19. apríl 2016
Byrjaði daginn á því að ræða um hin ýmsu mál við Guðmund, skipulags- og byggingafulltrúa. Það er heilmikið um að vera í hans deild þessa dagana og sem dæmi má nefna þá fjallaði bæjarstjórn í síðustu viku um leyfisveitingar fyrir 70 gistirýmum á 4 stöðum. Þarna er um að ræða efri hæðina á pósthúsinu í miðbænum sem breytast mun í hostel. Gamla Þinghúskaffi gengur nú í endurnýjun lífdaga en verið er að innrétta gistingu þar. Einbýlishús sem verið hefur í byggingu við Heiðmörk síðan fljótlega upp úr aldamótum mun verða gistiheimili og hjónin Sísí og Smári sem reka Varmi guesthouse hafa lagt fram hugmyndir um gistiheimili á lóð sem þau fengu úthlutað á horni Varmahlíðar og Bláskóga.
Sjálfbær ræktun, mikilvægi nálægðar fólks við náttúruna og miklir möguleikar sem fólgnir eru í sívaxandi ferðamannastraumi voru efni viðtals fyrir hádegi. Það verður fróðlegt að sjá hvað það gæti leitt af sér.
Fékk heimsókn frá Reitum fyrir hádegi þar sem við fórum yfir möguleika tengda bæjarskrifstofunum.
Þar hafa fæðst nokkuð góðar hugmyndir sem er vel þess virði að þróa aðeins áfram.
Fundur í kjörnefnd Héraðsnefndar Árnesinga hér eftir hádegi en í næstu viku er vorfundur fulltrúaráðs og þar er áskilið að kjósa skuli framkvæmdastjón og í önnur laus embætti.
Góður en langur fundur um endurskoðun aðalskipulagsins sem nú er í gangi síðdegis. Þar voru kynnt fyrstu drög að umferðarskýrslu og eins lögð lokahönd á kynningu skipulagsráðgjafa um sjálfa endurskoðunina. Íbúafundur um endurskoðunina verður á þriðjudagskvöldið í næstu viku og eru íbúar hvattir til að mæta.
Í gærkvöldi var síðan fundur í stjórn Listasafns Árnesinga þar sem gengið var frá ársreikningi safnsins. Gaman að geta þess að gestir safnsins voru um 12.000 á síðasta ári sem telst nokkuð gott.
Comments:
Skrifa ummæli