6. janúar 2016
Druslaðist í vinnuna seint og um síðir enda ennþá frekar tuskuleg. En það er nú ekki eins og maður sé í erfiðisvinnu utandyra þannig að smá pest er í lagi í vinnunni - bara helst ekki að smita alla sem ég hitti, það væri verra :-)
En það tekur alltaf nokkurn tíma að plægja í gegnum tölvupóstinn eftir frídaga, svara bréfum og erindum, koma þeim í réttan farveg, setja upp fundi og skipuleggja næstu daga og vikur. Ég mæti oft á mánudögum og verð svo ánægð þegar ég sé að það eru engir fundir framundan, slík gleði endist þó yfirleitt ekki lengi þar sem dagarnir eru fljótir að fyllast.
En í dag þurfti aðeins að vinna í biðlistum leikskólanna og ræða við báða leikskólastjórana og fleiri vegna þeirra. Hitti einnig Ara, umhverfisfulltrúa, vegna gámasvæðis og breyttra regla þar en einnig ræddum við Blóm í bæ og fleiri atriði. Við Helga, skrifstofustjóri, fórum yfir rekstrartengd málefni og margt fleira var til umræðu og afgreiðslu á bæjarskrifstofunni í dag.
Mér finnst oft ágætt að sitja þegar allir eru farnir en þá gefst oft gott tóm til að velta ýmsu fyrir sér og klára mál. Í dag notaði ég tækifærið og setti skondna frétt á heimasíðu bæjarins um íbúafjölda og íbúasamsetningu. Mér finnst til dæmis gaman að vita það að árgangur 1989 er fjölmennastur allra hér í Hveragerði !
Valdi bróðir og Sigrún mágkona litu við í heimsókn og það er nú efni í sérstaka tilkynningu. Fólk heldur nefnilega að af því að við búum öll systkinin hér í Hverageðri þá séum við alltaf að hittast. En það er nú öðru nær. Allir afar uppteknir og því telst það til sérstakra tíðinda ef að við náum að setjast niður og spjalla. En mikið óskaplega er það nú notalegt þegar það gerist :-)
Comments:
Skrifa ummæli