18. nóvember 2015
Fékk góða heimsókn í dag þegar hingað komu um 20 nemar í arkitektúr við Háskólann í Brighton. Þau vinna verkefni hér í Hveragerði núna í vikunni af ýmsum toga og í dag komu þau í heimsókn á bæjarskrifstofuna og fengu hefðbundinn fyrirlestur bæjarstjórans um skipulagsmál, mannlíf og umhverfi Hveragerðisbæjar. Ég á nokkra svona fyrirlestra tilbúna þannig að ég gat einnig frætt þau um jarðskjálftann 2008, afleiðingar hans og verkefnið sem við unnum með Stofnun Sæmundar Fróða um viðbrögð við hamförum ýmiskonar. Þetta var líflegur og skemmtilegur hópur sem sá hér alls konar möguleika. Þau fara til síns heima með nafnspjald bæjarstjórans ef þau skyldu vilja snúa til baka og kynna okkur aftur verkefnin sín þegar þau eru tilbúin.
Eftir hádegi kom hingað síðan aftur einn af kennurum hópsins til að ræða við okkur Ara um gróður og garða í borgarsamfélögum. Það var afar fróðlegt og greinilegt að erlendis er sífellt meiri áhersla lögð á mikilvægi grenndargarða og opinna svæða enda er vöxtur borganna víða gríðarlegur og þá getur verið langt í næsta græna svæði.
--------------
Það er ljóst að síðasta kvöldmáltíðin var snædd hér á Heiðmörkinni í kvöld, allavega í bili. Vegna leka er búið að rífa stærstan partinn af eldhúsinu svo það er vatnslaust, eldavélalaust og í raun alls laust. Næstu daga munum við bjóða okkur í mat annað og síðan borða á veitingastöðum bæjarins. Kemur sér að hér er fjölbreytt flóra veitingastaða sem bjóða kostakjör á góðum mat. Síðan er nú óneitanlega kostur að eiga hér stóra fjölskyldu sem vonandi les þessa færslu og rennur blóðið til skyldunnar ...
Comments:
Skrifa ummæli