3. febrúar 2016
Fasteignaskattur og ferðaþjónusta
Hér í Hveragerði eins og víða annars staðar finnast húseignir sem leigðar eru til ferðamanna í heild eða að hluta. Við höfum ekki gert athugasemdir við notkun húsa í þessum tilgangi en að undanförnu höfum við sent þessum aðilum bréf með það fyrir augum að kanna hversu stór hluti viðkomandi húss er nýttur sem gistiheimili/heimagisting og í hversu langan tíma. Í kjölfarið verður álagningu fasteignaskatts breytt í samræmi við lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 þar sem kemur fram að fasteignaskattur af mannvirkjum sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu skal vera í flokki C. Á grundvelli þeirra laga var sett reglugerð um fasteignaskatt, nr. 1160/2005 þar sem kveðið er nánar á um framkvæmd, svo sem þegar hlutar fasteignar eru í mismunandi notkun eða hún er nýtt hluta árs til ferðaþjónustu. Hér virðast vera um að ræða á annan tug eigna og mikilvægt er að greiðslur fasteignagjalda séu í samræmi við raunverulega notkun hússins. Þannig reynum við að tryggja jafnræði innan atvinnugreinarinnar en erum ekki að koma í veg fyrir þessa útleigu alls ekki !
-------