<$BlogRSDUrl$>

31. janúar 2010

Fundamaraþon á fimmtudag hjá sveitarstjórnarfólki á Suðurlandi. Fundur um yfirfærslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna var greinargóður og vonandi fleytir umræðan okkur áleiðis í því mikilvæga máli. Á undan var kynningarfundur um málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurlands þar sem farið var yfir niðurskurð sem þegar hefur átt sér stað og þá stöðu sem stofnunin er í. Það er brýnt að Sunnlendingar slái skjaldborg um þessa góðu stofnun sem er burðarás í samfélaginu okkar hér fyrir austan fjall. Lokafundur fimmtudagsins var kynningarfundur um sameiningaráform Samgönguráðherra þar sem farið var yfir þær hugmyndir sem ráðherra hefur í þessum málum. Enn er langt í land en það er greinilegt að ráðherra er staðfastlega á þeirri skoðun að sveitarfélögum verði að fækka. Hvers vegna er óneitanlega eðlileg spurning þar sem ljóst er að lítill sem enginn sparnaður felst í sameiningu flestra sveitarfélaga og íbúar allavega smærri staða er lengi að sætta sig við sameiningu. Hveragerði er afar góð rekstrareining stærðarlega séð og því er sameining þessa bæjarfélags við önnur ekki eitthvað sem brýna nauðsyn ber til að setja á oddinn. Ef við aftur á móti verðum þvingum til sameiningar þá finnst mér einboðið að eina vitið felist í sameiningu sýslunnar allrar. Þannig yrði til stórt, spennandi sveitarfélag með mikinn slagkraft á tiltölulega litlu landsvæði.

Fyrsti fundur nýs Ferðamálaráðs í Iðnaðarráðuneytinu í bítið á föstudagsmorgni. Ferðamálaráð er skipað fólki úr hinum ýmsu greinum ferðaþjónustunnar auk fulltrúa sveitarfélaganna og ráðherra. Fundurinn var líflegur og góður og greinilegt að þarna var mætt fólk með mikinn áhuga á vexti ferðaþjónustu á Íslandi. Það verður skemmtilegt að fá að taka þátt í þessu starfi.

Eftir hádegi á föstudag var Örn Norðdahl Magnússon jarðsunginn frá Hveragerðiskirkju. Falleg athöfn en afskaplega erfið. Örn var góður drengur sem nú er sárt saknað af fjölskyldu og vinum.
---------------------



Fögnuðum 70 ára afmæli mömmu í góðum hópi hennar nánustu á Hótel Örk á laugardagskvöldið. Óskaplega skemmtilegt og afmælisbarnið ánægðust allra. Valdimar var glæsilegur veislustjóri eins og hann er vanur. Guðrún og Sigurbjörg höfðu útbúið ótrúlega flotta myndasýningu fyrir mömmu og ég flutti ræðu fyrir hönd okkar systkinanna. Verkefnunum bróður-/systurlega skipt :-) Stórfjölskyldan mætti síðan í síðbúinn morgunmat til mömmu í dag sunnudag sem endaði síðan með áhorfi á frábæran handboltaleik...

28. janúar 2010

Var að setja nýja grein á vefinn þar sem ég held utan um greinar og ræður. Þessi er að fara til birtingar í nýja Hverafuglinum sem kemur út í lok vikunnar.

27. janúar 2010

Fór í morgun yfir lög um póstþjónustu í framhaldi af ítrekuðum kvörtunum sem berast mér til eyrna vegna þjónustu Íslandspósts hér í Hveragerði. Það er alltof algengt að bréf séu að berast röngum viðtakenda eða að póstur sé hreinlega ekki borinn út alla daga vikunnar. Það hefur mikið breyst frá því að pósturinn var flokkaður hér í Hveragerði af heimamönnum sem þekktu til og þó að mistök hafi örugglega líka verið gerð á þeim tíma þá held ég að hægt sé að fullyrða að undanfarið hefur þjónustunni hrakað mjög. Ræddi málið við stjórnanda hjá Íslandspósti sem mun koma til fundar við mig og Sigurdísi á Upplýsingamiðstöðinni í næstu viku. Bind ég vonir við að hægt sé að ráða bót á þessum atriðum því í raun eru þau auðleysanleg ef vilji er fyrir hendi.

Starfshópur sem bæjarstjórn skipaði vegna fyrirhugaðrar yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna hittist í dag. Í honum sitja María, félagsamálastjóri, Unnur formaður velferðarnefndar auk mín. Fórum við vítt og breitt yfir þá þjónustu sem veitt er hér í dag og hvernig við sjáum málaflokknum verða best fyrir komið til framtíðar litið. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni en á morgun er fundur með fulltrúum allra sveitarfélaganna á Suðurlandi þar sem farið verður ítarlega yfir málið. Markmið okkar sveitarstjórnarmanna hlýtur að vera að þjónusta við íbúana verði betri en hún er í dag en að því markmiði er unnið í öllum málaflokkum.

Í fréttum í dag boðaði ráðherra útboð vegna tvöföldunar Suðurlandsvegar. Afar jákvætt útspil og eitt af því fáa góða sem ég hef lengi heyrt í fréttum. Með tvöfölduninni á kaflanum frá Hólmsá og að Litlu Kaffistofunni er gerðar ítrustu vegbætur á vegkafla sem verið hefur einn sá hættulegasti á leiðinni til Reykjavíkur. Með þessari framkvæmd er þá vegurinn orðinn annað þrjár eða fjórar akreinar að mestu leyti hingað til Hveragerðis og þá er einungis eftir erfiður kafli á há heiðinni. Við munum eftir sem áður kalla eftur úrbótum á milli Hveragerðis og Selfoss enda sá vegur einn sá alhættulegast á Íslandi í dag.

Háspennustrengur fór í sundur við leikskólann Undraland síðdegis og olli það því að rafmagn fór af stórum hluta bæjarins uppúr kl. 16 og komst ekki aftur á að fullu fyrr en í kvöld. Hita- og heitavatnslaust varð einnig á sömu svæðum þar sem rafmagn fór af kyndistöðinni stóru sem staðsett er í áhaldahúsinu. Sérkennilegt ástand þegar rafmagnsleysi varir þetta lengi enda allir löngu orðnir vanir þeim sjálfsögðu þægindum sem rafmagnið er. Aftur á móti er full ástæða til að spyrja hvort ekki sé eðlilegt að stóra kyndistöðin sem sér megninu af bænum fyrir heitu vatni eigi ekki að vera búin vararafstöð til að koma í veg fyrir að hitalaust verði þegar rafmagnið fer af. Svona langt hitaleysi hefði orðið mjög erfitt ef það hefði orðið í fimbulkulda og roki sem einhvern tíma hefði verið eðlilegra veðurfar í janúar heldur en vorblíðan sem ríkir þessa dagana.

Það er ýmislegt hægt að gera við myndasíðurnar sem eru hér til hliðar. Þessar myndir eru teknar fyrir nokkrum árum en standa samt alveg fyrir sínu. Þarna má til dæmis sjá frábærar myndir sem eru teknar í Reykjadal hér innaf Hveragerði og einnig nokkrar sem eru teknar á Eskifirði og á Stokkseyri...
Smellið á bunkann!


26. janúar 2010

Tók mér frí í vinnunni í gær í tilefni af starfsdegi grunnskólans. Fór ásamt Alberti, Guðbjörgu og Dagnýju í bæinn og áttum við þar góðan dag saman. Fórum meðal annars í sund í Árbæjarlauginni þar sem ég reyndi að heilla með útiklefanum sem mér finnst algjörlega frábær. Minnir mig helst á japanskan garð sem hannaður er til afslöppunar, hef reyndar aldrei heimsótt slíkan garð, en ég held að þeir hljóti að vera svipaðir útiklefanum í Árbæjarlauginni. Fékk síðan hugljómun um það hvers vegna mér líkar svona vel við Árbæjarlaugina. En ég held að hún hljóti að vera hönnuð af konu....
Karlmenn hefðu seint haft rænu á að setja öll þau huggulegu smáatriði í kvennaklefann sem þar eru. Með fullri virðingu !

Skemmtiferð í Reykjavík er ekki fullkomin nema að farið sé í bíó og varð Sherlock Holmes fyrir valinu. Fín skemmtun og þeir félagar Robert Downey og Jude Law eru ferlega góðir í hlutverkum sínum.

Í dag, þriðjudag, þurfti að svara tölvupósti sem borist hafði yfir helgina og í gær. Fékk síðan góðan gest í heimsókn sem ræddi nýjung í ferðaþjónustu hér í Hveragerði. Núna vanar öfluga fjárfesta í ferðaþjónustu til að aðstoða frumkvöðla við að koma þeim fjölmörgu góðu hugmyndum sem þeir luma á til framkvæmda. Sú tíð er liðin að peningar yltu útúr hverjum vasa og kannski jafn gott miðað við það hvernig þeirra var aflað á sínum tíma. Þó ber okkur alltaf að taka fagnandi öllum þeim sem luma á góðum hugmyndum svo fremi þær séu ekki skaðlegar bæjarfélaginu. Maður getur aldrei verið viss um það hver kemur til með að virka. Við getum til dæmis verið afar ánægð eldmóðinn sem einkenndi hugmyndasmiðinn að Hótel Örk. Í dag er hótelið burðarás ferðaþjónustu í bæjarfélaginu sem við getum vafalaust nýtt enn betur. Ferðaþjónusta er lykill til framtíðar hér í Hveragerði eins og skýrt kom fram í máli eins gestsins okkar á opnu húsi Sjálfstæðismanna um síðustu helgi. Frábært innlegg í góðan fund og munum við reyna að fá Baldvin Jónsson, markaðsfræðing, sem þarna var mættur til að staldra lengur við á opnu húsi fljótlega en það verður þá nánar auglýst síðar.

Frestun rannsóknarnefndar á birtingu skýrslunnar sem beðið hefur verið af svo mikilil óþreyju olli mér miklum vonbrigðum. Það er afar slæmt að þessum málum skuli ekki vera komið í réttan farveg fljótt og vel þannig að hægt sé að hefja uppbyggingu í þokkalegri sátt.
Reyndar tilkynnti ég á opnu húsi þar sem Ragnheiður Ríkharðs og Unnur Brá héldu skeleggar ræður um stöðu mála að ég myndi ekki skipta mér af þeirri þjóðmálaumræðu sem hvað hávaðasömust er í dag. Ég er í pólitík hér í Hveragerði, kosin til að vinna að góðum verkum í þessu bæjarfélagi og það tel ég mig og meirihlutann hafa gert. Ég er aftur á móti ekki kosin til þess að fjargviðrast yfir stöðunni á Alþingi og því mun ég láta þingmenn sjá um þann kaleik. Ég bið bara um það að þjóðarskútunni sé komið á flot þannig að hér sé hægt að hefja framkvæmdir og efla atvinnu um leið. Lækkun verðbólgu og vaxta skiptir öllu máli í því skyni um leið og það er mikilvægt að skattheimta dragi ekki allan mátt úr vinnusömu fólki.
----------------------------
Mamma er sjötíu ára í dag og í tilefni þess yfirgaf hún svæðið og hélt austur á Egilsstaði þar sem hún fagnar nú deginum í góðum félagsskap systra sinna. Hún er kletturinn í tilveru okkar systkinanna og alveg óendanlega góð amma!

23. janúar 2010



Uppáhaldshópurinn minn. Stelpurnar í sundhópnum mínum sem ég hef verið hluti af í rúm 14 ár. Sumar hafa verið miklu miklu lengur að busla saman í lauginni ...
Það er svo gaman hjá okkur, mikið hlegið og mikið spjallað. Þær eru hreinlega yndislegar allar saman.

22. janúar 2010


21. janúar 2010

Janúar er alltaf frekar rólegur í vinnunni eftir hamaganginn í desember og áður en þriggja ára áætlun fer í fullan gang, en það verður í næstu viku. Nú þarf að huga að fjármálunum með sama ábyrga hættinum og gert hefur verið undanfarin ár.
Mér hefur undanfarið fundist afskaplega skrýtið að lesa margar greinar eftir minnihlutann þar sem þau mála skrattann á hvern vegg sem á vegi þeirra verður. Það er merkilegt hvernig þau geta rangtúlkað allar niðurstöður reikninga og fengið hvarvetna út 5 þar sem lagðir eru saman 2 + 2. Ég reyndi í grein minni í síðasta Hverafugli að skýra út á einfaldan hátt hvernig staða bæjarfélagsins raunverulega er og hverjar hafa verið helstu framkvæmdir á kjörtímabilinu. Gleymdi vafalaust ýmsu enda er af nógu að taka. Ég hef fengið afar jákvæð viðbrögð við greininni enda er greinilegt að íbúar eru ekki að skilja hvað vakir fyrir fulltrúum minnihlutans með þessari neikvæðni og niðurrifsstarfsemi. Íbúar eru ánægðir með það sem hefur verið gert þó auðvitað myndu margir vilja að meira hefði verið framkvæmt. Þannig er það alltaf. En almennt ríkir ánægja hér í bæ með bæjarfélagið og ég vona að sem flestir séu sammála hvað það varðar. Ef ekki þá er auðvelt að ræða við bæjarstjórann á skrifstofunni nú eða að mæta á opin hús Sjálfstæðisfélagsins sem haldin eru á hverjum laugardegi milli kl. 10:30 og 12. Þar er ávallt boðið uppá nýbökuð rúnstykki og vínarbrauð fyrir utan skemmtielgt spjall við þá sem þar eru mættir. Oftast afar óformlegt en þó með undantekningum eins og þeirri að næsta laugardag munu þær Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir mæta á opna húsið og ræða bæjarmálin. Vona að áhugasamir fjölmenni enda eru þetta skeleggar konur með skoðanirnar á hreinu.
----------------------------------
Félagsfundur í Sjálfstæðisfélaginu í kvöld. Fjölmennt var á fundinum en þar var einróma ákveðið að viðhafa uppstillingu við röðun á framboðslistann í vor. Á fundinum var einnig kosin uppstillingarnefnd sem leggja mun fram tillögu að lista uppúr miðjum febrúar. Nefndin sem skipuð er einvalaliði mun núna fara á stúfana til að kanna áhuga fólks á framboði en einnig er mikilvægt að ábendingar berist til nefndarmanna, þeirra Elsu, Gísla Páls, Hjalta, Pamelu og Sigga Tryggva. Á fundinum lýstu núverandi bæjarfulltrúar félagsins yfir áhuga sínum til áframhaldandi starfa en hópurinn hefur verið samstilltur og einbeittur í því að vinna að hagsmunamálum Hvergerðinga.

20. janúar 2010



Í litlu bæjarfélagi þar sem allir þekkja alla er hver einstaklingur svo óendanlega mikilvægur. Því er hörmulegt slys eins og það sem hér varð í gærkvöldi mikið áfall. Hugur bæjarbúa er hjá Orra og fjölskyldunni í Borgarhrauni.

Kveikjum á kerti og sendum þeim styrk.

19. janúar 2010

Það er ánægjulegt að sjá að Reykjavík fylgir í fótspor Hvergerðinga en bæjarstjórn hér ákvað á fundi sínum í síðustu viku að gefa 100 kr pr íbúa í söfnun Rauða kross Íslands vegna hamfaranna á Haítí og til Landsbjargar. Nú hefur Reykjavíkurborg samþykkt slíkt hið sama en Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna, hafði samband í morgun til að kanna hvernig Hvergerðingar hefðu staðið að fjárstyrknum. Í kjölfarið bar hann upp tillögu í Reykjavík sem var samþykkt. Nú vona ég að fleiri sveitarfélög fylgi í kjölfarið enda brýnt allir sem aflögufærir eru komi til hjálpar þar sem neyðin er jafn aðkallandi og á Haítí.

Hef verið að skoða tryggingamál slökkviliðsmanna hér í Hveragerði en þar sem hér er hlutastarfandi slökkvilið þá er brýnt að réttindi brunavarða séu eins góð og hægt er. Hef verið að viða að mér upplýsingum og hef strax getað breytt ákveðnum atriðum varðandi dagpeninga til hins betra.

Kíkti á samning við foreldrafélag leikskólanna en hann rann út núna um áramótin. Foreldrafélögin við leikskólana og grunnskólann vinna mjög gott og fórnfúst starf og því hefur bæjarfélagið með mikilli ánægju styrkt við starfsemina. Trúi ekki öðru en að nýr samningur geti farið fyrir næsta fund bæjarráðs.

Fór yfir stöðu húsa sem dæmd voru í altjón eftir jarðskjálftann 2008. Ríkisvaldið fylgist grannt með þeim útgjöldum sem hugsanlega munu falla til vegna niðurrifs og endurgreiðslu gatnagerðargjalda til hægt sé að gera sér grein fyrir umfangi útgjalda. Kostnaður við niðurrif er þó miklu lægri en flestir áttu von á enda eru tilboðin sem berast í verkin afar hagstæð verkkaupanum.

Heimsótti leikskólann Undraland í dag, hitti Sesselju leikskólastjóra vegna mála sem við þurftum að fara yfir og rölti um leið um deildirnar. Rólegheitin komu mér á óvart en ekki heyrðist múkk í nokkru barni þennan tíma sem ég stoppaði. Það var síðdegishressing og greinilegt að börnin létu ekkert trufla sig þegar ávextir og brauð var annars vegar.

Sá á netinu að Samgönguráðherra hefur kynnt ríkisstjórninni áform um að bjóða út tvöföldun Suðurlandsvegar um Sandskeið og tvöföldun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ, verkefni upp á samtals tvo milljarða króna. Hér má lesa fréttina en vonandi kemst þetta brýna hagsmunamál vegfarenda á rekspöl hið allra fyrsta.

13. janúar 2010

Af fréttaflutningi Sunnlenska...

Ekki er nú öll vitleysan eins!

Í Sunnlenska fréttablaðinu er "frétt" á blaðsíðu 6 og í fyrirsögn segir að D-listinn tapi meirihlutanum í Hveragerði og Ölfusi. Vitnað er í Gallup könnun sem gerð var fyrir jól og sýndi þessa niðurstöðu. Þar sem ég tel mig vita nokkurn veginn hið rétta í þessu máli þá snöggfauk í mig við lestur "fréttarinnar". Eyþór Arnalds í Árborg keypti þessar spurningar fyrst og fremst til að kanna stöðu Sjálfstæðismanna í sínu sveitarfélagi en á þá staðreynd er ekki minnst í "fréttinni"! Samkvæmt samtali sem ég átti við Eyþór í kvöld var hér um spurningavagn Gallup að ræða og er úrtakið 800 manns af Suðurlandi, svarhlutfall var 63% eða 504. Við úrvinnslu könnunarinnar var hægt að fá niðurstöðu fyrir Árborg eingöngu en Árnessýsla utan Árborgar var talin sem ein heild. Í Árnessýslu utan Árborgar er fylgi Sjálfstæðisflokksins undir 50%. Fréttamaður Sunnlenska gefur sér útfrá þessu þá undarlegu niðurstöðu að meirihlutar Sjálfstæðismanna í Hveragerði og Ölfusi séu fallnir. Hvernig hægt er að gefa sér þessa niðurstöðu og birta í víðlesnu blaði er í besta falli óskiljanlegt. Í lok fréttarinnar er síðan gefið út að ekki hafi náðst að vinna úr könnunninni áður en blaðið fór í prentun og bíður úrvinnslan næsta blaðs! Af hvaða hvötum er þessi frétt sett algjörlega hrá og kolröng í blaðið? Lesendur Sunnlenska sem margir hverjir hafa haldið tryggð við blaðið í gegnum þykkt og þunnt eiga betra skilið en vitleysu eins og þá sem birtist í blaðinu þessa vikuna.

12. janúar 2010

Þriðjudagur ...

Langur fundur í Fagráði Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands í morgun. Þar fórum við yfir ýmis mál sem tengjast rekstri Upplýsingamiðstöðvarinnar svo sem aðkomu Póstsins að rekstrinum og erindi frá starfshópi sem iðnaðarráðherra skipaði til að fjalla um málefni upplýsinga- og markaðsstofa. Á fundinum ákváðum við að hitta framkvæmdastjórn Markaðstofu Suðurlands í febrúar til að fara betur yfir þær hugmyndir sem starfshópurinn hefur sett fram.

Skrapp til mömmu í hádeginu en þangað kíki ég alltof sjaldan. Þar hitti ég bæði Valdimar bróðir og Auði Guðbrandsdóttur en hún er formaður í félagi eldri borgara hér í bæ. Mamma hefur starfað óslitið í félaginu lengur en flestir aðrir en það eru örugglega ekki margir sem hefja störf fyrir félag eldri borgara í kringum fertugt en það gerði hún þegar hún tók þátt í að stofna þetta ágæta félag. Við systkinin gerum líka stólpagrín að Sigurbjörgu systur sem við segjum að sé fædd inní félag eldri borgara :-)

Kláraði síðan drög að innkaupareglum bæjarins sem lagðar verða fyrir bæjarstjórn á fimmtudaginn en setning þessara reglna er lagaskylda sem sveitarfélögum ber að uppfylla. Með reglunum eru settar ítarlegar reglur um innkaup sveitarfélaganna en þær byggja á fyrirmynd sem lögfræðingar Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa útbúið.

Eftir vinnu var ég svo heppin að fá hann Hauk litla frænda minn í heimsókn. Hann var mjög heimspekilegur á leiðinni hingað heim að velta því fyrir sér hvað ég væri gömul. Hann komst að því að ég væri nú kannski ekki svo rosalega gömul því ég væri ekki með krumpur. Hann hafði nefnilega séð aðra konu með svo rosalega margar krumpur og hún var sko alveg örugglega ferlega gömul. Hann er svo mikið yndi þessi drengur og hann er fimm ára :-)

Þessa frétt sá ég í Fréttablaðinu í dag og þótti hún athyglisverð og jákvæð. Þó fannst mér sérkennilegt að ekki er minnst einu orði á þá staðreynda að Hveragerðisbær keypti umræddan fiskiteljara sem nú gefur þessar fínu vísbendingar um að mikið líf sé í Varmá þrátt fyrir klórlekann ....


Mikið líf þrátt fyrir klórleka

Nýr fiskteljari í Varmá við Hveragerði hefur gefið áhugaverðar niðurstöður um lífríki árinnar.

umhverfismál Nýr fiskteljari í Varmá við Hveragerði hefur gefið áhugaverðar niðurstöður um lífríki árinnar. Teljarinn var settur niður vegna klórleka í ána fyrir tveimur árum og er samstarfsverkefni Veiðimálastofnunar, Veiðifélags Varmár og Þorleifslækjar og Stangaveiðifélags Reykjavíkur.

Samkvæmt bráðabirgðatölum gengu á tímabilinu júní-nóvember á síðasta ári tæplega 2.200 fiskar upp ána og um 250 niður. Þessir fiskar voru tuttugu til níutíu sentimetra langir. Stærsti hlutinn var undir fjörutíu sentimetrar en þó voru tæplega þúsund fiskar yfir þeirri stærð. Að öllum líkindum voru þetta mest urriðar.

Mikið magn af óblönduðum klór rann frá sundlauginni í Hveragerði í Varmá fyrir tveimur árum. Klórslysið olli talsverðum fiskdauða í ánni og fundust dauðir fiskar á stórum kafla neðan klórlekans. Rannsóknir Veiðimálastofnunar á seiðabúskap árinnar skömmu eftir slysið bentu til þess að nánast öll seiði hefðu drepist á um tveggja kílómetra kafla neðan sundlaugarinnar. Óttast var að klórslysið gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fiskstofna Varmár og í versta falli tæki það stofnana mörg ár að ná fyrri styrk. Seiðarannsóknir á árinu 2008 staðfestu enn frekar þann skaða sem varð á seiðabúskap árinnar en þá mátti þó sjá töluverð batamerki.

11. janúar 2010

Allt í einu er komið hið mesta blíðskaparveður og yndislegt að vera úti. Fór í sund áðan og það var enn einu sinni ótrúlega fjölmennt í og við laugina. Það fjölgar sífellt í hlaupahópnum sem leggur af stað frá sundlauginni þrisvar í viku kl.18. Þar finna allir hlaupafélaga við hæfi og mér skilst að þetta sé ótrúlega skemmtilegt. Betri helmingurinn er farinn að mæta og þess vegna veit ég hvað þetta er góður hópur. Rétt á eftir hlaupahópnum rann Boot camp hópurinn á harðaspretti niður brekkuna þannig að samtals hlupu yfir 40 manns frá sundlauginni kl. 18 í dag. Við sem erum í lauginni á þessum tíma, skemmtum okkur við að giska á hver er hvað útfrá hlaupastílnum. Það gengur vægast sagt illa ;-)

Mér taldist til að í húsinu og í lauginni um kl. 18 hefðu verið um 90 manns. Það er hreint ótrúlegur fjöldi í ekki stærra bæjarfélagi. Það skemmtilega er að þetta er ekki átak sem er að hefjast nú í janúar heldur hefur þessu hópur einfaldleda sífellt farið stækkandi í vetur.

Í dag var gengið frá umsókn til Lánasjóðs sveitarfélaga vegna lánafyrirgreiðslu á árinu. Í umsókninni þarf að rökstyðja ítarlega til hvers lánið er ætlað en í ár verða framkvæmdir með minnsta móti og allar frekar smáar í sniðum. Ekki annað hægt þetta árið... Skrifaði einnig grein um fjármál í Hverafuglinn sem er blað sem Bryndís Sigurðardóttir gefur út hér í Hveragerði. Eftir hádegi hittum við Elfa og Guðmundur, Sigurð í Feng, og skoðuðum að fundi loknum húsakynni fyrirtækisins í Entek húsinu svokallaða. Þar geta hestamenn nú keypti spæni/undirburð undir hross á helmingi lægra verði en innflutta efnið er selt á. Ég gat ekki betur séð á Guðmundi sem hefur klárlega meira vit á undirburði en ég að þetta væri fyrirtaks efni.

Stuttur fundur í framkvæmdaráði Almannavarna í Árnessýslu síðdegis en þar er nú verið að leggja lokahönd á áhættumat fyrir sýsluna. Í kvöld var síðan meirihlutafundur venju samkvæmt þar sem farið var yfir þau mál sem afgreiða þarf á bæjarstjórnarfundinum á fimmtudaginn.

7. janúar 2010

Þá er loksins komið að því að gert verði við húsið eftir jarðskjálftann 2008. Okkur hefur vaxið þetta mjög í augum enda þarf að hálftæma húsið og flytja út í einhvern tíma. Þetta er þó löngu tímabært enda gengur ekki að hafa eldhúsloftið allt sprungið, burðar og herbergisveggi líka, eldhúsinnréttinguna lausa frá og brotna og gólfin eru líka orðin grunsamleg enda greinilega kominn raki undir gólfefni. Því verða þau tekin í gegn á sama tíma. Heilmikið verk framundan og nú byrjum við að pakka niður !

Í dag var rólegheita bæjarráðsfundur sem tók ekki nema um 30 mínútur. Núna er Herdís Þórðar komin í bæjarráð í stað Róberts Hlöðverssonar þannig að Guðmundur Þór var einn í kvennafansi í morgun. Spurning hvernig slíkt fellur að jafnréttisáætlun bæjarins ?
Annars voru ekki mörg afgerandi mál fyrir bæjarráði en þó var ákveðið að leita tilboða í Borgarheiði 3v sem er eign sem bærinn eignaðist í kjölfar jarðskjálftans. Svolítið gaman að því að bæði ég og Unnur Þormóðs sem situr í bæjarráði höfum áður átt þetta sama hús. Reyndar get ég bætt um betur því Inga Lóa vinkona átti það á eftir Unni. Merkilegt...

6. janúar 2010

Tók til í skjölum og pappírum og útbjó verkefna lista fyrir næstu daga svona í tilefni af nýju ári. Það er margt framundan og næg verkefni að glíma við þrátt fyrir niðursveiflu í efnahagslífinu. Nú þarf að einbeita sér að kjarnastarfsemi og sinna því sem næst okkur er eins vel og þess er nokkur kostur. Hér verður áfram blómlegt líf og starfsemi sem sómi er að og því eru næg verkefni framundan. Nú er unnið að umsóknum í hina ýmsu sjóði en undanfarin ár hefur bæjarfélagið fengið þónokkuð marga styrki sem ýtt hafa úr vör mörgum verkefnum og jafnvel gert möguleg verkefni sem annars hefðu aldrei orðið til. Jóhanna og Elfa eru öflugar á þessu sviði og sitja um sjóði sem styrkja verkefni eins og þau sem við viljum sjá hér í bæjarfélaginu.

Átti nokkur samskipti við fjölmiðla vegna Strætós og þeirrar staðreyndar að nokkrum sinnum hafa farþegar verið skildir eftir þegar Strætó er fullur eins og ég ræddi hér í gær. Í þessu máli er auðvitað enn verið að leita hins gullna meðalvegar, að vagnarnir séu passlega stórir en slíkt getur verið erfitt sérstaklega þegar stórir hópar koma í stöku ferðir. Í ljósi umkvartana síðustu daga erum við að skoða farþegatölur og fjölda tilvika þar sem þetta hefur gerst. Allt er þetta auðvitað spurning um peninga því kostnaður eykst í hlutfalli við stærð vagna og því er mikilvægt að nýtingin sé eins góð og kostur er. Samkvæmt útboðslýsingu skulu tveir vagnar vera í ferðum milli Selfoss, Hveragerðis og Reykjavíkur. Annar þeirra skal taka a.m.k. 50 farþega og hinn a.m.k. 19 farþega. Þetta var talið að myndi nægja eftirspurn en það er spurning hvort að svo sé.

Yndislegt veður var síðdegis þegar jólin voru kvödd með pompi og pragt, kyndilgöngu, söng, brennu og flugeldasýningu. Listigarðurinn er sjarmerandi staður fyrir svona skemmtanir, lýsing og logandi tunnur gerðu garðinn ævintýralegan og ekki var nú verra að Grýla og Leppalúði komu skríðandi uppúr árgilinu. Mjög vel við hæfi...

Tók niður jólskrautið í kvöld en á morgun er önnur törn í því að pakka því niður!

5. janúar 2010

Long time, no see ....

Öll góð áform hafa farið út um þúfur þessi jólin. Ekkert bloggað, missti mig í smákökurnar og stórsteikurnar, tók ekki til í skúffunum, raðaði engum myndum í myndaalbúm og borðaði meira að segja brúnaða kartöflu ;-)

Aftur á móti er ég búin að sjá Bjarnfreðarson sem var miklu betri en ég átti von á. Búin að lesa Svörtuloft en Arnaldur klikkar aldrei. Hann er að verða jafn fastur liður í jólahaldinu og hangikjötið! Ég er búin að lesa smásagnasafnið hans Gyrðis sem kom mér líka á óvart. Vissi auðvitað að Gyrðir væri góður penni en það er bara eitthvað við þessar sögur! Fyrir okkur Hvergerðinga eru þær auðvitað ómissandi lesning því margar þeirra gerast hér og það er auðvelt að sjá fyrir sér sögusviðið og jafnvel að kannast við nokkrar sögupersónur. Ég verð hreinlega móðguð fyrir hönd skáldsins ef hann fær ekki bókmenntaverðlaunin í ár. Ég er síðan hálfnuð að lesa ævisögu Vigdísar sem er feikilega góð en væri enn betri ef hún væri svona um það bil 200 blaðsíðum styttri. Ég er hálfnuð með bókina, búin að lesa rúmlega 200 blaðsíður og hún er enn ekki orðin forseti! Í bókinni eru aftur á móti óteljandi gullkorn og einhvern veginn finnst manni eins og hægt sé að verða betri maður að lestri loknum. Hún var frábær forseti sem sameinaði þjóðina svo sannarlega að baki sér. Eiginleiki sem er til eftirbreytni...

Fjölskyldan hittist skrilljón sinnum yfir hátíðarnar eins og ávallt. Aumingja tengdabörnunum í familíunni finnst örugglega alveg nóg um en mikið óskaplega er þetta nú notalegt. Nú erum við öll systkinin búsett hér í Hveragerði svo rúnturinn eftir hádegi á aðfangadag er orðinn langur og þarfnast mikillar skipulagningar. Við heimsækjum nefnilega öll hvert annað á aðfangadag, allur hópurinn í einu, til að taka út jólin ;-)

Annars voru þetta yndisleg rólegheita jól. Laufey og Elli hér um jólin, farið í messu bæði á aðfangadag og um áramót. Hlaupið á milli húsa, spilað og spjallað, alveg eins og þetta á að vera. Áramótin með sama sniði og áður, fullt hús gesta og gríðarlega mikið skotið upp enda margir um hituna!

Milli jóla og nýárs voru útnefndir íþróttamenn ársins í Hveragerði og urðu Hafrún Hálfdánardóttir og Hafsteinn Valdimarsson fyrir valinu. Feikilega flottir íþróttamenn sem eiga titlana svo sannarlega skilið. Það var gaman að sjá hversu gríðarleg meðalhæðin var á tilnefndum íþróttamönnum þetta árið. Ragnar Nathanelsson sem er 2,16 hlaut viðurkenningu auk Hafsteins og Kristjáns Valdimarssona sem eru 2,04 báðir tveir !

Keppni var í gangi um jólin um fallegustu jólaskreytinguna og voru viðurkenningar afhentar milli jóla og nýárs. Verðlaunahafana má sjá í frétt á heimasíðu bæjarins. Bæjarbúar skreyttu hús sín og garða mjög fallega og höfðu gestir bæjarins margir hverjir orð á því hversu fallegar skreytingarnar voru. Auk skreytinga verðlaunahafanna mátti sjá afskaplega fallega skreytt hús á mörgum stöðum og þegar við Albert fórum á rúntinn sáum við til dæmis húsið hjá Gumma Trölla og Siggu. Það fannst okkur smart. Eins hjá Ingibjörgu og Óskari í Bjarkarheiðinni. Hreindýrin í gróðurhúsinu niður í Hraunbæ komu afskaplega fallega út. Húsið við hliðina á Hólaróló í Borgarhrauninu var mjög stílhreint og flott. Gleðileg jól með risastöfum hjá Mörtu og Jóa var flott. Líka húsið hjá Sísi og Smára í Varmahlíðinni. Siggi Tryggva og Gullý eru alltaf með mjög fallegar jólaskreytingar og áfram gæti ég talið. Ekki má síðan gleyma skreytta Fréttablaðskassanum fyrir utan Heiðmörk 57, stórglæsileg skreyting ! ! !
Það var örugglega ekki auðvelt að vera í dómnefndinni þetta árið ;-)

Sölvaballið
var í ár haldið þann 2. janúar en annars er það nú yfirleitt á milli jóla og nýárs. Þetta er klárlega besta ballið í bænum enda reynir maður að missa ekki af því. Þarna hittir maður alla og fólk er svo glatt og ánægt eftir hátíðarnar. Alveg ómissandi!

Annars er vinnan tekin við og í dag undirbjó ég fund bæjarráðs ásamt Helgu en fundarboðið fór út í dag. Einnig vann ég í innkaupreglum fyrir bæinn en að öllu óbreyttu verða þær lagðar fram til samþykktar á næsta fundi bæjarstjórnar.
Fékk heimsókn móður sem var harla óhress með það að dóttir hennar var ásamt fleiri vinkonum skilin eftir að kvöldi til í Reykjavík þar sem hvert sæti í Strætó var setið. Skil fullkomlega gremju foreldranna en það er erfitt að eiga við þetta þar sem farþegar mega ekki standa í Strætó á þjóðvegum landsins. Ef það er fullt þá er fullt og ekki einfalt að bregðast við því. Þetta eru svo til einu kvartanirnar sem ég fæ vegna þjónustu Strætós sem segir mér það að þjónustan mælist vel fyrir og farþegum sé sífellt að fjölga. Við munum skoða vagnastærðir og fyrirkomulag gaumgæfilega í kjölfar þeirra athugasemda sem undanfarið hafa borist. Það er þó rét að brýna það fyrir öllum að ef stórir hópar ætla sér með Strætó þá er yfirleitt betra að láta vita. Sérstaklega á þetta við skóla- og íþróttahópa sem nýta Strætó í síauknum mæli.

Á morgun kveðjum við Hvergerðingar jólin eins og aðrir landsmenn. Hér leggur blysför af stað frá kirkjunni kl. 18, gengið er niður að Fossflöt sem er örstutt og þar er sungið við varðeld og jólin kvödd með jólasveinum, álfum og ætli Grýla slæðist ekki í hópinn líka. Skemmtilegur siður sem við tókum upp í fyrra og mæltist afar vel fyrir. Vona bara að veðrið verði jafnfallegt og það er í kvöld...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet