<$BlogRSDUrl$>

29. september 2009

Bæjarás opnaði formlega síðastliðinn föstudag. Á heimasíðu Dvalarheimilisins Áss er góð frétt um opnunina og margar skemmtilegar myndir. Þar sem mér gengur svo illa að tengja inná síðuna þeirra frá hveragerdi.is þá ákvað ég að prufa að linka á síðuna héðan. Hér má sjá fréttina og flottu myndirnar....
Get ekki sleppt því að setja þessa ferlega flottu mynd af þeirri sem þetta ritar ásamt Steinunni forstöðukonu Bæjaráss. Hún er algjör gullmoli í þessu starfi þannig að ég veit að hún og samstarfskonur hennar eiga eftir að sjá til þess að heimilisfólk og gestir dagdvalar muni eiga góðar stundir í Bæjarási.
-----------------
Svaraði tölvupóstum og gekk frá tillögu fyrir aðalfund Sorpstöðvar Suðurlands áður en ég brunaði í bæinn og tók flugið norður til Akureyrar kl. 10:30. Þar hittist starfshópur skipaður af Ferðamálastjóra sem marka á stefnu til framtíðar í málefnum Upplýsingamiðstöðva. Hópurinn er vel skipaður svo fundurinn var hinn besti. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili af sér niðurstöðun fyrir miðjan nóvember. Flaug suður aftur um kl. 14 og náði fundi með forsvarsmönnum Strætós þar sem ég kvittaði undir samning við nýjan verktaka sem taka mun við akstrinum hingað austur þann 1. október. Nánar um það á www.hveragerdi.is
Þegar heim kom vann ég í fundargerð bæjarstjórnar og bæjarráðs en þessir fundir eru báðir í fyrramálið.

28. september 2009

Fundaði með Jóhönnu og Elfu vegna stöðu mála í kjallara íþróttahússins. Mikilvægt er að þar sé starfsemin í góðu lagi en hljómsveitir hafa undanfarið komið sér upp aðstöðu í húsnæðinu til æfinga.

Símafundur með meirihlutanum þar sem farið var yfir fundarboð bæjarráðs sem fór út í dag. Kláraði af því tilefni minnisblöð og útreikninga sem tóku mun lengri tíma en ég átti von á.

Átti fund með fagráði Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands vegna fundar sem ég þarf að sækja norður á Akureyri á morgun. Skottúr norður kl. 10 heim kl. 14.

Í kvöld funduðum við Eyþór síðan með Birni Pálssyni og Ingibjörgu Björnsdóttur en þau hafa unnið mjög ítarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar virkjana framkvæmdir við Bitru og Hverahlíð. Við Hvergerðingar höfum sérstakar áhyggjur af Bitru enda virkjunin algjörlega óásættanleg. Umhverfisáhrif þessarar framkvæmdar eru með þeim hætti að við getum aldrei og munum aldrei láta þau yfir okkur ganga. Það er alveg ljóst að mengun hefur nú þegar aukist til muna hér í bænum vegna virkjana við Hverahlíð, Hellisheiði og Nesjavelli og við munum ekki sætta okkur við virkjun sem auka mun þá mengun til mikilla muna. Við ætlum okkur ekki að verða tilraunadýr í tilrauninni um það hversu vel mannslíkaminn þolir brennisteinsvetni og önnur eiturefni sem finnast í jarðgufu sem sótt er af jafn miklu dýpi og hér er lagt upp með. Ef hér á að virkja þá þarf fyrst að setja upp hreinsibúnað á núverandi virkjanir og sýna að hann virki áður en áfram er haldið. Allt annað er óásættanlegt enda trúi ég því ekki að nokkrum detti slíkt til hugar. Allt um málið inná www.hengill.nu

25. september 2009

Föstudagur ...

Benedikt Halldórsson, jarðskjálftafræðingur, kom í morgun með hóp af bandarískum vísindamönnum og nemum og flutti þeim fyrirlestur um jarðskjálftann í maí 2008. Við Guðmundur og Helga vorum með hópnum og græddum heilmikið á því. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé jarðskjálftann settan fram með jafn myndrænum hætti. Á fjórum-fimm sekúndum færðist Hveragerði fyrst tvo sentimetra til vesturs, þá 12 cm til norðurs, eftir það 5 sentimetra til austurs áður en aðalbylgjan skellur á sem þeytir bænum þrjátíu centimetra til norð vesturs áður en bærinn skall um tuttugu centimetra til baka og endar að lokum einum 14 sentimetrum norðar en áður var. Það var hreint með ólíkindum að sjá hamfarirnar settar fram með þessum hætti. Annað sem alltaf kemur mér jafn mikið á óvart er munurinn á áhrifum skjálftans eftir bæjarhlutum. Í miðbænum var álagið um 460 en efst í Kambahrauninu er álagið nær því helmingi meira eða rúm 800. Langmest álag er í útjaðri byggðarinnar, langminnst í miðbænum! Það er mælanetið Icearray sem gerði vísindamönnum kleift að greina skjálftann með þessum einstaka hætti.

Fundur í starfshópi um framtíðarskipan sorpmála á Suðurlandi var langur og strangur. Nú verða sveitarfélögin að finna nýjan urðunarstað og það frekar fyrr en seinna. En þrátt fyrir að nýr staður fyndist á morgun þá er skipulagsferlið með þeim hætti að allt að tvö ár geta liðið áður en hægt er að hefja urðun. Því eru öll sveitarfélögin nú að skoða leiðir til að lækka kostnað við urðun. Ef ekki er brugðist við með skjótum hætti þá þurfa íbúar að greiða margfaldan kostnað miðað við það sem nú er gert. Ódýrast og best væri auðvitað að nýta hinn góða urðunarstað að Kirkjuferju en sveitarfélagið Ölfus hefur ekki séð sér fært að verða við þeirri ósk.

Eftir hádegi var nóg að gera því Dvalarheimilið Ás vígði í dag "Bæjarás" nýja deild sem hýsir hjúkrunarrými, hvíldarinnlögn og dagdvöl okkar Hvergerðinga. Þetta var mjög skemmtileg athöfn, létt og lífleg, þar sem gleði og ánægja sveif yfir öllu. Kötturinn og hænurnar gefa heimilinu afar sérstæðan blæ og starfsemin öll er til mikillar fyrirmyndar.

Komum við hjá mæðgunum Soffíu, Drífu og Freydísi í Byr sem í dag kynntu nýja leigumiðlun. Það er heilmikil ásókn í leiguhúsnæði og nú geta bæði leigusalar og leigutakar leitað til Byrs um þjónustu á þessu sviði. Rétt náði að svara nokkrum tölvupóstum áður en ég fór á Selfoss þar sem Háskólafélag Suðurlands vígði nýtt húsnæði við Tryggvagötuna. Mikill áfangi og gleðilegur. Var komin í vinnuna aftur rétt fyrir klukkan 18 og ákvað að nýta tímann til að svara erindum og skipuleggja næstu daga áður en ég brá mér á fyrsta heimaleikinn hjá stelpunum í körfunni. Náði tveimur síðustu leikhlutunum og unnu stelpurnar stórsigur á Val. Fylgdist síðan örstutt með æfingu karlanna en þar er Bjarni Rúnar núna í hópnum ásamt fullt af öðrum efnilegum ungum strákum héðan úr Hveragerði. Með æfingunni fylgdist útsendari háskóla í Bandaríkjunum en Raggi okkar stóri hefur vakið athygli útfyrir landsteinana svo nú eru erlendir aðilar farnir að sýna honum áhuga. Engin furða því drengurinn er 2,18 á hæð. Ef hann heldur sig vel að æfingum á næstunni þá getur hann átt bjarta framtíð fyrir sér í körfunni, það er engin spurning.

24. september 2009

Það er sterklega hægt að mæla með myndini "The ugly truth" sem núna er verið að sýna. Ég, Gunna og Svava brugðum okkur af bæ í kvöld, skruppum í bíó og skemmtum okkur ferlega vel. Flott mynd fyrir stelpur enda varla karlmann að sjá í troðfullum salnum í Smárabíó.

23. september 2009

Fundur héraðsráðs í morgun en þar sitjum við Ragnheiður í Árborg og Margeir í Bláskógabyggð. Ræddum eðliega um þá ákvörðun Ragnheiðar að hætta í bæjarstjórn næsta vor. Við höfum unnið mikið og vel saman þetta kjörtimabil og það verður eftirsjá af henni af þessum vettvangi.

Fjöldi simtala í dag sem tóku lungann úr deginum. Ræddi við forsvarsmenn nýs fyrirtækis sem taka mun til starfa i Entek húsinu á allra næstu vikum. Ef vel tekst til mun það veita 4-5 atvinnu þegar það verður komið í gang. Björn Pálsson, skjalavörður kom í heimsókn og ræddum við málefni Hengilsvæðisins og fyrirhugaða virkjun við Bitru. Björn er ötulasti talsmaður verndunar á þessu svæði og vakinn og sofinn í þessu máli. Nú hefur hann skipulagt undirskriftasöfnun gegn virkjanaáformunum og gengur sú vinna vel. Bæjarstjórn mun halda aukafund í byrjun næstu viku þar sem fundargerð skipulags- og bygginganefndar verður tekin fyrir en þar fjallar nefndin um Bitru og bókar harðort gegn þeim áformum sem Ölfusingar setja fram í aðalskipulagsbreytingunni sem nú er í auglýsingu. Allir Hvergerðingar hljóta að vera sammála þegar kemur að þessu máli. Bitra má aldrei verða að veruleika til þess eru óvissuþættir of margir og áhætta vegna mengunar og umhverfisspjalla óásættanleg.

Rósaball Grunnskólans í kvöld og þar sem Albert er í 8. bekk var hann sóttur af ungri stúlku í 10. bekk og saman fóru þau á ballið. Þriðja rósaballið á þessu heimili og alltaf er þetta jafn spennandi. Fyrsta alvöru ballið og tilhlökkunin og tilstandið er mikið. Þó óneitanlega eigi stelpurnar vinninginn þegar kemur að slíku. Kvöldið stóð greinilega undir væntingum, allavega kom alsæll ungur maður heim undir miðnætti. Þetta er stórskemmtileg hefð hér í Grunnskólanum og góð leið til að tengja saman bekkina og bjóða 8. bekkinn velkominn á elsta stig.

Í kvöld var símafundur í stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi en þar hef ég verið varaformaður í nokkur ár. Nú er undirbúningur hafinn fyrir aðalfund sem halda á í Vestmannaeyjum í október. Það verða heilmikil mannaskipti í stjórn en Sigurður Valur sem verið hefur formaður frá stofnun kjördæmisráðsins í Suðurkjördæmi tilkynnti í kvöld að hann myndi láta af störfum ásamt Árna Inga Stefánssyni og Reyni Ragnarssyni. Ýmsir aðrir stjórnarmenn eru að hugsa ráð sitt og gefa upp ákvörðun sína um framhald stjórnarsetu á næstunni.

Endaði daginn hjá Guðrúnu systur í góðu spjalli, það er alltaf jafn yndislegt....

Þriðjudagur...

Byrjaði daginn í Grunnskólanum þar sem ég hitti nemendur 10. bekkjar og skrifaði undir samning við þau um aðstoð í mötuneyti og frímínútna gæslu. Þetta er feikilega efnilegur og góður hópur sem verður starfsmönnum skólans góður liðsstyrkur.
Ræddi síðan örstutt við Viktoríu, deildarstjóra og Önnu Margréti Stefánsdóttur kennara um umferðarmál. En í morgun varð óhapp í umferðinni í nálægð skólans þar sem þó fór miklu betur en á horfðist. Það er greinilegt að enn þarf að huga að umferðaröryggi á þessu svæði og kanna til hlýtar hvernig hægt er að tryggja með sem bestum hætti að slysin gerist ekki.

Ég og Elfa hittum Ólaf Áka og Gunnþór umhverfisstjóra í Ölfusinu fyrir hádegi. Ræddum við málefni tengd rannsóknum í Varmá en áin tilheyrir í raun báðum sveiarfélögunum. Fórum síðan vítt og breitt yfir ýmis málefni tengd þessum sveitarfélögum og einnig yfir mál tengd Suðurlandi og uppbyggingu á svæðinu. Gagnlegur og góður fundur.

Kjartan Ólafsson, fyrrverandi þingmaður, leit síðan við og áttum við hið besta spjall um ýmislegt það sem hæst ber á hinu pólitíska sviði þessa stundina, af nógu er að taka !

Heimsókn til Þórðar tannlæknis varð líka hápólitísk þó ekki gæti ég tekið mikinn þátt í þeim umræðum eðli máls samkvæmt! En það er greinilegt að áhugi á þjóðfélagsmálum hefur aukist til mikilla muna og hvar sem maður kemur vill fólk ræða pólitík og það sem efst er á baugi. Það er gaman að slíku....

Gekk frá grein í blað Kiwanismanna á Suðurlandi en þar eru virkjanir á Hellisheiði aðal umfjöllunarefnið ásamt málefnum Sorpstöðvar. Bæði málin mér mjög hjartfólgin.

Fékk loksins bílinn aftur úr viðgerð og skilaði í leiðinni Volvo´num sem umboðið lánaði mér á meðan að gert var við Escapinn. Rétt náði austur í tæka tíð fyrir foreldrafund í körfunni þar sem Oddur, þjálfari Alberts, fjallaði um æfingar, foreldrasamstarf, fjáröflun og fleira. Oddur er afar góður þjálfari sem öllum líkar vel við, enda hefur hann þjálfað drengina með góðum árangri í á þriðja ár.

21. september 2009

Við Helga skrifstofustjóri eyddum lunganum úr deginum í að fara yfir stöðuna í rekstri bæjarins. Stefnt er að endurskoðun fjárhagsáætlunar á fundi bæjarstjórnar í október en þrátt fyrir ítrasta aðhald þá sýnist okkur þurfa að bæta í fjárheimildir sumra stofnana. Slíkt er samt illa gerlegt því tekjur bæjarins eru ekki að hækkka í neinu samræmi við verðlagsþróun og útgjaldaaukningu. Það sem þó kemur hvað verst niður á rekstrarniðurstöðunni er hækkun vísitölunnar en Hveragerðisbær er með allar skuldir sínar verðtryggðar í íslenskum krónum. Það er okkur þó hagfellt að hafa ekki tekið lán í erlendum myntum en greiðslubyrði þeirra er þeim sem þau tóku erfiður ljár í þúfu. Það er afar mikilvægt að ríkisstjórnin taki nú af skarið og kynni þær lausnir sem hún hefur hugsað sér til handa þeim hafa þurft að taka á sig stór aukna greiðslubyrði vegna verðbólgu og gengisþróunar undangenginna mánaða. Ég hef sagt það áður að besta leiðin sé sú sem Tryggvi Þór Herbertsson hefur kynnt og Framsóknarflokkurinn einnig um 20% niðurfellingu skulda, má líka kalla þetta aðlögun verðlagsþróunar ef fólki líður betur með það. En aðgerðaleysið er orðið æpandi og á meðan minnkar eigið fé einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga þannig flestir enda tæknilega gjaldþrota verði ekkert að gert.
--------------------------
Heilmikill gestagangur um helgina en það er alltaf gaman að því. Dagný og Haukur fengu að gista en það þykir okkur öllum svo skemmtilegt. Fórum síðan út í rigninguna á sunnudagsmorgun til að týna lauf, ber og nýpur og afrakstur dagsins urðu tveir flottir kransar. Þetta er annar þeirra og já vel að merkja við vorum ferlega ánægð með okkur þegar við hengdum þá upp ;-)

Fyrsta messa tilvonandi fermingardrengsins var á sunnudeginum svo nú er fermingarundirbúningur unga mannsins formlega hafinn! Þetta er yndislegur og gefandi tími. Nú verðum við að sækja messur reglulega og við höfum bara gott af því!

18. september 2009

Föstudagur...

Greinarkornið mitt um vænta fækkun barna í grunnskólanum hefur vakið þónokkra athygli og um hæl fékk ég þá spurningu frá fréttamanninum Magnúsi Hlyni hvort bæjarstjórn ætlaði ekki að hvetja bæjarbúa til dáða í þessum efnum! Ég gat svo sem tekið undir nauðsyn þess því auðvitað geta aldrei orðið til of margir Hvergerðingar! Reyndar þyrftu bæjarbúar að viðhalda frjóseminni lengur en aðrir því hér er meðalaldur í hærri kantinum. Við ættum kannski að auglýsa okkur sem paradís fyrir aldraða foreldra. Rólegt og fallegt umhverfi þar sem maður er fullkomlega laus við stressið. En annars sýnist mér vera von á ansi mörgum börnum og mikið af barnafólki að flytjast hingað þannig að ég bind vonir við að frjósemi Hvergerðinga aukist mikið á næstunni. Síðan hafa bæjarfulltrúar ekki látið sitt eftir liggja því Unnur Þormóðsdóttir eignaðist dreng í april og Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir á von á barni í desember. Við hin teljum okkur hafa uppfyllt skyldur okkar í þessum efnum ;-)
--------------------------
Síðdegis komu vinkonurnar úr MA hingað austur. Við byrjuðum á að skoða sýninguna "Andans konur" í Listasafni Árnesinga þar sem Soffía kynnti okkur fyrir sýningunni á skemmtilegan hátt. Eftir safnaröltið var síðan dýrindis matur á la Lárus á Heiðmörkinni og spjallað fram undir miðnætti. Það er yndislegt að þekkja svona margar góðar konur!

17. september 2009

Fimmtudagur

Bæjarráðsfundur í morgun. Þar var meðal annars ákveðið að segja upp samningnum við núverandi dýraeftirlitsmann og freista þess að fá heimamann til starfans. Lausaganga hunda hefur aukist mikið og erfitt er að eiga við þau mál ef að dýraeftirlitsmaðurinn er ekki á staðnum. Auglýsing vegna stöðunnar fer væntanlega út á morgun. En áhugasömum er bent á að sækja um á bæjarskrifstofunni.

Einnig var lagt fram bréf frá Gagnaveitunni þar sem kynnt var staðan á ljósleiðaravæðingu bæjarfélagsins. Ljósleiðaravæðingin var eitt af þeim atriðum sem sérstaklega var getið í kaupsamningi þegar Hitaveita Hveragerðis var seld. Hefur hún gengið heldur hægar en ætlað var en þó hafa nú ákveðin hverfi möguleikann á tengingu eða um 300 heimili.

Í minnisblaði frá bæjarstjóra var farið yfir þróun nemendafjölda í leik- og grunnskóla næstu árin en það er ljóst að mjög mun fækka í grunnskólanum næstu árin. Ef ekki kemur til umtalsverð fólksfjölgun þá munu nemendur verða orðnir 313 eftir 6 ár og hefur þá fækkað um 100 frá því sem mest var. Þetta eru sex bekkjardeildir sem er nú ekkert smáræði! Merkileg þróun sem er þó staðreynd í hinum vestræna heimi. Við eignust ekki nálægt því jafnmörg börn og mæður okkar, ömmur og langömmur. Það teldist hreinlega geðbilun í dag að eiga yfir 10 börn en slíkt var hreint ekki óalgengt fyrir nokkrum áratugum síðan. Ég get ekki einu sinni gert mér í hugarlund hvernig það er að ala önn fyrir slíkum hópi. Hvað þyrfti eiginlega að elda mikið og hversu stórkostlegir væru ekki þvottarnir...

Eyþór, formaður skipulags- og bygginganefndar er búinn að vera að lesa bók um Náttúrulegan kapitalisma þar sem settar eru fram hugmyndir sem samkvæmt lýsingum eru á margan hátt áhugaverðar. Þorkell Sigurlaugsson setti fram svipaðar kenningar í bók sinni sem nýverið kom út. Síðan var áhugavert viðtal í Kastljósinu í gærkvöldi þar sem fjallað var um mikilvægi þess að settir væru fjárhagslegir mælikvarðar á umhverfisleg gæði. Aðeins þannig væri hægt að meta hagsmunina sem fólgnir væru í verndun vs. nýtingu. Mér finnst öll umræða vera að snúast á sveif með þeim sem vilja fara sér hægt við nýtingu auðlindanna og landsmenn smám saman að gera sér grein fyrir því að þrátt fyrir efnahagslega lægð þá megi ekki gefa afslátt af þeim gildum og þeim verðmætum sem við sem þjóð metum hvað mest. Eyþór sendi mér líka upplýsingar um borg í Brasilíu sem er öðrum fremri varðandi umhverfisleg gæði íbúanna. Þarna eru 99% íbúanna ánægðir með borgina sína. Það er nákvæmlega það sem við viljum að Hvergerðingar verði líka.
Hér má lesa um fyrirmyndar borgina Curitiba í Brasiliu.

Nú eru báðir erlendu leikmennirnir mættir til Hveragerðis. Snaggaraleg stelpa mun styrkja kvennaliðið og Andre er byrjaður að æfa með köllunum. Hann er frá New Jersey, frekar smávaxinn af körfuboltamanni að vera en rosalega snöggur segja mér karlmennirnir á heimilinu. Hann kom í indverskan kjúklingarétt í kvöld og virðist líka ágætlega á Íslandi allavega svona til að byrja með.

Krisján Runólfsson er eitt af þeim skáldum sem búa hér í Hveragerði. Hann er ótrúlega lunkinn við að setja saman vísur og veit að ég hef afar gaman af kveðskap. Hann sendi mér þessa á feisinu um daginn:

Tækifærið nota nú,
og negli bögu saman,
ég verð montinn þegar þú,
af þessu hefur gaman.

...og já, ég hef af þessu heilmikið gaman ! ! !

16. september 2009

Miðvikudagur ...

Ræddi við Hannes Kristmundsson sem nýverið var í sambandi við fjölmiðlafulltrúa Samgönguráðuneytisins vegna tvöföldunar Suðurlandsvegar. Fékk Hannes afar skýr skilaboð um að Suðurlandsvegur yrði fyrsta framkvæmdin sem ráðist yrði í þegar fjármagn frá lífeyrissjóðunum er tryggt. Í sjónvarpsviðtali í sumar sagði ráðherra að framkvæmdir færu í gang í október. Við hér fyrir austan fjall treystum því að staðið verði við það loforð.
------------------
Við Helga fórum í dag yfir ýmsa þá fjármögnunarmöguleika sem bæjarfélaginu standa til boða en nú eru viðræður í gangi við Eyktarmenn um skil á Sólborgarlandinu en áður en hægt er að ganga frá þeim samningi verður að hafa fjármögnun á hreinu.
-------------------
Guðmundur Baldursson færði mér góðar fréttir varðandi mjúkhýsið en þar eru ákveðnir möguleikar á lækkun framkvæmdakostnaðar með breyttum aðferðum við byggingu hússins. Verkfræðingur sem ýtarlega hefur kynnt sér þetta byggingaform kom fram með þetta sjónarmið sem felst í því að nýta sérstöðu hússins til hins ýtrast þegar kemur að jarðvegsvinnu og grundun en þannig væri hugsanlega hægt að spara umtalsverða fjármuni. Ætlum fljótlega að taka prufuholur á svæðinu til að kanna aðstæður á staðnum.
-----------------
Kláraði fundargerð bæjarráðs fyrir morgunfund í fyrramálið, svaraði tölvupóstum og símtölum áður en ég fór í sund síðdegis.
------------------------
Við Albert lærðum síðan heilmikið bæði í dönsku og íslensku í kvöld og að því loknu las ég yfir ritgerð dótturinnar um plötnuval í beðum. Laufey Sif stundar nú nám á Hvanneyri í Umhverfisskipulagi en hún og Elli hafa komið sér vel fyrir í Borgarnesi. Gaman að því að báðar dæturnar skuli núna búa í Borgarfirðinum en Rakel og Guðjón stunda nám á Bifröst.
------------------------

Ég er svo stolt af systkinum mínum og því hversu vel gengur hjá Kjörís!
Ísdagurinn 2009 var ótrúlega vel lukkaður eins og best má sjá á þessu myndbandi. Hér eru líka fjölmargar myndir sem gaman er að skoða.
Engin spurning þið eruð bara best ;-)

15. september 2009

Þriðjudagur...

Fundarboð bæjarráðsfundarins á fimmtudag fór út í dag. Þykkt og mikið en slíkt er nú samt oftast ávísun á stuttan fund. Merkilegt nokk...

Svaraði löngum spurningalista um hugmyndir mínar á starfi Jöfnunarsjóðs vegna endurskoðunar sem í gangi er á sjóðnum. Stjórnarmenn í Sambandinu fengu það hluverk að koma þessu á framfæri. Það er mikilvægt að Jöfnunarsjóðurinn geti hér eftir sem hingað til séð til þess með framlögum sínum að sveitarfélögum sé gert kleyft að rækja lögbundnar skyldur sínar.

Afar stuttur fundur í kjörnefnd SASS eftir hádegi þar sem gengið var frá tilnefningum í stjórnir og nefndir samtakanna. Aðalfundurinn verður austur á Höfn um miðjan október svo þetta er allt á góðu róli.

Fór síðan enn og aftur yfir málefni Sorpstöðvar Suðurlands með aðilum sem hingað mættu á fund. Enn er ekki ljóst hvort Ölfusingar heimila áframhaldandi urðun í Kirkjuferju en áskorun þess efnis var send af öllum oddvitum og sveitarstjórum á Suðurlandi til Ölfusinga nýlega. Áskorunin verður tekin fyrir á fundi hjá þeim í lok mánaðarins.

Á fundi skipulagsnefndar í dag var samþykkt harðorð bókun gegn virkjunaráformum við Bitru. Það er með ólíkindum að sveitarfélagið Ölfus skuli setja virkjunina aftur á dagskrá í ljósi þess mikla fjölda athugasemda sem barst þegar þetta var reynt síðast. Skipulagsstofnun hefur líka gert miklar athugasemdir við vinnubrögð Ölfusinga í þessu máli en bréf þeirra má sjá á heimasíðu Landmótunar þar sem einnig er að finna allar upplýsingar um skipulagsbreytinguna. Formaður skipulags- og bygginganefndar er Eyþór H. Ólafsson og hann hefur fjallað ítarlega um þessar athugasemdir á heimasíðu sinni. Athugasemdir við virkjanaáformin þurfa að berast Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir 3. október.

Annars hefur það vakið undrun mína undanfarið hversu mikið heyrist í borholunum í Hverahlíð hingað niður í bæ. Aðfaranótt laugardagsins var mikill hvinur í bæjarfélaginu enda var lognkyrrt og stillt þessa nótt. Það fór hálf um mig þegar ég uppgötvaði hvers kyns var og hvað þá þegar ég reyndi að gera mér í hugarlund hvernig þessi hávaði ætti eftir að þróast með fleiri borholum.

Annars heyrði ég örstutt í Tim, skiptinemanum okkar frá Hong Kong í dag. Hann bað kærlega að heilsa öllum sem hann þekkir en hann vill allra helst koma hingað sem fyrst aftur. Það er aftur á móti ekki heiglum hent miðað við reglur Útlendingaeftirlitsins! Nú er leiðindaveður í Hong Kong, typhoon gekk yfir borgina í dag, ætli það kallist ekki skýstrokkur á íslensku, frekar en fellibylur?

12. september 2009

Það getur verið gaman að fésbókinni sem ég kíki endrum og sinnum inná. Kvartaði í gær yfir of litlum svefni og of mörgum fundum, þá birtist þessi um hæl:

Ef syfjar þig á fundum fljótt,
fína lausn ég nefni:
Þú tekur dúra títt og ótt
og talar uppúr svefni.

11. september 2009

Föstudagur ...

Dagurinn hófst í grunnskólanum þar sem ég og Elfa Dögg skrifuðum undir samning um umhverfishreinsun við 7. bekk. Krakkarnir taka að sér að hreinsa bæjarfélagið einu sinni í mánuði og fá fyrir peninga sem þau nýta síðan til ferðalags næsta vor. Þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði lengi og gefist vel. Það er ávallt skrifað formlega undir samninginn og svo er tækifærið notað og spurt og spjallað.

Úr því ég var nú komin uppí skóla sem gerist því miður ekki nógu oft þá kíkti ég á aðstöðu deildarstjóranna og herbergi sem nú eru nýtt fyrir sérfræðiþjónustu. Ræddi síðan lengi við Viktoríu sem er nýráðinn deildarstjóri miðstigs og staðgengill skólastjóra um hin ýmsu mál sem snerta skólastarfið.

Gekk síðan frá kaupum á íbúð í Borgarheiði í samræmi við samkomulag ríkisstjórnarinnar og Hveragerðisbæjar um uppkaup á eignum í kjölfar jarðskjálftans. Nokkrar aðrar eignir gætu farið í sama farveg á næstunni.

Vann í ýmsum málum, svaraði erindum og tölvupóstum en endaði daginn á því að greina aldursskiptingu barna yngri en 16 ára í bæjarfélaginu með tilliti til þarfa leik og grunnskóla. Það er ljóst að stórir árgangar eru að útskrifast úr grunnskóla á næstunni og aðrir miklu fámennari að koma upp úr leikskóla. Í ár eru 357 nemendur í grunnskólanum en þegar mest var fyrir nokkrum árum voru hér 414 nemendur. Þetta er fækkun um 57 nemendur eða rúmar þrjár bekkjardeildir miðað við meðaltals fjölda í bekk. Að öllu óbreyttu mun áfram fækka í grunnskólanum en auðvitað geta orðið breytingar á þessari þróun með auknum íbúafjölda. Þó er rétt að hafa í huga að á meðan íbúum hefur fjölgað hefur fækkað stöðugt í grunnskólanum. Þetta er sérkennileg þróun sem kannski breytist í kreppunni! Annars mun ég leggja þessar upplýsingar fyrir bæjarráð í næstu viku sem þá getur betur áttað sig á rýmisþörf leik- og grunnskóla.

Eftir vinnu fórum við Lárus í boð í Skiltagerðina Ex merkt. Þar hefur verið byggt upp gott fyrirtæki sem byggir á vandaðri vinnu og góðri þjónustu enda aukast viðskiptin jafnt og þétt. Nú hefur verið bætt við innrömmunarþjónustu þannig að auk hefðbundinnar skiltagerðar er hægt að prenta þarna myndir í risaformati bæði á striga og pappír auk þess sem ég held að allir Hvergerðingar séu búnir að fá sér sandblástursfilmur í glugga frá Ex merkt ;-)

10. september 2009

Fimmtudagur ...

Fundur Héraðsráðs Árnesinga fyrir hádegi á Selfossi þar sem undirbúinn var fundur Héraðsnefndar sem halda á í lok október. Það er eins gott að ákveða fundartímann í fyrra fallinu þar sem október er þegar þétt pakkaður af fundum sem árlega eru haldnir á þessum tíma.

Við Elfa hittum síðan Tryggva Þórðarson sem er fyrrverandi forstöðumaður Fræðaseturs Háskóla íslands sem rekið var hér í Hveragerði til skamms tíma. Tryggvi er einn fremsti sérfræðingur landsins á sviði vatna og mengunarrannsókna. Ræddum við mengunarmælingar í Varmá og flokkun árinnar sem lögum samkvæmt ber að framkvæma. Í skólphreinsistöðinni þarf einnig að framkvæma ákveðnar mengunarmælingar og Tryggvi hefur hingað til séð um þær.

Fundurinn með Tryggva var í styttra lagi því við Gumundur F. Baldursson heimsóttum Orkuveitu Reykjavíkur ásamt forsvarsmönnum fyrirtækis sem hafa hug á að nýta gufu til framleiðslu. Gufuveitan er sérstaða Hveragerðisbæjar og hefur verið hvati margra fyrirtækja til að setja sig niður hér. Gufan er miklu heitari en vatnið sem í boði er í tvöfalda kerfinu eða um 120°-150°gráður. Slíkt hentar ákveðnum tegundum framleiðslu og iðnaðar vel og mörg fyrirtæki sem nýta sér þessa orkulind enda er hún mjög hagstæður kostur.

Fyrsti fundur bæjarstjórnarað loknu sumarfríi hófst klukkan 5. Á dagskrá lítið annað en fundargerðir en þó var Neyðaráætlun og leiðbeiningar til vettvangsstjórnar og starfsmanna bæjarins vegna svínaflensunnar lögð fram til kynningar. Einnig var auðvitað rætt um mjúkhýsið enda fáir fundir þar sem það kemur ekki fyrir. Ákvað bæjarstjórn að boða til borgarafundar um málið þar sem sérfræðingar verða fengnir til að fara yfir kosti og galla mjúkhýsis. Það er svo mikið framundan hjá bæjarfulltrúum að það var ákveðið að hafa ekki pressu á tímasetningu fundarins heldur að stefna að fundinum fyrir áramót. Auðvitað reynum við samt að halda þennan fund frekar fyrr en seinna.

Fór beint af bæjarstjórnarfundi í kvöldverð sem Kjörís hélt fyrir hóp danskra mjólkurfræðinga sem komnir voru í heimsókn til að heimsækja þá verknámsstaði sem senda út nema í mjólkurfræði. Það er gaman að því að næst munu fara frá Íslandi fjórir verknámsnemar, einn frá Akureyri, einn frá Sauðárkróki og tveir héðan frá Hveragerði. Bræðurnir Gunnlaugur og Stefán Lárussynir eru báðir búnir að vera á samningi í iðninni í Kjörís og fara nú út í skólann. Það er hægt að læra ýmislegt á heimaslóðum þegar vel er að gáð....
--------------------
En sorpumræðan fer víða og áhyggjur okkar af stöðu mála vöktu þessar hugleiðingar hjá félaga okkar honum Bjarna Stefáni Konráðssyni:

Þetta er einfalt Aldís. Þú veist að þegar maður tekur til í bílskúrnum hjá sér, hirðir maður draslið en hendir ruslinu. Þetta er sem sagt spurning um flokkun og þar af leiðandi mjög einfalt:

Það einfalt mun í augum mínum
og ekki nokkurt basl;
þú finnur rusl í fórum þínum
og flokkar það sem drasl....

Og öll sorpvandamál úr sögunni. Þarf bara svolítið stóran bílskúr.

9. september 2009

Miðvikudagur ...

Fundur snemma í morgun með forsvarsmönnum Strætós og Ástu Stefánsdóttur, bæjarritara í Árborg. Fórum yfir stöðu mála varðandi úboðið en nýr rekstraraðili, SBA Sérleyfisbílar Akureyrar, mun taka við akstrinum þann 1. október. Fórum einnig yfir ýmis atriði varðandi leiðakerfið og tímatöfluna og ræddum fyrirkomulag varðandi vagnana en undanfarið hefur það aukist að farþegar séu skyldir eftir vegna þess að vagnarnir eru fullir. Að sjálfsögðu verður reynt að aðlaga skipulagið að þeirri þörf sem er til staðar en þó er aldrei hægt að koma í veg fyrir að Strætó geti verið fullur sérstaklega ef stórir hópar taka vagninn. Slíkt er reyndar alltaf betra að tilkynna fyrirfram.

Í hádeginu hittist kjörnefnd SASS en nú styttist í aðalfundinn sem halda á í byrjun október austur á Höfn. Er þetta í fyrsta sinn sem fundurinn er haldinn fyrir austan enda eru Hornfirðingar nýgengnir í samtökin.

Hitti tölvumenn sem kynntu fyrir okkur Helgu nýjungar á því sviði. Nú eru sóknarfærin lítil fyrir hvers kyns sölumenn nema að hægt sé að selja okkur sparnað.

Hjörtur Þórarinsson heimsótti mig á skrifstofuna síðdegis en hann er einn aðal forsprakkinn fyrir útgáfu blaðs þeirra Kiwanismanna hér á Suðurlandi. Blaðið er ávallt helgað umhverfismálum og svo er einnig nú. Við Hjörtur höfum verið ágætis vinir síðan við til margar ára vorum sessunautar á útskriftum FSU en hann hefur verið formaður Hollvarða FSu frá stofnun þeirra samtaka.

Í kvöld kláruðum við Albert verkefni sem hann átti að gera í samfélagsfræði. Við fengum þá snilldarhugmynd, að okkar mati, að gera vefsíðu i staðinn fyrir hefðbundna ritgerð. Hér má sjá afrakstur kvöldsins. Við erum mjög stolt af þessu...

8. september 2009

Á fundi í morgun var farið yfir þá möguleika sem Hveragerðisbær hefur til að minnka kostnaðinn sem falla mun á íbúa vegna lokunar sorpurðunarstaðarins að Kirkjuferju. Það þarf að vinna hratt að lausn því tíminn er fljótur að líða og lausn verður að vera fundin þann 1. desember. Það er borðleggjandi að flokkun verður að aukast í bæjarfélaginu eigi þetta að takast enda verður að minnka sorpið sem fer til urðunar með öllum tiltækum ráðum.

Hitti aðila sem áhuga hafa á að stofnsetja fyrirtæki hér i bæ, sú hugmynd er komin býsna langt, húsnæði í sigtinu og tæki á leið til landsins. Samt vantar enn herslumuninn en þau atriði snúa að orkunni sem í boði er. Munum hitta fulltrúa Orkuveitunnar vegna þessa á fimmtudag.

Það er ekki oft sem ég fær jafnmikil viðbrögð við frétt eins og ég hef fengið við fréttinni um mjúkhýsið. Á hverjum degi heyri ég í fólki sem hefur annað hvort reynslu af svona mjúkhýsi eða hefur brennandi áhuga á málinu. Ég hef ekki heyrt í neinum sem deilir áhyggjum minnihlutans vegna þessa byggingaforms. Til að svala forvitninni hef ég núna safnað öllum upplýsingum sem ég hef á sérstaka heimasíðu og slóðin inná hana er hér til vinstri. Ég mun bæta við efni eftir því sem bætist í gagnabankann.

7. september 2009

Mánudagur ...

Óvanalega mörg símtöl í morgun vegna hinna ýmsu mál en slíkt tekur alltaf dágóðan tíma. Nú í vikunni er fyrsti fundur bæjarstjórnar að afloknu sumarfríi það er reyndar fátt á dagskrá sem er hefðbundið á þessum tíma en í ár hefur einnig verið frekar tíðindalítið í sumar svo ekki bætir það nú úr skák. Meirihlutafundur í kvöld til undirbúnings fundinum á fimmtudag var miklu líflegri en fundarboðið gaf tilefni til. Reyndar eru meirihlutafundir ávallt mjög skemmtilegir enda er hópurinn samhentur og góður. Síðla kvölds var hringt vegna þrýstingsfalls í vatnsveitunni en slíkt er ávallt áhyggjuefni, þá var Árni auðvitað löngu farinn af stað til að gera við dælu sem hafði bilað í vatnsbólinu. Svona úrræðagóðir starfsmenn eru ómetanlegir.

Las á bloggi ágæts Hvergerðings að grátið væri í koddann sinn á hverju kvöldi vegna þess óréttlætis sem felst í landfræðilegri legu landsins og þeirri staðreynd að illa gengur að rækta í görðum suðræna ávexti. Verð því að geta þess að sú sem þetta ritar hefur þegar borðað fjögur kirsuber af trénu sem gróðursett var í vor, reyndar svolítið súr en þar er um að kenna óþolinmæði frekar en nokkru öðru. Hef þó áhyggjur af því að bláberin nái ekki þroska en hef ekki enn gefið upp alla von þar. Bauð síðan fjölskyldunni uppá ein 10 hindber af eigin runna þannig að það er von í suðrænni aldinrækt hér í Hveragerði. Eina blómið á eplatrénu hvarf bara einn daginn þannig að ekkert epli kom þetta árið. Verð verulega fúl ef tréð reynist ekki sjálffrjóvgandi eins og mér var sagt ! ! !

6. september 2009

Helgin að baki...

Í anda settra markmiða var sundlaugin í Laugaskarði heimsótt á laugardagsmorgni og meira að segja synt dágóðan spöl. Ég held svei mér að nuddið í pottinum sé það besta sem ég veit um enda í sífelldri notkun. Deginum að öðru leyti varið í garðvinnu en ég er að reyna að uppræta risa valmúa sem breytt hefur úr sér í einu beðinu með aðdáunarverðum árangri. Síðan er nauðsynlegt að arfahreinsa öll beð á haustin til að minnka illgresið næsta sumar. Eigum enn eftir að taka upp kartöflurnar og rófurnar en þetta vex allt ennþá svo það liggur svo sem ekki lífið á.

Í dag sunnudag var haldið til Stokkseyrar þar sem Draugasetrið var heimsótt. Skammast mín fyrir að þurfa að viðurkenna að þangað hef ég aldrei áður komið. En setrið kom skemmtilega á óvart, gríðarlega mikið fjör var í skottum og mórum sem léku þarna lausum hala svo maður mátti virkilega passa sig á því hvar maður stóð svo öruggt væri að ekkert kæmi manni á óvart. Þetta var mikið fjör og mikið lifandis býsn brá okkur oft! Mæli með þessu ;-)

Heimsóttum Raftholt þar sem við náðum síðdegiskaffi að hætti Jónu. Alltof langt síðan við komum þangað síðast en alltaf er það jafn notalegt.

4. september 2009

Í rusli á föstudegi...

Kláraði samninga við 7. og 10. bekkinn um ýmis störf í Grunnskólanum. Árlega eru gerðir svona samningar en í ár bætist við frímínútnagæsla hjá 10. bekk sem auk þess aðstoðar í mötuneyti. 7. bekkurinn hreinsar rusl úr bæjarfélaginu einu sinni í mánuði og sjá þannig til þess að bærinn sé snyrtilegur og okkur öllum til sóma. Krakkarnir sinna þarna afar mikilvægum störfum og fá í staðinn greiðslu sem rennur í ferðasjóð þeirra. Gott samstarf sem hefur gengið vel. Væntanlega finnum við tíma í næstu viku til að skrifa formlega undir samningana.

Fór yfir tímatöflu íþróttahúss með Jóhönnu menningar og frístundafulltrúa. Í ár nýtir skólinn húsið meira en oft áður sem skapar enn meiri tímaþröng en áður hjá íþróttafélaginu. Var nú samt ekki á það bætandi. Sumir krakkar mæta fyrir 7 á morgnana í íþróttahúsið til að ná æfingum svo unga kynslóðin leggur ýmislegt á sig fyrir sportið.

Eftir hádegi var fundur sveitarstjóra á Suðurlandi þar sem aðalumræðuefnið var framtíðarskipan urðunarstaðar fyrir sveitarfélögin. Saman reka þessi sveitarfélög sorpurðunarstað að Kirkjuferju sem bæði er afar ódýr en jafnframt hefur rekstur hans verið til mikillar fyrirmyndar hin síðari ár. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að betri urðunarstaðir eru vandfundnir. Samt hefur sveitarfélagið Ölfus nú ákveðið að heimila ekki áframhaldandi rekstur eftir 1. desember n.k.. Frá og með þeim degi verður að aka öllu sorpi frá Suðurlandi í Álfsnes utan við Mosfellsbæ. Urðunargjöld á Álfsnesi eru þrisvar sinnum hærri en á Kirkjuferju og þá hækkun þurfa sunnlensk heimili að bera auk þess kostnaðar sem falla mun til vegna aukins aksturs. Ef þessi leið verður farin mun sorpurðunargjald hvers heimilis hér í Hveragerði hækka úr 8.000 í um 24.000 sem er hækkun um 16.000 krónur, við bætist síðan kostnaður vegna miklu lengri aksturs. Sorphirðu og sorpurðunargjald hér í bæ mun því væntanlega þurfa að hækka úr 16.100 í um 35.000 ef ekki verður brugðist við! Og þetta á ekki einungis við hér í Hvergerði heldur um allt Suðurland. Hjá fyrirtækjum og einstaklingum sem allra síst mega við slíku eins og efnahagsástandið er í dag. Þó að við Sunnlendingar fyndum nýjan urðunarstað á morgun þá yrði hann tæplega opnaður fyrr en eftir ein 2-3 ár vegna skipulagsmála og nauðsynlegra framkvæmda og á meðan tikkar kostnaðurinn beint úr vasa sunnlenskra fjölskyldna.
Einföld framlenging Ölfusinga á leyfi til urðunar í Kirkjuferju myndi koma í veg fyrir þessar hækkanir.
Ef af lokun Kirkjuferju verður þá munum við Hvergerðingar leita allra leiða til að lækka þann kostnað sem falla mun á heimili hér í bæ, þá möguleika erum að kanna þessa dagana.

Seinnipartinn fórum við Lárus í 10 ára afmæli Íslenska gámafélagsins sem haldið var í húsnæði fyrirtækisins í gömlu áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Fjölmenni var í afmælinu sem tókst afar vel. Þar mátti m.a. sjá hvernig notuð matarolía knýr bíla fyrirtækisins ásamt því að flokkunarhúsnæðið var til sýnis. Enn heyrir maður raddir þess efnis að það taki því ekki að flokka þar sem allt sorp lendi hvort sem er í sama haugnum að lokum. Þarna sér maður frá fyrstu hendi hvernig verðmæti verða til úr sorpinu sem við hér í Hveragerði til dæmis setjum í grænu tunnuna. Efasemdarmenn eru hvattir til að heimsækja Íslenska gámafélagið á morgun en þá er opið hús, leiktæki fyrir börnin og húsnæðið opið öllum.

3. september 2009

Fimmtudagur ...

Bæjarráðsfundur í morgun þar sem meðal annars var fjallað um Strætó. Þar var ákveðið að endurgreiða nemum í framhalds- og háskólum 15% af andvirði persónubundinna íbúakorta (3 og 9 mánaða). Er þessi ákvörðun tilraun til þess að auka enn nýtingu á Strætó og ekki síður að koma með þessu til móts við þá sem stunda nám hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða á Selfossi. Er það von bæjarráðs að þessi nýbreytni muni mælast vel fyrir.

Á fundinum var einnig lagt fram bréf frá systrunum frá Álfafelli, Kolbrúnu og Auði Gunnarsdætrum, þar sem þær gáfu 150.000 til kaupa á trjáplöntum sem gróðursetja á í Varmárgili milli Fossflatar og Frost og funa. Gjöf gefin uppúr 1980 af foreldrum þeirra þeim Gunnari og Ingimaríu varð kveikjan að Listigarðinum við Fossflöt og nú bæta þær systur um betur. Svona gjafir verða oft til þess að ýta úr vör verkefnum sem annars yrðu ekki að veruleika. Hlýhugurinn til bæjarins sem í þeim felst er ómetanlegur.

Það er eins og kreppan hafi leyst frumkvæði íbúa úr læðingi en einnig var lagt fram bréf frá félögum sem aðsetur hafa á Vorsabæjarvöllum þar sem þau bjóða fram krafta sína við umhverfisúrbætur í Dalnum. Það er svo margt hægt að gera ef við leggjum saman krafta margra einstaklinga. Það skyldi nú ekki vera að kreppan verði til þess að vekja eiginleika sem áður voru sjálfsagðir og til dæmis félög eins og Ungmennafélögin byggðu á. Það væri nú ekki svo slæm aukaverkun ! !

Hér í Hveragerði er enginn "fræðslustjóri" heldur heyra leikskólarnir og grunnskólinn beint undir bæjarstjóra. Það finnst mér ágætt enda hef ég ávallt haft mikinn áhuga á þessum málaflokki. Því hitti ég oft stjórnendur þessara stofnana til að fara yfir málin. Í dag ræddi ég við Guðjón skólastjóra vegna ýmissa málefna skólans og heimsótti síðan Óskaland örstutt vegna starfsmannamála en þar þarf nú að auglýsa eftir starfsfólki af ýmsum ástæðum.

Í kvöld fengum við góða gesti sem gæddu sér á laxi sem Andrés nágranni hafði gaukað að okkur. Þeir Gunnar Már og Vilhjálmur Jakobssynir, frændur Lárusar frá Keflavík, voru auðfúsugestir enda hressir mjög.

Þessi mynd rataði til mín í dag og finnst mér hún svo góð af okkur systkinunum að ég stóðst ekki mátið að setja hana hér inn...

2. september 2009

Miðvikudagur ...

Byrjaði daginn á fundi með Birki Sveinssyni sem er formaður fræðslunefndar. Fórum við yfir ýmis mál tengd skólunum en fundur er framundan í fræðslunefnd. Skólastarf fer vel af stað eftir sumarfrí bæði í leikskólum og grunnskóla. Ég hitti skólastjórana einnig reglulega og förum við þá yfir það sem efst er á baugi. Á leikskólunum snúast þau mál oft um starfsmannamál enda starfsmannavelta þónokkur á þeim stöðum. Ég hélt að það myndi breytast í kreppunni en það hefur allavega ekki gerst enn. Færri nemendur hafa ekki verið í grunnskólanum í þónokkur ár en þeir eru nú um 360 talsins. Samt næst ekki hagræðing með sameiningu bekkjardeilda eins og maður les í blöðum að gert er annars staðar vegna þess hvernig nemendur skiptast í bekki. Þó er einn árgangur í einni bekkjardeild en þau hafa í staðinn tvo kennara, það fyrirkomulag gafst vel á síðasta skólaári og er því reynt aftur í ár.

Skrifaði nokkur bréf sem ég þurfti að ganga frá varðandi ný fyrirtæki sem hug hafa á að koma hingað. Hvað af þeim verður að veruleika veit maður aldrei og því tökum við jákvætt í allar hugmyndir um atvinnusköpun falli þær að framtíðarsýn og skipulagi bæjarins.

Aðilar hafa lýst yfir áhuga á þeim rað- og parhúsalóðum sem eftir er að úthluta í bæjarfélaginu og var ég í sambandi við þá varðandi gatnagerðargjöld og önnur gjöld sem þarf að greiða af lóðum. Við erum enn þónokkuð ódýrari en höfuðborgarsvæðið og því ætti það að vera fýsilegur kostur að byggja húsnæði hér fyrir austan. Nú er staðan að verða sú að par- og raðhúsalóðir verða ekki lengur fáanlegar í bænum þegar úthlutun í Dalsbrún lýkur. Þó verða auðvitað til lóðir innan bæjarmarka Hveragerðisbæjar en þær eru í einkaeigu og því ekki bæjarins að úthluta þeim.

Fundaði með Elfu Dögg varðandi hugmyndir sem hún hefur um aukna starfsemi á hverasvæðinu í miðbænum en þar eru óþrjótandi möguleikar enda svæðið einstakt. Ræddum einnig framkvæmdir á óræktar svæðinu við hlið leikskólans við Finnmörk en þar á nú að gera göngustíga, planta og snyrta svæðið svo þarna myndist gott útivistarsvæði með tengingum í hverfin í kring. Stefnt er að því að gera þarna hól sem nýst getur sem sleðabrekka á veturna. Það held ég að verði vinsælt hjá yngri kynslóðinni. Að lokum fórum við yfir framkvæmdir við gámaplan við grunnskólann sem þarf að framkvæma eigi að vera hægt að fara í umhverfisverkefnið Græn fánann í vetur.

Undirbjó bæjarráðsfund sem haldinn verður í fyrramálið og rétt náði því í sundleikfimi síðdegis en sú frábæra líkamsrækt byrjaði í vikunni. Veit fátt notalegra en sundlaugina á góðum degi...

Vindbelgs/mjúkhýsis/loftborna íþróttahúss umræðan hefur borist víða og í dag fékk ég sendar slóðir á fullt af svipuðum húsum sem reist hafa verið í Bandaríkjunum. Hér er ein og hér er önnur. Gaman fyrir áhugasama að kíkja á þetta.

1. september 2009

Þriðjudagur ...

Þónokkur erill hefur verið í vinnunni bæði í dag og í gær og margir sem þurft hafa að ræða við mig um hin margvíslegustu mál. Allt frá vangaveltum um lóðaúthlutanir og leikskóla, umhverfismál, skógrækt, slitlag og virkjanir og allt þar á milli.
Nú eru líka að raðast í dagbókina hinir ýmsu fundir og ráðstefnur haustsins en allt er að fara á fullan gang eftir dróma sumarsins. Haustið er tími fundanna því þá eru hinir ýmsu aðalfundir oft haldnir og auk þess fjármálaráðstefnan sem markar upphaf fjárhagsáætlunargerðar í mörgum sveitarfélögum.

En meðal þeirra sem höfðu samband í gær var sr. Tómas Guðmundsson, gamli sóknarpresturinn okkar hér í Hveragerði. Hann vildi endilega ræða við mig í framhaldi af frétt sem birtist í sunnudagsfréttum ríkisstjónvarpsins um mjúkhýsið. Vildi Tómas koma því á framfæri að uppúr 1970 bjó hann um tíma með fjölskyldu sinni í Svíþjóð. Til að drýgja tekjurnar tók hann að sér þrif á Arlanda flugvelli en þá var verið að byggja nýja flugstöð fyrir innanlandsflugið. Meðan á byggingunni stóð var reist stórt mjúkhýsi (loftborið hús) á flugvellinum sem hýsti alla þjónustu við innanlandsflugið þar til hin nýja bygging var tekin í notkun nokkrum misserum síðar. Þegar það gerðist þá var mjúkhýsið einfaldlega tekið niður og flutt annað þar sem meiri þörf var fyrir það. sr. Tómas vildi einfaldlega koma þessari reynslu sinni á framfæri við bæjarbúa og jafnframt að aldrei hafði hann orðið var við nokkur vandræði vegna þessa húss þvert á móti hefði hann verið afar hrifinn af þessari nýstarlegu byggingatækni. Þetta var gott símtal en það er ávallt notalegt að heyra í sr. Tómasi. Sérstaklega þegar hann miðlar svona góðri reynslu.

Ég verð að segja að mér finnst sérstakt þegar fólk neitar að kynna sér mál áður en afstaða er tekin til þeirra. Það ber vott um mikla þröngsýni að vilja ekki líta á mál frá öllum hliðum sérstaklega þegar svona auðvelt er að nálgast upplýsingar eins og nú er. Það er lika sérstakt þegar enginn vilji er sýndur til að kynna sér afstöðu og reynslu annarra þjóða sem hafa eins og í þessu tilfelli áratuga reynslu af loftbornum mannvirkjum. Þó að það sé auðvitað augljóst að erfitt verði að finna fjármagn til íþróttamannvirkja á næstunni þá er sú staðreynd óumflýjanleg að loftborið hús kostar margfalt minna en hefðbundnari byggingar. Hef ég leyft mér að skjóta á að loftborið hús kosti um fjórðungi minna en hefðbundnari hús. Enn á þó eftir að kostnaðarreikna jarðvegsvinnu, sökkla, tækjakaup innandyra og frágang á lóð. En kostnaður við sjálft húsið liggur fyrir, losar 100 milljónir króna hingað komið, uppsett ásamt ýmsum búnaði. Í mínum huga er þetta ekki flókið ef við eigum að geta leyst vanda hinna ýmsu deilda Hamars hvað aðstöðu snertir þá verðum við að hugsa eftir nýjum brautum. Hveragerðisbær hefur ekki bolmagn til að byggja íþróttamannvirki sem kostað gætu rúman milljarð, við gætum aftur á móti ráðið við að framkvæma slíkt fyrir fjórðunginn eða 250 milljónir það er einfaldlega allt annar handleggur! !

---------------------------

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet