4. september 2014
Ég var rækilega minnt á það í morgun að nú væri tímabært að ljúka blogg fríinu. Hef því ákveðið að hlýða þessum tilmælum. Þarf hugsanlega aðlögun og því verða færslurnar stuttar til að byrja með.
En í dag hittist NOS, nefnd oddvita og sveitarstjóra í Árnessýslu utan Árborgar. Þetta er afskaplega góður hópur sem ég finn að mun vinna vel saman, rétt eins og fyrri nefnd. Ég nýt þeirra forréttinda að vera formaður og líkar það ágætlega. NOS er yfirstjórn skóla- og velferðarþjónustunnar sem þessi sveitarfélög hafa valið að reka í sameiningu. Mér finnst vel hafa tekist til með þessa samvinnu og starfsemin fer afskapega vel af stað. Starfsmenn okkar er framúrskarandi og ég var til dæmis afar ánægð með stóra námskeiðið/málþingið sem allir starfsmenn í leik- og grunnskólum á svæðinu sóttu síðasta mánudag. Slík samvinna og samstarf er einmitt það sem við vildum stuðla að með aukinni samvinnu sveitarfélaganna á þessu sviði.
Eftir hádegi átti ég góðan fund með Þórhalli Einissyni sem er formaður fræðslunefndar og einnig fulltrúi Hvergerðinga í skólaþjónustu og velferðarnefnd Árnesþings. Við fórum yfir ýmis mál sem lúta að fræðslustarfi í sveitarfélaginu og þau mál sem fræðslunefnd á að sinna. Við ræddum auðvitað líka fund Illuga Gunnarssonar, mennta og menningarmálaráðherra sem haldinn var í gær. Illugi kynnti þar Hvítbókina sína um menntamál og gerði það feiknavel. Hann leggur þar fram skýr, einföld markmið sem auðvelt er að fylkja sér um. Heilmiklar umræður sköpuðust á fundinum og ég var mjög ánægð með það hversu vel og af mikilli þekkingu Illugi ræddi málin.
Síðdegis í dag tók ég á móti skemmtilegum hópi útskriftarárgans 1953 frá Verslunarskólanum. Keyrði með þeim í rútu um Hveragerði og sagði þeim sögur af fólki, húsum og stöðum. Það er heilmikið um að ég sé að taka á móti hópum hér og til dæmis verður önnur ferð mun lengri næstkomandi þriðjudag með hóp Norðmanna um bæinn.
Comments:
Skrifa ummæli