20. janúar 2016
Við Ari, umhverfisfulltrúi, áttum góðan fund í morgun með Elfu Dögg á Frost og funa. Þar fékk ég aftur gómsætan morgunverð eins og í gær. Verð eiginlega að finna einhverja afsökun til að mæta aftur á morgun. Heimabökuðu brauðin eru meiriháttar :-)
En umræðuefnið var Blóm í bæ og hvernig best verður staðið að þeirri hátíð. Blóm í bæ er barnið hennar Elfu og því var gott að ræða ýmislegt sem varðar framhaldið við hana. Hugmyndirnar flugu hátt og voru margar. Tengdust líka afmæli Hveragerðisbæjar en bærinn fagnar 70 ára afmæi í ár.
Utan um afmælishátíðahöldin heldur menningar-, íþrótta- og frístundanefnd og umhverfisnefnd sér um utanumhald fyrir Blóm í bæ. Við Ari erum núna að pússla saman fyrstu pússlunum og síðan munu nefndirnar taka við.
Ég hef alltaf fyrir sið að ef ég er við á skrifstofunni og ekki á fundi þá tek ég á móti þeim sem vilja hitta mig þó þeir hafi ekki gert boð á undan sér. Í dag fékk ég góða heimsókn er Siggi í Gerðakoti í Ölfusi kom í heimsókn. Hann er tiltölulega nýfluttur hingað, átti erindi á bæjarskrifstofuna og notaði tækifærið og heilsaði upp á bæjarstjórann. Það fannst mér virkilega góð hugmynd og áttum við hið besta spjall um lífið og tilveruna, Ölfus og Hveragerði, réttir og búfjárhald og ýmislegt fleira. Hann sagði mér það að við værum skyld einhvers staðar sem ég kann ekki að nefna en ekki síst fannst mér gaman að heyra að ætt okkar hefði verið rakin aftur til 545 f.Krist til Miklagarðs í Tyrklandi. Valdimar bróðir sem sér um ættfræðina fyrir okkur systur er greinilega ekki að standa sig fyrst hann er ekki búinn að komast að þessu :-)
Síðdegis hitti ég Hjalta formann Íþróttafélagsins Hamars, Þorsteins, formann Knattspyrnudeidlar og Dengsa sem séð hefur um rekstur flettiskiltisins við hringtorgið undanfarin 8 ár. Nú er komið að lokum þess samnings, skiltið mun renna til Hveragerðisbæjar í samræmi við samning og knattspyrnudeildin taka við rekstri þess í samræmi við annan samning sem gerður var á sínum tíma. Þetta liggur nokkuð ljóst fyrir, mun draga upp samninga á næstu dögum og ganga frá þessu. En fundurinn var bæði fræðandi og skemmtilegur enda fáir menn með meiri reynslu af fjáröflunum og skiltarekstri en Dengsi.
Fór í zumba í morgun kl. 6 sem er ekki í frásögur færandi þar sem ég mæti þar samviskusamlega 4x í viku. Mætti líka í líkamsræktina kl. 17 en þar var endað á foam flex sem er gríðarleg góð uppfinning.
Heim í kvöldmat og svo aftur í vinnuna - er að reyna að grynnka á verkefnasúpunni og komst nokkuð áleiðis í kvöld :-)
Comments:
Skrifa ummæli