<$BlogRSDUrl$>

28. febrúar 2010

Hálsbólgan og kvefið sem hrjáði mig hér í síðustu færslu lét ekki deigan síga og gerði mér lífið afar leiðinlegt um síðustu helgi, svo ekki sé nú meira sagt. Systraferð til Boston varð því hálf undarleg þegar önnur okkar var vægast sagt við lélega heilsu allan tímann! En við urðum nú samt ásáttar um að eina ráðið við þeim leiðindum væri einfaldlega að fara bara fljótt aftur ;-)



Annars var helgin sem nú er að líða brennd sama marki og margar aðrar að hún var of stutt. Í dag sunnudag fórum við til Reykjanesbæjar þar sem Bjarni Rúnar og félagar í unglingaflokki Hamars/Þórs vann frækilegan sigur á Njarðvík í úrslitaleik Bikarkeppni KKÍ. Leikurinn endaði 60-61 svo spennan var hreint að fara með okkur þarna í lokin. En sigurinn var sætur og strákarnir afskaplega ánægðir enda máttu þeir vera það, árangurinn er afar góður.
Níundi flokkur Hamars/Þórs og drengjaflokkurinn léku einnig til úrslita og hlutu silfur í mjög spennandi leikjum. Það er bjart framundan í körfunni þegar ungmennin eru svona öflug.
Hér má sjá nokkrar smámyndir frá deginum í gær en ef þið finnið örina í hægra horninu efst þá opnast þær í myndasafninu.

17. febrúar 2010

Þvældist um í vinnunni á hálfum dampi, hálsbólga og hitavella að gera mér lífið leitt...

Frí frá bloggi fram á þriðjudag!

16. febrúar 2010

Vann í leigusamningi vegna tjaldsvæðisins en samningurinn fer fyrir bæjarráð á fimmtudaginn. Hitti Þór Ólaf Hammer sem hefur haft svæðið á leigu undanfarið ár og fórum við yfir reksturinn og forsendur til framtíðar. Þau hjónin hafa verið vakin og sofin yfir rekstrinum enda hefur hann gengið ágætlega og hróður tjaldsvæðisins borist víða.

Heimsótti síðdegis þá Egil Sigurðsson og Björgvin Mýrdal sem hér eru að hefja rekstur fyrirtækisins Bragðbest. Þar ætla þeir að framleiða soð til sölu bæði innanlands og utan. Það var mjög gaman að sjá hversu faglega þeir eru að standsetja húsnæði fyrirtækisins en þeir eru að koma sér fyrir í gömlu slökkvistöðinni að Austurmörk 5. Það er ánægjulegt að sjá að þrátt fyrir kreppu og volæði svona almennt þá er enn hugur í fólki og hugmyndirnar kannski aldrei verið fleiri.

Í gær var skrifað undir samninga um orkusölu til kísilframleiðslufyrirtækis í Þorlákshöfn. Afar ánægjulegt og óskandi að fjármögnun gangi vel svo verksmiðjan verði að veruleika. Ég sendi Ólafi Áka smá kveðju af því tilefni í morgun og lýsti yfir stuðningi við áformin enda hefði virkjun Hverahlíðar heldur aldrei vafist fyrir Hvergerðingum !

Ræddi málefni yfirfærslu fatlaðra við bæði Þorvarð Hjaltason framkvæmdastjóra SASS og Karl Björnsson, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, en framundan er vinnufundur á vegum Sambandsins vegna yfirfærslunnar.
------------------------------
Þessar vísur fékk ég sendar frá frænku minni í Skorradalnum. Mér finnast þær ótrúlega góðar enda er ég alltaf skotin í limrum....

Hjálmar Freysteinsson, Akureyri kvað:

Bollur skal éta á bolludaginn,
baunir og saltkjöt á sprengidaginn,
en iðrast hann má
maðurinn sá
sem át konuna sína á konudaginn.

Ólafur Halldórsson bætti við:

Bollur skal éta á bolludaginn,
baunir og saltkjöt á sprengidaginn,
en þótt hugur sé á
ekki húsfreyjan má
hafa bóndann í matinn á bóndadaginn.

Björn Ingólfsson spurði:

Ef bollur skal éta á bolludaginn
og baunir og saltkjöt á sprengidaginn,
Þá er mér spurn
spekingar: Hvurn
andskotann étiði á öskudaginn?


Kristján Eiríksson svaraði:

Ég bollurnar ét á bolludaginn
og baunir og saltkjöt á sprengidaginn,
svo fæ ég mér bjór
og byrja mitt þjór
og verð öskufullur á öskudaginn."

15. febrúar 2010

Byrjaði daginn á fundi með Jóni Þóri Frantzsyni, framkvæmdastjóra Íslenska gámafélagsins, og Guðmundi Baldurssyni þar sem við fórum yfir árangur af þriggja tunnu verkefninu þessar fyrstu vikur. Ég er afar ánægð með þær upplýsingar sem þarna komu fram en í janúar fór um 57% af sorpi Hvergerðinga í endurvinnslu (grænu eða brúnu tunnuna). Þetta verður að teljast afar góður árangur miðað við árstíma innleiðingar en það er ekki ákjósanlegt að setja svona ferli af stað í miðjum jólamánuðnum. En Hvergerðingar hafa tekið þessum breytingum afar vel og eru vel flestir mjög jákvæðir. Enn getum við þó gert betur en markmiðið er að um 65-70% af sorpi fari í endurvinnsluferil. Við rúllum því upp bæjarbúar ;-)

Fyrir hádegi komu síðan fulltrúar frá Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra til að kynna starfsemina og til að ræða um fyrirhugaða yfirfærslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna. Áttum miklar og skemmtilegar umræður um málaflokkinn í heild sinni og þá sérstaklega stöðuna hér í Hveragerði en verkefnið sem fyrir liggur er ögrandi og vonandi verður breytt skipulag til þess að þjónustan í málaflokknum verður enn betri en hún er í dag.

Frétti af því að aðgerðastjórnin vegna björgunarstarfa á Langjökli hefði verið hér Hveragerði í glæsilegu og vel búnu húsnæði Hjálparsveitar skáta. Það er gaman að heyra að þessi fína aðstaða nýtist vel. Sérstaklega ánægjulegt var að frétta síðan af giftusamlegri björgun mæðginanna. Hreint kraftaverk að ekki fór verr.

Meirihlutafundur í kvöld þar sem farið var yfir málefni vikunnar og bæjarráðsfundar á fimmtudaginn.

Í grunnskólanum er núna kynjavika en þá er bekkjum elsta stigs skipt upp eftir kyni. Skemmtileg nýbreytni sem ég efast ekki um að mælist vel fyrir. Bæði kynin geta þá fengið að blómstra án áreitis frá hinu. Góð hugmynd ágæta skólafólk!
Reyndar verð ég að hrósa skólanum fyrir aukna upplýsingagjöf því ég held að það líði ekki dagur án þess að ég fái tölvupóst með skilaboðum um hinar og þessar uppákomur, viðburði eða kennslutengd atriði. Þetta er alveg frábært og heldur manni við efnið og síðan fara atburðir miklu síður framhjá manni þegar upplýsingarnar berast með þessum hætti. Virkilega gott framtak.

14. febrúar 2010

Stærsta mjúkhýsi í heimi hýsir Olympíuleikana....

Mér leiðist mjög þegar fólk af vankunnáttu og hreinum fordómum myndar sér skoðanir og hikar ekki við að dreifa fordómunum án þess að kynna sér málin til hlýtar. Þetta hefur verið afar áberandi í allri umræðu um loftborna íþróttahúsið sem nokkrir aðilar hafa gagnrýnt stöðugt frá því að sú hugmynd fyrst kom fram. Við sem erum þeirrar skoðunar að þessi húsagerð sé bráðsniðug og ódýr lausn á húsæðisskorti íþróttahreyfingarinnar víða um land sjáum aftur á móti sífellt betur hversu góð hugmyndin í raun er. Þeir sem fylgdust með opnunarhátíð Olympíuleikanna í Vancouver hafa vafalaust tekið eftir glæsilegu húsnæðinu sem hýsti hátíðina. En þar var um að ræða stærðarinnar leikvöll sem lokað var með loftbornu þaki af sömu tegund og kynnt hefur verið hér í Hveragerði. Reyndar er þetta stærsta loftborna hús í heimi. Hér getið þið lesið um bygginguna á Wikipedia. Hér má líka sjá frábæra mynd af mjúkhýsinu sem nýtur gríðarlegrar athygli í Vancouver.

Opnunar- og lokahátíðir Olympíuleikanna í Vancouver eru sem sé haldnar undir stærsta loftborna þaki í Norður Ameríku, sem byggt hefur verið yfir BC Place Stadium í miðbæ Vancouver. Leikvöllurinn tekur 55.000 manns í sæti og á heimasíðu Olympíuleikanna segir m.a. "The enclosed venue offers many advantages in addition to protection from winter weather, including an unprecedented opportunity to stretch the boundaries of ceremonies’ spectacle using state-of-the-art lighting, projection, sound and special effects technology"

Það er merkilegt ef reyna á að halda því fram að húsagerð sem hentar Olympíuleikunum henti ekki hér á landi! Síðan er það allt önnur umræða hvort og hvenær við hér í bæ höfum yfirleitt ráð á úrbótum á íþróttaaðstöðu bæjarins.
-----------------------------------------
Sund og afslöppun í heita pottinum fyrir hádegi í dag, sunnudag. Það er frábært að byrja daginn með þessum hætti og svo er þetta svo skemmtilegt enda umræður í pottinum oft ansi skemmtilegar. Eftir hádegi fórum við Lárus á opnun nýs skátaheimilis í gamla Pósthúsinu við Breiðumörk. Glæsileg athöfn og margir gestir mætti til að fagna með skátunum sem af dugnaði og ósérhlífni hafa tekið húsið algerlega í gegn. Flott aðstaða á besta stað í bænum. Eyþór H. Ólafsson tók fullt af flottum myndum sem hægt er að sjá á www.blahver.is, eða einfaldlega hér.
------------------------------------------
Ef ykkur langar á afskaplega fyndna mynd þá er óhætt að mæla með It´s complicated með Meryl Streep, Alec Baldwin og Steve Martin. Fór með hópi vinkvenna fyrir helgi og skemmtum við okkur konunglega, hreint óborganleg ;-)

...og Himmelblå lauk í kvöld! Hvað á maður nú að gera á sunnudagskvöldum !
Sá mér til mikillar gleði á norsku heimasíðu Himmelblå þáttanna að ný sería byrjar í Noregi 7. mars. Þeir sem ná NRK geta horft þá en aðrið beðið eftir að þættirnir komi á Ríkið !

10. febrúar 2010

Erilsamur dagur, margir fundir og góðar heimsóknir.

Hópur frá færeyska sveitarfélagasambandinu kom í heimsókn og sýndi ég þeim hverasvæðið en þar suðum við m.a. egg en greinilegt var að gestunum þótti mikið til koma enda svæðið afskaplega líflegt í dag, manndrápshverinn í stuði nýbúinn að gjósa og stóra borholan í blæstri. Nú er búið að smíða pall og öryggisgrindur í kringum Manndrápshverinn þannig að þar er aðstaða gesta öll önnur en verið hefur. Í sumar stendur síðan til að gera enn stærra átak í uppbyggingu svæðisins og ég hlakka virkilega til að sjá hvernig það tekst. Við eigum að nýta hverasvæðið miklu meira en við gerum í dag en ég held að við gerum okkur ekki fulla grein fyrir því hversu einstakt það er. Fór með hópinn að skoða Ullarþvottastöðina sem nú er verið að rífa en það fannst þeim afar athyglisvert sérstaklega af því húsið er rifið vegna skemmda eftir jarðskjálftann. Heimsókn í Afríku á Garðyrkjuskólanum er einnig alltaf stórkostleg skemmtun en stærsta bananaplantekra Evrópu vekur alltaf mikla athygli. Áður en gestirnir fengu fyrirlestur um Hveragerði á bæjarskrifstofunni heimsóttum við Upplýsingamiðstöðina,skoðuðum sprunguna og skemmtum okkur konunglega yfir viðbrögðum gestanna í jarðskjálftaherminum. Við eigum svo margar perlur hér í Hveragerði að við gætum gert miklu meira en gert er í dag til að laða hingað ferðamenn. Nú þyrftu hugmyndaríkir íbúar bæjarins að leggja höfuð í bleyti og finna möguleikana sem búa í okkar næsta umhverfi.

Drengjaflokkur Hamars/Þórs er kominn í úrslit í bikarkeppni KKÍ eftir sigur á Breiðablik. Æsispennandi leikur í kvöld en við Lárus fengum lokasekúndurnar í beinni í gemsann ;-)

Nú er búið að setja upp heimasíðu Sjálfstæðisfélagsins í Hveragerði. Eyþór á af henni allan heiður og hefur til dæmis gjörsamlega misst sig á myndasíðunni. Þar má nú sjá 336 myndir frá sýningunni Blóm í bæ ! ! ! Kíkið á www.blahver.is

9. febrúar 2010

Fundur með stjórnendum bæjarins í dag þar sem farið var yfir innkaupareglurnar sem bæjarstjórn setti á fundi sínum í janúar. Þær eru umfangsmiklar og taka til fjölda þátta en fyrst og fremst er þeim ætlað að stuðla að vönduðum og hagkvæmum innkaupum bæjarins. Áhugasamir geta skoðað reglurnar hér.
Gestur á stjórnenda fundinum í dag var Pétur Guðmundsson, afbrotafræðingur, fjallaði hann um eðli innbrota og þær varnir sem hægt er að grípa til til að koma í veg fyrir að brotist sé inní hús. Erindi Péturs var afar fróðlegt en framundan eru íbúafundir með íbúum Hveragerðis þar sem sömu upplýsingar munu koma fram, nágrannavarsla kynnt og vonandi sett í gang. Nágrannavarsla er ekkert annað en skipulögð afskiptasemi og athygli í hverri götu fyrir sig. Fyrirkomulagið sem hér verður kynnt byggir á virkri þátttöku íbúa og því er mikilvægt að allir sem vettlingi geta valdið mæti á íbúafundina þegar þeir verða haldnir.

frétt á Stöð 2 um mögulega stóriðju í Þorlákshöfn sem nýta myndi orkuna úr Hverahlíðarvirkjun. Þetta er afar jákvæð frétt og ef af verður yrði verksmiðja af þessari stærðargráðu gríðarleg lyftistöng fyrir atvinnulíf á Suðurlandi. Þrátt fyrir einbeitta andstöðu okkar gegn Bitruvirkjun þá höfum við Hvergerðingar aldrei lagst gegn nýtingu annarra orkumöguleika á og við Hellisheiði eins og til dæmis Hverahlíð og Gráuhnjúka. En auðvitað á að nýta þá orku sem verður til hér á Suðurlandi til iðnaðaruppbyggingar í héraði ef þess er nokkur kostur. Því fögnum við eðlilega þegar heyrist af hugmyndum í þessa veru og styðjum nágranna okkar í þessum áformum.

Stór dagur í fjölskyldunni en systkini mín, Guðrún og Valdimar, eiga afmæli í dag, 40 og 44 ára. Kaffiboð í kvöld eða fjórði í afmæli eins og einhver sagði ;-) Risa knús til ykkar beggja frá stóru systur!

8. febrúar 2010

Dagurinn í dag fór í hin ýmsu verkefni. Fór meðal annars yfir málefni Orkuveitu Reykjavíkur enn eina ferðina. Ræddi við íbúa sem var ekki sáttur við meðferð Orkuveitunnar á þeim íbúum sem ekki munu tengjast tvöfalda dreifikerfinu og þurfa því að greiða hundruðir þúsunda í tengikostnað sem aðrir íbúar í bæjarfélaginu hafa sloppið við. Enn og aftur munum við gera tilraun til að nálgast OR vegna þessa máls en óréttlætið er hróplegt. Nokkur önnur mál eru óleyst á milli sveitarfélagsins og Orkuveitunnar og því miður sýnist mér nú vera nauðsynlegt að leita til löglærðra aðila með það fyrir augum að reyna að finna lausn á þeim ágreiningsefnum sem uppi eru. Það flækir stöðuna að samningurinn um sölu Hitaveitunnar sem gerður var af Samfylkingu og Framsókn á síðasta kjörtímabili er alls ekki nógu vel orðaður og gætir ekki hagsmuna Hvergerðinga eins og þörf hefði verið á. Sendi síðan líka erindi til Orkuveitunnar vegna hitaleysisins sem varð hér í kjölfar 5 tíma rafmagnsleysis. Bæjarráð beindi því til Orkuveitunnar að setja yrði upp varaafl við kyndistöðina við Bláskóga og kom ég skilaboðunum um þetta áleiðis til fyrirtækisins.

Fékk nokkrar góðar heimsóknir í dag meðal annars frá ungum mönnum sem hafa hug á að vinna með ungu fólki á athyglisverðan hátt og leist okkur, Jóhönnu og Maríu, vel á það sem þeir höfðu fram að færa. Hitti líka Björn Pálsson, fyrrv. skjalavörð, sem nú vinnur við að skrásetja skjöl á safninu að Skógum. Ræddum við ýmis mál er varða Hveragerði og meðal annars gildi vandaðrar gagnasöfnunar en fyrir helgi áskotnaðist okkur kassi með myndum héðan úr bænum sem eru ómetanlegar heimildir um bæjarfélagið eins og það var. Nú er stefnt að því að myndasafn bæjarins verði skannað og það sett á heimasíðuna. Það er til ógrynni af myndum en þær liggja víða og hefur ekki verið skipulega safnað á einn stað. Við vonumst til að geta bætt úr því.

Meirihlutafundur í kvöld þar sem við fórum yfir fundarboð bæjarstjórnarfundar sem haldinn verður á fimmtudag. Þar ber hæst þriggja ára áætlun sem enn og aftur er unnin í skugga efnahagskreppu og óvissu.

Taldi að þið hefðuð gaman af að sjá myndir af æfingastígum í Sviss sem eru eins og sá sem Hvergerðingar hafa í hyggju að setja upp í hlíðum Reykjafjalls ásamt Ölfusingum og fleirum.Heilsu- og æfingastígurinn Vitaparcours. Þetta er mjög vinsælt kerfi í Sviss og sambærilegir stígar eru útum allt í því ágæta landi.

Hveragerði hefur fóstrað margar góðar hljómsveitir en ein af þeim yngri er bandið Hitakútur... Hér má sjá afskaplega gott myndband við eitt nýjasta lag þeirra. Kíkið á þetta!

5. febrúar 2010

Gengum frá fyrstu drögum að þriggja ára áætlun ásamt greinargerð í dag og fékk meirihlutinn gögnin til endanlegrar yfirlestrar um helgina. Förum yfir þetta allt á meirihlutafundi á mánudaginn og síðan er gert ráð fyrir fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi næsta fimmtudag. Áætlunin er eins raunsæ og nokkur kostur er miðað við það óvissuástand sem hér ríkir og tekur mið af skuldastöðu og tekjumöguleikum bæjarins.

Bústaðaferð vinnunnar er þessa helgina en vegna afmælis Guðrúnar systur og útskriftarveislu Rakelar þá get ég lítið verið með þeim. Kvöldið í kvöld og morgunmatur í fyrramálið verður látið duga þetta skiptið. Síðan er það útskrift á Bifröst eftir hádegi á morgun og heilmikið pússluspil við að ná öllum veisluhöldunum á morgun. Það er allavega nóg að gera.

4. febrúar 2010

Bæjarráðsfundur í morgun þar sem samþykkt voru mörg góð mál eins og upbygging á heilsu- og æfingastíg undir Reykjafjalli, þar verður nú sett í gang vinna við að setja upp skemmtilegar æfingastöðvar við stíginn svo allir þeir fjölmörgu sem hlaupa eða ganga geti aukið brennsluna þegar hlaupið er undir fjallinu. Verður mjög flott og allir þeir sem talað hefur verið við um aðkomu að verkefninu eru mjög áhugasamir. Fyrsta skrefið verður að flytja líkamsræktarþjálfann sem er staðsettur við Hamarsvöllinn og hefur verið lítið notaður á flötina ofan við sundlaugaranddyrið. Þar kemur hann til með að nýtast þeim fjölmörgu sem nú stunda líkamsrækt í og við Laugaskarð. Á fundinum var líka sett í gang endurskoðun á forvarnarstefnu bæjarins sem verður undir styrkri stjórn Jóhönnu og Maríu með aðkomu fjölda annarra einstaklinga. Ágætis tilboð fengust í húseignina að Borgarheiði 3v sem þarfnast mikilla endurbóta eftir jarðskjálftann. Hæsta tilboði verður tekið og vonandi munu framkvæmdir hefjast þarna innan skamms. Þjónustusamningur var gerður við Foreldrafélag leikskólans um framlög til félagsins næstu þrjú árin. Foreldrafélagið vinnur afar þakklátt og gott starf og er starfsemi leikskólanna mikill styrkur, því var það meira en sjálfsagt að framlengja við þá samninginn og auka örlítið um leið styrkinn til starfseminnar á heildina litið.

3. febrúar 2010

Fékk símtal frá Ólafi Áka í miðjum morgunmatnum þar sem hann bauð mér far á Selfoss þar sem við áttum fund með Ragnheiði. Þáði þetta góða boð með þökkum. Áttum fínan fund á Selfossi þar sem við fórum vel yfir þau álitaefni sem eru uppi varðandi yfirfærslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna. Þetta er mikilvægur málaflokkur og því ber sveitarfélögunum að vanda sig núna þegar hyllir undir að þessi nauðsynlega þjónusta færist enn nær íbúunum en verið hefur. Ólafur neyddist síðan til að skutla mér uppeftir aftur og notaði ég þá tækifærið og sýndi honum hvar hugmyndin er að setja niður heilsu- og æfingastöðvar við göngustíginn undir Reykjafjalli. Ég á ekki von á öðru en að Ölfusingar taki jákvætt í að koma að því verkefni. Eins og þið sjáið þá erum við Ólafur ekki svarnir óvinir heldur þvert á móti ágætis vinir þó að annað megi oft lesa útúr umfjöllun blaða. Eitt er að vera aandstæðingur í málefnum og eiga í kröftugum skoðanaskiptum um þau en í stjórnmálum verður fólk að geta skilið á milli einstaklingsins og málefnisins. Geti fólk það ekki á það tæplega erindi í pólitík.

Sigurdís á Upplýsingamiðstöðinni og ég funduðum síðan fyrir hádegi með Hannesi Guðjmundssyni frá Íslandspósti þar sem við fórum vel yfir ýmislegt sem lýtur að þjónustu Póstsins hér í Hveragerði. Á ég von á því að nú verði gerð bragarbót á ýmsum þeim umkvörtunarefnum sem við ræddum um í dag. Póstþjónusta er afar mikilvægt og eitt af því sem fólk treystir á að sé í lagi. Þess vegna verður að tryggja að í jafnstóru bæjarfélagi og Hveragerði er sé þessi þjónusta góð.

Eftir hádegi skrapp ég niður á Heilsustofnun og hitti þar Ólaf framkvæmdastjóra og Ingu Kjartans. Ræddum við hugmyndir um framtíðaruppbyggingu Heilsustofnunar og þær hugmyndir sem þar eru uppi um vöxt og aukna þjónustu. Hagsmunir Hveragerðisbæjar og HNLFÍ fara augljóslega saman og því er mikilvægt að það ríki traust og gott samstarf á milli aðila. Það er augljóst að það góða starf sem þarna fer fram getur ekkert gert annað en að eflast enda þörfin fyrir þjónustu af því tagi sem þarna er veitt sífellt að aukast.

Við Helga unnum í þriggja ára áætlun milli funda og síðdegis í dag. Það er nokkuð ljóst að þrátt fyrir einbeittan vilja til framkvæmda þá verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti og haga framkvæmdum í samræmi við fjárhagslega getu bæjarins. Þriggja ára áætlun í þessari óvissu sem nú ríkir getur í besta falli sýnt viðleitni og góðan vilja en óvissuþættirnir eru svo yfirþyrmandi eins og stjórnmálaástandið er í dag að áætlanagerð þrjú ár fram í tímann er svo til ógerleg. Við ræddum þetta þónokkuð í morgun, bæjarstjórarnir, ljóst er að forsendur þessara þriggja sveitarfélaga verða settar upp með svipuðum hætti í þriggja ára áætlun.

Sund síðdegis eins og alltaf á miðvikudögum. Nú er Lífshlaupið byrjað svo það verður að taka þetta með trompi eins og annað sem við gerum hér á skrifstofunni.

Annars varð hún Heiða, gjaldkeri, amma í gær þegar Ellen, fyrrv. bæjarfulltrúi, og Guðni eignuðust litla dóttur. Innilega til hamingju með litlu prinsessuna og bestu kveðjur til ykkar allra.

2. febrúar 2010

Maður finnur það á andrúmsloftinu að kosningar eru i nánd. Það er spenna í loftinu, fólk er að velta fyrir sér uppstillingu á listana, hverjir verði í framboði og hvaða listar verði í boði. Þetta er alltaf ögrandi og skemmtilegur tími og afskaplega gaman að taka þátt í því starfi sem nú fer í hönd. Allir sem áhuga hafa á eflingu Hveragerðisbæjar og áframhaldandi góðu starfi ættu að líta við næsta laugardag á opnu húsi Sjálfstæðismanna og/eða fylgjast með auglýsingum um starfið sem framundan er. Uppstillingarnefnd Sjálfstæðisfélagsins er núna að störfum en um leið og listinn er tilbúinn hefst málefnavinna og hið eiginlega starf fyrir kosningar. Meirihlutinn sem nú situr hefur að margra mati unnið mikið og gott starf, hér hefur ríkt eining og eindrægni í bæjarfélaginu svo eftir því hefur verið tekið og það er ekki sjálfgefið. Jákvæðar fréttir af bæjarlífinu hafa verið áberandi og það er liðin tíð að Hvergerðingar þurfi að verja sinn bæ hvar sem þeir koma eins og stundum var á árum áður. Þetta er árangur sem næst ekki af sjálfu sér og því er brýnt að þetta góða starf haldi áfram.

Endalausar kjaftasögur eru í gangi um að Hveragerði sé illa stjórnað peningalega. Því ákvað ég að setja eftirfarandi frétt á heimasíðu bæjarins í dag:


Hveragerði í hópi þeirra best reknu

Þau leiðu mistök urðu í 3. tölublaði Vísbendingar sem fjallar um Fjármál sveitarfélaga að rangt var farið með íbúafjölda í Hveragerði og hafði það mikil áhrif á einkunnagjöf bæjarfelagsins. Þegar réttar tölur hafa verið settar inní reiknilíkanið lendir Hveragerðisbær í 12. -13. sæti sem sýnir að sveitarfélagið er í hópi best reknu sveitarfélaga landsins.

Vikuritið Vísbending gefur sveitarfélögum einkunnir árlega í kjölfar skoðunar ársreikninga og eru þar metnir þættir eins og skattheimta, afkoma sem hlutfall af tekjum, hlutfall skulda af tekjum, veltufjárhlutfall og þróun íbúafjölda. Í síðustu Vísbendingu er þessi listi gefinn út og þar lenti Hveragerði í 32. sæti með einkunnina 2,7. Við nánari skoðun kom í ljós að mistök höfðu verið gerð við úrvinnslu gagna en þar kom fram að íbúum hér í bæ hefði fækkað um tæp 11% á tímabilinu sem er þó nokkuð frá hinu rétta sem er fækkun um 0,6%. Þegar búið er að leiðrétta gögn með tilliti til þessa endar Hveragerðisbær með einkunnina 4,2 fyrir fjármálastjórn sem skilar okkur í 12.-13. sætið sem hlýtur að teljast afar gott. Bæjarstjóri hefur farið yfir þessa stöðu með Benedikti Jóhannessyni, ritstjóra, sem mun leiðrétta þessi leiðu mistök í næsta tölublaði Vísbendingar.

1. febrúar 2010

Það var erilsamur dagur í dag og margir sem komu til fundar á bæjarskrifstofunni. Erindin mörg og misjöfn eins og gengur en alltaf áhugaverð.

Nú stendur yfir niðurrif Ullarþvottastöðvarinnar en hún skemmdist mikið í skjálftanum 2008. Nokkur umræða hefur verið í bæjarfélaginu um hvort ekki væri skynsamlegt að lagfæra húsið og endurbyggja til dæmis sem íþróttahús, menningarmiðstöð eða annað slíkt. Efasemdir hafa verið meðal nokkurra íbúa um raunverulegt tjón á húsinu en sérfræðingar hafa ávallt verið á einu máli um að tjónið á því væri mjög mikið og að ekki svaraði kostnaði að endurbyggja. Í dag má segja að mál sérfræðinganna hafi sannast þegar átti að rífa suðurgaflinn sem hafði gliðnað frá húsinu í skjálftanum. Grafan sem ætlaði að tæta niður gaflinn rétt ýtti við honum þegar hann hrundi í einu lagi og tók eitt hliðarbilið til vesturs með sér í fallinu. Ekkert járn var í gaflinum og engar festingar eru heldur í hliðargöflunum. Við erum afskaplega heppin að ekki skuli hafa hlotist stórslys af húsinu en varla hefði þurft nema góðan storm til að veggurinn hryndi í heilu lagi. Það er alveg ljóst í mínum huga eftir að hafa séð þetta að það var fullkomlega rétt ákvörðun að rífa húsið.
Ég er afskaplega ánægð með að Sigurbjörn Bjarnason, kenndur við Bláfell, myndar niðurrif allra þeirra húsa sem í þann feril fara og setur myndirnar á heimasíðuna sína. Hér er hægt að skoða myndir af niðurrifi Ullarþvottastöðvarinnar.
------------------------------

Alla laugardagsmorgna er opið hús hjá Sjálfstæðismönnum og þar er setið og skrafað yfir rúnstykkjunum. Síðasta laugardag fengum við góðan gest þegar Baldvin Jónsson markaðsfræðingur heimsótti okkur og fór yfir þá framtíðarmöguleika sem hann sér fyrir sér hér í Hveragerði. Það var afskaplega skemmtilegt að heyra að honum finnst umhverfi bæjarins hafa tekið miklum stakkaskiptum undanfarin ár og ekki síst hversu vel íbúarnir hefðu tekið við sér varðandi umhirðu í sínu nánasta umhverfi. garða. Hann fór vel yfir ýmsa möguleika sem við eigum hér varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu og heilsutengdrar starfsemi. Heilsustofnun NLFÍ fékk einstaklega góða dóma og hafði hann sjaldan kynnst jafn jákvæðum anda eins og þar ríkti hjá hverjum einasta starfsmanni. Hjartað væri greinilega með í för á þeim stað.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet