15. nóvember 2015
Hitti einstaka sinnum fólk sem heldur að það sé ekkert um að vera í svona bæ eins og Hveragerði.
Aumingja viðkomandi fá þá langan lestur um það hvað sé frábært að búa í minni bæjarfélögum og hversu mikilvægur hver einstaklingur sé og hvað það sé víða hægt að koma við, gefa af sér, hitta fólk og hafa gaman.
Um helgina er til dæmis búið að vera alveg ótrúlega mikið að gerast í Hveró. Á föstudagskvöldinu bauð Almar bakari til opnunarteitis í nýja glæsilega bakaríinu. Fullt af skemmtilegu fólki og gaman að hittast..
Laugardagurinn byrjaði í góðum hópi í zuma - hörku tími. Síðan tólk við opið hús hjá D-listanum þar sem við Eyþór kynntum fjárhagsáætlun og framkvæmdir sem framundan eru.
Hér má sjá skipulag reitsins á móti okkur Lárusi þar sem framkvæmdir gætu hafist á næstu vikum.
Þá mun fjölga í götunni okkar :-)
Fór síðan ásamt Ingu Lóu uppí Hamarshöll þar sem haldið var minnibolta mót Hamars í körfu. Yfir 200 þátttakendur þannig að sjálfsagt hafa um 500 manns verið í Höllinni þegar mest var, enda fylgir að lágmarki einn með hverju barni á svona móti.
Við mamma fórum síðan á rúntinn að skoða mannlífið og fundum þá meðal annars Lionsmenn og starsmenn Heilsustofnunar sem mældu blóðsykur í Bónus. Flott framtak!
110 ára afmæli Soffíu og Denna var líflegt eins og við var að búast þegar afmælisbörnin eru jafn skemmtileg og þau tvö. Það var ekki síður gaman að vera aftur stödd í veislu á gamla hótelinu. Yndislegt hús með mikla sál. Elfa Dögg hefur nú keypt hótelið svo það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu þar.
Árlegur basar á Dvalarheimilinu Ási var haldinn í dag. Reyni að missa ekki af honum enda er þetta notaleg stund og þá ekki síst að njóta þar veitinga og spjalls við vini og félaga.
Veðrið í gær var einstaklega gott og Hveragerði skartaði sínu fegursta. Við svona aðstæður verða gufustrókarnir hér enn meira áberandi - þó þeir eigi nú kannski ekki að rísa svona glæsilega úr niðurföllunum :-)
Comments:
Skrifa ummæli