<$BlogRSDUrl$>

30. apríl 2005

Sundmót Ármanns

Hér var farið á fætur fyrir allar aldir og stefnan tekin á sundmót Ármanns sem haldið var í nýju innilauginni í Laugardal. Það voru syfjaðir ungir menn sem tylltu sér í aftursætið um 7, en upphitun byrjaði klukkan 8. Þetta er í fyrsta skipti sem ég mæti á mót sem haldið er í þessari laug og er skemmst frá því að segja að ég var algjörlega heilluð af aðstöðunni. Þetta er ótrúlegur munur frá því sem áður var. Hingað til hefur maður annað hvort staðið dúðaður á bakka einhverrar útilaugarinnar eða hímt blaut uppað hnjám á ræmunni í Sundhöll Reykjavíkur. Í dag sátum við í glæsilegri stúku með gott útsýni yfir laugina. Brautirnar eru 10 sem gerir mótin miklu skemmtilegri og snaggaralegri. Úrslitin birtast síðan á stafrænni stigatöflu ásamt nöfnum keppenda. Sunddeild Hamars sendi 8 krakka á mótið, 3 stelpur og 5 stráka. Stóðu þau sig með mikilli prýði og bættu þau öll tíma sína.
Það er sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með starfi sunddeildarinnar en hún tók til starfa síðastliðið haust eftir ansi langt hlé. Magnús Tryggvason er þjálfari liðsins og er hann að ná mjög góðum árangri með krakkana. Við erum eðli máls samkvæmt mjög ánægð með Magnús en hann hefur þjálfað okkar börn til fjölda ára, fyrst Laufeyju Sif og núna bæði Bjarna Rúnar og Albert Inga.
----------------------------------------------------

Lesið endilega nýjasta pistil "Þjóðhildar Halvorsen" !

29. apríl 2005

Heilbrigðismál, Stílistinn og "Ungir Sjálfstæðismenn"

Tók þátt í pallborðsumræðum á málþingi um heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi í dag. Því miður átti ég þess ekki kost að sitja allt málþingið vegna anna í vinnunni en náði þó að hlýða á nokkra fyrirlestra um þjónustu við aldraða. Voru þeir afar fróðlegir en meðal annars fór Helga Þorbergsdóttir yfir stofnanaþjónustu á Suðurlandi utan Árborgar. Hafsteinn Þorvaldsson fjallaði um málefnið frá sjónarhóli eldri borgara og Anna María Snorradóttir fór yfir þörfina fyrir hjúkrunarrými í Árborg. Það er sorglegt að sjá hve langt er í land með að anna þörfinni fyrir hjúkrunarrými í Árborg og að mínu mati er nokkuð ljóst að Ljósheimum verður ekki lokað á meðan þetta ástand varir þrátt fyrir nýja viðbyggingu við sjúkrahúsið.
Hér í Hveragerði búum við svo vel að hafa Dvalarheimilið Ás/Ásbyrgi, þar eru 26 hjúkrunarrými, 70 dvalarrými og 60 dagvistunarrými sem nýtt eru af Geðdeild Landsspítala. Nýja hjúkrunarheimilið gjörbreytti allri aðstöðu eldri borgara hér í bæ, en nú þarf að taka höndum saman um að koma viðbyggingu þar af stað því langur biðlisti er eftir plássi á hjúkrunarheimilinu.
------------------------------------

Strax eftir málþingið fór ég á opnun verslunarinnar Stílistans í Verslunarmiðstöðinni við Sunnumörk. Birna Björnsdóttir og Stefán Gunnarsson hafa opnað glæsilega tískuvöruverslun og var greinilegt að fólk kunni vel að meta þetta framtak hjónanna enda langt síðan verið hefur fataverslun í Hveragerði. Var boðið uppá skemmtilega tískusýningu þar sem heimamenn og konur fóru á kostum við sýningarstörfin.

-----------------------------------

Í kvöld hittust ungir Sjálfstæðismenná óformlegum spjallfundi. Mætingin var góð og mikill hugur í fólki. Ákveðið var að nota sumarið vel og undirbúa aðalfund í félaginu í haust og þarmeð að endurvekja félag ungra Sjálfstæðismanna í Hveragerði.
Á fundinn mættu góðir gestir frá Reykjanesbæ þeir Georg Brynjarsson og Viktor Kjartansson, sögðu þeir frá nýrri vefsíðu Sjálfstæðismanna þar í bæ og starfinu sem "Ungir" standa fyrir. Bjarni Einarsson formaður Hersis mætti einnig á fundinn semog Unnur Brá Konráðsdóttir sem stýrði umræðum af sinni alkunnu snilld.

28. apríl 2005

Fundahöld í dag

Á fundi bæjarráðs í morgun var samþykkt samhljóða tillaga mín um vinnutíma nemenda í vinnuskóla Hveragerðisbæjar. Var þar um að ræða umtalsverða lengingu á vinnutímabilum frá þeirri tillögu meirihlutans sem lá fyrir fundinum. Í þeirri tillögu var gert ráð fyrir vinnu 8. bekkjar í 3 vikur og allir hættir 29. júlí.

Vinnutími einstakra árganga verður sem hér segir.

8. bekkur vinni frá 27. júní - 29. júlí eða í 5 vikur
9. bekkur vinni frá 6. júní - 8. júlí eða í 5 vikur
10. bekkur vinni frá 6. júní - 12. ágúst eða í 10 vikur

Með þessu móti tel ég að komið sé til móts við óskir nemenda um lengri vinnutíma og ennfremur mætt þeirri þörf á umhirðu og snyrtingu bæjarins sem óhjákvæmilega fylgir hátíðum eins og Blómstrandi dögum sem ávallt er haldin um miðjan ágúst.
--------------------

Við Sjálfstæðismenn höfum ítrekað vakið athygli á því ófremdarástandi sem ríkir í umhverfismálum þar sem enginn starfsmaður bæjarins hefur þennan málaflokk á sinni könnu. Því lagði ég í morgun fram tillögu um að bæjarráð samþykkti að auglýsa stöðu garðyrkjumanns Hveragerðisbæjar og að slíkur aðili verði ráðinn til bæjarins nú þegar. Samkvæmt þeim tillögum sem liggja fyrir um fyrirkomulag umhverfismála er ljóst að fjölmörg nauðsynleg verkefni við umhirðu og snyrtingu bæjarins koma þar ekki fyrir. Því er auðvelt að draga þá ályktun að hirðuleysi og slóðaskapur síðasta sumars muni endurtaka sig í ár. Það er sérstakt að bæjarfélag sem ítrekað kallar sig Blómstrandi bæ skuli ekki vilja sinna þessum málum af meiri metnaði en nú er.
Meirihluti Samfylkingar og Framsóknar felldi þessa tillögu en lagði fram aðra þar sem samþykkt var að leita til ráðgjafa sem vinna á umhirðuáætlun fyrir bæinn sem vinnuskólinn og aðrir geta stuðst við í sumar. Örlítið skárra en ekki neitt, en alls ekki nóg að mínu mati.
---------------------------
Seinnipartinn var fundur í skólanefnd Fjölbrautaskóla Suðurlands. Heldur var þar fámennt því meirihluti nefndarmanna boðaði forföll á síðustu stundu. Við sem mætt vorum ræddum þó þau mál sem fyrir lágu og bar þar hæst málefni heimavistar, nýrrar "körfuknattleiks akademíu" og nemendagjöldin.
---------------------------
Mestur tími í dag hefur farið í að undirbúa spjallfund félags ungra Sjálfstæðismanna sem haldinn verður á Pizza á morgun kl. 20:30. Með fundinum er boðað upphaf starfs félags ungra í Hveragerði sem legið hefur niðri um nokkurt skeið.
Allir áhugasamir hvattir til að mæta ! ! !

27. apríl 2005

Umhverfisspjöll af öllu tagi!

Í morgun komu í heimsókn Selfyssingarnir, Guðmundur Kristinsson, frændi minn, og Árni Valdimarsson. Þeir hafa undanfarið barist ötullega gegn malarnámunni í Ingólfsfjalli og í morgun leituðu þeir ásjár Sigríðar Önnu Þórðardóttur, umhverfisráðherra. Færðu þeir henni innbundna bók með öllu því efni sem birst hefur um málefni námunnar og er ekki að efa að ráðherra verður miklu mun fróðari um málið að þeirri lesningu lokinni. Ég er þeirrar skoðunar að þrátt fyrir það útlitslýti sem malarnámið er á fjallinu þá verður ekkert að gert í málinu nema með aðkomu opinberra aðila sem yrðu að bæta eigendum þann eignamissi sem þeir verða fyrir yrði námunni lokað.

Hef reyndar vakið athygli þeirra félaga á öðru umhverfisslysi sem á sér stað í túnfæti okkar þessa dagana. Það eru framkvæmdir Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði. Þar virðist Orkuveitan hafa frjálsar hendur við hvaða framkvæmdir sem er. Vegaslóðar eru komnir þvers og kruss útum alla heiði, gríðarstór borstæði eru á mörgum stöðum og skyndilega eru komnir afleggjarar inná þjóðveg no. 1 á hinum undarlegustu stöðum, athugasemdalaust. Fornar þjóðleiðir eru þveraðar með girðingum og vegum og öllum finnst þetta í lagi!
Hvar eru allir umhverfissinnarnir sem fóru hamförum vegna Kárahnjúka? Er þeirra nánasta nágrenni ekki meira virði en svo að því má fórna fyrir brölt risans í vestri.
Hellisheiðin er útivistarparadís fyrir borgarbúa. Er náttúran meira virði og merkilegri eftir því sem lengra er frá höfuðborginni og færri geta og hafa notið? Tvískinnungurinn er algjör og ég hvet fólk til að leggja leið sína uppá Hellisheiði og sjá með eigin augum þær gríðarlegu framkvæmdir og umhverfisspjöll sem þar eiga sér stað.

Vortónleikar Söngsveitar Hveragerðis

Í gær fórum við mamma á vortónleika Söngsveitar Hveragerðis. Húsfyllir var í kirkjunni og mikil stemning. Sigfús Pétursson, einn Álftagerðisbræðra, söng einsöng og fór á kostum eins og við var að búast. Einnig kom fram sönghópurinn Breiðagerðisbræður sem samanstendur af 8 frændum/bræðrum sem syngja saman mest sér til skemmtunar. Þeir vorum mjög líflegir og skemmtilegir og efast ég ekki um að héðan í frá komast þeir ekki upp með að syngja bara í stofunni í Breiðagerðinu!
Söngsveitin með Margréti Stefánsdóttur, stjórnanda, í fararbroddi var þó í aðalhlutverkinu í kvöld og var greinilegt á viðtökum áheyrenda að kórinn er góður og lögin grípandi. Þau verða verðugir fulltrúar okkar Hvergerðinga í Kanada í sumar.

Einu verð ég að bæta við og það er að Breiðagerðisbræður sungu í kvöld lagið Ljósbrá eftir Eirík Bjarnason, frá Bóli. Hann bjó lengst af hér í Hveragerði og rak bæði Hótel og Nýja Ferðabíóið þó blindur væri. Þetta lag er svo gott að við, Hvergerðingar, ættum að nota það mun meira en gert er í dag. Við eigum auðvitað að gera Ljósbrá að okkar þjóðsöng svona eins og Undir bláhimni virkar fyrir Skagfirðinga!

Enduðum í afmæliskvöldkaffi - Til hamingju með daginn Svava!

26. apríl 2005

Interpack í Düsseldorf

Á fimmtudegi fór íslenski hópurinn heim en ég hélt áfram og nú til Düsseldorf.
Tók ég lestina á milli en hafði áður fundið allar hugsanlegar lestarsamgöngur á milli þessara staða á netinu. Mæli með heimasíðu þýsku járnbrautanna ef einhver skyldi vera að skipuleggja ferðalag um Þýskaland og nágrenni.
Í Düsseldorf tók Ute vinkona mín á móti mér, en hún og fjölskylda hennar voru svo vingjarnleg að lána mér húsið sitt á meðan ég var í Düsseldorf en þau fóru í ferðalag þessa helgi. Það var frábært að hitta hana aftur, við höfum verið vinkonur í tvo tugi ára, en við kynntumst á Inter Rail á sínum tíma.
Í Düsseldorf sótti ég sýninguna Interpack 2005 sem er stærsta umbúðasýning heims, haldin á 3 ára fresti. Eyddi ég næstu dögum í það að ræða við framleiðendur, hitta birgja og fá nýjar hugmyndir. Þetta er ofboðsleg sýning í 14 höllum sem hver um sig er ekkert smáræði. Ákvað ég strax að takmarka svæðið með því að skoða einungis umbúðir en framleiðendur þeirra voru í 4 höllum. Dugðu þessir tveir dagar nokkurn veginn til þess. Þetta er mjög gagnleg sýning og efast ég ekki um að eitthvað á eftir að koma út úr heimsókninni.
Næst er skynsamlegt að fara fleiri, skipta liði og skoða einnig vélar og tæki sem voru þarna í yfirgengilegu magni.
Þetta er líf mitt í hnotskurn, einn daginn sinnir maður pólitíkinni þann næsta á Kjörís hug manns allan.
Á sunnudeginum fór ég eldsnemma með lestinni frá Düsseldorf til Amsterdam og flaug þaðan heim seinnipartinn.

Sveitarstjórnarmenn í Brüssel

Kom heim síðastliðinn sunnudag eftir vikuferðalag til Brüssel og Düsseldorf.
Ferðin var skipulögð sem hópferð sveitarstjórnarmanna héðan frá Íslandi til að kynna sér málefni ESB og það hvernig sveitarfélög annarra landa haga þar hagsmunagæslu sinni.

Á sunnudegi var flogið til Amsterdam og síðan var farið í rútu til Brüssel þar sem formleg dagskrá hópsins hófst á mánudagsmorgni. Reyndar má segja að dagskráin hafi hafist strax á sunnudagskvöldinu en þá buðu Hermann Sæmundsson, fulltrúi í sendiráði Íslands í Brüssel, og eiginkona hans hópnum til samverustundar á heimili sínu.
Fyrsta heimsóknin á mánudagsmorgninum var í höfuðstöðvar EFTA þar sem við fengum kynningu á Evrópusambandinu og hlutverki helstu stofnana þess, framkvæmdastjórnarinnar, ráðherraráðsins og héraðanefndarinnar.
Einnig var farið yfir EES samninginn með okkur og hvaða þýðingu hann hefur fyrir íslenskt samfélag. Það var fróðlegt að heyra þá áherslu sem lögð er á hagsmunagæslu hvers konar og með ólíkindum sá mannafli sem leggur nótt sem nýtan dag við það að lesa öll þau ógrynni af lögum sem ESB setur árlega með það fyrir augum að hafa áhrif á lagasetninguna.

Í hádeginu var farið í heimsókn í sendiráð Íslands sem er í nýju og glæsilegu húsnæði. Þar tók sendiherrann Kjartan Jóhannsson á móti okkur og leiddi okkur um húsnæðið og kynnti okkur fyrir starfsfólki.

Eftir hádegi var farið yfir það hvernig sveitarfélög á hinum Norðurlöndunum gæta hagsmuna sinna í Brussel gagnvart tilskipunum, nýjum verkefnum, lagasetningum og öðru sem þarf að hafa áhrif á vegna sérstöðu þessara landa.
Frændur okkar á Norðurlöndunum telja nauðsynlegt að sveitarfélög séu með sérstakar skrifstofur í Brussel og hafa meira að segja einstök sveitarfélög séð hag sínum best borgið með sérstökum skrifstofum.

Um kvöldið var hópnum boðið til móttöku á heimili Kjartans Jóhannssonar sendiherra Íslands í Brussel og eiginkonu hans. Voru móttökur þar höfðinglegar og umgjörðin öll hin glæsilegasta.

Á þriðjudeginum kynntumst við starfsemi Evrópusamtaka sveitarfélaga (CEMR). Við heimsóttum framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, kynntumst Interreg áætluninni og því hvernig byggðastefnan mun líklega þróast næstu árin. Svo kíktum við í heimsókn til Héraðanefndarinnar (Committee of Regions). Þar var gríðarleg öryggisgæsla og greinilegt að engum óviðkomandi var ætlaður aðgangur þar.

Miðvikudagur var síðasti dagur heimsóknar sveitarstjórnarmanna til Brussel. Þá var farið yfir starfsemi EFTA. Fulltrúar norskra sveitarfélaga voru á hluta af fundunum með okkur í dag. Við fengum upplýsingar um hvernig ráðgjafanefndir EFTA vinna í samstarfi við Evrópuþingið, efnhags- og félagsmálanefnd ESB og hvernig Héraðanefndin starfar með sveitarfélagasamböndum innan EFTA.

Það sem stendur uppúr eftir ferð sem þessa er sú gríðarlega starfsemi sem fer fram í tengslum við ESB. Mannhafið sem vinnur þarna við lagasetningu og hagsmunagæslu er meira en maður gat nokkurn tíma ímyndað sér. Það er auðvitað ekki skrýtið þó spurt sé hvort þörf sé á þessum ósköpum öllum. Aftur á móti verður sú staðreynd áleitin að íslensk sveitarfélög hafa enga fulltrúa sem sinna hagsmunagæslu fyrir þau. Það hlýtur að vera nauðsynlegt að við sinnum þessum málum með betri hætti heldur en verið hefur. Hvort það skuli gert með staðsetningu fulltrúa í Brüssel eða með því að ráða aðila til þessara verka hér heima er aftur á móti umdeilanlegra. Það er dýrt að hafa starfsmenn búandi erlendis, við getum ekki horft framhjá þeirri staðreynd. Síðan er tæknin orðin með þeim hætti að jafngott getur verið að vera staðsettur heima á gamla Fróni og lesa lögin á tölvuskjánum og skreppa síðan til höfuðstöðvanna þegar mikið liggur við. Þá munu reyndar aðrir segja að við það fyrirkomulag tapist það sem mestu máli skiptir og það eru hin persónulegu samskipti sem greinilegt er að hafa gríðarlega mikið að segja í starfi sem þessu.

-----------------------------------------------

Bláhver, blað okkar Sjálfstæðismanna í Hveragerði, kom út í tilefni af sumardeginum fyrsta. Ég skrifaði leiðara blaðsins í þetta skipti og birtist hann hér fyrir neðan:

Þegar sumarið hefur opinberlega hafið innreið sína þá verðum við að trúa því að nú fari að hlýna og virkilegt vorveður taki nú völdin. Það er ekki einungis koma farfuglanna sem markar upphaf vorsins það gera ekki síður léttklædd börn sem njóta þess að geta loksins fleygt af sér þungum úlpum og húfum og hlaupið um utandyra eftir langan vetur.
Við garðeigendur horfum yfir lóðir okkar og sjáum verkefnin hrannast upp. Það þarf að hreinsa beð, klippa tré og snyrta limgerðið, huga að girðingunum setja niður sumarblóm og lauka, flytja plöntur, bera á og fleira og fleira. Listinn er ótæmandi en verkefnin heillandi og tilhugsunin um afraksturinn dregur mann áfram.

Það blundar þó í mér örlítill ótti. Ótti við það að annað umhverfi bæjarins verði ekki í takt við metnað okkar bæjarbúa. Við Hvergerðingar köllum bæinn okkar blómabæ og blómstrandi bæ á hátíðarstundum en nú rennur upp annað sumarið þar sem enginn starfsmaður hefur það að sínu aðalstarfi að sjá um umhverfi, opin svæði og garða Hveragerðisbæjar. Við Sjálfstæðismenn höfum lagt fram tillögur um það að ráðinn verði garðyrkjumaður til bæjarins en þær tillögur hafa ekki fengið hljómgrunn. Þetta þykir okkur mjög miður. Við viljum ítreka þennan vilja okkar og munum vonandi í fyllingu tímans geta staðið að ráðningu slíks starfsmanns.

Á því er engin launung að allt umhverfi bæjarins hefur mikið að segja varðandi það hversu heillandi hann er til búsetu. Og Hveragerðisbær er heillandi. Hér er mikil gróska. Mikið er byggt og íbúum fjölgar stöðugt. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar eru íbúar Hveragerðisbæjar nú 2.033, þannig að ljóst er að fjölgun íbúa heldur áfram. Þróun íbúðaverðs og lóðamál á höfuborgarsvæðinu gefa ekki tilefni til að ætla annað en að fólk muni áfram sjá góðan kost fólginn í því að setjast að í Hveragerði.

Við Sjálfstæðismenn viljum byggja hér upp fjölskylduvænt samfélag í fallegu umhverfi sem er klár valkostur þeirra sem vilja búa fjarri skarkala höfuðborgarsvæðisins en samt svo nærri að kostir þess nýtast í daglegu lífi.

Gleðilegt sumar!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet