15. apríl 2016
Nokkrar nýjar fréttir eru komnar á heimasíðu Hveragerðisbæjar sem var löngu tímabært enda alltof, alltof langt síðan eitthvað var sett þar inn síðast. Við erum alls ekki nógu dugleg við að miðla upplýsingum til bæjarbúa á þennan hátt en við ætlum alltaf að gera betur. Það hlýtur að takast einn daginn.
Í morgun var fundur í Innanríkisráðuneytinu í starfshópi um uppbyggingu og eflingu sveitarstjórnarstigsins eða kannski heitir hann framtíðarskipan sveitarstjórnarmála. Allavega var fundurinn góður en þar var m.a. farið ýtarlega yfir hlutverk Jöfnunarsjóðs og þá stöðu sem hann gegnir í rekstri og umhverfi sveitarfélaga.
Heimsótti Halldór hjá Reitum og áttum við afar gott spjall um verkefni sem við vinnum nú að í Hveragerði. Það mun skýrast í mai.
Hafði samband við nokkrar ráðningarstofur og falaðist eftir tilboðum vegna ráðningar skólastjóra. Við stefnum á að auglýsa stöðuna um næstu helgi.
Eftir vinnu heimsótti ég Dvalarheimilið Ás en þar fóru fram afar skemmtilegir tónleikar með KK í boði Hljómlistarfélags Hveragerðis. KK spilaði einnig fyrr um daginn á leikskólunum og í kvöld á Hótel Örk á ókeypis tónleikum fyrir alla bæjarbúa. Þetta var afar góð afmælisgjöf ti bæjarfélagsins sjötugs sem margir nutu. Þannig eiga afmælisgjafir Hveragerðisbæjar þetta árið helst að vera ...
Comments:
Skrifa ummæli