19. febrúar 2016
Bæjarráðsfundur í morgun þar sem m.a. Davíð Samúelsson mætti og fór yfir þá vinnu sem hann hefur innt af hendi að undanförnu. Meðal annars er hann að útbúa "gos" í Hveragarðinum og tókust tilraunir sem fram fóru nýlega afskaplega vel. Um leið og frost fer úr jörðu verður hægt að setja upp goshverinn sem á að hvetja til heimsókna ferðamanna í sumar. Ekki veitir af að búa til nýja og fleiri segla í ferðaþjónustunni ef miða á við umræðu undanfarinna daga. Ennfremur er Davíð að vinna að gerð stórs sameiginlegs skiltis við Breiðumörkina sem kynna á þá þjónustu sem er í bæljarfélaginu. Með því móti vonumst við til að laus skilti í og við innkeyrsæuna í bæinn hverfi !
Ráðstefna megnið af deginum þar sem fjallað var um ný lög um opinber fjármál en einnig var þar óvænt tekin umræða um útdeilingu bankaskattsins svokallaða til sveitarfélaganna. Þar hef ég verið á þeirri skoðun að ekki eigi að útdeila þessum fjármunum með hliðsjón af útsvarsgreiðslum íbúa heldur í samræmi við reglur Jöfnunarsjóðs eins og alltaf hefur verið gert með þá fjármuni sem runnið hafa í sjóðinn.
Mótmælti ég þess vegna því frumvarpi sem nú líggur fyrir um breytt fyrirkomulag við útdeilinga þessara peninga. Ef að frumvarpið yrði samþykkt myndi það þýða að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu myndu fá megnið af þeim fjármunum sem hér um ræðir. En hlutverk Jöfnunarsjóðs er að jafna tekjur á milli sveitarfélaga og að mínu mati fer tekjujöfnun ekki fram með þeim hætti að láta þá fá meira sem þegar hafa meira og auka þannig mun á aðstöðu og þjónustu á milli þeirra sem hafa meira, á kostnað þeirra sem hafa minna og enga eða litla möguleika til að auka sínar tekjur.
Comments:
Skrifa ummæli