<$BlogRSDUrl$>

29. apríl 2009

Fundur í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag. Miklar umræður urðu um fjárhagsstöðu sveitarfélaga og þá möguleika sem sveitarfélögin hafa til að bregðast við henni. Ljóst er að mikið tap er á rekstri velflestra sveitarfélaga í landinu og samt sér ekki enn fyrir endann á lækkun tekna. Við þessu ástandi verður að bregðast eins og kom fram í viðtali við Halldór Halldórsson, formann Sambandsins, í dag.
Samstaða þarf að nást meðal sveitarstjórnarmanna um aðgerðir en eitt og sér stendur hvert sveitarfélag ansi vanmáttugt. Til þess höfum við líka Sambandið en á næstunni munu sveitarstjórnarmenn af öllu landinu hittast til að bera saman bækur sínar um næstu skref.

Í morgun fór ég yfir launaliði Hveragerðisbæjar en það er langstærsti útgjaldaliður bæjarfélagsins. Strax í næstu viku hefst endurskoðun fjárhagsáætlunar en þá skiptir miklu máli að brugðist sé rétt við öllum frávikum á þeim.

Í nótt sem leið setti ég inn örstutt blogg um skjálftann en ég kveikti auðvitað strax á tölvunni til að athuga hvað hann var stór. Fljótlega uppúr kl 3 komu upplýsingar um að skjálftinn hefði verið 3,7 á Richter en þegar jarðeðlisfræðingar komu til vinnu og yfirfóru gögnin kom í ljós að hann var 3,9. Þetta er nú skýringin á þessu misræmi sem mér var vinsamlegast bent á í dag ;-)

Hér er hægt að fylgjst með skjálfum í nágrenni Hveragerðisbæjar.

Vöknuðum öll nema Albert við jarðskjálftann í nótt. 3,7 með upptök niður í Ölfusi,sýnist mér í kringum Bjarnastaði. Þar hefur hristingurinn verið mun öflugri en hér.

28. apríl 2009

Óvenju drjúgur þriðjudagur ...

Ársreikningur ársins 2008 fór út með fundarboði bæjarstjórnar í dag. Það verður seint hægt að segja að niðurstaða ársins sé ásættanleg en óðaverðbólga og óstöðugleiki verður minnisvarði þessa árs í hugum okkar til framtíðar. Sveitarfélög eru ekkert frábrugðin öðrum fyrirtækjum að því leyti að aðstæður sem þessar hafar gríðarleg áhrif á fjárhagslega afkomu. Verðbætur hafa áhrif á rekstrarniðurstöðu svo nemur á annað hundrað milljónum og vextir í áður óþekktum hæðum. Ekkert fyrirtæki hvers eðlis sem það er þolir slíkt til lengdar. Aðrar aðstæður verða væntanlega uppi þegar við gerum upp árið 2009 en nú nálgast verðbólgan núllið og verðhjöðnun jafnvel í spilunum.
Bæjarstjórnarfundurinn á fimmtudag er aukafundur í tilefni af ársreikningi en einnig verður þar tekinn fyrir lánasamningur við Lánasjóð sveitarfélaga uppá 110 milljónir. Með þeim fjármunum verður gatnagerð ársins fjármögnuð semog aðrar fjárfestingar.

Fundur í Héraðsráði fyrir hádegi þar sem við undirbjuggum vorfund Héraðsnefndar sem haldinn verður í maí. Þar eins og annars staðar snýst allt um að halda fjármálunum á réttu róli. Þetta eru ekki skemmtilegir tímar.

Dagurinn í dag var af einhverjum ástæðum ótrúlega langur og drjúgur. Sendi tvær umsóknir til Orkuveitu Reykjavíkur sem úthlutar senn styrkjum til samfélagsverkefna. Við höfum verið ansi drjúgar við að sækja um styrki að undanförnu og eiga Elfa og Jóhanna stærstan heiður af því. Um daginn fékk Blómasýningin til dæmis 1,7 mkr frá Ferðamálastofu. Það munar um slíkt.

Fór í sund í gær og úr því ég var nú komin í laugina gerði ég vettvangskönnun á gufubaðinu en þar er búið að endurnýja allt tréverkið. Allt annað líf og yndisleg viðarlyktin tók á móti manni. Sedrusviður, hann endist víst svo vel ;-)
Nú í maí verður lauginni svo lokað um tíma vegna viðgerða en þá á að lagfæra laugarkerið sem skemmdist talsvert í skjálftanum. Einnig verður girðingin umhverfis sundlaugarsvæðið lagfærð í sumar en hún er í algjöru lamasessi í dag.
Annars sá ég þarna hvað við eigum að markaðsetja fyrir útlendingana! ! ! Hópur danskra kvenna var í klefanum á sama tíma og ég og sáu þær hvernig þeytivindan fyrir sundfötin virkar. Þær voru ægilega uppveðraðar yfir græjunni og sundbolir og bikini fengu að snúast út í hið óendanlega. Höfðu aldrei séð svona töfratæki áður.
Gaman að því ...

Hafrún litla frænka mín er 1. árs í dag, til hamingju með afmælið litla vina!


27. apríl 2009

Kosningarnar yfirstaðnar...

...og dagurinn í dag einkenndist af letilífi!
Ekki þó vegna þess að ég væri svona yfirmáta niðurdregin yfir úrslitunum sem varla gátu nú komið á óvart eftir allan þann fjölda skoðanakannana sem birtist dagana fyrir kjördag. Auðvitað vonuðust allir Sjálfstæðismenn eftir meira fylgi en úrslitunum verður að taka með hófstillingu og rósemi eins og mér finnst reyndar bæði Bjarni og Þorgerður hafa gert í viðtölum í dag. Það þarf að byggja upp flokkinn að nýju með auðmýktina gagnvart kjósendum og þjóðarhag í fyrirrúmi, þannig er aftur hægt að ná traustinu sem glataðist í gær.

Eftir að hafa horft á viðræður leiðtoga og næstráðandi í flokkunum þá öfunda ég ekki Jóhönnu og Steingrím af því verkefni að koma saman stefnumálum flokkanna vegna Evrópusambandsins. Vildi reyndar gjarnan fá að vera fluga á vegg í þeim viðræðum ;-)
Ég er aftur á móti algjörlega sannfærð um að þau ná saman um einhverskonar málamiðlum. Fólki þykir nú vænna um stjórnarsetuna en svo að þetta mál verði látið spilla þeim viðræðum.
----------------------
Ég er svo hrifin af gömlum myndum enda fátt sem betur geymir liðna sögu. Enn og aftur linka ég á síðuna hans Bjössa á Bláfelli sem núna setti inn myndir teknar í Ölfusréttum fyrir um þrjátíu árum síðar. Þar má sjá ýmsa eftirminnilega snillinga eins til dæmis Manga Hannesar. Þarna þekki ég líka bekkjarsystur mínar Jenný og Steinunni og marga fleiri. Það er gaman að þessu ;-)

Og talandi um minningar hún var líka góð myndin sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins á kjördag og tekin var í kjördeild hér í Hveragerði fyrir margt löngu. Þar situr kjörstjórnin sem skipuð var Þórði Ö Jóhannsyni á Grund og Stefáni Guðmundssyni hreppsstjóra. Með þeim á myndinni er maður sem ekki sést nógu vel en líklegt er að sé Sæmundur á Friðarstöðum. Þessir kappar voru í kjörstjórn hér í Hveragerði um áraraðir. Kannsi verða konurnar sem nú eru í kjörstjórn jafn þaulsætnar ?

23. apríl 2009

Sumardagurinn fyrsti í Hveragerði!

Annasamur fyrsti sumardagur að baki. Skátamessa í morgun var afar notaleg en þar aðstoðuðu skátar við messuhaldið, lásu bænir og pistla og stóðu sig afar vel. Ungmennasálmar og skátalög voru sungin af kirkjugestum en kórinn hafði greinilega fengið frí. Gott upphaf á góðum degi.
--------------------------------
Heimsótti síðan lítinn dreng Steinar Benóný Gunnbjörnsson sem árið 2004 var tvöþúsundasti íbúi bæjarfélagsins. Foreldrum var tilkynnt um þennan viðburð símleiðis á sínum tíma og að gjöf væri á leiðinni en eitthvað dróst að afhenda hana. Því var það löngu tímabært að Steinar fengi smá pakka til minja um þennan viðburð. Heimsóknin var afar ánægjuleg og var ungi maðurinn, sýndist mér, bara ágætlega ánægður með skjalið sem hann fékk og bækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna sem fylgdu með. Mér fannst þær henta vel af því að í þeirri fyrri koma þeir bræður í heimsókn hingað til Hveragerðis og auk þess eru þetta algjörlega klassískar bókmenntir fyrir börn.
---------------------------------
Klukkan eitt hófst vígsluathöfn aðstöðuhússins við Grýluvöll. Húsið er hið glæsilegasta og voru viðstaddir afar ánægðir með þá aðstöðu sem knattspyrnufólk í Hveragerði nú fær. Fjöldi gesta mætti á vígsluna en þar fluttu ávörp þeir Eyjólfur Harðarson, stjórnarmaður í knattspyrnudeild Hamars og Gylfi Orrason, varaformaður KSÍ sem afhenti skjöld til minningar um vígsluna og helling af boltum fyrir deildina. Sú sem þetta ritar flutti ávarp sem lesa má hér en að lokum blessaði sr. Jón Ragnarsson, sóknarprestur okkar Hvergerðinga húsið og þá starfsemi sem þar mun fara fram. Þetta var skemmtileg stund en það er ávallt gaman þegar þjónusta er aukin og aðstaða bæjarbúa bætt.
------------------------------------
Fórum beint af vígslunni og uppá Garðyrkjuskólann að Reykjum þar sem athöfn hófst kl. 15 í tilefni af 70 ára afmæli garðyrkjunáms á Íslandi. Það var afar hátíðleg stund, Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, afhenti garðyrkuverðlaunin árið 2009 og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, afhenti Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar 2009. Það var Landbúnaðarháskóli Íslands á Reykjum (Garðyrkjuskólinn) sem hlaut verðlaunin í ár en það var klárlega tímabært að veita þeirri stofnun þann heiður sem hún á skilið fyrir það merka og mikla starf sem þar hefur verið unnið. Áhrif skólans á bæjarlífið hér í Hveragerði hafa einnig verið afar mikil og verða seint fullþökkuð.

Gríðarleg slyddurigning setti strik í reiking hátíðahalda dagsins og gerði að verkum að færri komu en venjulega á opið hús á Reykjum. Samt var þar mikill fjöldi fólks og dagurinn leið hratt, margt að skoða og margir til að spjalla við. Svona flott skreytt og skrautleg stígvél mátti sjá á mörgum stöðum í gróðurskálanum. Góð hugmynd fyrir okkur hin þegar við skreytum fyrir "Blóm í bæ" ;-)
-------------------------------------
Sumarfagnaður Sjálfstæðismanna hófst klukkan 17, þar var var mæting framar vonum og mikið fjör. Stemningin hér í Hveragerði fyrir kosningarnar hefur ekki verið neitt sérstök þannig að það var gaman að sjá að það hefur aldeilis lifnað yfir mannskapnum.

22. apríl 2009

Síðasti vetrardagur...

Það er um að gera að njóta síðasta dags vetrarins en það er greinilegt að vorið er á næsta leyti, krókusarnir skjóta upp kollinum út um allt, örfáir dagar eru í páskaliljurnar og brum á hverjum runna. Hvað úr hverju verður tímabært að fara í garðvinnunna og ég get ekki beðið! Á eftir að skipuleggja í nýju beðunum og færa plöntur til og frá eftir framkvæmdir síðasta hausts. Læt mig dreyma um eitt stykki huggulegt gróðurhús frá Jötun vélum á Selfossi. Maður verður að eiga sér draum ;-)
----------------
Dagurinn í dag leið við eril af ýmsu tagi. Verið er að leggja lokahönd á ársreikning ársins 2008. Rekstur stofnana virðist í góðu samræmi við fjárhagsáætlun en eins og alþjóð veit fór verðbólga úr böndum og því er fjármagnskostnaður miklu hærri en við gerðum ráð fyrir. Fyrri umræða um ársreikning verður þann 30. apríl.
-----------------
Ég og Ragnheiður í Árborg funduðum með Smára, ráðgjafa hjá VSÓ og Einari frá Strætó í dag. Nú líður að útboði á leið 51 milli Hveragerðis og Selfoss. Farþegatölur eru í góðu samræmi við þær væntingar sem uppi voru í aðdraganda verkefnisins. Rétt tæp 200 manns nýta sér ferðirnar á degi hverjum og flestar ferðir eru ágætlega nýttar. Þó kemur það á óvart hversu léleg nýting er á síðustu ferð austur og í bæinn á kvöldin. Örfáir og stundum engir eru í bílnum í þessari ferð en ég hafði á tilfinningunni áður en þessu akstur hófst að margir myndu einmitt nýta sér þessa viðbót, fara í bíó, í leikhús nú eða á pöbbarölt og koma með strætó heim aftur.
En nei það virðist ekki vera raunin. Merkilegt!
Það er þó rétt að sjá hver reynslan verður yfir lengra tímabil því auðvitað eru íbúar enn að venjast þessari auknu þjónustu.
------------------
Skrapp upp á Garðyrkjuskóla til að skoða bás Hveragerðisbæjar á sýningunni sem þar er á morgun. Þar verður standur sem auglýsir blómasýninguna í júní. Mjög litríkt og flott. Blómaskreytar voru í óða önn að búa til skreytingar sem prýða eiga salarkynnin á morgun. Gróðurskálinn er eins og ávallt í blóma á þessum tima svo hann er afar fallegur.
-------------------
Kíkti á kosningaskrifstofuna eftir vinnu. Símafundur stjórnar kjördæmisráðs í kvöld og síðan komu góðar vinkonur í kvöldkaffi.
-------------------




Þar með lýkur þessum viðburðarríka og á margan hátt öfgafulla vetri, megi komandi sumar verða bjart, hlýtt og yfirfullt af hamingjuríkum viðburðum og gleði...

Gleðilegt sumar

21. apríl 2009

Nóg um að vera ...

Setti nokkrar fréttir á heimasíðu Hveragerðisbæjar í morgun. Það gleymist oft í erli dagsins að setja efni þangað inn. En það er nú samt ótrúlegt magn af upplýsingum á síðunni og gaman að grúska í ýmsu fróðlegu sem þar er. Til dæmis er skýrslan um sögu borholna í Hveragerði alveg ferlega skemmtileg, trúið því eður ei.

Guðjón skólastjóri leit við og fórum við yfir það hvernig staðið skyldi að ráðningu deildarstjóra við grunnskólann. Auglýst verður innan húss fljótlega.

Nafna mín Sigfúsdóttir kom einnig í heimsókn og ræddi hugmynd að rannsóknaverkefni um áraun á hús hér í Árnessýslu vegna jarðskjálftans. Afar áhugavert og yrði vafalítið gagnlegt til allrar framtíðar ef hægt yrði að kortleggja hvaða þættir hafa mest áhrif á skemmdir á byggingum.

Ég og Elfa fórum og skoðuðum aðstöðuhúsið við Grýluvöllinn sem á að vígja á Sumardaginn fyrsta. Eins og alltaf er þá er ýmislegt smálegt eftir en fyrst og fremst þarf að þrífa húsið og ganga frá dótið sem þar er inni áður en vígslan fer fram. Húsið er ofboðslega flott og vel lukkað, búningsklefarnir stórir og rúmgóðir og öll aðstaða sýnist mér til fyrirmyndar. Verið er að helluleggja fyrir utan og slétta plönin í kring svo þetta verði nú allt huggulegt á sumardaginn fyrsta.
Vígslan er kl. 13 og eru íbúar hvattir til að mæta og skoða húsið.
Fyrst við vorum nú farnar af stað þá tókum við bílferð um bæinn að skoða það sem betur má fara. Gerum þetta stundum og finnst mér þetta gott. Betur sjá augu en auga eins og sagt er og oft fæðast góðar hugmyndir í svona ferðum.

Kíkti við á kosningaskrifstofunni síðdegis, þar var verið að undirbúa stóra daginn eins og vera ber. Á sumardaginn fyrsta verður hittingur í Sjálfstæðishúsinu milli kl. 17 og 19. Léttar veitingar og líflegt spjall.

Sumardagurinn fyrsti verður þétt pakkaður dagskrárliðum og nóg við að vera. Sumarið byrjar í Hvergerði, með heimsókn í blómstrandi gróðurskála Garðyrkjuskólans og rúnti um bæinn þar sem margt verður við að vera. Dagskráin er hér.
-------------------------

Blóm í bæ ...

Klikkið á myndina og sjáið hvað þetta er flott ;-)
Nú þurfa allir að taka frá þessa helgi (síðasta helgin í júní), því það verður mikið um að vera í Hveragerði. Við íbúar þurfum líka að punta eins og hægt er í kringum okkur svo bærinn standi undir nafni sem "Blómstrandi bær" !


Þessi frétt er af vef Menntaskólans á Laugarvatni. Ögmundur er elsti sonur Öddu vinkonu fyrir þá sem ekki þekkja til. Barnarbarn Þórðar og Þórunnar á Grund (Þórsmörk 1). Það gerir hann að Hvergerðing að sjálfsögðu og við eignum okkur því hluta í velgengninni ;-)
Til hamingju með góðan árangur Öggi....

Ögmundi boðin þátttaka í þremur ólympíuliðum í raunvísindum !

Ögmundi Eiríkssyni, nemanda skólans í 4 bekk náttúrufræðibrautar, hefur verið boðin þátttaka í ólympíuliðunum í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði. Árangur hans í forkeppnum í þessum greinum var með slíkum glæsibrag að einstakt er. Var hann með efstu mönnum í þeim öllum og var því boðið sæti í öllum liðunum. Að jafnaði eru sex nemendur sendir með hverju liði frá Íslandi en flest ríki heims taka þátt í Ólympíukeppnunum. Ögmundur hefur tvívegis áður verið í Ólympíuliðinu í stærðfræði og mun hann þiggja veru þar nú þriðja sinni. Ólympíukeppnirnar úti í heimi í þessum þremur greinum eru haldnar í júlí að jafnaði á svipuðum tíma en í ólíkum löndum þannig að ekki er möguleiki á að vera í tveimur liðum. Nemendur sem ávinna sér rétt mega svo ekki vera orðnir tvítugir á keppnisdögunum.

20. apríl 2009

Alþingiskosningar nálgast óðfluga. Í dag voru frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hér í Hveragerði á vinnustaðafundum og fengu ágætar móttökur. Ég tók mér frí hluta úr degi til að fylgja þeim eftir en mér finnst alltaf mjög skemmtilegt að heimsækja vinnustaði. Get ekki beðið eftir kosningunum að ári þegar frambjóðendur hér í Hveragerði fara á kreik. Hef hug á að vera með í þeirri baráttu ;-)
---------
Fékk síðan skilaboð "að ofan" um að ég þyrfti að stytta grein sem ég hafði skrifað í framboðsblað um heilan helling og náði ég því án þess að merkingin færi út um þúfur, vona ég. Stytta útgáfu greinarinnar má lesa hér.
Er að hugsa um að hlaða inná þessa síðu greinum og ræðum. Gott að geta gengið að þessu vísu á einum stað.
--------
Í kvöld var síðan sjónvarpsfundur Suðurkjördæmis á Hótel Selfossi. Fjöldi manns fylgdist með í salnum en það er alltaf sérstök stemning sem fylgir því. Ragnheiður Elín stóð sig mjög vel og hafði svör á reiðum höndum við öllu því sem að henni var beint. Athygli vakti mikið ósamræmi í svörum VG og Samfylkingar og ekki skrýtið þó að fólk hafi í fundarlok vel því fyrir sér hvernig þessir tveir flokkar ætluðu að ná saman eftir kosningar. Ætli Björgvin verði ekki tekinn á teppið á morgun af flokksforystunni fyrir að geta ekki pakkað málstaðnum betur inn ! ! !

Bjarni Benediktsson mætti á fund hér í Hveragerði á fimmtudagskvöldið og sló í gegn. Hann hélt afar flotta ræðu og síðan voru fjörugar fyrirspurnir og spjall. Hann gaf sér góðan tíma og útskýrði stöðu þjóðmála fyrir fundargestum sem voru afar ánægðir með heimsóknina. Ragnheiður Elín kom síðan í heimsókn á kosningaskrifstofuna í dag eftir opnun í Þorlákshöfn. Forsvarsmenn kjördæmisráðs mættu líka á svæðið til að kanna hvort við værum ekki að standa okkur í stykkinu ;-)
Það er ekki nóg með að maður sé vakinn með boðskapnum eldsnemma á sunnudagsmorgni heldur erum við elt allan daginn! Sigurður Valur er að standa sig eins og hetja í slagnum ! ! !

Fórum og sáum einleikinn Óskar og bleikklæddu konuna í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Frábær sýning og Margrét Helga sýnir stórleik. Leikritið mannbætandi og fallegt en um leið ferlega sorglegt. Við keyptum áskriftarkort fyrir fjölskylduna í haust og höfum þess vegna farið óvenju oft í leikhús. Við eigum eftir að fjárfesta aftur í svona kortum því þau gera að verkum að maður drífur sig af stað.

Í gær voru 16 ár frá því að pabbi lést. Dagurinn verður alltaf markaður þeirri minningu. Hann fór svo alltof fljótt frá okkur.


19. apríl 2009

Minni á fundi dagsins...

Ragnheiður Elín verður hér í Hveragerði í dag, sunnudag, kl. 17:30 á kosningaskrifstofunni.

Þorgerður Katrín verður á opnum stjórnmálafundi á Hótel Selfossi kl. 20 í dag sunnudag.

15. apríl 2009

Fórum í morgun og skoðuðum gömlu bæjarskrifstofuna en þar er nú verið að taka til og henda út ótrúlegu magni af drasli. Húsið sem slíkt mun henta afar vel fyrir þá starfsemi sem þar er fyrirhuguð en Dvalarheimilið Ás mun innrétta þarna aðstöðu til hvíldarinnlagnar aldraðra og sjúkra, þjónusta sem ekki hefur áður verið í boði hér í Hveragerði en þó sárlega vantar. Í sama húsi mun dagdvöl okkar Hvergerðinga verða rekin og ég verð sífellt sannfærðari um að þarna sé verið að stíga rétt skref sem verða munu bæjarbúum til gæfu. Að öllu óbreyttu mun sala hússins verða frágengin á fundi bæjarstjórnar á morgun.

Enn og aftur fór nokkur tími í vinnu vegna jarðskjálftans en það þarf að halda utan um mörg mál honum tengd og langt í að öll mál vegna hans klárist. Skemmdir eru enn að koma fram á húsum og öðrum mannvirkjum svo sífellt þarf að vera vakandi gagnvart afleiðingunum. Þónokkur hús hafa verið dæmd í altjón og rifin. Sögufrægt hús hvarf af sjónarsviðinu þegar Álfafell var rifið vegna jarðskjálftaskemmda núna nýlega. Bjössi á Bláfelli festi þann atburð á filmu og myndirnar má sjá hér.

Fundaði síðan með fulltrúum Atvinnuþróunarfélags Suðurlands en þeir voru hingað mættir til að kynna starfsemi félagsins. Það er nokkuð ljóst að við Hvergerðingar getum sótt til félagsins bæði ráðleggingar og styrki til atvinnusköpunar og ættu atorkusamir frumkvöðlar að hafa það á bak við eyrað.

Við Albert löbbuðum meðfram Reykjafjalli í kvöld í einmuna veðurblíðu. Nú er vorið á næsta leyti það er á hreinu. Páskaliljurnar farnar að blómstra, krókusar og anemónur gægjast uppúr jörðinni og hrossagaukur og tjaldur héldu okkur selskap á leiðinni.
--------------------------------
Hér geta áhugasamir séð nýju Kjörís auglýsinguna sem systkini mín eru skiljanlega afar stolt af. Hún er líka flott og nei þetta eru ekki fjölskyldumeðlimir sem þarna sýna listræna hæfileika ...
--------------------------------
Og eitt að lokum; yfir 8,3 milljónir manna hafa horft á myndbrotið með Susan Boyle á youtube...
Þessi yndislega kona hefur svo sannarlega slegið í gegn! ! !

14. apríl 2009

Stórgott páskafrí...

... á Norðurlandi að baki. Nokkrir góðir dagar í Skagafirði og ekki voru þeir síðri dagarnir á Grenivík. Ferð með snjótroðara á Kaldbak og sleðaferðin niður var klárlega hápunkturinn á ferðinni. Annars liðu dagarnir hratt í góðum félagsskap þar sem nóg var við að vera.

Fríið var reyndar litað af ástandi mála í Flokknum þar sem hver fréttatími flutti nýjar og verri fréttir. Risagreiðslur stórfyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins og svosem til hinna flokkanna líka eru siðlausar og með öllu óafsakanlegar. Eitt er nú að fá styrki til flokksstarfs en þetta er allt annað mál.

Hér í Hveragerði hafa Sjálfstæðismenn staðið fyrir happdrætti til fjáröflunar fyrir kosningar þar sem frambjóðendur eru skikkaðir til að selja(kaupa) ákveðið magn af miðum. Síðan höfum við gefið út blöð og selt auglýsingar grimmt í þau. Þetta hefur verið ein aðal fjáröflun félagsins fyrir kosningar. Ýmsir einstaklingar hafa síðan gefið ómælt af tíma sínum með vinnuframlagi til félagsins auk þess að gefa félaginu kaffi, kökur, kex, kleinur og annað sem hópnum gæti langað í þá stundina. Sem dæmi má nefna að eitt gott fyrirtæki hefur stundum gefið okkur ís og frostpinna fyrir börnin og einu sinni rataði til okkar gamall ísskápur og sjónvarp sem einhver var hættur að nota, slíkt er frábært. Húsgögnin í salnum er samtíningur frá mörgum stöðum og vitiði hvað, okkur líkar þetta bara takk bærilega! Annars, á meðan ég man, ef einhver vill losna við gott sjónvarp þá vantar reyndar eitt slíkt í salinn núna ;-)

Svona eru vel flest félög Sjálfstæðismanna þar sem ég þekki til rekin. Því er það óþolandi þegar óorði er komið á alla Sjálfstæðismenn vegna óhemjugangs og græðgi örfárra. Það er illt að sitja undir slíku.
--------------------------------
Annars finnst mér að nú ættu alþingismenn að einhenda sér í það að ljúka þingstörfum og hella sér í kosningabaráttuna. Dagarnir líða ansi hratt og það eru Sjálfstæðismenn sem tapa á því að þingið skuli vera svona þaulsetið, tímanum er betur varið útí kjördæmum landsins.

Kosningaskrifstofan opnaði síðastliðinn sunnudag og verður hún opin á gamla góða staðnum fram að kosningum. Endilega lítið við milli kl. 17 og 19 og ekki síður um næstu helgi en þá verður væntanlega mesta fjörið.
--------------------------------
Ekki missa af þessu ...

Einhvers staðar segir í þekktu lagi að ekki skuli dæma eftir útlitinu menn og annars staðar að ekki skuli dæma bókina eftir kápunni. Stundum sér maður svo fallega og skemmtilega hluti að það verður að deila þeim með fleirum. Ég fer að sofa svo innilega sæl í sinni eftir að hafa horft á þetta brot úr þættinum "Britain´s got talent", aldeilis stórkostlegt....
Ekki missa af þessu ! ! ! !
--------------------------------

Fann síðan þessa aldeilis frábæru mynd af þeirri sem þetta ritar við fundarstjórn á landsfundinum. Hér má sjá ótrúlegt magn mynda frá þessum sama fundi...

4. apríl 2009

Föstudagur ...

Ég er svo heppin að sitja nánast við þjóðveginn í vinnunni og því fæ ég stundum heimsóknir frá þeim sem um veginn fara. Hef afskaplega gaman af því. Í gær komu til dæmis þrír valinkunnir menn frá Skagaströnd í heimsókn, Magnús Jónsson sveitarstjóri, Adolf Berndsen og Vilhjálmur félagi þeirra. Landsmálin voru þar krufin til mergjar og spáð í framtíðarhorfur...
-------------
Annars talandi um landsmálin þá var fyrsti kosningaþáttur ársins á Ríkissjónvarpinu í kvöld. Það var því miður lítið á honum að græða. Þegar sitja í salnum sjö leiðtogar framboðanna þá kemur hver þeirra svo litlu frá sér að á því er ekkert að græða. Umræðan verður slitrótt og sundurleit og engin von til þess að skapist fjörlegar umræður manna á milli. Reyndar átti Jóhanna alveg sína spretti og sýndi gamalkunna takta...

2. apríl 2009

Fimmtudagurinn byrjaði með bæjarráðsfundi

Þar bar hæst samkomulag um sölu gömlu bæjarskrifstofunnar að Hverahlíð 24 til Dvalarheimilisins Grundar. Salan var grunduð á 10 ára gömlum samningi sem byggði á yfirlýstum vilja bæjarstjórnar, sem þá var, til að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu hjúkrunarheimilisins. Kaupverðið var því löngu niðurnjörvað. Jafnhliða samningum ákvað meirihlutinn að flytja dagdvöl í Hverahlíðina og fela Dvalarheimilinu Ási rekstur dagdvalar. Samningurinn um dagdvöl gildir til 5 ára. Fyrir þjónustuna greiðir bærinn sem nemur 6 milljónum króna á tímabilinu en til samanburðar er rétt að geta þess að kostnaður við rekstur dagdvalar er áætlaður 5,5 mkr á árinu 2009. Síðan geta skarpir lesendur margfaldað þá tölu með 5, dregið frá 6 milljónirnar og fengið út þá upphæð sem bærinn sparar á 5 árum. Minnihlutinn átti í ákveðnum vandræðum með að skilja þetta reikningsdæmi en ég á nú frekar von á að þar rofi til innan skamms ;-)

Hverahlíðin verður innréttuð fyrir hvíldarinnlagnir sjúkra og aldraðra, þjónusta sem ávallt er brýn þörf fyrir og ekki síst hér í Hveragerði þar sem óvenju margir eru á hinum virðulega aldri 67+. Dagdvölin verður rekin í því hinu sama húsnæði sem gefur mikla möguleika varðandi rekstur og ekki síður á líflegra og fjölbreyttara umhverfi þeirra sem á þjónustunni þurfa að halda.

Eftir bæjarráðsfund heimsótti ég félag eldri borgara og hitti þar ríflega tíu félaga sem öllum leyst vel á þessar hugmyndir. Einnig fór ég niður í dagdvöl og hitti þar konurnar sem þar starfa með miklum sóma. Mér fannst mikilvægt að kynna þetta mál fyrir þessum aðilum öllum því það er alltaf heldur leiðinlegra að lesa svona fréttir í blöðum. Niðurstaða þessara funda var afar jákvæð og sannfærði mig um að við værum á réttu róli. Fimm manns voru í dagdvölinni þegar ég mætti og átti ég góða stund með þeim góðu Hvergerðingum.
-------------------------
Eftir hádegi var fundur um Markaðstofu Suðurlands þar sem ferðaþjónustu aðilar af öllu Suðurlandi hittust til að bera saman bækur sínar. Afar gagnlegur og líflegur fundur en það er greinilegt að allir þessir aðilar hafa mikla trú á framtíð Suðurlands á sviði ferðaþjónustu.
------------------------
Við systur hittumst síðan síðdegis og elduðum og bökuðum með yngstu krökkunum. Afskaplega skemmtileg og notaleg stund sem við ákváðum að gera að föstum lið.
Þetta er sérstaklega þægilegt þegar karlpeningurinn er í burtu eins og reyndin var í gær ;-)
------------------------
Og svo fjölgaði í bæjarstjórn...
Unnur og Halldór eignuðust dreng þann 1. apríl. Innilega til hamingju Unnur, Halldór, Ásdís og Frímann!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet