29. nóvember 2015
Vaknaði snemma og náði að tæma tvö herbergi til viðbóta í húsinu. Nú er það endanlega komið á hvolf. Ákvað í dag að hverfa um 40 ár aftur í tímann og upplifa bara jól æsku minnar. Þegar ekkert var sett upp fyrr en á Þorláksmessu. Hér verðum við heppin ef yfirlett eitthvað verður tilbúið fyrir jól. Mamma leit hér við um helgina og af sinni alkunnu hógværð horfði hún hér yfir heimilið og bauð okkur síðan að halda jólin hjá sér á Þelamörkinni. Hún hefur enga trú á því að þetta klárist hér á næstu vikum :-)
-----
En aðventan gekk í garð með hefðundnum hætti hér í Hveragerði. Eplaskífukaffi með fjölskyldunni hjá Guðrúnu systur er árlegur viðburður á 1. í aðventu. Það eru forréttindi að við skulum öll búa hér í Hveragerði systkinin enda er mamma oft öfunduð að flokknum sínum stóra ! Ljósin voru tendruð síðdegis á bæjarjólatrénu af henni Steinunni sem er barnabarn Guðrúnar og Sigurjóns að Heiðmörk 69 sem gáfu hið veglega jólatré ársins. Veðrið var yndislegt, kalt en stafalogn og snjór yfir öllu. Getur varla verið betra! Skátarnir buðu í kakó og kex eins og venjulega en það er skemmtilegur og góður siður. Manni veitir yfirleitt ekki af kakóinu þenna dag...
Í kvöld fylltist ég svo stolti og gleði á aðventukvöldi kirkjunnar. Þegar troðfull kirkja varð vitni að því að hver kórinn og sönghópurinn öðrum betri tróð upp. Mér finnst alltaf jafn yndislegt að sjá hversu margir taka þátt í þessu starfi. Kirkjukórinn er einstaklega góður en þar hefur kvenröddum fjölgað verulega sýnist mér. Stúlkurnar í barnakórnum eru á miklu skriði og alltaf að verða betri og betri og Hverafuglarnir okkar sýna og sanna að það er aldeilis líka hægt að syngja í góðum kór þó maður sé kominn af léttasta skeiði. Þúsund þakkir til ykkar allra fyrir góða kvöldstund :-)
---------
En það er líka partur af jólaundirbúningnum að gefa út jólablað Bláhvers, blað Sjálfstæðismanna hér í Hveragerði. Í dag ræddi ég lengi við góðan Hvergerðing sem verður í viðtali í blaðinu. Þið getið sjálfsagt getið ykkur þess til hver það er þegar þið sjáið veitingarnar sem ég gæddi mér á á meðan :-)
28. nóvember 2015
Fundur í stjórn Fasteignafélags Hveragerðis snemma á föstudagsmorgni. Þar ræddum við m.a. möguleikann á því að nýr leikskóli yrði byggður af fasteignafélaginu. Sá möguleiki verður kannaður nánar en það eykur óneitanlega flækjustigið hvað það varðar að Ölfusingar skuli taka þátt í kostnaði við leikskólabyggingar hér í bæ en þeir eru ekki aðilar að fasteignafélaginu.
Eftir hádegi var fundur í fagráði Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands. Upplýsingamiðstöðin er rekin af miklum myndarskap í Sunnumörkinni. Þar er svarað fyrirspurnum og upplýsingagjöf sinnt fyrir allan landshlutann árið um kring. Umsvifin hafa aukist mjög á undanförnum árum í takt við fjölgun ferðamanna. Á árinu 2016 stefnir í að velta miðstöðvarinnar verði í kringum 34 mkr en bæði opnunartími og þjónusta hefur aukist ár frá ári sem sýnir enn og aftur hversu mikilvæg þessi starfsemi er fyrir Suðurland allt.
Vann umsókn til Húsafriðunarsjóðs vegna Mjólkurbúsins. Nú hefur Hveragerðisbær eignast allt húsið og því eru hæg heimatökin að lagfæra og endurbæta það sem þörf er á. Þetta er fallegt hús, vel byggt og reisulegt eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Í fjárhagsáætlun eru settar 10 mkr til endurbóta en ætlunin er að lagfæra húsið að utan og endurnýja glugga.
26. nóvember 2015
Nú standa fyrir dyrum framkvæmdir innanhúss sem gera að verkum að framleiðsla í sal mun að stóru leyti liggja niðri í janúar. Það kallar á gott skipulag enda verða að vera til vörur á lager þegar þar að kemur.
Eftir stjórnarfundinn kíktum við Guðrún systir örstutt jólasýningu fimleikadeildarinnar í Hamarshöllinni. Það var virkilega gaman að sjá þessa duglegu krakka og ekki síður að sjá það hversu margir voru mættir til að fylgjast með.
Það þarf ekki mikið til að gleðja mann þegar húsið er búið að vera í henglum síðan í september af hinum ýmsu ástæðum !
Í dag var sett upp bráðabirgðaborð í eldhúsinu og eldavélin tengd. Það er líka mikill munur að vera loksins komin með vatn í kranann í eldhúsinu, reyndar bara kalt. En það er þó skárra en ekkert.
Samt er vaskað upp í þvottahúsinu enda heitt vatn frekar nauðsynlegt við það verk :-)
25. nóvember 2015
Starfshópur um byggingu nýs leikskóla gerði víðreist í dag og skoðaði fjóra leikskóla. Byrjuðum á Selfossi þar sem Jötunheimar voru heimsóttir. Mjög fallegur og skemmtilegur skóli þar sem vel var tekið á móti okkur. Þaðan fórum við til Þorlákshafnar þar sem Bergheimar voru skoðaðir. Þar ræður hún Ásgerður ríkjum og gerir það afskaplega vel. Skólinn þar er teiknaður af sama aðila og teiknaði Flóaskóli og er skipulagið allt með besta móti. Þar finnst mér afbragð að hver deild er með sinn eigin inngang og fataklefa. Einnig er eldhúsið mjög gott og matreiðslumaðurinn enn betri sýndist mér :-)
Hópurinn fór síðan í gómsæta kjötsúpu og upprúllaðar pönnukökur á Litlu kaffistofunni. Það er eðal veitingastaður og maður fær ekki betri kjötsúpu. Mæli með minni skammtinum þó - sá stóri var ansi vel útilátinn !
Heimsóttum síðan leikskólann Stekkjarás í Hafnarfirði en þar þurftum við ekki langan tíma til að sannfærast um að hönnuður hans hlyti að vera Páll Gunnlaugsson, sem einnig hannaði Óskaland. Stekkjarás er afskaplega svipaður Óskalandi nema hvað rýmin eru öll aðeins stærri enda er þetta 8 deilda leikskóli einn sá alstærsti á landinu. Hér má sjá magnið af vögnum sem fara á deildirnar fyrir síðdegiskaffi barnanna.
Í Kópavogi skoðuðum við leikskólann Austurkór eftir að hafa villst inn á leikskólann Kór. Austurkór er glænýr 6 deilda leikskóli en þar vakti athygli að deildirnar eru frekar litlar sem og salurinn en hann var tekinn undir matsal og hreyfing fer fram á göngum eða einfaldlega utandyra.
Guðmundur Baldursson er mjög áhugasamur um tæknirými og hér hefur hann þefað uppi loftræstimiðstöðina í Stekkjarási. Í nýjum leikskóla mun hann gera tæknirými að algjöru skilyrði heyrist mér :-)
Þetta var afar lærdómsríkur dagur og fjölmargt sem við sáum og heyrðum sem mun nýtast í vinnunni framundan. Starfshópurinn er afskaplega vel skipaður áhugasömum einstaklingum og það skiptir máli.
24. nóvember 2015
Hann Friðrik Sigurbjörnsson sem er í meirihlutanum hér í Hveragerði vinnur hjá Kynnisferðum. Þar verða menn áþreifanlega varir við mikla fjölgun ferðamanna. Hann sendi mér þessa slóð í morgun: Ferðamenn í október slá öll fyrri met --- Þarna kemur fram að það eru 48,5% fleiri erlendir ferðamenn sem hafa haft viðkomu hér á Íslandi í október núna heldur en í sama mánuði fyrir ári. Í þessari staðreynd felst mikið sóknarfæri fyrir okkur hér á landi og þá ekki síst okkur sem búum á áhrifasvæði höfuðborgarsvæðisins. Hér í Hveragerði eru óendanlegir möguleikar til móttöku ferðamanna sem sífellt fleiri gera sér grein fyrir.
Fjöldi fyrirtækja þjónustar ferðamenn hér í Hveragerði og um leið verður þjónustan fjölbreyttari fyrir okkur öll. Sem dæmi má nefna að hægt er að fara á glæsileg jólahlaðborð bæði á Frost og funa og á Hótel Örk, byrjað er að auglýsa hina árlegu skötuveislu hjá Kjöt og kúnst og nýja bakaríið hans Almars gleður bæði augu og bragðlauka í hvert sinn sem ég fer þar inn. Ég kíki stundum í hádegismat á Heilsustofnun og er aldrei svikin af matnum þar. Í gær var til dæmis chili con carne í hádeginu sem mér þótti frábært. Hoflandsetrið er algjörlega meiriháttar staður og Möggugrillið er með afar fjölbreytt úrval rétta. Sjálfsagt gleymi ég einhverjum en tilgangurinn með þessari romsu er að minna okkur á að við myndum ekki njóta þessara gæða ef að ferðamannanna nyti ekki við. Því verðum við að vinna samhent að því að gera bæinn okkar enn betur í stakk búinn til að taka á móti fleiri ferðamönnum með fjölbreyttari hætti.
Í kvöld var góður og fjölmennur íbúafundur um skipulagsmál haldinn í Grunnskólanum. Farið var yfir ein sex stór mál sem öll skipta miklu fyrir áframhaldandi þróun byggðarinnar. Hótel á lóð HNLFÍ, uppbygging á Tívolí reitnum, 24 íbúðir í raðhúsum hér á móti okkur, ný íbúðabyggð í Klettahlið og Bröttuhlið og uppbygging í Kambalandinu.
Miðað við stöðu eigna á fasteignavef Morgunblaðsins er afar mikilvægt að hér sé hugað að byggingarlóðum því svo til engar eignir eru hér á söluskrá. Það stappar nærri að hér sé uppselt svo nú verður bæjarstjórn að finna fleiri lóðir og þá sérstaklega fyrir minni eignir.
22. nóvember 2015
Kenneth Máni á föstudagskvöldið með góðum vinum var frábær skemmtun. Heilmikið í þessa sýningu spunnið og sumt reyndar á alvarlegum nótum þó salurinn hafi helst viljað hlægja að öllu...
Matarboð hjá Elitu á laugardagskvöldið einnig í mjög góðum hópi. Ég stenst ekki mátið að sýna ykkur hvað það er glæsilegt hjá henni matarborðið. Það er alveg sérstök upplifun að heimsækja Elitu...
Haraldur Fróði kíkti til ömmu og afa og í tilefni af því tókum við til íl garðinum og kveiktum bál. Veðrið minnti mann helst á Danmörku á góðum degi. Logn og frekar hlýtt en samt mikill raki í lofti. Frábær dagur. Jólaljósin fóru upp um helgina svo þetta er allt að koma. Við getum samt ekki keppt við nágrannana sem margir hverjir eiga svo flotta jólasveina og snjókalla sem við HF röltum og skoðuðum.
19. nóvember 2015
Bæjarráðsfundur í morgun þar sem helst bar til tíðinda að lóðinni Austurmörk 6 var úthlutað til byggingar sem hýsa á safn um íslenska hestinn. Mjög flott hugmynd sem ég efast ekki um að verður vinsæl á meðal ferðamanna, íslenskra sem erlendra.
Átti góðan fund með Hlíf og Kristbjörgu frá Norræna félaginu þar sem farið var yfir fyrirhugað vinabæjamót sem haldið verður sömu helgi og Blómstrandi dagar 2016. Vinabæjakeðjan okkar er sterk og öflug og hefur hist með reglubundnum hætti. Hér gætum við átt von á 60-80 gestum sem flestir búa á heimilum bæjarbúa. Það er gaman að mótið skuli haldið einmitt þessa helgi því það verður nóg um að vera.
Í hádeginu tók ég þátt í að hefja Eldvarnarátak ársins 2016, varð alveg óvænt staðgengill Eyglóar Harðardóttur ráðherra sem forfallaðist á síðustu stundu. Það er Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem stendur fyrir átakinu og tókst athöfnin í dag frábærlega.
Til að byrja með var fræðsla fyrir nemendur í 3. bekk þar sem ég fékk að segja þeim söguna af því þegar kviknaði í kjólnum mínum á aðfangadagskvöld og einnig fékk ég það mikilvæga hlutverk að ítreka mikilvægi reykskynjara. Að þessu loknu var rýming skólans æfð. Tók 3 mínutur að koma öllum út og eftir 6 mínútur var búið að telja mannskapinn og ganga úr skugga um að allir væru á réttum stað. Þetta var mjög fagmannlegt og traustvekjandi hjá starfsmönnum grunnskólans. Þetta er í fyrsta sinn sem Eldvarnaátakið er opnað á starfssvæði Brunavarna Árnessýslu og er það okkur mikill heiður að það skuli hafa verið gert hér í Hveragerði.
Fundur með Ingibjörgu, útíbússtjóra Arion banka og Róberti umdæmisstjóra síðdegis. Þar kynnti ég fyrir þeim helstu framkvæmdir, mannfjöldaspár og stöðu bæjarins á mjög góðum fundi. Ingibjörg mun láta af störfum í lok árs eftir langan og farsælan feril. Hennar verður sárt saknað. Nú er aftur á móti setið yfir umsóknum frá 27 einstaklingum sem sóttu um stöðuna. Það eru meðmæli með Hveragerði að svo margir skuli sækja um.
Heimsótti síðan frístundaskólann þar sem fram fer frábært starf undir styrkri stjórn Þórunnar og Sigurrósar. Þar hitti ég Guðrúnu Friðþjófsdóttur, formann Kvenfélags Hveragerðis og skrifuðum við undir samning um áframhaldandi leigu hússins við Fljótsmörk sem félagið á en bæjarfélagið hefur nýtt fyrir frístundaskóla. Gildir samningurinn í 5 ár.
Ákvað að taka ræktina með trompi og fór í styrktaræfingar áður en klukkutíma zumbatími tók við. Ætla síðan að mæta kl. 6 í fyrramálið. Systur mínar segja að ég sé komin með maníu, en nei, þetta er bara svo hrikalega gaman :-)
Þar sem betri helmingurinn er fyrir norðan þá bauð ég mér í mat til Sigurbjargar í kvöld
- "að láta fótinn fæða sig" er alveg að virka ! ! !
Átti góðan fund með Hlíf og Kristbjörgu frá Norræna félaginu þar sem farið var yfir fyrirhugað vinabæjamót sem haldið verður sömu helgi og Blómstrandi dagar 2016. Vinabæjakeðjan okkar er sterk og öflug og hefur hist með reglubundnum hætti. Hér gætum við átt von á 60-80 gestum sem flestir búa á heimilum bæjarbúa. Það er gaman að mótið skuli haldið einmitt þessa helgi því það verður nóg um að vera.
Í hádeginu tók ég þátt í að hefja Eldvarnarátak ársins 2016, varð alveg óvænt staðgengill Eyglóar Harðardóttur ráðherra sem forfallaðist á síðustu stundu. Það er Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem stendur fyrir átakinu og tókst athöfnin í dag frábærlega.
Til að byrja með var fræðsla fyrir nemendur í 3. bekk þar sem ég fékk að segja þeim söguna af því þegar kviknaði í kjólnum mínum á aðfangadagskvöld og einnig fékk ég það mikilvæga hlutverk að ítreka mikilvægi reykskynjara. Að þessu loknu var rýming skólans æfð. Tók 3 mínutur að koma öllum út og eftir 6 mínútur var búið að telja mannskapinn og ganga úr skugga um að allir væru á réttum stað. Þetta var mjög fagmannlegt og traustvekjandi hjá starfsmönnum grunnskólans. Þetta er í fyrsta sinn sem Eldvarnaátakið er opnað á starfssvæði Brunavarna Árnessýslu og er það okkur mikill heiður að það skuli hafa verið gert hér í Hveragerði.
Fundur með Ingibjörgu, útíbússtjóra Arion banka og Róberti umdæmisstjóra síðdegis. Þar kynnti ég fyrir þeim helstu framkvæmdir, mannfjöldaspár og stöðu bæjarins á mjög góðum fundi. Ingibjörg mun láta af störfum í lok árs eftir langan og farsælan feril. Hennar verður sárt saknað. Nú er aftur á móti setið yfir umsóknum frá 27 einstaklingum sem sóttu um stöðuna. Það eru meðmæli með Hveragerði að svo margir skuli sækja um.
Heimsótti síðan frístundaskólann þar sem fram fer frábært starf undir styrkri stjórn Þórunnar og Sigurrósar. Þar hitti ég Guðrúnu Friðþjófsdóttur, formann Kvenfélags Hveragerðis og skrifuðum við undir samning um áframhaldandi leigu hússins við Fljótsmörk sem félagið á en bæjarfélagið hefur nýtt fyrir frístundaskóla. Gildir samningurinn í 5 ár.
Ákvað að taka ræktina með trompi og fór í styrktaræfingar áður en klukkutíma zumbatími tók við. Ætla síðan að mæta kl. 6 í fyrramálið. Systur mínar segja að ég sé komin með maníu, en nei, þetta er bara svo hrikalega gaman :-)
Þar sem betri helmingurinn er fyrir norðan þá bauð ég mér í mat til Sigurbjargar í kvöld
- "að láta fótinn fæða sig" er alveg að virka ! ! !
18. nóvember 2015
Fékk góða heimsókn í dag þegar hingað komu um 20 nemar í arkitektúr við Háskólann í Brighton. Þau vinna verkefni hér í Hveragerði núna í vikunni af ýmsum toga og í dag komu þau í heimsókn á bæjarskrifstofuna og fengu hefðbundinn fyrirlestur bæjarstjórans um skipulagsmál, mannlíf og umhverfi Hveragerðisbæjar. Ég á nokkra svona fyrirlestra tilbúna þannig að ég gat einnig frætt þau um jarðskjálftann 2008, afleiðingar hans og verkefnið sem við unnum með Stofnun Sæmundar Fróða um viðbrögð við hamförum ýmiskonar. Þetta var líflegur og skemmtilegur hópur sem sá hér alls konar möguleika. Þau fara til síns heima með nafnspjald bæjarstjórans ef þau skyldu vilja snúa til baka og kynna okkur aftur verkefnin sín þegar þau eru tilbúin.
Eftir hádegi kom hingað síðan aftur einn af kennurum hópsins til að ræða við okkur Ara um gróður og garða í borgarsamfélögum. Það var afar fróðlegt og greinilegt að erlendis er sífellt meiri áhersla lögð á mikilvægi grenndargarða og opinna svæða enda er vöxtur borganna víða gríðarlegur og þá getur verið langt í næsta græna svæði.
--------------
Það er ljóst að síðasta kvöldmáltíðin var snædd hér á Heiðmörkinni í kvöld, allavega í bili. Vegna leka er búið að rífa stærstan partinn af eldhúsinu svo það er vatnslaust, eldavélalaust og í raun alls laust. Næstu daga munum við bjóða okkur í mat annað og síðan borða á veitingastöðum bæjarins. Kemur sér að hér er fjölbreytt flóra veitingastaða sem bjóða kostakjör á góðum mat. Síðan er nú óneitanlega kostur að eiga hér stóra fjölskyldu sem vonandi les þessa færslu og rennur blóðið til skyldunnar ...
17. nóvember 2015
Lokaskýrslurnar tvær farnar til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Það er alltaf gaman að klára verkefni sem með beinum hætti skila peningum í kassann eins og þessi gera.
Hitti Hrafnhildi leikskólaráðgjafa en hún er að aðstoða mig við að finna leikskóla til að skoða í næstu viku. Þá ætlar starfshópur um byggingu nýs leikskóla að skoða nokkra leikskóla og kanna það sem best er gert á þessu sviði. Við munum sérstaklega skoða aðstöðu fyrir yngri börn en starfshópnum er uppálagt að vinna út frá því að 12 mánaða börnum verði boðin vistun. Það er reyndar gaman að geta þess að nú eru engin börn á biðlista sem orðin eru 18 mánaða ef sótt hefur verið um á réttum tíma.
Skrifaði fréttir á heimasíðun um atvinnulóðir á lausu sem eru þó nokkrar bæði hefðbundnar lóðir og eins lóðir fyrir gróðurhús. Setti örstutta grein í Dagskránna um íbúafjölgun og lóðamál sem vonandi birtist í næsta blaði.
Ákvað með engum fyrirvara að prófa nýju "dans" skóna í zumba tíma síðdegis. Þarf aðeins að venjast þeim betur og geri það sjálfsagt í zumbatímanum kl. 6 í fyrramálið.
Það verður reyndar ekki auðvelt að vakna en við stelpurnar í vinnunni hittumst í kvöld og áttum skemmtilega kvöldstund heima hjá Margréti Jónu. Þetta er frábær hópur sem alltaf er gaman að vera með.
16. nóvember 2015
Þarf nauðsynlega að koma frá mér lokaskýrslum um tvö verkefni sem fengu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Vann í því í dag og renndi þess vegna m.a. inní Dal til að taka myndir sem fylgja munu með skýrslunum.
Hér sést ágætlega hvernig nýr vegur hefur gjörbreytt aðkomunni að Reykjadal. Það er líka gaman að sjá hvað gróðurinn hefur tekið vel við sér í sumar en héðan í frá munu trén ekkert gera annað en að spretta og veita okkur meira skjól og fleiri skemmtilega staði til að njóta.
Málefni Brunavarna Árnessýslu voru fyrirferðarmikil í dag enda tók nokkurn tíma að lesa þau erindi sem héraðsnefndarmönnum bárust í dag vegna máls tengdum starfslokum Kristjáns Einarssonar.
15. nóvember 2015
Hitti einstaka sinnum fólk sem heldur að það sé ekkert um að vera í svona bæ eins og Hveragerði.
Aumingja viðkomandi fá þá langan lestur um það hvað sé frábært að búa í minni bæjarfélögum og hversu mikilvægur hver einstaklingur sé og hvað það sé víða hægt að koma við, gefa af sér, hitta fólk og hafa gaman.
Um helgina er til dæmis búið að vera alveg ótrúlega mikið að gerast í Hveró. Á föstudagskvöldinu bauð Almar bakari til opnunarteitis í nýja glæsilega bakaríinu. Fullt af skemmtilegu fólki og gaman að hittast..
Laugardagurinn byrjaði í góðum hópi í zuma - hörku tími. Síðan tólk við opið hús hjá D-listanum þar sem við Eyþór kynntum fjárhagsáætlun og framkvæmdir sem framundan eru.
Hér má sjá skipulag reitsins á móti okkur Lárusi þar sem framkvæmdir gætu hafist á næstu vikum.
Þá mun fjölga í götunni okkar :-)
Fór síðan ásamt Ingu Lóu uppí Hamarshöll þar sem haldið var minnibolta mót Hamars í körfu. Yfir 200 þátttakendur þannig að sjálfsagt hafa um 500 manns verið í Höllinni þegar mest var, enda fylgir að lágmarki einn með hverju barni á svona móti.
Við mamma fórum síðan á rúntinn að skoða mannlífið og fundum þá meðal annars Lionsmenn og starsmenn Heilsustofnunar sem mældu blóðsykur í Bónus. Flott framtak!
110 ára afmæli Soffíu og Denna var líflegt eins og við var að búast þegar afmælisbörnin eru jafn skemmtileg og þau tvö. Það var ekki síður gaman að vera aftur stödd í veislu á gamla hótelinu. Yndislegt hús með mikla sál. Elfa Dögg hefur nú keypt hótelið svo það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu þar.
Árlegur basar á Dvalarheimilinu Ási var haldinn í dag. Reyni að missa ekki af honum enda er þetta notaleg stund og þá ekki síst að njóta þar veitinga og spjalls við vini og félaga.
Veðrið í gær var einstaklega gott og Hveragerði skartaði sínu fegursta. Við svona aðstæður verða gufustrókarnir hér enn meira áberandi - þó þeir eigi nú kannski ekki að rísa svona glæsilega úr niðurföllunum :-)
13. nóvember 2015
Af hverju þarf veröldin að vera svona vond ? Fylgist með beinni útsendingu frá hryllingnum í París og skil ekki frekar en aðrir hvernig svona lagað getur gerst.
-------------------
Nefnd oddvita/sveitarstjóra í Árnesþingi utan Árborgar fundaði hér í Hveragerði í morgun. Samþykktum fjárhagsáætlun fyrir Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings sem er í góðu samræmi við væntingar. Hjá þjónustunni sem er staðsett í Versunarmiðstöðinni Sunnumörk hér í Hveragerði starfa 2 kennsluráðgjafar, 2 sálfræðingar, fulltrúi fatlaðs fólks, talmeinafræðingur auk Maríu Kristjánsdóttur sem er forstöðmaður. Þessi 7 manna vinnustaður sem skipaður er eingöngu háskólamenntuðum starfsmönnum er góð viðbót við aðra vinnustaði hér í Hveragerði.
Á fundinum var kynnt niðurstaða úttektar Gerðar G. Óskarsdóttur, fyrrv. fræðslustjóra Reykjavíkur á starfsemi þjónustunnar en hún leiddi í ljós almenna ánægju skólanna með starfsemina sem klárlega hefur þegar sannað tilverurétt sinn.
------
Átti góðan fund með Davíð Samúelssyni eftir hádegi þar sem við fórum yfir þau mál sem hann vinnur nú að. Meðal annars er hann að vinna í skilamálum hér í bænum en við stefnum á að koma þeim í betra horf með það fyrir augum ásýnd bæjarins batni en rekstraraðilar geti þó enn auglýst starfsemi sína.
-------
Ákvað að vinna áfram eftir lokun til að grynnka á tölvupóstinum og skipuleggja og létta á næstu viku.
Það getur verið ansi gott að vinna eftir að aðrir eru farnir heim, það vinnst svo ansi vel þá. Fór því beint úr vinnunni kl. 20 í opnunarhóf Almars bakar og Lóu sem nú hafa tekið bakaríið sitt allt í gegn. Virkilega flott og mikil breyting frá því sem áður var. Þetta er fullorðins :-)
Reyndar eru veisluhöld eins og þessi alveg ferleg. Dásamlegar súkkulaðikökur og kransakökustykki rötuðu alveg rétta leið og það þrátt fyrir gríðarlega góðan vilja. Það var eins gott að ég mætti í lyftingarnar í gærkvöldi og í zumba í morgun og að þar muni Aldís líka dúkka upp í fyrramálið - hér eru hlutirnir gerðir í alvöru eða þeim einfaldlega sleppt :-)
12. nóvember 2015
Mér var tjáð það í gær að ég væri svo höktandi bloggari að það væri næstum vonlaust að nokkur nennti að fylgjast með... Sennilega hárrétt :-)
En í morgun var fundur í hópi sem skipaður er fulltrúum Landverndar og Héraðsnefndar og fjalla á um framtíð Alviðru. Þarna erum við Árni Einarsson í Flóahreppi fulltrúar Árnesinga. Undir lok áttunda áratugar síðustu aldar arfleiddi ábúandi Alviðru þessa aðila að jörð sinni og Öndverðarnesinu handan Sogsins. Þetta eru gríðarlega verðmætar jarðir en kvaðir í gjafabréfinu hafa gert það að verkum að erfiðlega hefur gengið að finna þeim verðugt hlutverk. Í Alviðru er húsakostur orðinn lélegur og þarfnast mikils viðhalds og handan árinnar er Öndverðarnesið þetta fallega svæði einhvern veginn án alls hlutverks. Hópurinn átti góðan fund þar sem við skoðuðum húsakost og jarðir áður en við funduðum í Þrastalundi. Ákváðum að nýta veturinn vel og reyna að finna flöt á málum áður en vorar.
Hér er hópurinn á hlaðinu á Alviðru, Árni, Guðmundur, Snorri, Salóme og "yours truly" :-)
Fundargerð þurfti siðan að vinna með hraði áður en bæjarstjórn hitti forsvarsmenn Listvinafélags Hveragerði í Listasafni Árnesinga. Þar voru okkur kynntar hugmyndir um útisýningu Listvinafélagsins sem unnið hefur verið að undanfarin ár. Allir geta kynnt sér málið ýtarlega en því eru nú gerð góð skil á sýningu í Listasafninu.
Bæjarstjórnarfundur hófst síðan kl. 17. Góður fundur þar sem upp úr stóð fyrri umræða um fjárhagsáætlun ársins 2016 og áætlun til næstu þriggja ára. Rekstur er í föstum skorðum og lítilla breytinga að vænta þar. Aftur á móti eru umtalsverðar fjárfestingar í farvatninu. Til stendur að hefja byggingu á nýjum leikskóla, halda á áfram með endurbætur á sundlauginni í Laugaskarði, hefja endurbætur á ytra byrði Mjólkurbúsins og malbika og lýsa fyrsta áfanga á bílaplani Hamarshallarinnar svo fátt eitt sé talið. Ennfremur er ætlunin að fagna 70 ára afmæli bæjarins svo það verður nóg að gera.
Mér finnst vel við hæfi að birta hér svona flotta mynd af Guðjóni Óskari og Friðrik sem báðir sátu bæjarstjórnarfund í dag. Þeir eru flottir fulltrúar unga fólksins hér í Hveragerði, Guðjón fæddur 1989 og Friðrik 1988.
Með því að ég talaði minna en oftast áður náði ég í líkamsræktina kl. 19. Það eru svo ótrúlega góðir tímar að ég vil alls ekki missa af þeim. Dagarnir verða aftur á móti svolítið langir þegar ekki er komið heim fyrr en rúmlega 20 og tala nú ekki um þegar zumba tíminn byrjar svo kl. 6 í fyrramálið :-)
-------------
Downton Abbey er byrjað aftur eftir margar vikur af Poldark sem ég reyndar kolféll fyrir. Hef ekki fylgst með undanförnum seríum af Downton en horfði á fyrsta þáttinn síðasta sunnudag. Þar var algjörlega óborganlega sena með Maggie Smith sem fór á kostum. Snilldarlegt atriðið endaði með glimrandi setningu: "sometimes it is good to rule by fear!" Þetta eina atriði gerir að verkum að ég mun sennilega eyða næstu sunnudagskvöldum yfir breskum aðli :-)
11. nóvember 2015
Á þessum árstíma leggst ég yfirleitt yfir alls konar töluleg gögn og vinn samanburð við hin ýmsu sveitarfélög til að við getum glöggvað okkur á stöðu Hveragerðisbæjar.
Eitt af því sem oftast er notað sem viðmið um gæði og vinsældir bæjarfélaga er íbúatalan, eðlilega !
Hér í Hveragerði bjuggu 1.668 íbúar árið 1998.
Í dag búa hér 2.426 íbúar.
Fjölgun á þessu 17 ára tímabili eru 758 íbúar eða 45,4%
Á sama tíma fjölgaði Sunnlendingum um 15%.
Hveragerði er eitt þéttbýlasta sveitarfélag landsins en hér eru 270 íbúar pr. km2.
Til samanburðar má geta þess að nágrannar okkar í Ölfusi búa heldur rýmra en við gerum hér en þar eru 2,6 íbúar pr. km2.
Miðað við þau verkefni á sviði húsbygginga sem nú eru í gangi er ekki óvarlegt að áætla að framhald verði á íbúafjölgun hér í Hveragerði og spái ég því að íbúar verði orðnir 2.700 innan 5 ára. Sú fjölgun mun rúmast vel í og við núverandi byggð svo enn er langt í land að Hveragerði sé fullbyggt :-)
Eitt af því sem oftast er notað sem viðmið um gæði og vinsældir bæjarfélaga er íbúatalan, eðlilega !
Hér í Hveragerði bjuggu 1.668 íbúar árið 1998.
Í dag búa hér 2.426 íbúar.
Fjölgun á þessu 17 ára tímabili eru 758 íbúar eða 45,4%
Á sama tíma fjölgaði Sunnlendingum um 15%.
Hveragerði er eitt þéttbýlasta sveitarfélag landsins en hér eru 270 íbúar pr. km2.
Til samanburðar má geta þess að nágrannar okkar í Ölfusi búa heldur rýmra en við gerum hér en þar eru 2,6 íbúar pr. km2.
Miðað við þau verkefni á sviði húsbygginga sem nú eru í gangi er ekki óvarlegt að áætla að framhald verði á íbúafjölgun hér í Hveragerði og spái ég því að íbúar verði orðnir 2.700 innan 5 ára. Sú fjölgun mun rúmast vel í og við núverandi byggð svo enn er langt í land að Hveragerði sé fullbyggt :-)
10. nóvember 2015
Átti mjög góðan fund í dag með Guðmundi skipulags- og byggingafulltrúa þar sem við fórum yfir þau mál sem rædd voru á fundi skipulags- og bygginganefndar í gær. Sá fundur var bæði langur og yfirgripsmikill en þar var rætt um fjölmörg skipulagsmál sem nú eru í gangi. Það er langt síðan jafn mörgum boltum hefur verið haldið á lofti hér í Hveragerði í einu og á Guðmundur heiður skilinn fyrir dugnaðinn.
Sendi bréf til Minjastofnuna Íslands um framgang verksins við viðgerð á sundlaugarhúsinu í Laugaskarði. Bæjarfélagið fékk 500 þúsund króna styrk til þess verkefnis og þó að það sé nú ekki há upphæð þá skiptir hver króna máli.
Sendum út fundarboð vegna bæjarstjórnarfundar á fimmtudaginn. Þar mun fyrri umræða um fjárhagsáætlun fara fram. Við gerum ráð fyrir að þurfa að fínpússa aðeins á milli umræðna en síðari umræða á að fara fram á fundi bæjarstjórnar í desember.
Hittum fulltrúa Sunnlenskrar orku síðdegis en rætt var um borholurnar sem þegar eru inní Dal. Þær eru að mig minnir 7 talsins og sumar hverjar afar öflugar eins og Drottningarholan sem er ein öflugasta borholan á svæðinu. Sunnlensk orka fer með rannsóknarleyfi þarna og mun bæjarstjórn fylgjast grannt með framvindu mála.
Síðdegis var hún nágrannakona mín hún Bee McEvoy með fyrirlestur um gjörhygli eða núvitund á bókasafninu. Fullt af fólki mætti til að hlusta á fyrirlesturinn og til að fræðast um þessa athyglisverðu aðferð sem halda á manni í núinu. Ekki veitir nú af...
Kíktum síðan við hjá Almari bakara en hann er nú að stækka veitingasalinn og gjörbreyta bakaríinu. Ég hlakka til að sjá hvernig þetta kemur til með að líta út - allavega lofa framkvæmdirnar góðu :-)
9. nóvember 2015
Sumir dagar eru fyrirsjáanlegri en aðrir. Fjárhagsáætlun er nú á lokastigi enda fer fyrri umræða fram nú á fimmtudaginn. Í dag undirbjó ég fund meirihlutans sem haldinn var í kvöld eftir langt hlé enda hafa bæjarfulltrúar allir verið í fjárhagsáætlunarvinnunni sem okkur þykir afar gott.
Í kvöld kynntum við áætlunina fyrir meirihlutanum og náðum góðum spretti á rétt rúmum 2 tímum. Einnig voru ýmis önnur mál rædd en það er víst af nógu að taka. Áætlun ársins er ekki sparnaðaráætlun enda stendur til að hefja byggingu leikskóla og fara í framkvæmdir við sundlaugina Laugaskarði svo fátt eitt sé talið. Eftir hádegi var fundur í stjórn Sorpstöðvar Suðurlands. Þar er glímt við söguna endalausu og leitina að urðunarstaðnum eða kannski frekar leitina að lausn fyrir það sem enginn vill eiga eða hafa nálægt sér... Mér fannst sem við hefðum þokast aðeins áleiðis í dag.
6. nóvember 2015
Vinna við fjárhagsáætlun í dag en það verður alltaf skemmtilegra og skemmtilegra eftir því sem kafað er dýpra... Var síðan fengin til að aðstoða Hjálparsveit skáta við sölu neyðarkallsins hér í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk síðdegis. Skemmtilegt enda gaman að hitta svona margt fólk.
-------
Gísli Páll Pálsson er búinn að vera góður vinur minn í yfir 20 ár. Hann er forstjóri í Mörkinni, Reykjavík, en þar er rekið hjúkrunarheimili og þjónustuíbúðir fyrir eldra fólk af miklum myndarskap. Þar vinna þau eftir Eden hugmyndafræðinni sem tryggir innihaldsríkt líf til hinstu stundar. Gísli Páll sendir starfsmönnum og vinum sínum vikulegar hugrenningar sem gaman er að lesa og og oft veltir hann upp áleitnum spurningum. Í dag sendi hann eftirfarandi pistil sem vakti mig til umhugsunar um samskipti okkar við þá sem ekki geta tekið þátt í samfélaginu á sama hátt og við hinr:
-------
Gísli Páll Pálsson er búinn að vera góður vinur minn í yfir 20 ár. Hann er forstjóri í Mörkinni, Reykjavík, en þar er rekið hjúkrunarheimili og þjónustuíbúðir fyrir eldra fólk af miklum myndarskap. Þar vinna þau eftir Eden hugmyndafræðinni sem tryggir innihaldsríkt líf til hinstu stundar. Gísli Páll sendir starfsmönnum og vinum sínum vikulegar hugrenningar sem gaman er að lesa og og oft veltir hann upp áleitnum spurningum. Í dag sendi hann eftirfarandi pistil sem vakti mig til umhugsunar um samskipti okkar við þá sem ekki geta tekið þátt í samfélaginu á sama hátt og við hinr:
Augu og eyru heimilisfólksins
Var í
karlakaffi um daginn. Fjórir mættir af
sex. Og mikið spjallað. Hafði svikið þá um kaffiboð í tvo eða þrjá
mánuði. Hafði í raun enga afsökun en
þeir virtust fyrirgefa mér svikin og við áttum verulega góða stund saman. Með loforði um að halda okkur við upphaflegu
áætlunina, það er að hittast um það bil einu sinni í mánuði.
Eins
og svo oft áður sagði ég frá því sem á daga mína hafði drifið frá því við
hittumst síðast. Og út frá þessum
frásögnum leiðist svo spjallið í allar áttir og það er virkilega gaman að fá að
hitta þessa heiðursmenn og heyra sögur þeirra, vísdóm og speki. Ég held að ég græði mest á þessu spjalli.
En
titill pistilsins varð til þegar ég sagðist nú ekki vilja einoka fundinn og
sagði að þeir kæmust hreinlega ekki að.
Ég vildi fá að heyra frá þeim. Þá
sagði einn þeirra: „En Gísli Páll, þú
ert augu okkar og eyru.“ Hafði ekki
hugsað út í þetta fyrr, þrátt fyrir að hafa starfað í öldrunarþjónustu í
rúmlega 25 ár. En þetta er svo laukrétt
hjá honum. Við sem vinnum í Mörkinni
förum víða, gerum margt áhugavert og skemmtilegt og getum sagt frá svo mörgu þegar
við erum í vinnunni. Held að við gerum
okkur bara ekki grein fyrir því, hversu mikill hafsjór af fróðleik, sögum og
skemmtilegheitum við getum verið í þágu þeirra sem búa hjá okkur. Hvet ykkur til að segja frá því sem þið eruð
að brasa utan vinnutímans þegar þið hafið lausa stund. Eflaust gerið þið það flest án þess að hugsa
sérstaklega út í það. En með þessu erum
við að leyfa heimilisfólkinu að „sjá“ og „heyra“ það sem fer fram utan veggja
heimilisins. Það eru nefnilega allt of
margir sem komast lítið út af heimilinu til að sjá, heyra og taka þátt í
samfélaginu okkar. Eðli máls samkvæmt er
slíkt ekki óeðlilegt. Líkamleg geta,
aðstæður aðstandenda og margt fleira kemur í veg fyrir ferðalög og
heimsóknir. En með því að segja frá
bætum við þeim þetta verulega upp.
Ef
til vill væri hægt að vera með söguþema einu sinni í viku, oftar eða sjaldnar,
þar sem starfsfólk segir frá því sem á daga þeirra hefur drifið og oftast nær
næst tenging við heimilisfólkið á einhvern hátt. Einhver hefur gert það sem rætt er um,
einhver hefur verið á þeim stöðum sem rætt er um eða einhvers konar aðrar
tengingar. Nú getur vel verið, og
reyndar vonandi, að spjall sem þetta eigi sér stað á heimilunum. Ef ekki, þá finnst mér það tilraunarinnar
virði og ef það er til staðar, þá til lukku með það.
5. nóvember 2015
Átti langan og góðan fund með Davíð Samúelssyni sem vinnur nú sem ráðgjafi fyrir okkur að ýmsum málum sem ætlað er að koma bæjarfélaginu á kortið hvað atvinnu- og ferðamál varðar. Í dag lögðum við lokahönd á umsókn í Uppbyggingarsjóð Suðurland en umsóknin laut að verkefnum í Hveragarðinum sem auka eiga aðdráttarafl garðsins sérstaklega yfir vetrarmánuðina.
Meðal annars er þar nú stefnt að uppsetningu lýsingar við hveri og göngustíga sem gerir svæðið aðgengilegt og spennandi árið um kring.
Eftir hádegi hitti ég Gerði G. Óskarsdóttur, fyrrv. fræðslustjóra Reykjavíkur, en hún vinnur nú að úttekt á starfsemi Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Ekki af því að við teljum að einhverju sé þar ábótavant heldur miklu fremur til þess að kanna hvort starfsemin sé ekki örugglega á beinu brautinni. Samkvæmt niðurstöðum Gerðar þá ríkir almenn ánægja með starfsemina sem starfsmenn geta tekið lóðbeint til sín sem miklu hrósi fyrir góð störf.
Las yfir grein sem birtast mun í sunnudagsblaði Moggans um söguskiltin hér í bæ og þá sérstaklega það nýjasta sem er við Drullusund. Nafnið eitt og sér vekur athygli...
Daglega fer ég yfir reikninga sem berast bæjarfélaginu og er það oft ansi þykkur bunki. Tók uppá þessu fyrir nokkrum misserum og mér finnst þetta gefa mér ansi góða yfirsýn. Nú veit ég nákvæmlega hvað keypt er á hverja starfsstöð í bæjarfélaginu og þó ég sé nú ekki að leggja það allt á minnið þá hnýt ég stundum um reikninga sem eru harla óvenjulegir og þarfnast meiri skoðunar en aðrir. Í dag barst til dæmis hinn mánaðarlegi risa reikningabunki frá Gámaþjónustunni. Það sem mér fannst athyglisvert þar er að 25 tonn af heimilissorpi fara í endurvinnanlegan farveg (græna og brúna tunnan) á meðan að einungis 7,5 tonn fara til urðunar. Þetta eru góðar niðurstöður sem sýna það svo sannarlega að bæjarbúar eru að flokka sorp og minnka með því móti kostnað sem húseigendur þyrftu að öðrum kosti að bera.
----------------
Saumaklúbbur og mikið fjör hér á Heiðmörkinni í kvöld. Alltaf gaman og mikið hlegið :-)
Áður var tími í ræktinni og ég get sagt ykkur það að 140 froskahopp eru eitthvað sem getur sett geðprúðasta fólk úr jafnvægi :-)
Meðal annars er þar nú stefnt að uppsetningu lýsingar við hveri og göngustíga sem gerir svæðið aðgengilegt og spennandi árið um kring.
Eftir hádegi hitti ég Gerði G. Óskarsdóttur, fyrrv. fræðslustjóra Reykjavíkur, en hún vinnur nú að úttekt á starfsemi Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Ekki af því að við teljum að einhverju sé þar ábótavant heldur miklu fremur til þess að kanna hvort starfsemin sé ekki örugglega á beinu brautinni. Samkvæmt niðurstöðum Gerðar þá ríkir almenn ánægja með starfsemina sem starfsmenn geta tekið lóðbeint til sín sem miklu hrósi fyrir góð störf.
Las yfir grein sem birtast mun í sunnudagsblaði Moggans um söguskiltin hér í bæ og þá sérstaklega það nýjasta sem er við Drullusund. Nafnið eitt og sér vekur athygli...
Daglega fer ég yfir reikninga sem berast bæjarfélaginu og er það oft ansi þykkur bunki. Tók uppá þessu fyrir nokkrum misserum og mér finnst þetta gefa mér ansi góða yfirsýn. Nú veit ég nákvæmlega hvað keypt er á hverja starfsstöð í bæjarfélaginu og þó ég sé nú ekki að leggja það allt á minnið þá hnýt ég stundum um reikninga sem eru harla óvenjulegir og þarfnast meiri skoðunar en aðrir. Í dag barst til dæmis hinn mánaðarlegi risa reikningabunki frá Gámaþjónustunni. Það sem mér fannst athyglisvert þar er að 25 tonn af heimilissorpi fara í endurvinnanlegan farveg (græna og brúna tunnan) á meðan að einungis 7,5 tonn fara til urðunar. Þetta eru góðar niðurstöður sem sýna það svo sannarlega að bæjarbúar eru að flokka sorp og minnka með því móti kostnað sem húseigendur þyrftu að öðrum kosti að bera.
----------------
Saumaklúbbur og mikið fjör hér á Heiðmörkinni í kvöld. Alltaf gaman og mikið hlegið :-)
Áður var tími í ræktinni og ég get sagt ykkur það að 140 froskahopp eru eitthvað sem getur sett geðprúðasta fólk úr jafnvægi :-)
4. nóvember 2015
Í dag fórum við Jóhanna, menningar- og frístundafulltrúi yfir þá liði fjárhagsáætlunar sem lúta að þeim stofnunum sem hún sér um. Það er ríkur vilji bæjarfulltrúa til að halda áfram með framkvæmdir við sundlaugina Laugaskarði en þar er búið að samþykkja tillögur að breyttu pottasvæði, innra skipulagi og fleiri breytingum. Fjárhagsstaðan leyfir því miður ekki stóra áfanga á næsta ári en þetta tosast áfram ef eitthvað er gert á hverju ári.
Á næsta ári verður byrjað á nýjum leikskóla en með byggingu hans er efnt loforð um að börn frá 12 mánaða aldri fái tilboð um leikskólavistun. Leikskólabyggingin er stóra framkvæmd næsta árs.
Átti mjög góðan fund með fulltrúum frá Curron sem er tölvufyrirtæki sem sérhæfir sig í ýmis konar tæknilausnum. Það sem við vorum að skoða er kerfi sem heldur utan um þjónustu sem veitt er á heimilum fólks, til dæmis heimilishjálp og fleira slíkt. Þetta er mjög sniðugt og klárlega eitthvað sem verður skoðað betur.
Síðdegis var stór fundur um skipulagsmál á lóð HNLFÍ en þar er nú unnið hörðum höndum breytingum á aðal- og deiliskipulagi til að koma til móts við hugmyndir um byggingu heilsuhótels á lóðinni. Mjög metnaðarfullt og glæsilegt verkefni sem við vonum svo sannarlega að verði að veruleika.
Núna er hluti lóðanna á Grímsstaðareitnum tilbúnar til úthlutunar. Sjö einbýlishús og tvö parhús koma til úthlutunar núna en það verður fróðlegt að sjá hversu hratt þessar glæsilegu lóðir munu fara út.
Væntanlega munu framkvæmdir síðan hefjast í vetur við byggingu fjölda íbúða í raðhúsum hér við Heiðmörk og Þelamörk en þar mun grenndarkynning um óverulega breytingu fara fram meðal nágranna. Breytingin felst í því að húsin verða á einni hæð en ekki tveimur eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Höldum við að sú breyting muni mælast vel fyrir og framkvæmdir geti því hafist fyrr en seinna.
Það hefur klárlega haft mikil og góð áhrif á lóðaúthlutanir hér í Hveragerði að bæjarstjórn tók þá ákvörðun að veita 50% afslátt af gatnagerðargjöldum. Þetta er okkar leið hér til þátttöku í lækkun byggingarkostnaðar og þar af leiðandi lægra húsnæðisverði. Gatnagerðargjald er hér um 900 þúsund per íbúð í raðhúsi (80-90 m2) og munar þar gríðarlega miklu ef við miðum við þéttbýlið hér handan við Heiðina...
----------------------
Vinnan tekur eiginlega allar stundir dagsins um þessar mundir. EN ég fór þó í zumba kl. 6 í morgun svo aftur í ræktina kl. 6 í kvöld. Er einstaklega hrifin af þessu öllu enda myndi ég ekki leggja það á mig að vakna svona snemma ef þetta væri ekki gaman...
3. nóvember 2015
Eftir mánaðarhlé frá blogg skrifum er ég að velta fyrir mér hvort ég eigi að gefast upp á þessum miðli ?
Það er nú ein grundvallarforsenda þess að einhver nenni að kíkja á síðuna að hér komi nýjar færslur öðru hvoru... EN alltaf þegar ég dett úr gírnum sem gerist auðvitað öðru hverju og núna óvenju lengi þá finn ég hversu vænt mér þykir um www.aldis.is og ég vil alls ekki skilja við þessa síðu. Mér er eiginlega alveg sama hversu margir lesa þetta því þetta er ekki síst skrifað fyrir mig sjálfa. Ef einhverjir aðrir hafa gaman af þá er það bara bónus !
Svo nú er að koma sér af stað aftur. Þetta er auðvitað svolítið eins og líkamsrækt og breytt mataræði - maður verður að hafa staðfestu og úthald til að halda svona lagað út og gera það að lífsstíl :-)
En annars er þetta annasamasti tími ársins svo ég hef nægar afsakanir. Hef verið á þingum og ráðstefnum í hverri viku, SASS, Héraðsnefnd Árnesinga, Fjármálaráðstefnan, Landsfundur Sjálfstæðismanna og ýmislegt fleira. Allt gagnlegt og margt af þessu meira að segja nokkuð skemmtilegt líka :-)
Síðan er verið að leggja lokahönd á fjárhagsáætlun ársins 2016 svo það hefur verið nóg að gera í því líka.
Til dæmis er klukkan orðin rúmlega 23 þetta þriðjudagskvöld og ég er ennþá í vinnunni. Búin að vera á fundi með öllum bæjarfulltrúum frá kl. 17 og fara yfir fjárhagsáætlun næsta árs. Hvernig viljum við haga rekstrinum, hvaða fjárfestingar á að ráðast út í og hvaða viðhaldsverkefni ? Þetta er afskaplega góður og samheldinn hópur sem gott er að vinna með og þá verða verkefnin óneitanlega svo miklu léttari. Hefðum auðvitað viljað hafa úr meiru að spila en reksturinn er samt ekki í járnum og okkur gengur ágætlega að ná þessu saman. Ég hef þá trú að við séum að sjá núna afrakstur af íbúafjölgun án kostnaðarauka. Núna eru Hvergerðingar orðnir 2.426 og hafa aldrei verið fleiri. Við höfum samt ekki þurft að auka við leikskóla eða í grunnskólanum og heldur ekki þurft að ráðast í gatnagerð eða aðrar kostnaðarsamar aðgerðir.
Í bígerð eru mörg skemmtileg verkefni sem gaman verður að sjá verða að veruleika. Þið fáið að fylgjast með þeim hér á síðunni á næstu vikum...
Annars má nú ekki gleyma því að heilmikill tími fer þessa dagana í líkamsrækt, trúið því nú eður ei...
Zumba kl. 6 á morgnana 3x í viku - hefði ekki trúað því fyrir tveimur mánuðum að það yrði eins auðvelt og raun ber vitni. Fjórum sinnum í viðbót mæti ég síðan í Fitness bilið hjá henni Loreley sem er að gera aldeilis frábæra hluti. Hef hrikalega gaman af þessu og mæti með mikilli gleði :-)
Það er nú ein grundvallarforsenda þess að einhver nenni að kíkja á síðuna að hér komi nýjar færslur öðru hvoru... EN alltaf þegar ég dett úr gírnum sem gerist auðvitað öðru hverju og núna óvenju lengi þá finn ég hversu vænt mér þykir um www.aldis.is og ég vil alls ekki skilja við þessa síðu. Mér er eiginlega alveg sama hversu margir lesa þetta því þetta er ekki síst skrifað fyrir mig sjálfa. Ef einhverjir aðrir hafa gaman af þá er það bara bónus !
Svo nú er að koma sér af stað aftur. Þetta er auðvitað svolítið eins og líkamsrækt og breytt mataræði - maður verður að hafa staðfestu og úthald til að halda svona lagað út og gera það að lífsstíl :-)
En annars er þetta annasamasti tími ársins svo ég hef nægar afsakanir. Hef verið á þingum og ráðstefnum í hverri viku, SASS, Héraðsnefnd Árnesinga, Fjármálaráðstefnan, Landsfundur Sjálfstæðismanna og ýmislegt fleira. Allt gagnlegt og margt af þessu meira að segja nokkuð skemmtilegt líka :-)
Síðan er verið að leggja lokahönd á fjárhagsáætlun ársins 2016 svo það hefur verið nóg að gera í því líka.
Til dæmis er klukkan orðin rúmlega 23 þetta þriðjudagskvöld og ég er ennþá í vinnunni. Búin að vera á fundi með öllum bæjarfulltrúum frá kl. 17 og fara yfir fjárhagsáætlun næsta árs. Hvernig viljum við haga rekstrinum, hvaða fjárfestingar á að ráðast út í og hvaða viðhaldsverkefni ? Þetta er afskaplega góður og samheldinn hópur sem gott er að vinna með og þá verða verkefnin óneitanlega svo miklu léttari. Hefðum auðvitað viljað hafa úr meiru að spila en reksturinn er samt ekki í járnum og okkur gengur ágætlega að ná þessu saman. Ég hef þá trú að við séum að sjá núna afrakstur af íbúafjölgun án kostnaðarauka. Núna eru Hvergerðingar orðnir 2.426 og hafa aldrei verið fleiri. Við höfum samt ekki þurft að auka við leikskóla eða í grunnskólanum og heldur ekki þurft að ráðast í gatnagerð eða aðrar kostnaðarsamar aðgerðir.
Í bígerð eru mörg skemmtileg verkefni sem gaman verður að sjá verða að veruleika. Þið fáið að fylgjast með þeim hér á síðunni á næstu vikum...
Annars má nú ekki gleyma því að heilmikill tími fer þessa dagana í líkamsrækt, trúið því nú eður ei...
Zumba kl. 6 á morgnana 3x í viku - hefði ekki trúað því fyrir tveimur mánuðum að það yrði eins auðvelt og raun ber vitni. Fjórum sinnum í viðbót mæti ég síðan í Fitness bilið hjá henni Loreley sem er að gera aldeilis frábæra hluti. Hef hrikalega gaman af þessu og mæti með mikilli gleði :-)