<$BlogRSDUrl$>

26. mars 2013

Foreldrarnir ungu eru ekki hrifnir af myndbirtingum á netinu en ég set nú samt þessa krúttlegu mynd af afa og ömmu með litla prinsinn.


25. mars 2013

Mikið sem tilveran getur breyst á undraskömmum tíma. Ungur maður ákvað að það væri tímabært að hitta foreldra sína og ættingja og skaust í heiminn á settum degi þann 21. mars. Hann er undur fallegur og yndislegur á alla kanta og dafnar vel umvafinn kærleika foreldra sinna og risastórrar stórfjölskyldu. Hann er svo heppinn að eiga 6 ömmur og 5 afa og frænkur og frændur sem öll bíða eftir að dekra hann og njóta samvista við þenna nýja undursamlega einstakling. Við erum svo ljón heppin að fá að hafa litlu fjölskylduna hér á Heiðmörkinni fyrstu dagana en það eru ólýsanleg forréttindi sem við erum afar þakklát fyrir.

Fæðingin gekk afskaplega vel og eru foreldrarnir í skýjunum með aðstöðuna á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Einstaklega persónuleg og góð nærvera allra sem þarna starfa gerðu þessa stund jafn einstaka og raun varð á. Við erum svo heppin Sunnlendingar að eiga fæðingardeild með jafn miklu gæða starfsfólki og þarna starfar. Laufey og Elvar vildu fyrir alla muni eiga barnið á Selfossi og keyrðu frá Seltjarnarnesi og austur - framhjá Lansanum - þrátt fyrir að fæðingin væri langt komin. Það er mikið á sig lagt til að eiga á Selfossi, enda var það þess virði :-)
----------------------------
Þrátt fyrir að ég myndi nú helst vilja sitja heima og horfa á litla ömmugullið allan daginn þá stendur það víst ekki til boða :-)

Í dag byrjaði ég á því að ganga frá fundargerð fyrir bæjarráðsfund sem haldinn verður í fyrramálið. Skipulagði síðan borgarafund um úttektar skýrslu Haraldar Lindal sem haldinn verður þann 18. apríl nk. Setti einnig niður fund vegna ársreiknings og meirihlutafund en það getur oft verið þrautin þyngri og tímafrekt að finna tíma sem öllum hentar til fundahalda.

Frá hádegi og til kl. 17 vorum við Eyþór hjá Capacent að ræða við umsækjendur um stöðu umhverfisfulltrúa. Fjöldi umsókna barst um stöðuna en nú er hópurinn farinn að þynnast all verulega. Margir afskaplega færir einstaklingar þar á ferð og í raun hefði ég viljað ráða fleiri en einn !

Kom eðlilega alltof seint í sundleikfimi og náði ekki nema broti af tímanum - synti því í staðinn dágóðan slatta. Missti einhvers staðar á leiðinni töluna á ferðunum! Gott pottaspjall í góðum hópi kórónar alltaf sundferðina.

Nú er svo gaman að fá að kynnast ættingjum Elvars sem undantekningalaust eru hið skemmtilegasta fólk. Áttum hér góða kvöldstund með frænkum litla prinsins sem voru að kynnast gullinu okkar allra...

20. mars 2013

Ég hef stundum sagt ykkur frá því að hver dagur færir sífellt ný og fjölbreytt verkefni og aldrei nokkurn tíma getur maður gengið að því vísu hvað gerist. Dagurinn í dag færði mér endanlega sönnun þess :-)

Verð að segja að ekki átti ég von á þeim viðbrögðum sem urðu við þessu örstutta viðtali sem birtist á RÚV í gærkvöldi! Dagurinn varð einhvern veginn undirlagður þeirri umfjöllun. Mér finnst fyrst og fremst að verkefnið framundan felist í því að við náum að ræða saman, sem allra flest, um eðli skólastarfs á landinu og þá möguleika sem við höfum til að gera það enn betra.

Vinna með Capacent tekur dágóðan tíma en nú hlýtur að fara að koma að viðtölum vegna umhverfisfulltrúans. Verið er að raða skólastjóraumsækjendum svo það ferli er allt aðeins á eftir.

Fór yfir ráðningar sumarstarfsmanna með Jóhönnu og Siggu Hrönn en í næstu viku verða laus sumarstörf auglýst. Mér sýnist á öllu að umsækjendur gætu orðið mun fleiri en þau störf sem eru í boði.

Hitti Guðmund Baldursson og fórum við yfir fyrirhugað útboð á klæðningu á mynd- og handmenntastofum grunnskólans. Það hafa einnig verið að fæðast þar hugmyndir um stækkun þess húsnæðis með afar hagkvæmum hætti. Með það fyrir augum að bæta og lagfæra kennsluaðstöðuna til mikill muna. Allt verður þetta rætt betur síðar enda slíkt ekki á fjárhagsáætlun þessa árs.

Var boðin í afar skemmtilegt kaffiboð hjá Björgu Einarsdóttur en þar voru einnig mætt Halldór Blöndal og kona hans Kristrún. Þau eru öll afar fróð og minnug á söguna og það sem gerst hefur á hinu pólitíska sviði og fékk ég þarna hrað kennslu í sögu kvennapólitíkur auk glæsilegra veitinga.

Í kvöld keppti meistaraflokkur Hamars við stelpurnar í Stjörnunni, Garðabæ. Stórsigur Hamarsstelpna varð staðreynd 79-56, og mikið var fagnað þegar deildabikarnum var hampað í húsinu í kvöld. Þær hafa unnið alla leiki á tímabilinu nema einn og eru í fantaformi. Eftir páska verða síðan tveir leikir einmitt gegn Stjörnunni þar sem keppt er um sæti í úrvalsdeild.

19. mars 2013

Þessa dagana er um fátt meira rætt en fyrirkomulag sérfræðiþjónustu skólanna hér á Suðurlandi. Átti langan fund með Ninnu Sif formanni fræðslunefndar og framhaldinu förum við á fund með stjórnendu skólanna á morgun til að ræða stöðuna. Á fimmtudaginn verður síðan fundur sveitarfélaga á Suðurlandi sem aðild eiga að Skólaskrifstofu Suðurlands án Árborgar þar sem málið verður áfram rætt.

Átti góðan fund með Gunnvöru leikskólastjóra Óskalands þar sem við fórum yfir ýmis mál er varða rekstur, starfsmannamál og biðlistann.

Hitti Kristinn Daníelsson framkvæmdastjóra Golfklúbbsins eftir hádegi. Ræddum við ýmis mál er varða klúbbinn, tækjakaup, viðhald, umhirðu fótboltavallanna, hugmyndir um framtíðaruppbyggingu og margt fleira. Vinsældir golfvallarins í Gufudal eru sífellt að aukast en þar voru í fyrra spilaðir 18.000 hringir. Það finnst mér allavega nokkuð gott...

Enn og aftur rætt við Capacent og nú vegna skólastjóraráðningar. Það bárust 19 umsóknir svo nú tekur við vinna við að flokka þær.

Fundur með Unni Brá, Vilhjálmi Árna og Oddgeiri í kvöld var líflegur og skemmtilegur. Mikið spurt og skeggrætt sérstaklega um tillögur flokksins í þágu heimilanna.

Viðtal við mig í fréttunum á RÚV sem tekið var á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í fréttinnni var fjallað um vinnutímaskilgreiningar í kjarasamningi grunnskólakennara og sérstaklega horft til Danmerkur og þess sem þar er að gerast í þessum málum. Alveg er ég viss um að fjöldi grunnskólakennara er sammála því að ef hægt væri að gera þarna vissar breytingar myndi skólastarf allt batna. Bara svo ég nefni eitt atriði þá rennur það manni til rifja að sjá hversu mikið mæðir á ungum kennurum með mikla kennsluskyldu sem margir hverjir munu tæplega endast nógu lengi í starfi til að njóta kennsluskerðingarinnar sem fylgir hækkandi aldri! Vonandi náum við að ræða saman um þetta atriði og mörg fleiri með það fyrir augum að gera skólastarfið betra og kennarastarfið eftirsóknarverðara.

18. mars 2013

Fór yfir launaáætlanir stofnana og hvernig rauntölur fyrstu tvo mánuði ársins eru að standast. Þar er ýmislegt sem þar þarf að skoða betur en vafalaust eru skýringar á misræmi þar sem það er að finna.

Gekk frá kaupsamningum um lóðirnar í miðbænum þannig að nú er Hveragerðisbær handhafi þeirra lóðarréttinda á ný. Hefði nú samt viljað sjá að betur væri gengið frá Heiðmerkurlóðunum eftir niðurrif gróðurhúsanna sem þar voru og var það mál sérstaklega rætt á fundinum.

Skrifaði undir verksamning við forsvarsmenn fyrirtækisins Óskaverk en þeir buðu hina stórgóður tölu 4.999.999,- í útboð er laut að fráveitu við sundlaugina og göngustígum í miðbænum. Bónusfyrirtækið var það kallað á bæjarstjórnarfundi í ljósi tölunnar... Við höfum góða reynslu af þessum aðila en hann sá um gerð göngustígsins innað Hamarshöll í fyrra og gerði það vel.

Átti langi og gott samtal við Capacent en við erum nú í samstarfi við þau um ráðningu í tvær stöður. Annars vegar umhverfisfulltrúa og hins vegar skólastjóra Grunnskólans í Hveragerði. Fjöldi góðra umsókna hefur borist svo Capacent ráðgjafarnir hafa nóg að gera núna. Umsóknarfrestur um stöðu skólastjórans rennur út í kvöld svo á morgun liggur fyrir hversu margir hafa skilað inn umsókn.

Ég skrapp örstutt í kaffi á Dvalarheimilið Ás, nánar tiltekið í Ásbyrgi en þar fagnaði Halli vinur minn 75 ára afmælinu sínu. Það var vegleg rjómaterta á boðstólum í tilefni dagsins og afmælissöngurinn sunginn hástöfum fyrir afmælisbarnið. Við Halli erum búin að vera vinir í bráðum 15 ár. Óskaplega góður maður sem vill öllum vel. Á myndinni er hluti afmælisgestanna ásamt Haraldi sem er lengst til hægri á myndinni.

Sund í góðum hópi og meirihlutafundur í kvöld venju samkvæmt.
---------------------------------

17. mars 2013

Síðasta Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga á þessu kjörtímabili var haldið á föstudaginn þar sem rætt var um þau mál sem efst eru á baugi. Helst eru það samskipti ríkis og sveitarfélaga, kjarasamningar og hlutverk landshlutasamtaka. Þinggestum var skipt upp í umræðuhópa sem fjölluðu um einstök málefni en það er skemmtilegt fyrirkomulag sem lífgar uppá þingstörfin. Ég flutti ræðu um stöðu sveitarfélaga og hluta úr henni má sjá hér. Ræðan vakti nokkra athygli og þá sérstaklega kaflinn um samskipti ríkis og sveitarfélaga og vinnutímaskilgreiningu starfs grunnskólakennara. Hér má líka sjá umfjöllun Morgunblaðsins um ræðuna.

Fyrr í vikunni hafði ég heimsótt kaffistofu Grunnskólans og líflegar umræðurnar þar kveiktu m.a. hugmyndir að efnistökum ræðunnar.

Annars var líka fjör í opnu húsi sjálfstæðismanna en Halldór Blöndal fyrrverandi þingmaður og ráðherra kom í heimsókn til að ræða málefni eldri borgara og stjórnmálaviðhorfið almennt. Held að hann hafi ekki alveg átt von á þeirri orrahríð sem á honum dundi :-)

Árshátíð Kjörís fólks á Hótel Flúðum um helgina. Einstaklega góð umgjörð um skemmtilega árshátíð. Hótel Flúðir er eitt af glæsilegri hótelum Suðurlands og grjótgarðurinn með heita pottinum er sérstaklega vel heppnaður.
Brunuðum síðan frá Flúðum á Laugarvatn í einstöku gluggaveðri, þangað sem sonurinn var sóttur til að fara með í kaffiboð í Gýgjarhólskoti. Eins og alltaf var gaman í þeim góða félagsskap. En aldrei þessu vant voru Uppsveitirnar þræddar fram og til baka um helgina.


11. mars 2013

Í kvöld bauð forysta Sjálfstæðisflokksins til opins fundar á Hótel Selfoss. Bjarni Ben og Hanna Birna voru með stuttar framsögur og síðan var opinn fyrirspurnatími allan fundin. Skemmtilegt fundaform þar sem svörin voru stutt og hnitmiðuð og fundargestir gátu komið sjónarmiðum sinum á framfæri. Það er greinilegt hvaða mál brennur helst á fólki en það er skuldastaða heimilanna og áhrif verðbólgunnar á hana. Margir lýstu yfir miklum áhyggjum af stöðunni en þessi umræða gaf Bjarna og Hönnu Birnu jafnframt tækifæri til að kynna stefnu Sjálfstæðismanna í þessum málum. Stefnu sem hægt er að standa við sem er frumskilyrði við þær aðstæður sem hér eru. Flokkar sem ekki standa við loforðin fái þeir til þess tækifæri munu eiga í vandræðum á næsta kjörtímabili.


8. mars 2013

Föstudagurinn fór í ýmis viðtöl að stærstu leyti. Hitti Jóhönnu og Steinar í morgun og ræddum við Hamarshöllina og ýmis atriði varðandi gervigrasið og fleira sem snýr að rekstri.

Hitti Siggu Hrönn sem nú er tekin við Upplýsingamiðstöðinni og áttum við gott spjall um gjaldtöku í Hveragarðinum. Þær stöllur sem vinna í Upplýsingamiðstöðinni hafa komið með góða tillögu varðandi það en bæjarstjórn hefur þegar samþykkt að rukka skuli aðgangseyri að svæðinu. Þangað komu vel ríflega 23.0000 gestir svo svæðið er okkur mikils virði sem ferðamannastaður. Á meðan ég stoppaði á Upplýsingamiðstöðinni komu þangað tveir eldfjallafræðingar frá Alaska og sýndi ég þeim sýninguna Skjálftinn 2008 úr því ég var nú á staðnum hvort sem var :-) Þeir voru afar heillaðir og ég hafði hina mestu skemmtun af.

Átti langt og gott samtal við Guðjón skólastjóra en hann lætur af störfum í vor eftir að hafa starfað hér sem skólastjóri í um 25 ár. Hann hefur verið afar farsæll í starfi enda er hann gæddur einstökum hæfileikum í mannlegum samskiptum. Slíkt skiptir svo óendanlega miklu máli og er einstakur kostur í fari einstaklinga. Við ræddum málefni sérkennslu og ýmislegt annað er að skólastarfinu snýr.

Auk þessa var hér fjallað um málefni knattspyrnudeildar, velferðarmál, farið yfir skýrslu um vatnafar, rennt yfir upplýsingar um stöðuna hjá dönskum sveitarfélögum og margt margt fleira. Hef undarfarið verið að viða að mér efni og hugmyndum fyrir erindi sem ég mun flytja á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga næsta föstudag. Þetta er allt að fæðast í kollinum á mér og þá er ég enga stund að koma þessu á blað :-)

MA hittingur í kvöld - það er alltaf mikil tilhlökkun enda líflegur félagsskapur. Hér er ein ansi góð mynd af hópnum sem haldið hefur saman síðan á heimavistinni fyrir óralöngu síðan. Öddu er sárt saknað en litríka sígaunapilsið mitt á myndinni er alveg í hennar anda...

7. mars 2013

Þessi fína mynd af okkur Magnúsi Hlyni fréttamanni og Steinari sem er alls ráðandi í Hamarshöllinni var tekin þegar Magnús var að vinna frétt um höllina fyrir Stöð 2. Ég vona að hún verði sýnd um helgina. Annars erum við svo ansi búsældarlega þarna að það var nú ekki annað hægt en að deilda þessu með ykkur.

6. mars 2013

Það er nú ekki oft sem maður vaknar hér í Blómabænum og sér ekki út um gluggana fyrir snjó en það gerðist í morgun. Veturinn brast á með látum og stóð yfir í nokkra klukkutíma. Ansi hreint hvasst og skafrenningur en eiginlega ekki nokkur snjór með þessu. Reyndar safnaðist aðeins í skafla en það er nú ekki eitthvað sem talandi er um þegar myndir úr öðrum landshlutum eru skoðaðar.

Uppúr hádegi fór að lægja og um kaffi orðið nokkuð gott. Myndin er tekin fyrir utan bæjarskrifstofun, þar fann ég skafl,ja eða kannski frekar ruðning :-)

Dagurinn í dag ljúfur og nýttur til bréfaskrifta og tiltektar. Það var auðvitað öllum fundum frestað og enginn kom á skrifstofuna svo þetta var rólegur dagur.

Þar sem ég sit nú í nefnd sem fjallar um landshlutasamtök og svæðasamvinnu finnst mér þetta myndbrot hrein snilld. Þarna er fjallað um lýðræðið og hlutverk embættismanna og ráðuneyta með afar "fróðlegum" hætti :-)
--------------------------
Með vífið í lúkunum í kvöld var stórkostleg skemmtun. Leikarar fara á kostum og mikið var hlegið í leikhúsinu í Hveragerði. Ég get ekki beðið eftir að hitta Guðmund Þór bæjarfulltrúa á fundi bæjarráðs í fyrramálið ;-)

Hvet alla til að láta ekki þessa sýningu fram hjá sér fara !

5. mars 2013

Stjórn Sorpstöðvar Suðurlands fór í kynnisferð til höfuðborgarinnar í dag. Skoðuðum fyrst urðunarstaðinn í Álfsnesi, heimsóttum síðan höfuðstöðvar Sorpu og mótttökustöðina í Gufunesi. Fórum þaðan í Íslenska gámafélagið og enduðum í Furu í Hafnarfirði. Allt afar athyglisverðir staðir hver með sínu sniði. Ég hafði eingöngu heimsótt Íslenska gámafélagið áður og því var meira nýjabrum á hinum fyrirtækjunum. Það er mikil gróska í endurvinnslu og sorpmeðhöndlun á landinu enda er þessi markaður sifellt að verða fýsilegri fyrir þá sem vilja nýta það hráefni sem felst í úrgangi. Það var til dæmis einstaklega fróðlegt að heimsækja Furu og sjá allt það verðmæti sem þeir gera þar úr ónýtum bílum, köplum, vélum og öðru slíku. Við ætluðum einnig að heimsækja Gámaþjónustuna sem er einkar öflugt og metnaðarfullt fyrirtæki í þessum geira en þá komu skilaboð frá þeim um að fulltrúar Árborgar í stjórninnni væru ekki velkomnir þangað í heimsókn. Væntanlega eru þar einhver sárindi í gangi í kjölfar útboðs á sorphirðu sem nýverið fór fram hjá nágrönnum okkar! Við hin sátum eftir með sárt ennið og kenndum að sjálfsögðu Ara og Gunnari um að við hefðum ekki fengið að sjá þetta flotta fyrirtæki :-)Fyrri myndin er af hópnum á miðju athafnasvæði Furu en sú seinni er af alveg ótrúlega fallegum koparvír á leið úr landi.

Heyrði í dag athyglisverða staðreynd um flöskur, dósir og annað slíkt sem við getum skilað inn til Endurvinnslunnar og fengið 14 kr fyrir eininguna. Einhvers staðar liggja flöskur og dósir fyrir 225 milljónir sem ekki skila sér inn til fyrirtækisins. Það fær nefnilega ákveðna krónutölu pr. stk af framleiddri flösku beint frá framleiðendum drykkjarvara til að geta greitt til þeirra sem skila inn. Framlögin koma einnig vegna þeirra umbúða sem ekki er skilað, enda í ruslinu til dæmis, og þær upphæðir mynda hagnað Endurvinnslunnar. Ansi flott fyrirkomulag ! En mikið lifandis býsn fer mikið af flöskum og dósum í ruslið ! ! !



4. mars 2013

Helgin var nýtt til afslöppunar með það að markmiði að ná úr sér pestinni. Gekk ekki alveg nógu vel því miður !

En þrátt fyrir afslöppun brugðum við okkur í matarboð til Elitu og Grantas á laugardagskvöldið. Drekk hlaðið borð af gómsætum réttum sem sjást á myndinni sem hér fylgir. Reyndar er hér aðeins brot af réttunum. Matarmenningin í Litháen er greinilega bæði fjölbreytt og frumleg og ekki skemmir fyrir hvað þetta er allt bragðgott :-)
Ég var allavega södd langt fram eftir sunnudeginum eftir afar skemmtilega kvöldstund.

Á sunnudeginum var aðalfundur Hamars þar sem meðal annars var skrifað undir þjónustusamning milli Hveragerðisbæjar og félagsins sem tryggir félaginu 20,4 mkr næstu þrjú árin. Auk þess eru í samningnum ýmis ákvæði um samstarf aðila sem eru í góðu samræmi við það sem áður hefur verið. En þessi undirskrift var nú ekki aðalatriði fundarins heldur fóru þar fram hefðbundin aðalfundarstörf auk þess sem viðurkenningar einstakra deilda voru veittar til þeirra sem skarað hafa fram úr á árinu. Glæsilegur hópur íþróttamanna tók þar við viðurkenningum sínum. Marín Laufey Davíðsdóttir, körfuknattleikskona, var valin íþróttamaður Hamars og var hún vel að þeim titli komin.

Sú skemmtilega nýjung var þarna tekin upp að sjálfboðaliði ársins var sérstaklega heiðraður og var það í ár Arnar Geir Helgason sem þann heiður hlaut. Hann hefur verið ötull starfsmaður á ritaraborði á leikjum körfuknattleiksdeildar í mörg ár og taldist formanni deildarinnar til að hann hefði unnið á um 500 leikjum. Ef við gefum okkur að í hvert sinn taki sú vinna um 3 tíma þá hefur hann starfað á ritaraborðinu í sem nemur 187 8 tíma vinnudögum. Það er nú dágóður slatti :-) En til hamingju Arnar Geir þú ert svo sannarlega ómissandi á leikjum hér í Hveragerði.

Hér má sjá frétt um viðburðinn :-)



1. mars 2013

Heilsuleysið gerði að verkum að ég afboðaði alla fundi eftir kl. 16 og skreið heim undir sæng. Missi því af frumsýningu Leikfélags Hveragerðis á "Með vífið í lúkunum". EN það er alveg á hreinu að við munum fara á sýninguna síðar. Ég ætla ekki að missa af því að sjá Guðmund Þór Guðjónsson, bæjarfulltrúa, fara á kostum í hlutverki samkynhneigðs sjarmatröll í þessu leikriti :-)

En dagurinn byrjaði með fundi í stjórn Fasteignafélags Hveragerðis þar sem farið var yfir ýmis atriði varðandi Hamarshöllina. Meðal annars var ákveðið að setja nú þegar snjóbræðslulögn milli tækjabúnaðarins og hallarinnar en slikt mun létta mikið á snjómokstri sem annars er nauðsynlegur. Ræddum líka afmörkun á völlum en komið hefur í ljós þörf á frekari afskermun á milli vallanna til að koma í veg fyrir árekstra. Við skoðuðum skemmtilega lausn sem prófuð verður á næstunni.

Um hádegi var ég komin til Reykjavíkur á fund í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, þar var mesta umræðan um frumvörp sem lögð hafa verið fyrir Alþingi varðandi persónukjör og skilyrðingu fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga. Umræðan var lífleg og að vanda var komist að þverpólitískri niðurstöðu. Stjórnin er nokkuð lunkin við það !

Strax að loknum stjórnarfundi hófst annar fundur á sama stað í nefnd sem ég á sæti í og fjallar um landshlutasamtök og svæðasamvinnu. Nú gengum við frá kynningu sem Dagur B. Eggerts mun flytja á Landsfundi sveitarfélaganna þann 15. mars og ræddum einnig fyrirkomulag borðaumræðu sem þar mun fara fram.

Helgin verður nýtt til að ná heilsu - ekki veitir af :-)
--------------------

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet