10. nóvember 2015
Átti mjög góðan fund í dag með Guðmundi skipulags- og byggingafulltrúa þar sem við fórum yfir þau mál sem rædd voru á fundi skipulags- og bygginganefndar í gær. Sá fundur var bæði langur og yfirgripsmikill en þar var rætt um fjölmörg skipulagsmál sem nú eru í gangi. Það er langt síðan jafn mörgum boltum hefur verið haldið á lofti hér í Hveragerði í einu og á Guðmundur heiður skilinn fyrir dugnaðinn.
Sendi bréf til Minjastofnuna Íslands um framgang verksins við viðgerð á sundlaugarhúsinu í Laugaskarði. Bæjarfélagið fékk 500 þúsund króna styrk til þess verkefnis og þó að það sé nú ekki há upphæð þá skiptir hver króna máli.
Sendum út fundarboð vegna bæjarstjórnarfundar á fimmtudaginn. Þar mun fyrri umræða um fjárhagsáætlun fara fram. Við gerum ráð fyrir að þurfa að fínpússa aðeins á milli umræðna en síðari umræða á að fara fram á fundi bæjarstjórnar í desember.
Hittum fulltrúa Sunnlenskrar orku síðdegis en rætt var um borholurnar sem þegar eru inní Dal. Þær eru að mig minnir 7 talsins og sumar hverjar afar öflugar eins og Drottningarholan sem er ein öflugasta borholan á svæðinu. Sunnlensk orka fer með rannsóknarleyfi þarna og mun bæjarstjórn fylgjast grannt með framvindu mála.
Síðdegis var hún nágrannakona mín hún Bee McEvoy með fyrirlestur um gjörhygli eða núvitund á bókasafninu. Fullt af fólki mætti til að hlusta á fyrirlesturinn og til að fræðast um þessa athyglisverðu aðferð sem halda á manni í núinu. Ekki veitir nú af...
Kíktum síðan við hjá Almari bakara en hann er nú að stækka veitingasalinn og gjörbreyta bakaríinu. Ég hlakka til að sjá hvernig þetta kemur til með að líta út - allavega lofa framkvæmdirnar góðu :-)
Comments:
Skrifa ummæli