22. apríl 2015
Við Helga, skrifstofustjóri, fórum yfir rekstur bæjarfélagsins fyrstu 3 mánuðina í dag. Vel flestir málaflokkar eru á pari og skýringar á þeim sem eru það ekki. Við kláruðum ekki allt svo framhald verður á þessari vinnu á föstudaginn.
Hitti Sigurð Halldórsson, framkvæmdastjóra Fengs, á góðum fundi í dag. Fengur er spónaverksmiðja og endurvinnslufyrirtæki hér í Hveragerði. Nú hafa þeir fest kaup á verksmiðju PM sem við hér fyrir austan þekkjum betur sem Plastmótun en hún var rekin á Læk í Ölfusi í upphafi og síðar í Gufunesi. Til stendur að setja framleiðsluna upp hér sem skapa mun bæði meiri umsvif og fleiri störf hjá Feng. Það er ánægjuleg þróun.
Heimsótti bókasafnið og átti skemmtilegt spjall við Hlíf, Önnu Kristínu og Andrés sem eru hér á myndinni. Þar er nú afar falleg sýning mynda úr barnabókum sem gefnar voru út á síðasta ári. Hvet alla til að missa ekki af henni.
Síðasta myndin er að strákunum mínum - tekin síðla kvölds þegar Bjarni Rúnar skrapp hingað örstutt í miðju lokahófi körfunnar sem haldið er í kvöld. Þess vegna er hann svona fínn en Albert Ingi ekki :-)
Við Albert vorum svo ljónheppin að vera boðin í grill til Laufyejar og Ella. Það er alltaf notalegt. Á leiðinni heim komum við við í nýju ísbúðinni Gottís. Góður ís og flott búð, vonandi að hún gangi sem allra best. Það er afar jákvætt að nú skuli hafa opnað ísbúð í bæjarfélaginu. Flestum fannst það vanta.
Comments:
Skrifa ummæli