu !


Held ég verði að setja inn eins og eina mynd af Lárus með bandinu og strákarnir í körfunni voru svo glæsilegir að ég verð að birta eina mynd af hópnum líka :-)



This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet