<$BlogRSDUrl$>

30. september 2005

Afmæliskaffi, vöruþróun og Reykjavík !

Síðasta föstudag í mánuði er afmæliskaffi hér í Kjörís, þá mæta allir starfsmenn á kaffistofuna og njóta frábærra veitinga sem Elín Jóhanns töfrar fram af sinni víðrómuðu snilld. Í dag fékk hún liðsauka því Bíbí bakaði vöfflur ofaní mannskapinn sem vel voru þegnar.
Strax að loknu afmæliskaffinu tók við vöruþróunarfundur. Þá fundi reynum við að hafa hálfsmánaðarlega og jafnvel oftar þegar mikið liggur við. Það er reyndar afskaplega óheppilegt að halda þessa fundi eftir afmæliskaffið því í dag þurftum við að smakka um 9 tegundir af okkar tilraunaís og tvær tegundir af frostpinnum. Margar virkilega góðar hugmyndir eru í gangi sem vonandi eiga eftir að rata á borð landsmanna eftir nokkra mánuði. Svo má reyndar ekki gleyma að nefna það að líka voru smakkaðar þrjár tegundir af ís sem aðalsamkeppnisaðilinn var að setja á markað. Það er nauðsynlegt til að vita hvað er í gangi og hvaða þróun er í ísframleiðslunni hjá öðrum. Við smökkum yfirleitt mikið af ís jafnt okkar eigin semog frá öðrum jafnt innlendum sem erlendum framleiðendum. 14 tegundir á einum fundi er reyndar alveg á mörkum hins gerlega og klárlega ekki í takt við líkamsræktarátakið sem annars er í gangi :-)
------------------------
Í kvöld fór saumaklúbburinn í reisu til Reykjavíkur. Byrjuðum í keilu, fórum út að borða og litum síðan á kráarmenninguna í miðbænum. Orðið bálhvasst og afskaplega kuldalegt þegar við keyrðum austur yfir Heiðina í nótt. Furðulegt reyndar að ekki skuli verða stórslys á Heiðinni þessa dagana þar sem vegurinn er á löngum köflum undinn og snúinn vegna vegaframkvæmda. Sem betur fer sér nú fyrir endann á framkvæmdunum en það verður gaman að sjá hvernig nýji vegarkaflinn kemur út í samanburði við það sem fyrir er.

29. september 2005

Borgarafundur um aðalskipulag

Í kvöld var haldinn borgarafundur um skipulagsbreytingar við Hamarinn.

Um 50 manns mætti á fundinn sem varla getur talist góð mæting í ljósi þess að um 150 manns skrifaði undir undirskriftalista gegn byggingum á þessu svæði fyrir fáeinum vikum síðan. Þrátt fyrir þetta var fundurinn hinn fjörugasti og fundargestir lágu ekki á skoðunum sínum varðandi þær hugmyndir sem uppi eru. Lýst var eftir stefnumótun um framtíðaruppbyggingu íþróttasvæða og má það til sanns vegar færa. Ekki er í aðalskipulaginu tekin afstaða til þess hvar framtíðarkeppnisvöllur verður byggður upp og heldur ekki hvar nýtt íþróttahús mun rísa.
Mikilvægast er að ekki verði lokað á möguleika í þessu sambandi með því að byggja á hverjum einasta bletti innan bæjarmarkanna heldur hafa ákveðin svæði frátekin til síðari nota.

Athyglisvert var að heyra rök forseta bæjarstjórnar fyrir því hvers vegna hætt var við byggð ofan við Laufskóga. Rökin voru þau að fram kom undirskriftalisti með 150 nöfnum og á slíku myndi meirihlutinn ávallt taka mark á. Einn fundargesta var þá snöggur til og sagðist myndu safna 170 undirskriftum gegn byggingum á Ullarþvottastöðvarlóðinni og þá gæti bæjarstjórn ekki hundsað það sjónarmið. Nú er spurning hvort við fáum yfir okkur flóð undirskriftalista um hin ýmsu málefni sem umdeilanleg eru !

Enn af sameiningu ...

Þessa dagana er vaknað fyrir allar aldir og mætt í líkamsrækt klukkan hálf sjö. Þetta er tími sem hentar mjög vel fyrir þá sem oft eru uppteknir við annað seinnipart dags. Ákvað að prófa alla morguntíma vikunnar til að athuga hverjir henta best. Það er nú ekki alveg gefið að þessi dugnaður endist í margar vikur, enda kannski óþarfi að mæta á hverjum degi!!

Sundleikfimin hjá Ester er líka komin á fullt, tímar tvisvar í viku, og þeim tímum sleppi ég ekki nema verulega mikið gangi á.
---------------------------------------

Ölfusingar héldu fund um sameininguna á Básnum í gærkvöldi. Þar var bæjarstjórn Ölfuss mætt ásamt endurskoðanda sveitarfélagsins. Þokkalega var mætt úr dreifbýlinu en annar tilsvarandi fundur verður haldinn í Þorlákshöfn í næstu viku. Aðrar sveitarstjórnir virðast ætla að láta fund sameiningarnefndar duga fyrir sína íbúa.

Guðmundur Kjartansson, endurskoðandi, fór ítarlega yfir fjárhagsleg áhrif sameiningarinnar en það er ljóst að sveitarfélögin eru mjög misjafnlega stödd fjárhagslega. Því myndi skuldastaða pr. íbúa til dæmis aukast nokkuð hjá íbúum Ölfuss og í minni sveitarfélögunum en minnka hjá íbúum Hveragerðis og Árborgar verði af sameiningu. Við svona samanburð má aftur á móti ekki gleyma að taka tillit til stöðu framkvæmda og hvaða nauðsynlegar stórframkvæmdir eru framundan í einstökum sveitarfélögum. Nokkuð ljóst að við, Hvergerðingar, stöndum þar vel að vígi ásamt Ölfusingum en félagar okkar í Árborg eiga enn langt í land með að tryggja öllum viðunandi þjónustu til dæmis hvað varðar leikskólapláss og í málefnum eldri borgara, svo fátt eitt sé nefnt.

Reyndar má endalaust týna til ýmis atriði í svona samanburði sem ýmist sýna kosti eða galla þess að sameinast. Það er aftur á móti mikilvægt að gleyma því ekki að sameining sem þessi snýst um meira en tölur á blaði. Hún snýst um þá framtíðarsýn sem við höfum fyrir þetta svæði og hvernig við sjáum og viljum að það þróist til framtíðar. Þar greinir mönnum á, eðlilega, en mestu skiptir að sem flestir mæti á kjörstað og sýni þannig að við metum réttinn til að kjósa, metum það að við fáum að hafa skoðun. Ef kjörsókn verður lítil er hætta á að stjórnvöld líti þannig á að áhuginn sé ekki til staðar meðal íbúa og næst komi því einhliða skipun að ofan um sameiningu, líkt og gerðist í Danmörku.

En ég tel að Pétur í Hvammi hafi komist ansi nærri því að orða skoðanir margra þegar hann sagði: "skynsemin segir mér að segja já, en ætli ég muni samt ekki segja nei, í þetta skiptið."

Ætli mörgum líði ekki eitthvað svipað þessa dagana!

27. september 2005

Vinnufundur bæjarstjórnar og skipulags- og bygginganefndar var haldinn í gær, mánudag.

Vinna við aðalskipulagið er nú á lokastigi og því mikilvægt að stilla saman strengi og ná ásættanlegri niðurstöðu í þeim málum sem útaf standa.

Í upphafi fundar var rætt um umferðarskipulag en Guðrún Dröfn frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen kynnti drög sem hún hefur unnið fyrir bæjarfélagið á því sviði. Þar er gert ráð fyrir ákveðnum breytingum sem án vafa eiga eftir að vekja upp umræðu um umferðaröryggismál í Hveragerði og er það vel. Meðal annars er gert ráð fyrir að hraði verði minnkaður með öllum ráðum í íbúðahverfum og til þess að ná því markmiði verði sett upp svokölluð 30 kílómetra hlið við innkomur íbúðahverfa. Er ekki vafi að aðgerð af þessu tagi verður til mikilla bóta. Heldur umdeildari er tillaga um lokun Heiðmerkur og Þórsmerkur við Breiðumörk. Umferð yrði þá beint um Þelamörk sem miðað við núverandi breidd og legu götunnar getur tæplega tekið við þeim umferðarþunga sem um hana yrði. Það er aftur á móti spurning hvort ekki megi ná sömu markmiðum með öðrum og minna róttækum ráðum eins og til dæmis með einstefnu.

Enn og aftur varð mikil umræða um byggð undir Hamrinum. Bæjarstjórn hefur boðað til borgarafundar um skipulag þessa svæðis, eingöngu, og verður sá fundur næstkomandi fimmtudagskvöld. Allir þeir fjölmörgu sem sýnt hafa þessu svæði áhuga ættu ekki að láta það tækifæri fram hjá sér fara til að hafa áhrif á skipulag þessa skemmtilega útivistarsvæðis.
-------------------------
Aðalfundur Sjálfstæðisfélags Hveragerðis var haldinn í gærkvöldi. Á fundinum var Inga Lóa Hannesdóttir endurkjörin formaður. Aðrir í stjórn eru Örn Guðmundsson, Hjörtur Sveinsson, Þröstur Helgason og Guðríður Aadnegaard. Allt fólk með mikla reynslu af félagsmálum sem án vafa mun stjórna Sjálfstæðisfélaginu af dugnaði næsta árið. Ágætis mæting var á fundinn og urðu líflegar umræður um bæjarmálefnin að loknum venjubundnum aðalfundarstörfum. Sjálfstæðisfélagið er þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga húsnæði. Fyrir um 20 árum tókst félögum okkar að eignast sal með sérstakri skrifstofu og verður það að teljast heilmikið afrek í ekki stærra félagi. Rekstrarkostnaður hússins er aftur á móti þónokkur. Nýverið var húsið klætt að utan og verið er að leggja lokahönd á framkvæmdir við bílaplanið sem gjörbreyta aðkomu að húsinu. Allt kostar þetta skildinginn og því ljóst að félagið þarf að fara útí umfangsmikla fjáröflun til að standa straum af þessum kostnaði.
-------------------------
Þrátt fyrir umfang "Baugsfrétta" er frétt dagsins án efa brotthvarf Davíðs Oddssonar úr ríkisstjórn og þar með úr stjórnmálum. Í viðtölum í dag sýndi hann best hvers vegna hans mun verða minnst sem eins mesta stjórnmálaleiðtoga okkar tíma. Hnittin og hnitmiðuð tilsvörin, stundum alveg á mörkunum, er eitthvað sem fáir munu geta leikið eftir. Í Kastljósinu gaf Davið það út að hann myndi hætta afskiptum af stjórnmálum og helga sig starfi Seðlabankastjóra. Það verður sjónarsviptir að jafn sterkum leiðtoga enda heil kynslóð Íslendinga alin upp við það að Davíð sé við stjórnvölinn !

26. september 2005

Tíminn er fljótur að líða þegar mikið er um að vera og því hafa skrif á síðuna setið á hakanum of lengi.

Til að loka umfjöllun um fundi sameiningarnefndar er rétt að skrifa örlítið um fundinn sem haldinn var í Félagslundi, Gaulverjabæjarhreppi, á mánudagskvöldið fyrir viku. Þessi fundur var einn sá fjölsóttasti í fundarröðinni, jafnvel þó ekki sé miðað við höfðatöluregluna. Fundinn sóttu rúmlega 60 manns og verður það að teljast ákveðið afrek í hrepp sem telur um 100 íbúa. Fundarsóknin sýndi það líka að Gaulverjar hafa skoðanir og hikuðu ekki við að láta þær í ljós. Enda varð fundurinn bæði fjörugur og langur.

Enn og aftur kom það berlega í ljós að þeir íbúar sem fundina sækja eru ekki á þeirri skoðun að sameina beri þessi sveitarfélög.
Í minni sveitarfélögunum eru íbúar hræddir um að "týnast". Þar er mikil umræða um framtíð félagsheimilanna semog um framtíð skólans og annarrar þjónustu. Aftur á móti heyrist það sjónarmið líka að erfitt sé fyrir sveitarfélög sem telja örfá hundruð íbúa að halda úti sambærilegri þjónustu og stærri sveitarfélög geta gert. Einn íbúi Gaulverjabæjarhrepps taldi það aftur á móti til kosta og að þeir sem veldu sér minni sveitarfélög til búsetu gerðu slíkt vitandi um minni þjónustu en aðrir kostir gerðu gott betur en að vega upp þá galla.

Róbert Ragnarsson, verkefnissjóri í félagsmálaráðuneytinu, kom aftur á móti inná það í sínu erindi að ákjósanlegasta stærð sveitarfélags væri líklegast milli 2500 og 3000 íbúar, þar sem landfræðileg lega sveitarfélagsins væri með þeim hætti að uppbygging grunnþjónustu væri hagkvæm. Nefndi hann Hveragerði sérstaklega sem dæmi um sveitarfélag sem félli undir þennan ramma.

Athyglisvert innlegg hjá Róberti!
-----------------------------
Skipulags- og bygginganefnd Hveragerðisbæjar fundar stíft þessa dagana en á þriðjudag var fundur í nefndinni. Meðal annars var fjallað um umsagnir sem borist hafa frá umsagnaraðilum varðandi aðalskipulag Hveragerðis. Nánar verður fjallað um þær og aðalskipulagið í heild sinni á sérstökum vinnufundi bæjarstjórnar og nefndarinnar. Fjölda erinda var með sama hætti vísað til þessa vinnufundar sem halda á mánudaginn 26. september.

Ekkert lát er á framkvæmdagleðinni og fjöldi byggingaleyfa var gefinn út á fundinum. Það er gaman að sjá hve veglega fólk byggir og hversu mjög húsin hafa stækkað síðustu ár. Eina vandamálið fer að verða hvar koma á sólpallinum fyrir þegar húsin fylla svo til alveg útí lóðina !

Rætt var um gangbrautir/hraðahindranir yfir Breiðumörk til að auðvelda aðgengi að verslunarmiðstöðinni. Var ítrekað að vinnu við það skipulag þyrfti að hraða eins og hægt er.
-----------------------------
Hjálparsveit skáta í Hveragerði hélt uppá 30 ára starfsafmæli sveitarinnar með veglegum hætti síðastliðinn laugardag. Það var gaman að heyra sögur frá starfi sveitarinnar, skoða myndir og búnað sem þeim tilheyrir. Skemmtu viðstaddir sér hið besta og ekki spilltu glæsilegar veitingar fyrir.
Það er fyllsta ástæða til að óska fyrrverandi og núverandi hjálparsveitarmönnum til hamingju með þennan áfanga. Það er ekki ósjaldan sem sveitin hefur bjargað bæði Hvergerðingum og öðrum úr háska -- fyrir nú utan það að sjá um flottustu flugeldasýningu landsins á Blómstrandi dögum !
---------------------------------
Skrapp með strákana í bíó á laugardaginn. Sáum "Charlie and the chocolate factory". Stórskemmtileg mynd með heilmiklu uppeldislegu ívafi sem skilaði sér beint í æð.
Vel hægt að mæla með henni þessari.
-------------------------------

20. september 2005


Fyrsti snjórinn

Hálfundarlegt að líta út um gluggann núna áðan. Hundslappadrífa og allt orðið hvítt. Mun sjálfsagt ekki endast en minnir óneitanlega á þá staðreynd að veturinn nálgast óðfluga.

Valdimar tók þessa mynd á símann sinn fyrir augnabliki síðan. Það getur nú verið vetrarlegt í þessum landshluta eins og öðrum ! !

18. september 2005

Réttarferð og Reykjanesbær


Á laugardeginum kíktum við á fé og fólk í Skeiðaréttum. Á réttarhátíðinni í Tungnaréttum var aftur á móti ekkert fé en fullt af fólki. Þar fór fram hrossauppboð með miklum tilþrifum og skemmtu viðstaddir sér hið besta. Kjötsúpa var hjá Gunnu í Gýgjarhólskoti að loknum "réttum" en síðan var gestum sigað upp um fjöll og firnindi í skrambi erfiðum ratleik...
Réttarballið í Aratungu stóð algjörlega undir væntingum. Hilmar Örn, organisti og kórstjóri í Skálholti, sá ásamt félögum um tónlistina á ballinu og stóð hann Geirmundi síst að baki. Geirmundur hefur annars verið með þetta ball í áskrift mörg undanfarin ár.
Komið var langt fram á sunnudag þegar loksins var haldið heim úr velheppnaðri réttarferð.




Hélt til Reykjanesbæjar um leið og komið var heim í dag en þar hittust Sjálfstæðiskonur í Suðurkjördæmi í boði Bjarkar Guðjónsdóttur, bæjarfulltrúa. Heimsóttum Kaffitár sem er afskaplega skemmtilegt fyrirtæki í eigu Aðalheiðar Héðinsdóttur. Síðan var farið í Duus hús, kíkt á sýningarnar sem þar eru og farið yfir málefni sem efst eru á baugi í kjördæminu. Næsti viðkomustaður var Sandgerði þar sem Fræðasetrið var heimsótt. Sigurður Valur Ásbjörnsson, formaður kjördæmisráðs, tók síðan á móti hópnum í húsnæði Lions klúbbsins, Efra-Sandgerði. Þetta er í þriðja sinn sem þessi hópur hittist og stillir saman strengi. Eru þessar heimsóknir bæði skemmtilegar og gagnlegar og munu án vafa verða til þess að Sjálfstæðiskonur innan þessa nýja og stóra kjördæmis ná betra sambandi sín á milli en ella hefði orðið.

16. september 2005



Þessi mynd af fellibylnum Katrínu var svo flott að ég varð að skella henni hér inni.
Forritið er alltaf að verða betra og betra, smellið á myndina til að stækka !

15. september 2005

Ölfusingar fjölmenntu

Enn og aftur, kynningarfundur um sameiningu í kvöld. Í þetta skipti í Þorlákshöfn.
Nú var ekki hægt að kvarta yfir mætingu, en um 130 manns mætti í Ráðhúsið.
Það var nokkuð ljóst fyrir fundinn hver afstaða Ölfusinga er og styrktist maður í þeirri trú eftir fundinn í kvöld. Enginn heimamaður talaði fyrir sameiningunni þrátt fyrir að hálfur annar tugur hafi tekið til máls á fundinum.
Ölfusingar eins og margir aðrir óttast að verða hornreka í stóru sveitarfélagi og kostirnir, sem auðvitað eru til staðar, mega sín lítils í samanburði við allt það sem fólk telur upp sem galla við sameiningu.

Hinn aldni héraðshöfðingi Engilbert á Bakka lét sig ekki vanta á fundinn, sté í pontu með góða ræðu sem án efa hefur styrkt sveitunga hans í trúnni. Alltaf gaman að því þegar þeir sem eldri eru miðla af reynslubanka sínum.

Það stakk í augu að yngri kynslóðin lét sig alveg vanta í kvöld. Þannig hefur það reyndar verið á öllum fundunum. Það er eldra fólkið sem kemur og lætur sig málið varða. Nú er spurning hvernig nefndin getur best náð til þeirra sem yngri eru. Spurning um að funda í Fjölbraut?

Fékk ábendingu um að ég hefði gleymt að minnast á fundinn á Selfossi og það er hárrétt. Ég minntist heldur ekki á fundinn í Hraungerðishreppi. Fyrir þessu er sú augljósa ástæða að ég mætti ekki á þessa fundi. Bréfritari sagði reyndar orðrétt að Selfossfundurinn hefði nú verið meiri halelúja-samkoman með nokkrum varnaðarröddum og enn og aftur ekki nógu góð mæting íbúa !!

14. september 2005

Sameiningarmál og frábært tilboð !!

Mikil fundahöld hafa einkennt síðustu daga. Ekkert lát er á því annað kvöld er fundur í Ölfusinu um sameininguna sem mikilvægt er að enginn missi af !

Í kvöld, miðvikudag, var kynningarfundur hér í Hveragerði vegna sameiningar sveitarfélaganna í Ölfusi og Flóa.
Nefndarmenn mættu vel enda er lögð rík áhersla á það að ávallt mæti fulltrúi frá hverju sveitarfélagi.
Á fundinn mættu um 50 manns sem er með betri mætingu í fundarröðinni. Fjölmargir tóku til máls og kynntu sjónarmið sín eða komu með fyrirspurnir til nefndarmanna.
Í fyrsta skipti kom beinskeitt spurning til allra um persónulega afstöðu nefndarmanna þannig að nú er nokkuð ljóst hvernig línur liggja í nefndinni.
Ég var fundarstjóri á fundinum en slapp nú ekki við umræðurnar þrátt fyrir það. Enda svo sem í lagi að fara ekki alveg eftir bókinni í þessu tilfelli því of freistandi var að taka þátt í umræðunum og til þess ætlast.
Áberandi var að fundarmenn voru ekki spenntir fyrir sameiningu. Fannst tillagan of stór, ekki tímabær eða einfaldlega ekki rétt. En það ber að hafa í huga að 50 manns er ekki stór hópur og spurning hvort þeir sem heima sitja séu annað hvort hlynntir eða einfaldlega sama, en það viðhorf heyrist alltof oft.

Íbúar á svæðinu verða að kynna sér málið vandlega frá báðum hliðum áður en afstaða er tekin í jafn afdrifaríkum kosningum sem þessum. Síðan er það aldrei of oft ítrekað að fólk verður að mæta á kjörstað. Það er til lítils að búa við lýðræði ef við nýtum ekki rétt okkar til að kjósa.

Bæjarráðsfundur var haldinn í morgun, miðvikudag.
Þar bar það helst til tíðinda að eitt tilboð barst í lóðina Austurmörk 24, Tívolí lóðina. Hljóðaði það uppá 50 milljónir króna, langt umfram þær væntingar sem bæjarstjórnarmenn höfðu gert sér. Það er fyrirtækið Ármenn á Selfossi sem er tilboðsgjafi en Ármenn er í eigu Guðmundar Sigurðssona og sonar hans Sigurðar Fannars Guðmundssonar. Er ætlun þeirra feðga að byggja á lóðinni, og aðliggjandi lóð íbúðir fyrir 55 ára og eldri með þjónusturými á neðstu hæð. Að öllu líkindum verður um rúmlega hundrað íbúðir að ræða. Eru þetta mjög metnaðarfullar hugmyndir sem nú fara í frekari vinnslu hjá lóðarhöfum og bæjaryfirvöldum.
Á sama fundi var bæjarstjóra falið að ræða við eigendur Stoðverks en ákveðin mál standa enn útaf borðinu varðandi þeirra aðkomu að Tívolílóðinni.

Þriðjudagurinn fór að mestu í fundi með erlendum birgjum og ýmis konar undirbúning fyrir bæjarráðs fund.
Seinnipartinn hittist MA oktettinn, sem svo er kallaður, hjá Brynju að Bakkastöðum í Grafarvogi. Skemmtum okkur vel í góðum félagsskap, yfir frábærum veitingum, fram eftir kvöldi.

Á mánudag var reglubundinn fundur í skólanefnd Grunnskólans í Hveragerði. Þar komu meðal annars fram athyglisverðar upplýsingar varðandi nemendafjölda en nemendur skólans eru nú rétt tæplega 400 og þar með örlítið færri en síðasta skólaár. Skýtur þetta nokkuð skökku við í ljósi mikillar íbúafjölgunar undanfarna mánuði. En skýtur þó enn frekari stoðum undir kenningu Haraldar Sigurðssonar, mannfjöldasérfræðings, sem kynnti spár varðandi íbúaþróun í vinnu við undirbúning nýs aðalskipulags í sumar. Haraldur hafði þá trú að grunnskólinn myndi ekki stækka í línulegri samsvörun við íbúafjölgun þar sem aldursskipting íbúanna væri með þeim hætti hér í bæ. Þessi hæga fjölgun í skólanum gefur okkur núna gullin tækifæri til að vinna heimavinnuna okkar betur og huga að þeim sérgreinastofum sem bráðliggur á að byggja. Það er ljóst að verkmenntastofurnar eru allsendis ófullnægjandi og verður það því klárlega verk nýrrar bæjarstjórnar að koma þeim málum í gott horf.

Á mánudagskvöld var fundur vegna sameiningar sveitarfélaganna í Ölfusi og Flóa í Þjórsárveri. Fundir vegna sameiningarinnar eru nú haldnir vítt og breitt um héraðið og mætir sameiningarnefndin eftir mætti á þessa fundi. Vel var mætt frá nefndinni á fundinn i Villingaholtshreppi enda varð fundurinn hinn skemmtilegasti. Vel var tekist á með og á móti og sitt sýndist hverjum eins og verða vill í jafn umdeildu máli.

9. september 2005

Tvíbbar á leið norður ! !

Ætlaði á sjávarútvegssýninguna í dag en hætti við vegna anna í vinnunni. Tveir erlendir birgjar komu í heimsókn og það tekur alltaf dágóðan tíma. Báðir voru búnir að vera á sýningunni og létu vel af.
-------------------------
Hafsteinn og Kristján yfirgáfu Suðurland í dag og héldu til náms við Menntaskólann á Akureyri. Var ekki laust við að hugurinn reikaði þónokkuð mörg ár aftur í tímann þegar sú sem þetta ritar var í sömu sporum, með fiðrildi í maganum á leið norður. Þetta verður heilmikið ævintýri fyrir strákana og ekki efi að þeir munu standa sig vel.
-------------------------
Starfsmannafélag Kjörís stóð fyrir síðbúnu sumargrilli í kvöld. Heldur viðraði illa til úti matseldar, en sunnlenskt slagveður hefur nú tekið völdin. Fólk skemmti sér samt hið besta og maturinn var góður eins og við var að búast. Hinir nýju leikmenn Hamars/Selfoss í körfu Bandaríkjamaðurinn Clifton Cook og Serbinn Mihajlo Delic mættu einnig í grillið, hressir og skemmtilegir strákar sem vonandi munu styrkja liðið í vetur.
-------------------------
Fjölmargar myndir sem teknar voru á Blómstrandi dögum í lok ágúst eru nú á vef Gistiheimilisins Frumskóga.
Kíkið á myndirnar hér.

8. september 2005

Af fundum og pólitík

Á þriðjudaginn var fundur í skipulags- og bygginganefnd þar sem fjölmörg mál voru tekin fyrir að venju. Ákveðið var að senda erindi frá Orkuveitu Reykjavíkur(OR) í grenndarkynningu en fyrirtækið er að sækja um að fá að byggja við áhaldahús Hveragerðisbæjar, en hluti hússins er í eigu OR. Á fundinum vakti ég athygli á því að á umræddri lóð er staðsett borhola í einkaeigu sem séð hefur ákveðnum húsum í nágrenninum fyrir heitu vatni í tugi ára. Eigendur holunnar eru tiltölulega nýbúnir að endurnýja lagnir frá henni þannig að um töluverða hagsmuni er að ræða. Nýbygging OR verður í þriggja metra fjarlægð frá holunni þannig að áhrifasvæði hússins verður mun nær. Það er nokkuð ljóst að eigendur borholunnar munu fylgjast grannt með hverju fram vindur en nú hafa þeir tækifæri til að koma með athugasemdir við framkvæmdirnar í grenndarkynningunni.
Fyrirhugaðar breytingar á Gistiheimilinu Bóli voru einnig sendar í grenndarkynningu en ætlunin er að breyta gistiheimilinu í 6 íbúða fjölbýlishús. Nefndin vakti athygli á nauðsyn þess að aðkoma að bílastæðum væri góð en Hveramörkin sem umrætt hús stendur við er afskaplega þröng.
Það sést best á fundum skipulags- og bygginganefndar hversu mikil uppbygging á sér stað hér í bæjarfélaginu. Lagðar voru fram teikningar að 14 íbúðum í par og raðhúsum og að tveimur einbýlishúsum. Í Bóli verða 6 íbúðir og síðan var samþykkt, eftir grenndarkynningu, bygging tveggja einbýlishúsa norðan við Þórsmörk.
---------------------------
Á þriðjudagskvöldinu hittust fulltrúar Sjálfstæðismanna til að undirbúa bæjarstjórnarfund september mánaðar. Heldur var fundarboðið rýrt enda kom á daginn að fundurinn tók ekki nema rétt rúman hálftíma seinnipartinn í dag. Ótrúlega lítið á dagskrá á þessum fyrsta fundi að afloknu sumarleyfi. Skýrsla sameiningarnefndar var lögð fram til kynningar og voru fundarmenn almennt ánægðir með hana semog störf sameiningarnefndar. Bæklingur með helstu atriðum úr skýrslunni fór í öll hús á svæðinu í vikunni þannig að fyrst nú fer umræða um sameiningu af stað hjá íbúum.
Nokkrir hafa haft orð á því að það vanti skýrari línur í bæklinginn. Afstöðu af eða á. Það er aftur á móti alveg ljóst að það er ekki nefndarinnar að reka áróður með eða á móti sameiningu þessara sveitarfélaga. Nefndin setur fram á eins hlutlausan hátt og hún getur kosti og galla ásamt því að kynna framtíðarsýn sameinaðs sveitarfélags. Síðan er það íbúanna að kynna sér málið og mynda sér skoðun. Það er reyndar mjög mikilvægt að líflegar umræður skapist um þessa kosti og almenn kosningaþátttaka verði þannig tryggð.
--------------------------------
Í kvöld var fundur sveitarstjórnarfulltrúa og stjórna Sjálfstæðisfélaganna í Árnessýslu á vegum fulltrúaráðsins. Á fundinn mættu Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, en þau njóta þess bæði að sitja við stjórnvöl sina bæjarfélaga með hreinan meirihluta Sjálfstæðismanna á bak við sig. Mikill uppgangur hefur verið á þessum stöðum og því var fróðlegt að heyra erindi þeirra beggja um aðdraganda kosninga og þær áherslur sem þau leggja varðandi stjórnun bæjarfélaganna.
--------------------------------
Mikið hefur gengið á í stjórnmálum landsins undanfarna daga eftir að Davíð Oddsson tilkynnti að hann væri hættur afskiptum af pólitík og sæktist því ekki eftir formannssæti Sjálfstæðisflokkssins á komandi landsfundi. Geir Haarde verður góður arftaki Davíðs á formannsstóli en greinilegt er að keppnin mun snúast um varaformanninn. Það er alltaf gaman að kosningum hvar sem þær eiga sér stað og er ekki að efa að landsfundurinn verður líflegri en á horfðist eftir útspil síðustu daga. Það er aftur á móti mín skoðun að forusta flokksins verður að endurspegla þá breidd sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir og það gera þau bæði, Þorgerður og Kristján Þór, hvort með sínum hætti. Hún verandi kona, hann sem fulltrúi landsbyggðarinnar. Það má reyndar með góðum vilja segja að Þorgerður Katrín sé fulltrúi landsbyggðarinnar allavega á hún sumarbústað hér rétt fyrir neðan Hveragerði, í Ölfusinu, þannig að það getur sjálfsagt dekkað þessa vöntun á landsbyggðartengingu ! !
-------------------------------
Langloka dagsins skýrist af tölvuleysi í vikunni.
Var að endurnýja tölvukostinn og það gengur ekki alltaf snuðrulaust fyrir sig eins og allir vita. Sambandsleysi undanfarinna daga á sér því eðlilegar skýringar !!

5. september 2005

Bæjarráð

Fundur var í bæjarráði í morgun. Fundarboðið var svo þunnt að ég ætlaði varla að finna það fyrir fundinn! Veit ekki hvað er í gangi en í sumar hafa bæjarráðsfundir verið einstaklega stuttir og málin fá. Í morgun var fjallað um kattahald, starfsmannamál, nefndaskipan og jú, reyndar um kostnaðarþátttöku bæjarins í tónlistarnámi ungrar stúlku sem stundar nám í Reykjavík. Ég hef þá skoðun að þegar ungmennin okkar sýna jafn mikla hæfileika og jafn mikinn áhuga eins og í þessu tilfelli þá eigum við að styðja við nám þeirra með myndarlegum hætti. Það þarf mikla elju til að sækja nám oft í viku, árum saman, til Reykjavíkur og bera foreldrar af náminu mikinn kostnað. Því var ákveðið í bæjarráði að koma að mestu leyti til móts við óskir um greiðslu skólakostnaðar.

4. september 2005

"The golden circle" - afmæli og söl

Veðrið hefur verið eins og best verður á kosið nú um helgina.
Lögðum af stað snemma í gær, laugardag, með dönsku gestina okkar um uppsveitir Árnessýslu. Keyrðum upp Grafning til Þingvalla sem skörtuðu sínu fegursta í haustlitunum. Búið er að byggja upplýsingastofu fyrir ferðamenn ofan Almannagjár, þar sem hægt er að fræðast um jarðfræði og sögu staðarins. Margir erlendir ferðamenn voru á Þingvöllum eins og reyndar á leiðinni allri. Kom okkur á óvart en kannski er okkur að takast að lengja ferðamannatímann, það væri óskandi.
Keyrðum frá Þingvöllum yfir Lyngdalsheiði til Laugarvatns.
Furðulegt að ekki skuli nást lausn á deilum um lagningu Gjábakkavegar eins nauðsynlegur og hann er. Fyrir þá sem hafa gaman af því að keyra miklar krókaleiðir yfir hóla og hæðir er þetta auðvitað upplifun enda leiðin falleg. En tveir ungir menn voru orðnir bílveikir þegar á Laugarvatn var komið svo þessi leið hentar ekki þeim sem illa þola hristinginn.
Ungviðið lét blekkjast af hitanum í flæðarmálinu á Laugarvatni og skellti sér úti. Heldur var nú kaldara lengra frá landi og var þá gufubaðsins sárt saknað en það var lokað í gær. Áfram var haldið til Geysis en þar var Strokkur enn sem fyrr aðal aðdráttaraflið, brást líka ekki og vakti mikla lukku. Hittum þar eldri hjón frá Minnesota sem suðu egg í körfu í einum hvernum og skemmtu sér vel við. Mínir gestir höfðu gert það sama deginum áður hér í Hveragerði þannig að þetta var ekki nýtt fyrir þeim !
Við Gullfoss er búið að laga stíga og tröppur og setja betra handrið meðfram stígnum niður að fossinum. Aðgengi ferðamanna er því með allt öðrum og betri hætti en áður. Enduðum svo í Gýgjarhólskoti þar sem mjólkurfræðingurinn skoðaði nýja lausagöngufjósið.
Það er alltaf jafn gaman að fara með útlendinga þennan hring. Það bregst ekki að þeir eru allir mjög heillaðir af landslaginu og þeim náttúrukröftum sem þeir verða vitni að. Það er heldur ekki á mörgum stöðum hægt að fá jafn fjölbreytta sýn á náttúru landsins á jafn litlu svæði.
------------------------------

Í gærkvöldi skruppum við Lárus fertugsafmæli Kjartans Björnssonar, rakara, á Selfossi. Þar var fjölmenni eins og við var að búast og mikið fjör langt fram eftir nóttu.
-----------------------------

Þessi litla frétt héðan úr Ölfusinu vakti upp minningar um sölva ferðir fyrir mörgum mörgum árum með Grundar fólkinu undir öruggri handleiðslu Þórðar Ö.Jóhannssonar. Síðan voru söl í tunnu niður í kjallara á Þórsmörk 1 lengi á eftir, okkur öllum til mikillar gleði. Er afar ánægð með það að ábúendur á Hrauni skuli sjá okkur fyrir sölum í dag og það er ekki síður ánægjulegt að enn skuli einhverjir halda í þessar gömlu hefðir, án þeirra væri lífið mun fátæklegra!!

2. september 2005

Heimsókn frá Danmörku

Skildi hvorki upp né niður í vinsældum okkar í gær þegar fimmti erlendi birginn tilkynnti komu sína hingað í næstu viku. Ég er greinilega ekki búin að fylgjast nægilega vel með að undanförnu, því allt í einu fannst skýring á vinsældunum, Sjávarútvegssýningin stóra byrjar á miðvikudaginn og þangað flykkjast erlendir gestir sem nota tækifærið og styrkja viðskiptatengsl sín á Íslandi í leiðinni. Var búin að bóka heimsóknir alla daga en verð nú að hliðra til því auðvitað verðum við að fara á sýninguna líka. Það er bæði gagnlegt og gaman að fara á Sjávarútvegssýninguna og við getum verið afar stolt af skipuleggjendum hennar en sýningin er á heimsmælikvarða.

Í morgun fengum við góða gesti frá Danmörku, Henrik Lindhardt, Alice konu hans og syni þeirra tvo. Henrik, sem er mjólkurfræðingur að mennt, vann hjá Kjörís á árunum 1985-1986 og höfum við haldið miklum og góðum tengslum við hann síðan. Þegar hann fór frá Kjörís hóf hann vinnu við fjölskyldu mjólkurbúið. Fljótlega tók hann að framleiða ís og rekur nú mjög skemmtilega og ört vaxandi ísgerð ásamt mjólkurbúi fjölskyldunnar. Þeir sem leið eiga til Álaborgar ættu að bregða sér til Aabybro og heimsækja Aabybro mjólkurbúið. Það er nú þegar vinsæll viðkomustaður ferðamanna en þarna er heimasala þar sem hægt er að smakka og kaupa allskonar osta og tilheyrandi og hinn einstaka Ryaa is sem er án efa íslenskur að uppruna, alla vega aðra ættina!

Kjöris hefur frá upphafi haft mikil og góð tengsl við Danmörku. Okkur hefur ávallt þótt afskaplega gott að eiga viðskipti við Dani og eru þeir einstaklega vandaðir í öllum viðskiptum. Svo er ekki heldur hægt að líta framhjá því að danskt samfélag er líklega það samfélag sem líkast er okkar í veröldinni. Menning, lög, hefðir og venjur er svo til eins, enda finnst mér ég tæplega vera í útlöndum þegar ég er í Danmörku. Við þurftum til dæmis að bíða í 4 tíma á Kastrup flugvelli á leið okkar heim frá Belgrade um daginn og okkur fannst við vera komin heim um leið og þangað var komið. Munurinn var svo mikill frá þeim löndum sem við höfðum verið að ferðast í. Verð síðan í leiðinni að mæla með Kastrup fyrir íslenska ferðalanga því nú er búið að taka flugstöðina í gegn, stækka, breyta og bæta. Þarna er boðið uppá svo góða þjónustu að einstakt er. Ef maður er með börn á ferð ætti maður að skipuleggja ferðina þannig að flogið sé um Kastrup frekar en aðra flugvelli því aðstaða fyrir börnin er frábær. Stórt rými á efri hæð er nú helgað H.C. Andersen og ævintýrum hans og börnin gleyma sér algjörlega í ævintýraheimi prinsessunnar á bauninni og öðrum svipuðum.

Myndir

Nú eru komnar inn myndir frá Serbíu og Svartfjallalandi. Endilega kíkið á þær hér.
Eða á myndasíðunni hér til hliðar.
Var einnig að setja inn tvo nýja tengla. Vefur verkefnisins Sunnan3 er nú aðgengilegur héðan en þaðan er síðan tengt inná vef sameiningar sveitarfélaga í Ölfusi og Flóa. Síðan er kominn tengill á blogg Carolu sem sprengir hvern teljarann á fætur öðrum með vinsældum sínum. Líka rétt að geta þess að vefur Kjörís hefur fengið andlitslyftingu og er nú með allt öðru sniði en áður.

Það tekur alltaf nokkra daga að komst inní hina daglegu rútínu eftir frí. Á mánudaginn tók reyndar alvaran við. Strákarnir mættu í skólann þremur dögum of seint og við hin í vinnu. Það tekur óratíma að lesa tölvupóstinn sem hrúgast hefur upp á meðan verið var í burtu. Margt af því er reyndar alls konar rusl sem fer beint í tunnuna. Það er með ólíkindum hvað mikið af slíku er á ferð um veraldarvefinn.

Bæjarráðsfundi sem vera átti í morgun var frestað vegna veikinda. Verður á mánudag. Skrapp til Reykjavíkur þar sem ég átti ágætt spjall um Brussel ferð sveitarstjórnarmanna við blaðamann Sveitarstjórnarmála. Fundur var með stjórn og bæjarfulltrúum Sjálfstæðisfélagsins í kvöld þar sem línur voru lagðar fyrir starf næstu vikna. Margt framundan eins og fulltrúaráðsfundir, aðalfundur kjördæmisráðs og landsfundur Sjálfstæðisflokksins í október. Síðan eru auðvitað sameiningarkosningar í október og að þeim loknum tekur við undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningar. Þetta verður skemmtilegur og líflegur vetur !!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet