5. febrúar 2016
Skóla- og velferðarþjónustan flutt í Arion banka
Í morgun fórum við starfsmenn bæjarskrifstofu í heimsókn til Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings en þær fluttu í vikunni á efri hæð Arion banka við Breiðumörk. Það eru semsagt komnir 7 starfsmenn á efri hæðina, sálfræðingar, kennslufræðingar, sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks og talmeinafræðingu auk forstöðmannsins hennar Maríu. Það fer afskaplega vel um hópinn og ekki hægt að segja annað að nú hafi þær eitt besta útsýni bæjarins. Við munum klárlega sakna þeirra úr nágrenninu en núna mun hefjast undirbúningur að flutningi Arion banka hingað í verslunarmiðstöðina þar sem bankinn ætlar að hreiðra um sig í húsnæði Vinnueftirlitsins og "fiskbúðarinnar".
Eftir hádegi áttum við góða fundi um endurskoðun aðalskipulags bæjarins sem hafiið er. Við hittum sérfræðinga varðandi umferðaröryggi sem munu skoða þau mál og endurskoða bæði skýrslu og aðgerðaráætlun sem gerð var fyrir margt löngu hér í Hveragerði. Meðal annars báðum við þær sérstaklega um að skoða hraðatakmarkandi aðgerðir á helstu götum bæjarins enda er það eitt "heitasta" mál bæjarbúa oft á tíðum og gott að fá álit og tillögur sérfræðinga. Einnig áttum við fund með Oddi Hermannssyni sem vann síðasta aðalskipulag og mun vinna með okkur að endurskoðuninni.
Það er margt sem þarf að skoða og taka tillit til við endurskoðunina, þétting byggðar, ný byggingasvæði, göngustígar og útivistarsvæði og fleira.
Haraldur Fróði fékk að gista hjá ömmu og afa. Sofnaði með honum um kl. 21 og vaknaði ekki fyrr en snemma morguninn eftir. Manni hefnist fyrir zumbað kl. 6 suma daga :-)
Comments:
Skrifa ummæli