<$BlogRSDUrl$>

30. september 2014

Risa stór dagur í okkar lífi - lítill snáði bættist í fjölskylduna seint í gærkvöldi þegar Rakel og Guðjón urðu foreldrar. Skruppum í heimsókn til litlu fjölskyldunnar síðdegis og mikið lifandis býsn er þetta myndarlegur drengur. Við ætluðum ekki að geta slitið okkur frá honum enda er fátt yndislegra en ömmu og afabörnin.  Myndir á morgun :-)
---------------------
Útborgunardagur og þá fer bæjarstjórinn yfir launalistann.  Við sjáum merkjanlega hækkun á launakostnaði vegna undangenginna kjarasamninga og ljóst að bæta þarf verulega í fjárveitingar til stofnana til að standa straum af því.  Þær 14 mkr. sem settar voru í þetta á fjárhagsáætlun duga skammt þegar heildarpakkinn er skoðaður enda margar starfstéttir að fá umtalsverðar hækkanir.

Eftir hádegi hittu fulltrúar úr starfshópi um Reykjadal Bob Aitken, breskan sérfræðing í gerð göngustíga sem hér er á vegum Landgræðslu ríkisins.  Við eigum gott safn mynda sem eru góðar til að glöggva sig á aðstæðum þegar veður býður ekki til útivistar eins og í dag.  Guðmundur Baldursson tók þessa myndasyrpu fyrir viku og það fer ekki á milli mála að við eigum þarna verkefni fyrir höndum.  En Bob orðaði þetta ágætlega þegar hann sagði: "My heart bleeds for you, fantastic place but totally buggered!"
Hugmyndir hans um gerð göngustíga voru afar góðar og engin spurning að þarna er mikill viskubrunnur á ferð. Á myndinni erum við Gurrý og Össur ásamt Bob.  Hann verður með fyrirlestur í Háskóla Íslands næstkomandi föstudag fyrir áhugasama.
----------------------------------------
Hitti nýja fólkið í bæjarstjórn í kvöld þar sem við ræddum starfið framundan.  Góður hópur sem eins og aðrir bæjarfulltrúar vill láta gott af sér leiða.


29. september 2014

Síðustu dögum liðinnar viku var eytt á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem venju samkvæmt var haldið á Akureyri. Mjög vel skipulagt þing þar sem lagðar voru línur fyrir starf Sambandsins þetta kjörtímabilið. Ég stýrði þarna einum af fjórum umræðuhópum þingsins og átti hópurinn minn afar góðar samræður um fjölda atriða sem tengjast innra starfi sveitarfélaganna, samstarfi þeirra við hvert annað en ekki síður samstarfi þeirra við ríkið.  Heilmikil umræða spannst um sameiningar sveitarfélaga og verkefnaflutning og ótal margt annað sem væntanlega mun rata í stefnumörkun sambandsins sem stjórn mun nú klára.

Ég var afar ánægð með niðurstöðu kosninga til stjórnar en tillaga kjörnefndar var samþykkt einróma, Halldór formaður var endurkjörinn en hann hefur staðið sig mjög vel í þessu starfi.  Ég var einnig ánægð með það traust sem mér var sýnt en ég var einnig kosin aftur í stjórn þetta kjörtímabilið.  Hér má sjá tillögu kjörnefndar. 

Við Sjálfstæðismenn hittumst síðdegis fyrri daginn hjá félögum okkar í Kaupangi og var það afar góð samkoma.  Akureyringar eru gestrisnir og ekki spillir nú fyrir hvað þeir eru ferlega skemmtilegir :-)

Á laugardaginn var nóg um að vera enda hófst vinnan fyrir hádegi og lauk í raun ekki fyrr en undir kvöldmat.  


En það má klárlega mæla með sýningunni hans Svans Jóhannessonar í Bókasafninu hér í Hveragerði.  Mikið þrekvirki sem hann hefur unnið með söfnun prentgripa frá prentsmiðjum landsins.  Sýningin sem opnaði síðdegis í Listasafni Árnesinga er líka mjög skemmtileg - þið sem eigið börn skuluð endilega fara og sýna þeim meðal annars málverkið eftir Erró, það mun þeim væntanlega þykja bæði skrýtið og skemmtilegt !

Stofnun Bókabæja austanfjalls var mikill viðburður og fjöldi manna sem var viðstaddur í sal Fjölbrautaskólans.  Bæði skemmtilegt og fróðlegt og eftir þennan fund er ég ekki í vafa um að Bókabæja hugmyndin á eftir að verða að einhverju virkilega stóru og miklu hér fyrir austan fjall.  

Dýrðarinnar veður hér í Hveragerði í gær enda nýttum við Haraldur Fróði daginn vel til útivistar.  Hittingur með vinkonunum í Reykjavík í gærkvöldi sannaði fyrir mér að góður vinskapur er ómetanlegur -takk mínar kæru fyrir öll góðu ráðin ;-)

Í dag mánudag fórum við Helga, skrifstofustjóri, yfir rekstur bæjarins en ljóst er að kjarasamningsbundnar hækkanir munu hafa heilmikil áhrif á niðurstöðu ársins.  Forstöðumenn þurfa nú að fara vel yfir sínar deildir og kanna hversu miklum fjármunum þarf að óska eftir með viðaukum til að bregðast við þessu. Eins og alltaf þarf að vanda til fjárhagsáætlanagerðar en fjármunir til framkvæmda og reksturs eru af skornum skammti eins og reyndin hefur oftast verið hér í Hveragerði.  Mikilvægt er aftur á móti að velja vel þau verkefni sem ráðist er í og að þau séu til hagsbóta fyrir þá sem hér búa í dag en geti einnig dregið hingað bæði ferðamenn, fyrirtæki og nýja íbúa.  

Meirihlutafundur í kvöld á eftir sundinu  -  röðuðum m.a. niður dagskrá næstu vikna og undirbjuggum bæjarráð í vikunni.  Það er ljóst að það er og verður nóg um að vera :-)

23. september 2014

Fundur með stjórnendum Hveragerðisbæjar í morgun.  Þetta eru alltaf góðir fundir en þarna er sagt frá því er efst á baugi bæði hjá bænum og einstöka stofnunum.

Eftir hádegi var ég með fyrirlestur um Hveragerði hjá Listaháskóla Íslands fyrir masters nemana sem núna eru að vinna verkefni um bæinn. .  Heil kennslustund í glærusýningu og erindi og önnur í fyrirspurnir.  Þetta var mjög skemmtilegt og ekki síður fróðlegt fyrir mig.  Dóra Ísleifsdóttir og Massimo stýrðu öllu saman og ég var meira að segja svo lánsöm að fá skoðunarferð um skólann en hann hef ég aldrei heimsótt áður.  Uppgötvu dagsins var reyndar bílastæða app !  Ég mun svo klárlega aldrei framar borga í stæði í Reykjavík öðru vísi en með þessu snilldar appi :-)

Hér fyrir austan tók við undirbúningur fyrir íbúafund um atvinnumál.  Sá fundur tókst ágætlega og var mætingin framar vonum.  Fengum að ég held mikið af gagnlegum punktum sem Þórarinn atvinnuráðgjafi mun vinna úr í framhaldinu.

Kláraði ýmislegt í vinnunni eftir fundinn því næstu dagar verða á Akureyri þar sem fram fer landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Þar er ég umræðustjóri í einum af fjórum hópum þingsins svo það er eins gott að lesa gögnin vel yfir...

Vil endilega minna á alla viðburði næsta laugardags.   En kl. 10:30 byrja opin hús Sjálfstæðismanna aftur.    Kl. 12 opnar sýning Svans Jóhannessonar á prentverki í Bókasafninu.  Kl. 14 er stofnfundur bókabæja austanfjalls þar sem hægt er að njóta þess m.a. að hlusta á mig og Ólaf Ragnar halda ræður :-)  Kl.  16 er opnun á nýrri sýningu í Listasafninu og um kvöldið er matarboð í góðra vina hópi.  Endilega fjölmennið  - allir velkomnir í þetta allt - nema matarboðið - er ekki viss um að þar sé gert ráð fyrir fjölda ókunnra :-)


22. september 2014

Áttum fund með arkitektunum sem eru að vinna nýtt útlit og hanna breytingar á Sundlauginni Laugaskarði.  Í vor voru fyrstu hugmyndir kynntar en nú er komið að því að halda áfram og undirbúa fyrstu framkvæmdir. Í fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár verða lagðar línur hversu langt er hægt að komast í fyrsta skrefi.

Hitti Gunnvöru, leikskólastjóra Óskalands, og ræddum við starfsmannamál en mikil vöntun er á menntuðum leikskólakennurum hér eins og reyndar víðast hvar annars staðar.  Ræddum m.a. hvernig mætti hvetja núverandi starfsmenn til að sækja sér þessa  menntun og hvað bæjarfélagið gæti gert í þeim efnum.

Í hádeginu hittist stjórn þjónusturáðs um málefni fatlaðs fólks á Suðurlandi en í henni eiga sæti auk mín þau Ísólfur Gylfi og Ásta í Árborg.  Við kláruðum á fundinum nýjar samþykktir fyrir þjónustusvæðið sem breytist þar með í byggðasamlag í samræmi við ákvæði laga þar um.

Sundleikfimi og meirihlutafundur eins og venjan er á mánudögum :-)



20. september 2014


Aldrei er svo bjart yfir öðlingsmanni 
að eigi geti syrt eins sviplega og nú.
Og aldrei svo svart yfir sorgarranni 
að eigi geti birt fyrir eilífa trú.
M.Joch.


Hvergerðingar kvöddu í dag Sigurð H. Tryggvason sem lést langt fyrir aldur fram nú nýlega.   Hann var gull af manni.  Alltaf boðinn og búinn að gleðja og hjálpa.  Hans verður sárt saknað.  Fjölskyldu hans sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
--------------------------

Eftir ákvörðun bæjarstjórnar um sameiginlegan biðlista Hvergerðinga og Ölfusinga og inntöku þeirra barna sem hér voru á biðlista í vikunni er staðan sú að ekkert barn er á biðlistanum nú sem orðið er 18 mánaða.  Það elsta á listanum verður 18 mánaða í lok desember.  Staða leikskólamála er því afar góð hér í bæ um þessar mundir.  Þó nokkrar framúrskarandi dagmæður eru líka starfandi í bæjarfélaginu sem við erum ævarandi þakklát fyrir.  En leikskólamál er hvikull málaflokkur og ég hef á tilfinningunni að árgangur 2014 eigi eftir að verða nokkuð stór allavega miðað við allar myndarlegu ófrísku konurnar sem ég sé svo víða og öll nýfæddu börnin sem við fréttum af þessa dagana.  En þetta er einmitt svo yndislegt :-)
---------------------
Fögnuðum síðan stórafmæli Eyjólfs Kolbeins í góðum og skemmtilegum hópi í kvöld.  Til hamingju með afmælið kæri félagi :-)

19. september 2014

Hélt virkilega að sjálfstæðissinnar í Skotlandi myndu vinna þessar kosningar, að þjóð myndi alltaf kjósa sjálfstæðið.  En kannski er Skotland einfaldlega of breskt.  Heyrði einhvers staðar að ólétta Kötu hefði verið tilkynnt á albesta tíma - fyrir Englendinga!  Að ekkert sameinaði breska samveldið betur en konunlegt barn!   Kannski voru það þau prósent sem skiptu sköpum :-)

Fundur í Innanríkisráðuneytinu í morgun ásamt Ástu í Árborg, Guðlaugu félagsmálastjóra og Ingibjörgu, fjármálastjóra, um reynsluna af yfirfærslu málefa fatlaðs fólks til sveitarfélaganna.  Þarna fékk ég dágott tækifæri til að fara eina ferðina enn með ræðuna mína um meinta eflingu sveitarstjórnarstigsins en yfirfærsla málaflokksins var boðuð og kynnt undir þeim formerkjum.
Málaflokkurinn var í raun strax í upphafi tekinn frá velflestum sveitarfélögum þegar Alþingi  lögfesti ákvæði um lágmarksstærð þjónustusvæða, í okkar tilfelli hér á Suðurlandi endaði þjónustusvæðið á því að ná frá Hveragerði austur á Klaustur og yfir 13 sveitarfélög.  Um raunverulega eflingu sveitarstjórnarstigsins hefur ekki orðið að ræða heldur má segja að orðið hafi til annað stjórnsýslustig sem síðan  eltir hvorki mörk kjördæmisins, Sass né  héraðsnefndanna.  Afleiðingin er sú að málaflokkurinn er afar fjarlægur sveitarstjórnum en svo sem í ágætum höndum prýðisgóðra embættismanna. Var það tilgangurinn ?    Hið gullna tækifæri sem þarna bauðst til raunverulegrar eflingar sveitarstjórnarstigsins (lesist:  sameiningar og eflingar sveitarfélaga)  fór þarna forgörðum vegna vantrúar þingmanna á getu sveitarstjórnarmanna til að taka skynsamlegar ákvarðanir.

Hitti í hádeginu hóp evrópskra kennara sem hér hafa verið undanfarna daga vegna þátttöku í Comeniusar verkefni.  Átti við hópinn ágætis spjall og ekki spillti fyrir að hittingurinn  var í matsal Heilsustofnunar þar sem gómsætur steinbítur var á borðum.

Fyrsti fundur nýskipaðrar stjórnar Fasteignafélags Hveragerðis var haldinn síðdegis.  Samþykkt meðal annars að fá Hampiðjuna til að setja hækkun á netið milli vallanna í Hamarshöllinni til að fótboltarnir fari ekki yfir á boltagólfið með tilheyrandi hættu. Einnig var samþykkt að þétta netið við púttvöllin svo golfarar geti æft sveifluna þaðan.  Það skilst mér að verði vel þegið :-)




18. september 2014

Fundur bæjarráðs í morgun varð ansi langur enda fjöldi mála á dagskrá.  Hæst bar gerð samkomulags við Ölfusinga um samvinnu á sviði leikskólamála. Lagt er til að Sveitarfélagið Ölfus eignist hlut í leikskólum Hveragerðisbæjar og greiði fyrir sem svarar 9% af uppreiknuðu endurstofnverði leikskólans Óskalands sem  er um 358 m.kr. Eða um 32 mkr.  Sveitarfélagið Ölfus á fyrir 11% hlut í leikskólanum Undralandi. Sveitarfélagið Ölfus mun greiða rekstrarkostnað leikskólanna í hlutfalli við barnafjölda úr sveitarfélaginu á hverjum tíma. Samkomulagið byggir á því að öll börn á leikskólaaldri með lögheimili í dreifbýli Sveitarfélagsins Ölfuss muni héðan í frá njóta sama aðgengis að leikskólum í Hveragerðisbæ og börn með lögheimili í Hveragerðisbæ.
Með þessu samkomulagi er endir bundinn á langar viðræður sveitarfélaganna og margháttaða erfiðleika foreldra í nágrenni við Hveragerði sem ekki hafa komið börnum sínum á leikskóla.  Hér er um að ræða eitt skólahverfi þar sem þessi sömu börn munu sækja grunnskóla í Hveragerði um leið og þau hafa aldur til þess. Því er þetta ákveðið réttindamál barnanna fyrst og fremst sem bæjarráð Hveragerðisbæjar er hér að viðurkenna.   Fyrir næsta fund bæjarstjórnanna mun samstarfsamningur sveitarfélaganna verða endurnýjaður með tilliti til þessa.  

Á fundinum var einnig samþykkt að halda íbúafund um atvinnumál næsta þriðjudag kl. 17.  Eru allir áhugasamir hvattir til að mæta og láta skoðun sína í ljós.  Svona fundir gera lítið gagn nema einhver mæti svo endilega látið sjá ykkur sem flest :-) 

Fundur Almannavarnanefndar Árnessýslu var haldinn í dag en á hann mættu fulltrúar frá Veðurstofunni og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra til að ræða loftmengun frá gosinu í Holuhrauni og það hverju búast má við.  Nefndin ákvað að senda dreifibréf með upplýsingum um mengunina til íbúa enda nauðsynlegt að upplýsingar berist sem flestum.  Ekki er þó útlit fyrir norð austan átt allra næstu daga og á meðan fer mengun ekki hér yfir. En upplýsingarnar eru nú aðgengilegar á vef Hveragerðisbæjar.   Einnig var farið yfir ýmsar sviðsmyndir og afleiðingar goss ef það yrði.  Var þetta afar gagnlegur og góður fundur en afar nauðsynlegt er að búast við hinu versta þó líklegt sé og vonandi að sá viðbúnaður verði aldrei nýttur. Hér má nálgast gagnvirkt kort Veðurstofunnar sem sýnir vænta mengun yfir landinu næstu dag.

Hitti Guðrúnu Tryggvadóttur, listakonu, og sýndi hún mér fyrstu tillögur að stórglæsilegri útisýningu um skáldin í Hveragerði sem Listvinafélag Hveragerðis hefur hug á að koma upp.  Afar metnaðarfullt verkefni þarna á ferð. 






17. september 2014

Námskeið um leiðtogafærni og markþjálfun í dag á vegum Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings.  Ég er alltaf að sannfærast um það betur og betur hversu stórt og gott skref var stigið með samstarfi sveitarfélaganna í Árnessýslu utan Árborgar á þessu sviði.  Það tókst alveg einstaklega vel til þegar starfsmenn voru ráðnir að þjónustunni og þeir drífa nú starfsemina áfram af miklum krafti, hugmyndaauðgi og framsýni.  Allir skólastjórnendur leik og grunnskóla á svæðinu ásamt sveitarstjórum og skrifstofustjórum sitja nú saman þetta námskeið sem í allt munu verða fjórir dagar á jafnmörgum mánuðum.  Hópurinn hristist vel saman og það er heilmikið spjallað og margt sem við lærum, og þá ekki hvað síst af hvert öðru. Þær eiga heiður skilinn þær Hrafnhildur og Ólína fyrir þetta.

Um 40 manna hópur erlendra höfunda ferðagreina heimsótti Laugaskarð í dag eftir göngu niður Reykjadalinn.  Veðrið hefði að ósekju mátt vera betra en ég trúi ekki öðru en að bað í Laugaskarði  muni skilja eftir góðar minningar sem kannski munu rata á síður ferðahandbóka og blaða á næstu misserum. 

16. september 2014

Mætti Jóhönnu og Guðmundi brúnaþungum í morgunsárið en þau voru vakin með látum  með fréttum um að nýí vatnshitarinn í sundlauginni í Laugaskarði hefði fallið saman.  Því fylgdi óhjákvæmilegt vatnsleysi og því varð að loka lauginni. Og já hann féll í raun og veru saman, skv. myndum samankrumpaður stálhlunkur, greinilegt að öflin sem þarna voru að verki eru ansi öflug.

Dagurinn í dag ansi drjúgur til að ganga frá ýmsum erindum.  Kláraði meðal annars nokkur minnisblöð vegna mála sem rædd verða og vonandi afgreidd á fundi bæjarráðs á fimmtudaginn.  Eitt þar sem gerð er grein fyrir eignum í eigu Íbúðalánasjóðs hér í Hveragerði og annað vegna málefna leikskólabarna í dreifbýli Ölfuss en það mál hefur verið tímafrekt að undanförnu svo fátt eitt sé talið.  Undirbjó síðan fundarboð bæjarráðs en sá fundur verður á fimmtudaginn.

Síðdegis í dag sat ég fund skipulags- og bygginganefndar en þar var verið að taka til afgreiðslu fyrstu drög að lýsingu fyrir  deiliskipulag Grímsstaðareitsins í miðbænum.  Íbúum verður síðan kynnt lýsingin á fundi, væntanlega í október.  Einnig var fjallað um skipulagið á Árhólmum og á Fossflöt en bæði bíða nú eingöngu samþykkis bæjarstjórnar.  Á byrjunarstigi er síðan skipulag stórra athafnalóða fyrir neðan þjóðveg en með þeim vill bæjarstjórn auka framboð fjölbreyttra lóða fyrir atvinnulífið en slíkt er klárlega fyrsta skrefið sem bæjarstjórn þarf að stíga í átt að fjölbreyttara atvinnulífi.


15. september 2014

Hitti í morgun aðila frá Listaháskólanum sem vildu ræða mögulegt samstarfsverkefni varðandi alþjóðlegan hóp meistarnema.  Hópurinn myndi þá nýta Hveragerði sem vettvang allskonar rannsókna- og hugmyndavinnu. Þau mæta hingað með opinn huga og munu kortleggja bæjarfélagið og möguleika þess.  Mér lýst vel á þetta enda aðkoma bæjarins og bæjarbúa ekki önnur en sú að vera jákvæð og almennileg við þetta unga fólk þegar þau mæta hingað, taka myndir og spjalla við fólk.

Í hádeginu skrifaði ég undir samning um ruslatínslu í bæjarfélaginu við 7. bekk.   Ánægjulegt árvisst verkefni en það er alltaf jafn gaman að hitta þessa spræku fulltrúa ungu kynslóðarinnar.  Þau munu núna í kjölfairð að lágmarki einu sinni í mánuði hreinsa allt rusl úr bænum og fá fyrir framlag í ferðasjóðinn sinn.  Verkefni sem hefur gefist afar vel í yfir 20 ár, höldum við.

Fyrst ég var nú komin upp í skóla leit ég á allar breytingarnar sem þar hafa átt sér stað að undanförnu.  Búið er að setja upp tölvur og flytja stærstan hluta bókasafnsins niður í gamla tölvuverið.  Einnig hefur verið innréttað herbergi til yndislestrar á efri hæð og það ræður Dúfa ríkjum.  Mjög notalegt !  Gamla bókasafnið er orðið að sérkennslu rými þannig að allt eru þetta spor í rétta átt.
Leit líka við í íþróttahúsinu en þar er búið að endurnýja salerni í aðalanddyri og setja nýtt gólfefni.  Allt annað líf.  Einnig er verið að setja glugga til iðbótar þeim sem voru fyrir að starfsmannaaðstöðuna.  Það mun verða mikill munur en það hlýtur að hafa vera hálfömurlegt að sjá ekki út úr kaffistofu starfsmanna. 

Átti afar góðan fund með Gunnsteini og Önnu Björgu vegna leikskólamála í Ölfusi.  Held að fæðst hafi lausn með vonandi báðir aðilar geta sætt sig við og biðlistar barna í Ölfusi ættu þar með að styttast all verulega.  Spurning hvort að bæjarfulltrúar beggja vegna séu sama sinnis ?

Sundlleikfimi í ótrúlegu blíðskaparveðri og síðan meirinlutafundur sem varð gríðarlega langur.  Þeir eiga það til ...


14. september 2014

Tungnaréttir að baki - alltaf jafn gaman!  Mikið fjölmenni og virkilega gaman að hitta fólk, spjalla og njóta dagsins.  Þrátt fyrir hálfónýtt hné rölti ég á eftir safninu svo til alla leið upp í Gýgjarhólskot.  Yndislegt veður og góður félagsskapur en Vigdís litla hennar Sigurbjargar systur labbaði með frænku sinni drjúgan spöl, en hún er bara fjögurra ára.  Alveg ótrúlega dugleg :-)
Í Kotinu er ekki kjötsúpa eftir réttir heldur lambasteik og gríðarleg kökuveisla svo mannskapurinn var hálf afvelta af ofáti um kvöldið.  Kíktum samt á réttarball í Aratungu - líflegt :-)

Fórum niður Skeið á leiðinni heim í dag og komum við í Gömlu lauginni á Flúðum.  Sá staður kom mér á óvart.  Virkilega skemmtilegt og vel að öllu staðið.  Hægt að mæla með heimsókn þangað.
Þetta er stórt og mikið hverasvæði með bullandi vatnshverum.

Það er nærtækt að bera þetta svæði saman við Hverasvæðið í miðbænum hér en þar ber nú svo við að allt vatn er horfið af svæðinu.  Hverju er um að kenna er erfitt að segja en mögulega er hér um að ræða náttúrlegar sveiflur á vatnsstöðunni.  Aftur á móti eru margir sem segja að nú þurfi að koma til nýtt Heklugos með jarðhræringum en árið 1947 virtist vera sem slíkur viðburður setti nýtt líf í hverasvæðið hér.  En þó að vatnið vanti þá hefur ferðamönnum ekki fækkað en það sem af er árinu hafa um 17.000  manns heimsótt svæðið, langmest erlendir gestir.

10. september 2014

A Book Town is a small rural town or village in which second-hand and antiquarian bookshops are concentrated. Most Book Towns have developed in villages of historic interest or of scenic beauty.
Takið og skilið ! 

Undanfarið hefur þó nokkuð verið fjallað um "Bókabæina austanfjalls".  Kynningarfundur var haldinn í gær á verkefninu en  stofnfundur er áætlaður þann 27. september.  Í þessari hugmynd felast fullt af tækifærum bæði fyrir fyrirtæki, sveitarfélögin en ekki síst fyrir íbúana sjálfa.  Þeir geta tekið þátt með ýmsum hætti.  Til dæmis með því að setja upp skiptibókakasssa fyrir utan hús sín.  Það er sífellt að verða algengara erlendis og ætti að geta þrifist vel hér þar sem margir eru hreinlega að drukkna í bókum sem þeir gætu alveg hugsað sér að láta aðra njóta.

Hér má sjá upplýsingar um félagsskap þeirra sem hafa svona bókasafn fyrir utan hús sín.  Guðrún systir var til dæmis á ferð í USA um daginn og sá þá þetta fína bókasafn fyrir utan hús þar.
Góð hugmynd fyrir laghenta :-)

Um 30 sveitarfélög skilgreina sig nú sem bókabæi erlendis og þar á meðal Tvedestrand í Noregi en hér er heimasíða þeirra.



9. september 2014

Átti mjög góðan fund með Júlíusi Rafnssyni, framkvæmdastjóra Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Áss þar sem við ræddum þörf á auknum hjúkrunarrýmum og málefni dagdvalar.  

Hitti Þórarinn Sveinsson, atvinnuráðgjafa SASS, en hann er nú að vinna að atvinnustefnu Hveragerðisbæjar. Stefnt er að fundi með hagsmunaaðilum í annarri viku héðan í frá. 

Kláraði skjöl fyrir fundarboð bæjarstjórnar og svarði ógrynni af tölvupóstum.  

Tók síðan, ásamt Snorra Baldurssyni, fulltrúa Norræna félagsins,  á móti hópi Norðmanna sem tengjast vinabæ okkar í Sigdal í Noregi og sýndi þeim bæjarfélagið.  Þessi hópur fékk "the grand gourmet tour"  hjá bæjarstjóranum!  Það þýðir að bæjarstjórinn talar út í hið óendanlega um það hvað Hveragerði sé stórkostlegt bæjarfélag.  Síðan er boðið uppá rúgbrauð, egg og gúrkusnafs á hverasvæðinu og Kjöris er með veitingar við hæfi. 

Það er svo merkilegt að ef maður keyrir nógu hægt um göturnar hér í bæ og fer nógu margar krókaleiðir þá finnst fólki Hveragerði vera risastórt sveitarfélag.  Það er nóg að sjá, það vantar ekki en yfirleitt tekst að leyna þeirri staðreynd að bæjarfélagið er bara 9 km3 - þó ég uppljóstri því nú yfirleitt upp í lokin :-)  Góður dagur sem endaði síðan á Varmá í stórkostlegu lambakjöti a la Emil Örn í boði útlendinganna svo það sé nú sagt :-)  

Þó nokkuð var eftir að verkefnum þannig að enn er setið í vinnunni þó það halli í miðnætti og næst taki við viðtal á RÚV kl. 7 í fyrramálið ;-)


8. september 2014

Skólamálaþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið á Grand hótel í dag.  Þessum þingum sem haldin eru  árlega vill maður helst ekki missa af.  Fjöldi áhugaverðra fyrirlesara og góður andi og baráttugleði í salnum. Það var inntak vel flestra fyrirlestra að auka og bæta yrði lestur og grunnfærni nemenda í skólum landsins.  Það rímar afar vel við Hvítbók menntamálaráðherra þar sem sett eru fram skýr og einföld markmið um lestur íslenskra barna.  Þetta rímar líka vel við markmið Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings þar sem lestri er til dæmis gert sérstaklega hátt undir höfði.  Hvet þig til að kynna þér markmið skólaþjónustunnar hér. 

Langur meirihlutafundur í kvöld enda kannski ekki furða því framundan er fyrsti fundur bæjarstjórnar að afloknu sumarfríi.  Þar eru þónokkur mál á dagskrá.  Fljótlega tekur síðan gerð fjárhagsáætlunar við en það er einmitt einn annasamasti tími ársins hjá sveitarstjórnarmönnum. Fjör framundan :-)



5. september 2014

Grýla á góðum degi !
Myndina hér til hliðar fann ég á netinu og verð því að viðurkenna stuld á henni.  Vona að eigandanum óþekkta sé sama...

Aftur á móti finnst mér þetta svo skemmtileg mynd af Grýlu að ég bara varð að deili henni með fleirum.
--------------
Ég var sem sagt að leita að myndum af Reykjafjalli bæði í myndasafni bæjarins og á netinu en afraksturinn af þeirri leit var ekki merkilegur.  Ef einhver lumar á góðri mynd af Reykjafjalli þá má viðkomandi gjarnan senda hana til mín á netfangið -  aldis@hveragerdi.is.  Það er verið að gefa út bók um bæjarfjöll á Íslandi og mikið væri nú gott ef við gætum látið þá hafa fína mynd af fjallinu okkar.

Nú er hún Helga, mín hægri hönd,  farin í frí og þá samþykki ég reikninga.  Það geri ég annars afar sjaldan og því er þetta verkefni ágætis tilbreyting.  Nú hef ég líka tekið upp þann sið að opna allan póst sem berst til bæjarins en með því vonast ég til að ég nái enn betri yfirsýn yfir rekstur bæjarfélagsins. Tekur svolítinn tíma sérstaklega eftir mánaðamót en mér finnst þetta gott fyrirkomulag. Nú renni ég til dæmis augum yfir alla reikninga sem berast en það getur oft verið afar gott.

Síðdegis fundaði ég með fulltrúum Ölfusinga varðandi málefni leikskólabarna úr dreifbýli Ölfuss.  Það var hreinskiptinn og góður fundur.  Væntanlega munum við halda viðræðum áfram í næstu viku.   Hitti einnig Eyþór, formann skipulags- og bygginganefndar og Guðmund skipulags- og byggingafulltrúa en á þeirra borði eru ýmis spennandi mál, til dæmis gerð deiliskipulags miðbæjarreitsins, möguleg endurskoðun aðalskipulags, óskir um viðbyggingar og margt fleira.

Báðir leikskólastjórarnir litu hér við í dag og einnig heyrði ég í Fanneyju skólastjóra svo fræðslumálin fengu alveg sinn tíma þennan daginn :-)




4. september 2014

Ég var rækilega minnt á það í morgun að nú væri tímabært að ljúka blogg fríinu.  Hef því ákveðið að hlýða þessum tilmælum.  Þarf hugsanlega aðlögun og því verða færslurnar stuttar til að byrja með.

En í dag hittist NOS, nefnd oddvita og sveitarstjóra í Árnessýslu utan Árborgar.  Þetta er afskaplega góður hópur sem ég finn að mun vinna vel saman, rétt eins og fyrri nefnd.  Ég nýt þeirra forréttinda að vera formaður og líkar það ágætlega. NOS er yfirstjórn skóla- og velferðarþjónustunnar sem þessi sveitarfélög hafa valið að reka í sameiningu.  Mér finnst vel hafa tekist til með þessa samvinnu og starfsemin fer afskapega vel af stað.  Starfsmenn okkar er framúrskarandi og ég var til dæmis afar ánægð með stóra námskeiðið/málþingið sem allir starfsmenn í leik- og grunnskólum á svæðinu sóttu síðasta mánudag.  Slík samvinna og samstarf er einmitt það sem við vildum stuðla að með aukinni samvinnu sveitarfélaganna á þessu sviði.

Eftir hádegi átti ég góðan fund með Þórhalli Einissyni sem er formaður fræðslunefndar og einnig fulltrúi Hvergerðinga í skólaþjónustu og velferðarnefnd Árnesþings.  Við fórum yfir ýmis mál sem lúta að fræðslustarfi í sveitarfélaginu og þau mál sem fræðslunefnd á að sinna.   Við ræddum auðvitað líka fund Illuga Gunnarssonar, mennta og menningarmálaráðherra sem haldinn var í gær.  Illugi kynnti þar Hvítbókina sína um menntamál og gerði það feiknavel.  Hann leggur þar fram skýr, einföld markmið sem auðvelt er að fylkja sér um.  Heilmiklar umræður sköpuðust á fundinum og ég var mjög ánægð með það hversu vel og af mikilli þekkingu Illugi ræddi málin.

Síðdegis í dag tók ég á móti skemmtilegum hópi útskriftarárgans 1953 frá Verslunarskólanum.  Keyrði með þeim í rútu um Hveragerði og sagði þeim sögur af fólki, húsum og stöðum.  Það er heilmikið um að ég sé að taka á móti hópum hér og til dæmis verður önnur ferð mun lengri næstkomandi þriðjudag með hóp Norðmanna um bæinn. 

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet