11. apríl 2016
Það er svo margt skemmtilegt að gerast þessa dagana hér í Hveragerði og nóg um að vera.
Til dæmis voru teikningar að fjórum gistiheimilum lagðar fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd í síðustu viku. Verið er að vinna við innréttingu veitingastaðar þar sem áður var Café Rose og fyrstu teikningarnar að húsum á Grímsstaðareitnum fara að líta dagsins ljós. Svo fátt eitt sé talið.
Ekki síður er ánægjulegt að nú liggur fyrir ársreikningur Hveragerðisbæjar fyrir árið 2015. Niðurstaðan er mun betri en ég þorði að vona. Rekstrarafkoma ársins hjá samstæðu (A og B hluta) er jákvæð uppá kr. 19,9 mkr og A hlutinn skilar 8 mkr í jákvæða niðurstöðu. Miðað við þær miklu launahækkanir sem hér voru á síðasta ári, breytingu á færslu lífeyrissjóðsskuldbindinga og ýmissa annarra þátta er þetta góð niðurstaða sem íbúar, starfsmenn, stjórnendur stofnana og bæjarstjórn getur verið stolt af.
Í dag voru hér fundir um ferðamál og framkvæmdir í Hveragarðinum. Þar er nú verið að vinna að viðbótum við garðinn sem vonandi koma til með að laða til sín enn fleiri gesti. En goshver og tilgátuhús eru þar á prjónunum. Við vonumst til þess að goshverinn geti farið að láta á sér kræla fyrir miðjan maí.
Funduðum einnig um framkvæmdir við Hamarshöll en þar á að malbika hluta af bílastæðinu í sumar. Þar ætlum við að malbika þetta stóra plan í áföngum enda er það fjárhagslega yfirstíganlegt með þeim hætti.
Við Lárus tókum hjólin út í gærkvöldi og nú hjólaði ég í vinnuna og á meirihlutafundinn í kvöld. Tjaldurinn er líka kominn á Varmá og sást meira að segja hér við Mánamörkina í dag. Vorið er á næsta leyti, það er svo augljóst. Bíllinn líka kominn á sumardekkin svo það er eins gott :-)
Comments:
Skrifa ummæli