17. desember 2015
Bláhver fór í prentun í dag. Nokkuð þykkur og ágætlega efnismikill. Vegna þess hvað hann er seinn á ferðinni í ár verðum við að hlaupa með hann i hús. Stundum er ég svo óendanlega þakklát fyrir landfræðilega smæð Hveragerðisbæjar :-)
Bæjarráðsfundur í morgun þar sem meðal annars var úthlutað lóð í iðnaðarhverfinu. Það hefur ekki verið gert síðan fyrir hrun svo það er ánægjulegt að bætt skuli vera við atvinnuhúsnæði í bænum.
Guðmundur, skipulags- og byggingafulltrúi, sagði mér í morgun að þónokkrir væru að drífa sig að greiða gatnagerðargjöld á lóðum fyrir áramót. Það er allt á fullu í uppbyggingu og þeir sem hafa áhuga á því geta kíkt inná fasteignasölusíðu mbl.is og séð að það eru sárafáar húseignir til sölu í Hveragerði og flestar seljast án auglýsingar þar sem beðið er eftir húsum hér núna.
Fór til Reykjavíkur með Ara Thorarensen, bæjarfulltrúa í Árborg og formanni stjórnar Brunavarna, eftir bæjarráðsfundinn en þar áttum við ásamt Ingibjörgu Harðardóttur, sveitarstjóra í GOGG stefnumót við valda umsækjendur um stöðu slökkviliðsstjóra Árnesþings. Afskaplega frambærilegir menn allir saman og gaman að hitta þann góða hóp sem sækist eftir að stýra slökkviliðinu okkar. Við munum stíga næsta skref í þessum viðræðum á mánudaginn kemur.
Gat rétt kíkt í vinnuna síðdegis, svarað tölvupóstum og sinnt símtölum áður en jólahlaðborð Kjörís hófst á kaffistofunni kl. 17. Þetta var mjög skemmtileg stund og gaman að hitta vinnufélagana fyrrverandi. Það er svo góður hópur sem vinnur hjá Kjörís og heldur mikilli tryggð við fyrirtækið. 34% starfsmanna hefur til dæmis unnið lengur en 15 ár hjá Kjörís og tæplega helmingur eða 47% hefur unnið þar lengur en í 10 ár. Enn skemmtilegra er að segja frá því að starfsmannahópurinn samanstendur af 30% konum en 70% eru karlmenn. Einhverjir hefðu kannski haldið að það væri öfugt en Kjörís er einn fjölmennasti karlavinnustaður bæjarins.
Þessum upplýsingum nappaði ég úr árlegu fréttabréfi Kjöris sem hann Anton á heiðurinn af. Virkilega glæsilega gert, Toni :-)
Kvöldið fór síðan í tiltekt á Heiðmörkinni sem verður framhaldið á morgun. Erum að velta fyrir okkur að hefja búskap á ný þó að það sé nú óendanlega þægilegt að vera komin aftur algjörlega áhyggjulaus í foreldrahús.
Síða úr fréttabréfi Kjörís 2015 ...
Comments:
Skrifa ummæli