1. janúar 2016
Vil byrja á að óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og vona um leið svo innilega að það færi ykkur öllum helling af hamingju og skemmtilegum stundum. Þakka skemmtilegar samverustundir og tryggð ykkar við þessi skrif mín á undanförnum árum.
Síðasta boð fjölskyldunnar verður þann 2. janúar en þá á Dagný Lísa dóttir Guðrúnar systur afmæli. Þá hittumst við öll í enn eitt skiptið. Þelamerkur fjölskyldan hittist margoft yfir jól og áramót og er það alltaf jafn gaman. Nú var það sérstaklega skemmtilegt þar sem svo mörg barnabörn eru í burtu þessi misserin. Öll þrjú börn Valdimars eru við nám í Danmörku, dóttir Guðrúnar er í skóla í Bandaríkjunum, Bjarni minn og Hafdís eru við nám á Akureyri og Albert á Laugarvatni. Svo það voru fagnaðarfundir þegar allir mættu heim um jólin.
Við hér á Heiðmörkinni skruppum í kalkúnaveislu í Gýgjarhólskot eitt kvöldið milli jóla og nýárs. Það fer að verða árlegur viðburður sem við kunnum vel að meta. Var reyndar svo vitlaus að taka með hið bráðskemmtilega spil, Besserwisser og skiptum við í lið eftir fjölskyldum, BIG MISTAKE - BIG :-)
Það heitir nú að stinga hausnum lóðbeint í gin ljónsins að fara í spurningaspil með þessum Gettu betur, Útsvars snillingum sem engjast úr hlátri yfir einfaldleika alls konar spurninga um efnafræðiformúlur og Íslandssöguna...
En þarna sá ég í fyrsta sinn hina margumræddu og vinsælu hrútaskrá. Eftir að hafa velt þessu vel fyrir mér finnst mér að þeir sauðfjárbændur sem ég þekki ættu að nýta sér hann Kornelíus - afar fótogenískur hrútur :-)
Comments:
Skrifa ummæli