<$BlogRSDUrl$>

14. júní 2013

Slóvenía - Króatía - Bosnía - 15 

Sarajevo flugvöllur er svo  litill að hann minnir einna helst á Akureyri (sem er reyndar heldur myndarlegri völlur en Reykjavík).  Óskaplega þægilegur.  Þar skemmti ég mér við að eyða síðustu mörkunum í minni eigu.  Það var alveg hægt.  Flugum til Osló með  Norwegian.  Glæsileg flugvél, glæný og flugfreyjurnar að rifna úr stolti.  Máttu líka vera ánægðar.  Hægt að krossleggja fætur í almennu farrými og afar hátt til lofts.  Reyndar greinilegt að við vorum komin í ríki Norðmanna, verð veitinga var í samræmi við það.  

Það er eins gott að íbúar Noregs hafi þokkaleg laun.  Ákváðum að bregða okkur í tvo tíma niður í Oslo af því það var þokkalega langt á milli fluga.  Miðarnir fram og til baka með lestinni kostuðu um 15.000 fyrir okkur tv-Lestarferðin tók 20 mínútur.  

Náði að hitta Heidi í tvo tíma á veitingastað nálægt Nationaltheatret.  Ótrúlega skemmtilegt  en við höfum ekki hist í hátt í 20 ár.  Höfum aftur á móti alltaf haldið sambandi, árleg jólabréf, löng, sjá um það.   Það var eins og við hefðum hist í gær.  Alveg eins og á vistinni á Follo þegar við möluðum timunum saman.  Ég var nú ekkert að minna hana á þegar ég "lánaði" vinkonu okkar bévítans Lionel Richie diskinn hennar sem var að gera mig sturlaða.  Við ræddum heldur ekki endalaus slagsmál okkar um hitastigið í herberginu, en á þeim tíma vildi ég alltaf helst hafa notalegt tjaldhitastig þar sem ég svaf.  Jóhanna Magg  og Heidi hefðu örugglega getað átt góðar stundir við að ræða þetta :)

Á meðan að við Heidi spjölluðum saman þá fór Lárus og heimsótti gamla vinnustaðinn sinn SAS hótelið en þar vann hann 1982-1984.  Þar er allt gjörbreytt - eðlilega. 

Það var gaman að rölta einu sinni enn upp og niður Karl Jóhann, aðeins annar bragur á borginni en þegar við Lárus fórum þar  oftast um - hvort í sínu lagi ! ! !

Í Osló er örugglega ekki betra veður en heima, úði og 13 stiga hiti.   Napurlegt eftir Balkanskagann.12. júní 2013

Slóvenía - Króatía - Bosnía - 14 

Síðasti dagurinn - heim á morgun. 

Fórum í langa göngu í morgun.  Skoðuðum City hall sem er ein mest áberandi bygging Sarajevo. Hún er undir miklum tyrknesum áhrifum eins og svo margt annað hér í borg.  Þetta er afskaplega falleg bygging en hún hefur verið lokuð í tæp 17 ár eða allt frá því að Serbar sprengdu hana í tætlur í ágúst 1996.  Þar glataðist ómetanlegt bóka og handritasafn en um 90% þess eyðilagðist í árásunum sem höfðu engan annan tilgang en þann að eyðileggja þjóðargersemar Bosníumanna. 
Evrópusambandið styrkir endurbygginguna eins og svo margt annað hér.  Sáum líka risastóra mosku í byggingu en þar hafði Gaddafi lofað að kosta bygginguna en allir vita nú hvað varð um hann.  Á meðan stendur þessi stóra moska hér hálfkláruð.  Skýringin á öllum þessum fjölda af moskum er víst sú að um hverja mosku eru 45 "stór" fjölskyldur.  Ekki pláss fyrir fleiri á bænagólfinu - og þá verður að byggja nýja. 

Kíktum á Ashkenazy synagóguna  sem er afar falleg og gömul eins og allt annað hér í borg.  Merkilegt að þurfa að ganga upp fullt af stigum til að komast inní helgidóminn!  Við erum  orðin alveg ótrúlega þreytt á þessu endalausa príli. Spurning um að Evrópusambandi sponsi nokkrar lyftur !

Enduðum gönguna í BBI sem er stærsta verslunarmiðstöðin í borginni.  Alltaf gaman en við ákváðum að hafa lítinn farangur svo það takmarkar örlítið verslunargleðina...

Síðdegis höfðum við mælt okkur mót við Tamöru sem var túlkurinn minn hér í borg í kosningaeftirlitinu.  Það var virkilega gaman að hitta hana og hún þræddi alls konar götur og húsasund til að sýna okkur allt sem best.  Það er auðvitað afar gaman að geta farið um með heimamanni sem allt veit.  Við gengum hér uppí Hvíta virkið sem er hér ofan við borgina.  Enn og aftur upp endalausar brekkur! ! En þetta var mikil upplifun.  Útsýnið stórfenglegt yfir alla borgina.  Komum við í kirkjugarði á leðinni sem er algjörlega fullur af legstæðurm ungra manna og kvenna sem létust 1992 og 1993.  Þar er einnig gröf Alija Izatbegovic forseta Bosníu Herzegovinu.  Gröfin var vöktuð af hermanni en var samt látlaus á þeirra mælikvarða skilst mér.  Fjöldi fólks yfirgaf borgina í upphafi stríðsins og ég spurði hvers vegna allir hefðu einfaldlega ekki farið fyrst þeir gátu það?  Spurningin var víst fullkomlega fáránleg. Eiginmaður Tamöru varð til dæmis eftir til að verja borgina, ef allir hefðu farið þá væri borgin í Serbíu nú.  Ég gerði mér alltí einu grein fyrir því að þjóðernisást af þessari stærðargráðu er eitthvað sem við þekkjum ekki.  Enda hefur engum svo sem langað til að hirða af okkur landið.  Við myndum kannski líka berjast til síðasta blóðdropa ef einhverjum dytti slíkt til hugar.  Reyndar held ég að engum dytti það til hugar miðað við veðurlýsingar undanfarinna daga á facebook   ;-) 

En dagurinn var afar góður með Tamöru við fórum bæði út að borða hið dæmigerða cevapcici og líka á týpiskt kaffihús þar sem Lárus prófaði Bosníu kaffi.  Leit fagmannlega út við þá iðju. 

Fórum líka um nýustu hverfin með leigubíl af því hún vildi ekki að við sæjum eingöngu gömul og niðurnýdd hverfi.  

Í kvöld var endurraðað í töskur skroppið út í bjór og pizzu og aðeins rölt um basarinn.  Á morgun förum við heim en millilendum í Osló. Þar er þónokkur bið og því hef ég mælt mér mót við hana Heidi, vinkonu mína úr skólanum úti, ætlum semsagt á rölt um Karl Jóhann. Eins gott að ekkert klikki með flugið :-)
Lárus við City hall.  Flott bygging ..

Á Latin bridge en þar var Franz Ferdinand  erkihertogi Austurríka- Ungverska keisaraveldisins myrtur ásamt konu sinni Sophiu.  Í kjölfarið braust út fyrri heimstyrjöldin.

Lalli flottur til höfuðsins í Ashkenasy synagogunni.

Hér er gríðarmikið af betlurum, mikið af því rómafólk.  Þennan sáum við marg vaða með hendina í eldinn til að næla sér í smápeninga sem ferðamenn höfðu kastað í eldinn. Neyðin er mikil og víða !  

En þetta er "the etarnal flame"  Hefur logað óslitið frá lokum seinni heimstyrjaldar. 
--------------
Hér er reyndar líka ótrúlega mikið af villihundum og þeir fá að vera í friði.  Yfirvöld ná þeim stundum en í stað þess að lóga þeim eru þeir merktir, bólusettir, hreinsaðir og geltir og síðan sleppt,  Maður þekkir þá sem hafa fengið þessa meðhöndluð á merkingunni.  Síðan sitja þeir um mann á veitingahúsum og betla mat.  Veit alveg hvað yrði um svona villihunda heima...


Flottur matarmarkaður í glæsilegri byggingu í miðbænum. 


11. júní 2013

Slóvenía - Króatía - Bosnía - 13 

Góður dagur í Sarajevo. Hér er brakandi sólskin og hitinn um 25 stig.  Það kom nú samt dágóð skúr síðdegis en það var bara ágætt.  

Í dag skiptum við liði - Lárus fór í ferð með leiðsögumanni á slóðir umsátursins um Sarajevo 1993- 1996.   Ég var búin að sjá þetta allt áður og tók því fegins hendi að geta ráfað ein um borgina í leit að bestu búðunum :-)

Lárus var uppnuminn eftir ferðina, heimsótti War tunnel en það eru göng sem grafin voru undir flugvöllinn í Sarajevo um miðbik umsátursins.  Það tók rúmlega fjóra mánuði að grafa göngin með handaflinu einu saman.  Göngin voru um 1,60 á hæð en um 800 m. löng.  Ótrúlegt afrek.  Göngin voru lífæð borgarinnar en um þau fóru um 3000 manns á dag og komu færandi hendi til baka með vopn og vistir til þeirra hundruða þúsunda sem hér voru innilokaðar. Hópurinn fór einnig uppá hæðirnar hér í kring og sá þar  helstu skotmörk og leyniskyttustaðsetningar og fleira.  Þeir sem þekkja minn betri helming vita að þessi ferð hefur verið mikil upplifun :-)

Síðdegis fórum við á sýningu um umsátrið - hryllingurinn er algjör og á sýningunni kemur berlega í ljós reiðin útí Serbana og út í það ástand sem Dayton samkomulagið hefur skapað hér í Bosníu. Hér segja allir að ástandið sé óþolandi.  Þeir komist aldrei í Evrópusambandið, sem virðist vera fyrirheitna landið hjá öllum, af því hér sé svo margt í ólagi.  Til dæmis voru hér mikil mótmæli í dag þar sem ríkisstjórnin hefur ekki gefið út kennitölur fyrir nýfædd börn frá því í febrúar.  Það leiðir meðal annars af sér að þau geta til dæmis ekki  fengið vegabréf.  Það er heldur ekki mikil ánægja með þá staðreynd að þjóðarstoltið "National museum" hefur verið lokað frá því síðasta haust vegna fjárskorts.

Ég kíkti í einsemd minni  á safn sem heitir Despic house.  Það sýnir heimili ríkrar fjölskyldu um aldamótin 1900.  Gaman að sjá hvað það var ríkmannlegt og flott. Það sem vakti mesta athygli mína þar var hreint óborganleg erfðaskrá ættarhöfðingjans þar sem hann gerir stólpagrín að útfararsiðum borgarinnar og harðbannar ættingjum sínum að svoleiðis verði farið með hann.  Gat alveg séð fyrir mér svona plagg í skúffum sumra ættingja minna ónefndra :-)
----------------------
Athyglisvert að segja frá því að risastóru álveri sem staðsett er í Mostar verður væntanlega lokað í næstu viku og þá munu um 1000 manns missa vinnuna.  Þetta er gert vegna þess að ríkisstjórn Bosníu  neitar að gefa þá afslætti af raforku sem álfyrirtækið óskar eftir.  Ætli þeir komi þá til okkar ?
Elska kirsuberin hér - eins og sést kosta þau 4 KM sem eru 2 EUR kílóið...


Baskarsjia markaðurinn er afar skemmtielgur.  Borgaryfirvöld hafa friðað öll húsin á stóru svæði til að tryggja upprunalegt yfirbragð. 


Fórum út að ganga með Ipadinn í kvöld og Lárus tók þessa stórkostlegu mynd af frægasta stað Sarajevo.  Það er mjög stressandi að vera að veifa Ipadnum hér út um allt sem skýrir myndgæðin :-)

10. júní 2013

Slóvenía - Króatía - Bosnía - 12 

Fengum extra góða þjónustu á hótelinu okkar í Mostar og vorum til dæmis eina fólkið sem fékk heimaræktuð kirsuber með morgunmatnum.  Konan sem sá um morgunmatinn er eiginkona bílstjórans okkar góða frá því í gær og þau voru greinilega ánægð með þjórféð.  Við vorum svo ánægð með kirsuberin að hún fékk líka ágætis þjórfé.  Veitir víst ekki af með 200 EUR á mánuði í laun.

Lögðum af stað með yfirfullri rútu frá Mostar til Sarajevo fyrir hádegi. Lenti í svikahrappi sem sá til þess að við urðum að borga miðana tvisvar - stórkostlegt :-(

En leiðin var einstaklega falleg og landslagið stórbrotið eins og reyndar alls staðar. Keyrðum meðal annars í gegnum Jablanica sem varð heimsfræg í stríðinu.  Alls staðar voru götusölumenn meðfram veginum.  Ég var eiginlega hálffegin að vera ekki á bíl, því þá væri allt hér orðið fullt af hunangi, kirsuberjum, ostum og víni.  Get svo illa farið framhjá svona básum :-)  

Komum til Sarajevo um miðjan dag - hótelið er mjög gott, afar miðsvæðis.  Held að þeim í móttökunni hafi fundist við svo íþróttamannsleg að þau treystu okkur í herbergi á fjórðu hæð... 
Hér er engin lyfta :-)  Það er ótrúlegt hvað við erum búin að ganga af tröppum í þessari ferð !

En við byrjuðum á að skoða Basarskija sem er elsti hluti Sarajevo. Þar eru gríðarmiklir markaðir og alls konar spennandi verslanir fyrir nú utan alla veitingastaðina.  Frábær staður.  Fengum okkur Civapi en það þarf maður að gera á hverjum degi.  Kíktum á mosku Gazi Husrey Bey sem er þekktasta moskan í BiH, byggð 1531.  Fórum líka í Emperors moskuna og fengum höfðinglegar móttökur.  Hittum þar fyrir einn Hafiz sem efaðist ekki augnablik um að við viljum snúa til múhameðstrúar.  Hann sýndi okkur allt, söng fyrir okkur úr Kóraninum sem hann kunni utanað og sýndi okkur hvernig maður á að biðjast fyrir.  Ef ég væri múslími þá væri ég klárlega í betra formi, miðað við bænasiðina ! ! !

Fórum eftir þetta á sýningu sem sett var upp til minningar um atburðina í Srebreniska en í júlí 1995 voru drepnir þar rúmlega 8.000 drengir, piltar og karlmenn.  Hryllileg sýning sem sýndi hversu mannskepnan getur verið grimm.  

Borðuðum á frábærum stað sem ég hafði komið á í kosningaeftirlitinu.  To be or not to be heitir hann.  Hittum þar skemmtileg hjón frá Skotlandi sem voru á svipuðu ferðalagi og við.  Eigandi staðarins var líka ansi hress.  Bauð Lárusi í eldhúsið og hló mikið þegar Íslendingurnn komst varla inní eldhúsið.  Hélt svo langa ræðu um hvernig hann hefði misst helling af kílóum nýlega, væntanlega til að komast fyrir í eldhúsinu.  Eftirminnileg setning:  maður verður feitur í framan af rauðvíni - feitur á maganum af bjór  :-)
Göt eftir byssukúlur eru á mörgum húsum í Mostar. 


Leiðin milli Mostar og Sarajevo er afar falleg. 


Útsýnið af fjórðu hæðinni í Sarajevo.


Kókið er alls staðar en Pepsi höfum við hvergi séð í neinu landi...Slóvenía -Króatía - Bosnía - 11 

Lögðum af stað í bítið  með rútu  til Mostar.  Svo til eingöngu heimamenn  í rútunni enda ferðalangar flestir sofandi á þessum tíma eða að týnast heim af djamminu,  mættum slatta af þeim þegar við röltum á rútustöðina.  Rétt fyrir kl. 6 í morgun var hitinn um 20 stig. 

Þetta er óskaplega falleg leið og gaman að sjá hversu fjölbreytt landslagið er.  Vegurinn lá meðfram Adríahafinu enn og aftur "The Adriatic highway".  En núna var hann heldur glannalegri enda er svo til ekkert undirlendi hér við ströndina.  Það var afar stressandi þegar rútan klauf hlíðarnar og fleiri hundruð metrar voru þverhnípt ofaní sjó.  Þetta er heldur óþægilegra heldur en að vera á einkabíl, hér er maður svo miklu hærra uppi.  Stjórnsemina er líka nauðsynlegt að hemja í rútu þar sem það er frekar hallærislegt að fara að skipta sér af glannalegum akstri bílstjórans, þó það væri nú ekki vanþörf á...

Evrópusambandið kemur sterkt inn hér í Króatíu rétt eins og í Slóveníu og hér eru stórkarlalegar vegaframkvæmdir víða.  Gríðarlegar brýr til þess eins að losna við dældir í landslaginu og annað í þeim dúr skera í augu. Set inn eina mynd af einni þeirra.  

Sífellt hitnaði þegar innar dró í landið og þegar við komum til Mostar var hitinn orðinn 32  gráður í forsælu.  Stranddagarnir í Split hafa sett mark sitt á hörundslitinn og því var engan veginn óhætt að fækka mikið fötum hér.  Vorum að kafna úr hita í mollunni sem hér var í dag. 

Byrjuðum á að að skoða frægustu brú Balkanskagans "The old bridge".  Gríðarlega falleg og mikilfengleg.  Hún var upphaflega byggð á tímum Ottoman veldisins eins og svo margt annað hér en 1993 var hún sprengd í tætlur af Króötum.  Eftir stríð tók alþjóðasamfélagið sig saman um að endurbyggja brúna sem tákn um sáttina í samfélaginu.   Það er sérstakt að ganga hér um götur og vita og sjá víða hvernig stríðið fyrir einungis 20 árum lék þetta svæði.   Kirkjugarðarnir hér eru margir hverjir inní miðjum bæ og þar er gríðarlegur fjöldi fólks grafinn sem lést 1993 en þá hófst stríð Króata gegn Mostar og svæðinu hér í kring.

Skoðuðum líka tyrknest heimili og klifum einn turninn við mosku hér í bæ.  ÞAÐ verður ekki endurtekið.  Örmjór steinstigi uppí hæstu hæðir - ekki séns að mæta fólki á leiðinni og hrikalega langt upp...  Útsýnið alveg þess virði en svalirnar svo mjóar að manni fannst maður vera að hrynja niður við hvert skref.  Hrikalega glæfralegt.

Síðdegis fengum við okkur leigubíl og afar skemmtilegan leiðsögumann sem keyrði með okkur í bæina hér í kring.  Heimsóttum smábæinn Pocitelj þar sem er moska, turn og virkisveggur í afar fallegum miðaldabæ.  Klifum þetta allt saman þrátt fyrir  stirðleika eftir átökin við mosku turninn.  Þaðan fórum við til Blahinj en þar á áin Buna upptök sín.  Þetta er stærsta uppspretta í Evrópu og þvílík uppspretta.  Undan gríðarháu fjallinu streymir út um helli svo mikið vatn að ég hef aldrei séð annað eins.  Allar uppsprettur heima blikna í þessum samanburði. Þarna var líka óvenjumikið vatn í ánni og útiveitingastaðirnir að nokkru leyti á kafi vegna þessa.  Á leiðinni rákust við á stærðarinnar slöngu á veginum.  Það minnti mig enn og aftur á það hvers vegna maður fer ekki útí skóg hér...  Bæði eru enn fjölmargar jarðsprengjur ósprungar víða og svo eru allt krökkt hér af þessum kvikindum....

Dagurinn með okkar fína leiðsögumanni tók á heilasellurnar  enda talaði hann ekki ensku heldur þýsku.  Það þýddi að ég þurfti að spjalla við manninn hálfan dag á þýsku. Alltaf að fara útfyrir þægindarammann  :-)   Gekk reyndar alveg ótrúlega vel - 

Í Mostar er einstaklega skemmtilegur basar í gamla bænum.  Markaður þar sem reynt er að selja manni allt milli himins og jarðar.  Virkilega skemmtilegur bær en hér nægir alveg einn dagur til að sjá þetta allt saman.  

Hér er búinn að vera 32 stiga hiti í allan dag og brakandi sól.  Aðeins og mikið fyrir okkur Frón búana.  En hittum hér hjón frá Saudi Arabíu sem fannst þetta nú ekki neitt þar fer hitinn í um 50 gráður á sumrin.    Hér verður reynar líka gríðarlega heitt á sumrin fer oft yfir 40 gráður svo við erum á góðum tíma. 

Á morgun tökum við rútu til Sarajevo...

Útsýnið úr minorettunni..


Gamla brúin í Mostar - þarna stóður ungir strákur og buðu dýfingar fyrir 25 EUR.   Þetta eru um 23 metrar niður. 


Cevapi er hreint ómissandi hér í Bosníu.  Frábærlega gott!  


Á veitinastað við gömlu brúna. 


Vegurinn mann lifandi að drepa við Adríahafið.


Sniðugt hjá þeim að nenna ekki að keyra ofan í þessa dæld....

8. júní 2013

Slóvenía - Króatía - Bosnía - 10 

Brakandi blíða í allan dag.   Hitinn slagaði í 30 stig og ekki skýhnoðri fyrir sólu.  Það er nú samt alltaf jafn sérstakt að horfa til Dalmatíufjallanna sem yfirleitt eru þakin skýjum hér í næsta nágrenni.  Byrjuðum daginn á aðalströndinni í Split og þar var legið í ansi langan tíma.  Þarna er hreint meiriháttar að liggja og fylgjast með mannlífinu sem er ansi skrautlegt.  Strandljónin í essinu sínu og maður gæti haldið að þeir væru í fullri vinnu við boltaleiki í sjónum.  Allavega var endalaust verið að...  

Hér er ógrynni af ferðamönnum, afar mikið af ungu fólki enda er þetta líflegur staður.    Á kvöldin eru hér diskótek á hverju strái og gríðarlegt fjör í bænum.  "Backpackers haven"  sagði einhver...  Hér er líka hellingur af eldra fólki  sem margt er í siglingum hér um Adríahafið.  Kíktum á svoleiðis snekkjur í kvöld og fengum flott tilboð um siglingu.  Spurning um að nota það á næsta ári :-)

Gríðarlegur viðbúnaður lögreglu og hersins var hér í dag og við skyldum ekki upp né niður í því hvað var um að vera.  Sáum svo í fréttunum í kvöld að hér var ganga samkynhneigðra.  Mikið megum við vera þakklát fyrir stöðu mannréttinda heima.

Nú þarf að rífa sig snemma á fætur i fyrramálið þvi rútan til Mostar í Bosníu fer kl. 6.  Ætlum að vera komin þangað snemma og eiga daginn í Mostar.   Þar ætlum við síðan að reyna að leigja bíl áfram til Sarajevo daginn eftir.

Spennandi dagar framundan en Split er klárlega vel þess virði að heimsækja síðar  ;-)

7. júní 2013

Slóvnía - Króatía - Bosnía - 9 

Fórum frá Trogir - skiluðum bílnum á flugvellinum og tókum flugrútuna inn til Split.  Á leiðinni sáum við ógrynni af gróðurhúsum sem flest litu út fyrir að vera tóm.  Hvað ætli maður rækti í gróðurhúsi hér á þessum slóðum.  Get ekki betur séð en allt sem nöfnum tjáir að nefna vaxi hér utandyra ?

En þegar við komum til Split tók við leit að hótelherberginu sem við höfðum pantað á netinu í gærkvöldi.  Ætluðum aldrei að finna þetta, lentum í óprúttnum leiðindapúkum sem buðust til að hjálpa okkur, hringdu fyrir okkur eitt símtal og vildu svo heilan haug af "kúnum" fyrir "aðstoðina".  Hjálpsemi fellur ekki nálægt þessari framkomu enda fékk þessi náungi engar "kúnur"...

En fundum loksins herbergið sem er í húsi á besta stað í bænum.  Rétt við Diocletian höllina og gamla bæinn.  Frábær aðstaða - en nú erum við farin að spandera í hótelherbergi - 
orðin leið á  óvissunni  :-)

En héðan er nákvæmlega 8 mínútna gangur á aðal strönd bæjarins og þangað var skundað um leið og við höfðum komið okkur fyrir.  Hér er annað okkar í örvæntingu að reyna að ná einhverjum lit á meðan að hitt spókar sig um kaffibrúnt og ber ekki á sig örðu af sólkremi.  Gæðunum er misskipt í þessu lífi, það er víst ábyggilegt.  

En eftir að hafa legið og lesið í á annan tíma fór ég í sjóinn sem er afar notalegur hér.  Um leið og þangað kom leit ég yfir fjöllin í kring og þar blasti við þessi ógurlegi skýjabakki...  Leið ekki á löngu þar til hann byrgði sólu og þá var ekki annað að gera en að taka saman og það hratt.  Við vorum ekki ein um það því það brast á flótti í liðið á ógnarhraða.  Skýjabakkinn nálgaðist með ógnarhraða með tilheyrandi eldingum og þrumum.  Við rétt náðum heim áður en fyrstu droparnir féllu og við tók því líkt steypiregn og rok.  Hér var þrumuveður af bestu gerð í um klukkustund og göturnar breyttust í ólgandi vatnsflaum.  Kirkjuklukkurnar hringdu án afláts svo greinilegt var að mikið gekk á.  Haglið var algjörlega óeðlilega stórvaxið og vatnselgurinn var gríðarlegur.  Það var reyndar frekar notalegt að vera inni og fylgjast með útum gluggana.

En það stytti nú upp eins og alltaf gerir og þá fórum við að skoða gömlu borgina. Split er afar skemmtileg borg, sú líflegasta sem við höfum komið til enda ein sú stærsta.  Hér úir og grúir af túristum sem greinilega skemmta sér vel og markaðirnir eru engu líkir.  Flestir ferðamenn eru komnir til að fara út á eyjarnar hér fyrir utan, Brac og Hvar,  en við ætlum að láta þær eiga sig í bili enda nýkomin af öðrum eyjum.   Lavender er hér útum allt og erfitt að láta vera að versla smávegis af honum.  Þess vegna angar allt hjá okkur núna af þessari yndislegu jurt.  

Það var mögnuð upplifun að sitja á marmaratröppunum frægu í  1700 ára gamalli höllinni í náttmyrkrinu og hlusta á músík ásamt hundruðum annarra í kvöldblíðunni.   Hittum þarna afar líflega og skemmtilega Norðmenn sem við  spjölluðum við í allt kvöld.  Virkilega góður dagur og já,  Split er nýja uppáhaldsborgin mín :-)Gríðarlegt þrumuveður gekk hér yfir í dag og því fylgdi þetta myndarlega hagl.


Verð að sýna ykkur þessa vflottu almúa sem hér vaxa meðfram öllum vegum. 


Ein aðal ströndin í Split er hér rétt hjá.  Þar var brakandi blíða og notalegt þar til skýjabólstrarnir í fjarska ærðust alveg...  

Einhverjir (lesist: Sigrún Kr. )  hafa verið að vorkenna Lárusi að vera með mér á ferðalagi og að hann fái hvorki að borða né að liggja í sólbaði í friði...  Vek athygli á þeirri staðreynd að betri helmingurinn entist ekki í 20 mínútur á bekknum í dag, fór þá á vit ævintýra.  Þetta með matinn gæti aftur á móti verið rétt, en við höfum heldur ekki gott af öllu þessu áti :-)

6. júní 2013

Slóvenía - Króatía - Bosnía - 8 

Fórum frá Cres í morgun  en hefðum alveg viljað vera lengur.  Strendurnar þarna eru yndislegar og rólegheitin mikil.  Náðum ferju fyrir hádegi yfir á eyjuna Krk og keyrðum svo þaðan meðfram Adríahafinu og í suður, The Adriatic highway eins og þessi leið er svo virðulega kölluð.  Mikill misskilningur að þetta sé "highway" enda meðalhraðinn þarna um 40 !  Endalausar vegaframkvæmdir og smábæjir sem þurfti að þræða sig í gegnum.  Ég vildi aftur á móti endilega fara í elsta og stærsta þjóðgarð þeirra Króata Plitvici sem er þónokkuð úr leið.  Betri helmingurinn var hinn fúlasti, var við það að neita, sagðist sko ekki ætla útúr bílnum, það yrði örugglega rigning og hvað við værum eiginlega að þvælast þetta lengst útí r....

En með eymdarsvip tókst mér að fá hann til að keyra uppeftir sem reyndist svo ekki alveg jafn mikið úr leið og við héldum í fyrstu.

En hver kílómetri var þess virði því Plitvici er algjörlega stórkostlegt náttúruundur.  Þetta er um 300 ha skógi vaxið svæði þar sem fjölmörg vötn falla hvert ofan í annað í hallanum sem þarna er.   Fossar af öllum stærðum og gerðum, uppsprettur og tærblá stöðuvötn hvert sem augað leit.  Algjörlega stórkostleg náttúruupplifun.  Meira að segja Lárus varð að viðurkenna það.  Þarna fórum við í "lest" þónokkuð inní þjóðgarðinn og svo var gengið til baka í eina 2 tíma.  Verst var að betri helmingurinn var bæði svangur og þyrstur svo síðustu kílómetrarnir fóru held ég mest í að hugsa um mat  :-)

Gengin uppað hnjám enn eina ferðina var brunað af stað til Split um kl. 18:30.  Þá tæplega 300 km stendur til að keyra í kvöld og gjarnan ná í náttstað einhvers staðar í björtu.  Heldur betra þegar við eigum eftir að finna hótel....
-------------
Komin til Trogir og náðum á meðan enn var ratljóst enda leyfilegur hámarkshraði á þessari hraðbraut 130 km.  Keyrðum beint inní miðbæ og hittum þar konu sem aðstoðaði okkur við að finna herbergi sem reyndist reyndar vera íbúð!   Hér er langsniðugast að panta ekki neitt heldur ramba bara á lausa gistingu.  Nóg er allavega framboðið á hverjum einasta stað hérna. 

Myndir koma ekki á bloggið nema að ég hafi tekið þær beint á Ipadinn, því nenni ég ekki nema í algjörum undantekningatilvikum og þess vegna til dæmis er bara þessi eina mynd í dag tekin útum gluggann uppí óbyggðum Króatíu...5. júní 2013

Slóvenía - Króatía - Bosnía - 7 

Algjör letidagur í bongóblíðu.  Hér er brakandi sól og þægilegur hiti.  Leigðum okkur hjól í morgun og hjóluðum út með allri strandlengjunni.  Þar fundum við ansi góðan stað þar sem við bökuðum okkur í sólinni.  Ætlaði í sjóinn en þegar ég sá öll ígulkerin á botninum hætti ég snarlega við.  Er ekki búin að gleyma því þegar að Bjarni Rúnar steig á ígulker í Svarfjallalandi hér um árið.  Það var þvílíkt vesen...

En hér er ógrynni af þýskum túristum og nokkrir Ítalir en það er greinilegt að ferðamannatíminn fer hér hægt af stað.  Þeir kvarta heil ósköp yfir því, heimamenn, að veðrið hafi verið svo vont og að allir séu svo blankir og þess vegna séu ferðamenn svona fáir.  Við erum heppin bæta þeir við að vera hér akkúrat þegar veðrið batnaði.  En við heima á Fróni erum alltaf að kvarta yfir stuttum ferðamannatíma!  Hér er hann eiginlega ekki mikið meira en 2 mánuðir, júli og ágúst.  Merkilegt að halda úti heilu veitingahúsunum og ísbúðunum fyrir svona stutta tíma.  

En eins og ég sagði þá eru hér Þjóðverjar úti um allt.  Þegar við hjóluðum út með ströndinni í morgun lá stígurinn í gegnum FKK svæði sem var alveg kjaftfullt af fólki.  FKK stendur fyrir freie körper kultur. Nektarnýlendur hét þetta víst einu sinni.  En þetta var ansi mikið öðruvísi en maður á að venjast úr sundlaugunum heima :-)  Vorum að hugsa um að stoppa en sáum svo ekki alveg tilganginn :-)

Síðdegis fórum við á rúntinn og heimsóttum aðra strönd í smábænum Valun þar sem voru engin ígulker.  Þar komst ég í sjóinn og synti slatta þar til fiskarnir fóru að synda utan í mig, Það þoli ég jafn illa og kóngulær !

Eftir allt þetta sólskin var ósköp notalegt að keyra uppí fjöllin og heimsækja miðaldabæinn Lubcinj.  Útsýnið þaðan var stórkostlegt og þar sá maður strendur sem eru ótrúlega flottar.  Alveg lokaðar og þessi tærblái sjór allt um kring.  

Hér ilmar allt af jasmínum sem standa í blóma og lavender er úti um allt.  Gamlar konur sitja í hverju dyragati og selja ólífuolíu og vilja að maður smakki afurðina úr glasi ! ! !

Fórum á veitingastað í kvöld, Bukaleti, sem er hér aðeins fyrir utan. Helga Kristjáns hafði verið hér í vetur og mælti með þessum stað.  Var líka virkilega huggulegur þó að lambakjötið hér sé eiginlega alveg eins og heima ;-)

4. júní 2013

Slóvenía - Króatía - Bosnía - 6 

Vöknuðum í orðsins fyllstu fyrir allar aldir en við vorum komin út af hótelinu rétt uppúr kl. 6.  Tókum strætó yfir til Trieste á Ítalíu þar sem engar ferðir eru frá Sóveníu til Króatíu en þangað var ferðinni heitið.
Á leiðinni yfir landamærin keyrðum við framhjá hafnarsvæðinu í Koper sem er ein stærsta höfnin hér á svæðinu og þar sáum við marga marga hektara af nýinnfluttum bílum.  Þar sáum við líka feiknin öll af byggingakrönum og allt í einu fannst manni tíminn hafa færst til baka til ársins 2007 og við værum stödd heima.  

En Slóvenía er á margan hátt sérstakt land.  Þar ríkir gríðarleg velsæld alla vega á yfirborðinu.  Hér eru engir gamlir og ljótir bílar. Heimislisbílarnir á Heiðmörkinni væru fyrir löngu komnir í pressuna í þessu landi.  Við höfum aldrei nokkurn tíma séð svona snyrtilegt og hreint og fallegt land. Þetta virkar hreinlega óraunverulegt. Öll blómabeð eru stílhrein og vel hirt.  Öll tré klippt. Blómagrindur í kringum gáma í hverfunum og fleira slíkt.   Ruslafötur eru til dæmis alltaf í sjónmáli.  Við gerðum tilraunir og það er þannig að þú sérð alltaf ruslafötu alveg sama hvernig þú snýrð.  Þess vegna sjálfsagt er ekkert rusl neins staðar.  Fólkið er líka svo ótrúlega agað, tillitsamt og kurteist, að það er engu lagi líkt.  Jafnvel þar sem stórir hópar voru af unglingum heyrðist ekki í þeim.  

Um leið og við komum yfir til landamærin til Ítalíu var einhvern veginn allt umhverfið með öðrum brag. Meiri læti, sóðaskapur og druslugangur.  Dapurlegt en þannig er það.  Í Króatíu er sama sagan, rútustöðin í Rijeka var á kafi í sígarettustubbum og öðru ógeði, strætóinn kom hálftíma of seint og öllum var sama.   En sem sagt við þvældumst hér um í strætisvögnum bíðandi á rútustöðvum bæði á Ítalíu og í Króatíu áður en við komust  á flugvöllinn á eyjunni Krk þar sem við höfðum pantað bíl.  Road trip með strætó er ótrúlega tímafrekt og lýjandi svo nú er það bílaleigubíll til Split. 
VIð millilendum þó á eyjunni Cres sem við komum til í dag með ferju.  Mjög falleg eyja, hér er ólífuræktun mikil og ólífulundir í öllum hlíðum.  Við erum á mjög flottu gistiheimili í þröngri götu en hér eru húsin öll meira og minna samvaxin.  Þetta er eins og gott völundarhús þetta hverfi, enda eins gott að taka ekki ranga beygju.

Hér er enn sól og hiti svo góða veðrið var óspart nýtt til útivistar. Einn dagur til viðbótar hér áður en haldið verður áfram...


Hafnasvæðið á Cres - en þar eru veitingastaðir í hverju húsi. 


Göturnar eru þröngar en fallegar.


Þetta eru gluggarnir á móti okkar - mér fundust þeir svo flottir :-)

Slóvenía, Króatía - Bosnía - 5 

Hótel Marina í Izola  verður vafalaust flottasta hótelið sem við munum gista á í þessari ferð svo það er eins gott að njóta þess.  En í dag við þurftum að skila bílnum fyrir kl. 11 og brunuðum því til Portoroz sem er hér rétt hjá.  Það var bær sem kom mér á óvart.  Hef auðvitað heyrt um Portoroz enda vinsæll sumarleyfis staður landans fyrir 30 árum og rúmlega það.   Ef ég ætlaði í sumarfrí til að liggja á strönd þá kæmi sá bær sterklega til greina.  Mjög flott og snyrtileg sandströnd.  Fullt af bekkjum og sólhlífum og baðbryggjum, strandbörum og öllu því sem þar.  Fyrir nú utan það hversu fallegur bærinn er og snýr svo skemmtilega beint í suður við flóann.  Eftir að hafa kíkt á sjóinn og legið í sólbaði og dáðst að staðnum gengum við yfir til Piran sem eru um 5 - 6 km km.  Þetta varð yndislegt rölt  með ísstoppi og bjórstoppi í brennandi sólskini.  Virkilega falleg gönguleið sem var vel þess virði.  Piran er líka mjög fallegur bær sem við skoðuðum hátt og lágt.  Fórum í kirkju sem þarna er en nenntum alls ekki upp í turninn.  Nóg var nú samt.  Tókum síðan strætó heim til Izola.  Þar var pallurinn nýttur í síðdegissólbað áður en við prufukeyrðum strödina sem hér er.  pallinum okkar.  Hún var ágæt en kemst ekki í hálfkvist við Portoroz.  
Fórum út að borða á ansi góðum stað á leiðinni heim lentum við óvart í útibíói sem var ágætis upplifun í þær 5 mínútur sem við nenntum að horfa á ítalska bíómynd með slóvenskum texta.  
En Izola er ótrúlega huggulegur bær.  Afar þröngar og kræklóttar götur, litlar búðir og kaffihús og vínbarir út um allt. Svo maður gleymi nú ekki ís og dessertabúðunum sem eru á hverju horni. 
Hér er skafheiður himinn og sól og hitinn nálgast  25-28" yfir hádaginn.  Það er ansi notalegt. 
Það mun reyndar ekki sjást að ég hafi verið í sól,  sólkremin ómissandi sjá um það,  bæði 50 og 30 gera að verkum að engir geislar ná í gegn.  í andlitið fyrst nr. 50 og svo nr 30 voru að.  Eitthvað hef ég brunnið á blettum sem urðu útundan með sólkrem.    Lárus aftur á móti er að verða svartur eftir einn dag í sólinni.  Þessu er svo hróplega misskipt...

2. júní 2013

Slóvenía - Króatía - Bosnía - 4 

Idrija kom á óvart. Slepptum reyndar kvikasilfursnámunni sem var reyndar undir gistiheimilinu sem við bjuggum í en fórum í staðinn í kastala bæjarins og röltum þar um. Þar var safn tileinkað námunni sem dugði okkur alveg og
hreint ótrúlega flott sýning tileinkuð knipplingum sem bærinn er frægur fyrir. Þarna er haldin hátíð á hverju ári sem hannyrðakonur alls staðar að úr heiminum sækja. Merkilegt !
Lentum í villu í dag á leiðinni frá Idrija sem var reyndar heilmikið ævintýri eins og sést á myndinni. Fórum sem sagt uppá eitthvað fjall eftir afar bröttuð og kræklóttum vegi. Hittum konu á leiðinni sem sagði okkur að við værum að villast sem var reyndar þá orðið nokkuð augljós. Hún sagði okkur að það væri "bear at the top" og þess vegna vildi Lalli auðvitað halda áfram - sleipur í enskunni eins og alltaf hefði alveg þegið bjór! Það hefði reyndar verið spennandi að sjá skógarbjörn en þeir eru hér víða skilst okkur.

Skoðuðum sérstætt náttúruundur sem heitir Wild lake.

Þaðan fórum við í Postonja hellinn sem er einn stærsti hellir Evrópu. Hann er allavega 21 km langur en við fórum um 5 km. Bæði var farið með lest en líka gengið upp og niður hóla og hæðir inní hellinum. Ein flottasta náttúruupplifun sem við höfum séð. Ótrúlega stór og mikilfenglegur dropasteins hellir. Þar sáum við líka "human fish" eins konar salamöndru sem lifir í hellunum. Merkilegt kvikindi! Inní einni hvelfingunni hafa verið haldnir allt að 10.000 manna tónleikar og nýlega var þar körfuboltaleikur í auglýsingaskyni fyrir Evrópumótið sem hefst hér í haust og allt snýst um í landinu núna.

Keyrðum síðan sem leið lá niður á Istria skagann og römbuðum þar á bæ sem heitir Izola. Fengum þar flott hótel alveg við höfnina með útsýni yfir smábátana, eigin svalir og sólbaðsaðstöðu. Þetta er nýi uppáhaldsstaðurinn minn í bili :)

Hótel Marina - Izola.Séð yfir Júlíönsku Alpana á leiðinni frá Idrija.


Komin til Izola - útsýnið úr hótelherberginu.


Frábær aðstaða ;)

1. júní 2013

Slóvenía - Króatía og Bosnía - 3 


Tónleikarnir með Sóley í KinoCiska voru virkilega flottir.  Get ímyndað mér að ríflega  500 manns hafi mætt á tónleikana  sem var meira en bæði við og hún áttum von á.  Hún er ótrúlega flottur músikant og það var gaman að sjá hversu vel hún náði til hópsins.  Hún er frábær landkynning enda almennileg með eindæmum.  Hittum hana aðeins eftir tónleikana enda örugglega einu Íslendingarnir í salnum.  
------------------
Ljubljana kvaddi með sólskini, ferðalangana frá Íslandi sem röltu áleiðis að ná í bílaleigubílinn sem við getum haft á meðan við erum í Slóveníu.  Urðum aðeins að breyta planinu fyrir vikið en það var svo sem ekki merkilegt fyrir...

Keyrðum til Bled og allt i einu fannst okkur við vera í Austurríki.  Gríðarlega fallegt og tilkomumikið.  Fórum þar í skíðalyftu uppí hæstu hæðir og á eins manna bob sleða niður brekkuna.  Englendingar sem þorðu ekki í ferðina höfðu á orði að ég hefði sett nýtt viðmið hraðalega séð,  var á bremsunni ALLAN tímann...

Hann vinur okkar úr plötubúðinni í gær hafði gefið okkur góð ráð og meðal annars það að heimsækja Bohinj sem er enn innar í landinu en Bled, eiginlega þar sem vegurinn endar.  Gerðum það og sjáum ekki eftir því.  Gríðarlega fallegt svæði, mikill gróður, jöklar, fljót og falleg sveitabýli.  Þar hittum við konu í kirkju sem talaði svo mikið við okkur og benti okkur á að hægt væri að skutla bílnum í lest og fara í gegnum fjöllin og suður til Primorska sem er sunnan við háu fjöllin hér.  Að sjálfsögðu ákváðum við að breyta ferðinni enn og aftur og skella okkur með lestinni.  Bílnum skutlað á pall, fremst í lestinni og við inní honum alla leiðina.  Þvílíkt ævintýri !  Brunuðum inn og út úr göngum, meðfram giljum og háum fjöllum og endalausum skógum.  Þvílíkt sem hér er af trjám, það er engu líkt...

Annars vorum við að velta þvi fyrir okkur hvort að enginn hendi rusli í þessu landi?   Höfum grínlaust ekki séð eitt einasta rusl neins staðar meðfram vegum eða inní bæjum.  Þetta er alveg furðulegt en klárlega til eftirbreytni.  Höldum að þetta sé hreinasta land sem við höfum komið til og ekki síður almennilegasta en allir hér eru svo hjálplegir.

En dagurinn endaði allt öðru vísi en við gerðum ráð fyrir.  Í staðinn fyrir að vera komin niður á Istria skagann þá erum við núna í borg sem heitir Idrija.  Lentum þar alveg óvart og ákváðum að gista.  Þetta er "European destination of excellence" og það sést.  Hér fundu þeir kvikasilfur árið 1490 og á morgun ætlum við ofan í námurnar.  Hér gætum við verið lengur en það á við um alla staði í Slóveníu,  vil koma hingað aftur og það fljótt  :)

Guesthouse Barbara í Idrija...
This page is powered by Blogger. Isn't yours?

 • Um Aldísi ...
 • Ræður og greinar ...
 • Aftur á forsíðu...
 • Tenglar
 • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
 • Síða Sjálfstæðisflokksins
 • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
 • Sjálfstæðiskonur
 • Sjálfstæðismenn í Suður.
 • Gagnagátt Sambandsins
 • Besti ísinn!
 • Morgunblaðið á netinu
 • Vísir.is
 • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
 • Fleiri Sunnlenskar fréttir
 • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
 • Hveragerði
 • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
 • Grunnskólinn í­ Hveragerði
 • Íþróttafélagið Hamar
 • Veðurspá fyrir Hveragerði
 • Fjölbrautaskóli Suðurlands
 • Gagnasöfn Hvar.is
 • Besti bloggarinn ! ! !
 • Vefbanki Valla...
 • SASS
 • Myndir Bjössa á Bláfelli
 • Nátturan.is
 • Orðaþýðingar - frábær síða
 • Færð og veður á SV-landi
 • Leitarvélin
 • Sí­maskráin
 • Ýmsar myndir
 • Myndasíða
 • Úr reisubókinni
 • Flórída janúar 2017
 • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
 • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
 • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
 • Búkarest í Rúmení­u 2006
 • Ítalía 2007
 • Svartfjallaland 2008
 • Danmörk 2010
 • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
 • Hefur þú skoðun?
 • Hafðu samband!
  Eldri færslur
 • 1.1.2004 - 1.2.2004
 • 1.2.2004 - 1.3.2004
 • 1.3.2004 - 1.4.2004
 • 1.5.2004 - 1.6.2004
 • 1.6.2004 - 1.7.2004
 • 1.7.2004 - 1.8.2004
 • 1.8.2004 - 1.9.2004
 • 1.9.2004 - 1.10.2004
 • 1.10.2004 - 1.11.2004
 • 1.11.2004 - 1.12.2004
 • 1.12.2004 - 1.1.2005
 • 1.1.2005 - 1.2.2005
 • 1.3.2005 - 1.4.2005
 • 1.4.2005 - 1.5.2005
 • 1.5.2005 - 1.6.2005
 • 1.6.2005 - 1.7.2005
 • 1.7.2005 - 1.8.2005
 • 1.8.2005 - 1.9.2005
 • 1.9.2005 - 1.10.2005
 • 1.10.2005 - 1.11.2005
 • 1.11.2005 - 1.12.2005
 • 1.12.2005 - 1.1.2006
 • 1.1.2006 - 1.2.2006
 • 1.2.2006 - 1.3.2006
 • 1.3.2006 - 1.4.2006
 • 1.4.2006 - 1.5.2006
 • 1.5.2006 - 1.6.2006
 • 1.6.2006 - 1.7.2006
 • 1.7.2006 - 1.8.2006
 • 1.8.2006 - 1.9.2006
 • 1.9.2006 - 1.10.2006
 • 1.10.2006 - 1.11.2006
 • 1.11.2006 - 1.12.2006
 • 1.12.2006 - 1.1.2007
 • 1.1.2007 - 1.2.2007
 • 1.2.2007 - 1.3.2007
 • 1.3.2007 - 1.4.2007
 • 1.4.2007 - 1.5.2007
 • 1.5.2007 - 1.6.2007
 • 1.6.2007 - 1.7.2007
 • 1.7.2007 - 1.8.2007
 • 1.8.2007 - 1.9.2007
 • 1.9.2007 - 1.10.2007
 • 1.10.2007 - 1.11.2007
 • 1.11.2007 - 1.12.2007
 • 1.12.2007 - 1.1.2008
 • 1.1.2008 - 1.2.2008
 • 1.2.2008 - 1.3.2008
 • 1.3.2008 - 1.4.2008
 • 1.4.2008 - 1.5.2008
 • 1.5.2008 - 1.6.2008
 • 1.6.2008 - 1.7.2008
 • 1.7.2008 - 1.8.2008
 • 1.8.2008 - 1.9.2008
 • 1.9.2008 - 1.10.2008
 • 1.10.2008 - 1.11.2008
 • 1.11.2008 - 1.12.2008
 • 1.12.2008 - 1.1.2009
 • 1.1.2009 - 1.2.2009
 • 1.2.2009 - 1.3.2009
 • 1.3.2009 - 1.4.2009
 • 1.4.2009 - 1.5.2009
 • 1.5.2009 - 1.6.2009
 • 1.6.2009 - 1.7.2009
 • 1.7.2009 - 1.8.2009
 • 1.8.2009 - 1.9.2009
 • 1.9.2009 - 1.10.2009
 • 1.10.2009 - 1.11.2009
 • 1.11.2009 - 1.12.2009
 • 1.12.2009 - 1.1.2010
 • 1.1.2010 - 1.2.2010
 • 1.2.2010 - 1.3.2010
 • 1.3.2010 - 1.4.2010
 • 1.4.2010 - 1.5.2010
 • 1.5.2010 - 1.6.2010
 • 1.6.2010 - 1.7.2010
 • 1.7.2010 - 1.8.2010
 • 1.8.2010 - 1.9.2010
 • 1.9.2010 - 1.10.2010
 • 1.10.2010 - 1.11.2010
 • 1.11.2010 - 1.12.2010
 • 1.12.2010 - 1.1.2011
 • 1.1.2011 - 1.2.2011
 • 1.2.2011 - 1.3.2011
 • 1.3.2011 - 1.4.2011
 • 1.4.2011 - 1.5.2011
 • 1.5.2011 - 1.6.2011
 • 1.6.2011 - 1.7.2011
 • 1.7.2011 - 1.8.2011
 • 1.8.2011 - 1.9.2011
 • 1.9.2011 - 1.10.2011
 • 1.10.2011 - 1.11.2011
 • 1.11.2011 - 1.12.2011
 • 1.12.2011 - 1.1.2012
 • 1.1.2012 - 1.2.2012
 • 1.2.2012 - 1.3.2012
 • 1.3.2012 - 1.4.2012
 • 1.4.2012 - 1.5.2012
 • 1.5.2012 - 1.6.2012
 • 1.6.2012 - 1.7.2012
 • 1.7.2012 - 1.8.2012
 • 1.8.2012 - 1.9.2012
 • 1.9.2012 - 1.10.2012
 • 1.10.2012 - 1.11.2012
 • 1.11.2012 - 1.12.2012
 • 1.12.2012 - 1.1.2013
 • 1.1.2013 - 1.2.2013
 • 1.2.2013 - 1.3.2013
 • 1.3.2013 - 1.4.2013
 • 1.4.2013 - 1.5.2013
 • 1.5.2013 - 1.6.2013
 • 1.6.2013 - 1.7.2013
 • 1.7.2013 - 1.8.2013
 • 1.8.2013 - 1.9.2013
 • 1.9.2013 - 1.10.2013
 • 1.10.2013 - 1.11.2013
 • 1.11.2013 - 1.12.2013
 • 1.12.2013 - 1.1.2014
 • 1.1.2014 - 1.2.2014
 • 1.2.2014 - 1.3.2014
 • 1.3.2014 - 1.4.2014
 • 1.4.2014 - 1.5.2014
 • 1.5.2014 - 1.6.2014
 • 1.8.2014 - 1.9.2014
 • 1.9.2014 - 1.10.2014
 • 1.10.2014 - 1.11.2014
 • 1.11.2014 - 1.12.2014
 • 1.12.2014 - 1.1.2015
 • 1.1.2015 - 1.2.2015
 • 1.2.2015 - 1.3.2015
 • 1.3.2015 - 1.4.2015
 • 1.4.2015 - 1.5.2015
 • 1.6.2015 - 1.7.2015
 • 1.7.2015 - 1.8.2015
 • 1.8.2015 - 1.9.2015
 • 1.9.2015 - 1.10.2015
 • 1.10.2015 - 1.11.2015
 • 1.11.2015 - 1.12.2015
 • 1.12.2015 - 1.1.2016
 • 1.1.2016 - 1.2.2016
 • 1.2.2016 - 1.3.2016
 • 1.3.2016 - 1.4.2016
 • 1.4.2016 - 1.5.2016
 • 1.5.2016 - 1.6.2016
 • 1.6.2016 - 1.7.2016
 • 1.7.2016 - 1.8.2016
 • 1.8.2016 - 1.9.2016
 • 1.9.2016 - 1.10.2016
 • 1.10.2016 - 1.11.2016
 • 1.11.2016 - 1.12.2016
 • 1.12.2016 - 1.1.2017
 • 1.1.2017 - 1.2.2017
 • 1.2.2017 - 1.3.2017
 • 1.3.2017 - 1.4.2017
 • 1.5.2017 - 1.6.2017
 • 1.6.2017 - 1.7.2017
 • 1.8.2017 - 1.9.2017
 • 1.9.2017 - 1.10.2017
 • 1.10.2017 - 1.11.2017
 • 1.11.2017 - 1.12.2017
 • 1.12.2017 - 1.1.2018
 • 1.1.2018 - 1.2.2018
 • 1.2.2018 - 1.3.2018
 • 1.3.2018 - 1.4.2018
 • 1.4.2018 - 1.5.2018
 • 1.5.2018 - 1.6.2018
 • 1.8.2018 - 1.9.2018
 • 1.11.2018 - 1.12.2018
 • 1.4.2021 - 1.5.2021
 • 1.5.2021 - 1.6.2021
 • 1.6.2021 - 1.7.2021
 • 1.7.2021 - 1.8.2021
 • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet