8. apríl 2016
Bæjarráðsfundur í morgun þar sem mál voru mörg en flest til kynningar.
Hingað kom hópur Færeyinga í morgun til að kynna sér Hamarshöllina sem ávallt vekur mikla athygli og aðdáun þeirra sem hingað koma. Einnig heimsóttu þeir Heilsustofnun sem ekki er síður skemmtilegt.
Eftir hádegi var fundur í starfshópi um byggingu nýs leikskóla. Teikningar eru komnar vel á veg og núna voru leikskólastjórar og fleiri að rýna þær. Vonandi getum við boðið verkið út í maí.
Á fjölmennum starfsmannafundi í Grunnskólanum kynnti Gunnar Gíslason niðurstöður í úttekt sem hann hefur gert á starfsháttum skólans. Þetta var góður fundur og mér fannst svífa yfir vötnum vilji til að taka til hendinni og gera enn betur en áður.
Fundur í stjórn sveitarstjórnarráðs í Valhöll í kvöld. Engir mótmælendur urðu á vegi okkar enda sveitarstjórnarmenn ekki skotmörk mótmælenda. Á fundinn komu þeir Einar Kristinn forseti Alþingis og Guðlaugur Þór alþingismaður og fóru þeir ýtarlega yfir atburði undanfarinna daga og þær væntingar sem bornar eru til næstu mánaða.
Comments:
Skrifa ummæli