23. febrúar 2016
Afmæli, Strætó, skólinn og garðyrkjan
Snemma í morgun hittumst við Jóhanna, menningar- og frístundafulltrúi og Ari, umhverfisfulltrúi og fórum yfir fyrstu drög að dagskrá fyrir sumarið sem jafnframt er afmælissumarið mikla en Hveragerðisbær fagnar nú 70 ára afmæli. Nefndir munu í kjölfarið fjalla um drögin og breyta og bæta áður en við hefjum skipulagninguna fyrir alvöru. Það verður allavega nóg um að vera og vonumst við eftir virkri þátttöku bæjarbúa enda verður þetta ekkert skemmtilegt án þess :-)
Rýnihópur um almenningssamgöngur á Suðurlandi hittist í morgun en hann dæmdist á okkur Ástu í Árborg vegna fyrri afskipta okkar af almenningssamgöngum. Ásta var reyndar fjarri góðu gamni en það var sérlega gaman að hitta aftur hann Hörð sem vann svo mikið með okkur í upphafi þegar við byrjuðum þessa vegferð Hveragerði og Árborg í samvinnu við Strætó. Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan og nú tekur kerfið yfir allt Suðurland frá Reykjavík til Hafnar. Það er nokkuð vel gert !
Átti góðan fund með Gunnari Gíslasyni sem nú vinnur sem ráðgjafi að því að efla og bæta skólastarfið hér í Hveragerði. Hann er reynslubolti sem kann sitt fag svo það verður spennandi að fylgjst með framhaldi starfa hans hér.
Síðdegis var stór fundur hér á bæjarskrifstofunni með forsvarsmönnum garðyrkjunnar á Íslandi, garðyrkjubændum í Hveragerði, bæjarfulltrúum og starfsmönnum. Ræddum við stöðu, horfur, nýliðun, menntunina, framtíðina, ógnanir og tækifæri á afskaplega góðum og hreinskiptum fundi. Það er ljóst að miklar breytingar hafa orðið í þessari grein á undanförnum árum og þarna er að gerast það sama og víða annars staðar að þeir stóru verða stærri en hinir þurfa að finna sér einhverja sérstöðu eigi þeim að vegna vel. Einnig er tæknin orðin þannig að í dag þarf til dæmis ekki nema 7.000 m2 undir gleri til að framleiða allt það magn af agúrkum sem þjóðin borðar á ári. Þetta vissi ég ekki !
En bæjarstjórn verður gerð grein fyrir helstu punktum þessa fundar svo umræðunni er langt í frá lokið.
Kláraði síðan fundargerðir bæði þessa funds og leikskólafundar frá því fyrir helgi. Hef þá trú að ef ég bara hangi nógu lengi í vinnunni þá muni pestin sem hótað hefur að taka sér bólfestu í allan dag ekki ná mér. Spurning hversu gáfuleg þessi kenning er :-)
Verð síðan að deila með ykkur þessari stórkostlegu mynd sem tekin var úr flugvél yfir Hveragerði í síðustu viku. Meiriháttar sjónarhorn af fallega bænum okkar !
Comments:
Skrifa ummæli