14. apríl 2016
Vinnustofan í morgun var einstaklega skemmtileg enda hópurinn góður og þátttakendur líflegir og reynslumiklir úr hinum ýmsu geirum samfélagsins. Það er óneitanlega ögrandi viðfangsefni að reyna að sjá fyrir sér framtíðarnar sem við getum átt í vændum og það verður fróðlegt að fá að taka þátt í þessu verkefni.
Átti fund ásamt Árna Eiríkssyni, Flóahreppi, fund með Landvernd þar sem við ræddum mögulegar breytingar á eignarhaldi Alviðru og Öndverðarness en við Árni vorum skipuð fulltrúar Héraðsnefndar í þá vinnu. Við gengum frá tillögum sem leggja á fyrir eigendahópinn en brýnt er að finna þessum jörðum verðugt hlutverk í framtíðinni.
Var einnig falið af Héraðsnefnd að koma Hrísholti 8 á Selfossi í sölu. Nú er ljóst að AA hópurinn á Selfossi hefur ekki áhuga á að kaupa eignina eins og talið var í fyrstu og því fer hún nú í beint söluferli. Kom því máli áleiðis í dag.
Síðdegis var bæjarstjórnarfundur þar sem ég í upphafi kynnti glænýja niðurstöðu Hæstaréttar í máli sem ábúendur á Friðarstöðum höfðu áfrýjað til Hæstaréttar eftir sigur bæjarins í héraðsdómi. Í stuttu máli er niðurstaðan sú að öllum kröfum áfrýjanda var hafnað og þeim gert að greiða Hveragerðisbæ 850 þúsund í málskostnað. Með þessum dómi er margra ára málarekstri lokið og óneitanlega er þungu fargi af manni létt þess vegna.
Við Lárus heimsóttum í kvöld Viktor Sveinsson og fjölskyldu en þau búa í Seyðtúni húsi Kristins Péturssonar, listamanns. Húsið stendur við Bláskóga og er um margt afar sérstakt. Viktor fór yfir sögu hússins og sýndi okkur ýmislegt sem varðveist hefur frá Kristni. Afar fróðleg og skemmtileg kvöldstund.