29. febrúar 2016
Mætti í vinnuna í dag eftir veikindin og nóg að gera eins og búast mátti við. Það tekur alltaf óratíma að ganga frá og svara tölvupóstum þegar ekki hefur verið mætt í vinnuna um tíma. Fyrri partur dagsins fór í það. Reyndar fór líka þónókkur tími á skrifstofunni í að ræða atburði og uppákomur helgarinnar, Edduna og Reykjavíkurdætur svo fátt eitt sé talið. Sitt sýndist hverjum eins og oftast áður!
Fundur með Oddi skipulagsráðgjafa eftir hádegi um endurskoðun aðalskipulagsins.
Síðdegis var ég gestur á aðalfundi Sjálfstæðisfélagsins í Grafarvogi og skemmti mér konunglega. Virkilega skemmtilegt fannst mér og gaman að geta látið gamminn geysa utan Hveragerðis um hin ýmsu málefni flokksins, borgarinnar, landsmála og fleira. Sleppti reyndar ekki Hveragerði enda ekki hægt annað en að minnast á minn yndislega heimabæ.
Meirihlutafundur í kvöld - fjölmenni sem var afar gott. Þessi hópur er svo öflugur, afar líflegur, skoðana- og kraftmikill með endemum. Það er einkenni meirihlutans í Hveragerði og það sem gerir hann jafn góðan og raun ber vitni.
----------------
Horfði síðan á Valdimar bróður í stórgóðu viðtali á Hringbraut um Kjörís og landsmálin. Þar var meðal annars rætt um hinn erfiða dag þegar pabbi lést langt um aldur fram. Ég er elst okkar systkina og var þá 29 ára. Sigurbjörg var 18 ára. Ekkert okkar gerði ráð fyrir þeirri atburðarás sem þarna hófst. Sjálfsagt var aldur okkar bara kostur, við vorum alltof ung til að gera okkur grein fyrir þeim breytingum sem þessi atburður hafði á okkur öll og þeirri ábyrgð sem skellt var á ungar herðar. En það er margt sem ég man eftir frá þessum örlagaríku dögum og sumt af því hef ég skrifað niður sem smásögur. Einhvern tíma birti ég það - mögulega - eða ekki?
Ekkert af þessu gleymist en sumt situr fastar en annað. Eitt af því var að fá símhringingu um miðja nóttina eftir að hafa verð send burt um kvöldið! "Þetta er búið, þið getið komið núna". Stíga síðan út úr húsi móðurbróður okkar í Hafnarfirði nóttina sem líffæri pabba voru fjarlægð. Nóttin var þögul, bærinn var þögull. Himininn var stjörnubjartur. Það var fullt tungl. Yfir borgina flaug þota lágflug. Við vissum öll hvað hún var að gera hér um miðja nótt. Sænska læknateymið var á leið úr landi, búið var að slökkva á vélunum og þetta var búið ..... !
Eitt af því fáa sem hægt er að ganga að alveg vísu í þessari tilvist er að enginn sleppur við áföll. Svo heppin erum við fæst. Við getum aftur á móti valið að lifa með þeim og það gerðum við öll - ég er svo óendanlega heppin með fjölskyldu, svo stolt af þeim öllum en allra mest er ég stolt af mömmu klettinum okkar allra sem stendur allt af sér - og stendur alltaf með ungunum sínum öllum. Það er gæfan okkar stóra og mikla !
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 29.2.16
26. febrúar 2016
Kenningin virkaði sérlega illa. Er búin að liggja í flensu alla vikuna en ætla mér að verða orðin góð á mánudaginn. Er búin að lesa allan uppsafnaða blaðabunkann sem þýddi hellings magn af DV. Það gerði ekkert annað en að skilja eftir óbragð í munni. Ekki DV að kenna heldur miklu frekar þeim alltof mörgu fréttum sem þar birtast og gera grein fyrir græðgi og sérhagsmuna pólitík í íslenskum fjármálafyrirtækjum og öðrum stórfyrirtækjum. Ég get ekki að því gert að ég skil ekki hvað nokkur einstaklingur hefur að gera við þær upphæðir sem greiddar eru í bónusa og stjórnarlaun ef þvi er að skipta. Svolítið gaman að segja frá því að núna hafa bæjarfulltrúar hér í Hveragerði allir birt hagsmunaskráningu sína á vef Hveragerðisbæjar. Þar sést að ég sit í stjórnum tveggja fyrirtækja Kjörís og Steingerðis sem bæði eru í eigu fjölskyldu minnar. Þar hafa aldrei verið greidd laun fyrir stjórnarsetu og arðurinn sem endrum og sinnum er greiddur út myndi sjálfsagt tæplega gleðja millistjórnenda í
íslenskum banka !
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 26.2.16
23. febrúar 2016
Afmæli, Strætó, skólinn og garðyrkjan
Snemma í morgun hittumst við Jóhanna, menningar- og frístundafulltrúi og Ari, umhverfisfulltrúi og fórum yfir fyrstu drög að dagskrá fyrir sumarið sem jafnframt er afmælissumarið mikla en Hveragerðisbær fagnar nú 70 ára afmæli. Nefndir munu í kjölfarið fjalla um drögin og breyta og bæta áður en við hefjum skipulagninguna fyrir alvöru. Það verður allavega nóg um að vera og vonumst við eftir virkri þátttöku bæjarbúa enda verður þetta ekkert skemmtilegt án þess :-)
Rýnihópur um almenningssamgöngur á Suðurlandi hittist í morgun en hann dæmdist á okkur Ástu í Árborg vegna fyrri afskipta okkar af almenningssamgöngum. Ásta var reyndar fjarri góðu gamni en það var sérlega gaman að hitta aftur hann Hörð sem vann svo mikið með okkur í upphafi þegar við byrjuðum þessa vegferð Hveragerði og Árborg í samvinnu við Strætó. Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan og nú tekur kerfið yfir allt Suðurland frá Reykjavík til Hafnar. Það er nokkuð vel gert !
Átti góðan fund með Gunnari Gíslasyni sem nú vinnur sem ráðgjafi að því að efla og bæta skólastarfið hér í Hveragerði. Hann er reynslubolti sem kann sitt fag svo það verður spennandi að fylgjst með framhaldi starfa hans hér.
Síðdegis var stór fundur hér á bæjarskrifstofunni með forsvarsmönnum garðyrkjunnar á Íslandi, garðyrkjubændum í Hveragerði, bæjarfulltrúum og starfsmönnum. Ræddum við stöðu, horfur, nýliðun, menntunina, framtíðina, ógnanir og tækifæri á afskaplega góðum og hreinskiptum fundi. Það er ljóst að miklar breytingar hafa orðið í þessari grein á undanförnum árum og þarna er að gerast það sama og víða annars staðar að þeir stóru verða stærri en hinir þurfa að finna sér einhverja sérstöðu eigi þeim að vegna vel. Einnig er tæknin orðin þannig að í dag þarf til dæmis ekki nema 7.000 m2 undir gleri til að framleiða allt það magn af agúrkum sem þjóðin borðar á ári. Þetta vissi ég ekki !
En bæjarstjórn verður gerð grein fyrir helstu punktum þessa fundar svo umræðunni er langt í frá lokið.
Kláraði síðan fundargerðir bæði þessa funds og leikskólafundar frá því fyrir helgi. Hef þá trú að ef ég bara hangi nógu lengi í vinnunni þá muni pestin sem hótað hefur að taka sér bólfestu í allan dag ekki ná mér. Spurning hversu gáfuleg þessi kenning er :-)
Verð síðan að deila með ykkur þessari stórkostlegu mynd sem tekin var úr flugvél yfir Hveragerði í síðustu viku. Meiriháttar sjónarhorn af fallega bænum okkar !
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 23.2.16
22. febrúar 2016
Leikskólar og konudagurinn með besta ....
Síðastliðinn föstudag hitti ég leikskólastjórana til að fara yfir biðlista barna eftir leikskólaplássi. Er skemmst frá því að segja að öllum börnum var raðað inn á leikskólana tvo og munu því öll börn sem nú eru á biðlista fá tilboð um leikskólavistun í sumar eða í haust. Áformað er að bjóða uppá leikjanámskeið í sumar fyrir yngstu grunnskólabörnin og eins og í fyrra mun elsta árgangi leikskólans bjóðast að vera þar gjaldfrjálst. Reyndar þarf að greiða fyrir mat en það þykir nú flestum sjálfsagt. Með því að elstu börnin taki þátt í leikjanámskeiðinu ætti að vera hægt að taka þau yngstu aðeins fyrr inn á leikskólann.
Á föstudaginn hittum við einnig arkitekta að nýjum leikskóla og fórum yfir óskir og væntingar til nýrrar leikskólabyggingar. Nú þarf að teikna leikskólann fljótt og vel svo útboð geti farið fram hið allra fyrsta.
Hin árlega "krosssaumshelgi" var um síðustu helgi i sumarbústað hér í Ölfusinu. Þá hittist tugur kvenna sem á það sameiginlegt að vera vinkonur Gunnu og Svövu og iðkar æðri hannyrðir heila helgi. Mikið sem þetta er skemmtilegt og við erum fyrir löngu orðnar góðar vinkonur allar saman ! Fólk trúir því ekki að við séum að prjóna og sauma en heldur að við liggjum bara í pottinum með hvítt í glasi og Sigga Hlö á línunni. En þannig er það sem sagt aldeilis ekki !
Konudagsmorgunverður á leikskólanum Undralandi og Haraldur Fróði bauð slatta af konunum í lífi sínu í heimsókn. Eins og sést á myndinni þá elskar hann enga jafn mikið og Vigdísi og Hafrúnu. En þarna eru semsagt, mamman, amman, langamman og ömmusystirin ! Virkilega góð stund...
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 22.2.16
19. febrúar 2016
Bæjarráðsfundur í morgun þar sem m.a. Davíð Samúelsson mætti og fór yfir þá vinnu sem hann hefur innt af hendi að undanförnu. Meðal annars er hann að útbúa "gos" í Hveragarðinum og tókust tilraunir sem fram fóru nýlega afskaplega vel. Um leið og frost fer úr jörðu verður hægt að setja upp goshverinn sem á að hvetja til heimsókna ferðamanna í sumar. Ekki veitir af að búa til nýja og fleiri segla í ferðaþjónustunni ef miða á við umræðu undanfarinna daga. Ennfremur er Davíð að vinna að gerð stórs sameiginlegs skiltis við Breiðumörkina sem kynna á þá þjónustu sem er í bæljarfélaginu. Með því móti vonumst við til að laus skilti í og við innkeyrsæuna í bæinn hverfi !
Ráðstefna megnið af deginum þar sem fjallað var um ný lög um opinber fjármál en einnig var þar óvænt tekin umræða um útdeilingu bankaskattsins svokallaða til sveitarfélaganna. Þar hef ég verið á þeirri skoðun að ekki eigi að útdeila þessum fjármunum með hliðsjón af útsvarsgreiðslum íbúa heldur í samræmi við reglur Jöfnunarsjóðs eins og alltaf hefur verið gert með þá fjármuni sem runnið hafa í sjóðinn.
Mótmælti ég þess vegna því frumvarpi sem nú líggur fyrir um breytt fyrirkomulag við útdeilinga þessara peninga. Ef að frumvarpið yrði samþykkt myndi það þýða að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu myndu fá megnið af þeim fjármunum sem hér um ræðir. En hlutverk Jöfnunarsjóðs er að jafna tekjur á milli sveitarfélaga og að mínu mati fer tekjujöfnun ekki fram með þeim hætti að láta þá fá meira sem þegar hafa meira og auka þannig mun á aðstöðu og þjónustu á milli þeirra sem hafa meira, á kostnað þeirra sem hafa minna og enga eða litla möguleika til að auka sínar tekjur.
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 19.2.16
18. febrúar 2016
Nokkuð langur vinnufundur í morgun með Oddi Hermannssyni, skipulagsráðgjafa og Guðmundi skipulagsfulltrúa. Við erum að hefja vinnuna við endurskoðun aðalskipulags Hveragerðisbæjar og að mörgu að hygga á þeim vettvangi. Eftir hádegi hittum við arkitekta að endurbótum á Sundlauginni í Laugaskarði og settum þá vinnu í fastan farveg. Efri hæðin verður fullhönnuð og verður verkið væntanlega boðið út í sumar og framkvæmdir gætu þá hafist í október/nóvember. Í þessum fyrsta áfanga á að endurskipuleggja efri hæðina, breyta afgreiðslunni, opna út á svalir fyrir almenning, setja lyftu og fleira. En öll hæðin verður endurhönnuð.
Sólarkaffi í Hamarshöllinni er orðið árlegur viðburður. Eini staðurinn hér í bæ þar sem ástæða er til að fagna þegar sólargeislar baka húsþakið á ný. Góð stund í enn betri félagsskap :-)
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 18.2.16
16. febrúar 2016
Nú styttist óðum í árshátíð starfsmanna Hveragerðisbæjar sem haldin verður á Hótel Örk þann 12. mars. Af því tilefni hefur skemmtinefndin óskað eftir fermingarmyndum af starfsmönnum, eins og þær séu nú eitthvað augnayndi. En ég ákvað samt að deila minni með ykkur, en mögulega fæ ég sömu viðbrögð og frá samstarfsfólkinu hér á bæjarskrifstofunni ? ? ? Bjarni Rúnar er nú bara alveg eins og þú ! Guð hvað Bjarni Rúnar er líkur þér! ... og það allra besta ! Þú gætir nú alveg verið strákur þarna ! ! !
Fólk er augljóslega ekki eins kurteist og áður...
Það verð ég að segja :-)
En annars er þetta lang BESTA fermingarmyndin af mér. Varð þó að fara tvisvar þar sem fyrra skiptið mistókst algerlega. Mér hefur óneitanlega farið nokkuð fram hvað varða samskipti við myndavélar síðan þetta var :-)
--------
Annars var þetta góður dagur. Náði að sinna alls konar málum fyrripart dags en kl. 15 var starfsmannafundur í grunnskólanum þar sem við Birkir, formaður fræðslunefndar, kynntum til leiks Gunnar Gíslason, ráðgjafa, sem ætlar að vinna með starfsmönnum skólans að því að gera skólann okkar enn betri en áður.
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 16.2.16
15. febrúar 2016
Elska svona daga þegar enginn fundur er skráður. Þarf ekki að vera "fín" í vinnunni og get plægt mig í gegnum haugana af verkefnum sem oftar en ekki safnast upp. Setti upp reglur um fatapeninga FOSS starfsmanna á leik- og grunnskólum. Sendi af stað nýjan samning við foreldrafélag grunnskólans og renndi yfir annan við íþróttafélagið Hamar. Las og velti vöngum yfir endurskoðun aðalskipulags bæjarins og fyrirkomulagi þess svo fátt eitt sé talið.
En annars verður færslan í dag ansi stutt þar sem ég er svo óhemju syfjuð :-) Ég finn alveg fyrir því ða hafa vaknað kl. 5:45 til að fara í klukkutíma zumba tíma og svo aftur kl. 19 í annan en þá meiri lyftingar.
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 15.2.16
14. febrúar 2016
Gríðarlega annasöm og skemmtileg helgi að baki. Hápunkturinn klárlega 50 ára afmælisveisla Valdimars bróður á Örkinni. Virkilega skemmtilegt og mikið fjör frameftir nóttu :-) Mér fannst okkur systrum takast vel upp þegar við í samvinnu við Hafstein hennar Guðrúnar systur (tilv. vélstjóra og vélakall) gáfum honum vélsleða í afmælisgjöf ! ! !
En áður en veislan byrjaði hafði mér tekist að fara í zumba, í opið hús Sjálfstæðismanna, í heimsókn til Laufeyjar minnar sem ennþá er lasin, að afhenda síðustu bókina til barns sem fæddist í fyrra, heimsækja Sigurbjörgu systur og fá síðdegiste hjá Svövu vinkonu áður en við við síðan prufukeyrðum vélsleðann og kíktum á undirbúninginn á Örkinni... Þetta fannst mér vel að verki staðið :-)
Við systur laumuðumst til að skoða framkvæmdirnar í anddyri og matsal Hótels Arkar og þetta verður ótrúlega flott sýnist mér ! Hlakka til að sjá þetta þegar verkinu er lokið.
Við eigum svo mikið af yndislegum nágrönnum en það er svo dýrmætt. Sabine og Úlfur eru ein af þeim og heimsókn okkar til þeirra í dag var svo skemmtileg. Mikið hlegið og spjallað. Kíktum síðan aðeins við hjá afmælisbarni gærdagsins en þar voru stórfjölskyldur bæði Sigrúnar og Valda staddar að skoða gjafir og kveðja Hafstein, Kristján og Guðbjörgu sem öll halda aftur til Danmerkur á morgun. Við aftur á móti fórum síðan frekar snemma til Reykjavíkur og heimsóttum góða vini áður en við fórum í leikhúsið að sjá Flóð. Frábær sýning sem full ástæða er til að mæla með þó hún sé ansi átakanleg eins og gefur að skilja.
Nú er það bara þannig að ef maður er Íslendingur og/eða ætlar að búa á Íslandi þá eru Njála og Flóð í Borgarleikhúsinu hreinlega skylduverkefni sem enginn ætti að missa af ...
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 14.2.16
12. febrúar 2016
Nýr leikskóli verður byggður !
Á fundi bæjarstjórnar í dag var samþykkt að fá ASK arkitekta til að hanna nýjan sex deilda leikskóla að Þelamörk 62. Leikskólinn verður ekki ósvipaður Leikskólanum Hulduheimum á Selfossi en það þykir starfshópi um byggingu leikskóla vera vel lukkuð bygging.
Gert verður ráð fyrir að börn frá 12 mánaða aldri fái boð um leikskólavistun í stað 18 mánaða eins og nú er. Nokkrar umræður urðu um þetta aldursviðmið á fundinum enda kom minnihlutinn með tillögu um að börn yrðu tekin inn á leikskólann frá 9 mánaða aldri.
Í máli okkar í meirihlutanum kom fram að við viljum byrja á 12 mánaða loforði til foreldra og forráðamanna og því gátum við ekki samþykkt að lofa öllum vistun frá 9 mánaða aldri.
Við vonum auðvitað líka að alþingismenn sjái sóma sinn í því að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði enda teljum við að flestir myndu helst vilja njóta meiri samvista við börn sín frekar en að lengja enn þann tíma sem börnin dvelja á leikskóla. Við gerum okkur aftur á móti glögga grein fyrir því að aðstæður eru mismunandi hjá fjölskyldum og því er engum hurðum lokað. Nýr leikskóli verður hannaður með þarfir yngstu barnanna í huga og því viljum við sjá hvernig þessi mál þróast á næstu misserum frekar en að gefa einhver loforð í dag. Það er ekki þar með sagt að yngri börn en 12 mánaða muni ekki komast á leikskóla. Við viljum bara stíga eitt skref í einu og töldum að við værum að gera góða hluti sem þar fyrir utan væru í samræmi við stefnuskrár allra flokka hér í Hveragerði eins þær voru kynntar í aðdraganda síðustu kosninga.
Í ljósi þess að það kom ítrekað fram að hönnun gerði ráð fyrir yngstu börnunum og að engum dyrum væru í raun lokað kom þessi umræða á fundinum í dag mér mjög á óvart, verð ég að segja !
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 12.2.16
10. febrúar 2016
Hvolsvöllur enn og aftur :-)
Þrisvar í viku vakna ég kl. 5:45 en sá tími dugir mér til að ég sé komin í zumba kl. 6:00. Kallar á skipulag þannig að íþróttafötin, vatnsbrúsinn og skórnir er allt á sínum stað tilbúið frá kvöldinu áður.
Hafði samband við nokkra forsvarsmenn garðyrkjunnar hér á landi í morgun með það fyrir augum að boða þá til fundar um stöðu garðyrkjunnar og þá sérstaklega hér í Hveragerði. Bæjarráð fól mér þetta verk í nóvember og því ekki seinna vænna en að koma þessu í verk. Tók allur hópurinn vel í erindið og mun ég kynna bæjarfulltrúum fundartíma og tillögu að fyrirkomulagi fundarins á morgun.
Heimsótti grunnskólann, átti gott spjall við Fanneyju skólastjóra, og rápaði síðan aðeins um skólann, tók myndir og naut öskudagsins.
Uppúr 11 þurfti ég síðan að leggja af stað á Hvolsvöll, aftur og nýbúin, á fund um skipulagsbreytingar SASS, ljósleiðaravæðingu sveitanna og almenningssamgöngur. Gat þarna komið á framfæri athugasemdum við gjaldskrárhækkanir og ekki síst aksturslag bílstjóranna sem of oft virðast ekki aka í samræmi við aðstæður. Slíkt er óforsvaranlegt og forsvarsmönnum Strætó ber að sjá til þess að slíkt gerist ekki.
Öskudagurinn í dag og við redduðum okkur fyrir horn á bæjarskrifstofunni með höttum og höfuðfötum! Þessi flotta mynd sló í gegn á fésbókinni í dag :-)
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 10.2.16
9. febrúar 2016
Almannavarnir og afmæli
Heyrði í Jóhanni Ísleifssyni í morgun en eldur kviknaði í gróðarstöðinni hans í síðustu viku. Ég var afar ánægð að heyra að svo virðist sem betur hafi farið en á horfðist í fyrstu og stöðin ætti að vera komin í gang aftur eftir um 2 mánuði. Það voru góðar fréttir !
Undirbjó fundarboð bæjarráðs áður en við Helga þurftum að fara á fund á Hvolsvelli þar sem Almannavarnanefndir og sveitarstjórar höfðu verið boðaðar til fundar um stöðu mála í þeim efnum.
Starfsmenn Veðurstofu fóru yfir helstu náttúruvár á svæðinu í fróðlegu erindi. Ljóst að eldgos og jarðskjálftar eru hættur sem að svæðinu steðja. En sennilega er ein mesta ógnin falin í umferðinni. Vegakerfið ber ekki lengur þá miklu umferð sem um það fer og slys eru alltof alltof tíð og því miður alvarleg.
Í kvöld hittumst við fjölskyldan hjá Guðrúnu í saltkjöti og baunum þar sem við fögnuðum afmælum Valdirmar og Guðrúnar en þau eiga bæði afmæli í dag. Valdimar fagnar hálfri öld og það stefnir því í gleði á laugardaginn :-)
Þessi frábæra mynd af pabba með mig og Valdimar hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli á fésbókinni í dag! Ákvað að leyfa ykkur að sjá hana líka !
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 9.2.16
8. febrúar 2016
Leikskóli og japanska sendiráðið
Starfshópur um byggingu nýs leikskóla hittist í morgun og brunaði á Selfoss þar sem við fengum höfðinglegar móttökur í Leikskólanum Hulduheimum. Það er afskaplega fallegur leikskóli, frekar hefðbundinn en með öll þau rými sem þurfa að vera og tilheyra þessari starfsemi. Man ekki hvort ég var búin að hafa orð á því en það er auðvitað fyrir löngu búið að finna upp hjólið í þessum efnum og svo sem ekki tilefni til þess að við förum að gera það líka! Eftir heimsóknina á Selfoss áttum við góðan fund þar sem við fórum yfir greinargerð hópsins sem verður lögð fyrir bæjarstjórn í vikunni. Þar munu tillögur okkar um uppbygginguna liggja fyrir svo vonandi getur hönnun og í kjölfarið útboð á byggingunni farið fram.
Náði stuttu stoppi á skrifstofunni enda átti ég að vera mætt í hádegisboð í japanska sendiráðinu kl. 12. Sendiherrann frú Mitsuko Shino hefur komið hingað til Hveragerðis með gesti frá Japan og því höfum við kynnst ágætlega. Eyþóri, forseta bæjarstjórnar var einnig boðið ásamt Guðrúnu systur, en hún er eins og flestir vita formaður Samtaka iðnaðarins. Þetta var mjög skemmtileg stund og áttum við afar góðar samræður um muninn sem er á þessum þjóðum og þær áskoranir sem við er að glíma. Þar er þeirra helsta fólksfækkun en þar stöndum við okkur betur. Verð að geta þess að þarna borðaði ég m.a. í fyrsta sinn makríl ! Mikið lostæti verð ég að segja, grillaður og saltur og alls ekki eins feitur og ég hafði heyrt um. Spurning hvort að kokkurinn á mínu heimili geti ekki reddað nokkrum makríl bitum fyrir grilltímann í sumar !
Annars læt ég fylgja tvær myndir og fyrir tilviljun eru þær báðar af Eyþóri :-) Á þeirri fyrri er hann að máta almannavarnabúnað japanskra barna, en svona hetta leynist í sessu sem öll börn og ungmenni í Japan fá afhent og hafa meðferðis í skólanum sínum. Ef að jarðskjálfti eða aðrar hamfarir ríða yfir bregða þau hettunni yfir höfuðið og eru þau þá varin fyrir fallandi hlutum. Á hinni myndinni er Eyþór að prófa teaðstöðuna í sendiráðinu með frú Shino. Hnén á mér leyfa því miður ekki tedrykkju til lengdar við þessar aðstæður. En Eyþór er auðvitað alvanur svona óþægindum úr jóganu sem hann hefur stundað af kappi til fjölda ára.
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 8.2.16
7. febrúar 2016
Fimmtugsafmæli og brúðkaup !
Líf og fjör alla helgina. 50 ára afmæli Davíðs Samúelssonar var stórkostleg skemmtun sem entist langt fram eftir nóttu. Á sunnudeginum fórum við síðan í brúðkaup Elmars og Steffíar, en Elmar er bróðursonur Lárusar. Það var gaman að fá að vera þátttakandi með yndislegri fjölskyldu að þessum gleðilega viðburði. Innilega til hamingju öll sömul :-
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 7.2.16
5. febrúar 2016
Skóla- og velferðarþjónustan flutt í Arion banka
Í morgun fórum við starfsmenn bæjarskrifstofu í heimsókn til Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings en þær fluttu í vikunni á efri hæð Arion banka við Breiðumörk. Það eru semsagt komnir 7 starfsmenn á efri hæðina, sálfræðingar, kennslufræðingar, sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks og talmeinafræðingu auk forstöðmannsins hennar Maríu. Það fer afskaplega vel um hópinn og ekki hægt að segja annað að nú hafi þær eitt besta útsýni bæjarins. Við munum klárlega sakna þeirra úr nágrenninu en núna mun hefjast undirbúningur að flutningi Arion banka hingað í verslunarmiðstöðina þar sem bankinn ætlar að hreiðra um sig í húsnæði Vinnueftirlitsins og "fiskbúðarinnar".
Eftir hádegi áttum við góða fundi um endurskoðun aðalskipulags bæjarins sem hafiið er. Við hittum sérfræðinga varðandi umferðaröryggi sem munu skoða þau mál og endurskoða bæði skýrslu og aðgerðaráætlun sem gerð var fyrir margt löngu hér í Hveragerði. Meðal annars báðum við þær sérstaklega um að skoða hraðatakmarkandi aðgerðir á helstu götum bæjarins enda er það eitt "heitasta" mál bæjarbúa oft á tíðum og gott að fá álit og tillögur sérfræðinga. Einnig áttum við fund með Oddi Hermannssyni sem vann síðasta aðalskipulag og mun vinna með okkur að endurskoðuninni.
Það er margt sem þarf að skoða og taka tillit til við endurskoðunina, þétting byggðar, ný byggingasvæði, göngustígar og útivistarsvæði og fleira.
Haraldur Fróði fékk að gista hjá ömmu og afa. Sofnaði með honum um kl. 21 og vaknaði ekki fyrr en snemma morguninn eftir. Manni hefnist fyrir zumbað kl. 6 suma daga :-)
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 5.2.16
4. febrúar 2016
Legið yfir leikskólamálum :-)
Fundur í starfshópi um byggingu nýs leikskóla síðdegis í dag. Missti mig aðeins í að skoða netið og fann þá meðal annars þennan flotta leikskóla í París.
Held við byggjum samt ekki í þessum stíl :-)
Skrifaði einnig drög að greinargerð starfshópsins sem hefur átt nokkra fundi og farið í góða skoðunarferð. Á mánudaginn munum við heimsækja leikskóla á Selfossi sem við höfum heyrt að sé afar vel hannaður.
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 4.2.16
3. febrúar 2016
Fasteignaskattur og ferðaþjónusta
Hér í Hveragerði eins og víða annars staðar finnast húseignir sem leigðar eru til ferðamanna í heild eða að hluta. Við höfum ekki gert athugasemdir við notkun húsa í þessum tilgangi en að undanförnu höfum við sent þessum aðilum bréf með það fyrir augum að kanna hversu stór hluti viðkomandi húss er nýttur sem gistiheimili/heimagisting og í hversu langan tíma. Í kjölfarið verður álagningu fasteignaskatts breytt í samræmi við lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 þar sem kemur fram að fasteignaskattur af mannvirkjum sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu skal vera í flokki C. Á grundvelli þeirra laga var sett reglugerð um fasteignaskatt, nr. 1160/2005 þar sem kveðið er nánar á um framkvæmd, svo sem þegar hlutar fasteignar eru í mismunandi notkun eða hún er nýtt hluta árs til ferðaþjónustu. Hér virðast vera um að ræða á annan tug eigna og mikilvægt er að greiðslur fasteignagjalda séu í samræmi við raunverulega notkun hússins. Þannig reynum við að tryggja jafnræði innan atvinnugreinarinnar en erum ekki að koma í veg fyrir þessa útleigu alls ekki !
-------
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 3.2.16
2. febrúar 2016
Af ballett og Búllunni !
Ákvað að setja þessa mynd inn hér svo ég myndi ekki gleyma því að í París í desember sáum við síðustu uppfærsu Rudolf Nureyev á balletinum La bayadere. Algjörlega stórkostlegt enda risavaxin sýning i Bastillu óperunni. Ekki oft sem maður sér svona marga dansara á sviðinu í einu !
Í morgun fórum við Árni Eiríksson, oddviti þeirra Flóamanna, á fund með fulltrúum Landverndar þar sem við ræddum framtíð Alviðru og Öndverðarness. Við erum skipuð í þessa vinnu af Héraðsnefnd Árnesinga en jörðunum var ánafnað til þessara aðila um 1980 með stífum kvöðum sem við erum nú að skoða og þá möguleika á nýtingu sem þarna gætu legið.
Það var gaman að sjá forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag en þar var fjallað um útrás Hamborgarabúllunnar. Nú hefur ein slík opnað í Osló en áður eru búllur komnar í Berlín, Köben, Malmö og London og þess að vera hér heima. Ég væri nú tæpast að dáðst að þessu nema bara af því að Kjörís flytur út ís til allra þessara staða. Þannig að hér hefur á örskömmum tíma myndast stærsti útflutningur Kjörís á ís. Enda segir Tommi að betri ís en Kjörís sé vandfundinn - þar erum við sammála :-)
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 2.2.16
1. febrúar 2016
Alltof oft til Reykjavíkur !
Fundir í Reykjavík hafa verið daglegt brauð marga undanfarna daga. Þarf nauðsynlega að ná að stilla þá betur saman svo að ég þurfi ekki að fara í bæinn á hverjum degi. Það er nefnilega afar hvimleitt. Var til dæmis á fundi bænum fyrir hádegi í dag og verð síðan að mæta aftur á morgun og á enn einn fundinn næsta fimmtudag. Þetta slítur ansi í sundur vinnudaginn fyrir manni.
Annars þurfti að sinna málefnum grunnskólans í dag, hitta skemmtilega íbúa sem hingað komu og kvitta undir samning við Curron sem komið er vel í gang með þróun hugbúnaðar fyrir heimaþjónustu. Ég er afar heilluð af þeim möguleikum sem það kerfi gefur.
Einnig þurfti að pússla saman fundarboði bæjarráðs og vinna í undirbúningi þess fundar en meirihlutinn hittist á góðum fundi kl. 17.
--------------
Það hefur verið gaman að fylgjast með ánægju bæjarbúa með mokstur gangstétta og göngustíga að undanförnu. Hér hefur ungur maður nefnilega keypt sér fjórhjól og snjótönn sem hentar vel til moksturs þessara svæða og brunar hér um allt og gerir fínt í samvinnu við starfsmenn áhaldahúss. Frábært framtak sem nýtist öllum vel.
--------
Þessi eðalfagri köttur er alveg að verða þolanlegur. Þetta er svo flott mynd af honum að ég varð bara að deila henni með ykkur :-)
# posted by Aldís Hafsteinsdóttir @ 1.2.16