<$BlogRSDUrl$>

22. janúar 2016

Í bílnum á leiðinni norður á Sauðárkrók gefst ágætis tækifæri til að blogga ....
Marauður vegur og 6 stiga hiti í Húnavatnssýslunni, það telst nú ágætt svona í miðjum janúar.  Reyndar er myrkrið hérna alveg svakalega svart... Ölfusið er orðið svo upplýst og meira að segja Hellisheiðin að maður á þessu ekki að venjast.  

Við ætlum að kíkja á lífið og tilveruna hjá tengdaforeldrunum að Aðalgötu 22 á Króknum.  Þar eldist fólk svona eins og við öll gerum og þegar fólk er komið á níræðisaldur þá er svo sem ekki óeðlilegt þó að eitthvað gefi eftir.  Það er aftur á móti afskaplega vont að þegar allir eru svona langt í burtu eins og í okkar tilfelli.  Næstu ættingjar staddir í Reykjavík og Hveragerði og þetta er svo sem ekki sunnudagsbíltúr að skreppa norður !
-------------
Fundur í framkvæmdastjórn Héraðsnefndar Árnessýslu í morgun ásamt stjórn Brunavarna Árnessýslu.  Þessi hópur hefur hist nokkuð ört undanfarið vegna ýmissa mála er lúta að Brunavörnum.  

Hér heima þurfti að svara erindum og póstum og ganga frá atriðum er varða álagningu fasteignagjalda. Álagningarseðlarnir munu berast íbúum í næstu viku.  Rétt er að minna á að álagningarprósentur fasteignaskatts eru óbreyttar en gjald vegna sorps hækkar um 2%.

Boðaði til fundar í starfshópi um byggingu nýs leikskóla.  Í gær heimsóttum við Guðmundur arkitekta og fórum yfir ýmis konar teikningar og hugmyndir varðandi leikskóla.  Þessir sömu aðilar munu ræða við starfshópinn í næstu viku.  Eftir fundinn í gær kíktum við á Mannamót - stórsýningu ferða þjónustunnar. Mjög skemmtileg sýning og gaman að sjá þá grósku sem er víða um land. 

Bæjarráðs fundur síðdegis í gær var frekar rólegur og fá stór mál í gangi.  

Á leiðinni norður tekst mér að lesa fultl af tölvupóstum og grynnka þannig á listanum.  Það er góð tilfinning :-)


 

20. janúar 2016

Við Ari, umhverfisfulltrúi, áttum góðan fund í morgun með Elfu Dögg á Frost og funa.  Þar fékk ég aftur gómsætan morgunverð eins og í gær.  Verð eiginlega að finna einhverja afsökun til að mæta aftur á morgun. Heimabökuðu brauðin eru meiriháttar :-)

En umræðuefnið var Blóm í bæ og hvernig best verður staðið að þeirri hátíð.  Blóm í bæ er barnið hennar Elfu og því var gott að ræða ýmislegt sem varðar framhaldið við hana.  Hugmyndirnar flugu hátt og voru margar.  Tengdust líka afmæli Hveragerðisbæjar en bærinn fagnar 70 ára afmæi í ár. 
Utan um afmælishátíðahöldin heldur menningar-, íþrótta- og frístundanefnd og umhverfisnefnd sér um utanumhald fyrir Blóm í bæ.  Við Ari erum núna að pússla saman fyrstu pússlunum og síðan munu nefndirnar taka við.

Ég hef alltaf fyrir sið að ef ég er við á skrifstofunni og ekki á fundi þá tek ég á móti þeim sem vilja hitta mig þó þeir hafi ekki gert boð á undan sér.  Í dag fékk ég góða heimsókn er Siggi í Gerðakoti í Ölfusi kom í heimsókn.  Hann er tiltölulega nýfluttur hingað, átti erindi á bæjarskrifstofuna og notaði tækifærið og heilsaði upp á bæjarstjórann. Það fannst mér virkilega góð hugmynd og áttum við hið besta spjall um lífið og tilveruna, Ölfus og Hveragerði, réttir og búfjárhald og ýmislegt fleira.  Hann sagði mér það að við værum skyld einhvers staðar sem ég kann ekki að nefna en ekki síst fannst mér gaman að heyra að ætt okkar hefði verið rakin aftur til 545 f.Krist til Miklagarðs í Tyrklandi.  Valdimar bróðir sem sér um ættfræðina fyrir okkur systur er greinilega ekki að standa sig fyrst hann er ekki búinn að komast að þessu :-)

Síðdegis hitti ég Hjalta formann Íþróttafélagsins Hamars, Þorsteins, formann Knattspyrnudeidlar og Dengsa sem séð hefur um rekstur flettiskiltisins við hringtorgið undanfarin 8 ár.  Nú er komið að lokum þess samnings, skiltið mun renna til Hveragerðisbæjar í samræmi við samning og knattspyrnudeildin taka við rekstri þess í samræmi við annan samning sem gerður var á sínum tíma.  Þetta liggur nokkuð ljóst fyrir, mun draga upp samninga á næstu dögum og ganga frá þessu.  En fundurinn var bæði fræðandi og skemmtilegur enda fáir menn með meiri reynslu af fjáröflunum og skiltarekstri en Dengsi.

Fór í zumba í morgun kl. 6 sem er ekki í frásögur færandi þar sem ég mæti þar samviskusamlega 4x í viku.  Mætti líka í líkamsræktina kl. 17 en þar var endað á foam flex sem er gríðarleg góð uppfinning.

Heim í kvöldmat og svo aftur í vinnuna - er að reyna að grynnka á verkefnasúpunni og komst nokkuð áleiðis í kvöld :-)19. janúar 2016

Byrjaði daginn í góðum morgunverði á Hótel Frost og funa áður en stefnumótunarfundur stjórnar Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Áss hófst.  Þar hafði ég verið beðin um að fjalla um Hveragerði og Ás og þá framtíðarsýn sem ég sæi fyrir mér varðandi heimilið.  Á fundinum kom fram að á Ási eru nú 38 hjúkrunarrými, 39 geðhjúkrunarrými og 50 dvalarrými.  Starfsmenn eru um 130 svo það er augljóst að starfsemi Áss er okkur Hvergerðingum afar mikilvæg. Möguleikar til uppbyggingar og breytinga eru einnig víða svo það verður gaman að sjá hvað kemur út úr stefnumörkun eins og þeirri sem hér fór fram. 

Fór nær því beint á Selfoss á fund stýrihóps Almannarna Suðurlands þar sem Víðir Reynisson kynnti fyrir okkur það sem starf sem hann er nú að vinna á svæðinu.  Meðal annars hefur hann farið yfir ritið "Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum" sem var unnið hér í Hveragerði og í Árborg í kjölfar skjálftans árið 2008.  Önnur sveitarfélög munu nú væntanlega vinna sína heimavinnu en hér þurfum við að yfirfara og endurskoða textann og áætlanirnar sem þar voru gerðar. 

Hér heima kláruðum við fundarboð bæjarráðs sem fór rafrænt á bæjarfulltrúa síðdegis.  Það tekur tíma að koma þessu pappírslausa kerfi á koppinn svo það gengur mikið á þegar fundarboðin eru að fara út. 15. janúar 2016

Afmælisgjöf ársins :-) 

Eins og facebook vinir mínir vita þá fékk ég þennan fína púða í afmælisgjöf frá bónda mínum.
Þetta uppátæki hans vakti verðskuldaða athygli...


... og vinur okkar hann Bjarni Stefan Konráðsson, Skagfirðingur, sendi mér þessar vísur af þessu tilefni. Mér finnast þær afskaplega góðar og er búin að skemmta mörgum með þeim:

Nú bónda sinn Aldís má bæla,
blíðlega og við hann gæla,
en hrynji' ún í pest
hræðist ég mest
að hún muni yfir hann æla.

Lalli gefur sjálfan sig;
sá er alltaf gefandi.
Í anda sé ég, Aldís þig
yfir kallinn slefandi.

Gerist Aldís letileg
og liggi á púða og malla,
að fjölgi hratt, það hræðist ég
hrukkunum á Lalla.

Á kvöldin Lalli einatt á
í undarlegu puði,
en nú geturðu sofið honum hjá
þótt hann sé ekki í stuði!

Ég hef heyrt um einn og einn
sem er víst mikill lúði.
En aldrei hef ég heyrt um neinn
að hann sé orðinn púði!


Af byggingarhugmyndum og einelti ! 

Í morgun kom hingað nýr hópur áhugasamra aðila um uppbyggingu á ferðaþjónustu í Hveragerði.  Átti með þeim mjög góðan fund en það er greinilegt að ekkert lát er á þeim áhuga sem aðilar hafa á Hveragerði. Það verður fróðlegt að sjá hvað verður að veruleika af þeim verkefnum sem hér hafa verið kynnt.

Í dag komu í heimsókn arkitektarnir Dennis Davíð Jóhannesson og Hjördís Sigurgísladóttir en þau hafa hannað vistvæn hús úr sjálfbærum efnivið með það að markmiði að þau séu mun ódýrara en önnur sem eru á markaðnum í daga.  Húsin gera einnig ráð fyrir aðgengi fyrir alla.  Hér má hlusta á viðtal við þau á RÚV og lesa um húsagerðina.  Nú leita þau að áhugasömum byggingaraðilum sem myndu vilja kynna sér málið nánar og horfa sérstaklega til Suðurlands. Hér eigum við því miður enga lóð í augnablikinu en það verður vonandi ekki langt í að við getum bætt úr því og þá er þetta skemmtilegur valkostur.
---------------------------------

Ég verð fyrir einelti !   Í fyrra var ég rekin úr liðinu sem tók þátt í átakinu "Allir lesa".  Ég er alveg viss um að ég er sú eina sem hef upplifað slíkt!  Mínum liðsfélögum fannst ég slíkur dragbítur á framgang þeirra að ekki varð við unað.  Samt las ég alveg ! ! !   Eina og eina skýrslu og örugglega um 30-40 blaðsíður á dag í alvöru bók :-)  En það dugði ekki til !  Þau ráku mig úr liðinu og uppskáru sigur í keppninni.  Þetta fólk les heilu bækurnar á dag - hver hefur tíma í slíkt ? Nú eru þau byrjuð aftur í keppninni og ætla að verja titilinn.  Ég óskaði mjög auðmjúk eftir því að fá að vera memm,  en svarið var þvert nei, aftur !
Þá tilkynnti ég  þeim það aftur á móti sármóðguð að ég vildi frekar iðka gefandi, mannleg samskipti heldur en liggja svona í skræðunum ein og yfirgefin eins og þau ætla sér að gera ;-)

14. janúar 2016

Af uppbyggingu og kveðjustund 

Átti dag fund með Ólafi Sigurðssyni og aðilum sem með honum komu til að ræða um jarðböð og uppbyggingu þeirra í Ölfusdal.  Ólaf þekkja Hvergerðingar ágætlega en hann var framkvæmdastjóri Heilsustofnunar um nokkurra ára skeið.  Hann þekkir því vel til heilsutengdrar þjónustu og þess sem henni fylgir.  Það verður spennandi að sjá hvernig þessu máli vindur fram.  Í dag er unnið að nokkrum verkefnum á sviði ferðaþjónustu i Hveragerði.  Heilsustofnun vinnur að uppbyggingu heilsuhótels á lóð sinni, Ólafur vinnur að jarðböðum í Ölfusdal, hópur aðila vinnur að uppbyggingu Eden á Tívolílóðinni og unnið er að stofnun sýningar um íslenska hestinn en í því húsnæði verður einnig önnur starfsemi.
Hótel Örk hefur tekið janúar mánuð í að breyta veitingasölum og gestamóttökunni í grundvallaratriðum.  Elfa Dögg vinnur að uppbyggingu á hosteli og veitingastað í gamla Hótel Hveragerði, Ólafur og Anna María eru að breyta Café Rose í veitingasal og Drúidar hafa opnað veislusal.  Unnið er að byggingu gistiheimilis í Varmahlíð, fyrirhugað er að breyta húsi við Heiðmörk í svipað og nokkrir aðrir aðilar eru á sömu vegferð.  Ég hef örugglega gleymt einhverjum verkefnum í þessari hraðsoðnu yfirferð en þetta sýnir að það er mikið um að vera og greinilegt að litið er til Hveragerðis vegna uppbyggingar á sviði ferðaþjónustu.
--------------------------
Í dag kvöddum við elskulegan móðurbróður hans Lárusar, Jakob Kristjánsson, sem bjó í Keflavík.  Athöfnin var falleg og mjög í takt við þennan glaðlega og góða mann.  Það er því miður orðið þannig að ættingjar hittast helst við jarðarfarir og ræða þá fátt meira en að úr því verði að bæta. Því miður verður oft meira um orð en efndir í því, á það sjálfsagt við um allar stórfjölskyldur enda hafa allir nóg við að vera í hinu daglega amstri.  Þá er gott að geta á stundum sem þessum glaðst yfir góðum samverustundum og skemmtilegum. Það gerðum við í dag.13. janúar 2016

Dauðir fingur, fasteignir og fleira 

Las á netinu áðan um sjúkdóm sem kallast Reynaud einkennið.  Yfirleitt vekja ekki sjúkdómar og læknisaðgerðir áhuga minn en ég staldraði við þennan enda kannaðist ég svo vel við þessa lýsingu.  Reyndar ekki frá mér en frá mömmu og öllum systkinum mínum.  Þau þurfa nefnilega öll að glíma við það að ef þeim kólnar þá "deyja" á þeim fingur og tær með tilheyrandi óþægindum.  Mér hefur alltaf fundist þetta ótrúlega merkilegt og enn merkilegra að ég skuli vera sú eina í hópnum með eðlilega blóðrás - heppin :-)

En hér er mynd af fingrunum á Guðrúnu systur einn kaldan dag í fyrra.  Þetta er auðvitað langt frá því að vera eðlilegt ! ! ! 


En svo minnst sé aðeins á vinnuna þá vann ég ráðningarmálum slökkviliðsstjóra Brunavarna Árnessýslu en það mál er vonandi á lokastigi.  Átti eins og oft áður gott samtal við Soffíu fasteignasala og glöddumst við yfir mikilli sölu og hækkandi fasteignaverði sem eykur eignastöðu bæjarbúa. Átti einnig gott samtal við Sigurð forstjóra Fengs hér í Hveragerði en þar er unnið að úrvinnslumálum með þeim hætti að það er til mikillar fyrirmyndar.   Deloitte endurskoðendur hafa nú opnað skrifstofu hér í Hveragerði sem er frábært framtak.  Ræddi við fulltrúa þeirra í dag um fyrirhugaða formlega opnun skrifstofunnar sem verður þann 29. janúar.   Helga skrifstofustjóri fór hamförum í dag í skjalastjórnunarkerfinu OneSystem en nú höfum við sent út rafræn fundarboð í nokkur skipti og í fyrsta skipti verður fundargerð bæjarstjórnar rafræn á fundinum á morgun.  Það gefur einnig tækifæri til birtingar fundargagna á netinu þegar fundargerðin verður birt. 

Zumba í morgun kl. 6, sjúkraþjálfun hjá Jóni Birgi seinnipartinn og þaðan beint í líkamsrælt, foam flex og  infra rauða klefann.  Góður dagur svona hreyfingarlega séð.  

Horfi núna á þátt um Eystrasaltslöndin og þátttöku okkar í frelsisbaráttu þeirra.  Það er svolítið sérstakt að sjá þarna marga af þeim stöðum sem við heimsóttum í Litháen í sumar undir allt öðrum kringumstæðum en við upplifðum.   Núna erum við reyndar að plana heimsókn til Eistlands og Rússlands í sumar - það verður ekki síður athyglisvert. 

12. janúar 2016

Skafrenningur, snjómokstur og Staksteinar 

Ansi flott mynd sem hann Eyþór tók fyrir utan bæjarskrifstofuna í morgun þegar skafrenningurinn var búinn að leika af krafti um húsið í alla nótt.
Það kemur sér stundum vel að hafa bakdyra inngang :-)

Annars voru öll tæki bæjarins komin út í morgun fyrir kl. 6 til að moka.  Það gekk ágætlega þó að aldrei sé hægt að gera svo öllum líki.  Enda fennti sum staðar jafnóðum í það sem mokað var þannig að þetta varð svolítið snúið á tímabili.  Á svona dögum rifjast alltaf upp fyrir mér að pabbi sagði einu sinni að það væri lang ódýrast að láta þann taka snjóinn sem setti hann hingað ! ! !  Verst að við höfum ekki þolinmæði til að bíða eftir því svona yfirleitt :-)

Átti góðan fund með Davíð Samúelssyni í dag þar sem við fórum yfir þau verkefni sem hann er að vinna að þessa dagana.  Hann er mikill happafengur fyrir bæinn og er að gera góða hluti.

Skrapp til fundar í menntamálaráðuneytinu um hádegið.   Hélt ég yrði veðurteppt hér fyrir austan en veðrið leystist skyndilega upp í ekki neitt svo það var rennifæri til Reykjavíkur í hádeginu og snjólítill vegurinn yfir heiðina.  
----------------------------
Af því að það eru nú ekki allir áskrifendur að Morgunblaðinu þá datt mér til hugar að deila með ykkur Staksteinum gærdagsins, en ég hló hreinlega upphátt þegar ég las þetta fyrst  :-)

STAKSTEINAR

Borgarbúar viðri sig og ruslapokana

Kostir þess að Reykjavíkurborg hefur á skömmum tíma dregið um helming úr sorphirðunni eru fleiri en flesta grunar. Fyrir borgarbúa er vissulega ótvíræður kostur að fá að greiða hærra gjald og enginn slær hendinni á móti nokkrum tugum prósenda í gjaldskrárhækkun ef hún stendur til boða. 

Þá er ekki síður mikilvægt að lengst hefur á milli sorphirðudaga á sama tíma og gjaldið hækkar, úr sjö dögum í fjórtán á skömmum tíma og ekki öll nótt úti enn um frekari lengingu.

Svo er auðvitað gott að geta fengið minni tunnur eftir því sem sorphirðudögum fækkar, til að fá tækifæri til að þjappa enn frekar í tunnuna en ella. 

Allt er þetta mikilvægt en þó ekkert á við það að fá að labba með ruslið út í grenndarstöðvar borgarinnar en eins og Sóley Tómasdóttir hefur bent á þá getur „hagrænn og heilsusamlegur ávinningur af reglulegum gönguferðum á grenndarstöðvar“ verið umtalsverður. 

Borgarbúar, einkum þeir sem ekki eiga hund, eiga borgaryfirvöldum ekki svo lítið að þakka. 

Nú hafa þeir fengið áhugaverða hvatningu til að efla og bæta hag sinn og heilbrigði með því að viðra sorpið á kvöldgöngu. Hver gæti sakað borgaryfirvöld um slaka þjónustu þegar borgarbúum hefur verið tryggð þessi ókeypis heilsurækt?Stundum er þessi ágæti pistlahöfundur alveg óborganlega skemmtilegur  :-)


11. janúar 2016

Af nýjum byggingasvæðum, hestasýningu og líkamsrækt ... 

Klukkan 8 hittumst við Eyþór, formaður skipulags- og mannvirkjanefndar, og Guðmundur, skipulags- og byggingafulltrúi og fórum yfir aðalskipulag bæjarins en við erum í hópi sem var skipaður til að endurskoða aðalskipulagið eins og ber að gera með reglulegu millibili.  Í dag fórum við yfir öll íbúðasvæði í bæjarfélaginu og kortlögðum þá möguleika til uppbyggingar sem víða finnast. 
Við fundum út að hægt er að bæta við um 500 nýjum íbúðum án þess að byggt yrði fyrir neðan þjóðveg eða farið yfir á Sólborgarsvæðið.  Þar munar auðvitað mestu um Kambalandið þar sem gert er ráð fyrir á þriðja hundrað nýjum íbúðum þegar það fer í gang.  Síðan eru margir möguleikar til þéttingar á svæðinu án þess að gengið sé á þá sérstöðu sem við viljum hafa hér í Hveragerði.  Við höfum til dæmis fyrir löngu markað þá stefnu að hér rísi ekki háhýsi og að hús skuli að jafnaði ekki vera hærri en tvær hæðir.  Einu undantekningarnar eru ef að umhverfi leyfir slíkt eins og reyndin var í Fljótsmörkinni þar sem blokkin sem þar er er norðan við byggðina og næstu hús eru annars vegar Grunnskólinn og hins vegar íþrótthúsið sem bæði eru frekar há hús.   Þetta er sérstaða sem við viljum skilyrðislaust halda í og ég held að íbúar kunni vel að meta. 

Átti síðan nokkra góða fundi um hin ýmsu málefni í dag.  Meðal annars hitti ég Viktor og Sigurbjörn sem hafa nú fengið úthlutað lóð við Breiðumörk undir hús sem m.a. mun hýsa sýningu um íslenska hestinn. Þeir eru með nokkra aðila í sigtinu sem gæti hafið rekstur í öðrum bilum í húsinu og efast ég ekki um að  ýmsir geta séð góða möguleika á þessum frábæra stað. 

Góður meirihlutafundur síðdegis þar sem við fórum yfir dagskrá bæjarstjórnarfundar næsta fimmtudag.

Fyrsti tíminn á nýju ári í ræktinni.  Mikið lifandi býsn var notalegt að byrja aftur :-)
Er svo óendanlega þakklát og hamingjusöm með það mikla framboð sem hér er á ýmis konar íþróttum og líkamsrækt.  Hér ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi enda finn ég ekki lengur neina afsökun fyrir því að hreyfa mig ekki   :-)

Verð að leyfa ykkur að dáðst að flottu amaryllisinni minni. Glæsileg með afbrigðum ! ! ! 
Hveragerði, Dalabyggð og París :-) 


Verð bara að deila þessari mynd með ykkur vegna þess að ég sá hana Ann Hidalgo í fréttunum um helgina.  Þessi einstaklega öfluga kona er bæjarstjóri Parísar og hér erum við Halla Steinólfsdóttir með henni á fundi í París í desember. 

10. janúar 2016

Njála kemur á skemmtilega á óvart ! 

Njála í Borgarleihúsinu á sunnudagskvöld var mikil upplifun.  Var ekki mjög spennt fyrir þessari sýningu svona fyrirfram og svekkt út í áskriftarkorta kerfið sem gerir manni að velja sýningar löngu áður en þær eru frumsýndar.  Hefði aldrei keypt miða ef ég hefði ekki neyðst til að fara í kvöld.  En til að gera langa sögu stutta þá mæli ég heilshugar með þessari sýningu.  Kannski ekki fyrir viðkvæma eða þá allra elstu því þetta eru læti !  En mikið rosalega er þetta vel gert og skemmtilegt...  Ekki missa af þessari :-)

En um helgina fóru jólin niður í kassa sem meira að segja var gengið frá með sóma í bílskúrnum þetta árið.  Ég fékk líka góða hjálp frá Haraldi Fróða sem var ekki alveg að skilja hvers vegna allt fína dótið átti bara að hverfa núna.  Hann hefur nefnilega tekið ástfóstri við óláta jólasveinana hans Lárusar sem hlægja og hó hóa og skríða upp og niður snúrur.  Eins og allir vita sem þekkja Lárus þá deilir hann þessari taumlausu gleði með barnabarninu :-)  Laugardagurinn fór allur í vinnu því föstudagurinn varð hálf aumingjalegur svona vinnulega séð.  Kláraði löngu tímabærar breytingar á samþykkt um stjórn og fundarsköp bæjarins.  Einnig fundargerðir sem dagað höfðu uppi, svaraði alls konar tölvupóstum og könnunum sem virðast endalausar og fleira.  Semsagt kláraði ýmislegt sem ekki var vanþörf á.   Eins og ég hef margoft sagt áður þá er alveg hrikalega gott að sópa frá sér verkunum utan hins almenna vinnutíma.

MA vinkonu hittingur í Reykjavík á föstudagskvöldið.  Það er alveg óhætt að mæla með Forréttabarnum allavega nutum við okkur vel þar. 

Lárus fór norður á föstudaginn og eyddi helginni á Sauðárkrók í góðu yfirlæti á Aðalgötunni.  Það var veisla á Króknum um helgina enda skilst mér að kokkurinn hafi notið sín vel í eldhúsinu með mömmu sinni.

9. janúar 2016

Metaðsókn að Listasafni Árnesinga 

Svona í upphafi árs er tilvalið að horfa yfir nýliðið ár og gleðjast yfir því sem hefur gengið vel.

Þennan póst fékk ég ásamt öðrum stjórnarmönnum  frá Ingu Jónsdóttur, safnstjóra Listasafns Árnesinga:

Nýliðið ár er metár hjá LÁ hvað varðar gestafjölda, um 11.770 gestir og tvær sýningar ársins rötuðu á lista yfir áhugaverðustu sýningar ársins. Morgunblaðið tók saman 5 helstu listviðburði mismunandi listgreina og meðal 5 áhugaverðustu myndlistarsýninganna var sýningin ÁKALL í Listasafni Árnesinga. Í Víðsjá á RÚV var Auður Ava Ólafsdóttir, listfræðingur og rithöfundur og forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands beðin að nefna helstu listviðburði sem stóðu upp úr á árinu og hún nefndi bara eina myndlistarsýningu og það var sýningin GEYMAR-Sirra Sigrún Sigurðardóttir í Listasafni Árnesinga.

Enn eitt gott ár að baki hjá Listasafninu.  En Inga gleymir auðvitað að minnast á það sem mestu máli skiptir og það er hennar eigið framlag.  Svona stofnun stendur og fellur með þeim sem þar halda um taumana og hún hefur staðið sig frábærlega. Það gerist ekki að sjálfu sér að safn sé talið í allra fremstu röð eins og Listasafn Árnesinga getur státað af. 


7. janúar 2016

Byrjaði daginn á fundi bæjarráðs og í takt við árstímann var dagskráin frekar smá í sniðum. Það kom þó ekki í veg fyrir að umræður yrðu góðar og miklar um ýmis mál.

Fór síðan til Reykjavíkur á fund Ferðamálaráðs.  Þar fengum við góða kynningu á starfsemi Íslandsstofu og einnig á fyrirhuguðum breytingum er gera á á lagaumhverfi tímabundinnar gistingu í heimahúsum.

Fór beint austur eftir fundinn því hér beið Halldór frá Reitum fasteignafélagi en félagið er eigandi húsnæðisins hér í Sunnumörk.  Hér eru framundan breytingar sem betur verið sagt frá síðar.

Átti síðan fund með Ara og Peter Jessen, Guðmundi og Jóhönnu vegna málefna Hamarshallarinnar.  Ari er aðalhönnuður og umsjónarmaður framkvæmda við húsið og Peter okkar helsti ráðgjafi varðandi bygginguna.
Hamarshöllin hefur valdið byltingu í íþróttaiðkun hér í Hveragerði og er að gaman að sjá hversu mikil lyftistöng hún er hinum ýmsu íþróttagreinum.
------------------------------
Í síðasta tölublaði Sveitarstjórnarmála er sérstök umfjöllun um Samband íslenskra sveitarfélaga í tilefni af 70 ára afmæli samtakanna.  Þar birtist þessi stórskemmtilega mynd sem tekin er á landsþingi árið 2002.


Ég varð nú hreinlega að grandskoða myndina til að þekkja þarna sjálfa mig.  Ég setti þessa mynd nýlega á facebook sem prófíl af því að mér fannst svo ánægjulegt að ég skuli þroskast í rétta átt!  En ég  fékk svo hrikalega neikvæð viðbrögð og meira að segja símtal um miðja nótt þar sem þetta var harkalega gagnrýnt að ég henti henni út hið snarasta og setti aðra skárri í staðinn.  

Maður á greinilega ekki að setja vondar myndir af sér í prófíl ! ! !
En af því að þið dyggir lesendur aldis.is eruð nú svo fáir að þá er allt í lagi að deila svona löguðu með ykkur :-)


6. janúar 2016

Druslaðist í vinnuna seint og um síðir enda ennþá frekar tuskuleg.  En það er nú ekki eins og maður sé í erfiðisvinnu utandyra þannig að smá pest er í lagi í vinnunni - bara helst ekki að smita alla sem ég hitti, það væri verra :-)

En það tekur alltaf nokkurn tíma að plægja í gegnum tölvupóstinn eftir frídaga, svara bréfum og erindum, koma þeim í réttan farveg, setja upp fundi og skipuleggja næstu daga og vikur.  Ég mæti oft á mánudögum og verð svo ánægð þegar ég sé að það eru engir fundir framundan,  slík gleði endist þó yfirleitt ekki lengi þar sem dagarnir eru fljótir að fyllast.

En í dag þurfti aðeins að vinna í biðlistum leikskólanna og ræða við báða leikskólastjórana og fleiri vegna þeirra.  Hitti einnig Ara, umhverfisfulltrúa, vegna gámasvæðis og breyttra regla þar en einnig ræddum við Blóm í bæ og fleiri atriði.  Við Helga, skrifstofustjóri, fórum yfir rekstrartengd málefni og margt fleira var til umræðu og afgreiðslu á bæjarskrifstofunni í dag. 

Mér finnst oft ágætt að sitja þegar allir eru farnir en þá gefst oft gott tóm til að velta ýmsu fyrir sér og klára mál.  Í dag notaði ég tækifærið og setti skondna frétt á heimasíðu bæjarins um íbúafjölda og íbúasamsetningu. Mér finnst til dæmis gaman að vita það að árgangur 1989 er fjölmennastur allra hér í Hveragerði ! 

Valdi bróðir og Sigrún mágkona litu við í heimsókn og það er nú efni í sérstaka tilkynningu.  Fólk heldur nefnilega að af því að við búum öll systkinin hér í Hverageðri þá séum við alltaf að hittast.  En það er nú öðru nær.  Allir afar uppteknir og því telst það til sérstakra tíðinda ef að við náum að setjast niður og spjalla.  En mikið óskaplega er það nú notalegt þegar það gerist :-)


3. janúar 2016

Jólin eru ekki jólin nema að ég horfi á Family Stone, bestu jólamyndina sem ég veit.  Náði því í dag enda búin að næla mér í pest svo það eina sem ég geri er að horfa á sjónvarpið og facebook.  Hin fullkomna afslöppun :-)  Hér getið þið notið þess að sjá kynningu á myndinni og þar bregður fyrir hinum stórkostlega Luke Wilson sem gerir allar myndir betri  :-)

Annars fóru Bjarni Rúnar og Hafdís norður í morgun og Albert er farinn uppá Laugarvatn þannig að nú erum við ein í kotinu aftur.  Það er reyndar ágætt og ekkert sem getur skyggt á gleði mína yfir því að vera flutt inn aftur eftir húsahremmingar haustsins sem virtust engan endi ætla að taka.  Jafnvel sú staðreynda að þvottavélin brann yfir á milli jóla og nýárs náði ekki að skyggja á gleðina en það kórónaði bara óheppni þessa húss á árinu 2015 !

2. janúar 2016

Þann 1. janúar 2016 eru íbúar í  Hveragerði nú 2.462
Fjöldi íbúa fyrir 12 mánuðum var 2.387 aukning á milli ára er því 75 íbúar eða 3,14%.


Ég spái því að í lok árs 2016 verði íbúar í Hveragerði orðnir nokkuð fleiri en 2.500.  
------
Á Þorláksmessu skelltum vil Helga, skrifstofustjóri, okkur á rúntinn og færðum öllum börnum sem fædd eru á árinu 2015 gjöf frá Hveragerðisbæ um leið og krílin voru boðin velkomin heiminn. Mjög ánægjulegt og var mér vel tekið hvar sem ég kom.  Takk mín kæru kærlega fyrri það :-) 

1. janúar 2016

Vil byrja á að óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og vona um leið svo innilega að það færi ykkur öllum helling af hamingju og skemmtilegum stundum.  Þakka skemmtilegar samverustundir og tryggð ykkar við þessi skrif mín á undanförnum árum.

Síðasta boð fjölskyldunnar verður þann 2. janúar en þá á Dagný Lísa dóttir Guðrúnar systur afmæli.  Þá hittumst við öll í enn eitt skiptið.  Þelamerkur fjölskyldan hittist margoft yfir jól og áramót og er það alltaf jafn gaman.  Nú var það sérstaklega skemmtilegt þar sem svo mörg barnabörn eru í burtu þessi misserin.  Öll þrjú börn Valdimars eru við nám í Danmörku, dóttir Guðrúnar er í skóla í Bandaríkjunum, Bjarni minn og Hafdís eru við nám á Akureyri og Albert á Laugarvatni.  Svo það voru fagnaðarfundir þegar allir mættu heim um jólin.

Við hér á Heiðmörkinni skruppum í kalkúnaveislu í Gýgjarhólskot eitt kvöldið milli jóla og nýárs.  Það fer að verða árlegur viðburður sem við kunnum vel að meta.  Var reyndar svo vitlaus að taka með hið bráðskemmtilega spil, Besserwisser og skiptum við í lið eftir fjölskyldum, BIG MISTAKE - BIG  :-)
Það heitir nú að stinga hausnum lóðbeint í gin ljónsins að fara í spurningaspil með þessum Gettu betur, Útsvars snillingum sem engjast úr hlátri yfir einfaldleika alls konar spurninga um efnafræðiformúlur og Íslandssöguna...

En þarna sá ég í fyrsta sinn hina margumræddu og vinsælu hrútaskrá.  Eftir að hafa velt þessu vel fyrir mér finnst mér að þeir sauðfjárbændur sem ég þekki ættu að nýta sér hann Kornelíus -  afar fótogenískur hrútur :-)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

 • Um Aldísi ...
 • Ræður og greinar ...
 • Aftur á forsíðu...
 • Tenglar
 • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
 • Síða Sjálfstæðisflokksins
 • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
 • Sjálfstæðiskonur
 • Sjálfstæðismenn í Suður.
 • Gagnagátt Sambandsins
 • Besti ísinn!
 • Morgunblaðið á netinu
 • Vísir.is
 • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
 • Fleiri Sunnlenskar fréttir
 • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
 • Hveragerði
 • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
 • Grunnskólinn í­ Hveragerði
 • Íþróttafélagið Hamar
 • Veðurspá fyrir Hveragerði
 • Fjölbrautaskóli Suðurlands
 • Gagnasöfn Hvar.is
 • Besti bloggarinn ! ! !
 • Vefbanki Valla...
 • SASS
 • Myndir Bjössa á Bláfelli
 • Nátturan.is
 • Orðaþýðingar - frábær síða
 • Færð og veður á SV-landi
 • Leitarvélin
 • Sí­maskráin
 • Ýmsar myndir
 • Myndasíða
 • Úr reisubókinni
 • Flórída janúar 2017
 • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
 • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
 • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
 • Búkarest í Rúmení­u 2006
 • Ítalía 2007
 • Svartfjallaland 2008
 • Danmörk 2010
 • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
 • Hefur þú skoðun?
 • Hafðu samband!
  Eldri færslur
 • 1.1.2004 - 1.2.2004
 • 1.2.2004 - 1.3.2004
 • 1.3.2004 - 1.4.2004
 • 1.5.2004 - 1.6.2004
 • 1.6.2004 - 1.7.2004
 • 1.7.2004 - 1.8.2004
 • 1.8.2004 - 1.9.2004
 • 1.9.2004 - 1.10.2004
 • 1.10.2004 - 1.11.2004
 • 1.11.2004 - 1.12.2004
 • 1.12.2004 - 1.1.2005
 • 1.1.2005 - 1.2.2005
 • 1.3.2005 - 1.4.2005
 • 1.4.2005 - 1.5.2005
 • 1.5.2005 - 1.6.2005
 • 1.6.2005 - 1.7.2005
 • 1.7.2005 - 1.8.2005
 • 1.8.2005 - 1.9.2005
 • 1.9.2005 - 1.10.2005
 • 1.10.2005 - 1.11.2005
 • 1.11.2005 - 1.12.2005
 • 1.12.2005 - 1.1.2006
 • 1.1.2006 - 1.2.2006
 • 1.2.2006 - 1.3.2006
 • 1.3.2006 - 1.4.2006
 • 1.4.2006 - 1.5.2006
 • 1.5.2006 - 1.6.2006
 • 1.6.2006 - 1.7.2006
 • 1.7.2006 - 1.8.2006
 • 1.8.2006 - 1.9.2006
 • 1.9.2006 - 1.10.2006
 • 1.10.2006 - 1.11.2006
 • 1.11.2006 - 1.12.2006
 • 1.12.2006 - 1.1.2007
 • 1.1.2007 - 1.2.2007
 • 1.2.2007 - 1.3.2007
 • 1.3.2007 - 1.4.2007
 • 1.4.2007 - 1.5.2007
 • 1.5.2007 - 1.6.2007
 • 1.6.2007 - 1.7.2007
 • 1.7.2007 - 1.8.2007
 • 1.8.2007 - 1.9.2007
 • 1.9.2007 - 1.10.2007
 • 1.10.2007 - 1.11.2007
 • 1.11.2007 - 1.12.2007
 • 1.12.2007 - 1.1.2008
 • 1.1.2008 - 1.2.2008
 • 1.2.2008 - 1.3.2008
 • 1.3.2008 - 1.4.2008
 • 1.4.2008 - 1.5.2008
 • 1.5.2008 - 1.6.2008
 • 1.6.2008 - 1.7.2008
 • 1.7.2008 - 1.8.2008
 • 1.8.2008 - 1.9.2008
 • 1.9.2008 - 1.10.2008
 • 1.10.2008 - 1.11.2008
 • 1.11.2008 - 1.12.2008
 • 1.12.2008 - 1.1.2009
 • 1.1.2009 - 1.2.2009
 • 1.2.2009 - 1.3.2009
 • 1.3.2009 - 1.4.2009
 • 1.4.2009 - 1.5.2009
 • 1.5.2009 - 1.6.2009
 • 1.6.2009 - 1.7.2009
 • 1.7.2009 - 1.8.2009
 • 1.8.2009 - 1.9.2009
 • 1.9.2009 - 1.10.2009
 • 1.10.2009 - 1.11.2009
 • 1.11.2009 - 1.12.2009
 • 1.12.2009 - 1.1.2010
 • 1.1.2010 - 1.2.2010
 • 1.2.2010 - 1.3.2010
 • 1.3.2010 - 1.4.2010
 • 1.4.2010 - 1.5.2010
 • 1.5.2010 - 1.6.2010
 • 1.6.2010 - 1.7.2010
 • 1.7.2010 - 1.8.2010
 • 1.8.2010 - 1.9.2010
 • 1.9.2010 - 1.10.2010
 • 1.10.2010 - 1.11.2010
 • 1.11.2010 - 1.12.2010
 • 1.12.2010 - 1.1.2011
 • 1.1.2011 - 1.2.2011
 • 1.2.2011 - 1.3.2011
 • 1.3.2011 - 1.4.2011
 • 1.4.2011 - 1.5.2011
 • 1.5.2011 - 1.6.2011
 • 1.6.2011 - 1.7.2011
 • 1.7.2011 - 1.8.2011
 • 1.8.2011 - 1.9.2011
 • 1.9.2011 - 1.10.2011
 • 1.10.2011 - 1.11.2011
 • 1.11.2011 - 1.12.2011
 • 1.12.2011 - 1.1.2012
 • 1.1.2012 - 1.2.2012
 • 1.2.2012 - 1.3.2012
 • 1.3.2012 - 1.4.2012
 • 1.4.2012 - 1.5.2012
 • 1.5.2012 - 1.6.2012
 • 1.6.2012 - 1.7.2012
 • 1.7.2012 - 1.8.2012
 • 1.8.2012 - 1.9.2012
 • 1.9.2012 - 1.10.2012
 • 1.10.2012 - 1.11.2012
 • 1.11.2012 - 1.12.2012
 • 1.12.2012 - 1.1.2013
 • 1.1.2013 - 1.2.2013
 • 1.2.2013 - 1.3.2013
 • 1.3.2013 - 1.4.2013
 • 1.4.2013 - 1.5.2013
 • 1.5.2013 - 1.6.2013
 • 1.6.2013 - 1.7.2013
 • 1.7.2013 - 1.8.2013
 • 1.8.2013 - 1.9.2013
 • 1.9.2013 - 1.10.2013
 • 1.10.2013 - 1.11.2013
 • 1.11.2013 - 1.12.2013
 • 1.12.2013 - 1.1.2014
 • 1.1.2014 - 1.2.2014
 • 1.2.2014 - 1.3.2014
 • 1.3.2014 - 1.4.2014
 • 1.4.2014 - 1.5.2014
 • 1.5.2014 - 1.6.2014
 • 1.8.2014 - 1.9.2014
 • 1.9.2014 - 1.10.2014
 • 1.10.2014 - 1.11.2014
 • 1.11.2014 - 1.12.2014
 • 1.12.2014 - 1.1.2015
 • 1.1.2015 - 1.2.2015
 • 1.2.2015 - 1.3.2015
 • 1.3.2015 - 1.4.2015
 • 1.4.2015 - 1.5.2015
 • 1.6.2015 - 1.7.2015
 • 1.7.2015 - 1.8.2015
 • 1.8.2015 - 1.9.2015
 • 1.9.2015 - 1.10.2015
 • 1.10.2015 - 1.11.2015
 • 1.11.2015 - 1.12.2015
 • 1.12.2015 - 1.1.2016
 • 1.1.2016 - 1.2.2016
 • 1.2.2016 - 1.3.2016
 • 1.3.2016 - 1.4.2016
 • 1.4.2016 - 1.5.2016
 • 1.5.2016 - 1.6.2016
 • 1.6.2016 - 1.7.2016
 • 1.7.2016 - 1.8.2016
 • 1.8.2016 - 1.9.2016
 • 1.9.2016 - 1.10.2016
 • 1.10.2016 - 1.11.2016
 • 1.11.2016 - 1.12.2016
 • 1.12.2016 - 1.1.2017
 • 1.1.2017 - 1.2.2017
 • 1.2.2017 - 1.3.2017
 • 1.3.2017 - 1.4.2017
 • 1.5.2017 - 1.6.2017
 • 1.6.2017 - 1.7.2017
 • 1.8.2017 - 1.9.2017
 • 1.9.2017 - 1.10.2017
 • 1.10.2017 - 1.11.2017
 • 1.11.2017 - 1.12.2017
 • 1.12.2017 - 1.1.2018
 • 1.1.2018 - 1.2.2018
 • 1.2.2018 - 1.3.2018
 • 1.3.2018 - 1.4.2018
 • 1.4.2018 - 1.5.2018
 • 1.5.2018 - 1.6.2018
 • 1.8.2018 - 1.9.2018
 • 1.11.2018 - 1.12.2018
 • 1.4.2021 - 1.5.2021
 • 1.5.2021 - 1.6.2021
 • 1.6.2021 - 1.7.2021
 • 1.7.2021 - 1.8.2021
 • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet