12. febrúar 2016
Nýr leikskóli verður byggður !
Á fundi bæjarstjórnar í dag var samþykkt að fá ASK arkitekta til að hanna nýjan sex deilda leikskóla að Þelamörk 62. Leikskólinn verður ekki ósvipaður Leikskólanum Hulduheimum á Selfossi en það þykir starfshópi um byggingu leikskóla vera vel lukkuð bygging.
Gert verður ráð fyrir að börn frá 12 mánaða aldri fái boð um leikskólavistun í stað 18 mánaða eins og nú er. Nokkrar umræður urðu um þetta aldursviðmið á fundinum enda kom minnihlutinn með tillögu um að börn yrðu tekin inn á leikskólann frá 9 mánaða aldri.
Í máli okkar í meirihlutanum kom fram að við viljum byrja á 12 mánaða loforði til foreldra og forráðamanna og því gátum við ekki samþykkt að lofa öllum vistun frá 9 mánaða aldri.
Við vonum auðvitað líka að alþingismenn sjái sóma sinn í því að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði enda teljum við að flestir myndu helst vilja njóta meiri samvista við börn sín frekar en að lengja enn þann tíma sem börnin dvelja á leikskóla. Við gerum okkur aftur á móti glögga grein fyrir því að aðstæður eru mismunandi hjá fjölskyldum og því er engum hurðum lokað. Nýr leikskóli verður hannaður með þarfir yngstu barnanna í huga og því viljum við sjá hvernig þessi mál þróast á næstu misserum frekar en að gefa einhver loforð í dag. Það er ekki þar með sagt að yngri börn en 12 mánaða muni ekki komast á leikskóla. Við viljum bara stíga eitt skref í einu og töldum að við værum að gera góða hluti sem þar fyrir utan væru í samræmi við stefnuskrár allra flokka hér í Hveragerði eins þær voru kynntar í aðdraganda síðustu kosninga.
Í ljósi þess að það kom ítrekað fram að hönnun gerði ráð fyrir yngstu börnunum og að engum dyrum væru í raun lokað kom þessi umræða á fundinum í dag mér mjög á óvart, verð ég að segja !
Comments:
Skrifa ummæli