<$BlogRSDUrl$>

26. ágúst 2010

Undanfarna daga hefur verið nóg um að vera. Fjölmiðlar virðast hafa tekið sérstöku ástfóstri við Hveragerði og hver fréttin rekur aðra. Sumar jákvæðar eins og fréttin um að Hvergerðingar hafi aldrei verið fleiri en nú og fréttin um grænmetismarkaðinn hans Hjartar Ben. Athyglisverð var umræðan um rekstur einkahitaveitu í bæjarfélaginu en það verður spennandi að sjá hvernig það mál þróast. Furðuleg var aftur á móti fréttin um arseneitrun í neysluvatni Hvergerðinga sem birtist á Stöð2 í kvöld. Enginn fótur er fyrir þessum fréttaflutningi enda sendi framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá sér tilkynningu þar sem eftirfarandi kom fram: Heilbrigðiseftirlit Suðurlands vill koma á framfæri leiðréttingu á fréttum vegna meintar arsenmengunar í neysluvatni Friðarstaða. Bæði á Vísi og í kvöldfréttum Stöðvar 2 er tekið fram að arsen hafi mælst á Friðarstöðum. Það er ekki rétt. Allar mælingar gerðar á arseni úr vatnsveitu Hveragerðis hafa verið á einn veg - arsen hefur ekki mælst. Þetta er mikilvæg staðreynd sem þarfnast leiðréttingar.


Í dag var fundur í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á borði stjórnar eru mörg stór mal eins og yfirfærsla málefna fatlaðra, breyting á regluverki Jöfnunarsjóðs og fleira. Fyrir dyrum stendur Landsþing Sambandsins sem haldið er á fjögurra ára fresti. Þar verða mörg mál tekin til umræðu og krufin í umræðuhópum.

Í gærmorgun fórum við Guðmundur, skipulags- og byggingafulltrúi, í ökuferð um bæinn að skoða umhverfið og það sem betur má fara. Bærinn er afar fallegur og á flestum stöðum snyrtilegur en þó eru nokkrir staðir þar sem virkilega þarf að taka til hendinni. Þeir sem eiga þannig lóðir og hús munu fá bréf frá bænum með hvatningu til úrbóta. Við sáum auðvitað líka lóðir og opin svæði sem tilheyra bæjarfélaginu þar sem þarf að gera betur. Það var líka skrifað skilmerkilega niður með það fyrir augum að úr verði bætt.

Nú er búið að merkja gangbrautir á þremur stöðum yfir Þelamörk ofan Breiðumerkur. Einnig er búið að loka Bláskógunum við Þelamörk, það horn var afar blint og hættulegt enda mikill gróður á þessum stað. Nú verða ökumenn að finna aðra leið í stað þessarar. Nokkrar hraðahindranir eru komnar í hús og verða þær skrúfaðar niður í malbikið á völdum stöðum á næstunni. Það er hálf fúlt að verða að standa í svona framkvæmdum þar sem lang einfaldast væri auðvitað að allir færu eftir þeim hámarkshraða sem í gildi er. En á meðan að slíkt gerist ekki verður að reyna að tjónka við hraðann með öllum tiltækum ráðum og það munum við gera.

23. ágúst 2010

Stutt blogg í kvöld...
Það gengur ekki að það taki hálfan daginn að lesa blogg helgarinnar :-)

En Grunnskólinn hófst í dag og fer vel af stað. Í tilkynningu frá skólanum kom fram að í vetur verður gangbrautarvarsla frá kl. 7:45-8:05 á Breiðumörkinni á móts við Blómaborg. Einnig verður framreiddur hafragrautur nemendum að kostnaðarlausu frá kl. 7:50-8:05. Hitti Guðjón skólastjóra og Ernu staðgengil hans í dag og fórum við enn og aftur yfir mál er varða nemendur með sérþarfir. Það er mikil aukning víðast hvar á landinu í þeim málaflokki. Fundur með Lionsmönnum í dag vegna skiltamála en félagið hefur mikinn áhuga á að koma upp götukorti og upplýsingaskilti ásamt heimasíðu fyrir þjónustuaðila og fyrirtæki í Hveragerði. Vonandi getum við ýtt þessu verkefni áfram á næstunni. Meirihlutafundur í kvöld þar sem við fórum yfir ýmis mál meðal annars SASS fund sem fyrirhugað er að halda í september.

Í dag fékk ég heimsókn af ljósmyndara, Önnu Maríu Sigurjónsdóttur, sem er að vinna að ljósmyndasýningu um konur en hugmyndin er að vekja með þessu verkefni athygli á launamun kynjanna sem því miður er enn við lýði. Það sýnir best umræða undanfarinna vikna. Sýningin verður opnuð á kvennafrídaginn í Hugmyndahúsi háskólanna. Ég er þar fulltrúi kvenkyns bæjarstjóra. Það verður gaman að sjá afrakstur dagsins en við keyrðum um bæinn og leituðum að ákjósanlegum bakgrunni áður en bananahúsið og hver urðu fyrir valinu. Reyndar í Ölfusinu en það er bita munur en ekki fjár :-D
Vona samt að hún velji einhverja aðra mynd en þessa hér:


22. ágúst 2010

Blómstrandi dögum 2010 er lokið.

Brekkusöngur undir stjórn Jarls Sigurgeirssonar var stórkostlegur. Í Lystigarðinum var logn enda í miklu og góðu skjóli. Ég er enginn sérfræðingur í talningu mannfjölda en allavega var svæðið alveg pakkað af fólki, brekkan troðfull og staðið þétt á flötinni og á göngustígunum. Flugeldasýningin var óvenju löng og ég var hreinlega alveg hætt að skilja í magninu af flugeldum sem var skotið á loft. Drunurnar voru ógurlegar enda hafði ég á tilfinningunni að nú hafi verið skotið upp öllum risa bombunum í búðinni! Frétti að kúpull af ljósi hefði hrunið niður í nærliggjandi húsi vegna þess að jörðin nötraði út af bombunum :-) Mér fannst það mjög trúlegt!

Hundruðir skemmtu sér síðan á ballinu á Örkinni þar sem Ingó og Veðurguðirnir sáu um stuðið. Guðrún Birna Gísladóttir var kjörin Blómadrottning 2010 og bætist hún nú í þann góða flokk sem hlotið hefur þann titil. Einhver sniðugur ætti nú endilega að finna allar fyrrverandi blómadrottningar til að hægt sé að halda þessum útnefningum til haga. Það væri gaman af því...






Í dag sunnudag var ýmislegt á dagskrá og margt um að vera. Fjölskylduskemmtun sem vera átti í Lystigarðinum var flutt inn í hlýjuna í Eden og var það afar vel til fundið. Viðstöddum hefði orðið ansi kalt í nepjunni og atriðin engan veginn notið sín sem skyldi. Það var líka alveg yndislegt inní Eden í dag. Skemmtunin tókst afar vel, Ingó nýtur fádæma hylli allra kynslóða og brást ekki bogalistin í dag frekar en fyrri daginn. Skemmtilegur töframaður kom á svæðið, Tríóið Tímamót sem er skipað þeim Berglindi, Sædísi og Dagnýju Lísu spilaði nokkur lög. Skuggabandið sló í gegn með Shadows lög en í því eru tvennir feðgar, Hörður og Palli Sveins ásamt sonum. Leikarar úr Emil í Kattholti fóru á kostum og rapparinn Alex var ótrúlega góður. Síðan voru veittar viðurkenningar fyrir litaleikinn, dregið í sumarlestrinum og ratleikum sem staðið hefur yfir núna um helgina. Maður fyllist svo miklu stolti við það að sjá hversu margt hæfileikafólk býr hér í Hveragerði. Þetta er alveg með ólíkindum og unga fólkið okkar er hreinast snilld. Hugmyndaríkt, hæfileikaríkt og duglegt svo eftir er tekið. Við það að vera inní Eden varð allt svo miklu afslappaðra og þægilegra svo þetta var virkilega góð breyting úr því að veðrið var svona kuldalegt.

Tónleikar Magnúsar Þórs Sigmundssonar mörkuðu endi Blómstrandi daga í ár. Þeir voru einnig fluttir í Eden enda afar viðeigandi þar sem flutt voru m.a. lög við texta Braga sjálfs. Með Magnúsi Þór voru þau Jón Ólafs, Páll Rósinkrans og Þórunn Antónía. Í stuttu máli voru tónleikarnir alveg frábærir. Einlægir og góðir. Lögin falleg og umgjörðin öll afar viðeigandi. Það var sérstök tilfinning þegar sólargeislarnir brutust í gegnum glerþakið undir síðustu línu texta Braga í Eden, Fiðlunnar fíngerði strengur, sem endar á umfjöllun um sólina. Viðstöddum fannst flestum þetta afar táknrænt.

Jóhanna M. Hjartardóttir á heiður skilinn fyrir frábært skipulag og góða dagskrá. Nenni og srákarnir í áhaldahúsinu líka fyrir ómælda vinnu og dugnað og einnig Halli og krakkarnir í Vinnuskólanum. Besta hrósið sem hægt er að fá kom frá eldri konu sem hvíslaði að mér á leiðinni út úr Eden í dag: "veistu það Aldís, ég held svei mér að þetta séu bestu Blómstrandi dagarnir til þessa".

...og tugir nýrra mynda frá Blómstrandi dögum eru á facebook síðunni!

21. ágúst 2010

Dagurinn í dag laugardagur er afskaplega vel heppnaður það sem af er. Mikill mannfjöldi í bænum og allt gekk afskaplega vel. Kjörís fólkið segir þetta fjölmennasta ísdaginn til þessa enda troðfylltist planið og þau eru strax farin að skipuleggja hvernig taka eigi við enn meiri mannfjölda næsta ár. Sýning eldri borgara og handverksmarkaðurinn í grunnskólanum verða opin á morgun en í dag kom fjöldi fólks á þessa tvo staði. Hjálparsveitin sló algjörlega í gegn með mergjaðri afmælissýningu. Að sjá bílalestina þegar mikill fjöldi farartækja í eigu hjálparsveita í Árnessýslu, brunabílar, slökkvibílar, sjúkrabílar og meira að segja björgunarbátar keyrðu niður Breiðumörkina og Austurmörkina og tóku svo á móti þyrlu landhelgisgæslunnar með frábærum hætti var stórkostlegt. Þvílíkt skipulag frábæra fólk :-)
Tvennir flottir tónleikar í Eden og Mikki refur að afgreiða á grænsmetismarkaðnum. Núna er matarhlé hjá mannskapnum áður en bæjarbúar og gestir flykkjast í Lystigarðinn til að upplifa brekkusöng og flugeldasýningu. Þetta er SVO skemmtilegt :-)

... og hér er meira að segja búið að fjárfesta í miða á ballið á eftir rétt eins og um 500 aðrir Hvergerðingar. Má ég kannski minna á að hér búa einungis 2300 manns þannig að rétt tæplega 1/4 bæjarbúa er að mæta á ballið á Örkinni !

Á morgun gefst gott tækifæri til að rölta á milli sýninga og veitingastaða. Fjölskylduskemmtun í Lystigarðinum kl. 14 og frábærir tónleikar með Magnúsi Þór, Páli Rósinkrans og Jóni Ólafs í Listasafninu kl. 17.

Hér er gleðin alls ráðandi !

Um 70 myndir eru komnar inná Facebook síðuna mína ef áhugasamir vilja skoða.

20. ágúst 2010

Hingað kom tölvusnillingur einn mikill í morgun og fórum við saman uppí Grunnskóla þar sem hann ætlar að kanna ástand tölvukerfisins og tölvubúnaðar skólans. Líklegt er að breyta þurfi fyrirkomulagi tölvukennslu til að leysa þá vöntun sem er á kennslustofum fyrir bekki.

Í hádeginu var fundur á Selfossi í stjórn Sorpstöðvar Suðurlands. Fórum yfir fjárhagsáætlun 2011 en ljóst er að hækka þarf gjaldskrá á næstunni þar sem Sorpa hefur þegar hækkað sín móttökugjöld. Annars var farið vítt og breytt yfir hin ýmsu mál, en meðhöndlun sorps er að verða mjög viðamikill málaflokkur og þvi mikilvægt að farið sé vel yfir allar hliðar mála sem upp kunna að koma.

Ræddi lengi við Ingva Snæ lögmann bæjarins vegna máls sem er í gangi vegna álagningar gatnagerðargjalda í Klettahlíð. Við stefnum á að setja minnisblað um málið fyrir næsta fund bæjarráðs.



Mikill fjöldi ferðamanna leggur árlega leið sína á hverasvæðið í miðbænum og því var það löngu tímabært að gert yrði söguskilti um hverina og hvernig þeir hafa haft áhrif á daglegt líf hér í bæ. Það er löngu tímabært að fólk geri sér almennilega grein fyrir sérstöðu hverasvæðisins hér í Hveragerði. Það er einfaldlega enginn bær í heimi sem hefur byggst upp með sama hætti og Hveragerði, í kringum virkt háhitasvæði. Hélt að það væri svipað fyrirbæri til á Nýja Sjálandi en eftir leit á netinu sýnist mér að bærinn sem um ræðir hafa byggst upp við hliðina á öflugu hverasvæði en ekki í kringum það. Skiltið um hverasvæðið var afhjúpað í dag á torginu í miðbænum. Það gerði Aðalsteinn Steindórsson sem er að við teljum elsti núlifandi Hvergerðingurinn en hann hefur búið hér í 80 ár. Aðalsteinn og fjölskylda voru með allra fyrstu íbúunum en hann er alinn upp í Ásum, húsi við Drullusund.



Guðmundur Erlingsson, leikari með meiru, opnaði ljósmyndasýningu í bókasafninu síðdegis en þar sýnir hann fjölda ljósmynda bæði á vegg og skjá. Mjög skemmtileg sýning sem enginn ætti að missa af. A myndunum hér til hliðar má sjá myndasmiðinn og nokkra gesti við opnunina.

Jónas Sigurðsson og ritvélar framtíðarinnar héldu hreint stórkostlega tónleika í kirkjunni í gærkvöldi. Mögnuð tónlist og flottur flutningur góðra listamanna. Fjölmargir gestir skemmtu sér afar vel og hefðu getað setið lengi enn þegar tónleikunum lauk. Jónas á eitt vinsælasta lag landsins í dag "Hamingjan er hér" en á tónleikunum flutti hann bæði gömul og ný lög.

Eftir tónleikana fórum við Lárus í Bezta tjaldið í Lystigarðinum en þar var boðið uppá flotta dagskrá fram eftir nóttu. Árni Johnsen söng með gestum af sinni alkunnu snilld og vakti mikla lukku. Trúbadúrinn Svavar Knútur fór hreinlega á kostum og sýndi stórkostlega takta bæði í leik og söng. Síðan kom listamaðurinn Toggi sem var nú stærsta upplifun mín þetta kvöld. Ég er nú ekki betur inní hlutunum að ég vissi nú ekki einu sinni að hann væri til :-) En hann hefur samið fjölda þekktra laga en frægast er "Þú komst við hjartað í mér" sem bæði Páll Óskar og Hjaltalín hafa gert ódauðleg. Stemningin í tjaldinu í Lystigarðinum var frábær og ég hefði ekki viljað missa af þessu fyrir nokkurn mun. Hugmyndin að þessari uppákomu kviknaði á mánudaginn síðasta og nokkrir strákar héðan komu upp tjaldinu og höfðu samband við listamennina sem komu fram ókeypis. Við getum verið ótrúlega stolt af þessum strákum sem höfðu frumkvæði og dugnaði til að framkvæma með svona flottum hætti. Þið eigið heiður skilinn og vonandi verður þetta endurtekið að ári.

Eftir Lystigarðinn fórum við niður í Eden þar sem í boði var ókeypis dansleikur með Feðgunum. Fullt af fólki og mikið fjör. Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem í Eden undir þessum formerkjum en það er ljóst eftir gærkvöldið að Eden hefur alla burði til að verða flottasti dansstaður sunnan heiða:-)

Var ekki með myndavélina í gærkvöldi en vonandi sendir hún Sara mér myndir úr Lystigarðinum ;-)
Bjössi á Bláfelli er líka búinn að taka fullt af myndum og þær er hægt að sjá á síðunni hans. Linkurinn er hér til vinstri.... Þar er líka hægt að skoða fullt af myndum af húsum og görðum þar sem fólk hefur misst sig í Litaleiknum. Verð nú að setja að Morten og Kolla eru einna ótrúlegust! Hvað á það að þýða að spraya grasið á lóðinn rautt :-D
-------------------
... og ritgerðin hennar Ingu Lóu heitir

,,...heimsins bezti staður“
Skáldabærinn Hveragerði


Ætli ég geti klúðrað málum meira varðandi þetta :-D

19. ágúst 2010

Er búin að laga færslu gærdagsins sem eitthvað hafði skolast til í meðförum.

En dagurinn í dag var ansi öflugur. Bæjarráðs fundur í morgun þar sem fjöldi mála var tekinn til afgreiðslu. Samþykkt var að fara í gatnagerð í Heiðmörk en þar er fráveitulögnin svo léleg að hún er einfaldlega horfin. Á stórum hluta er semsagt ekkert rör heldur hangir jarðvegurinn saman á lyginni einni og ekki þarf mikið að gerast til að þetta hrynji allt. Engin aðgreining er heldur á rigningarvatni og fráveitu og það veldur því að álag á fráveitukerfið er alltof mikið og því getur flætt uppúr niðurföllum, sérstaklega ef mikið rignir eins og gerðist um daginn. Við slíkt ástand verður ekki unað og ekki síst þess vegna er ákveðið að ráðast í þessa gatnagerð nú. Bæjarráð samþykkti umfangsmiklar hraðalækkandi aðgerðir sem vonandi verða til þess að umhverfi þeirra sem gangandi eru verður hættuminna. Fyrsti áfangi að byggingu gervigrasvallar var samþykktur og harðorð ályktun vegna katta og þá sérstaklega villikatta. Margt fleira var samþykkt enda dagskrárliðirnir margir. Góður fundur sem þær sátu Ninna og Jóhanna Ýr auk Guðmundar Þórs. Eftir fundinn fór ég yfir málefni Grunnskólans með Guðjóni en skipuleggja þarf fyrsta fund nýrrar fræðslunefndar. Samkvæmt samþykktum bæjarins ber bæjarstjóra að boða þann fund og það verður gert á allra næstu dögum. Í hádeginu var fundur í kjörnefnd SASS en nú styttist óðum í aðalfund samtakanna. Síðdegis setti ég blómstrandi daga um leið og ljósmyndasýning ljósmyndaklúbbsins Bliks var opnuð á Hótel Örk. Mikill fjöldi skemmtilegra mynda sem teknar voru á Blóm í bæ eru þar til sýnis og fyllsta ástæða til að hvetja alla til að skoða þær.

Gönguhópurinn gekk sem leið lá yfir Hamarinn og upp nýja reiðstíginn við Kamba og þaðan niður byggðina og aftur uppí Laugaskarð. Hörkufín ganga og margar og langar brekkur :-)

Í kvöld skreyttum við Lárus garðinn vegna Blómstrandi daga. Blátt og appelsínugult er málið í okkar hverfi. Veðrið var svo yndislegt að það var hreinlega ekki hægt að vera inni. Skruppum á rúntinn og skoðuðum skreytingarnar sem margar hverjar eru mjög flottar og kíktum líka í Bezta tjaldið en þar voru trúbadúrar að spila og mikil stemning. Annað kvöld kl. 22 mætir síðan Árni Johnsen með gítarinn í Bezta tjaldið svo þá er nú um að gera að fjölmenna.

18. ágúst 2010

Hitti Snorra Baldursson, slökkviliðsstjóra, og fór yfir málefni slökkviliðs eldsnemma í dag. Að því loknu var fundur með deildarstjórum Grunnskólans og skólastjóra þar sem farið var yfir upphaf skólastarfs. Nemendum grunnskólans hefur fjölgað um 10 frá því í fyrra en innritun stendur enn yfir þannig að enn gæti fjölgað. Mikið fjölgar í sömu árgönguum þannig að nú er svo komið að í stærsta árganginum (9. bekk) eru 52 nemendur sem er ansi mikið í tvískiptum bekk. Fórum yfir leiðir til lausna á stofu vanda þar sem ljóst er að tvískipta þarf öllum bekkjum grunnskólans. Vona að farsæl lending hafi náðst í það mál. Heimsótti síðan stelpurnar í frístundaskólanum en þær eru að laga til og snurfusa í nýju húsnæði. Reyndar ekki nýju heldur "gömlu" húsnæði en nýju fyrir frístundaskólann. Nú verður hann ekki lengur í Mjólkurbúinu heldur í gömlu myndmenntastofunni en í staðinn hefur frístundaskólinn það húsnæði alveg fyrir sig.

Kíkti líka við í íþróttahúsinu þar sem verið er að undirbúa upphaf skólastarfs. Það er alltaf skemmtilegt að finna eftirvæntinguna sem liggur í loftinu á þessum árstíma. Sumarið á enda og ný árstíð að taka við. Haustið og starf vetrarins og allt fellur einhvern veginn í fastar skorður.

Myndin sem ég birti í gær hefur vakið athygli. Ég fékk strax nokkrar athugasemdir vegna ársins sem ég taldi myndina tekna á. Þessi skilaboð fékk ég frá Nirði Sigurðssyni, sagnfræðingi. Sendi þér þetta til fróðleiks. Samkvæmt mínum heimildum er myndin sem þú birtir á vef þínum tekin sumarið 1946, sama ár og Hveragerði varð sérstakur hreppur. Fremsta húsið á myndinni er Dynskógar 18 og er greinilega í byggingu en skv. fasteignamati er það byggt 1948. Það er líka gaman að sjá bílförin í sandinum undir Hamrinum, á Sandskeiði, en það merkilega náttúrufyrirbrigði er nú nánast horfið vegna uppfyllingar. Þegar maður var krakki fann maður þar skeljabrot í sandinum innan um sjósorfið grjót. Inga Lóa minnti mig líka á það að þessa sömu mynd hefði hún notað á forsíðu BA ritgerðar sinnar sem bar hið hógværa nafn "Hveragerði er heimsins besti staður". Hún var sömu skoðunar og Njörður að myndin væri tekin 1946. Þetta leiðréttist hér með.

Blómstrandi dagar verða formlega settir á morgun þegar ljósmyndasýning Bliks ljósmyndaklúbbs opnar kl. 17 á Hótel Örk. Svo er það hörku dagskrá alla helgina.

Ekki missa heldur af Kastljósinu þar sem Jónas "sólstrandargæji" mun flytja nýja lagið sitt sem trónir nú á toppi vinsældalista Rásar 2. Hann heldur tónleika hér í kirkjunni á föstudagskvöldið kl. 20. Ekki missa af þessu !

17. ágúst 2010

Dagurinn byrjaði með skoðunarferð með Guðmundi, skipulags- og byggingafulltrúa. Keyrðum götur bæjarins og fóru yfir tillögur sem komnar eru fram um uppsetningu hraðahindrana og merkingu gangbrauta. Hraðaakstur er of mikill í bænum þrátt fyrir að á flestum götum sé 30 km hámarkshraði. Nú þegar skólabörnin flykkjast út á götur bæjarins er mikilvægt að umferðin sé eins örugg og kostur er. Því verður minnisblað með tillögum að hraðahindrunum í Finnmörk og Þelamörk lagt fyrir næsta fund. Einnig er þar gert ráð fyrir gangbrautarmerkingum og öðrum aðgerðum. Á ekki von á öðru að þessar tillögur verði samþykktar.

Bærinn lítur afskaplega vel út og svo til allir ganga afar vel um. Því er það leiðinlegt að á leiðinni rákum við augun í furðulegan sóðaskap sem er hreinlega óþolandi. Handónýtir bílar eru víða á áberandi stöðum í bænum, engum til gleði en öllum til ama. Það eru ekki verðmæti í þessum hræjum, það held ég að ætti að vera flestum ljóst.

Dagurinn fór að mestu í undirbúning fyrir bæjarráðsfundinn næsta fimmtudag. Mjög mörg mál eru á dagskrá fundarins, stór og stefnumarkandi til framtíðar fyrir íbúa bæjarins. Þar ber, í margra augum, hæst tillaga um að hafist verði handa við jarðvegsframkvæmdir fyrir gervigrasvöll við Grýluvöll inní Dal. Langþráð framkvæmd sem er þá komin af stað þó ekki sé stefnt að endanlegum frágangi vallarins fyrr en næsta ár.

Þar sem bæjarbúar og aðrir eiga afar greiðan aðgang að bæjarstjóranum þá er oft mikill erill og margir sem koma í heimsókn. Sú var einnig raunin í dag. Þetta finnst mér gott fyrirkomulag en óneitanlega lengist vinnudagurinn í annan endann enda oft lang besti friðurinn til ýmissa verka eftir kl. 16 á daginn.

Ég reyni þó eftir fremsta megni að mæta í gönguhópinn sem hittist við sundlaugina Laugaskarði kl. 18:15 á þriðjudögum og fimmtudögum. Við löbbum annað hvort með Lísu eða Pétri í klukkutíma. Í dag var farið meðfram Reykjafjalli og niður nýja reiðstíginn á Sólborgarsvæðinu og þar meðfram byggðinni inní Hveragerði og aftur uppí sundlaug. Þetta eru nákvæmlega 6 kílómetrar, fínn göngutúr með góðum brekkum. Enn betri brekkur er samt hægt að finna ef maður fer í hina áttina og yfir Hamarinn þá brennir maður helling af kaloríum, sem er gott :-)

Þessa fínu mynd fann ég á heimasíðu Sæmundar Bjarnasonar sem ólst upp á Bláfelli hér í Hveragerði. Þarna sést vel hvernig Hveragerði leit út í árdaga byggðar. Húsin næst á myndinni hugsa ég að séu í dag við Dynskógana. Þarna má sjá Steingerði og Eldborgina, Kaupfélagið, Brekku, Hverabakka, Árnýjarhús og fleiri merkar og þekktar byggingar. Verst að vita ekki nákvæmlega hvenær myndin er tekin en ég myndi nú samt giska á að það væri milli 1950 og 1960. Það er ekki síður gaman að sjá hversu mikil gróska er í skógræktinni undir Hamrinum en í þá daga var sandurinn alls ráðandi á þessu svæði.

16. ágúst 2010

Langur dagur sem endaði á meirihlutafundi sem lauk ekki fyrr en seint í kvöld. Vegna nýs átaks sem felst í því að fara snemma að sofa verður ekki bloggað fyrr en á morgun :-)

14. ágúst 2010

Grunnskólinn hefur starf þetta haustið eftir rétt rúma viku. Þá mun umferð gangangdi og hjólandi aukast til mikilla muna og því höfum við Guðmundur Baldursson, skipulags og byggingafulltrúi, skoðað ýmsa möguleika sem minnkað gætu umferðarhraða innanbæjar og aukið öryggi vegfarenda. Hellulagðar og upphækkaðar hraðahindranir eru afar kostnaðarsamar en aðrar leiðir eru færar sem ekki kosta jafn mikið. Á fundi meirihlutans næsta mánudag munum við fara yfir tillögur að aðgerðum sem hægt yrði að ráðast í mjög fljótlega. Undir öllum kringumstæðum er brýnt að reyna með öllum tiltækum ráðum að tryggja öryggi vegfarenda. Það er auðvitað best gert ef allir færu eftir umferðarreglunum. Það virðist vera þrautin þyngri og alveg finnst mér það með ólíkindum að fá símtöl frá íbúum sem búa við lokaða botnlanga þar sem eingöngu eru íbúðarhús en þar virðast einhverjir geysast um á ofsahraða...

Nemendum sem þurfa á sérstökum úrræðum að halda bæði í leik- og grunnskóla hefur fjölgað nokkuð að undanförnu. Í dag átti ég góða fundi bæði fyrir og eftir hádegi vegna þeirra mála. Eftir hádegi var kynningarfundur fyrir sveitarstjórnarfólk á Suðurlandi um stöðu yfirfærslu á málefnum fatlaðra. Hreinskiptinn og góður fundur sem endaði á ákvörðun um skipan þjónusturáðs til bráðabirgða þar til samningur um þjónustusvæðið og fyrirkomulag þjónustunnar hefur verið samþykktur af sveitarfélögunum.

Heyrði í aðila sem hyggur á rekstur fyrirtækis hér. Leit stendur yfir að heppilegu húsnæði en það er þrautin þyngri þar sem slíkt liggur nú ekki á lausu.

Við Lárus skruppum í bæinn síðdegis en þar voru Hafsteinn og Helga Bjarnadóttir Haraldssonar að opna nýjan veitingastað, Grillhúsið, í gamla Sprengisandi.
Held að ég hafi færst heldur nær hjartaáfalli eftir kræsingarnar sem þar voru á boðstólum en ég hef aldrei áður smakkað djúpsteikta ostaköku og djúpsteikta skúffuköku, og ég sem borða ekki kolvetni :-) Ferlega gott en mig grunar að þetta sé því miður ekki á matseðlinum....

Þar sem við erum nú gamla settið barnlaus í hálfgerðu reiðileysi þá skruppum við líka í bíó og dáðumst mjög að töktum Cameron Diaz og Tom Cruise í Knight and day.
Góð skemmtun þar á ferð...
Bjarni Rúnar og félagar eru núna staddir á Spáni og skemmta þeir sér vafalaust konunglega. Albert Ingi er enn búðarmaður í Verslun Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki og líkar það vel. Er greinilega búinn að umgangast mikið af spekingum í sumar miðað við orðfærið sem hann hefur tamið sér. Þeir eru nú heldur ekki af verri endanum góðborgararnir sem hittast alltaf í búðinni á morgnana og kryfja landsins gagn og nauðsynjar. Þetta er mikil upplifun fyrir ungan mann. Myndirnar tókum við um verslunarmannahelgina í búðinni.

Varð síðan að deila með ykkur þessari líflegu mynd af feðgunum á Reykjarhólnum fyrir ofan Varmahlíð.

12. ágúst 2010

Dagskráin fyrir Blómstrandi daga fór í prentun í dag, 16 blaðsíður, efnismikil og flott. Jóhanna, menningar- og frístundafulltrúi, hefur undirbúið glæsilega bæjarhátíð, dagskráin er metnaðarfull og eiginlega alltof margt um að vera. Það verða allavega heilmikil hlaup á milli staða til að ná að sjá og skoða allt sem er í boði. En það er nú bara gaman að því. Dagskráin fer í hús í byrjun næstu viku. Í gær var fréttabréf Hveragerðisbæjar borið út. Lítið og snaggaralegt, fjórar síður, vona að íbúm finnist fróðlegt að að lesa það sem þar kemur fram. Þyrftum reyndar að koma þessu út oftar en inná milli dreifum við A4 blaði með fréttapunktum frá bæjarfélaginu. Það er í sífellu unnið að bættri upplýsingagjöf en þungamiðjan í þeirri vinnu er auðvitað heimasíðan. Hún á auðvitað að vera upphafssíða allra Hvergerðinga, já og aldis.is auðvitað :-)

Vann í gærkvöldi og í morgun að enskum þýðingum fyrir söguskiltin tvö sem afhjúpuð verða á Blómstrandi dögum. Í ár verða afhjúpuð skilti við grunn Ullarverksmiðjunnar við Varmá og á hverasvæðinu. Það er Njörður Sigurðsson, sagnfræðingur, sem hefur unnið textann á skiltin. Það er mikilvægt að hafa enskan texta á skiltunum líka til að erlendir ferðamenn geti notið þeirra. Sá texti er þó mun styttri enda plássið takmarkað. Þetta gleymdist á skiltinu við Skáldagötuna sem er mjög bagalegt.

Ræddi við óvanalega marga í síma í dag vegna hinna ýmsu mála og einnig komu íbúar á skrifstofuna til að spjalla.

Fékk afar skemmtilegt símtal frá Víði listamanni sem búsettur er hér í Hveragerði. Hann hefur fengið námsvist hjá Odd Nerdrum sem er heimsfrægur listamaður búsettur í Noregi. Það er mikill heiður að vera boðið til dvalar hjá Odd og mikil viðurkenning á hæfileikum og hæfni Víðis. Til hamingju með þetta Víðir og fjölskylda.

Odd Nerdrum ætti ekki að þurfa að kynna fyrir lesendum aldis.is en hann bjó um tíma á Íslandi, keypti hið sögufræga hús Borgarbókasafnið ef ég man rétt. Held örugglega að stór málverk hans af honum sjálfum á adamsklæðunum hafa verið hvað frægust!
En hann er risi í listargeiranum og hér má sjá heimasíðuna hans.


Í kvöld var frétt í ríkissjónvarpinu um fyrirhugaðar framkvæmdir við Suðurlandsveg. Nú sýnist mér að fátt geti komið í veg fyrir að framkvæmdir við fyrsta áfanga hefjist og er það löngu tímabært. Gert er ráð fyrir að vegurinn verði með hinu fjölbreyttasta sniði, á sumum stöðum 2+2, á öðrum 2+1 og sums staðar 2+2 með vegriði. Þessa áætlun samþykktu forsvarsmenn sveitarfélaganna hér fyrir austan með lófataki á fundi í samgönguráðuneytinu fyrir margt löngu. Þó var þar lögð rík áhersla á að framkvæmdirnar nú mættu ekki með nokkru móti koma í veg fyrir að síðar yrði lagður 2+2 vegur með sama hætti og gert var á Reykjanesbrautinni. Því fannst mér það skjóta skökku við að heyra þingmann Reykvíkinga gagnrýna hugmyndir um 2+2 veg á þessari leið. Raunin þegar kemur að framkvæmdum er önnur og það hefur hlotið hljómgrunn hér fyrir austan. Við erum ekki ónæm fyrir ástandinu í þjóðfélaginu þrátt fyrir að annað hefði mátt skilja á þingmanninum....

Í gær fékk ég góða heimsókn þegar að nýr sveitarstjóri í Ölfusinu, Ólafur Örn Ólafsson, kom í heimsókn. Við fórum og skoðuðum grunnskólann en skólinn er rekinn af báðum sveitarfélögunum í hlutfalli við nemendafjölda úr hvoru þeirra fyrir sig. Við keyrðum síðan um bæinn og það var ekki leiðinlegt að sýna Hveragerði í blíðunni í gær. Enduðum síðan í kaffi í Eden þar sem hver rútan á fætur annarri renndi í hlaðið. Þar er reksturinn að komast á góðan rekspöl og heilmikil traffík í húsinu.

Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum, Elliði Vignisson, kom einnig í heimsókn í lok síðustu viku. Þar er allt að gerast og ótrúlegur fjöldi ferðamanna heimsækir nú eyjarnar. Þeir eru ánægðir með það, eðlilega! Við Lárus erum að hugsa um að bregða okkur yfir sundið fljótlega. Maður er ekki maður með mönnum ef maður hefur ekki siglt frá Landeyjahöfn.

Ferlega langur og góður göngutúr með gönguhópnum síðdegis í dag. Notalegt í úðanum og gott að koma inn blaut og hrakin !

6. ágúst 2010

Fékk heimsókn frá ISOR í dag en jarðfræðingar þaðan vildu skoða sprungurnar fyrir neðan Heiðarbrún sem mynduðust í skjálftanum 2008. Hélt að ég gæti nú rambað beint á þær en það var nú öðru nær. Endaði á að hóa í Guðmund Baldursson og áttum við í mesta basli með að finna ummerkin. Það er náttúrulega búið að byggja þarna hús og leggja götur sem ruglar mann alveg í ríminu :-)
Sprungurnar eru reyndar ekki sjáanlegar á yfirborði og þær voru heldur ekki mjög víðar á sínum tíma svona til að komið sé í veg fyrir allan misskilning um hættu þeirra vegna.

Annars römbuðu nokkrar fréttir á heimasíðu bæjarins og nokkrar fleiri skrifaðar í fréttabréf sem við ætlum gjarnan að koma út í næstu viku. Það þarf að koma fyrstu kynningu á dagskrá Blómstrandi daga til bæjarbúa eins fljótt og kostur er. Það er löngu tímabært að fara að hugsa fyrir skrauti í garðinn í þemalit hverfisins. Núna er búið að fjölga litunum sem við vonum að falli í kramið. Annars veit ég að margir eru búnir að plana skreytingarnar í marga mánuði og jafnvel eyða miklum tíma í föndur. Hér á Heiðmörkinni er húsmóðirin svo íhaldssöm að þemanu verður ekki breytt. Bláa baðströndin fer upp aftur, en það verður kannski bætt aðeins í :-)

Hér hefur rignt látlaust frá því um kl. 15. Hefði ekki átt að vera að kvarta yfir þurrki og vinnu við vökvun. Þetta dugar alveg í bili ...

...og Kristján Runólfsson, Skagfirðingur og stórskáld, er búinn að lesa nýjasta bloggið.

Fellur allt í fastar skorður,
fríið búið, vinnan kallar.
Skemmtun er að skreppa norður,
...og skima þar í búðir allar.

5. ágúst 2010

Sumarfríinu lauk með frábærri helgi norður í Skagafirði. Notuðum loksins tjaldvagninn góða og gistum á tjaldsvæðinu í Varmahlíð þar sem Sigurður Skagfjörð ræður ríkjum og rekur þar eitt besta tjaldsvæði sem ég hef verið á. Skógurinn mikill og fallegt umhverfi. Skruppum á síldarævintýri á Siglufirði sem var líflegt í frábæru veðri. Við Albert gengum eftir endilöngum snjóflóðavarnargarðinum og nutum stórkostlegs útsýnis yfir fjörðinn fagra. Fórum með afa og ömmu á Króknum og borðuðum á flottu nýju veitingahúsi við höfnina. Hittum ógrynni af fólki sem við þekkjum svo greinilegt var að síldarævintýrið hefur enn mikið aðdráttarafl.
Vinnumaðurinn í Verslun Haraldar Júlíussonar á Sauðárkrók verður áfram á Króknum og klárar vinnumennsku sumarsins. Þetta er heilmikið ævintýri að fá að vera kaupamaður í þessari búð og feta þar í fótspor ekki ómerkari manna en Einars Kristins Guðfinnssonar og Vilhjálms Egilssonar.

En annars var sumarfríinu eytt í Danmörku og á facebook má sjá helling af myndum úr þeirri góðu ferð. Hitabylgja í Danmörku allan tímann svo við vorum afar heppin með veður. Það er alltaf gaman í Danmörku og Skagen er held ég einn fallegasti og sérkennilegasti staður sem ég kem til.

Heima er búið að taka til í skápum og skúffum og skrapa og grunna alla glugga hússins. Ef vel viðrar um komandi helgi verður hún notuð til að mála. Liggja síðan í leti innan um blómin mín og njóta blíðunnar :-)

Nóg hefur verið að gera í vinnunni. Sérkennilegt mál kom upp á þriðjudaginn þegar lögreglan mætti til að kanna ábendingu um sprengingu sem orðið hafði vestan við byggðina undir verslunarmannahelgi. Til að byrja með var talið að þetta gæti hafa verið hvellurinn sem kom þegar dekk undir vörubílnum hans Binna Hilmis hvellsprakk eitt kvöldið með miklum látum. En við nánari athugun kom í ljós að það gæti varla verið. Hvergi sjást aftur á móti nokkur merki um sprengingu svo þetta er hið undarlegasta mál. Til að taka af allan vafa um hættu á byggingasvæði Kambalands hefur bæði lögreglan og sprengjusveit Landhelgisgæslunnar komið á staðinn og finna þessir aðilar engin merki um ósprungnar sprengjur sem gætu hafa orðið eftir á framkvæmdatímanum. Munu þeir koma aftur og þá njóta liðsauka heimamanna við leitina áður en endanleg niðurstaða verður gefin út. Ég setti tilkynningu um málið á heimasíðu bæjarins sem ég hvet íbúa til að lesa.

Átti nokkur símtöl við ýmsa aðila í dag til að reyna að koma málum áleiðis fyrir einstakling sem leitaði til mín í vanda. Það gekk og var ég afar ánægð með þá niðurstöðu. Það eiga margir erfitt við aðstæður eins og hér hafa skapast að undanförnu og starfsmenn bæjarins reyna að hjálpa eftir fremsta megni.

Unnið er að undirbúningi Blómstrandi daga og hefur Jóhanna Margrét sett saman flotta dagskrá. Fyrirtæki eru afar jákvæð og ætla flest hver að taka myndarlega þátt í þessum dögum enda er sú þátttaka forsenda þess að vel takist til. Í ár lendir hátíðin okkar um sömu helgi og menningarnótt þannig að nú er tilvalið fyrir þá sem frekar vilja njóta lífsgæða landsbyggðarinnar fjarri mannmergðinni sem fylgir menningarnótt að bregða sér austur fyrir fjall.

Fundur í bæjarráði síðdegis í dag. Fá mál enda sumarfrí enn í gangi í stofnunum landsins og lítið um að vera. Eyddum í staðinn dágóðum tíma til að fara yfir ýmislegt annað en var á fundarboðinu en það er ágætt líka.

Fór í góðan göngutúr í kvöld um bæinn okkar fallega. Ákvað að týna rusl á leiðinni og varð mikið ágengt. Fékk flotta hreyfingu við það að beygja mig um leið :-)
Annars er lygilega lítið um rusl í bænum og fólk virðist almennt ganga einstaklega vel um. Fór nýja göngustíginn meðfram Varmá sem hópur úr vinnuskólanum undir styrkri stjórn Villa Sveins hefur lagt í sumar. Frábær leið og flottur stígur. Hvet alla til að prufa því það hefur hingað til varla verið fært yfir grjót og kletta þessa leið. Búið er að hreinsa lóð Ullarþvottastöðvarinnar en húsið þar var rifið fyrr á árinu. Einnig er búið að rífa Reykjamörk 11 en þar á eftir að ákveða hvernig gengið verður frá lóðinni. Þar er afar fallegur gróður og falleg flöt sem gaman væri að gera aðgengilega fyrir bæjarbúa þar til önnur nýting verður á lóðinni.

Heima týndi ég jarðarber sem skyndilega eru farin að sýna sig eftir að ég hætti að hugsa um plönturnar! Sólber og rifs þurfa nokkra daga í viðbót. Bláberin eru komin í frystinn og ef ég skyldi nú nenna að brytja rabbarbara þá hefur mér áskotnast frábær uppskrift að saft sem ég gæti alveg hugsað mér að laga. Bara gaman!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet