14. júní 2013
Slóvenía - Króatía - Bosnía - 15
Sarajevo flugvöllur er svo litill að hann minnir einna helst á Akureyri (sem er reyndar heldur myndarlegri völlur en Reykjavík). Óskaplega þægilegur. Þar skemmti ég mér við að eyða síðustu mörkunum í minni eigu. Það var alveg hægt. Flugum til Osló með Norwegian. Glæsileg flugvél, glæný og flugfreyjurnar að rifna úr stolti. Máttu líka vera ánægðar. Hægt að krossleggja fætur í almennu farrými og afar hátt til lofts. Reyndar greinilegt að við vorum komin í ríki Norðmanna, verð veitinga var í samræmi við það.
Náði að hitta Heidi í tvo tíma á veitingastað nálægt Nationaltheatret. Ótrúlega skemmtilegt en við höfum ekki hist í hátt í 20 ár. Höfum aftur á móti alltaf haldið sambandi, árleg jólabréf, löng, sjá um það. Það var eins og við hefðum hist í gær. Alveg eins og á vistinni á Follo þegar við möluðum timunum saman. Ég var nú ekkert að minna hana á þegar ég "lánaði" vinkonu okkar bévítans Lionel Richie diskinn hennar sem var að gera mig sturlaða. Við ræddum heldur ekki endalaus slagsmál okkar um hitastigið í herberginu, en á þeim tíma vildi ég alltaf helst hafa notalegt tjaldhitastig þar sem ég svaf. Jóhanna Magg og Heidi hefðu örugglega getað átt góðar stundir við að ræða þetta :)
Á meðan að við Heidi spjölluðum saman þá fór Lárus og heimsótti gamla vinnustaðinn sinn SAS hótelið en þar vann hann 1982-1984. Þar er allt gjörbreytt - eðlilega.
Það var gaman að rölta einu sinni enn upp og niður Karl Jóhann, aðeins annar bragur á borginni en þegar við Lárus fórum þar oftast um - hvort í sínu lagi ! ! !
Í Osló er örugglega ekki betra veður en heima, úði og 13 stiga hiti. Napurlegt eftir Balkanskagann.
Comments:
Skrifa ummæli