16. desember 2015
Heilsufarsmæling í vinnunni í morgun. Ansi ánægð með niðurstöðurnar sem voru fínar á langflestum sviðum. Ákveðið var að bjóða öllum starfsmönnum Hveragerðisbæjar upp á heilsufarsmælingu hjúkrunarfræðings. Þetta mælist sýnist mér afar vel fyrir og er liður í ábyrgri starfsmannastefnu bæjarins.
Ráðstefna um endurmat á yfirfærslu málefna fatlaðs fólks á Hilton Nordica eftir hádegi. Fjöldi erinda fluttur um þau mál sem efst eru á baugi. En fyrst og fremst var fjallað um nýgerðan samning ríkis og sveitarfélaga sem ætti að tryggja sveitarfélögunum 1,5 milljarð til viðbótar inn í málaflokkinn. Ekki mun af veita því tapið á árið 2015 bara hér á Suðurlandi stefnir í 120 mkr.
Ég flutti þarna stutt erindi um málefni heimilismanna á Ási er tilheyra geðsviði Landspítala og einnig um málefni gamla Kópavogshælisins eða deild 18 og 20 á Landsspitala eins og hún heitir í dag. Þessir einstaklingar voru alilr skyldir eftir við yfirfærsluna en ekki er fjallað sérstaklega um þeirra mál né fjármunir settir til breytinga sem víða eru nauðsynlegar.
Til fróðleiks má geta þess að þegar flest var voru um 65 heimilismenn hér á Ási frá geðsviði Landspitala, en nú eru hér 35 einstaklingar. Það er kannski ekki svo undarlegt að þessir einstaklingar hafi í gegnum árin verið áberandi í bæjarfélaginu verandi stórt hlutfall af bæjarbúum. En allt hafa þetta verið góðir einstaklingar sem hafa samlagast ágætlega hér. Ég tel líka að við sem hér búum höfum orðið víðsýnnig og umburðarlyndari fyrir vikið. Það er eiginleiki Hvergerðinga sem ég tel vera afar góðan.
Comments:
Skrifa ummæli