28. nóvember 2015
Fundur í stjórn Fasteignafélags Hveragerðis snemma á föstudagsmorgni. Þar ræddum við m.a. möguleikann á því að nýr leikskóli yrði byggður af fasteignafélaginu. Sá möguleiki verður kannaður nánar en það eykur óneitanlega flækjustigið hvað það varðar að Ölfusingar skuli taka þátt í kostnaði við leikskólabyggingar hér í bæ en þeir eru ekki aðilar að fasteignafélaginu.
Eftir hádegi var fundur í fagráði Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands. Upplýsingamiðstöðin er rekin af miklum myndarskap í Sunnumörkinni. Þar er svarað fyrirspurnum og upplýsingagjöf sinnt fyrir allan landshlutann árið um kring. Umsvifin hafa aukist mjög á undanförnum árum í takt við fjölgun ferðamanna. Á árinu 2016 stefnir í að velta miðstöðvarinnar verði í kringum 34 mkr en bæði opnunartími og þjónusta hefur aukist ár frá ári sem sýnir enn og aftur hversu mikilvæg þessi starfsemi er fyrir Suðurland allt.
Vann umsókn til Húsafriðunarsjóðs vegna Mjólkurbúsins. Nú hefur Hveragerðisbær eignast allt húsið og því eru hæg heimatökin að lagfæra og endurbæta það sem þörf er á. Þetta er fallegt hús, vel byggt og reisulegt eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Í fjárhagsáætlun eru settar 10 mkr til endurbóta en ætlunin er að lagfæra húsið að utan og endurnýja glugga.
Comments:
Skrifa ummæli