<$BlogRSDUrl$>

31. mars 2008

Fréttir, framkvæmdir og fundir...

Fundur bæjarráðs í síðustu viku var greinilega fréttnæmur því þónokkrar fyrirspurnir bárust frá blaðamönnum héraðsblaða um efni hans. Þar voru líka teknar margar stefnumarkandi ákvarðanir svo áhuginn er eðlilegur. Fundargerðina má lesa í heild sinni hér. Það fer alltaf þónokkur tími í að svara fyrirspurnum sem þessum en það er auðvitað sjálfsagt mál því mikilvægi upplýsinga og öflugra héraðsfréttablaða er mikið.

Fundur um framkvæmdir vegna bílaplansins við Undraland og Breiðumörk 25 og 25a var haldinn í dag. Tilboð voru opnuð í þá framkvæmd ásamt göngustígagerð milli Kjarrheiðar og Valsheiðar og í Réttarheiði í síðustu viku. Ræktunarmiðstöðin átti lægsta tilboð en endanleg ákvörðun um samþykkt bíður bæjarráðs núna í vikunni.

Síðdegis var fundur í starfshópi um viðbyggingu við Grunnskólann. Vinnan þar gengur vel en við stefnum á að ljúka þarfagreiningu fyrir sumarið þannig að bæjarstjórn geti tekið ákvörðun um næsta áfanga viðbyggingar við skólann fyrir fjárhagsáætlunargerðina fyrir árið 2009. Í dag var farið nákvæmlega yfir forsendur mannfjöldaspár og mat lagt á hugsanlegan fjölda nemenda í skólanum og þar af leiðandi húsnæðisþörf skólans.

Undanfarið hefur lögreglan unnið markvisst að því komast að því hverjir eiga sök á veggjakrotinu hér í bæ og voru þeir öflugir í rannsóknarvinnunni í dag. Vonandi verður komist fyrir þennan ófögnuð hið allra fyrsta því það er ekki hægt að líða hegðun sem þessa.

Meirihlutafundur venju samkvæmt í kvöld þar sem farið var yfir dagskrárliði bæjarráðs fundarins á fimmtudaginn. Fórum einnig yfir framkvæmdir við slökkvistöðina sem ganga vel en við vonumst til þess að slökviliðið geti flutt inní nýtt húsnæði í maí.

Leit síðan við á Þelamörkinni í kvöld en mamma er á leið norður á Akureyri í fyrramálið í mjaðmaskipta aðgerð sem hún hefur beðið eftir lengi. Sú ófríska er komin heim eftir sjúkrahúslegu helgarinnar, þannig að þær skiptast á um að nýta þjónustu spítalanna þær mæðgur!

30. mars 2008

Gestir, skattur og rekstur...

Það er fátt skemmtilegra en að hitta vini sína og því var kvöldið afar ánægjulegt en Elsa, Steinar, Inga Lóa og allir þeirra synir mættu hingað í mat og spilamennsku. Mikið fjör og mikið spjallað enda hópurinn góður.
--------------------------
Djúpavogsbúaranir Magga, Bjössi, Ásdís og Magga yngri litu aðeins við í dag en þau eru að kveðja Ásdísi sem heldur sem au pair til Lúxemburg í nótt. Gaman að þau skyldu líta við þó stoppið væri ekki langt en það er svo ansi langt til systkina Lárusar sem öll búa fyrir austan og því er samgangurinn minni en ella væri.
--------------------------
Fyrri part dags þreif ég eldhúsið, skúffur, setti í vél, hengdi út þvott, umpottaði blómum já allt sem mér datt til hugar til að fresta einu því alleiðinlegasta sem ég veit um en það er gerð skattaskýrslunnar. Hafði sem sagt fengið frest og nú voru síðustu forvöð...
Ég verð geðvond og pirruð bara við tilhugsunina um skattaskýrsluna en ég verð þó að viðurkenna að reyndin var ekki svo slæm og ég kláraði allar þrjár í dag. Er reyndar búin að tilkynna að öll afbrigðilegheit eins og hlutabréfabrask og fleira í þeim dúr er bannað á mínu heimili. Ég nenni ekki að standa í neinu veseni....
--------------------------
Laugardeginum var að mestu eytt á aðalfundi Kjöris sem var með allra lengsta móti.
Staða fyrirtækisins er ágæt en framleiðslufyrirtæki verða seint sett á sama stall og fjármálafyrirtækin sem hvað mestum hagnaði hafa náð undanfarin ár. Ég er samt sem áður svo íhaldssöm að mér þykir miklu skemmtilegra í rekstri að búa til eitthvað, að skapa verðmætaaukningu úr raunverulegu hráefni heldur en að sýsla með það sem augað ekki sér. Nú heyrist líka utan úr heimi að framleiðslufyrirtækin séu sífellt að verða vinsælli í augum fjárfesta sem eru þá væntanlega búnir að uppgötva að ekkert verður til úr engu það er nú bara svo einfalt!
En með lækkun krónunnar, hráefnishækkunum hjá erlendum byrgjum og ekki síst stjórnlausri vitleysu í hinum íslenska fjármálaheimi þá eru blikur á lofti hjá öllum fyrirtækjum og þar er enginn undanskilinn.
Það læðist að manni sá grunur að nú séu einhverjir að leika sér og að þeim hinum sömu sé nokkurn veginn sama hvernig allt veltist á þessu landi. Egill Helgason birtir afar athyglisvert bréf á síðunni sinni ...
--------------------------------
Síðdegis í gær, laugardag, ávarpaði ég hagyrðingaskemmtun í Eden þar sem valinkunnir andans menn leiddu saman hesta sína. Vísur og stökur flugu milli manna við mikla ánægju viðstaddra sem skemmtu sér hið besta. Karl Jónatansson átti veg og vanda af skipulagningunni en Sigurður Sigurðarson, dýralæknir stjórnaði.

Smelli hér inn einni frá Helga Seljan sem hann orti í tilefni af orðum bæjarstjórans:
Okkur bauð hún brosið sitt
blossi fór um hjartað mitt.
Enga betri konu kýs
en Hveragerðis ljúfa dís.

..og Birgir Hartmannsson bætti um betur:
Í Hveragerði greina má
gæðastimplana dýra.
Fasteignagjöld eru feiknahá
og falleg bæjarstýra.

Þeir eru kurteisir og kunna þetta karlarnir ....

Ég hafði orð á því að engin kona sæti við hagyrðingaborðið og þá smellti Jóhannes Sigmundsson fram þessari:
Engar konur kveða hér
kunna því margir illa.
Aðeins karlar ætla sér
æru sinni að spilla.

Og Helgi Seljan bætti við:
Alveg segi ég eins og ber,
sem ekki er beysið.
Kvelur okkur karla hér
kvenmannsleysið.

-----------------------------------

29. mars 2008

Fundur í morgun á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem mættir voru umsjónarmenn heimasíðna/upplýsingamála hinna ýmsu sveitarfélaga. Ég var fengin til þess að kynna Sunnan3 verkefnið sem Árborg, Hveragerði og Ölfus stóðu að en tilgangur fundarins var að ræða hvers vegna Ísland væri að dragast aftur úr öðrum þjóðum á sviði upplýsingatækni. Það var fróðlegt að hlusta á það sem aðrir höfðu fram að færa en það er greinilegt að fjárveitingar til uppbyggingar rafrænnar stjórnsýslu eru ekki nægjanlegar. Til verkefnisins Sunnan3 höfum við hér fyrir austan fjall fengið ríflegann styrk frá Byggðastofnun og gerði hann okkur mögulegt að opna rafrænt þjónustutorg ásamt því að ljúka ýmsum öðrum verkefnum þessu tengdu. Fundurinn var hressilegur enda hópurinn áhugasamur um málefnið. Strax að þessum fundi loknum tók við fundur í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og stóð hann þar til síðdegis. Fjöldi mála var ræddur, breytingar á Jöfnunarsjóð voru tímafrekastar enda erfitt að samræma sjónarmið sveitarstjórnarmanna á þeim málaflokki. Umsagnir um hin ýmsu lagafrumvörp eru ávallt fyrirferðarmiklar og núna var líka farið yfir stefnumörkun stjórnar ásamt ýmsu öðru.
------------------------
Á fundi bæjarráðs í gær var einróma samþykkt að ráða Jóhönnu Margréti Hjartardóttur í nýja stöðu menningar- og frístundafulltrúa Hveragerðisbæjar. Hún var valin úr hópi 23 umsækjenda en fjölmargir afar frambærilegir aðilar sóttu um stöðuna.
------------------------

28. mars 2008

Kögunarhóll, ákvarðanir og veggjakrot

Það er greinilegt að sumir staðir eru fólki hjartfólgnari en aðrir og því vakti frétt á forsíðu Sunnlenska fréttablaðsins mikla athygli á mínum vinnustað í morgun.
Í fréttinni var fjallað um það að Kögunarhóll þyrfti að víkja fyrir tvöföldum Suðurlandsvegi og því hafði sveitarfélagið Ölfus ákveðið að leyfa þar malartekju og hóllinn myndi þannig hverfa á skömmum tíma. Greinilegt er að fólk trúir nágrönnum okkar til alls og fólk var afar æst yfir þessum áformum, ætlaði sér meira að segja að mæta í mótmælastöðu samtakanna Sólar í Ölfusi sem áformuð er í næstu viku allt þar til athugull lesandi tók eftir því hvenær mótmælastaðan átti að fara fram. Á hádegi næstkomandi þriðjudag sem ber uppá þann ágæta dag 1. apríl....
Vel lukkað hjá Sunnlenska verð ég að segja!!!
----------------------------
Á bæjarráðsfundi í dag voru mörg góð mál samþykkt. Meðal annars var ákveðið að fara í samstarf við Arkitektafélag Íslands um skipulag miðbæjarins. Miðbærinn er okkur ekki til sóma eins og hann lýtur nú út en þar standa nú þegar margar lóðir auðar eða með hálfónýtum gróðurhúsum sem bíða þess eins að verða rifin. Því miður hefur garðyrkjan látið undan síga hér í Hveragerði á undanförnum árum en aðstæður í greininni hafa gjörbreyst sem aftur hefur gert það að verkum að rekstrargrundvöllur minni stöðva hefur ekki verið góður. Lóðaverð hér í Hveragerði er síðan með þeim hætti að það er fýsilegur kostur að selja stöðvarnar til niðurrifs og byggja íbúðarhúsnæði á lóðunum. Þetta er þróun sem illa verður stöðvuð þrátt fyrir að margir sjái mjög eftir þeim sjarma sem fylgt hefur gróðurhúsunum í byggðinni.
Ég efast ekki um að skemmtilegar og nýstárlegar hugmyndir munu koma út úr hugmyndasamkeppninni sem fyrirhuguð er og hef trú á því að verkefnið þyki áhugavert.
Stefnt er að því að samkeppninni ljúki á árinu.
------------------------------
Ákveðið var að taka upp eingreiðslur til dagforeldra til að bæta aðstöðu þeirra en sú ákvörðun er tekin í kjölfar óskar um styrk til kaupa á kerrum fyrir allt að 5 börn. Kerrurnar eru algjör snilld en þar geta börnin setið örugg í sínum sætum og dagforeldrið farið með stóran hóp út um allan bæ sem hlýtur að vera mikil breyting frá því sem áður var.
------------------------------
Á morgun mun Guðmundur Þór, forseti bæjarstjórnar, afhenda grunnskólanum nýjar skólastofur með formlegum hætti. Innréttingu Hverakaups hússins er lokið en það hýsir nú mynd- og handmenntastofur eins og þær gerast bestar. Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með þeim breytingum sem húsið hefur undirgengist en segja má að það sé nú eins og nýtt að stærstu leyti.
------------------------------
Veggjakrot er óáran sem tröllriðið hefur bæjarfélaginu að undanförnu. Þó hefur algjörlega keyrt um þverbak að undanförnu og varla að sjá megi auðan vegg sem ekki hefur orðið fyrir barðinu á þessum ófögnuði. Hvað þessum aðilum gengur til er erfitt að gera sér í hugarlund því ekki er listrænum tilburðum fyrir að fara í þessum tilvikum. Það er alveg ljóst að við þetta ástand verður ekki unað og hefur rannsóknarlögreglunni verið falið málið og mun hún leggja allt kapp á að upplýsa hver eða hverjir hér eru að verki. Viðkomandi getur átt von á þungum viðurlögum því það er ekki gamanmál að útkrota bifreiðar í eigu fólks, nýjar útkeyrsluhurðir, heilu veggjaklæðningarnar á verslunarmiðstöðinni, nýmálaðar kennslustofur, alla gluggana á tjaldsvæðishúsinu, heilu strætóskýlin og áfram mætti telja. Við þurfum líka öll að vera vakandi fyrir þessum ófögnuði og láta lögregluna vita ef við teljum okkur vita hver hér er að verki. Kostnaðurinn sem af þessu hefur þegar hlotist mælist í hundruðum þúsunda ef ekki milljónum og við það verður ekki unað. Það er ýmislegt betra hægt að gera við peninga bæjarbúa en að eyða þeim í hreinsunarstarf af þessu tagi.

19. mars 2008

Umsagnir, húsbyggingar og fasteignagjöld

Góður dagur á skrifstofunni, engir fyrirfram skipulagðir fundir þannig að dagurinn varð drjúgur. Vann svar við stjórnsýslukæru og umsögn fyrir hönd bæjarins um drögin að nýju skipulagslögunum. Enn og aftur verður vakin athygli á því óréttlæti sem viðgengst á Skipulagsstofnun varðandi úthlutun úr skipulagssjóði. Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ásamt Akureyri fá helming innheimts skipulagsgjalds í sinn hlut engin önnur sveitarfélög komast í þann útvalda hóp þrátt fyrir beiðnir þar um. Í tilfelli Hvergerðinga er um að ræða tugi milljóna sem bæjarfélagið verður af vegna þessarar málsmeðferðar. Það er skylda Alþingismanna að sjá til þess að jafnræðisreglan sé ekki brotin með jafn afgerandi hætti og í þessu tilviki.
----------------------------
Fór og skoðaði nýju mynd og handmenntastofuna ásamt Guðjóni skólastjóra í dag. Öll tæki ásamt húsbúnaði eru að verða komin á sinn stað. Húsið er orðið eins og nýtt og aðstaða öll til fyrirmyndar. Þetta verður algjör bylting bæði fyrir nemendur og kennara en eldra húsnæði er orðið vægast sagt lélegt. Hitti þarna bæði Magnús Gíslason, húsvörð og Guðjón Árnason, handmenntakennara,en þeir hafa báðir lagt mikið af mörkum við innréttingu húsnæðisins. Skólastjórinn stefnir á að hefja kennslu í húsnæðinu í vikunni eftir páska.
-----------------------
Loksins birtist greinin sem ég sendi Dagskránni fyrir um 3 vikum síðan. Hef hugsað mér að setja saman aðra grein þar sem borin eru saman fasteignagjöld sveitarfélaga hér í nágrenninu og koma henni að í næstu viku. Það er nauðsynlegt að koma upplýsingum til bæjarbúa og við höfum sennilega ekki verið nógu dugleg við það að undanförnu.
-----------------------
Fór í langan göngutúr í kvöld. Ég og Guðrún systir þræddum nýbyggðu hverfin þar sem flutt er inní lang flest hús og önnur á góðum skriði. Skoðuðum Búmannahverfið í krók og kring en þar er unnið nætur og daga enda eiga fyrstu íbúarnir að flytja inn í sumar. Bílakjallarinn er mjög skemmtilegur en þar eru einnig geymslur fyrir hverja íbúð. Byggingaraðilinn hefur lýst þessum húsum sem láréttu fjölbýlishúsi og má það til sanns vegar færa. Nánd íbúa verður mikil og getur það auðveldlega skapað skemmtilega stemmningu í hverfinu og komið í veg fyrir einangrun þeirra sem þangað flytja.
Sáum heilan hóp vera að vinna við endurbætur á Álnavörubúðinni svo við gripum tækifærið og kíktum inn. Vatnslögn gaf sig fyrir nokkrum vikum og heilmikið tjón varð á vörum og húsi þannig að mikið átak þarf til að koma öllu í samt lag aftur. Í staðinn nota nýjir rekstraraðilar tækifærið og gera miklar endurbætur þannig að það er varla að maður kannist við sig í versluninni. Verður spennandi að sjá endanlega útkomu.

18. mars 2008

Gúrka...

Ég var í sundi á sunnudaginn síðasta og flatmagaði þar í pottinum ásamt fullt af öðru fólki um miðbik dagsins. Varð samt sem áður ekki vitni að heimsókn sænskrar baráttukonu í laugina en forstöðukona sundlaugarinnnar hringdi í mig í gær og lét mig vita af uppákomu sem orðið hafði í sundlauginni vegna konu sem vildi vera berbrjósta í heitu pottunum og í lauginni. Laugarverðir vildu að hún væri í viðeigandi sundfatnaði eins og það heitir en því vildi sú sænska ekki una og yfirgaf því sundlaugina. Það var eins og við manninn mælt að blaðamaður 24 stunda hringdi í mig á mánudaginn en þá hafði sundkonan haft samband við hann enda tilgangurinn væntanlega með sundferðinni að komast í fjölmiðla. Ég átti fínt spjall við blaðamanninn sem hafði eina eða tvær línur eftir mér í frétt um málið í dag. Fréttin svo sem sárasaklaus og engin ástæða til annars en að líta á hana sem slíka. Í blogg heimum hefur fréttin aftur á móti vakið ótrúleg viðbrögð því hún er sú mest lesna á mbl.is í dag og lygilega margir hafa bloggað um fréttina.

Hvað er svona fréttnæmt við þetta og hvert er málið? Forstöðumaður sundlaugarinnar ræddi við fjölda annarra forstöðumanna og hvergi voru til reglur um það hvað væri viðeigandi sundfatnaður í sundlaugunum, mál sem þetta hafa ekki komið upp, sólböð á sólbekkjum undanskilin. Þetta verður væntanlega mál málanna á næsta forstöðumannafundi.

Hér í Hveragerði hafa sundlaugarverðir þurft að bregðast við gagnvart einstaklingum sem vilja vera naktir í lauginni? Er það eitthvað sem ætti að skoða í leiðinni? Gæti nefnt einstaklinga sem væru alveg til í að fara í krossferð til að berjast fyrir því að líkaminn fái notið sín á evu/adams klæðunum einum í sundlauginni ! ! !
Hversu mikil má nekt í sundlaug vera? Hvenær er frelsi eins farið að skerða frelsi annars? Ekki alveg einfalt, frekar en svo margt annað ....

En annars held ég að áhuginn á þessari frétt skýrist ekki síst af því að hér hafi komið skondin, lítil, sakleysisleg frétt sem útaf fyrir sig skiptir engu máli, mitt í allri hringiðu frétta af hruni krónunnar, fallandi hlutabréfamörkuðum, yfirvofandi gjaldþrotum, verðbólgu, hækkandi olíuverði og annarri óáran sem tröllriðið hefur fjölmiðlum undanfarna daga.

Lærdómur dagsins: læða út saklausum skemmtilegum fréttum því þær eru lesnar upp til agna á þessum síðustu og verstu ......

Spurning dagsins: hvers vegna fór sú sænska ekki í sund á Selfossi ? ? ?

14. mars 2008

Héraðsráð, fiskar, Suðurlandsvegur og Kögunarhóll

Vann í hinum ýmsu málum í morgun en af nógu er að taka í þeim efnum. Í hádeginu var brunað á Selfoss á fund í héraðsráði sem haldinn var í ráðhúsinu hjá Ragnheiði Hergeirs. Þar var ákveðið að taka tilboði Gísla Sverris Árnasonar og Garðars Jónssonar í úttekt á safnamálum Árnessýslu. Ákvörðun sem okkur var falið að taka í kjölfar héraðsnefndarfundar í haust. Héraðsnefndin rekur Byggðasafnið, Listasafnið, Skjalasafnið og tekur þátt í rekstri Bæjar- og héraðsbókasafnsins á Selfossi. Sífellt koma fram óskir um aðkomu héraðsnefndar að hinum ýmsu málaflokkum og þá ekki síst á sviði safnamála. Ákvað því nefndin að fá fagaðila til að gera úttekt á söfnunum í sýslunni sem yrði þá leiðbeinandi fyrir héraðsnefnd í framhaldinu.
---------------------------
Mér dauðbrá á leiðinni á Selfoss þegar ég sá hvernig búið er að fara með Kögunarhól. Mikil umhverfisspjöll eiga sér nú stað þar en búið er að leggja veg upp í miðja hlíð á hólnum og ekki er hægt að sjá annað en að þar sé nú verið að taka grunn fyrir húsi.
Fátt er fólki nú orðið heilagt verð ég að segja en bæjarstæðið hefði orðið ólíkt glæsilegra og betra sunnar og neðar í landinu. Fyrir nú utan það að þá hefði Kögunarhól verið hlíft en hann er eitt þekktasta kennileitið á leiðinni hér á milli Hveragerðis og Selfoss. Það að engin athugasemd skuli koma fram við auglýsingu deiliskipulags á svæðinu vekur mann til umhugsunar um meðvitund borgaranna varðandi skipulagsmál í sínu nánasta umhverfi. Við verðum öll að fylgjast með auglýsingum um breytt skipulag því ákvarðanir sem teknar eru á því sviði geta haft meiri áhrif
en nokkurn gæti grunað.
----------------------------
Fundaði í dag með formanni Veiðifélags Varmár og Þorleifslækja og formanni og stjórnarmanni Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Tilgangur fundarins var að fara yfir afleiðingar klórslyssins. Fundurinn var góður og málið rætt ítarlega frá öllum sjónarhornum. Fulltrúar veiðimanna lögðu fram nokkuð ítarlegan lista um þær aðgerðir sem þeir telja nauðsynlegt að fara út í. Ákveðið var að hittast aftur innan skamms til að fara betur yfir þessi mál og reyna að ná lendingu sem allir geta verið sáttir við.
----------------------------
Bæjarstjórnarfundur síðdegis. Núðlurnar frá Kidda Rót höfðu svo sennilega afar góð áhrif því að bókanir bæði minnihluta og meirihluta voru á óvenju léttum nótum og höfðum við öll frekar gaman af þeim slag. Hvet ykkur til að lesa fundargerðina sem finna má hér. Fyrri umræða fór fram um nýgerða skólastefnu og einnig um breyttar samþykktir um gatnagerðargjöld. Bæjarstjórn ályktaði um vilja sinn til að efla almenningssamgöngur á milli höfuðborgarsvæðisins og Selfoss en það er eitt brýnasta hagsmunamál okkar hér fyrir austan fjall. Í upphafi bókaði bæjarstjórn um ánægju sína með ákvörðun um tvöföldun Suðurlandsvegar milli Litlu kaffistofunnar og Hveragerðis en ákvörðunin var tilkynnt á fundi í dag. Loksins höfum við fengið loforð um að framkvæmdir muni hefjast og það strax á fyrrihluta næsta árs. Þessari ákvörðun ber að fagna enda með henni lagðar línur um fyrirkomulag um uppbyggingu alls vegarins til næstu ára.
-----------------------------
Kanadafarinn kominn heim heill á húfi og gladdist sú sem hér skrifar mjög yfir að hafa endurheimt dótturina heim. Skemmtileg skrif um ferðina má lesa hér.

12. mars 2008

Pendlarar, samningar og XD

Sú athyglisverða staðreynd að sífellt fleiri sækja vinnu utan búsetusvæðis (pendla eins og danskurinn segir) er kynnt í stuttri grein í Morgunblaðinu í dag. Þó að ekki sé um mikla sundurliðun á niðurstöðum að ræða í greininni þá vitum við hér í Hveragerði að þessi þróun er staðreynd. Hingað hefur flust mikið af fólki sem gerir sér góða grein fyrir þeim lífsgæðum sem felast í búsetu á landsbyggðinni en velur samt að vinna áfram á höfuðborgarsvæðinu. Þetta tvennt er auðvelt að sameina með búsetu til dæmis hér í Hveragerði en á góðum degi er ég rétt um 20 mínútur að Rauðavatni. Nú þegar atvinnusvæði Reykvíkinga er óðum að byggjast upp á Hólmsheiðinni sem er enn nær okkur þá eru Reykjavík og Hveragerði orðin að einu atvinnusvæði. Tvöföldun Suðurlandsvegar og bættar almenningssamgöngur munu síðan færa þessi sveitarfélög enn nær hvert öðru.

Vann í þjónustusamningum við Hjálparsveit skáta og skátafélagið Strók í dag. Beiðni hefur borist frá báðum félögunum um að gerður verði við þau þjónustusamningur hliðstæður þeim sem hafa verið gerðir við önnur félög í bænum. Það er mikilvægt að stutt sé við allt það góða félagsstarf sem fer fram hér í bæjarfélaginu og gerir bæjarstjórn það með glöðu geði. Hvort framlögin þykja nægileg er aftur á móti allt annar handleggur enda getur oft verið himinn og haf á milli þess sem beðið er um og þess sem bæjaryfirvöld geta boðið.

Fór lauslega yfir umsóknir umsækjenda um stöður mannvirkja- og umhverfisfulltrúa og menningar- og frístundafulltrúa. Um þá fyrri bárust 5 umsóknir en 23 um þá síðari. Greinilegt á þessu að ennþá er mikil þennsla í bygginga- og tæknigreinum og mikil eftirspurn eftir starfsfólki í þessar greinar. Síðari staðan er eftirsóttari og fjöldi góðra umsækjenda þar á ferð. Ég er afar fegin því að hafa fengið Capacent til að sjá um ráðningarferlið en þeim er nokkur vandi á höndum það er ljóst.

Góður fundur Sjálfstæðisbakhjarla í kvöld þar sem farið var yfir þau mál sem hæst ber í bænum þessa stundina. Þessi hópur er alveg stórkostlegur og alltaf gaman þegar hann hittist. Í vinnu eins og þarna fer fram skipta skoðanir allra miklu máli og afar mikilvægt að fá fram sjónarmið sem flestra.

11. mars 2008

Íbúafundur, mjúkhýsi og vindhraði

Héldum löngu tímabæran fund með íbúum við Klettahlíð varðandi gatnagerðarframkvæmdir sem hafa því miður dregist á langinn og ýmislegt mátt betur fara við framkvæmdina. Veðrið í vetur hefur leikið verktakana grátt og ekki orðið til að flýta framkvæmdum. En fundurinn var góður, fjölmörg sjónarmið komu fram og nú verðum við að standa okkur betur í framhaldinu.

Ræddi í dag við sérfræðingana sem eru að vinna gögnin til Brunamálstofnunar vegna mjúkhýsisins. Stefnt er á að skila inn öllum nauðsynlegum gögnum nú í vikunni og þá er ekki annað að gera en að bíða niðurstöðunnar. Nú þarf þetta að fara að ganga hratt ég hef samt verið fullvissuð um að hönnun vallarins og gólfsins á að vera fljótleg þegar niðurstaða eftilitsaðilanna liggur fyrir.


Rakst síðan á þessa síðu í dag þar sem fjallað er um mjúkhýsi í Toronto í Kanada. Hvet áhugasama til að kynna sér málið. Hér er flott mjúkhýsi í Kanada. Gaman að lesa lýsingar notenda á húsinu.




Las í Landi og sögu, blaði sem fylgdi Mogganum í dag að Sandgerðisbær hyggði á framkvæmdir við yfirbyggðan gervigrasvöll (79x70m), stúku og búningsaðstöðu. Áætlað er að sú bygging kosti um 500 milljónir sem er ekki langt frá þeim kostnaði sem við vitum að liggur í byggingum af þessu tagi. Hér í Hveragerði er margt sem þarf að gera á allra næstu árum og má þar til dæmis nefna endurbætur á sundlauginni í Laugaskarði, gatnagerðarframkvæmdir í eldri hverfum, viðbyggingu við grunnskólann og fleira. Allt kostar þetta samfélagið mikla fjármuni og því teljum við það skyldu okkar að kanna til hlítar ódýrari lausnir eins og mjúkhýsið sannanlega er.

Ræddi við Trausta Jónsson á Veðurstofunni í dag og snérist umræðan að mestu um vindstyrk hér í kring og á landinu öllu. Hann benti mér á grein um illviðrið sem geysaði hér í byrjun febrúar.Í henni koma fram athyglisverðar upplýsigar um vindhraða á hinum ýmsu stöðum sem ég hvet áhugasama mjúkhýsis aðdáendur til að kynna sér hér. Þarna kemur fram að mesti vindhraði í hviðum í Hellisskarði mældist 42,3 m/sek. Í Þorlákshöfn mældist 35,4 m/sek í mestu hviðunum og vegagerðarstöð á Hellisheiði sýndi mestu hviðu verandi 42,8 m/sek. Umboðsaðili mjúkhýsisins ábyrgist húsið í allt að 65 m/sek enda hafa þau staðið af sér hina verstu fellibylji erlendis. Það hefði verið gagnlegt að hafa veðurathugunarstöð staðsetta hér í Hveragerði undanfarna mánuði þá hefðum við nú nánari upplýsingar að byggja á en við hljótum að horfa til talna frá veðurathugunarstöðvum hér í kring.

Lagfærði aðeins tenglasafnið hér til hliðar og bætti nokkrum nýjum við. Þar á meðal tengli á Náttúran.is þar sem finna má bæði gagnlegar og skemmtilegar upplýsingar um umhverfis- og vistvernd.

10. mars 2008

Borgarfjörður, Listasafn og Vegagerðin ...

Árshátíð Kjörís var haldin um síðustu helgi. Venju samkvæmt var farið burt úr bænum og nú var ferðinni heitið í Borgarfjörð þar sem dvalið var í góðu yfirlæti á Hótel Hamar. Mjög gott hótel þar sem innréttingar og aðbúnaður er eins og best verður á kosið. Það er ekki oft sem maður upplifir það að hótelstjórinn kveður hópinn með skemmtiræðu yfir morgunmatnum og flytur frumotar vísur í massavís yfir mannskapnum. Unnur og Hjörtur eru góðir gestgjafar og óhætt að mæla með þessu hóteli. Árshátíðir Kjörís eru ávallt skemmtilegar samkundur sem hrista hópinn vel saman. Flestir tóku helgina undir og nýttum við Lárus laugardaginn vel og heimóttum meðal annars Landnámssetrið og Hvanneyri. Það þyrfti að klóna þau Kjartan og Sigríði sem áttu hugmyndina að Landnámssetrinu og hafa komið því á koppinn því afskaplega vel er að öllu staðið og gaman væri ef til væru fleiri svona fítonskraftar.
------------------------------
Heimsóttum Listasafn Árnesinga í gær, sunnudag, en á laugardaginn opnaði ný sýning í safninu, "Er okkar vænst, leynilegt stefnumót í landslagi" þar sem Borghildur Óskarsdóttir og Sigríður Melrós Ólafsdóttir leiða saman verk sín með skemmtilegum hætti. Hvet reyndar Flóamenn og þá sérstaklega Stokkseyringa til að mæta í Listasafnið því verk Brynhildar eru unnin úr sögu ættar hennar sem búsett var í Flóanum. Geta kunnugir átt frábærar stundir við að skoða myndirnar og lesa sögurnar sem þeim fylgja. Sigríður sýnir aftur á móti myndir af föngum á Litla Hrauni.

Búið er að innrétta barnahorn í safninu og kaupa fleiri húsgögn þannig að aðstaðan er alltaf að verða betri. Enda var notalegt að sitja þarna og spjalla. Hittum meðal annars Bjarna Harðar og Elínu og Knút Bruun og Önnu Sigríði en Knútur er formaður stjórnar safnsins og hefur unnið ómetanlegt starf í stjórninni.
--------------------------------
Heimsótti Vegagerðina á föstudaginn ásamt fulltrúum frá Árborg þar sem rætt var um hugsanlegar breytingar á almenningssamgöngum á milli Reykjavíkur, Hveragerðis og Selfoss. Bættar samgöngur hér á milli hafa lengi verið baráttumál bæjarstjórnar og þar sem nú hyllir undir lok gildandi sérleyfis þá er tækifæri til breytinga. Orð eru til alls fyrst og því var fundurinn á föstudag afar góður og vonandi upphaf að stórstígum samgöngubótum fyrir íbúa hér fyrir austan fjall.
--------------------------------
Fann þessa ótrúlega flottu síðu á Wikipedia sem hann Njörður Sigurðsson hefur sett upp. Allt um listamennina í Hveragerði hér á árum áður.

6. mars 2008

Bæjarráð, árshátíð og Dagskráin...

Bæjaráðsfundur í morgun og þónokkur mál á dagskrá samkvæmt venju. Tveimur raðhúsalóðum og einu parhúsi var úthlutað til ÖR tréverks í Dalsbrúninni og þá er nú orðið fátt um fína drætti varðandi lóðaframboð bæjarins. Ein raðhúsalóð er nú eftir og eitt parhús í Dalsbrún. Við Hjallabrún og Hólmabrún verða að mestu einbýlishús en tvær parhúsalóðir eru á því svæði. Það verður spennandi að sjá hvernig lóðaúthlutun næstu mánaða mun þróast í ljósi aðstæðna á markaði. Á fundinum var einnig lagt fram bréf frá hjónunum á Þórustöðum sem hafa augastað á svæði inní Dal undir lifandi búháttasafn, safni sem sýndi lífshætti til sveita á fyrri hluta síðustu aldar. Bæjarráð lýsti yfir jákvæðum vilja til verkefnissins en þar sem svæðið sem um er að ræða tilheyrir sveitarfélaginu Ölfusi þá er skipulag þess á þeirra forsjá en ég hef ekki trú á öðru en að þar verði viðbrögð jákvæð.
-------------------------
Fundaði um fyrirkomulag sorpmála í Hveragerði og þá lausn sem kynnt hefur verið fyrir sveitarfélögum á suður- og vesturlandi. Sitt sýnist hverjum enda er hér um afar háar fjárhæðir til stofnframkvæmda að ræða. Fundur síðdegis um skólastefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga, félags grunnskólakennara og skólastjórnenda og hið mjög svo áhugaverða starf sem hópurinn sem hana vann hefur innt af hendi.
Varð reyndar að yfirgefa fundinn áður en honum lauk þar sem árshátíð miðstigs í Grunnskólanum var haldin síðdegis. Bekkurinn hans Alberts setti upp leikrit sem þau sömdu sjálf og var það stórskemmtilegt eins og önnur atriði á árshátíðinni.
-------------------------
Magnús Hlynur sem er einn dyggasti lesandi aldis.is birti í Dagskránni í dag alltof stóra mynd af mér og stórsöngvaranum Magna sem tekin var við opnun bensínstöðvar Atlantsolíu um daginn. Það hefði verið nær að hafa þessa mynd í frímerkjastærðinni sem fylgdi fréttinni um opnunina í síðustu viku, Magnús ! ! !
Og ég sem var búin að skrifa heljarinnar grein um innheimtu fasteignagjalda, hvar skyldi hún hafa endað ? ? ?

5. mars 2008

Konungur Íslands, héraðsráð og skólastefnan ...

Kláraði ýmsa pappírsvinnu fyrir hádegi í dag. Einnig leit konungur Íslands við, Svavar Sigurðsson, hann er ódrepandi í vinnu sinni við að safna peningum til fíkniefnavarna og hefur stutt dyggilega við bakið á Tollgæslunni.
Þetta með konungstignina er reyndar ekki glósa frá mér heldur er þetta titillinn sem Svavar notar.
----------------------------------
Var komin á Selfoss kl. 12 á fund en mér var falið að ræða við forsvarsmenn Árborgar varðandi hugsanleg kaup þeirra á eignarhlut Héraðsnefndar Árnesinga í húseigninni Hrísholti 8. Jón Hjartarsson, forseta bæjarstjórnar og Ásta Stefánsdóttir, bæjrarritari voru fulltrúar Árborgar á fundinum. Niðurstaða og ákvörðun þeirra þarf að liggja fyrir í því máli fyrir fund Héraðsnefndar í haust. Í dag er húsið heilmikið nýtt af félögum í AA samtökunum og því brýnt að gætt sé að þeirra hagsmunum í ferlinu.
----------------------------------
Fundur Héraðsráðs hófst síðan kl. 13 en þar situr sú sem þetta skrifar auk Margeirs Ingólfssonar, oddvita Bláskógabyggðar og Ragnheiðar Hergeirsdóttur, bæjarstjóra Árborgar sem gegnir oddvita stöðu í Héraðsráðinu. Unnið er að ýmsum málum á vegum héraðsnefndar en héraðsráðið sér um framkvæmdahliðina á milli funda. Okkur var til dæmis falið að láta gera úttekt á fyrirkomulagi safnamála í sýslunni og vinnum við nú í því máli. Fengum góða gesti á fundinn sem kynntu möguleika í þeirri vinnu. Á fundinn mætti einnig Þórir Erlingsson sem bauð okkur að skoða nýjan stjórnstöðvarbíl svæðisstjórnar björgunarsveitanna í Árnessýslu. Bíllinn er keyptur í stað þess gamla sem brann í brunanum í flugeldasölunni hér í Hveragerði. Þessi nýji bíll er tæpir 10 metrar á lengd. Að fullu manngengur og í honum er fullkomin aðstaða til fjarskipta og fundahalda. Þessi aðstaða kom mér mjög á óvart og það er ekki efi í mínum huga að björgunarsveitirnar hafa með þessari fjárfestinu sýnt mikla framsýni og áræði.
Héraðsráðið ákvað að leggja fjármuni til kaupanna enda hafði héraðsnefndin á fundi sínum verið jákvæð í garð þessa verkefnis.
-------------------------------
Kláraði fundargerð bæjarráðsfundarins sem haldinn verður kl. 8 í fyrramálið nú síðdegis og svaraði tölvupóstum áður en ég fór á fund starfshóps um gerð skólastefnu en hópurinn skilaði fullunninni stefnu til skólanefndar í dag. Var þetta hin skemmtilegasta stund þar sem allir þeir sem tekið hafa þátt í mótun skólastefnunnar hittust og fóru yfir ferilinn. Nú fer stefnan til umræðu í skólanefnd og þaðan til bæjarstjórnar þar sem hún er endanlega samþykkt.
-------------------------------
Hittumst systurnar hjá mömmu í kvöld. Mikið fjör og mikið spjallað eins og nærri má geta. Sú yngsta er að verða ansi ólétt enda farið að síga á seinni hluta meðgöngunnar. Það er virkilega gaman að hafa hana heima þessa daga því hún hefur verið svo ansi langt í burtu finnst okkur...

4. mars 2008

Framkvæmdir sumarsins ...

Útboðsgögn eru að verða tilbúin vegna stíga- og gatnagerðar sumarsins. Að öllu óbreyttu verður auglýst útboð á göngustígum ásamt bílaplani leikskólans Undralands um næstu helgi. Við vonumst eðlilega eftir hagstæðum verðum í þessar framkvæmdir.

Örlítið lengra er í útboðsgögn vegna Þórsmerkur og Hjallabrúnar en stefnt er að auglýsingu þessara verka í mars. Göngustígur milli Fljótsmerkur og Þórsmerkur verður lagður samhliða þessari framkvæmd.

Teikningar af aðstöðuhúsinu við Grýluvöll eru tilbúnar en þar er deiliskipulagið aftur á móti í auglýsingu. Enn hefur ekki borist svar frá Brunamálastofnun varðandi mjúkhýsið svokallaða en einn fremsti brunahönnuður landsins vinnur hörðum höndum að því verkefni.

Undirbjó fundarboð bæjarráðsfundar sem haldinn verður á fimmtudag. Það eru ávallt einhver mál sem þarfnast meiri undirbúnings en önnur en bæjarráð fjallar um flest það sem snýr að daglegum rekstri bæjarfélagsins.
---------------------

Ég og Albert erum afar hrifin á Skjánum sem til dæmis gefur okkur núna kost á að horfa á hina frábæru mynd Godzilla ókeypis. Við höfum oft séð hana en hún klikkar aldrei og til dæmis er horft á hana núna með öðru auganu um leið og bloggfærsla dagsins er skrifuð inn.

3. mars 2008

Skrefi nær tvöföldun ....

Vil byrja á að fagna afgreiðslu bæjarstjórnar Ölfus frá 28. febrúar sem er eftirfarandi:

Bæjarstjórn Ölfuss samþykkir að farið verði nú þegar í nauðsynlegar skipulagsbreytingar að hálfu sveitarfélagsins vegna legu og tvöföldunar nýs Suðurlandsvegar frá Kömbum um Ölfus að Kögunarhóli og áfram að Árborg samkvæmt svonefndri tillögu B".

Greinargerð:

Á undanförum árum hefur það verið baráttumál Sunnlendinga allra og margra annarra að flýta sem kostur er tvöföldun Suðurlandsvegar á milli Reykjavíkur og Árborgar. Mikil vinna hefur verið lögð í þetta mál af hendi sveitarfélaga á Suðurlandi, alþingismanna og almennings alls á svæðinu.

Á síðasta ári starfaði nefnd á vegum Sveitarfélagsins Ölfuss, Hveragerðisbæjar, Árborgar og Vegagerðar ríkisins um kosti og val vegstæðis og komst að sameiginlegri niðurstöðu um málið þann 13. nóvember 2007.

Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti á fundi sínum þann 29. nóvember 2007 að fá frekari svör og afstöðu Vegagerðar ríkisins um aðra möguleika á legu vegarins ásamt kostnaðarmati á mismunandi kostum og svaraði fulltrúi Vegagerðarinnar þeim fyrirspurnum.

Eftir að hafa skoðað og metið þá kosti sem í stöðunni eru verður ekki betur séð en að svonefnd tillaga B sé sá kostur sem flestir fella sig við og þ.a.l. sé hún valin"

Tillagan samþykkt með 6 atkvæðum. Birna Borg sat hjá.


Með þessari samþykkt hefur sveitarstjórn Ölfus tekið af öll tvímæli um legu Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss og þannig höggvið á þann hnút sem málið virtist stefna í. Vegurinn mun liggja því sem næst í núverandi vegstæði en neðsta beygjan í Kömbunum verður milduð. Mislæg gatnamót við Breiðumörk verða einhverjum metrum sunnar en núverandi hringtorg. Beygjan við Kotströnd verður tekin af og 5 mislæg gatnamót munu koma á veginn. Með ákvörðun Ölfusinga er nú hægt að einbeita sér að skipulagsvinnu, umhverfismatinu og sjálfri framkvæmdinni. Nú er brýnast að sjá framkvæmdir verða að veruleika frekar fyrr en seinna.
-----------------------------------
Fundur í dag í starfshópi um stækkun Grunnskólans. Unnið er að þarfagreiningu og við mat á nemendafjölda til framtíðar. Það er snúið því erfitt er að meta hver íbúaþróunin verður og ekki síður aldurssamsetningu íbúanna. En undir öllum kringumstæðum hljótum við að gera ráð fyrir umtalsverðri fjölgun nemenda og áætlanir um uppbyggingu gera ráð fyrir því.
-----------------------------------
Ég fer stundum á rúntinn um bæinn og kíki þá oftast uppí Valsheiði, Smyrlaheiði og á Búmannahverfið við Gróðurmörkina. Þar sér maður hlutina gerast hratt enda framkvæmdir á fullu. Mér sýnast framkvæmdir hafnar á svo til öllum lóðum í Smyrlaheiðinni og mest er þetta ungt fólk sem er að byggja hús fyrir fjölskyldu sína. Hitti tvo húsbyggjendur og létu þeir vel af sér enda sá ég að hús þeirra rísa með leifturhraða. Búið er að reisa fjölda Búmanna íbúða en mikill kraftur er í Einari Gunnari og félögum í Eðalhúsum. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta hverfi mun líta út fullbúið en Einar hefur oft lýst því sem láréttri blokk enda þétt byggt og kostir fjölbýlisins (og sérbýlisins) nýttir til hins ýtrasta.

2. mars 2008

Skemmtanir og snjóalög...

Árshátíð Hveragerðisbæjar var haldin á föstudagskvöldið og tókst í alla staði mjög vel.
Að öðrum ólöstuðum stálu starfsstúlkur Óskalands senunni með afar skemmtilegu videó atriði þar sem góðlátlegt grín var gert að nokkrum Hvergerðingum. Vel gert stelpur ! !
Hótel Örk á heiður skilinn fyrir góðan mat en það var samdóma álit gesta að maturinn hefði verið afar ljúffengur. Hljómsveitin Karma hélt síðan uppi fjörinu fram eftir nóttu eins og þeim einum er lagið. Mjög góð mæting starfsmanna var á árshátíðina en um 170 manns átti þarna saman skemmtilega kvöldstund.
-------------------------
Hin árlega krosssaumshelgi Grundarsystra var núna um helgina. Ekki var tímanum eytt í akstur heldur leigður bústaður að Gljúfri þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti um helgina. Fádæma dugnaður í gangi og aldrei að vita nema sjái fyrir endann á krosssaumsmyndinni sem ég byrjaði á árið 1983. Enn má sjá á máðum miðanum að myndin kostaði kr. 155,-, enda myntbreytingin nýafstaðin þegar fjárfest var í þessari metnaðarfullu krosssaumsmynd...
Frábær félagsskapur og skemmtileg helgi, takk systur kærlega fyrir gott framtak ! ! !
-------------------------
Í dag hefur verið rok og skafrenningur og því ansi notalegt að halda sig innandyra. Það hefur heldur bætt í snjóinn og samkvæmt spánni er ekkert lát á vetrinum. En annars er þetta orðið alveg ágætt og löngu tímabært að vetur konungur fari aðeins að slaka á klónni. Þetta mikla vetrarríki hefur áhrif á allar framkvæmdir og ekki síður á geðslag fólks þar sem þráðurinn í mörgum virðist mun styttri en ella ! ! !
Síðan getur kostnaðurinn við snjómoksturinn gert geðprúðustu bæjarstjóra afar þunga í skapinu. Ætli við séum ekki farin yfir 10 milljónirnar núna og munar um minna þegar fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 1 milljón. Sú eina milljón byggði á rauntölum síðustu margra ára og hefur bara takk dugað ágætlega hingað til. EN héðan í frá er rétt að gera ráð fyrir miklum snjómokstri og eiga það þá til góða verði snjóalög skárri en nú er raunin.
--------------------------

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet