<$BlogRSDUrl$>

31. desember 2005

Stórbruni í flugeldasölunni




Það er kraftaverk að allir skyldu komast út úr flugeldasölu Hjálparsveitarinnar hér í Hveragerði þegar hún fuðraði upp laust eftir hádegi í dag.
Hús hér nötruðu og fólk vissi ekki hvaðan á það stóð veðrið þegar sprengingarnar hófust og gríðarstór mökkurinn reis til himins. Jói mágur var rétt ókominn inn í flugeldasöluna með krakkana þegar fólkið sem var inni hentist útúr húsinu. Við vorum vægast sagt ánægð þegar við sáum að þau voru heil á húfi og ekki síður þegar kom í ljós að enginn hafði slasast alvarlega.
En óneitanlega er bæjarbúum brugðið, hingað eru komin slökkvilið nágrannasveitarfélaganna, hjálparsveitarmenn alls staðar að og fjöldi annarra til aðstoðar. Mikið tjón hefur orðið hjá Hjálparsveitinni en ekki er enn ljóst hvort húsnæði Jóhanns Ísleifssonar hafi sloppið.
Búið er að aflýsa brennu kvöldsins og verður hún væntanlega á þrettándanum í staðinn.

Laufey Sif tók nokkrar myndir, þær eru hér.

30. desember 2005

Eins og við var að búast var mikið fjör á mannskapnum á Sölvaballinu.
Fjöldi listamanna tróð upp og gaman að sjá að á árinu sem er að líða hafa þrír af þeim sem tróðu upp síðast gefið út eftirtektarverða geisladiska, það eru þau Helgi Valur, Ylfa Lind og Magnús Þór Sigmundsson. Nú verður gaman að sjá hvort aðrir feta í þeirra fótspor! !
Sumar hljómsveitir skapa sér meiri vinsældir en aðrar og þar fer fremst í flokki hljómsveitin Loðmundur sem var afar vinsæl á Suðurlandi hér í eina tíð. Þeir sviku ekki Hvergerðinga í gærkvöldi frekar en endranær og sýndu að þeir hafa engu gleymt.
Án þess að halla á nokkurn verð ég síðan að segja að Shadows-syrpa þeirra Harðar og Sölva var einnig snilldarlega vel útfærð.
Brottfluttir létu sig ekki vanta á skemmtunina og sannaðist þarna eins og svo oft áður að maður er manns gaman. Sölvi á heiður skilinn fyrir þessa skemmtun sem Hvergerðingar kunna svo sannarlega vel að meta.
------------------
Framboðsmál fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor eru farin að taka á sig mynd þar sem fyrirkomulag framboða á hverjum stað fyrir sig skýrist dag frá degi og einstaklingar tilkynna um fyrirætlanir sínar. Fyrir okkur sem tökum þátt í sveitarstjórnarmálum er gaman að fylgjast með hvaða ákvarðanir fólk tekur vítt og breitt um landið. Sumir skipta um flokka, aðrir ákeða að draga sig í hlé og enn aðrir ákveða að halda áfram í slagnum. Það eru fjörugir mánuðir framundan.

29. desember 2005

Körfubolti

Heimaleikur í körfunni í kvöld. Hamar/Selfoss á móti ÍR. Gekk ekki alveg sem skyldi allavega tapaði okkar lið of stórt fyrir flestra smekk.
Hljóp örlítið í skapið á "einhverjum", viðkomandi var fyrir vikið vísað úr húsi. Kannski ekki alveg nógu gott ! !
Að loknum leik var heimaleikjakaffi fyrir stuðningsmannaklúbbinn. Þó nokkuð margir mættir á Pizza til að ræða leikinn og fara yfir stöðu mála.
Þar átti minn ágæti eiginmaður að fara yfir forsögu að stofnun körfuknattleiksdeildarinnar hér í bæ. Hann skautaði nokkuð léttilega yfir efnið en honum hefndist fyrir því forsvarsmenn klúbbsins höfðu beðið mig, að honum forspurðum, að kynna fyrir viðstöddum hvernig það væri að vera gift "körfubolta-föðurnum" sjálfum. Ekki annað hægt en að rifja upp nokkrar skemmtisögur af mínum ágæta eiginmanni. Af nógu er að taka :-)
--------------------------------
Sölvaballið verður haldið, tíunda árið í röð, á Örkinni annað kvöld. Þangað mæta allir sem vettlingi geta valdið, sýna sig og sjá aðra, enda frítt inn. Skemmtunin hefst klukkan 21 með því að ýmsir hljómlistarmenn sem búið hafa eða búa í bæjarfélaginu stíga á stokk og eftir því sem dagskránni vindur fram breytist skemmtunin í ekta sveitaball.
Sölvaballið og söngskemmtum Lions á vormánuðum eru fastir árvissir viðburðir sem maður lætur ekki framhjá sér fara.

28. desember 2005

Konur í viðskiptalífinu ...

Er sífellt að velta því fyrir mér hvernig fólk fari að því að lesa öll þau blöð sem berast á hverjum degi. Ákvað í dag að lesa allt sem hingað kom, Mbl, Fbl og DV. Þetta tók rétt um 2 tíma ! ! ! Sleppti samt öllum minningargreinum og slatta af aðsendum greinum og fleiru sem án vafa hefði verið hollt og gagnlegt að renna yfir.
Það er ekki vinnandi vegur að standa í þessu nema maður sé í fríi eða lasin heima.
Hinn kosturinn er auðvitað sá að lesa blöðin í vinnunni sem ég held að ansi margir laumist til að gera. Spurning að fá þetta sett í starfslýsingarnar og fóðra það með nauðsynlegri upplýsingaöflun.

En þar sem ég var nú í átaki í blaðalestri þá las ég meðal annars fylgiblað Fbl, “Markaðurinn”. Eftir nokkra stund sló það mig að ég sá varla mynd af kvenmanni í blaðinu. Einungis er rætt við eina konu, Rannveigu Rist á meðan karlkyns viðmælendur um árið sem er að líða eru 17. Ákvað því að gera eftirfarandi úttekt:
Karlar á myndum voru 70.
Konur á myndum voru 2.
3 hópmyndir eru í blaðinu. Á tveimur þeirra er hellingur af jakkafataklæddum körlum í pallborði en á þeirri þriðju sést 1 kona, ónafngreind og óþekkt, og hárinu á tveimur öðrum sést bregða fyrir. Sú mynd er líka tekin á tískusýningu!
Tvær konur eru nafngreindar í öllu blaðinu, Rannveig Rist, akkeri okkar kvennanna í íslensku viðskiptalífi og Ragnhildur Geirsdóttir sem illu heilli hefur látið af störfum fyrir FL Group.

Við konur eigum aftur á móti okkar fulltrúa í “Markaðnum”. Kvenkynsyfirmaður Lýsingar heldur á hlaupaskóm í auglýsingu frá því fyrirtæki Ung stúlka með jólasveinahúfu situr og nagar blýanta í heilsíðuauglýsingu Íslandsbanka. Bakhlutinn á bikiniklæddri bombu prýðir opnu auglýsingu um sólarlandaferðir og ung stúlka rogast með nagladekk í auglýsingu fyrir bílaverkstæði.

Ágætu lesendur, það er eitthvað alvarlegt að ! !

24. desember 2005

Tíminn flýgur, við betra tækifæri verður loforðið hér fyrir neðan efnt ! !

Var að koma frá Selfossi en það er hefð frá því ég man eftir mér að fara þangað á Þorláksmessukvöld. Ættingjarnir eru heimsóttir, farið í "Kaupfélagið" að skoða jólastemninguna og spjallað við fólk. Áður en haldið er heim er ávallt farið í kirkjugarðinn og ljós tendruð á leiðum ástvina. Oftast nær er ekki verandi í kirkjugarðinum á Selfossi á þessum árstíma vegna kulda og næðings frá ánni en í kvöld var yndislegt veður, snjór yfir öllu, logn og blíða. Einstaklega fallegt þar sem upplýsta Ölfusárbrúna bar við himin.



Með þessari fínu sólarlagsmynd frá Hveragerði sendi ég þér og þínum mínar bestu óskir um um gleðilega jólahátíð, frið og farsæld á komandi ári.

19. desember 2005

Verð að biðjast afsökunar á því að hafa ekki skrifað á bloggið í nærri því viku. Auðvitað ófyrirgefanlegt en á þessum árstíma er ansi mikið um að vera sem allt tekur tíma.

Vildi samt láta vita að það verður bloggað fyrir jól, set væntanlega eitthvað á
bloggið í kvöld.

Nú sópast til dæmis inn jólablöð hinna ýmsu flokka og félagasamtaka flest afskaplega skemmtileg og jákvæð enda flestir í jólaskapi. Held ég verði samt næst að minnast aðeins á "jólaboðskap" Samfylkingarinnar sem borinn var í öll hús í síðustu viku, þau voru einhvern veginn ekki í neinu hátíðaskapi ! ! !

13. desember 2005

Haukur Davíðsson er 1. árs í dag.
Maður á auðvitað ekki afmæli fyrr en afmælisdagurinn rennur upp.
Til hamingju með daginn litli vinur !

12. desember 2005

Fjölbraut og grunnskólinn...

Dagurinn helgaður skólamálum
Fundur í skólanefnd FSU í hádeginu. Skólaaksturinn er enn og aftur í ákveðnu uppnámi. Vegagerðin ákvað að hafna öllum tilboðum í hinu sameiginlega útboði sérleyfis- og skólaaksturs á Suðurlandi. Þetta gerir það að verkum að skólanefnd þarf að leita nýrra leiða til að skólaakstur verði með fullnægjandi hætti á komandi önn. Nokkrir möguleikar eru í stöðunni en ákveðið var á fundinum í dag að ganga til samninga við Hópbílaleiguna/G.Tyrfingsson um aksturinn. Ennfremur á að kanna hvort grundvöllur sé fyrir akstri frá Reykholti í Biskupstungum og sé sú reyndin hefst hann um áramót.
-----------------
Á fundi skólanefndar Grunnskólans í Hveragerði seinni partinn í dag voru lögð fram fyrstu drög að útliti nýrrar skólalóðar. Þráinn Hauksson landslagsarkitekt kynnti hugmyndirnar sem eru afar áþekkar þeim sem unnar voru á síðasta kjörtímabili. Það eru, eins og alltaf, ákveðin atriði sem má útfæra með öðrum hætti og jafnvel betri, en starfslið skólans og foreldrar munu nú fara yfir hugmyndirnar og leggja fram sín sjónarmið. Í hugmyndunum er gert ráð fyrir körfuboltavöllum og stórum malbikuðum leikvelli sem nýst getur til margvíslegra hluta, þar má með auðveldum hætti útbúa skautasvell og á sumrin er þetta ákjósanlegt svæði fyrir leiktæki, uppákomur og jafnvel markaðstorg.
-----------------
Laufey Sif kom að austan í kvöld. Gaman að hafa nú alla fjölskylduna undir sama þaki. Það hefur ekki gerst oft síðan að dóttirin tók ástfóstri við Austurland ! !

11. desember 2005



Haukur frændi orðinn 1. árs.
Því var fagnað með mikilli veislu í dag, sunnudag. Alltaf gaman þegar stórfjölskyldan kemur saman. Sigurbjörg, tvíbbar og Laufey fjarri góðu gamni en nú eru mörg afmæli framundan þannig að jólafríið fer í fjölskylduboð, ágæta fólk ! ! !
---------------



Í gær, laugardag, var síðasta opna hús Sjálfstæðismanna fyrir jólafrí. Veitingar með glæsilegasta móti enda var vel mætt. Nýjir Hvergerðingar litu við og er það alltaf sérstaklega skemmtilegt. Bera með sér ferska vinda og nýja sýn sem okkur ber að virkja.
Starfið í Sjálfstæðisfélaginu er sérstaklega gott þessa dagana. Margir áhugasamir og duglegir einstaklingar taka þátt í starfinu sem boðar gott fyrir komandi mánuði sem verða án vafa bæði erilsamir og áhugaverðir.
-------------------
Eftir hádegi var jólafagnaður í Sunnumörkinni. Meðal annars söng Söngsveitin jólalög sem gaman var að hlusta á og Bjössi bolla mætti á svæðið til að gleðja yngstu kynslóðina. Sigrún Eldjárn las fyrir börnin í bókasafninu og Skúli á Upplýsingamiðstöðinni mætti með nýja hljómsveit. Líflegt og skemmtilegt enda dróst á langinn að versla sem var tilgangurinn með ferðinni því ég hitt svo marga til að spjalla við.
----------------



Haustfundur Héraðsnefndar Árnesinga var haldinn á föstudag.
Fundir nefndarinnar eru að jafnaði undirlagðir málefnum þeirra stofnana sem undir hana heyra, tónlistarskóla, listasafns, byggðasafns, héraðsskjalasafns og héraðsbókasafns, allt með viðskeytinu - Árnesinga. Sveitarfélögin í sýslunni standa ágætlega að rekstrinum þó auðvitað megi ávallt gera betur og allir vilji meiri peninga til rekstursins. Í þetta skipti fór þónokkur tími í umræðu um Listasafnið sem staðsett er hér í Hveragerði. Samþykkt var að fela forstöðumanni og stjórn að gera úttekt á starfinu og móta stefnu til framtíðar. Mikilvægt er að vel og hratt verði unnið að þessari úttekt enda vonumst við til að niðurstaða liggi fyrir á vorfundi Héraðsnefndar. Öll viljum við sjá meira líf í safninu og spurning hvort ekki megi auka fjölbreytni og nýtingu hússins þannig að það verði sýnilegra í samfélaginu.
----------------------
Hið árlega “konu jólaboð” Huldu var á föstudag. Skemmtileg tilbreyting frá amstri hversdagsins. Áttum saman frábæra stund enda ekki annað hægt, veitingarnar að venju girnilegar og félagsskapurinn góður.
---------------
Á fimmtudag var síðasti bæjarstjórnarfundur ársins.
Seinni umræða um fjárhagsáætlun fór þar fram og má lesa fundargerðina í heild sinni hér.
Meirihlutinn hefur greinilega séð að tillögur þær sem við lögðum fram við fyrri umræðu voru nokkuð vitrænar því margar þeirra voru samþykktar. Við fögnum því auðvitað og lögðum því fram eftirfarandi bókun. Hún er nokkuð löng en þeir sem ekki nenna að lesa þetta skrolla þá bara niður:

Það er ánægjulegt að sjá að meirihluti bæjarstjórnar hefur samþykkt tillögu minnihlutans er varðar álagningarprósentu fasteignaskatts í á húsnæði í A flokki sem verður nú 0,346% í stað 0.37 eins og tillaga meirihlutans gerði ráð fyrir í upphafi. Jafnframt er tillaga okkar samþykkt um að komið verði til móti við eldri borgara og öryrkja og viðmiðunartekjur þeirra hækkaðar um 3,5%. Í því tilfelli hefðum við viljað ganga lengra en greinilegt er að meirihlutinn er ekki á sömu skoðun.

Við fögnum því að tillaga okkar um utanhússviðhald íþróttahúss bæjarins hafi verið samþykkt og þannig fái húsi eðlilegt viðhald.

Áherslur fjárhagsáætlunar gefa ekki tilefni til að ætla að umhverfismálum og umhirðu bæjarins verði betur sinnt á næsta ári en verið hefur. Við teljum að átak á sviði umhverfismála sé orðið mjög brýnt og til þess að það gangi eftir þarf sérhæfður starfsmaður að hafa umsjón með verkinu. Við teljum það mikla skammsýni að samþykkja ekki tillögu okkar um ráðningu starfsmanns að umhverfisdeild.

Þær gatnagerðarframkvæmdir sem við gerðum tillögu um eru aftur á móti óumflýjanlegar og við teljum að með uppbyggingu í miðbænum verði til dæmis ekki undan því komist að leggja Þórsmörkina bundnu slitlagi þar sem lagnir í þeirri götu geta ekki borið fleiri tengingar.

Það er óskandi að væntingar meirihlutans varðandi afkomu bæjarsjóðs muni ganga eftir. Það hefur reyndar sjaldan þótt góður siður í fjárhagsáætlunargerð að áætla allar tekjur eins hátt og hægt er, en gjöldin eins lág og nokkur möguleiki er á.
Það sýndi sig líka árið 2004 en þá voru gjöld bæjarins rúmum 56 milljónum hærri en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir og rúmum 53 milljónum umfram endurskoðaða áætlun sem vel að merkja var endurskoðuð þann 11. nóvember 2004, þegar einn og hálfur mánuður var eftir af fjárhagsárinu. Það er ljóst að niðurstaða ársins 2004 gaf engan veginn tilefni til þeirrar bjartsýni sem hér er lagt upp með. Ársreikningur 2005 verður ekki lagður fram fyrr en rétt fyrir kosningar í vor. Þá mun sjást hversu raunhæf áætlanagerð meirihlutans er og þá mun best sjást hvort líkur séu á að hinn mikli viðsnúningur sem gert er ráð fyrir muni rætast.



Á fundinum var einnig samþykktur samningur við Orkuveitu Reykjavíkur um lagningu ljósleiðara í Hveragerði. Bærinn kemst þannig í fremstu röð í fjarskiptamálum og ekki þarf að fjölyrða um þá þýðingu sem þetta hefur fyrir bæjarfélagið.
Í fyrsta áfanga verða stofnanir bæjarins tengdar ljósleiðaranum, í öðrum áfanga fyrirtækinu og í þeim þriðja stofnanir. Samningurinn felur í sér að lögnunum verður komið fyrir eftir því sem gatnagerð vindur fram í bænum en íbúar þurfa að brynjast þolinmæði því ekki er ráðgert að tengja fyrstu heimilin fyrr en árið 2007.
En tíminn er fljótur að líða og áður en við vitum af er kominn ljósleiðari í hvert hús.

7. desember 2005

Jóa Fel ísterta

Framleiddum í dag ístertu undir merkjum Jóa Fel.
Tertan þykir afbragðsgóð með marensbotni og Kahlua-líkjör sósu.
Jói mætti sjálfur á svæðið í morgun með myndatökumanni og lagði síðustu hönd á skreytingarnar. Sýnt verður frá heimsókninni í þætti hans þann 15. des.
Það er gaman að eiga samstarf við aðila utan fyrirtækisins með þessum hætti. Báðir læra ýmislegt í ferlinum sem að gagni getur komi í framtíðinni.
Nú framleiðir Kjörís fjórar tegundir af ís fyrir Jóa Fel, vanillu, súkkulaði, súkkulaðibitaköku og tertuna nýju. Allar tegundirnar eru einungis fáanlegar í Hagkaupum.

6. desember 2005

Af ýmsum vígstöðvum
Fór snemma heim úr vinnunni í gær enda var hringt úr skólanum og Albert orðinn veikur. Það er hundleiðinlegt að vera lasinn þannig að heilmikið þurfti að sinna sjúklingnum.
Skrapp samt á Selfoss í gærkvöld á aðalfund fulltrúaráðs Árnessýslu. Þar var kosin ný stjórn í kjölfar þess að nú hefur verið stofnað sérstakt fulltrúaráð í Árborg.
Nýr formaður er Bjarni Einarsson, Miklaholtshelli, sem án vafa verður öflugur í starfi.
Á fundinum voru nokkrir heiðursmenn heiðraðir fyrir störf sín fyrir Sjálfstæðisflokkin þeirra á meðal var Ólafur Steinsson, sem er okkur Hvergerðingum að góðu kunnur. Aðrir sem heiðraðir voru eru þeir Helgi Ívarsson, Sveinn Skúlason, Páll Helgason, Jakob Hafstein og Björn Sigurðsson.
-------------------
Þar sem betri helmingurinn fór til Reyðarfjarðar eldsnemma í morgun var ekki um annað að ræða en vera heima í dag og hugsa um Albert. Hann hresstist reyndar allur þegar leið á daginn og endaði með að koma með á foreldraföndursdaginn í Grunnskólanum. Þar sáum við nokkrar mæður 10. bekkinga um laufabrauðsgerð og var það mikið fjör. Hef hingað til látið nægja að skera út laufabrauðið en komst að því að það er nú ekki mikið mál að steikja þetta "norðlenska kex" eins og það er kallað á sumum bæjum.
10. bekkingar voru einnig með kaffisölu í dag og seldu grimmt af skúffukökum og vöfflum. Vonandi að mikið hafi safnast í ferðasjóðinn þeirra.
------------------------------
Margir koma að jólablaði Bláhvers núna og virkilega gaman þegar þannig vinnst. Nýtt öflugt fólk er að koma til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og þó að allir hafi nóg að gera á þessum árstíma þá gefur fólk sér samt tíma til að skrifa greinar og safna auglýsingum. Frábær vinna í gangi.
----------
Mikið hrikalega eru Danir flinkir að búa til sjónvarpsefni. Verð að hrósa Erninum sem er eini sjónvarpsþátturinn sem ég reyni að fylgjast með. Snilldarlegir þættir.
Til að greypa danska menningu í huga heimilisfólks gróf ég meira að segja upp jóladagatal Danska sjónvarpsins frá 1988, "Nissebanden i Grönland". Þetta var sýnt á meðan við bjuggum úti og nú neyddist aumingja Albert til að horfa á þetta ótextað og eðlilega ótalsett. Hann var líka veikur og gat því ekki kvartað kröftuglega. EN þetta er líka snilldarlegt jóladagatal. Segi ekki að það slái út Jesú og Jósefínu en næstum því ...
Á meðan Danir framleiða hvern eðal þáttinn af öðrum sýnum við "Á baðkeri til Betlehems" aftur og aftur ! ! !
I rest my case....
----------------------------------------
Það er erfitt að gera kröfuhörðum lesendum bloggsins til hæfis. Hef fengið ábendingar um að það sé nú full leiðigjarnt að lesa bara um fundi og pólitík á þessari síðu. Ég hét því reyndar í upphafi að vera ekki með of persónulegt blogg en í dag er ég búin að skrifa um veikindi, danska sjónvarpsþætti og laufabrauðsbakstur. Er hægt að biðja um meira, ágæta fólk?

4. desember 2005

Opið hús, söfn og jólatré ! !

Heimsótti Minjasafn Kristjáns Runólfssonar á föstudaginn. Athyglisverð heimsókn og gaman að sjá hversu marga skemmtilega muni safnið hýsir. Fljótlega kom í ljós að Kristján vissi meira um ættir mínar en ég sjálf og dró hann úr pússi sínu handskrifaða sögu sem langalangamma mín Jóhanna sem bjó að Kolgröf í Skagafirði hafði ritað. Hún lést árið 1909 og því þótti mér þetta nokkuð merkilegt. Ekki síður þótti mér merkilegt að Kristján skyldi vita um þennan skyldleika. En hann virðist einfaldlega vita hina ótrúlegustu hluti.
-----------
Á laugardagsmorgun var opið hús Sjálfstæðismanna venju samkvæmt. Vel var mætt og miklar umræður urðu um hin ýmsu mál. Óneitanlega vekur það mikla athygli hve ötullega verktakar semog aðrir kaupa upp garðyrkjustöðvar hér í bæ og er nú svo komið að ansi fáar stöðvar eru orðnar eftir. Þeir voru margir sem sáu þessa þróun fyrir og auðvitað má segja að lóðirnar hér í miðbæ Hveragerðis eru orðnar of dýrar til að hýsa gróðurhús, vermireiti og útiræktun. Atgangur verktakanna vekur aftur á móti athygli og ekki síður spurningar um það hvernig skipulagsmálum á þessum reitum verður háttað. Það er afar mikilvægt að bæjarstjórn haldi um taumana og fylgi eftir þeim línum sem lagðar eru í hinu nýja aðalskipulagi sem auglýst verður á allra næstu dögum.

Seinnipartinn kíktum við á opið hús í vinnustofunni Ásgarði í Mosfellsbæ. Óskar frændi hefur unnið í Ásgarði í mörg ár og ávallt verið nokkurs konar kynningarstjóri eða PR maður vinnustofunnar. Í ár var hann óþreytandi við að auglýsa opna húsið, mætti í Kastljósið og í viðtöl í blöðum. Greinilega hafði það borið árangur því gríðarlegt fjölmenni var mætt á staðinn og varla maður kæmist inn. Óskar og félagar hafa til margra ára smíðað leikföng og ýmsa aðra gripi og selt til styrktar starfseminni og á opna húsinu voru þeir líka með kaffisölu þannig að vonandi safnaðist dágóð upphæð.
Vinnustofan er til húsa í Álafosskvosinni eftir að brann ofan af þeim í Lækjarbotnum. Má eiginlega segja að það hafi verið lán í óláni því þessi staðsetning og húsnæðið er miklu betra en það sem var.

Skruppum í dag, sunnudag, niður á Eyrarbakka á opnun jólasýningar Hússins. Þar tók Lýður safnvörður á móti gestum og leiddi okkur í allan sannleikann um jólatrén sem þarna eru til sýnis. Elsta jólatré Íslands er þarna uppsett en það var smíðað 1873.
Kíktum síðan við í Rauða húsinu áður en haldið var til baka til að vera viðstödd þegar kveikt yrði á jólatré Hvergerðinga. Það var gert með hefðbundnum hætti nema að í ár var forseti bæjarstjórnar svo hæfileikaríkur að fyrir utan að flytja ræðu dagsins spilaði hann undir á harmonikku þegar jólasveinarnir tóku lagið.
Það er vonlaust að toppa þetta, Þorsteinn :-)

2. desember 2005

Fjárhagsáætlun og tónleikar

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun ársins 2006 fór fram á bæjarstjórnarfundi í dag.
Samkvæmt áætluninni mun bærinn skila jákvæðri niðurstöðu frá rekstri uppá rúmar 55 milljónir. Handbært fé í árslok samkvæmt sjóðsstreymisyfirliti mun nema rétt tæpum 150 milljónum króna.

Það er mikil bjartsýni ríkjandi í áætlunini og óskandi að væntingar meirihlutans varðandi afkomu bæjarsjóðs muni ganga eftir. En ljóst er aftur á móti að niðurstaða ársins 2004 gefur engan veginn tilefni til þeirrar bjartsýni sem hér er lagt upp með. Síðan þá hefur reyndar Hitaveita okkar Hvergerðinga verið seld og auðvitað munar um þær krónur sem þá komu inní reksturinn. Á árinu 2006 mun Orkuveita Reykjavíkur greiða lokagreiðsluna fyrir Hitaveituna eða 67 milljónir króna.

Það er nokkuð ljóst að bærinnn hefur hagnast umtalsvert á undanförnum árum vegna hækkandi fasteignamats í bæjarfélaginu. Það er einnig nokkuð ljóst að álögur á bæjarbúa munu hækka gríðarlega á komandi ári verði fjárhagsáætlunin samþykkt í því formi sem fyrir liggur. Þróun fasteignaverðs hér í Hveragerði hefur verið með þeim hætti að fasteignamat mun að öllum líkindum hækka um tugi prósenta sem aftur verður til þess að fasteignaskatturinn hækkar um það sama. Boðuð lækkun álagningarprósentu úr 0,38 í 0,37 mun hafa óveruleg áhrif í þessu samhengi.

Í ljósi stöðu bæjarfélagsins lögðum við Sjálfstæðismenn fram eftirfarandi tillögur og væntum þess að meirihlutinn taki þær til skoðunar fyrir seinni umræðu sem fram á að fara í næstu viku:

-Álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði verði endurskoðuð og að jafnframt verði komið til móts við eldri borgara og öryrkja og afsláttur þeirra af fasteignaskatti taki tillit til hinnar miklu hækkunar fasteignamats sem orðin er í bæjarfélaginu.

-Árið 2006 verði framkvæmdir hafnar við gatnagerð í Þórsmörk, Klettahlíð og Bröttuhlíð og þannig lokið því þarfa verkefni að allar götur Hveragerðisbæjar séu klæddar bundnu slitlagi. Það er einfaldlega ekki lengur bjóðandi að íbúar í þéttbýli sem telur rúmlega 2000 manns búi við malargötur.

-Fjármunum verði veitt til löngu tímabærs utanhússviðhalds á íþróttahúsi bæjarins. Því hefur ekki verið sinnt að neinu marki í 20 ár ef frá er talin endurnýjun á þaki sem fram fór á síðasta kjörtímabili.

-við ítrekuðum einnig fyrri tillögur okkar um að umhverfismálum bæjarfélagsins verði á ný skipað í öndvegi og að til bæjarins verði ráðinn garðyrkjumaður sem sinni þessum málaflokki.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða tillögu Herdísar Þórðardóttur um að fram færi könnun á því hvort til staðar væri kynbundinn launamunur hjá Hveragerðisbæ. Spannst um málið heilmikil umræða og það meira að segja löngu eftir að fundi var slitið! Greinilegt að málefnið brennur á fólki enda allsendis óþolandi að konur og karlar skuli ekki fá sömu laun fyrir sömu vinnu árið 2005.

Bæjarstjórnarfundurinn var frekar stuttur í þetta skiptið þrátt fyrir fjárhagsáætlunina. Helgaðist það ekki síst af þeirri staðreynd að nokkrir bæjarfulltrúar höfðu hug á að fara á tónleika Hollvinasamtaka HNLFÍ sem haldnir voru í kvöld í Hveragerðiskirkju.
Eiga samtökin allt hrós skilið fyrir skemmtilega tónleika. Karlakór Selfoss, Eyjólfur Kristjánsson, Magnús Þór Sigmundsson og hópur bráðefnilegra tónlistarnemenda úr bæjarfélaginu skemmtu gestum og var vel fagnað. Hápunktur tónleikanna var þó þegar Magnús Þór kom óvænt upp og söng lagið Álfar með Eyjólfi Kristjánssyni. Setti það atriði skemmtilegan punkt aftan við frábæra skemmtun.

1. desember 2005

Verð að koma mér upp nýjum venjum í sambandi við bloggið ! !

Nú er ekki lengur hægt að blogga um og eftir miðnætti sem reyndist svo ansi vel því líkamsrækt í Laugasporti klukkan hálf sjö á morgnana veldur því að undirrituð er varla viðræðuhæf eftir ellefu á kvöldin. Það er af sem áður var ...

En síðan síðast var skrifað ber hæst aðalfund SASS sem haldinn var á Kirkjubæjarklaustri dagana 25. og 26. nóvember. Ályktanir fundarins má lesa hér. Velja verður SASS tengilinn efst á síðunni og fara þaðan inn á ályktanir aðalfundar, svolitlar krókaleiðir!

Þetta var hinn ágætasti fundur þar sem vandlega var farið yfir hin ýmsu mál. Eins og á mörgum öðrum aðalfundum þessara samtaka var mikið rætt um samgöngumál á Suðurlandi. Verkefnin eru líka mörg og brýn enda umferð um þetta svæði stöðugt að aukast.

Nú sér fyrir endann á undirbúningi að stofnun sérdeildar fyrir börn með geðraskanir í Gaulverjaskóla sem sveitarfélögin á Suðurlandi hafa ákveðið að standa sameiginlega að. Náðist samkomulag á fundinum um kostnaðarskiptingu þess verkefnis. Áformað er að sérdeildin hefji starfsemi í febrúar á næsta ári en hafa verður í huga að Gaulverjaskóli er tilraunaverkefni og því nauðsynlegt að hann fái tækifæri til að þróast og dafna og geti þannig best þjónað þeim einstaklingum sem á þessu úrræði þurfa að halda.

Á aðalfundinum var opnuð ný heimasíða sem rekin er í samstarfi Sunnlenska fréttablaðsins og Frétta í Vestmannaeyjum. Þetta er metnaðarfull síða sem hefur það að markmiði að vera ávallt með nýjar fréttir og uppfæra vefinn oft á dag. Það verður gaman að geta fylgst með Sunnlendingum í starfi og leik og full ástæða til að óska aðstandendum til hamingju með framtakið.

Aðstaða til fundarhalda á Klaustri er til fyrirmyndar. Hótelið á staðnum hefur nýlega skipt um eigendur sem standa myndarlega að rekstri þess.

Það var ekki leiðinlegt að keyra þessa leið sem skartaði sínu fegursta í blíðunni, litadýrðin í ljósaskiptunum var einstök og gladdi ferðalangana nú í svartasta skammdeginu.

Nýji diskurinn hans Magnúsar Þórs hélt okkur Pálínu selskap á leiðinni. Frábær tónlist frá einstökum tónlistarmanni. Við Hvergerðingar erum líka afar stoltir af því að hafa jafn gefandi íbúa innanborðs.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet