17. september 2014
Námskeið um leiðtogafærni og markþjálfun í dag á vegum Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Ég er alltaf að sannfærast um það betur og betur hversu stórt og gott skref var stigið með samstarfi sveitarfélaganna í Árnessýslu utan Árborgar á þessu sviði. Það tókst alveg einstaklega vel til þegar starfsmenn voru ráðnir að þjónustunni og þeir drífa nú starfsemina áfram af miklum krafti, hugmyndaauðgi og framsýni. Allir skólastjórnendur leik og grunnskóla á svæðinu ásamt sveitarstjórum og skrifstofustjórum sitja nú saman þetta námskeið sem í allt munu verða fjórir dagar á jafnmörgum mánuðum. Hópurinn hristist vel saman og það er heilmikið spjallað og margt sem við lærum, og þá ekki hvað síst af hvert öðru. Þær eiga heiður skilinn þær Hrafnhildur og Ólína fyrir þetta.
Um 40 manna hópur erlendra höfunda ferðagreina heimsótti Laugaskarð í dag eftir göngu niður Reykjadalinn. Veðrið hefði að ósekju mátt vera betra en ég trúi ekki öðru en að bað í Laugaskarði muni skilja eftir góðar minningar sem kannski munu rata á síður ferðahandbóka og blaða á næstu misserum.
Comments:
Skrifa ummæli